Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 254. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 274  —  254. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 37 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    3. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Gjald skv. 2. mgr. skal renna í sérstakan sjóð í vörslu sjávarútvegsráðuneytisins og skal verja fé úr honum til rannsókna og nýsköpunar á sviði sjávarútvegs og til eftirlits með fiskveiðum. Sjóður þessi nefnist Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

2. gr.

    Í stað „1. mgr.“ í 4. mgr. 7. gr. laganna kemur: 3. mgr.

3. gr.

    Í stað „2. mgr.“ í 8. gr. laganna kemur: 3. mgr.

4. gr.

    Við 3. mgr. 10. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Ef gjald, sem lagt hefur verið á útgerðarmann skips sem veitt hefur hinn gjaldskylda afla, hefur ekki verið greitt þegar sá tími er kominn að krefjast má að fullnustu þess með fjárnámi er Fiskistofu heimilt að svipta hlutaðeigandi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni þar til skuldin greiðist.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að nokkrar breytingar verði gerðar á lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Í fyrsta lagi er lagt til að ráðstöfun fjár úr sjóði vegna ólögmæts sjávarafla takmarkist ekki við hafrannsóknir og eftirlit heldur verði heimilt að ráðstafa fé úr sjóðnum til rannsókna og nýsköpunar á sviði sjávarútvegs auk eftirlits. Þá er lagt til að leiðréttar verði tvær rangar tilvísanir í lögunum. Loks er lagt til að heimilt verði að beita leyfissviptingum vegna vanskila á greiðslu vegna ólögmæts afla.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er lagt til að ráðstöfun fjár úr sjóði vegna ólögmæts sjávarafla takmarkist ekki við hafrannsóknir og eftirlit með fiskveiðum heldur verði heimilt að ráðstafa fé úr sjóðnum til rannsókna og nýsköpunar á sviði sjávarútvegs auk eftirlits. Á árunum 1998–2002 innheimtust tæpar 182 millj. kr. vegna ólögmæts sjávarafla. Samhliða þessu frumvarpi hefur verið lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem gerir ráð fyrir að andvirði þess afla sem skipstjórum er heimilt að ráðstafa til Hafrannsóknastofnunarinnar, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 129 20. desember 2001, renni í sama sjóð og gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Ákvæðið um ráðstöfun aflans gilti frá 1. febrúar 2002 og voru tekjur Hafrannsóknastofnunarinnar vegna þessa afla á árinu 2002 um 96 millj. kr. og um 125 millj. kr. fyrstu níu mánuði ársins 2003. Með því að láta tekjur af öllum þessum afla renna í einn sjóð skapast miklir möguleikar á að fjölga þeim verkefnum sem sjóðurinn gæti styrkt með markvissum hætti. Verði frumvarpið að lögum yrði unnt að styrkja rannsóknir á sviði sjávarútvegs almennt en ekki eingöngu á sviði hafrannsókna auk þess sem unnt yrði að efla nýsköpun í sjávarútvegi. Í ljósi hins víðtæka hlutverks sjóðsins er lagt til að nafn hans verði Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

Um 2. og 3. gr.

    Hér er um leiðréttingar á tilvísunum að ræða.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að Fiskistofu verði heimilað að svipta skip veiðileyfi hafi skuld vegna upptöku ólögmæts sjávarafla ekki verið greidd 30 dögum eftir að til álagningar kom. Ástæða þess að þetta er lagt til er sú, að nokkur dæmi eru þess að útgerðaraðilar hafi haldið áfram útgerð skips, oft undir nýju nafni og kennitölu, eftir að reyndar hafa verið árangurslausar innheimtuaðgerðir hjá þeim. Er hér oft um að ræða eignalítil einkahlutafélög með óveruleg fjárráð sem tekið hafa á leigu eða keypt, oft eingöngu með yfirtöku veðskulda, kvótalítil eða kvótalaus skip, sem þeir gera síðan út með kaupum á aflaheimildum. Fyrir liggur að mestan hluta afskrifta af gjaldtöku vegna ólögmæts sjávarafla má rekja til slíkra útgerða. Er talið nauðsynlegt að þessi breyting nái fram að ganga til að tryggja skilvísa greiðslu álagningar og eins til að koma í veg fyrir ólögmætar veiðar. Í þessu sambandi má benda á að vanskil bæði á veiðileyfisgjaldi og gjaldi til Þróunarsjóðs valda niðurfellingu veiðileyfis auk þess sem lögveð stofnast í skipum vegna þeirra gjalda.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 37/1992,
um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum.

    Markmið frumvarpsins er annars vegar að leggja til að ráðstöfun fjár úr gjaldtökusjóði takmarkist ekki við hafrannsóknir og eftirlit heldur verði einnig heimilt að ráðstafa fé úr sjóðnum til rannsókna og nýsköpunar á sviði sjávarútvegs. Í öðru lagi er lagt til að heimilt verði að beita leyfissviptingum og krefjast fjárnáms vegna vanskila á greiðslu ólögmæts afla.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.