Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 255. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 275  —  255. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Í stað orðsins „Hafrannsóknastofnunarinnar“ tvívegis í ákvæði til bráðabirgða XXIX í lögunum, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 129 20. desember 2001, um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, kemur: sjóðs, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Hafi aðilar ekki náð að nýta sér að fullu eða að hluta þær aflaheimildir sem voru þeim til ráðstöfunar á fiskveiðiárinu 2002/2003 til tilrauna með áframeldi á þorski á því fiskveiðiári, sbr. b-lið 16. gr. laga nr. 85 15. maí 2002, um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, er ráðherra heimilt að samþykkja að ónýttar aflaheimildir verði nýttar í sama tilgangi á fiskveiðiárinu 2003/2004.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er fyrst og fremst lagt til að andvirði svonefnds hafrannsóknaafla renni í sama sjóð og gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Þá er og lagt til að heimilt verði að flytja eftirstöðvar af þorskeldiskvóta fiskveiðiársins 2002/2003 til fiskveiðiársins 2003/2004.
    Í 1. gr. er lagt til að fé það sem kann að innheimtast samkvæmt ákvæðinu renni til sama sjóðs og gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Andvirði þessa afla hefur hingað til runnið til Hafrannsóknastofnunarinnar eins og kveðið er á um í ákvæðinu. Ákvæðið öðlaðist gildi 1. febrúar 2002 og námu tekjur Hafrannsóknastofnunarinnar vegna þess á árinu 2002 um 96 millj. kr. og um 125 millj. kr. fyrstu níu mánuði ársins 2003. Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, þar sem lagt er til að ráðstöfun fjárins verði ekki eingöngu bundin við hafrannsóknir og eftirlit með fiskveiðum heldur verði hlutverk sjóðsins víkkað þannig að það taki til rannsókna og nýsköpunar á sviði sjávarútvegs auk eftirlits. Verði sjóðurinn eftir þá breytingu nefndur Verkefnasjóður sjávarútvegsins.
    Samkvæmt b-lið 16. gr. laga nr. 85/2002 hefur ráðherra til ráðstöfunar 500 lestir af þorski til tilrauna með áframeldi á þorski. Heimild þessi tók gildi á fiskveiðiárinu 2001/2002 og gildir næstu fimm fiskveiðiár þar á eftir. Á síðasta fiskveiðiári var úthlutun þessara heimilda falin rannsóknasjóði til að auka verðmæti sjávarfangs (AVS-verkefninu) en ýmissa orsaka vegna nýttust þessar heimildir ekki að fullu. Er í 2. gr. lagt til að ónýttar aflaheimildir, sem til ráðstöfunar voru í þessum tilgangi á fiskveiðiárinu 2002/2003, flytjist til fiskveiðiársins 2003/2004.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Markmið frumvarpsins er annars vegar að leggja til að andvirði svonefnds hafrannsóknaafla renni í gjaldtökusjóð sem ætlunin er að nýta til rannsókna, nýsköpunar og eftirlits, en samkvæmt bráðabirgðaákvæði gildandi laga rann andvirði aflans til Hafrannsóknastofnunarinnar. Hins vegar er gerð tillaga um að heimilt verði að flytja eftirstöðvar af þorskeldiskvóta frá fiskveiðiárinu 2002–2003 til fiskveiðiársins 2003–2004.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.