Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 257. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 285  —  257. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir.



1. gr.

    Í stað orðsins „álitsgerða“ í 1. málsl. 5. mgr. 3. gr. laganna kemur: úrskurðar.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „gefa skriflegt rökstutt álit“ í 2. mgr. kemur: kveða upp úrskurð.
     b.      Í stað orðanna „álit er gefið“ í 3. mgr. kemur: úrskurður er kveðinn upp.
     c.      4. mgr. orðast svo:
             Úrskurðir kærunefndar eru bindandi gagnvart málsaðilum. Að kröfu málsaðila getur nefndin ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en 10 dögum frá birtingu úrskurðar. Skal frestun á réttaráhrifum úrskurðar vera bundin því skilyrði að málsaðili beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestunarúrskurði og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal mál þá höfðað eins fljótt og auðið er eftir að synjun kemur fram. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga. Sé mál höfðað vegna úrskurðar nefndarinnar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála, sem eru til meðferðar hjá henni, þar til dómur gengur í málinu.
     d.      Í stað orðanna „álit sín“ í 5. mgr. kemur: úrskurði sína.

3. gr.

    Í stað orðanna „veitir álit sitt“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: kveður upp úrskurð sinn.     

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ef málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála hefur hafist í tíð eldri laga gilda ákvæði laga þessara um meðferð máls eftir gildistöku þeirra.


Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála verði bindandi fyrir málsaðila. Þó geti nefndin ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar síns að kröfu annars hvors málsaðila að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þessi breyting gæfi kærunefndinni og niðurstöðu hennar mun meira vægi en nú og færði framkvæmd þessara mála nær því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum.
    Eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um réttindi kvenna hefur gagnrýnt í nýlegri skýrslu sinni um Ísland að niðurstöður kærunefndar jafnréttismála skuli ekki vera bindandi, sérstaklega þegar stjórnvöld eiga hlut að máli. Gerir nefndin það að tillögu sinni að álit kærunefndar jafnréttismála verði bindandi.
    Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka kærumál til meðferðar og gefa skriflegt rökstutt álit um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin. Niðurstöður kærunefndar sæta ekki kæru til æðra stjórnvalds. Þegar um er að ræða mál sem ætla má að geti haft stefnumarkandi áhrif á vinnumarkaðinn í heild skal kærunefnd leita umsagnar hjá heildarsamtökum launafólks og viðsemjendum þeirra áður en álit er gefið út.
    Samkvæmt upplýsingum frá kærunefnd jafnréttismála bárust nefndinni 103 erindi á árunum 1991–2001. Í 55 tilvika taldi nefndin að ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hefðu verið brotin en langflest þeirra lutu að stöðuveitingum. Fjöldi þeirra laut einnig að launajafnrétti kynjanna. Hlutverk Jafnréttisstofu er að fylgja eftir áliti kærunefndar og getur hún skv. 3. gr. jafnréttislaga höfðað mál til viðurkenningar á rétti kærenda á grundvelli álitsgerða kærunefndar jafnréttismála þegar sérstaklega stendur á og ætla má að úrskurður dómstóla geti haft víðtæk áhrif í átt til jafnréttis eða ef hagsmunir kærenda eru metnir þess eðlis að mikilvægt þyki að fá úrlausn dómstóla. Það hefur hins vegar komið fram að það sé verulega flókið og ýmsum vandkvæðum bundið að fylgja álitum kærunefndar eftir. Iðulega hafa niðurstöður kærunefndar jafnréttismála verið teknar upp á Alþingi, bæði varðandi stöðuveitingar og launajafnrétti kynjanna. Auk ýmissa stöðuveitinga má nefna niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála um að afgerandi munur væri á bifreiðastyrkjum til kynjanna í bankakerfinu sem bryti í bága við jafnréttislög. Kærunefndin tók þetta mál til athugunar í kjölfar svars viðskiptaráðherra við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns þessarar tillögu um bifreiðastyrki í bankakerfinu. Þar kom ljóslega fram að kerfi fastra bifreiðastyrkja væri notað til þess að hygla körlum á kostnað kvenna í sambærilegum stöðum, sérstaklega innan Landsbankans og Búnaðarbankans. Það var síðan staðfest í áðurnefndu áliti kærunefndar, en bæði þingflokkur jafnaðarmanna og Samband íslenskra bankamanna fóru þess á leit við Jafnréttisráð í kjölfar niðurstöðunnar að kannað yrði hvort um væri að ræða brot á jafnréttislögum. Athyglisvert er að báðir bankarnir neituðu að ákvæði jafnréttislaga væru brotin í þessu efni. Þó að málinu hafi verið fylgt fast eftir, m.a. af Jafnréttisstofu, er lítið vitað um hvort nokkur leiðrétting hafi fengist á þessum mismun á bifreiðastyrkjum í bankakerfinu. Sama gildir um mörg önnur álit sem kærunefnd hefur afgreitt frá sér.
    Stjórnvöldum ber skylda til að sjá til þess að jafnréttislögum sé framfylgt. Jafnréttislög kveða á um að jafnréttissjónarmiða skuli gætt á öllum sviðum samfélagsins og að unnið sé að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku. Reynslan sýnir að ákvæðið um kærunefnd virkar ekki eins og til var ætlast, því að veruleg undanbrögð eru á því að álit nefndarinnar séu virt. Frumvarp þetta á að bæta úr þeirri brotalöm. Norðurlöndin hafa vakið athygli víða fyrir framsýni og baráttu fyrir jafnrétti kynjanna og öll kappkostað að ganga eins langt í löggjöf og hægt er til að tryggja jafna stöðu karla og kvenna. Með samþykkt þessa frumvarps væri framkvæmd þessa ákvæðis jafnréttislaganna færð nær því sem er annars staðar á Norðurlöndunum.
    Frumvarp sama efnis var lagt fram á 128. löggjafarþingi en var ekki afgreitt úr nefnd.