Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 111. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 291  —  111. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, l. nr. 54/1990, um innflutning dýra, og l. nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar (DrH, MS, EOK, GHall, BJJ).



     1.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Á eftir orðunum „á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldis- og hafbeitarstöðvar“ í 1. mgr. 62. gr. laganna kemur: eða fyrirhugaðar eldistegundir eða eldisaðferðir.
     2.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
            Við 76. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Notkun flutningstækja og búnaðar sem tengdur er þeim skal háð skilyrðum reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur.
     3.      Við 3. gr. Greinin orðist svo:
              79. gr. laganna orðast svo:
             Um innflutning lifandi laxfiska og annarra fiska er lifa í ósöltu vatni, óháð þroskastigi, þ.m.t. hrogna og svilja, gildir 2. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1990, um innflutning dýra.
             Um notkun slíkra innfluttra fiska til fiskeldis, fiskræktar eða hafbeitar gilda ákvæði IV. og IX. kafla laga þessara.
     4.      Á undan 4. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Við 1. gr. laganna bætist eftirfarandi orðskýring í réttri stafrófsröð:
              Eldisdýr: Lifandi fiskur, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð fyrir eldisstöð.
     5.      Við 4. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Landbúnaðarráðherra er heimilt, að fengnu vísindalegu áliti Veiðimálastofnunar, að takmarka eða banna innflutning á lifandi laxfiskum, óháð þroskastigi, þ.m.t. hrognum og sviljum, ef ljóst má vera að aðrar verndar- og friðunaraðgerðir sem kveðið er á um í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum dugi ekki til að koma í veg fyrir erfðablöndun slíkra laxfiska við staðbundna náttúrulega stofna sem ógnað gæti líffræðilegri fjölbreytni og stefnt náttúrulegu stofnunum í hættu.
     6.      Á eftir 4. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Á eftir orðunum „afla umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands“ í 5. gr. laganna kemur: erfðanefndar landbúnaðarins.
     7.      Við 9. gr. Greinin orðist svo:
              Lög þessi öðlast þegar gildi.