Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 278. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 314  —  278. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun sérkennslu- og meðferðardagdeildar fyrir börn með geðrænan og félagslegan vanda.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Hjálmar Árnason,


Lúðvík Bergvinsson, Kjartan Ólafsson, Brynja Magnúsdóttir,
Guðjón Hjörleifsson, Grétar Mar Jónsson, Jón Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra að ganga frá samningum um stofnun sérkennslu- og meðferðardagdeildar fyrir börn með geðrænan og félagslegan vanda og leggja fyrir Alþingi nauðsynlegar lagabreytingar eigi síðar en 1. október 2004.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er flutt vegna þess að nauðsynlegt er að taka nú þegar til skoðunar stöðu þeirra barna á grunnskólaaldri sem búa við alvarlegan geðrænan eða félagslegan vanda. Það er löngu ljóst að ekki er hægt að sinna lögboðinni kennslu þeirra í almennum bekkjardeildum og víða skapast veruleg vandamál vegna þessa bæði hvað varðar líðan barnanna og einnig fyrir skóla þeirra. Þá er ljóst að í grunnskólanum er ekki hægt að veita þeim þá sérhæfðu meðferð sem þau þurfa vegna veikinda sinna, enda er það hlutverk heilbrigðiskerfisins. Reykjavíkurborg skipaði sérstakan starfshóp til þess að skoða stöðu þessara mála hjá borginni. Sá starfshópur skilaði skýrslu og tillögum til úrbóta í maí 2003 (sbr. fylgiskjal).
    Heilbrigðisráðherra hefur reifað þær hugmyndir að ráða til starfa verkefnisstjóra sem meðal annars verði ætlað að samþætta ýmis málefni er varða börn með geðrænan eða félagslegan vanda. Þar er um viðamikið verkefni að ræða sem að líkindum mun taka nokkurn tíma þar til heildartillögur um meðferð þessara barna liggja fyrir.
    Það er mat flutningsmanna að það þoli ekki bið að vinna að úrbótum í málefnum barna með geðrænan og félagslegan vanda í grunnskólakerfinu. Því er þessi tillaga flutt.
    Hefðbundinn skóli með ákveðinni stundaskrá, hefðbundinni lengd kennslustunda og frímínútna er kerfi sem gagnast nemendum með geðrænan eða félagslegan vanda illa eða alls ekki. Jafnframt líður sumum þessara ungu nemenda illa vegna þess flókna og síbreytilega félagslega veruleika sem skólinn endurspeglar. Slök félagsfærni, léleg sjálfsmynd, ábyrgðarleysi eða árásargirni leiðir til tíðra árekstra við aðra í leik og starfi og samveru með fjölskyldunni. Í verstu tilvikum verða þessir nemendur utangarðsfólk, með enga framhaldsmenntun, háð fíkniefnum, hneigðir til afbrota, glímandi við geðsjúkdóma og með stopula atvinnu. Hætta er á að þeir geti ekki séð sér farborða og haldið heimili á fullorðinsárum. Kostnaður samfélagsins vegna erfiðleika þeirra getur orðið verulegur. Til að reyna að koma í veg fyrir að svo fari þurfa sumir nemendur mikinn sérstuðning og annað umhverfi en þekkist almennt í grunnskólum hérlendis.
    Segja má að þessir nemendur skiptist gróflega í tvo flokka; þá andfélagslegu og þá vanvirku. Vanlíðan þeirra andfélagslegu birtist í árásum á skólafélaga eða kennara og starfsfólk og eignaskemmdum sem oft eru unnar í stjórnlausum bræðisköstum. Vanlíðan hinna vanvirku getur endurspeglast í þunglyndi, kvíðaköstum og verulega skertri sjálfsmynd. Báðir þessir hópar þurfa sérstuðning sem beinist að námi þeirra og félagslegri stöðu. Jafnframt þarf að hafa með sumum í þessum hópi mikið eftirlit og aðstoð, innan sem utan skólastofu.
    Fyrir þennan hóp þarf að búa til námsumhverfi utan heimaskólans sem er sveigjanlegra, margbreytilegra og rólegra en hefðbundinn skóli. Þetta námsumhverfi þarf að mæta þörfum hvers einstaklings með skýrum og mælanlegum náms- og hegðunarmarkmiðum.
    Til að skilgreina þennan hóp má hafa þá almennu reglu að leiðarljósi að um sé að ræða nemendur sem sakir alvarlegra geðrænna erfiðleika hafi ekki tekið viðunandi framförum í sínum heimaskóla og þurfi á öðru námsumhverfi að halda, um lengri eða skemmri tíma. Ljóst sé að heimaskóli viðkomandi hafi gert sitt ýtrasta til að draga úr erfiðleikum nemandans.
    Ef skilgreina á þennan hóp nánar má hafa til hliðsjónar vinnureglu II sem eru núgildandi viðmiðunarstig fyrir geðraskanir hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þar er að finna skilgreiningar á úthlutunarreglum sjóðsins vegna fjölþátta hegðunartruflana, verulegra truflana varðandi tilfinningar og félagslega aðlögun og viðvarandi og alvarleg einkenni geðrofs eða geðhvarfa. Skilyrði fyrir úthlutun Jöfnunarsjóðs er að erfiðleikar af þessu tagi leiði til umfangsmikils stuðnings vegna félagslegra þátta, tilfinningalegra þátta og hegðunarþátta, og þörf sé á sérhæfðri ráðgjöf og í mörgum tilvikum eftirliti.
    Í grunnskólum á þjónustusvæði skólaskrifstofu Suðurlands eru um þessar mundir u.þ.b. tíu nemendur sem eiga í verulegum erfiðleikum með skólaveru sína og nám vegna alvarlegra hegðunar- og tilfinningaraskana.
    Hjá skólaskrifstofu Suðurlands hafa verið lagðar fram hugmyndir um að á vegum Heilbrigðisstofnunar Selfoss verði stofnuð í tilraunaskyni dagdeild fyrir geðfötluð börn. Börn með geðfatlanir eða svo alvarlega vanlíðan að venjuleg skólaganga gagnast þeim lítt eða ekkert fái tímabundið dagvistun á deildinni. Þar sjái ríkisvaldið fyrir meðferðarfulltrúum, læknis- og sálfræðiþjónustu og húsnæði (a.m.k. að hluta til); en lögheimilissveitarfélög viðkomandi barna greiði fyrir kennsluna eins og lög gera ráð fyrir. Ekki yrði um sérstakan skóla að ræða, heldur félli kennsla í deildinni í hlut þess skóla sem næstur yrði, allt eftir því hvar dagdeildin yrði. Lögð yrði áhersla á að þau börn sem eru í dagvist á deildinni haldi áfram að sækja félagslíf í sínum heimaskóla eins og kostur er og missi ekki tengslin við hann. Reikna mætti með að börnin yrðu á deildinni í mislangan tíma eftir því hversu alvarleg og langvinn veikindi þeirra eru, en færu aftur í sinn heimaskóla strax og þess er nokkur kostur.
    Þess má geta að á Suðurlandi er eitt stöðugildi sálfræðings á heilsugæslustöðvum á Suðurlandi sem sinnir börnum og unglingum. Það mætti nota þessa stöðu að einhverju leyti til að sinna meðferð á dagdeildinni, enda hafa þeir sem þessari stöðu sinna oft unnið með þessum börnum og foreldrum þeirra. Sérfræðingarnir sem starfa á skólaskrifstofu Suðurlands gætu tekið þátt í að skipuleggja hvernig best væri að hanna nám og námsaðstæður fyrir nemendurna.
    Ríkisvaldið rekur nokkur meðferðarheimili á landinu, þar á meðal Torfastaði og Geldingalæk á Suðurlandi. Börnin á Geldingalæk sækja grunnskólann á Hellu. Á þessum meðferðarheimilum greiðir ríkið fyrir meðferð og kennslu barnanna og þau eru vistuð þar allan sólarhringinn. Reykjavíkurborg og Akureyrarbær hafa rekið skóla fyrir börn með vandamál af þessu tagi og borið allan kostnað af því. Þar eru börnin meðan á skóladegi stendur, eins og gert er ráð fyrir í þessari tillögu, en á eigin heimili eða fósturheimili þess á milli. Þar er að mati flutningsmanna ekki um rétta kostnaðarskiptingu að ræða, því að það er ríkisins að sjá um meðferð barna með geðrænan og félagslegan vanda.
    Það er nauðsynlegt að börn með geðrænan eða félagslegan vanda njóti kennslu á grunnskólastigi eins og lög gera ráð fyrir en samhliða verða þau að fá meðferð við sjúkdómi sínum. Það verður ekki gert í almennum bekkjardeildum. Því er þessi tillaga flutt.
Fylgiskjal.


RÁÐGJAFARSKÓLI
Sérúrræði fyrir nemendur með geðrænan og félagslegan vanda.

(Skýrsla starfshóps um sérúrræði fyrir nemendur
með geðrænan og félagslegan vanda, maí 2003.)


Til fræðsluráðs
Hér er lögð fram lokaskýrsla starfshóps um sérúrræði fyrir nemendur með geðrænan og félagslegan vanda. Hlutverk hans var að koma með tillögur um skipan sérúrræða fyrir þessa nemendur.

Tilurð hópsins

Starfshópurinn var skipaður með erindisbréfi í lok ágúst 2002.

Fjórar tillögur eða model að skipan sérúrræða fyrir þennan hóp nemenda voru lagðar fyrir fræðsluráð 17. mars 2003. Fræðsluráð fól starfshópnum með bréfi 20. mars 2003 að útfæra tillögu að heildstæðu úrræði/skóla þar sem er yfirsýn yfir alla þætti og alla þá þjónustu sem er fyrir hendi fyrir þennan hóp (með geðrænan og félagslegan vanda) sbr. model B í tillögum starfshópsins. Hópurinn útfæri einnig nánar hugmyndir um meðferðardeild fyrir nemendur í neyslu í tengslum við SÁÁ, Stuðla o.fl.

[…]

Hópinn skipuðu
Björk Jónsdóttir, skólastjóri Einholtsskóla, verkefnisstjóri
Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs Fræðslumiðstöðvar
Birna Sigurjónsdóttir, deildarstjóri kennsludeildar Fræðslumiðstöðvar
Hákon Sigursteinsson, deildarstjóri sálfræðideildar Fræðslumiðstöðvar
Sigþór Magnússon, skólastjóri Klébergsskóla

Vinnutilhögun hópsins
Starfshópurinn leitaði eftir upplýsingum frá starfandi stofnunum og sérdeildum á öllu landinu sem vinna að kennslu og uppeldisstarfi barna með geðrænan og félagslegan vanda. Einnig kallaði hópurinn til fundar aðila frá Barnavernd Reykjavíkur, Barnaverndarstofu, Lögreglu, Félagsþjónustu o.fl. Hópurinn fór yfir stöðu mála í þeim skólum sem vinna að málefnum þessara nemenda í Reykjavík. Í vinnu sinni hafði hópurinn til hliðsjónar stefnumótun borgarinnar í fræðslumálum og sérkennslu sérstaklega ásamt nýrri stefnumörkun um aðgerðir gegn neyslu og sölu fíkniefna í grunnskólum Reykjavíkur.

Hópurinn hélt reglulega vinnufundi og mótaði fjórar tillögur sem lagðar voru fyrir fræðsluráð á fundi 17. mars 2003 og síðan útfærslu á modeli B skv. ákvörðun fræðsluráðs og er sú tillaga lögð fram í lokaskýrslu hér.


F.h. starfshópsins,
Björk Jónsdóttir.

I.     Tillögur til fræðsluráðs
     1.      Skólar sem nú starfa fyrir nemendur með geðrænan og félagslegan vanda verði sameinaðir í einn skóla sem hér er nefndur Ráðgjafarskóli (fær væntanlega annað nafn við stofnun). Skólinn sé fyrir nemendur í 4.–10. bekk, 35–40 nemendur auk nemenda í sjúkrakennslu (um 14 á BUGL og 8 á Stuðlum). Hann skiptist í fjórar deildir, H deild fyrir nemendur með félagslegan og hegðunarvanda, G deild fyrir nemendur með geðraskanir, F deild fyrir nemendur í fíknivanda og loks R ráðgjafardeild þar sem starfa sérfræðingar sem veita ráðgjöf og þjónustu á þessu sviði. […]
     2.      Ráðgjafarskólinn fari af stað 1. ágúst 2003 undir stjórn nýs skólastjóra og með deildarstjórum fyrir H, G og R deildir. Skólastjóri Ráðgjafarskólans skal hafa sérþekkingu, reynslu og/eða framhaldsmenntun á sviði kennslu nemenda með félags- og hegðunarerfiðleika.
     3.      Í deildunum verði haustið 2003 þeir nemendur sem eru nú í Hlíðarhúsa- og Einholtsskóla og ekki útskrifast í vor, ásamt þeim sem teknir verða inn í vor eftir þeim reglum sem gilda um inntöku nemenda í þessa skóla nú. Tekið verði inn í skólann eftir nýjum inntökureglum um áramót 2003–2004.
     4.      Ráðgjafarskólinn sjái um sjúkrakennslu, skv. reglugerð nr. 389/1996, fyrir nemendur sem eru í tímabundinni innlögn
              *      á Stuðlum vegna fíknivanda (frá 1. ágúst 2003)
              *      á BUGL vegna geðræns vanda (1. ágúst 2004)
        Þessi kennsla heyrir beint undir skólastjóra sbr. reglugerð.
     5.      Haustmánuðir verði notaðir til að móta stefnu skólans auk þess að:
              *      ráða sérfræðinga að ráðgjafardeild
              *      móta inntökuferli
              *      leita samstarfs við heilbrigðis- og félagsmálayfirvöld um F deildina
              *      ganga frá samstarfi við BUGL um sjúkrakennslu
        Jafnframt verði gengið frá samstarfi við stofnanir sem koma að málefnum nemenda með geðrænan og félagslegan vanda.
     6.      Eigi síðar en 1. janúar 2004 taki til starfa R deild og F deild
     7.      Sérhæfðar sérdeildir. Gert er ráð fyrir í stefnu fræðsluráðs Reykjavíkur um sérkennslu að möguleiki verði á að stofna sérhæfðar sérdeildir í borgarhlutum. Starfshópurinn bendir á nauðsyn slíkra sérdeilda fyrir nemendur með geðrænan og félagslegan vanda. Þær verði starfræktar innan skóla í borgarhluta undir stjórn viðkomandi skólastjóra. Nú þegar eru starfræktar tvær sérdeildir sem sinna þessum hópi nemenda, í Bjarkahlíð við Réttarholtsskóla í borgarhluta 2 og sérdeild Breiðholtsskóla í borgarhluta 3. Náið samstarf verði milli þjónustumiðstöðva og skóla um sérúrræði í hverjum borgarhluta fyrir sig.

Undirbúningsferli

     *      Áætlað er að skólinn taki til starfa 1. ágúst 2003 að því gefnu að ferli upplýsinga til starfsfólks, auglýsinga og ráðninga rúmist innan þeirra tímamarka. Mikilvægt er að ráðrúm gefist til að undirbúa skólastarfið fyrir haustið.
     *      Lagt er til að allt starfsfólk þeirra skóla sem í hlut eiga verði kallað til fundar á Fræðslumiðstöð strax að lokinni umfjöllun fræðsluráðs. Þar verði sameining skólanna kynnt, rætt um rétt og stöðu starfsmanna og tækifæri gefið til spurninga.
     *      Í þessum tillögum er gert ráð fyrir að húsnæði verði fyrir hendi til að rúma þá starfsemi sem hér eru lögð drög að.
Tillögunum fylgir greinargerð.
Fylgiskjöl:    1. Erindisbréf starfshópsins     3. Módel B – útfært
         2. Bókun fræðsluráðs frá 20. mars     4. Kostnaðargreining (lagt fram 5. maí)


II. Greinargerð og frekari útfærsla
Ráðgjafarskóli
Deildskiptur skóli

Hver deild verði sérstök starfseining, en þær starfa saman undir einni stjórn skólastjóra.
Starfsmenn eru ráðnir að skólanum og ákveðið með vinnuskýrslu hvernig starf skiptist á deildir. Nemendur eru tímabundið í skólanum meðan unnið er að aðlögun í heimaskóla eða öðru langtímaúrræði. Skóladvöl nemenda getur verið frá einni önn eða einu skólaári allt að því að nemendur ljúki grunnskólagöngu sinni í skólanum, þegar um alvarlegar raskanir eða vanda er að ræða. Mikilvægt er að deildir verði sérhæfðar með tilliti til vanda nemandans.

Hlutverk skólastjóra
     *      Skólastjóri starfar í samræmi við lög og reglugerðir.
     *      Hefur yfirumsjón og ber ábyrgð á ráðgjöf til allra skóla í borginni á þessu sviði í umboði Fræðslumiðstöðvar.
     *      Hefur heildarsýn yfir starf skólans, ræður starfsfólk og gerir vinnuskýrslur, mótar stefnu og leiðir faglegt starf.
     *      Ber faglega og fjárhagslega ábyrgð og gerir rekstraráætlun fyrir skólann í heild.
     *      Samræmir starf deilda og felur deildarstjórum verkefni eftir verksviði þeirra.
     *      Sér um samskipti og tengsl við þær stofnanir í fræðslu-, félags- og heilbrigðiskerfi sem hafa með ráðgjöf og meðferð að gera og tengjast nemendum skólans.

Hlutverk deildarstjóra

Deildarstjórar bera ábyrgð á daglegri stjórnun sinna deilda í umboði skólastjóra. Ásamt stjórnun sinna þeir starfi innan deildarinnar skv. vinnuskýrslu. Reglulegir fundir allra deildarstjóra með skólastjóra verði a.m.k. einu sinni í viku. Skólastjóri velur staðgengil úr hópi deildarstjóra og tilkynnir það fræðslustjóra.

Inntökuteymi er eitt fyrir skólann. Það mynda skólastjóri, fulltrúi Fræðslumiðstöðvar og deildarstjóri/-ar. Teymið vinnur með skólastjórum heimaskóla/deildarstjórum sérdeilda að inntöku og útskrift nemenda.

Foreldraráð verði eitt fyrir allan skólann en foreldrasamstarf verði á grundvelli deilda og undir stjórn deildarstjóra hverrar deildar fyrir sig.

Samstarf starfsmanna
Kennararáð verði eitt fyrir skólann. Sameiginlegir starfsmannafundir skólans eru a.m.k. á tveggja vikna fresti, æskilegt að þeir séu haldnir í deildum til skiptis. Starfrækt sé stuðningsteymi innan skólans, sameiginlegt fyrir starfsfólk allra deilda.

Skólanámskrá verði sameiginleg og taki á sýn skólans, stefnumótun, hlutverki deilda þ.m.t. ráðgjafardeildar auk annarra bundinna þátta í viðmiðum aðalnámskrár um skólanámskrá.

Heilsugæsla. Skólinn fái þjónustu frá heilsugæslu eins og verið hefur, hjúkrunarfræðing í a.m.k. 20% stöðugildi til að sjá um lyfjagjafir, lyfjapróf og almenna heilsuvernd.

Innritunarferli – umsóknir
Almenni skólinn noti niðurstöður skimunar um hegðun og félagslega erfiðleika til að meta hvort öll úrræði heimaskólans hafa verið reynd áður en máli nemanda er vísað áfram. Að fullreyndu tekur sérfræðiþjónusta borgarhluta mál nemandans til meðferðar og vinnur með heimaskólanum að úrlausn þess.

Að öllum úrræðum í borgarhluta fullreyndum, sérhæfð sérdeild þar með talin, sækja foreldrar um skólavist í Ráðgjafarskólanum með formlegum hætti í samvinnu við skólastjóra heimaskóla eða starfsmenn barnaverndaryfirvalda ef við á.

Útbúið verði umsóknareyðublað vegna inntöku nemenda í Ráðgjafarskólann. Þar komi m.a. fram að skólinn hafi leyfi til að afla ítarlegri upplýsinga um nemandann.
Umsókn er send skólastjóra Ráðgjafarskólans, henni fylgja upplýsingar frá heimaskóla um skólagöngu, námsferil, sterkar og veikar hliðar nemenda, greiningar og hvaða úrræðum hefur verið beitt til að leysa vandann. Einnig fylgi greinargerð frá barnaverndaryfirvöldum ef við á. Í umsókn komi fram helstu upplýsingar um nemanda ásamt heimild til að skoða eldri athuganir og gera nýjar ef þörf þykir. Inntökuteymi fer yfir gögn og ákvarðar hvort nemandi verður boðaður í reynsludvöl í þá deild sem teymið telur henta.

Ferill inntöku, reynsludvöl
Foreldrar og nemendur koma í skólann, þar fá þeir upplýsingar um starfsemi skólans, reglur og reynsludvöl. Nemandi kemur í viku til athugunar á vettvangi og viðræðna um væntingar, vanda, óskir og fleira. Tíminn er hugsaður sem gagnkvæm kynni. Jafnframt aflar inntökuteymi frekari upplýsinga um nemendur ef þörf krefur.
Haldinn fundur með starfsmönnum frá heimaskóla og starfsmönnum Barnaverndar.

Teymið tekur saman niðurstöður af reynslutíma í samráði við viðkomandi deild. Að lokinni vikureynslu er fundað með nemanda og foreldrum að nýju og farið yfir stöðuna og ákveðið hvort enn er vilji fyrir því að sækja um og hvort skólinn henti viðkomandi.

Gerður er þjónustusamningur um skólavistina sem er samningur milli nemanda foreldra og skóla. Þar komi fram einstaklingsáætlun/námskrá. Einnig setur nemandi á blað hvað það er sem hann þarf helst að taka á.

Útskrift
Nemendur eru teknir inn til einnar annar eða eins skólaárs. Að liðnum þeim tíma er undantekningarlaust endurmetið hvort nemandi getur farið í aðra deild innan skólans, aftur í heimaskóla eða hvort annað úrræði hentar betur.
Teymið skal halda skilafund með nemanda og foreldrum og boða til sín til fulltrúa heimaskóla/viðtökudeildar. Eftirfylgd af hálfu ráðgjafarskólans sé tryggð.

Samstarfsaðilar Ráðgjafarskólans
Helstu samstarfsaðilar Ráðgjafarskólans eru Barnavernd Reykjavíkur, Barnaverndarstofa, Félagsþjónustan, SÁÁ og aðrar stofnanir sem fást við vanda nemenda með geðræna og félagslega erfiðleika.

H-deild fyrir nemendur í félags/hegðunarvanda
Deildin er fyrir allt að 20 nemendur í 8.–10. bekk. Í deildinni eru nemendur sem eiga við alvarlega félags- og hegðunarerfiðleika að etja.

Starfsmenn deildarinnar
     *      Deildarstjóri í 70% starfi sem ber ábyrgð á starfi deildarinnar gagnvart skólastjóra.
     *      Kennarar eða annað faglært fólk í 6 stöðugildum.
     *      Stuðningsfulltrúi í 1.5 stöðugildi.

Deildin nýti svigrúm til að aðlaga námskrá að þörfum og áhugasviði nemenda og starfsemi hans tengist ýmsum tilboðum m.a. á vegum ÍTR og Vinnuskóla Reykjavíkur.

Áhersla er lögð á:
     *      einstaklingsmiðað nám
     *      lestur og stærðfræði
     *      list- og sköpunarvinnu
     *      sjálfsstyrkingu og vinnu með einstaklinginn
     *      undirbúning fyrir samræmd próf fyrir þá sem það vilja.

G-deild fyrir nemendur með alvarlegar geðraskanir
Deildin er fyrir 10–12 nemendur með alvarlegar atferlistruflanir og geðraskanir.
Aldur: 4.–10. bekkur. Deildin skiptist í yngri (4.–7. bekkur) og eldri (8.–10. bekkur). Að auki þjónar deildin í framtíðinni sjúkrahúskennslu á Barna- og unglingageðdeild, 15–20 nemendur í 1.–10. bekk.

Stefnt er að því að nemendur geti stundað nám að nýju í sínum heimaskóla. Þessum markmiðum reynir deildin að ná með því að þjálfa nemendur markvisst í mannlegum samskiptum, sjálfsstyrkingu og atferlismótun þar sem lögð er áhersla á sterkari hliðar nemandans í náminu og eflingu sjálfsmyndar.

Starfsmenn deildarinnar
     *      Deildarstjóri í 70% starfi sem ber ábyrgð á starfi deildarinnar gagnvart skólastjóra.
     *      Kennarar eða annað faglært fólk í 4.5 stöðugildum.
     *      Stuðningsfulltrúar í 3 stöðugildum.
     *      Hér er ekki gerð tillaga um fjölda stöðugilda starfsmanna sem sjá um sjúkrahúskennslu við Barna- og unglingageðdeild.
Hér er gert ráð fyrir fækkun nemenda í G-deild frá greinargerð með fyrri framlögðum tillögum starfshópsins úr 15–20 í 10–12 og um leið fækkun kennara úr 6 í 4.5. Næsta skólaár verði notað til að endurskipuleggja kennslu við BUGL og koma á sjúkrakennslu frá 1.8. 2004. Gert er ráð fyrir 5 stöðugildum kennara fyrir um 14 nemendur.

R-deild, ráðgjafardeild (nýtt úrræði)
Stofnuð verði ráðgjafardeild. Ráðinn verði deildarstjóri í fullu starfi og sérfræðingar í hlutastarfi. Ráðgjafardeildin þjóni skólum og úrræðum á þessu sviði með ráðgjöf og inntöku/útskrift nemenda. Verkefni ráðgjafardeildar verði þessi helst:
     *      hafa yfirsýn yfir úrræðin og hverjir eru í þeim
     *      vinna út frá greiningum og umsögnum (hverfamiðstöð) sem liggja fyrir
     *      meta stöðu nemenda félagslega, námslega og tilfinningalega
     *      undirbúa og vinna með inntökuteymi og samstarfsstofnunum
     *      fylgja nemendum eftir með ráðgjöf við útskrift
     *      annast ráðgjöf við sérhæfðar sérdeildir og almenna skóla
     *      annast fræðslu til skóla á þessu tiltekna sviði
     *      samræma vinnubrögð og verklagsferla deilda skólans.

Starfsmenn ráðgjafardeildar
     *      Deildarstjóri, sálfræðingur í 100% starfi sem ber ábyrgð á starfi deildarinnar gagnvart skólastjóra, hefur umsjón með ráðgjöf og greiningu, innritun og útskrift undir stjórn skólastjóra.
     *      Sérkennsluráðgjafi í 50% starfi, sem vinnur að ráðgjöf við kennara hvað varðar einstaklingsmiðað nám, sérkennslu og tengsl við atvinnulíf.
     *      Geðlæknir í 25% starfi með ráðgjafarhlutverk og greiningar og tengiliður við heilbrigðiskerfið.
     *      Ráðgjafi í 50% starfi með ábyrgð á samstarfi við foreldra/fjölskyldur, félagsþjónustu og barnavernd.
Samtals 2.25 stöðugildi í ráðgjafardeild. Samið verði við heilbrigðisyfirvöld um greiðslu geðlæknisþjónustu. Samið verði við félagsmálayfirvöld um greiðslu ráðgjafa. Hálf staða sérkennsluráðgjafa færist frá þjónustusviði Fræðslumiðstöðvar til ráðgjafardeildar.

F-deild
Stofnuð verði deild fyrir allt að 10–15 nemendur sem eru í alvarlegri neyslu, sölu og dreifingu fíkniefna eða öðrum afbrotum. Deildin verði í nánu sambandi við SÁÁ, Stuðla og önnur meðferðarúrræði og lang- og skammtímaúrræði Barnaverndarstofu. Nemendur í neyslu og fíkniefnasölu verði ekki með öðrum nemendum.

Að auki þjónar skólinn sjúkrakennslu fyrir 8 nemendur á Stuðlum sem nú er þjónað frá Einholtsskóla skv. samkomulagi þar um. Um er að ræða tímabundið úrræði í 6–8 vikur fyrir nemendur sem bíða eftir vistun á Stuðlum eða öðru meðferðarúrræði Barnaverndarstofu.

Lögð verði áhersla á samhæfða þjónusta skóla, Barnaverndar Reykjavíkur, Félagsþjónustu, Barnaverndarstofu og ÍTR um nám, tómstundatilboð, persónulega aðstoð og ráðgjöf.

Starfsmenn deildarinnar
     *      Deildarstjóri í 70% starfi sem ber ábyrgð á starfi deildarinnar gagnvart skólastjóra.
     *      Kennarar í 3 stöðugildum og auk þess 1 stöðugildi við sjúkrakennslu á Stuðlum skv. reglugerð.
     *      2 stuðningsfulltrúar í fullu starfi.
     *      Barnaverndarstofa og Félagsþjónusta veita ráðgjöf og viðtalsmeðferð.
Deildin er athvarf fyrir nemendur. Þar fer fram sjúkrakennsla, smiðjuvinna og annað starf eftir áhuga nemenda. Auk þess eru viðtöl og veitt félagsleg aðstoð við nemendur og fjölskyldur þeirra (liðveisla). Samið verði við Félagsþjónustu og Barnavernd um þátttöku í kostnaði.

Miðað er við að deildin taki til starfa eigi síðar en í upphafi árs 2004. Haustönn verði notuð til undirbúnings og samráðs við samstarfsaðila.