Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 287. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 332  —  287. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um umboðsmann barna, nr. 83/1994.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Bjartmarz, Kolbrún Halldórsdóttir,


Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Dagný Jónsdóttir,
Margrét Frímannsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Grétar Mar Jónsson.


1. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
    Allsherjarnefnd Alþingis skal taka skýrslu umboðsmanns barna til athugunar og hafa frumkvæði að umræðu um hana á Alþingi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Lög um umboðsmann barna tóku gildi 1. janúar 1995. Umboðsmaður hefur það hlutverk að bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra. Umboðsmaður barna á að vinna að því að stjórnvöld, einstaklingar, félög og önnur samtök einstaklinga og fyrirsvarsmenn lögpersóna taki fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Í starfi sínu á umboðsmaður barna að setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins.
    Samkvæmt lögunum á umboðsmaður að hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni barna; koma á framfæri tillögum um úrbætur á réttarreglum og fyrirmælum stjórnsýsluhafa er varða börn sérstaklega; stuðla að því að virtir verði þjóðréttarsamningar sem varða réttindi og velferð barna og fullgiltir hafa verið af Íslands hálfu og enn fremur benda á að samningar um þetta efni verði fullgiltir; bregðast við með tiltækum úrræðum telji hann að aðilar hafi með athöfnum sínum eða athafnaleysi brotið gegn réttindum, þörfum og hagsmunum barna í samfélaginu og stuðla að því að kynna fyrir almenningi löggjöf og aðrar réttarreglur er varða börn og ungmenni og beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á þessu sviði.
    Af framangreindu sést að starf umboðsmanns barna er afar umfangsmikið og hefur verulega þýðingu við að bæta hag barna og ungmenna. Óhætt er að segja að starf umboðsmanns hafi þegar sannað gildi sitt og afar brýnt að svo sé að embættinu búið að það geti gegnt hlutverki sínu.
    Samkvæmt 8. gr. laganna á umboðsmaður að gefa forsætisráðherra árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári og skal prenta skýrsluna og birta opinberlega. Þannig hafa verið gefnar út átta skýrslur frá stofnun embættisins. Það er sammerkt með þessum skýrslum að til þeirra er vel vandað og skýrt ítarlega frá því sem embættið hefur fjallað um og haft frumkvæði að til að bæta hag barna og ungmenna.
    Mikilvægt er að Alþingi fjalli um þessar skýrslur, því að iðulega koma þar fram ábendingar og tillögur sem nauðsynlegt er að þjóðþingið láti sig varða og taki til umfjöllunar. Skýrslurnar hafa þó aldrei verið ræddar á Alþingi eða fengið þar efnislega umfjöllun og ekki er kveðið sérstaklega á um það í lögunum að það skuli gert.
    Flutningsmenn þessa frumvarps leggja til að úr þessu verði bætt og skylt verði að ræða skýrslu umboðsmanna barna á Alþingi. Tvær leiðir koma til greina í því efni, að setja lagaákvæði um að forsætisráðherra geri Alþingi grein fyrir efni skýrslunnar eða að allsherjarnefnd Alþingis taki skýrsluna til athugunar og hafi frumkvæði að umræðu um hana á Alþingi. Hér er síðari leiðin valin af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi var lagt til á Alþingi 1997 að forsætisráðherra gerði grein fyrir skýrslunni á Alþingi. Í umsögn forsætisráðuneytisins um málið var því hafnað með þeim rökum að talið var óeðlilegt að forsætisráðherra yrði gert að gera grein fyrir starfrækslu embættis sem hann hefði að öðru leyti ekki yfir að segja. Í lögum um umboðsmann Alþingis er líka kveðið á um að í störfum sínum sé hann óháður fyrirmælum frá öðrum, þar með töldu Alþingi. Engu að síður flytur forseti Alþingis skýrslu umboðsmanns Alþingis, svo og Ríkisendurskoðunar. Forsætisráðuneytið á að hafa eftirlit með fjárreiðum umboðsmanns barna, sem á að gefa forsætisráðherra árlega skýrslu um starfsemi sína. Að öðru leyti er umboðsmaður barna sjálfstæður og óháður fyrirmælum framkvæmdarvaldsins líkt og umboðsmaður Alþingis. Í öðru lagi eru líkur á að með því að setja þessar skyldur á allsherjarnefnd Alþingis fái skýrslan vandaðri umfjöllun og málsmeðferð heldur en ef fyrri kosturinn er valinn.
    Þótt þingsköp Alþingis heimili að fastanefnd fjalli um önnur mál en þau sem þingið vísar til hennar er ástæða til að setja það ákvæði sem hér um ræðir í lögin um umboðsmann barna. Það tryggir að Alþingi fjalli á hverju ári um málefni barna og ungmenna og ábendingar og tillögur umboðsmanns um bættan aðbúnað þeirra.