Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 304. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 349  —  304. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Eftirtaldir eftirlitsskyldir aðilar skulu greiða eftirlitsgjald af álagningarstofni í þeim hlutföllum og stærðum sem hér segir:
     1.      Viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki skulu greiða 0,01149% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr.
     2.      Vátryggingafélög skulu greiða 0,2415% af bókfærðum frumtryggingaiðgjöldum og 0,047% af bókfærðum fengnum endurtryggingaiðgjöldum, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr. Vegna söfnunarlíftrygginga greiðist þó eftirlitsgjald sem nemur 0,0059% af nettómismun iðgjaldaskuldar að frádregnum hluta endurtryggjenda í iðgjaldaskuldinni.
     3.      Félög eða einstaklingar sem stunda vátryggingamiðlun skulu greiða 0,09% af því iðgjaldamagni sem miðlað er á næstliðnu ári, þó eigi lægri fjárhæð en 150.000 kr.
     4.      Verðbréfafyrirtæki skulu greiða 0,09% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 400.000 kr. Verðbréfamiðlanir skulu greiða 0,09% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 250.000 kr. Rekstrarfélög verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða og fjárfestingarsjóðir sem gefa út hlutabréf skulu greiða 0,01367% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 400.000 kr.
     5.      Kauphallir og aðrir skipulegir tilboðsmarkaðir skulu greiða 0,5% af rekstrartekjum, þó aldrei lægri fjárhæð en 250.000 kr.
     6.      Lífeyrissjóðir skulu samtals greiða 0,00705% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Greiða skal eftirlitsgjaldið sem 150.000 kr. fastagjald vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris undir einum milljarði króna, 300.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá einum til tíu milljarða króna og 600.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris þar yfir. Það sem þá er ógreitt af eftirlitsgjaldi skv. 1. málsl. greiðist í hlutfalli við fjölda virkra sjóðfélaga.
     7.      Verðbréfamiðstöðvar skulu greiða 0,65% af rekstrartekjum, þó eigi lægri fjárhæð en 250.000 kr.
     8.      Innlánsdeildir samvinnufélaga skulu greiða fastagjald sem nemur 250.000 kr. Íslandspóstur hf. skal vegna innlánsreikninga Póstgírós greiða fastagjald sem nemur 150.000 kr.
     9.      Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins skal greiða 0,01149% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr. Húsbréfadeild Íbúðalánasjóðs skal greiða 0,0004% af heildarfjárhæð útistandandi húsbréfa, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr.
     10.      Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta og öryggissjóðir samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta skulu greiða fastagjald sem nemur 150.000 kr.
    Útibú erlendra eftirlitsskyldra aðila sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi skulu greiða eftirlitsgjald samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal eftirlitsskyldur aðili, sem er að minnsta kosti að 9/ 10hlutum í eigu annars eftirlitsskylds aðila, greiða 1/ 5hluta eftirlitsgjalds samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr., enda hafi móðurfélagið heimild til sömu starfsemi og dótturfélagið. Ákvæði þetta á þó ekki við um lágmarksgjald skv. 1. mgr.
    Eftirlitsgjald skal reiknast í heilum þúsundum króna. Við álagningu skal jafnframt færa álagningarstofna í þúsundir króna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.



Inngangur.

    Í 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, segir:
    „Fyrir 15. september ár hvert skal Fjármálaeftirlitið gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr.
    Skýrslu Fjármálaeftirlitsins skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs ásamt afgreiðslu stjórnar stofnunarinnar á því áliti. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 15. ágúst ár hvert senda henni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum.
    Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skal viðskiptaráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.“
    Meðfylgjandi er skýrsla Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr. 2. gr. laganna ásamt áliti samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila. Niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds. Í framhaldi af athugun ráðuneytisins á rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins er þetta frumvarp um breytingu á álagningarhlutföllum 5. gr. laganna lagt fram.
    Með frumvarpinu eru álagningarhlutföll hækkuð en lágmarksgjöld eru óbreytt. Áætlað er að álagt eftirlitsgjald hækki úr 259,7 millj. kr. árið 2003 í 289,5 millj. kr. árið 2004 eða um rúm 11%. Áætlaður rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins á þessu ári nemur 266,1 millj. kr. en 288,7 millj. kr. á því næsta sem er 8,5% hækkun.

Fjármögnun fjármálaeftirlita og þátttaka í mótun reglna.
    Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, á 128. löggjafarþingi kom fram að sérstaklega hefði verið rætt í nefndinni um aukin verkefni Fjármálaeftirlitsins, m.a. vinnu fyrir opinbera aðila og þátttöku í samstarfi fjármálaeftirlita í Evrópu vegna undirbúnings að setningu nýrra laga og reglna. Óskaði nefndin eftir því að viðskiptaráðuneytið færi yfir hver kostnaður væri við þessi auknu verkefni og jafnframt yrði skoðað hvernig greitt væri fyrir fjármálaeftirlit í nágrannaríkjunum.
    Hér á landi greiða eftirlitsskyldir aðilar allan kostnað við rekstur Fjármálaeftirlitsins, þar á meðal kostnað við mótun og samræmingu reglna og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi fjármálaeftirlita. Þetta er langalgengasta fyrirkomulagið innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þessi skipan mála hefur rutt sér til rúms samfara því að banka-, verðbréfa- og vátryggingaeftirlit hafa í sívaxandi mæli verið sameinuð í eitt heildstætt fjármálaeftirlit, líkt og hér á landi. Fyrstu sameinuðu fjármálaeftirlitin í Evrópu voru í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Lúxemborg. Á síðasta áratug fylgdu fjölmörg ríki fordæmi þeirra, þar á meðal Ísland. Þróunin er enn í sömu átt, enda eru mörg eftirlit nýlega sameinuð eða sameining eftirlita er í burðarliðnum.
    Í 29 eftirlitsstofnunum sem viðskiptaráðuneytið hefur upplýsingar um í öllum EES- ríkjunum 18 eru tvær þar sem kostnaði er skipt á milli eftirlitsskyldra aðila og ríkisins. Það er í austurríska fjármálaeftirlitinu og í einni af þremur eftirlitsstofnunum í Hollandi. Í átta eftirlitsstofnunum er kostnaðurinn alfarið greiddur af fjárlögum eða af seðlabanka. Þetta er aðallega í þeim ríkjum þar sem bankaeftirlit heyrir undir seðlabanka. Í öðrum eftirlitsstofnunum er allur kostnaður greiddur af eftirlitsskyldum aðilum.
    Samþykkt fjárveitinga til fjármálaeftirlita er með ólíkum hætti eftir ríkjum. Á Norðurlöndunum er meginreglan sú að ráðuneyti fjármálamarkaðar fara yfir tillögur fjármálaeftirlita með hliðsjón af þörf fyrir eftirlit og stefnu viðkomandi ríkisstjórnar. Fjárveitingar til fjármálaeftirlita eru síðan samþykktar á löggjafarþingi. Mismunandi er í EES-ríkjunum hvort eftirlitsskyldir aðilar eiga möguleika á því að koma sjónarmiðum sínum um rekstrarkostnað fjármálaeftirlits á framfæri. Viðskiptaráðuneytið hefur upplýsingar um það að annars staðar á Norðurlöndum komi reglulega upp umræða um þátt ráðuneyta fjármálamarkaðar í kostnaði við undirbúning laga og reglna, en hún hefur ekki til þessa leitt til breytinga á fjármögnun fjármálaeftirlita.
    Í framangreindu áliti efnahags- og viðskiptanefndar er óskað eftir upplýsingum um kostnað vegna aukinna verkefna, m.a. vinnu fyrir opinbera aðila og þátttöku Fjármálaeftirlitsins í evrópsku samstarfi. Rétt er að taka fram að Fjármálaeftirlitið vinnur engin verkefni fyrir ráðuneyti. Verkaskipting á milli ráðuneyta og Fjármálaeftirlitsins er ákveðin af Alþingi. Fjármálaeftirlitið vinnur að mótun og samræmingu reglna á fjármálamarkaði í samræmi við lög og tekur þátt í samstarfi evrópskra fjármálaeftirlita sem miða að slíkri samræmingu. Mótun og samræming reglna er eðlilegur þáttur í opinberu fjármálaeftirliti samkvæmt alþjóðlegum viðmiðunum.
    Viðskiptaráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu um umfang þeirra verkefna sem lúta að mótun reglna, samræmingu eftirlits og samskiptum við fjármálaeftirlit í Evrópu. Þetta samstarf miðar fyrst og fremst að styrkingu og samræmingu eftirlits á fjármálamarkaði, en mótun reglna er hvarvetna talin óaðskiljanlegur hluti þessa. Því er ógerlegt að greina á milli mótunar reglna og samræmingar eftirlits. Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu, sem teknar eru úr verkbókhaldi þess á tímabilinu 1. janúar 2002 til 30. júní 2003, er skráður tímafjöldi í umsögnum um frumvörp, reglugerðir og fyrirspurnir frá Alþingi 350, fjöldi tíma vegna þátttöku í störfum nefnda við mótun löggjafar er 1.050 og fjöldi tíma við mótun reglna um 300. Fjöldi tíma í samskiptum við evrópsk fjármálaeftirlit í tengslum við verðbréfanefnd evrópskra fjármálaeftirlita (CESR), bankanefndir eftirlitanna (Groupe de Contact, CEBS og BAC) og vátrygginganefndir (IC og CEIOPS) var 2.250. Samtals eru þetta 3.950 tímar á þessu 18 mánaða tímabili sem er um 5,5% af skráðum heildartímum í verkbókhaldi Fjármálaeftirlitsins.



Fylgiskjal I.


Skýrsla til viðskiptaráðherra
um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2004,
skv. 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar
við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

    Í samræmi við 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er viðskiptaráðherra hér með send rekstraráætlun fyrir Fjármálaeftirlitið vegna ársins 2004. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 15. september ár hvert gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila.
    Fjármálaeftirlitið hefur, í samræmi við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999, leitað álits samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi stofnunarinnar á árinu 2004. Átti Fjármálaeftirlitið fund með nefndinni 15. ágúst sl. þar sem kynnt voru drög að rekstraráætlun fyrir stofnunina ásamt skýringum og drög að skiptingu eftirlitsgjaldsins við álagningu á árinu 2004. Samráðsnefndin skilaði ábendingum til Fjármálaeftirlitsins um drögin að rekstraráætluninni hinn 26. ágúst sl. og var fjallað um þær á fundi með nefndinni sama dag. Stjórn Fjármálaeftirlitsins fjallaði síðan um ábendingar nefndarinnar á stjórnarfundi 2. september sl. og í kjölfarið var samráðsnefndinni gefið færi á að koma endanlegu áliti sínu á framfæri. Fylgir það hjálagt.
    Í skýrslu þessari er að finna stutta greinargerð um rekstur Fjármálaeftirlitsins á árinu 2002 og skýringar með endurskoðaðri rekstraráætlun vegna ársins 2003. Þá er í skýrslunni gerð grein fyrir forsendum rekstraráætlunar stofnunarinnar fyrir árið 2004 og tillögum um álagningu eftirlitsgjalds fyrir árið 2004.
    Sérstök greinargerð fylgir skýrslunni, „Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár“, en þar er m.a. fjallað um þróun eftirlits á fjármálamarkaði, áhrif nýlegra lagabreytinga á eftirlitsstarfsemina og starfstilhögun við eftirlitsstarfsemina.
    Skýrslunni fylgja einnig tvær töflur þar sem gerð er grein fyrir áætluðu rekstrarumfangi næsta árs og rekstri Fjármálaeftirlitsins á yfirstandandi ári (tafla 1) og áætlaðri álagningu eftirlitsgjalds miðað við áætlað rekstrarumfang (tafla 2). Ársreikningur Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2002 er einnig meðfylgjandi.

1.     Rekstur Fjármálaeftirlitsins á árinu 2002.
    Tekjur af eftirlitsgjaldi, sem eftirlitsskyldir aðilar greiða, námu á árinu 2002 um 211,1 millj. kr. Ýmsar tekjur námu um 6,1 millj. kr. og vaxtatekjur námu um 5,4 millj. kr. Rekstrargjöld, að meðtöldum eignakaupum, námu um 271,8 millj. kr. Eignir í árslok 2002 námu samtals um 3,1 millj. kr. og skuldir um 4,4 millj. kr.
    Höfuðstóll í ársbyrjun nam um 47,9 millj. kr. Tekið var tillit til þess við ákvörðun eftirlitsgjalds sem samþykkt var á Alþingi fyrir árið 2002. Tekjum og höfuðstól var ráðstafað til reksturs á árinu og var eigið fé í árslok 2002 neikvætt um 1,3 millj. kr. eða 0,5% af gjöldum samtals.
    Gert hafði verið ráð fyrir 3,4 millj. kr. tekjuafgangi miðað við endurskoðaða áætlun á miðju ári 2003. Frávik urðu frá endurskoðaðri áætlun í launakostnaði sem nam 0,5% af launum og launatengdum gjöldum. Ástæða þessa fráviks er einkum tvíþætt. Annars vegar varð skörun við mannabreytingar og hins vegar naut Fjármálaeftirlitið starfa lausráðins fólks í meira mæli en gert hafði verið ráð fyrir vegna brýnna verkefna. Enn fremur urðu frávik frá endurskoðaðri áætlun vegna sérfræðikostnaðar sem reyndist meiri í árslok en gert hafði verið ráð fyrir.
    Um rekstur FME á árinu 2002 er að öðru leyti vísað til ársreiknings og skýringa með honum.

2.     Endurskoðuð rekstraráætlun vegna ársins 2003.
    Við gerð rekstraráætlunar fyrir árið 2004 hefur FME endurskoðað rekstraráætlun þessa árs. Í töflu 1 er birt endurskoðuð rekstraráætlun miðað við júní 2003 (dálkur 2), í samanburði við upphaflega áætlun.
    Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður stofnunarinnar verði rúmum tveimur milljónum króna lægri en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir.
    Áætlað er að til ráðstöfunar samtals á árinu 2003 verði 262,4 millj. kr. í stað 268,4 millj. kr. eins og upphafleg áætlun gerði ráð fyrir eða 2,2% lægri fjárhæð en gert var ráð fyrir.
    Gert er ráð fyrir að upphafleg áætlun um tekjur vegna eftirlitsgjalds standist. Við ákvörðun álagningarhlutfalla skv. 5. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, var gert ráð fyrir að innheimtar yrðu 259,7 millj. kr. Frávik stafa hins vegar af neikvæðum höfuðstól í upphafi árs, sbr. umfjöllun í kafla 1 hér að framan. Þá stafar frávikið einnig af því að nú er ekki gert ráð fyrir öðrum tekjum í endurskoðaðri áætlun þar sem yfirlestur útboðslýsinga af hálfu Fjármálaeftirlitsins er ekki fyrirsjáanlegur.
    Gert er ráð fyrir að gjöld umfram tekjur muni nema 3,8 millj. kr. samkvæmt áætlun þegar tekið hefur verið tillit til neikvæðs höfuðstóls í upphafi árs.
    Helstu frávik gjalda frá upphaflegri áætlun eru að endurmenntunar- og skólakostnaður verði 400 þús. kr. hærri en gert var ráð fyrir, en fleiri starfsmenn FME sækja námskeið en upphaflega var gert ráð fyrir. Rafmagn, hiti og húsnæði mun verða 350 þús. kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir þar sem FME fékk bakreikning frá fyrra ári frá Rekstrarfélaginu Suðurlandsbraut 32 sem áætlaði gjöld sín of lágt. Liðurinn útgáfa, auglýsingar, prentun o.fl. mun vera 800 þús. kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir vegna vanáætlunar í upphafi. Á móti þessum hækkunum á áætluninni er gert ráð fyrir að sérfræðikostnaður verði 1.800 þús. kr. lægri en upphaflega var áætlað, en rétt er að taka fram að áætlanir vegna þess liðar eru erfiðleikum bundnar. Eins hefur eignakaupum verið slegið á frest til að mæta öðrum hækkunum í áætluninni og er gert ráð fyrir að þau verði 800 þús. kr. lægri en gert var ráð fyrir.
    Þá eru þátttökugjöld vegna erlends samstarfs áætluð 1,9 millj. kr. í endurskoðaðri áætlun í stað 3 millj. kr. Ástæða þessa er einkum að þátttökugjöld vegna samstarfsnefndar evrópskra verðbréfaeftirlita (CESR, áður FESCO) höfðu ekki verið ákveðin við gerð upphaflegrar áætlunar og reyndust lægri en áætlað hafði verið.
    Í 3. gr. laga nr. 99/1999 segir að sé áætlað að rekstrartap verði af starfsemi Fjármálaeftirlitsins á því ári þegar áætlun fyrir næsta ár er unnin skuli taka tillit til þess við ákvörðun eftirlitsgjalds næsta árs. Áætlað rekstrartap samkvæmt endurskoðaðri áætlun nemur 3,8 millj. kr. þegar tekið hefur verið tillit til fráviks frá áætlunum í rekstrarniðurstöðu ársins 2002.

3.     Rekstraráætlun fyrir árið 2004.
    Í töflu 1 er birt rekstraráætlun fyrir árið 2004 í samanburði við upphaflega rekstraráætlun og endurskoðaða áætlun fyrir þetta ár. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu forsendum hennar.

Helstu forsendur rekstraráætlunarinnar.
    Fjöldi starfsmanna er ráðandi þáttur í rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins. Af fjölda starfsmanna ráðast helstu stærðir að nokkru eða öllu leyti, svo sem laun og launatengd gjöld, stærð húsnæðis og umfang tölvubúnaðar. Fjallað er ítarlega um þessa þætti í greinargerð um rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins til næstu þriggja ára sem birt er í fylgiskjali með greinargerð þessari.

Launakostnaður.
    Gert er ráð fyrir því í fyrirliggjandi drögum að áætlun fyrir næsta ár að bætt verði við starfskraft FME sem nemur 1 1/ 2ársverki. Því til viðbótar verði svigrúm til að ráða sumarstarfsmenn og námsfólk í tímabundin verkefni.
    Launabreytingar fylgja kjarasamningum, en starfsmenn FME þiggja laun samkvæmt kjarasamningum bankamanna og kjarasamningum opinberra starfsmanna. Samkvæmt þessum kjarasamningum er gert ráð fyrir 3% launahækkun frá 1. janúar 2004. Einnig er gert ráð fyrir öðrum samningsbundnum og starfsaldurstengdum breytingum á launum og launatengdum gjöldum. Þá er í drögunum gert ráð fyrir launabreytingum sem fylgja nýráðningum starfsfólks. Kjarasamningar bankamanna eru lausir frá 1 október 2004 og hjá opinberum starfsmönnum frá 1. desember 2004. Erfitt er að áætla áhrif þessa á launakostnað.
    Að teknu tilliti til framangreindra forsendna er gert ráð fyrir að laun og launatengd gjöld á árinu 2004 nemi um 202,6 millj. kr. eða 8,3% hækkun frá endurskoðaðri áætlun fyrir þetta ár.
    Laun stjórnarmanna eru ákveðin af ráðherra. Fjármálaeftirlitinu er ekki kunnugt um að fyrirhugaðar séu breytingar á þeim á næsta ári.

Kostnaður við endurmenntun.
    Samkvæmt símenntunarstefnu FME er stefnt að því að kostnaður vegna símenntunar nemi 3% af heildarlaunum. Ekki er í drögum að áætlun gert ráð fyrir sérgreindum lið vegna þessa heldur fellur þessi kostnaður undir liði 3, 5, 10, 14 og 16.

Rekstur á húsnæði.
    Húsaleiga byggist á föstum samningum sem bundnir eru vísitölu neysluverðs. Áætlun vegna rafmagns, hita og húsfélags er byggð á reynslu.

Rekstur tölvubúnaðar.
    Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður vegna tölvubúnaðar haldist nær óbreyttur á næsta ári, sé miðað við endurskoðaða áætlun fyrir þetta ár. Innifalin í þessum kostnaði er 2,5 millj. kr. hækkun vegna gagnagrunnskerfis sem fyrirhugað er að koma upp. Á móti kemur því lækkun um svipaða fjárhæð á öðrum reglulegum tölvukostnaði. Áætlunin er byggð á reynslu síðustu ára og fjölda starfsfólks. Eins og nefndinni er kunnugt hefur FME tekið nær allan tölvubúnað á leigu í stað þess að kaupa hann. Reglulegur rekstrarkostnaður er því nokkuð hár, en stofnkostnaður að sama skapi minni.

Ferðakostnaður og kostnaður vegna funda.
    Gert er ráð fyrir að ferðakostnaður haldist óbreyttur milli ára. Gert er ráð fyrir 60 ferðum á næsta ári eins og árið 2003. Ítarlegt yfirlit yfir erlent samstarf Fjármálaeftirlitsins er birt á heimasíðu þess.
    Fjármálaeftirlitinu ber í nokkrum tilvikum að greiða þátttökugjöld í erlendu samstarfi. Hæstu þátttökugjöldin eru vegna þriggja samevrópskra nefnda, þ.e. reksturs samstarfsnefndar evrópskra verðbréfaeftirlita, Committee of European Securities Regulators (CESR, áður FESCO), samstarfsnefndar Evrópskra vátryggingaeftirlita og lífeyrissjóðaeftirlita, Committee of European Insurance and Occupational Pension Supervision (CEIOPS), og samstarfsnefndar evrópskra bankaeftirlita, Committee of European Banking Supervisiors (CEBS). Starfsemi þessara nefnda er kostuð af þátttakendum í tilteknum stærðarhlutföllum en rekstraráætlun fyrir þær liggur ekki fyrir. Aðild íslenskra stjórnvalda að alþjóðasamtökum á sviði fjármálaeftirlits er mikilvægur þáttur í að tryggja alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks fjármálamarkaðar, enda gerðar kröfur um að hver þjóð fyrir sig uppfylli ákveðnar lágmarkskröfur í eftirliti og umgjörð fjármálamarkaðar. Nánar er fjallað um þetta í kafla 2 í meðfylgjandi greinargerð um rekstur Fjármálaeftirlitsins til næstu þriggja ára.

Annar kostnaður.
    Aðrir kostnaðarliðir eru byggðir á reynslu fyrri ára. Ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum á þeim liðum.

Aðrar tekjur, vaxtatekjur.
    Eins og kunnugt er fær Fjármálaeftirlitið vexti af innstæðu á reikningi Seðlabanka Íslands. Vaxtatekjurnar eru byggðar á áætlaðri meðalstöðu innstæðu m.v. álagningu sem miðast við drög að rekstraráætlun Ekki er í áætluninni gert ráð fyrir öðrum tekjum en vaxtatekjum.

4.     Álagning eftirlitsgjalds fyrir árið 2004.
    Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999 skal FME leggja mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila.
    Fjármálaeftirlitið hefur eins og áður gert athugun á því hvort ástæða sé til að gera breytingar á skiptingu eftirlitsgjaldsins, með tilliti til þess hvernig ráðstöfunartími í eftirliti hefur á síðustu árum fallið á einstaka flokka fjármálafyrirtækja. Niðurstaða þessarar athugunar leiddi til svipaðrar niðurstöðu og fyrri ár. Eins og áður má merkja lítils háttar breytingar á tímaskiptingu milli ára sem þó gefa ekki tilefni til verulegra breytinga.
    Mælingar sýna þó að meiri tími hefur farið í eftirlit með verðbréfasjóðum og rekstrarfélögum þeirra en áður. Sú breyting tengist nýjum lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði sem gildi tóku 1. júlí sl. Það er mat Fjármálaeftirlitsins, þegar horft er til þessara tveggja þátta, að eðlilegt sé að auka vægi rekstrarfélaga verðbréfasjóða (áður verðbréfasjóðir og rekstrarfélög) við ákvörðun um álagningarhlutföll næsta árs. Þá þykir einnig rétt að leggja til að lágmarksgjöld þessara félaga verði 400 þús. kr. sem er sama lágmarksgjald og gildir vegna lánastofnana, en gildandi lágmarksgjald vegna rekstrarfélaga er 150 þús. kr. og verðbréfasjóða 250 þús. kr.
    Þá er í rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins einnig lagt til að lágmarksgjald á verðbréfafyrirtæki verði 400 þús. kr. en samkvæmt gildandi lögum eru þetta gjald 250 þús. kr. Tekið skal fram að ekki er gert ráð fyrir breytingu á lágmarksgjaldi vegna verðbréfamiðlana.
    Í meðfylgjandi töflu nr. 2 eru álagningarhlutföll birt með hliðsjón af drögum að rekstraráætlun.
Tafla 1. Rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins.
Fylgiskjal með skýrslu til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2004.
Áætlun vegna 2003 Áætlun
vegna
2004

Breyting
%

Breyting
%
Upphafleg
áætlun
Endursk.
áætlun
Í þús. kr.
Rekstrarkostnaður: 1 2 3 D2 til D3 D1 til D3
1 Laun og launatengd gjöld 187.210 187.120 202.617 8,3% 8,2%
2 Stjórnarlaun 6.400 6.540 6.400 -2,1% 0,0%
3 Starfsmannaþj., kaffi, fundir 2.600 2.700 2.800 3,7% 7,7%
4 Íþrótta- og gististyrkur, framlag til SFME 2.200 2.000 2.000 0,0% -9,1%
5 Endurm.kostnaður og skólakostnaður 1.600 2.000 2.000 0,0% 25,0%
6 Húsaleiga 16.570 16.480 17.150 4,1% 3,5%
7 Rafmagn, hiti, húsfélag 1.700 2.050 2.000 -2,4% 17,6%
8 Símakostnaður 1.740 1.700 1.800 5,9% 3,4%
9 Útgáfa, auglýsingar, prentun o.fl. 1.500 2.300 2.300 0,0% 53,3%
10 Bækur og ritföng 2.700 2.900 2.900 0,0% 7,4%
11 Póstkostnaður 570 570 600 5,3% 5,3%
12 Rekstur tölvub. og sérfr.þj. v. tölvumála 16.570 16.570 17.000 2,6% 2,6%
13 Sérfræðikostnaður 3.000 1.200 3.000 150,0% 0,0%
14 Ferðakostnaður erlendis 10.800 10.800 10.800 0,0% 0,0%
15 Ferðakostnaður innanlands 1.500 1.800 1.800 0,0% 20,0%
16 Þátttökugj. vegna erl. samstarfs og funda erlendis
3.000

1.900

4.700

147,4%

56,7%
17 Kostnaður vegna funda innanlands 350 200 350 75,0% 0,0%
18 Eignakaup 2.000 1.200 2.000 66,7% 0,0%
19 Öryggisgæsla 700 700 700 0,0% 0,0%
20 Ræsting, ræstingarvörur 2.700 2.700 2.820 4,4% 4,4%
21 Ýmis gjöld og þjónusta 3.000 2.700 3.000 11,1% 0,0%
23 Gjöld alls 268.410 266.130 288.737 8,5% 7,6%
24 Yfirfært frá fyrra ári, áætlað 3.390 -1.313 -3.771
25 Álagt eftirlitsgj. m.v. breytingar á lögum nr. 99/1999
259.720

259.672

289.508
26 Vaxtatekjur 4.500 4.000 3.000
27 Aðrar tekjur 800 0 0
28 Til ráðstöfunar samtals 268.410 262.359 288.737
29 Til ráðstöfunar umfram gjöld 0 -3.771 0
30 Launakostnaður vegna úrskurðarnefnda 4.350 5.000 5.500
31 Tekjur úrskurðarnefnda 4.350 5.000 5.500
    Sundurliðun útreiknings á launum og launatengdum gjöldum vegna ársins 2004.     

Áætlun 2004

    Launagjöld m.v. óbreytta starfsemi 187,8
    3% launahækkun, sbr. kjarasamningar 5,7
    Launagjöld v. nýráðninga o.fl. 9,1
202,6




Tafla 2. Áætluð álagning eftirlitsgjalds árið 2004 og tillögur um álagningarhlutföll og lágmarksgjöld.
Miðað er við álagningarþörf 289.508 þús. kr. samkvæmt rekstraráætlun FME vegna ársins 2004.     
Fylgiskjal með skýrslu til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2004.     




Í þús. kr.
Tilvís. í lög nr. 99/ 1999
5. gr. Liður nr.



Útr.- stofn *)

Álagt eftirlitsgjald í jan. 2003
Hlutfl. skipting milli stofn. flokka m.v. álagn. 2003
Lág- marks- gjald 2003
Álagningarstofnar samkvæmt ársreikningum ársins 2002 Áætluð álagningarhlutföll – % og fastagjöld vegna ársins 2004, % Gildandi álagningarhlutföll – % og fastagjöld Áætluð álagning vegna ársins 20041) Hlutfl. skipting milli stofn. flokka m.v. álagn. 2004
Lánastofnanir         - 1. töluliður samtals 132.094 50 ,81 1.271.203.745 0,01149 0,0108 144.939 50,06
     Viðskiptabankar 1 e 102.454 39 ,41 400 987.574.209 0,01149 0,0108 113.472 39,19
     Sparisjóðir 1 e 20.994 8 ,08 400 172.720.134 0,01149 0,0108 22.127 7,64
     Eignarleigufyritæki 1 e 2.028 0 ,78 400 30.319.607 0,01149 0,0108 1.598 0,55
     Aðrar lánastofnanir 1 e 6.618 2 ,55 400 80.589.795 0,01149 0,0108 7.741 2,67
Vátryggingafélög:          - 2. töluliður samtals 59.709 22 ,97 400 63.681 22,00
     Af bókfærðum frumtryggingariðgjöldum 2 i 59.617 22 ,93 25.379.828 0,24150 0,25355 63.192 21,83
     Af bókf. fengnum endurtryggingariðgj. 2 i 90 0 ,03 218.032 0,04700 0,0521 489 0,17
     Vegna söfnunarlíftrygginga 2 i 2 0 ,00 6.046 0,00590 0,00658 0 0,00
Vátryggingamiðlarar 3 i 2.845 1,09 150 0,09000 0,09 3.367 1,16
Verbréfafyrirtæki      2) 4 e 3.951 1 ,52 250 3.489.820 0,09000 0,0885 4.480 1,55
Verðbréfamiðlanir      2) 4 e 750 0 ,29 250 31.880 0,09000 500 0,17
Verðbréfasjóðir      3) 4 e 11.965 4 ,60 250 0,01068 0,00
Rekstrarfélög      3) 4 e 900 0 ,35 150 134.641.707 0,01367 0,08593 18.877 6,52
              - 4. töluliður samtals 17.566 6 ,76 23.856 8,24
Kauphallir 5 t 1.324 0,51 250 297.703 0,50000 0,5 1.489 0,51
Lífeyrissjóðir 6 el 41.780 16,07 150-600 678.930.380 0,00705 0,00648 47.865 16,53
Verðbréfamiðstöðvar 7 t 923 0,36 250 158.197 0,65000 0,76297 1.028 0,36
Aðrir eftirlitsskyldir aðilar:
     Innlánsdeildir samvinnufélaga 8 f 1.750 0 ,67 250 250 250 1.250 0,43
     Póstgíróstofa Íslandspósts hf. 8 f 150 0 ,06 150 150 150 150 0,05
     Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins 9 e 597 0 ,23 400 4.398.970 0,01149 0,0101 505 0,17
     Húsbréfadeild Íbúðalánasjóðs 9 e 925 0 ,36 400 269.643.597 0,00040 0,0004 1.079 0,37
    Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárf. 10 f 150 0 ,06 150 150 150 150 0,05
    Tryggingarsjóður sparisjóða 10 f 150 0 ,06 150 150 150 150 0,05
Samtals 259.963 100,00 289.508 100,00
*) e=eignir samtals; t=rekstrartekjur;
el= hrein eign til greiðslu lífeyris; i=tryggingariðgjöld; f=fastagjald
1)    Tekið hefur verið tillit áhrifa lágmarksgjalda og ákvæðis í 10. tölul. 5. gr. l. 99/1999 er varðar 9/10 hluta eignaraðild.
2)    Áður í einu lagi sem fyrirtæki í verðbréfaþjónustu. Nú skipt upp með tilvísun til l. nr. 161/2002.
    Gert ráð fyrir að lágmarksgjald vegna verðbréfafyrirtækja verði 400 þús. kr. en vegna verðbréfamiðlana 250 þús. kr.
3)     Skv. l. nr. 30/2003 skal starfsemi verðbréfasjóða slitið fyrir lok ársins 2003. Rekstrarfélögin taka við rekstrinum.
    Álagningarstofn hér er áætlaðar heildareignir (e) nýrra rekstrarfélaga, þ.e. e. verðbrsj. 2002 + e. rekstrarfél. 2002 .
    Gert ráð fyrir að lágmarksgjald verði 400 þús. kr.
Viðauki.

Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár.



Inngangur.
    Samhliða rekstraráætlun sinni og greinargerð með henni leggur Fjármálaeftirlitið fram skýrslu um rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu ár, en efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis beindi á árinu 2001 tilmælum til eftirlitsins um að slík umfjöllun fylgdi árlegri greinargerð með rekstraráætlun. 1
    Þróun fjármálamarkaða og eftirlits með fjármálastarfsemi hefur verið mjög hröð á undanförnum árum og ekkert útlit er fyrir að þar verði lát á. Því er miklum erfiðleikum bundið að gera grein fyrir rekstri Fjármálaeftirlitsins til lengri tíma en eins árs í senn.
    Í því skyni að gefa mynd af því hvert stefnir í starfsemi Fjármálaeftirlitsins og rekstri verður hér á eftir leitast við að lýsa þróun eftirlits hér og í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við (1. kafli). Fjallað verður um nýlegar og fyrirsjáanlegar breytingar á lagaumhverfi og möguleg áhrif þeirra á rekstur Fjármálaeftirlitsins (2. kafli). Þá verður fjallað um innri starfsemi Fjármálaeftirlitsins, starfstilhögun og markmið í rekstri að því er starfsmannamál varðar (3. kafli). Að síðustu er lagt mat á hvert stefnir í rekstri Fjármálaeftirlitsins (4. kafli).

1.     Þróun eftirlits á fjármálamarkaði.
    Þróun starfsemi Fjármálaeftirlitsins tekur að verulegum hluta mið af þróun erlendis í opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Íslenskt fjármálaumhverfi er sífellt borið saman við fjármálamarkaði annars staðar og með opnun íslensks fjármálamarkaðar og aukinni starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja erlendis kemur æ betur í ljós þörfin á því að eftirlit á fjármálamarkaði hér á landi standist sambærilegar kröfur og gerðar eru annars staðar. Þannig er horft til gæða regluverks og opinbers eftirlits við mat á samkeppnishæfni íslensks fjármálamarkaðar. Alþjóðlegt starf við þróun eftirlits miðar einnig að frekari samræmingu eftirlits milli landa.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir nokkrum atriðum er varða alþjóðlega mótun eftirlits sem taka verður tillit til við mótun eftirlits hér á landi.

1.1.     Þróun í tilhögun og umfangi fjármálaeftirlits á erlendum vettvangi.
    Skipulag þeirra stofnana sem sinna eftirliti á fjármálamarkaði er ólíkt frá einu landi til annars. Víða er eftirlit með lána-, verðbréfa- og vátryggingamarkaði aðskilið eftir sviðum. Sú skipan að sameina eftirlit á öllum sviðum fjármálamarkaðar á hins vegar vaxandi fylgi að fagna. Í Evrópu var þeirri skipan fyrst komið á í Noregi, Danmörku og Svíþjóð á árunum 1986–1991. Sífellt fleiri ríki hafa fetað sömu braut. Þeirra á meðal eru Bretland, Írland, Þýskaland, Austurríki og Belgía. Nokkur hinna tilvonandi aðildarríkja Evrópusambandsins hafa farið sömu leið. Fleiri ríki innan Evrópusambandsins eru að huga að breytingum. Þær breytingar sem urðu á skipulagi eftirlits hér á landi með stofnun Fjármálaeftirlitsins eru því í samræmi við alþjóðlega og evrópska þróun á þessu sviði.
    Alþjóðleg þróun eftirlits hefur enn fremur verið í átt til aukins umfangs. Áföll á fjármálamörkuðum kalla á endurmat á lögum og reglum og hafa í mörgum tilvikum leitt til þess að fjármálaeftirlitum eru veittar ríkari heimildir til fyrirbyggjandi aðgerða og fleiri verkefni. Ýmiss konar áföll á fjármálamörkuðum víða um heim hafa orðið þess valdandi að víðtæk samstaða hefur myndast á alþjóðavettvangi um nauðsyn virks og öflugs eftirlits með fjármálastarfsemi, eftirlits sem byggist á traustum og alþjóðlega viðurkenndum kjarnareglum. Alþjóðastofnunum á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann hefur verið falið að fylgjast með og stuðla að því að viðunandi umgjörð og regluverk sé til staðar í aðildarríkjum sínum eins og vikið verður að í kafla 1.3 hér á eftir. Svokölluð Basel-nefnd um bankaeftirlit, sem starfar á vettvangi Alþjóðagreiðslubankans (BIS) í Basel, og önnur samtök og stofnanir á flestum sviðum fjármálamarkaðar hafa sett víðtækar reglur sem varða flest svið fjármálaviðskipta, og komið hefur verið á fót margháttuðu alþjóðlegu samstarfi sem varðar fjármálastöðugleika, svo sem í Financial Stability Forum. Allt endurspeglar þetta viðleitni til þess að draga eftir föngum úr hættunni á áföllum á fjármálamarkaði. Þá má nefna í þessu sambandi að áföll sem tengjast svokölluðu Enron-hneyksli í Bandaríkjunum hafa vakið upp umræðu og aðgerðir sem miða að auknu opinberu eftirliti. Löggjafarþróun á Evrópska efnahagssvæðinu hefur ótvírætt verið í þessa átt eins og nánar verður vikið að síðar.
    Afleiðing af auknu umfangi er aukinn rekstrarkostnaður eftirlita samfara fjölgun starfsfólks. Rekstrarkostnaður eftirlita í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hefur hækkað um 19–55% á árunum 1999–2003. Til samanburðar má nefna að rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins hér á landi hefur aukist um tæplega 54% á sama tímabili. Rétt er að taka fram að á árinu 1999 var starfsmannafjöldi í Fjármálaeftirlitinu í lágmarki eins og fram kemur í umfjöllun í kafla 3.2 hér á eftir.

1.2.     Breytingar á eftirliti og samstarfi fjármálaeftirlita á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Miklar breytingar standa nú yfir á samstarfi fjármálaeftirlita á Evrópska efnahagssvæðinu í tengslum við breytingar á ákvörðunarferli Evrópulöggjafar á fjármálamarkaði. Breytingunum er m.a. ætlað að tryggja meiri samræmingu í eftirliti á fjármálamarkaði og reglum um fjármálastarfsemi. Þannig á að skapa grundvöll fyrir aukinni fjármálastarfsemi og þjónustu milli landa.
    Ákvörðun um þessar breytingar er byggð á niðurstöðum svokallaðrar Lamfalussy-skýrslu og felur í sér 4 stig (levels):
          Á 1. stigi eru tilskipanir eða reglugerðir en í þeim verður kveðið á um undirstöðuatriði í löggjöf á fjármálamarkaði.
          Á 2. stigi verða frekar útfærðar reglur mótaðar af framkvæmdastjórn ESB með aðstoð eða ráðgjöf frá sérstakri samstarfsnefnd eftirlita á viðkomandi sviði fjármálamarkaðar og staðfestingu sérstakra nefnda sem starfa á vegum framkvæmdastjórnarinnar og í eiga sæti fulltrúar ráðuneyta aðildarríkja.
          Á 3. stigi er samstarfsnefnd eftirlita á viðkomandi sviði ætlað að tryggja aðlögun og samræmi í reglum og framkvæmd milli landa. Nefndirnar munu í því skyni gefa út tilmæli, almenna staðla og tillögur um atriði sem ekki eru útfærð sérstaklega í tilskipunum eða reglugerðum ESB.
          Á 4. stigi er lögð áhersla á meiri eftirfylgni við framkvæmd reglnanna með virkum afskiptum og samstarfi framkvæmdastjórnarinnar við aðildarríki og eftirlitsaðila.
    Ný eftirlitsnefnd á verðbréfasviði ( CESR, Committee of European Securities Regulators) tók til starfa á árinu 2001, en hún var stofnuð á grunni eldri samstarfsvettvangs verðbréfaeftirlita, FESCO ( Forum of European Securities Commissions). Enn fremur hefur nefnd á þessu sviði tekið til starfa á vegum framkvæmdastjórnarinnar ( European Securities Committee).
    Nú er verið að hrinda í framkvæmd hliðstæðum breytingum í ákvörðunarferli og eftirlitssamstarfi á bankasviði og vátrygginga- og lífeyrissviði. Í breytingunum felst m.a. að bankanefnd á vegum framkvæmdastjórnarinnar ( Banking Advisory Committee), þar sem nú sitja fulltrúar ráðuneyta, fjármálaeftirlita og seðlabanka, verður skipt í tvær nefndir, annars vegar nefnd á 2. stigi ákvörðunarferlis (systurnefnd ESC hér að framan) og hins vegar nefnd á 3. stigi (systurnefnd CESR). Á vátrygginga- og lífeyrismarkaði verður núverandi nefnd á vegum framkvæmdastjórnarinnar ( Insurance Committee) breytt í nefnd skipaða ráðuneytum aðildarríkja (systurnefnd ESC) og núverandi samstarfsvettvangi vátryggingaeftirlita ( The Conference of the Insurance Supervisory Authorities of Member States of the EU) verður breytt í nefnd á 3. stigi, Committee of Insurance and Pensions Supervisors (CEIOPS, systurnefnd CESR).
    Fjármálaeftirlit á Íslandi og í Noregi eru aðilar að eftirlitsnefnd á verðbréfasviði. Sömu eftirlit auk eftirlitsins í Lichtenstein verða áheyrnaraðilar að eftirlitsnefndum á bankasviði og vátrygginga- og lífeyrissviði, en þessi lönd hafa einnig verið áheyrnaraðilar að núverandi eftirlitssamstarfi á þessum sviðum.
    Fjármálaeftirlitið tekur þátt í framangreindu samstarfi fjármálaeftirlita á Evrópska efnahagssvæðinu og mun taka þátt í þeim breytingum sem nú standa fyrir dyrum. Fjármálaeftirlitið mun einnig greiða ákveðið hlutfall af rekstrarkostnaði nefndanna, og greiðir nú um 1,1% af rekstrarkostnaði CESR, en hlutdeild í kostnaði nefnda á banka og vátrygginga/lífeyrissviði hefur ekki verið endanlega ákveðin.
    Í framangreindum breytingum felst m.a. að gerð verður ríkari krafa en áður um samræmingu eftirlits innan Evrópska efnahagssvæðisins. Nýjar samstarfsnefndir eftirlita munu m.a. gefa út grunnreglur um samstarf og túlkun EES-réttar og fylgjast með samræmdri beitingu laga og reglna.
    Með breytingunum hefur einnig verið gerður skýr greinarmunur á verkefnum fjármálaeftirlita annars vegar og verkefnum ráðuneyta hins vegar. Þannig eiga ráðuneytin fulltrúa í nefndum á öðru stigi ákvörðunarferilsins, en fjármálaeftirlitin starfa saman á sérstökum vettvangi.

1.3.     Athugun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins – grunnreglur um árangursríkt fjármálaeftirlit.
    Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur um nokkurra ára skeið gert sérstakar athuganir á fjármálastöðugleika landa (FSAP, Financial Stability Assessment Program). Meðal annars er kannað hvort reglur og eftirlit með fjármálastarfsemi í viðkomandi löndum standist grunnreglur um árangursríkt eftirlit sem alþjóðasamtök á vettvangi opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi hafa sett. Skýrslur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um þessar athuganir eru að jafnaði gerðar opinberar á heimasíðu sjóðsins og gefa mikilvægan samanburð milli landa og upplýsingar um stöðu þessara mála frá einu landi til annars. Um leið hafa þær vægi í mati á samkeppnishæfni fjármálamarkaða.
    Árið 2001 birti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skýrslu um athugun sína á fjármálastöðugleika á Íslandi og mat á framkvæmd alþjóðlegra grunnreglna í eftirliti. Sjóðurinn lagði til ýmsar breytingar á löggjöf og eftirliti til að bregðast við veikleikum á fjármálamarkaði og í eftirliti með honum. Meðal annars lagði sjóðurinn til verulega stækkun á eftirlitinu. 2
    Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er nú að leggja lokahönd á nýja skýrslu um fjármálastöðugleika á Íslandi. Skýrslan felur í sér endurskoðun á niðurstöðum fyrri skýrslu. Athugunin nú beindist fyrst og fremst að því að kanna breytingar sem orðið höfðu frá því að skýrslan frá 2001 var unnin. M.a. var farið yfir breytingar á eftirfylgni við grunnreglur um árangursríkt bankaeftirlit. Skýrsla sjóðsins verður væntanlega birt á heimasíðu hans í september nk.
    Vikið er að meginniðurstöðum athugunarinnar nú í áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem kynnti sér stöðu efnahagsmála hér á landi um mánaðamótin maí–júní sl. Álitið er að finna í íslenskri þýðingu á heimasíðu Seðlabanka Íslands. Þar segir m.a.:
    „13. Sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sótti Ísland heim í apríl 2003 til að fylgja eftir athugun á fjármálastöðugleika (FSSA) sem gerð var árið 2001. Niðurstöður sendinefndarinnar staðfestu að ójafnvægi sem greindist í FSSA-skýrslunni frá 2001 er horfið og að meira jafnvægis gætir nú í áhættu fjármálageirans, m.a. fyrir tilstuðlan fyrirbyggjandi eftirlitsaðgerða. Íslenskir bankar skiluðu auknum hagnaði á árunum 2001 og 2002 og bættu eiginfjárstöðu sína bæði árin í samræmi við tilmæli eftirlitsyfirvalda. Sparisjóðirnir áttu við rammari reip að draga en viðskiptabankarnir enda hlutfall vanskila og afskrifta af heildarútlánum hærra hjá þeim.
    14. Búið er að efla lög og reglugerðir um fjármálastarfsemi ásamt því að styrkja fjármálaeftirlit og gera umfangsmiklar umbætur í samræmi við kjarnareglur Basel-nefndar um bankaeftirlit (BCP). Við fögnum nýjum lögum um fjármálafyrirtæki og tengdri löggjöf sem og eflingu Fjármálaeftirlitsins. Í kjölfar skjótra og umfangsmikilla umbóta sem gerðar hafa verið á regluverki og framkvæmd fjármálaeftirlits frá því að FSSA-athugunin var gerð árið 2001 uppfyllir Ísland nú flest ákvæði BCP-reglnanna að undanskilinni reglu 11, vegna skorts á reglulegri skýrslugjöf banka um áhættu í útlánum til lánþega í öðrum löndum. Við hvetjum stjórnvöld til að halda vöku sinni á komandi árum vegna hættu á spennu í hagkerfinu, m.a. vegna hás skuldahlutfalls.“
    Þrátt fyrir að sjóðurinn hrósi stjórnvöldum, þar á meðal Fjármálaeftirlitinu, fyrir aðgerðir sem styrkt hafa stöðugleika fjármálakerfisins hefur sjóðurinn fram að færa nokkrar ábendingar um áframhaldandi endurbætur. Nefna má þessar helstar:
          Að stjórnvöld þurfi að vera reiðubúin að endurskoða stærð Fjármálaeftirlitsins þar sem starf þess við að koma nýjum lögum í framkvæmd megi ekki koma niður á kjarnaeftirliti.
          Að Fjármálaeftirlitið þurfi að gefa út ýmsar reglur og verklagsreglur, t.d. gefa út opinberlega verklagsreglur um meðferð starfsleyfisumsókna og mat á hæfi stjórnarmanna í fjármálafyrirtækjum og reglur um ákvarðanir um eiginfjárhlutföll. Einnig þurfi að styrkja reglur um mat afskrifta í samræmi við framkomnar tillögur eftirlitsins.
          Styrkja þurfi reglulega upplýsingagjöf um útlánaáhættu lánastofnana erlendis.
    Rétt er að taka fram að athugunin nú fól ekki í sér nýtt mat á eftirfylgni við grunnreglur um eftirlit á vátrygginga- og verðbréfasviði.

2.     Nýlegar og væntanlegar lagabreytingar – áhrif á Fjármálaeftirlitið.
    Rétt er að rekja hér á eftir nýlegar og væntanlegar breytingar á löggjöf, en starfsumhverfi eftirlitsins ræðst að verulegu leyti af henni.

2.1.     Breytingar á löggjöf.
    Á þessu ári hafa ný lög tekið gildi á veigamiklum sviðum fjármálamarkaðar. Um er að ræða eftirfarandi löggjöf:
          Lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, tóku gildi 1. janúar sl. Með þeim hafa ein lög verði sett um stofnun og rekstur viðskiptabanka, sparisjóða, annarra lánastofnana, verðbréfafyrirtækja, greiðslukorta- og rafeyrisfyrirtækja og eignarleigufyrirtækja. Lögin fela í sér ýmsar breytingar á starfsheimildum Fjármálaeftirlitsins. Í frumvarpi því sem varð að lögum segir eftirfarandi:
                  „Eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins eru að langmestu leyti hinar sömu og í gildi eru í dag og byggjast á EES-samningnum. Þó má reikna með að þrjár nýjungar í frumvarpinu muni leiða til aukins eftirlits. Í fyrsta lagi mun rekstrarfélag verðbréfasjóðs fá starfsleyfi á fjármálamarkaði og getur opnað útibú eða stundað þjónustu án stofnunar útibús á EES-svæðinu í samræmi við breytingu á tilskipun um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að starfsleyfisumsóknir verði ítarlegri en áður og Fjármálaeftirlitið geti veitt og afturkallað leyfi til hluta þeirrar starfsemi sem viðkomandi tegund fjármálafyrirtækis stendur til boða að sækja um. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið fái heimild til að ákvarða hærra eiginfjárhlutfall en 8% fyrir fjármálafyrirtæki að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þessi heimild er í samræmi við væntanlegar alþjóðlegar eiginfjárreglur. Gera má ráð fyrir mikilli vinnu Fjármálaeftirlitsins og fjármálafyrirtækja á næstu árum við undirbúning innleiðingar nýrra eiginfjárreglna.
                  Við samræmingu og einföldun lagaákvæða um fjármálafyrirtæki má reikna með að eftirlit með þeim geti orðið skilvirkara. Þetta vegur á móti auknu eftirliti vegna nýrra reglna í frum varpi þessu.“
          Lög nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, tóku gildi 1. júlí sl. Kveðið er á um starfshætti á verðbréfamarkaði sem fjármálafyrirtæki, útgefendur skráðra verðbréfa og aðrir sem koma að verðbréfamarkaði starfa eftir. Lagaákvæði um þetta höfðu tekið miklum breytingum nýverið, m.a. með endurbótum á ákvæðum laga um meðferð trúnaðarupplýsinga og innherjaviðskipti og ákvæðum um almennt útboð verðbréfa. Fjármálaeftirlitið hefur lagt mikla vinnu í að koma þeim lagabreytingum til framkvæmda. Aukið umfang í starfi Fjármálaeftirlitsins við að tryggja eftirfylgni við þau lagaákvæði hefur verið vanmetið. Þær breytingar sem tóku gildi með nýjum lögum nú og krefjast munu mikillar vinnu Fjármálaeftirlitsins snúa að því að undirbúa beitingu stjórnvaldssekta sem Fjármálaeftirlitinu er nú heimilt að ákveða vegna brota á ákvæðum um meðferð innherjaupplýsinga.
          Lög nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, tóku gildi 1. júlí sl. Lögin fela í sér viðamiklar breytingar á gildandi löggjöf og taka að verulegu leyti mið af nýrri tilskipun Evrópusambandsins. Fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða eru rýmkaðar, fjárfestingarsjóðir eru nýtt starfsleyfisskylt form sjóða um sameiginlega fjárfestingu, mælt er fyrir um einkarétt verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða til að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar, rekstrarfélög verðbréfasjóða fá starfsleyfi og verða fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002 og Fjármálaeftirlitið veitir og afturkallar starfsleyfi í stað viðskiptaráðherra.
    Fjármálaeftirlitið vakti á því athygli í umsögnum til efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki og frumvarp til laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði að líklegt væri að Fjármálaeftirlitið þyrfti að verja talsverðum tíma í innleiðingu löggjafarinnar og eftirlit með að breytt lög komist til framkvæmda. Hins vegar taldi Fjármálaeftirlitið ekki rétt, við áætlun rekstrarkostnaðar fyrir árið 2003, að hafa hliðsjón af frumvarpsdrögum sem ekki höfðu verið lögð fram á Alþingi og hlotið umfjöllun þar.
    Verkefni sem tengjast því að tryggja eftirfylgni við ný lagaákvæði eru af ýmsum toga. Að því er varðar lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, má nefna kynningu á lögunum gagnvart eftirlitsskyldum aðilum og svör við ýmiss konar fyrirspurnum um túlkun ákvæða og framkvæmd laganna. Enn fremur ber Fjármálaeftirlitinu að tryggja að fylgt sé ákvæðum til bráðabirgða sem snerta upptöku nýrra laga, setja reglur sem því er falið að setja samkvæmt lögunum og móta og setja leiðbeinandi tilmæli um framkvæmd tiltekinna ákvæða laganna. Þá þarf Fjármálaeftirlitið að móta verklag vegna nýrra verkefna sem því eru falin í lögunum. Má þar nefna verklag við veitingu og afturköllun starfsleyfa, en ákvarðanir um þetta voru áður í höndum viðskiptaráðherra. Í þessu sambandi þarf að móta verklag við nýjar heimildir til að afturkalla starfsleyfi að hluta. Þá þarf að setja reglur og kynna verklag við ákvarðanir um hærra eiginfjárhlutfall fyrir einstakar lánastofnanir. Að því er síðasta atriðið varðar hefur Fjármálaeftirlitið lagt mikla vinnu í mótun áhættumatskerfis fyrir lánastofnanir, en með því verður Fjármálaeftirlitinu unnt að gefa lánastofnunum einkunnir á grundvelli áhættumats sem nýta má við ákvörðun um eiginfjárhlutfall.
    Af verkefnum vegna laga nr. 32/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, má nefna veitingu starfsleyfa fyrir rekstrarfélög verðbréfasjóða sem nú teljast fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002. Móta þarf verklag við eftirlit með rekstrarfélögunum og sjóðum reknum af þeim samkvæmt nýjum lögum. Enn fremur ber Fjármálaeftirlitinu að taka afstöðu til þess hvort félög sem stunda fjárfestingar falli undir lögin og tryggja samræmda beitingu þeirra ákvæða. Að auki fer mikill tími í kynningu á nýjum lögum, túlkun á einstökum ákvæðum og önnur samskipti við þá aðila sem falla undir lögin.
    Framangreind vinna stendur nú yfir. Vinna við þessi verkefni á síðari hluta ársins 2002 og fyrri hluta ársins 2003 gefur til kynna aukið umfang í vinnu Fjármálaeftirlitsins. Gera má ráð fyrir að aukið umfang vegna þessa geti numið um einu ársverki á þessu ári. Það er mat Fjármálaeftirlitsins að sú þörf verði til staðar næstu tvö ár. Væntingar Fjármálaeftirlitsins standa hins vegar til þess að nýju lögin muni til lengri tíma stuðla að aukinni skilvirkni, bæði í starfsemi þeirra fyrirtækja sem undir lögin heyra og í eftirliti Fjármálaeftirlitsins.
    Til viðbótar við framangreint var frumvarp til nýrra laga um vátryggingarsamninga lagt fyrir Alþingi á vorþingi sem felur í sér viðamiklar breytingar á löggjöf í átt til aukinnar neytendaverndar.

2.2.     Tilskipanir Evrópusambandsins.
    Á vegum Evrópusambandsins eru frágengnar eða í undirbúningi allmargar tilskipanir sem varða fjármálamarkað. Rétt er að reifa helstu tilskipanir á þessu sviði.

Tilskipanir sem samþykktar hafa verið á síðustu tveimur árum og búið er að innleiða í íslenskan rétt:
     1.      Bankatilskipunin (2000/12/EB).
     2.      Ökutækjatryggingar (2000/26/EB).
     3.      Rafeyrir – breyting á bankatilskipun (2000/28/EB).
     4.      Rafeyrir – tilskipun um rafeyrisfyrirtæki (2000/46/EB).
     5.      Skipti á upplýsingum við þriðju lönd (2000/64/EB).
     6.      Slit vátryggingafélaga (2001/17/EB).
     7.      Tilskipun um kauphallir (2001/34/EB).
     8.      Peningaþvætti (2001/97/EB).
     9.      Verðbréfasjóðir – fjárfestingarheimildir (2001/107/EB).
     10.      Verðbréfasjóðir – rekstrarfélög (2001/108/EB).
     11.      Gjaldþol líftryggingafélaga (2002/12/EB).
     12.      Gjaldþol skaðatryggingafélaga (2002/13/EB).
    Lög hafa verið sett á Alþingi til innleiðingar allra þessara tilskipana. Í sumum tilvikum á eftir að setja reglugerð eða reglur um nánari framkvæmd. Í kafla 2.1 hér að framan hefur verið fjallað um áhrif nýrra laga um fjármálafyrirtæki og verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, en þar eru innleiddar þær tilskipanir sem mest áhrif geta haft á starf Fjármálaeftirlitsins.

Samþykktar eða væntanlegar tilskipanir á sviði verðbréfaviðskipta:
     1.      Markaðsmisnotkun (samþykkt 2003 – innleiðing 2004).
     2.      Útboðslýsing (samþykkt 2003 – innleiðing 2004–2005).
     3.      Verðbréfaþjónusta (væntanleg 2004 – innleiðing 2004–2005).
     4.      Upplýsingaskylda (væntanleg 2004 – innleiðing 2004–2005).
     5.      Yfirtökutilboð (væntanleg 2004 – innleiðing 2004–2005).
    Þessar tilskipanir eru hluti af svokölluðu Lamfallussy-ferli sem lýst er í kafla 1.2 hér að framan. Tilskipanirnar fimm eru almennar rammatilskipanir en á grunni þeirra mun framkvæmdastjórn ESB setja fjölmargar nánari reglur um framkvæmd þeirra með aðstoð sérstakra nefnda sem komið hefur verið á fót í þessu skyni. Erfitt er á þessu stigi að meta áhrif þessara tilskipana á umfang eftirlitsins. Ljóst er þó t.d. að lagabreytingar vegna tilskipunar um útboðslýsingar munu færa Fjármálaeftirlitinu aukna ábyrgð á skráningarlýsingum.

Samþykktar eða væntanlegar tilskipanir/reglugerðir á öðrum sviðum en verðbréfamarkaði:
     1.      Slit lánastofnana (samþykkt 2001 – innleiðing 2004).
     2.      Færslur í evrum á milli landa (samþykkt 2001 – innleiðing 2004).
     3.      Fjarsala fjármálaþjónustu (samþykkt 2002 – innleiðing 2004).
     4.      Fjármálaveð (samþykkt 2002 – innleiðing 2003).
     5.      Lífeyrissjóðir (samþykkt 2003 – innleiðing 2004).
     6.      Vátryggingamiðlun (samþykkt 2002 – innleiðing 2003).
     7.      Fjármálasamsteypur (samþykkt 2003 – innleiðing 2004).
     8.      Upptaka reikningsskilastaðla Alþjóðareikningsskilaráðsins (reglugerð samþykkt 2002 – innleiðing 2004).
     9.      Nýjar Basel-reglur (væntanlegar 2004 – innleiðing 2006).

    Sumar framangreindra tilskipana munu hafa talsverða þýðingu fyrir umfang eftirlits. Langmesta þýðingu að þessu leyti hafa nýjar eiginfjárreglur (Basel-reglur), sem fjallað verður nánar um í kafla 2.3 hér á eftir, og upptaka reikningsskilastaðla Alþjóðareikningsskilaráðsins.
    Gert er ráð fyrir að reikningsskilastöðlum Alþjóðareikningsskilaráðsins verði beitt í reikningsskilum fyrir samstæðureikningsskil útgefenda skráðra verðbréfa vegna ársins 2005 og að innleiðingu reglnanna verði lokið á árinu 2004. Undirbúningur stendur nú yfir í löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins vegna þessa. Fyrir liggur að í mörgum ríkjum verður ábyrgð á innleiðingu og eftirliti með framkvæmd nýrra reglna lögð á fjármálaeftirlit. Ákvarðanir um tilhögun eftirlits vegna staðlanna hér á landi liggur ekki fyrir. Því er ekki hægt að meta áhrif þessa á umfang í starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Þó liggur fyrir að Fjármálaeftirlitið mun þurfa að huga að breytingum á reglum sem það setur um reikningsskil fyrirtækja á fjármálamarkaði. M.a. þarf að taka ákvörðun um hvort staðlarnir verði að einhverju leyti teknir upp vegna fjármálafyrirtækja sem ekki eru útgefendur skráðra verðbréfa.
    Ákvæði laga um vátryggingamiðlara eru í endurskoðun með tilliti til nýrrar tilskipunar. Tilskipunin styrkir réttarstöðu neytenda og gerir ráð fyrir skráningu og eftirliti með öllum þeim sem koma að sölu vátrygginga. Gera má ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið muni hafa auknu hlutverki að gegna vegna þessa.

2.3.     Nýjar eiginfjárreglur.
    Á alþjóðlegum vettvangi hefur undanfarin ár verið unnið að nýjum eiginfjárreglum fyrir banka sem munu koma í stað Basel-reglnanna á þessu sviði frá árinu 1988. Gert er ráð fyrir að nýju reglurnar muni liggja endanlega fyrir seint á árinu 2003 af hálfu Basel-nefndarinnar um bankaeftirlit og snemma á árinu 2004 af hálfu Evrópusambandsins. Áætlað er að gildistaka nýju reglnanna verði í árslok 2006. Þær reglur sem settar verða af hálfu ESB munu gilda fyrir allar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið hefur fylgst með þessari vinnu og tekið þátt í henni bæði á Evrópuvettvangi og á vettvangi norræns samstarfs. Nýju reglurnar munu byggjast á þremur stoðum, sbr. eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er stoð 1 sem felur í sér breytingar á útreikningi áhættugrunns með hliðsjón af nákvæmari mælingum á áhættum í starfsemi fjármálafyrirtækja en gert er samkvæmt núverandi reglum. Í aðalatriðum verður boðið upp á tvær leiðir í þessu sambandi. Annars vegar er svonefnd stöðluð aðferð sem felur ekki í sér stórvægilegar breytingar frá núgildandi reglum, en hins vegar er um að ræða svonefnda innra mats aðferð sem felur í sér að eiginfjárþörf fjármálafyrirtækis verður reiknuð út á grundvelli innra mats fyrirtækisins á tilteknum áhættuþáttum og er m.a. miðað við söguleg gögn um vanskil útlána og vanskilalíkur og tilteknar forsendur um líkleg töp miðað við tiltekin vanskil. Innra mats aðferðin krefst umfangsmikillar upplýsingasöfnunar og greiningar af hálfu fjármálafyrirtækisins og innra eftirlitskerfis sem fá þarf nokkurs konar vottun frá viðkomandi fjármálaeftirliti. Ólíklegt er talið að aðrir en þrír stærstu bankarnir hér á landi muni beita innra mats aðferðinni og liggur ekki fyrir hvort né hvenær af því yrði.
    Í öðru lagi er stoð 2 sem er nýr þáttur í eiginfjárreglum sem felur í sér skyldu fjármálaeftirlita til að leggja mat á hvort eiginfjárhlutfall sérhvers fjármálafyrirtækis sé fullnægjandi með hliðsjón af áhættustigi viðkomandi fyrirtækis og er í því sambandi m.a. gert ráð fyrir að fjármálaeftirlitin í hverju landi byggi upp áhættumatskerfi sem gefi hverju sinni til kynna áhættustig og viðunandi innri eftirlitsaðgerðir hjá sérhverju fjármálafyrirtæki. Slíkt áhættumatskerfi yrði grundvöllur fyrir ákvarðanir um hærra lágmarkseiginfjárhlutfall hjá einstökum fyrirtækjum en lögbundið lágmark kveður á um. Þetta mat fjármálaeftirlita á áhættustigi og innra eftirliti hjá fjármálafyrirtækjum þarf að fara fram að lágmarki árlega. Stoð 2 gerir enn fremur ráð fyrir að hvert og eitt fjármálafyrirtæki leggi eigið mat á lágmarkseiginfjárþörf miðað við áhættustig og innra eftirlit og að fjármálaeftirlit viðkomandi ríkis yfirfari það mat. Fjármálaeftirlitið hefur að hluta til hafið undirbúning að þessu, m.a. í tengslum við heimildir eftirlitsins til að ákveða hærri eiginfjárhlutföll samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, sbr. umfjöllun hér að framan.
    Í þriðja lagi er um að ræða stoð 3 sem felur í sér aukið markaðsaðhald, þ.e. gerðar verða kröfur um aukna upplýsingagjöf, t.d. í reikningsskilum um áhættur í starfsemi fjármálafyrirtækja, þannig að fjárfestar og lánveitendur hafa betri forsendur en áður til að leggja mat á áhættur sem felast í starfsemi viðkomandi fjármálafyrirtækja. Þessi þáttur skarast að einhverju leyti við fyrirhugaða innleiðingu á reikningsskilastöðlum Alþjóðareikningsskilaráðsins fyrir skráð fyrirtæki hér á landi frá og með árinu 2005.
    Eins og framangreind lýsing ber með sér munu hinar nýju eiginfjárreglur hafa í för með sér ýmsar breytingar sem augljóslega kalla á aukinn starfskraft af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Vinna við að innleiða nýjar tilskipanir á þessu sviði í reglur hér á landi hefst af fullum þunga í byrjun árs 2004. Á þessu stigi er ljóst að stoð 2 mun hafa í för með sér bæði aukna vinnu og breyttar áherslur í framkvæmd eftirlits með fjármálafyrirtækjum og á það bæði við um eftirlit á vettvangi (on-site eftirlit) og utan starfsstöðvar (off-site eftirlit). Hvað varðar áðurnefnda stoð 1 skiptir máli við mat á starfmannaþörf hvort einstakir bankar munu velja að beita svonefndri innra mats aðferð en það er ekki ljóst á þessu stigi. Ef sú aðferð yrði valin af einum eða fleiri bönkum hér á landi þyrfti að mæta því af hálfu Fjármálaeftirlitsins með auknum starfskrafti og hugsanlega einnig í aðkeyptri sérfræðiþjónustu. Þriðja stoðin, sem nefnd var hér á undan mun ein og sér ekki hafa umtalsverð áhrif við mat á starfsmannaþörf.
    Nær allar erlendar systurstofnanir sem Fjármálaeftirlitið er í samstarfi við gera ráð fyrir umtalsverðri fjölgun starfsfólks í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á eiginfjárreglum og hefur sú fjölgun í mörgum tilvikum þegar komið til framkvæmda, a.m.k. að hluta.

3.     Starfsemi Fjármálaeftirlitsins.
3.1.     Verkefni Fjármálaeftirlitsins – starfstilhögun.
    Verkefni Fjármálaeftirlitsins eru af mjög fjölbreyttum toga. Fjármálaeftirlitið sinnir reglubundinni gagnasöfnun, eftirliti á grundvelli hennar og miðlun samandreginna upplýsinga um fjármálamarkaðinn sem nýst geta í almennu markaðsaðhaldi. Eftirlitið veitir og afturkallar starfsleyfi eða veitir umsagnir um slíkar ákvarðanir, veitir samþykki fyrir öflun virkra eignarhluta og staðfestir ýmsar reglur og aðgerðir sem miklu varða á fjármálamarkaði. Það framkvæmir úttektir eða kannanir á hópi eftirlitsskyldra aðila eða athuganir á vettvangi hjá einstökum fyrirtækjum. Eftirlitið gefur út almenn leiðbeinandi tilmæli, setur reglur sem því er falið að setja samkvæmt lögum og stendur að ýmiss konar kynningarstarfi, m.a. með rekstri heimasíðu, útgáfu upplýsinga um eftirlitsskylda aðila og ársskýrslu. Einnig sinnir eftirlitið fyrirspurnum, innlendum sem erlendum, og tekur við kvörtunarmálum sem ekki eru tæk í úrskurðarnefndir sem Fjármálaeftirlitið vistar. Þá tekur Fjármálaeftirlitið þátt í samstarfi fjármálaeftirlita, einkum á norrænum og evrópskum vettvangi.
    Meginhlutverk Fjármálaeftirlitsins er að takmarka hættuna á áföllum á fjármálamarkaði eða mistökum í starfsemi eftirlitsskyldra aðila. Erfitt er að meta árangur af starfi Fjármálaeftirlitsins þar sem hann verður fyrst og fremst mældur í þeim áföllum og mistökum sem í stefnir en unnt er að koma í veg fyrir í tíma.

    Fjármálaeftirlitið sinnir þessu meginhlutverki sínu einkum með svokölluðu frumkvæðiseftirliti, þ.e. athugunum og öðrum verkefnum sem Fjármálaeftirlitið ákveður sjálft að ráðast í.
    Mikilvægasti þáttur þessa frumkvæðiseftirlits er eftirlit á vettvangi (on-site). Fjármálaeftirlitið fer þá á starfsstöð fjármálafyrirtækis, aflar þar gagna og upplýsinga frá stjórnendum og starfsmönnum. Niðurstöður athugunar og eftir atvikum kröfur um úrbætur eru síðan settar fram í skýrslum. Mörg dæmi eru þess frá undangengum árum að slíkar athuganir hafi leitt í ljós veikleika í starfsemi fyrirtækja sem ráðrúm reyndist til að bæta úr, en hefðu ella getað skaðað alvarlega hagsmuni viðskiptamanna. Dæmi um athuganir af þessu tagi eru athuganir á útlánagæðum og afskriftaþörf lánastofnana. Kröfur Fjármálaeftirlitsins um aukin afskriftaframlög hafa í allmörgum tilvikum leitt í ljós slaka eiginfjárstöðu lánastofnunar sem brugðist hefur verið við með endurskipulagningu.
    Fjármálaeftirlit í nágrannalöndunum leggja mikla áherslu á þennan þátt í starfi sínu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur enn fremur lagt áherslu á vettvangseftirlit í úttektum sínum á eftirlitinu hér á landi. Fjármálaeftirlitið hefur leitast við að styrkja vettvangseftirlitið en engu síður er það mat eftirlitsins að styrkja þurfi þessa starfsemi enn frekar, einkum á lífeyrismarkaði. Áætla má að um 6–12% af þeim tíma sem Fjármálaeftirlitið hefur til ráðstöfunar sé varið í vettvangseftirlit.
    Stór þáttur í starfi Fjármálaeftirlitsins er hins vegar að sinna þjónustuhlutverki gagnvart eftirlitsskyldum aðilum og viðskiptamönnum þeirra. Fjármálaeftirlitið afgreiðir árlega mikinn fjölda erinda sem því berast. Um er að ræða umsóknir um leyfi og beiðnir um staðfestingar af ýmsum toga, beiðnir um túlkun laga, kvartanir frá viðskiptamönnum eftirlitsskyldra aðila og ýmiss konar fyrirspurnir. Nefna má að á fyrri hluta ársins 2003 voru til meðferðar yfir 360 formleg erindi af þessu tagi. Áætla má að um 20% af þeim tíma sem Fjármálaeftirlitið hefur til ráðstöfunar sé varið í þessi verkefni.
    Eftirlitið leggur áherslu á greiða málsmeðferð þessara mála og hefur sett leiðbeiningar um málsmeðferð og málshraða í því skyni.
    Afar mikilvægt er að Fjármálaeftirlitið sé í stöðu til að ráðstafa nægum hluta af tíma sínum í frumkvæðisverkefni sem áður eru nefnd. Fjármálaeftirlitið býr í starfsemi sinni við þá áhættu að þurfa að úthluta svo miklum hluta tíma síns í afgreiðslu erinda af ýmsu tagi að það hafi ekki nægilegan tíma aflögu til þess að sinna frumkvæðiseftirliti. Brugðist hefur verið við þessari áhættu með því að vinna fyrir hvert ár áætlun fyrir sérstök verkefni, þ.e. verkefni sem eftirlitið ákveður á grundvelli forgangsröðunar og fyrirbyggjandi eftirlits að sinna. Veigamesti verkefnaflokkurinn sem fellur hér undir er eftirlit á vettvangi (on-site), en aðrir verkefnaflokkar eru úttektir og kannanir (off-site), mótun tilmæla og reglna, mótun eftirlits og rekstur/skipulag. Fjármálaeftirlitið hefur sett sér það markmið að verja um 30% af ráðstöfunartíma sínum í þessa verkáætlun. Það hlutfall hefur þó hingað til verið lægra.

3.2.     Markmið Fjármálaeftirlitsins í starfsmannamálum.
    Innra skipulag og stefnumótun Fjármálaeftirlitsins í starfsmannamálum hefur grundvallast á tilteknum meginmarkmiðum. Rétt er að reifa markmiðin og aðgerðir til að ná þeim. Markmiðin eru þessi:
     1.      Að í Fjármálaeftirlitinu sé á hverjum tíma til staðar nægur fjöldi sérfræðinga og annars starfsfólks, með nægilega fjölbreytta þekkingu og bakgrunn til þess að leysa af hendi þau verkefni sem Fjármálaeftirlitinu hafa verið falin.
                  Í Fjármálaeftirlitinu eru föst stöðugildi nú tæplega 33 en meðalstöðugildi 34 þegar lausráðnir og sumarfólk er talið með. Eftirfarandi tafla sýnir þróun í starfsmannafjölda frá árinu 1995 (meðaltalsstöðugildi), en tölur fyrir árin 1995 og 1998 sýna samtölu starfsmanna í Vátryggingaeftirlitinu og bankaeftirliti Seðlabanka Íslands auk hlutdeildar bankaeftirlitsins í stoðþjónustu og yfirstjórn Seðlabanka Íslands.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


*) Tölur frá 1995 og 1998 eru árslokatölur vegna bankaeftirlits
Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirlitsins.

         Samsetning Fjármálaeftirlitsins nú eftir menntun er eftirfarandi:
        Viðskiptafræðileg menntun     45%
        Lögfræðingar     25%
        Tryggingastærðfræðingar:       6%
        Tölvunarfræðingar:       6%
        Skrifstofufólk, aðrir:     18%
                  Rúmlega 60% starfsmanna hafa starfað í Fjármálaeftirlitinu og forverum þess í meira en tvö ár, samanborið við rúmlega 50% á árinu 2001. Hlutfall starfsmanna með minni starfsreynslu í Fjármálaeftirlitinu en tvö ár gefur að einhverju leyti vísbendingu um að vænta megi meiri afkasta með óbreyttum starfsmannafjölda. Á móti kemur að Fjármálaeftirlitið hefur gripið til ýmissa ráða til að auðvelda starfsfólki að ná snemma góðum afköstum, t.d. með því að reka markvissa símenntunarstefnu. Þá hefur Fjármálaeftirlitinu auðnast að viða að sér víðtækri reynslu og menntun með nýráðningum. Flestir þeirra starfsmanna sem ráðnir hafa verið eru með framhaldsmenntun og/eða starfsreynslu hérlendis eða erlendis sem nýtist Fjármálaeftirlitinu vel.
                  Meðalaldur starfsmanna er nú rúmlega 41 ár. Starfsmannavelta á árinu 2001 nam um 7% en um 11% á árinu 2002.
                  Fjármálaeftirlitið hefur unnið markvisst að því að tryggja að það búi að fjölbreyttum og hæfum hópi starfsmanna sem dugi til þess að leysa af hendi þau verkefni sem Fjármálaeftirlitinu hafa verið falin. Smæð eftirlitsins felur hins vegar í sér talsverða áhættu. Fjölbreytileiki þeirra verkefna sem Fjármálaeftirlitinu er ætlað að sinna gerir það að verkum að sérhæfing og yfirsýn yfir tiltekið málefni er jafnan bundin við einn einstakan starfsmann en ekki tvo starfsmenn eða hóp starfsmanna. Af því leiðir að þegar starfsmaður lætur af störfum er hætta á að þekking og yfirsýn á tilteknu sviði glatist Fjármálaeftirlitinu þar til annar starfsmaður hefur náð tökum á verkefninu. Reynt er að bregðast við þessu með sveigjanlegu skipulagi og uppbyggingu gæðahandbókar þar sem haldið er til haga verklýsingum og gátlistum.
     2.      Að gefnu því að fyrrgreint markmið sé uppfyllt beri að halda stærð stofnunarinnar innan ákveðinna marka, þar sem smærri einingar gefi færi á sveigjanlegra skipulagi, einfaldari rekstri og meiri skilvirkni.
                  Það hefur verið og er álit Fjármálaeftirlitsins að æskilegt sé að halda stærð stofnunarinnar innan ákveðinna marka að því gefnu að henni auðnist engu síður að sinna þeim verkefnum sem henni eru falin. Innra skipulag Fjármálaeftirlitsins miðar að þessu. Nefna má eftirfarandi í því sambandi:
                  –      Stjórnskipulag þar sem áhersla er lögð á að þekking og reynsla sem starfsmenn búa yfir njóti sín og að auðvelt sé að nýta hana í þeim verkefnum sem liggja fyrir hverju sinni. Sérfræðingum og starfsmönnum er ekki markaður sérstaklega starfsvettvangur á tilteknu sviði fjármálastarfsemi heldur vinna þeir á þeim sviðum þar sem þekking þeirra nýtist. Sjá nánar lýsingu á skipulagi á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.
                  –      Þróað hefur verið verkáætlunarkerfi sem ætlað er að tryggja eðlilega forgangsröðun verkefna og jafnframt að Fjármálaeftirlitið ráðstafi nauðsynlegum tíma til frumkvæðisverkefna.
                  –      Settar hafa verið leiðbeiningar um málsmeðferð sem ætlað er að tryggja rétta meðhöndlun verkefna og eðlilegan málshraða.
                  –      Unnin hefur verið gæðahandbók á innra neti Fjármálaeftirlitsins sem hefur að geyma verklýsingar og gátlista sem varða helstu verkefni eftirlitsins.
                  –      Starfsemi Fjármálaeftirlitsins byggist á málaskráningarkerfi sem m.a. felur í sér tímaskráningu einstakra verkefna. Þessi kerfi eru nýtt í verkstjórnun innan eftirlitsins og styðja við hagræðingu og hagkvæmni í störfum.
                  –      Fjármálaeftirlitið rekur markvissa símenntunarstefnu sem ætlað er að flýta þekkingaröflun starfsmanna og stuðla að því að Fjármálaeftirlitið búi yfir þeirri þekkingu sem því er nauðsynleg til að sinna verkefnum sínum.
                  Ætla má að veruleg fjölgun starfsmanna í Fjármálaeftirlitinu myndi kalla á breytingar á skipulagi stofnunarinnar. Þannig yrði nauðsynlegt að taka upp hefðbundnara skipulag með meiri deildaskiptingu og auknu utanumhaldi.
     3.      Að leitað verði leiða til að bregðast við auknu umfangi eftirlits og nýjum verkefnum með fleiri ráðum en fjölgun fastráðinna starfsmanna.
                  Að mati Fjármálaeftirlitsins er það galli á starfsumhverfi þess að starfsmannamál eftirlitsins lúti ekki sömu reglum og gilda í þeim fyrirtækjum sem það hefur eftirlit með og það keppir við um starfsfólk. Í því sambandi má nefna að fastráðinn starfsmaður í Fjármálaeftirlitinu hefur aðra réttarstöðu, samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, en starfsmenn fyrirtækja á fjármálamarkaði. Sveigjanleiki í stærð eftirlitsins er t.d. minni en fyrirtækja á fjármálamarkaði þar sem aðrar reglur gilda um uppsagnir starfsfólks. Fjármálaeftirlitið á því erfiðara með að bregðast við sveiflum á fjármálamarkaði og í verkefnum í eftirliti. Að sama skapi er fastráðning nýrra starfsmanna líkleg til að afmarka stærð eftirlitsins til lengri tíma en ella.
                  Fjármálaeftirlitið hefur hugað að úrræðum til að bregðast við þessu. Í skýrslu síðasta árs um rekstur Fjármálaeftirlitsins til þriggja ára var nefnt að rýmri heimildir til að fela utanaðkomandi óháðum aðilum tiltekin verk sem tengjast eftirliti komi vel til greina. Huga megi t.d. að því að rýmka heimildir Fjármálaeftirlitsins til þess að óska eftir úttektum óháðra aðila á tilteknum þáttum í starfsemi fjármálafyrirtækis á kostnað þess. Fjármálaeftirlitið lýsti sig reiðubúið til að kanna möguleika á að mæta hugsanlegum auknum kröfum um eftirlit með útboðum verðbréfa með svipuðum hætti.
                  Fjármálaeftirlitið hefur leitað óformlega viðhorfa nokkurra systurstofnana varðandi nýtingu á aðkeyptri þjónustu í einstökum verkefnum. Af þeim viðhorfum má ráða að aðkeypt þjónusta geti nýst í mjög afmörkuðum verkefnum. Hins vegar hafi reynsla sýnt eftirfarandi ókosti:
                  –      Aðkeypt þjónusta frá hæfum sérfræðingum er afar kostnaðarsöm.
                  –      Minni þekking og reynsla hlýst af verkefninu innan eftirlitsstofnunarinnar.
                  –      Erfiðara er að skapa fordæmi og gæta jafnræðis í málsmeðferð og úrlausnum.
                  –      Sá sem sinnir hinni aðkeyptu þjónustu hefur ekki sömu aðstöðu og yfirsýn og sérfræðingar eftirlitsins og skynjar hlutverk sitt á annan hátt. Hætta er því á að þjónustan verði önnur en um var beðið og skili því síður árangri.
                  Með hliðsjón af framansögðu hefur Fjármálaeftirlitið hugað að fleiri leiðum í átt að hinu setta markmiði. Ein þeirra gæti verið að Fjármálaeftirlitið ráði tímabundið sérfræðinga úr hópi starfandi endurskoðenda, lögfræðinga eða annarra sem almennt sinna ráðgjöf og hafa eftirsóknarverða starfsreynslu. Fjármálaeftirlitið væri þá í stakk búið til að bjóða slíkum sérfræðingum starf, kjör og aðstöðu til að starfa í Fjármálaeftirlitinu í fyrir fram ákveðinn tíma í leyfi frá sínu fasta starfi. Þessi leið hefur eftirfarandi kosti:
                  –      Fjármálaeftirlitið fær aðgang að þekkingu og starfsreynslu sem að einhverju leyti sæti eftir í gegnum samstarf við hinn utanaðkomandi sérfræðing.
                  –      Sérfræðingurinn yrði í betri aðstöðu til að sinna þeim verkefnum sem hann væri fenginn til, heldur en sérfræðingur sem tekur að sér hefðbundna aðkeypta þjónustu.
                  –      Að líkindum fengi Fjármálaeftirlitið meira vinnuframlag með hlutfallslega minni kostnaði.
                  –      Fjármálaeftirlitið hefði ekki bætt við sig föstum starfsmanni. Þannig væri kostur á meiri sveigjanleika í stærð eftirlitsins frá einum tíma til annars.
                  Fjármálaeftirlitið mun áfram huga að útfærslu þessara valkosta.
     4.      Að tryggja hámarksafköst starfsmanna.
                  Þau atriði sem rakin eru í markmiði 2 hér að framan miða öðru fremur að þessu. Fjármálaeftirlitið telur að eftirfylgni við framangreint markmið hafi skilað góðum afköstum þeirra sem nú starfa í eftirlitinu. Jafnframt nýtir Fjármálaeftirlitið vel þá þekkingu og reynslu sem starfsmenn þess búa yfir.
     5.      Að Fjármálaeftirlitið sé samkeppnishæft í starfsmannamálum.
                  Fjármálaeftirlitið hefur lagt á það ríka áherslu að vanda val nýrra starfsmanna. FME hefur keypt þjónustu ráðningarstofu í þessu skyni og um leið leitast við að markaðssetja sig sem eftirsóknarverðan vinnustað. Áhersla hefur verið lögð á að skapa gott vinnuumhverfi þar sem m.a. er lögð áhersla á fjölbreytni í starfi og símenntun.

4.     Rekstur Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár – samantekt og niðurstöður.
    Hér að framan hefur verið lýst þróun eftirlits hér á landi og í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við, fjallað um innri starfsemi Fjármálaeftirlitsins og nýlegar og fyrirsjáanlegar breytingar á lagaumhverfi. Af framangreindri umfjöllun má draga saman eftirfarandi meginniðurstöður:
          Við þróun opinbers eftirlits á fjármálamarkaði er nauðsynlegt að horfa til aðstæðna hér á landi, en um leið gæta þess að lagaumgjörð og eftirlit hér á landi standist þær kröfur sem gerðar eru á alþjóðlegum vettvangi. Athuganir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa m.a. annars miðað að því að ganga úr skugga um stöðu Fjármálaeftirlitsins með tilliti til aðstæðna hér og eftirfylgni við alþjóðlegar grunnreglur. Endurskipulagning eftirlitssamstarfs á Evrópska efnahagssvæðinu miðar einnig að aukinni samræmingu. Samanburður við nágrannalönd bendir til þess að fjármálaeftirlit hér sé að þróast með svipuðum hætti og víðast annars staðar.
          Nýlegar lagabreytingar munu hafa í för með sér aukið umfang í starfsemi eftirlitsins. Væntingar standa til þess að þær breytingar séu tímabundnar og að lagabreytingarnar stuðli að aukinni skilvirkni fjármálamarkaðar og eftirlits til lengri tíma.
          Fyrirsjáanlegar lagabreytingar munu einnig hafa í för með sér aukið umfang eftirlits. Breytingar á eiginfjárreglum (Basel-reglur) kalla á aukinn starfskraft. Upptaka reikningsskilastaðla Alþjóðareikningsskilaráðsins, breytingar á eftirliti með sölu vátrygginga, ráðgjöf og miðlun, og breytingar vegna nýrra og væntanlegra tilskipana á verðbréfasviði munu einnig hafa áhrif á rekstur Fjármálaeftirlitsins. Erfitt er hins vegar að leggja nákvæmt mat á áhrifin á þessu stigi.
          Innra skipulag, markmið í rekstri og eftirfylgni við þau hafa miðað að því að nýta sem best þá fjármuni sem Fjármálaeftirlitið hefur til ráðstöfunar. Fjármálaeftirlitið telur að því hafi tekist að nýta eins vel og kostur er þá þekkingu og reynslu sem til staðar er. Ekki er svigrúm til að mæta auknu umfangi í starfsemi Fjármálaeftirlitsins með óbreyttum starfsmannafjölda. Fjármálaeftirlitinu er nauðsynlegt að hafa svigrúm til að halda í horfi frumkvæðiseftirliti og auka á sumum sviðum, einkum eftirlit á vettvangi (on-site), en hætta er á að aukin verkefni með nýrri löggjöf komi niður á þeim þætti starfseminnar.
    Með hliðsjón af framangreindu er það mat Fjármálaeftirlitsins að mæta þurfi auknu umfangi í starfsemi eftirlitsins með auknum starfskrafti á árinu 2004. Sú þörf nemur að mati Fjármálaeftirlitsins um einu og hálfu ársverki.
    Þegar horft er til næstu þriggja ára telur Fjármálaeftirlitið líkur á auknu umfangi í eftirliti. Ótímabært er hins vegar að leggja nákvæmara mat á þörfina til lengri tíma en eins árs.
    Fái Fjármálaeftirlitið svigrúm til fjölgunar ársverka mun það nýta það án fjölgunar fastráðinna starfsmanna, í samræmi við umfjöllun eftirlitsins um rekstur til næstu þriggja ára sem birt var með rekstraráætlun á síðasta ári og í samræmi við umfjöllun í kafla 3.2 hér að framan.



Fylgiskjal II.

Álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á
rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2004.


    Meðfylgjandi er álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999 og 4. gr. rgl. nr. 562/2001, við rekstraráætlun FME fyrir árið 2004 og skýrslu FME til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað, en endanleg rekstraráætlun og skýrsla um hana voru send nefndinni 5. september sl.
     Samráðsnefndin hefur frá því að hún var sett á stofn leitast við að setja fram málefnalega gagnrýni á þær rekstraráætlanir FME sem henni hafa verið kynntar á haustin, enda hlutverk nefndarinnar að veita nauðsynlegt kostnaðaraðhald á eftirliti með fjármálastarfsemi. Þetta hlutverk nefndarinnar er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að á sviði fjármálastarfsemi er eftirlitsstarfsemin greidd af fyrirtækjunum sjálfum, en ekki ríkinu eins og almennt tíðkast. Hlutverki samráðsnefndarinnar má þannig jafna við aðhaldshlutverk fjármálaráðuneytis og Alþingis hvað varðar útgjöld til annarra opinberra eftirlitsstofnana á fjárlögum hvers árs.
    FME hefur ekkert tillit tekið til þeirra málefnalegu ábendinga samráðsnefndar, sem fram komu í minnisblaði hennar, dags. 29. ágúst, við drög að rekstraráætluninni. Það er samráðsnefndinni mikilvægt að sem best samstarf haldist milli hennar og FME, en ljóst er að skörð verða hoggin í þá taug ef það verður hefðbundið verklag FME að horfa ekki að neinu leyti til þeirra ábendinga sem nefndin setur við rekstraráætlanir þess. Með hliðsjón af þessu telur samráðsnefnd rétt að birta aftur í þessu formlega áliti sínu flestar þær ábendingar sem komu fram í minnisblaðinu.
    Samráðsnefnd telur mikilvægt að horft sé til þess að stjórnsýslulegt hlutverk FME hefur stöðugt verið að aukast síðustu árin, nú síðast með tilfærslu starfsleyfisveitinga frá ráðherra til FME, sbr. lög nr. 161/2002. Þessi aukna stjórnsýslustarfsemi hlýtur að koma niður á þeim tíma sem FME hefur til raunverulegra eftirlitsstarfa. Einmitt af þeim sökum telur samráðsnefnd tímabært að löggjafinn hugi að því hvort ekki sé rétt að breyta lögum nr. 99/1999 og kveða afdráttarlaust á um að hið opinbera taki á sig fjármögnun á þeim þáttum sem lúta að hreinni stjórnsýslu og störfum FME í tengslum við laga- og reglusetningu, meðal annars hvað alþjóðasamstarf varðar, en eftirlitsskyldir aðilar greiði eftir sem áður fyrir hið raunverulega eftirlit sem FME hefur með höndum. Það er raunar skoðun samráðsnefndar að ætlun löggjafans hafi verið sú að þannig skyldi þessu háttað þegar lög nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, voru sett. Þar segir í 1. gr. að markmið laganna sé að stuðla að því að fjármálstarfsemi sem lögin taki til sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur, og samþykktir sem hverju sinni gilda um starfsemina. Þetta meginmarkmið er skýrt frekar í lögunum sjálfum, þá sérstaklega í 8. gr. Hvergi er hins vegar vikið að því umtalsverða stjórnsýsluhlutverki sem FME hefur smám saman verið að takast á hendur. Í samræmi við þetta verður að skýra 17. gr. laganna, sem fjallar um greiðslu eftirlitskostnaðar, þröngt þannig að eftirlitsskyldum aðilum sé einvörðungu ætlað að bera kostnað af sjálfu eftirlitsstarfinu og önnur verkefni sem FME hefur með höndum hljóti því að þurfa að fjármagna á annan hátt.


Rekstur ársins 2003.
     1.      FME gerir ráð fyrir samkvæmt endurskoðaðri áætlun að niðurstöðutala til ráðstöfunar á árinu 2003 verði 2,2% lægri en samþykkt áætlun gerði ráð fyrir. Er skýringin sögð þríþætt, þ.e. að sérfræðikostnaður hafi verið ofáætlaður sem og kostnaður vegna erlends samstarfs og að eignakaupum hafi verið slegið á frest. Á móti kemur að sérfræðikostnaður og annar launakostnaður í lok síðasta árs varð mun meiri en áætlað hafði verið, svo áætlaður tekjuafgangur 2002 upp á um 3,4 millj. kr. snerist í tekjutap upp á 1,3 millj. kr. Samráðsnefnd skilur vel að erfitt geti verið að áætla nákvæmlega fyrir slíkum hlutum en 4,7 millj. kr. sveifla tengd launalið er nokkuð há. Þá ber að hafa í huga að FME hefur heimild til að innheimta af eftirlitsskyldum aðilum sérstaklega ef umfang einstakra eftirlitsverkefna verður mun meira en eðlilegt getur talist.

Áætlaður rekstur 2004.
     2.      Í drögum að rekstraráætlun fyrir árið 2004 er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður hækki um 7,6% frá samþykktri rekstraráætlun ársins 2003 (8,5% frá endurskoðaðri áætlun).
     3.      Í greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir 2003 kom fram að FME stefndi ekki að fjölgun starfa á komandi árum heldur var ætlunin að nýta betur þann mannskap sem fyrir er. Í ljósi þess telur samráðsnefnd miður að strax ári síðar sé boðuð fjölgun upp á 1,5 stöðugildi eða um tæp 5%. Þar að auki kemur fram að þörf sé svigrúms til að ráða sumarstarfsmenn og námsfólk í tímabundin verkefni. Á grundvelli þessa og með hliðsjón af samningsbundnum launahækkunum áætlar FME hækkun launakostnaðar verða 8,3% árið 2004. Um frekari athugasemdir varðandi þetta vísast í lið 8 hér aftar.
     4.      Samkvæmt drögunum er kostnaður vegna erlends samstarfs og funda erlendis áætlaður verulega hærri en fyrir líðandi ár og það þrátt fyrir að ljóst sé að þessi liður var stórlega ofáætlaður vegna ársins 2003. Samráðsnefnd ítrekar sín fyrri sjónarmið um að FME haldi kostnaði af slíku samstarfi innan eðlilegra marka, enda hljóta mjög tíðar utanferðir að bitna á vinnu að lögbundnu eftirlitshlutverki hér heima. Þá telur samráðsnefnd að að svo miklu leyti sem þess konar samstarf tengist sjálfri reglusetningu markaðarins sé rétt að stjórnvöld beri kostnað af því á sama hátt og tíðkast um aðrar atvinnugreinar sem lúta eftirliti. Í því sambandi má sérstaklega hafa í huga að FME hefur ákveðið að taka þátt í vinnu og tilheyrandi kostnaði í samstarfi Evrópskra fjármálaeftirlita að mótun regluumgjarðar fjármálamarkaðarins í Evrópu á næstu árum. Samráðsnefndin telur sjálfboðið að íslensk stjórnvöld eigi að taka á sig þann kostnað, á sama hátt og greitt er fyrir sams konar alþjóðasamvinnu á öðrum sviðum. Vísast í því sambandi einnig til umfjöllunar í inngangi hér að framan. Hafa ber í huga að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis beindi því til viðskiptaráðuneytis í nefndaráliti sínu um 359. þingmál á síðasta löggjafarþingi að reikna nákvæmlega út hver kostnaður FME af auknu umfangi í Evrópuvinnu yrði í tengslum við framlagningu frumvarps um breytingu hundraðshluta eftlirlitsgjalds sem lagt væri fyrir næsta löggjafarþing.
     5.      Samráðsnefnd hefur undanfarin ár gagnrýnt harðlega há stjórnarlaun sem greidd eru til stjórnar FME. Eins og fram kemur í greinargerð með drögunum er það ráðherra sem ákveður þau. Tímabært er að færa stjórnarlaun í þessari stofnun til samræmis við það sem almennt tíðkast hjá öðrum opinberum stofnunum. Þá er jafnljóst að sú viðtekna venja að boða varamenn til allra stjórnarfunda gengur gegn lýðræðislegum stjórnarháttum og ótækt að halda slíkri stefnu áfram.

Rekstraráætlun til þriggja ára.
     6.      Með fjárhagsdrögunum fylgir ítarleg greinargerð um rekstur og starfsumhverfi FME næstu þrjú ár. Samráðsnefndin fagnar mjög því fylgiskjali, bæði í ljósi þeirra víðtæku upplýsinga sem það veitir um reksturinn og þróun hans sem og í ljósi vandaðrar markmiðssetningar í starfsmannamálum sem það inniheldur (kafli 3.2). Þar kemur fram að mikilvægt sé að halda stærð stofnunarinnar innan tiltekinna marka, þar sem smærri einingar gefi færi á sveigjanlegra skipulagi, einfaldari rekstri og meiri skilvirkni, sem og að leita þurfi leiða til að bregðast við auknu umfangi og nýjum verkefnum með öðrum ráðum en fjölgun fastráðinna starfsmanna.
     7.      Í greinargerðinni er m.a. mikið fjallað um áætlað mat FME á áhrifum nýrra og væntanlegra laga og EB- og alþjóðareglna á umfang eftirlitsstarfseminnar. Gott er að hafa slíka úttekt til hliðsjónar þótt skiptar skoðanir geti verið um raunveruleg áhrif í umfangi sem og með hvaða hætti auknu álagi verði best mætt. Samráðsnefndin ítrekar þó í því efni ummæli sín frá síðasta ári um að nú þegar starfsemi hinnar nýju stofnunar hefur slitið barnskónum leiði aukin reynsla starfsfólks til meiri skilvirkni sem ætti að óbreyttu að gefa kost á fækkun, fremur en fjölgun. Í ljósi þess sé ekki ástæða til að ætla að eitthvað breytt umfang, með breytingum á lögum og alþjóðasáttmálum, eigi að þrýsta á um fjölgun starfsmanna. Markmiðsstefna FME í starfsmannamálum, sbr. lið 7 í greinargerðinni, styður þessa skoðun.

Skipting eftirlitsgjaldsins.
     8.      FME hefur á árinu kynnt samráðsnefndinni gróflega hvernig tímaskiptingu eftirlits vegna einstakra þátta fjármálastarfsemi er háttað. Mikilvægt er að reyna að áætla þá skiptingu sem best þannig að kostnaður greiðist í réttu hlutfalli af þeim tíma sem FME ver með einstökum geirum á þessum markaði. Ætla verður að yfirsýn FME í þessum efnum eigi eftir að aukast enn frekar á næstu missirum og þá er mikilvægt að huga að breytingum á skiptingu eftirlitsgjaldsins samhliða.
     9.      Fram kemur að ætlunin sé að hækka lágmarksgjald verðbréfafyrirtækja til samræmis við það sem gildir um viðskiptabanka, sparisjóði og lánafyrirtæki (400.000 kr.). Samráðsnefnd ítrekar það sem áður hefur komið fram í fyrri greinargerðum hennar að gæta verði að því að lágmarksgjald vegna eftirlits verði aldrei svo hátt að það komi í veg fyrir rekstur smæstu fyrirtækjanna. Kostnaðarhlutur eftirlits- og Kauphallargjalda hjá minnstu verðbréfafyrirtækjunum er þegar mjög hár ef horft er til stærri fyrirtækjanna til samanburðar. Mikilvægt er því að stíga varlega til jarðar í þessum efnum og að slík hækkun verði einungis framkvæmd ef FME er eindregið þeirrar skoðunar að bersýnilegt sé að aukið umfang með þessari starfsemi sé slíkt að ekki verði staðið á öðru.
     10.      Loks verður ekki hjá því komist að vekja athygli á hversu lítinn hluta af heildarkostnaðinum stærsti aðilinn á lánamarkaði einstaklinga í landinu, húsbréfadeild Íbúðalánasjóðs, er að greiða til eftirlits. Samráðsnefndin er ekki í stöðu til að meta hvort umfang eftirlits með sjóðnum hefur verið jafnlítið og eftirlitskostnaðurinn ber með sér, en kemst ekki hjá því að álykta að varla geti verið minni ástæða til virks eftirlits með þeirri lánastarfsemi en með lánastarfsemi annarra fjármálafyrirtækja í landinu. Að sama skapi telur samráðsnefnd hlut Nýsköpunarsjóðs í greiðslu eftirlitskostnaðarins hverfandi þótt eðli rekstrarins gegnum áhættusamar lánveitingar sé með þeim hætti að ætla verði að öflugt aðhald af hálfu FME sé nauðsynlegt.

Reykjavík, 12. september 2003.

Guðjón Rúnarsson,
formaður samráðsnefndar.





Fylgiskjal III.


Skýrsla til viðskiptaráðherra um starfsemi Fjármálaeftirlitsins
frá 1. júlí 2002 til 30. júní 2003, sbr. 16. gr. laga nr. 87/1998,
um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
(Október 2003.)

1. YFIRLIT YFIR STARFSEMINA 1. JÚLÍ 2002 TIL 30. JÚNÍ 2003
    Í þessum kafla er almenn lýsing á starfsemi Fjármálaeftirlitsins á tímabilinu 1. júlí 2002 til 30. júní 2003 auk þess sem vikið er að málum sem til meðferðar hafa verið fram að útgáfu skýrslunnar. Frásögn af starfseminni gefur til kynna hvernig Fjármálaeftirlitið hefur fylgt eftir stefnumörkun og áherslum sem fjallað var um í 3. kafla skýrslunnar til viðskiptaráðherra á síðasta ári.

1.1.    Stuðningur við stjórnir fyrirtækja á fjármálamarkaði – kynning og upplýsingamiðlun.
     Áherslur á tímabilinu: Aukin upplýsingamiðlun og samskipti við stjórnir. Kynningarfundir með stjórnarmönnum. Eftirlit með áhættustýringu og innra eftirliti.
    Fjármálaeftirlitið hefur á tímabilinu átt fundi með fjölmörgum stjórnum og stjórnarmönnum fyrirtækja á fjármálamarkaði. Síðari hluta ársins 2002 og fyrri hluta ársins 2003 sótti Fjármálaeftirlitið stjórnarfundi hjá 11 lífeyrissjóðum sem reknir eru af viðskiptabönkum. Tilgangur heimsóknanna var einkum að undirstrika það brýna hlutverk stjórnar að gæta hagsmuna sjóðfélaga gagnvart öðrum hagsmunum sem óhjákvæmilega felast í starfsemi þeirra fjármálafyrirtækja sem tekist hafa á hendur rekstur viðkomandi sjóða. Á fundunum var sérstaklega farið yfir þau tæki sem stjórnir hafa til að sinna hlutverki sínu.
    Í vor bauð Fjármálaeftirlitið til tveggja funda með stjórnarmönnum í sparisjóðum, annars vegar á Akureyri en hins vegar í Reykjavík. Um 70 manns mættu til að hlýða á fyrirlestur og skiptast á skoðunum um hlutverk og ábyrgð stjórnarmanna, áhættumælingar, áhættustýringu, innra eftirlit og innri endurskoðun. Enn fremur voru störf og starfsaðferðir Fjármálaeftirlitsins kynntar. Hliðstæðir fundir voru haldnir nú á haustdögum með stjórnarmönnum lífeyrissjóða og mættu um 130 manns á tvo fundi. Jafnframt er stjórnum viðskiptabankanna boðið í heimsókn í sömu erindagjörðum. Þessu starfi verður haldið áfram á næstu mánuðum.
    Til viðbótar við framangreint hefur Fjármálaeftirlitið aukið aðgang starfsmanna og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja að upplýsingum um fjármálamarkaðinn með því að styrkja heimasíðu sína. Heimasíðan er upplýsingaveita fyrir þá sem starfa á fjármálamarkaði, en þar er hægt að nálgast upplýsingar um lög og reglur á fjármálamarkaði, upplýsingar um rekstur fyrirtækja undir eftirliti og margvíslegar upplýsingar sem tengjast starfi Fjármálaeftirlitsins.

1.2.    Eftirlit með eigendum virkra eignarhluta.
     Áherslur á tímabilinu: Starfshættir á fjármálamarkaði. Eigendum virkra eignarhluta settar skýrari leikreglur, m.a. í tengslum við þátttöku þeirra í stjórnum fyrirtækja.
    Eins og búist var við var eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og vátryggingafélögum umfangsmikið á tímabilinu.
    Lagaákvæði þau sem gilda um eftirlit með virkum eignarhlutum eru ítarleg og kveða bæði á um að samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir kaupum á virkum eignarhlutum sé leitað fyrir fram og um viðvarandi eftirlit með eigendum virkra eignarhluta. Þessu viðvarandi eftirliti er m.a. ætlað að tryggja að eignarhaldið skaði ekki heilbrigðan og traustan rekstur viðkomandi fjármálafyrirtækis eða vátryggingafélags.
    Á tímabilinu urðu talsverðar breytingar á eignarhaldi fjármálafyrirtækja og vátryggingafélaga og afgreiddi Fjármálaeftirlitið allmargar umsóknir tengdar breyttu eignarhaldi. Þannig hafa verið afgreiddar 12 umsóknir um samþykki fyrir öflun virks eignarhlutar í 11 fjármálafyrirtækjum. Níu umsóknir hafa verið afgreiddar vegna sjö vátryggingafélaga.
    Í langflestum tilvikum hafa fyrrgreindar umsóknir verið samþykktar þótt dæmi séu um að þeim hafi verið hafnað. Í sumum tilvikum urðu breytingar á áformum aðila í tengslum við meðferð umsóknar. Í nokkrum tilvikum lágu yfirlýsingar umsækjenda um tilteknar aðgerðir til grundvallar ákvörðunum eftirlitsins.
    Í tengslum við sölu ríkisins á eignarhlutum sínum í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. beindu kaupendur í samræmi við lagaskyldu umsóknum til Fjármálaeftirlitsins um að eignast virkan eignarhlut í viðkomandi félögum. Í ljósi stærðar eignarhlutarins og mikilvægis viðkomandi fyrirtækja á íslenskum fjármálamarkaði hlutu umsóknir þessar ítarlega umfjöllun. Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins í þessum málum hafa birst opinberlega og eru þar tilgreindar með ítarlegum hætti forsendur fyrir þeim.
    Til viðbótar framangreindu hefur Fjármálaeftirlitið í nokkrum tilvikum tekið til skoðunar stærð virks eignarhluta og hvort tengsl fleiri aðila gefi tilefni til að ætla að til virks eignarhlutar hafi stofnast.
    Aukið eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum hefur enn fremur leitt til öflugra eftirlits með fjármálafyrirtækjum. Þannig hefur Fjármálaeftirlitið nýtt reynslu sína af eftirliti með virkum eignarhlutum við mótun tilmæla um efni reglna um störf stjórna fjármálafyrirtækja. Þar er m.a. lögð áhersla á að stjórnarmenn fjármálafyrirtækja hafi ekki aðgang að upplýsingum um viðskiptamenn fjármálafyrirtækis nema á vettvangi stjórnar fyrirtækisins. Jafnframt er leitast við að tryggja innra eftirlit með viðskiptum við venslaða aðila, þ.m.t. aðila sem tengdir eru stjórnarmönnum. Enn fremur hefur verið komið á reglulegri upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlitsins um fyrirgreiðslu við venslaða aðila.

1.3.     Eftirlit á einstökum sviðum fjármálamarkaðar.
1.3.1. Fjármálafyrirtæki og lánamarkaður. 3
    Áherslur á tímabilinu: Aðlögun að nýjum lögum. Nýjar aðferðir teknar upp í eftirliti sem styðja við áhættustýringu fjármálafyrirtækja. Eftirlit með afskriftum.
    Ný lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, tóku gildi 1. janúar 2003. Með þeim hafa ein lög verið sett um stofnun og rekstur viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, rafeyrisfyrirtækja, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana og rekstrarfélaga verðbréfasjóða. Lögin fela í sér breytingar á þeirri umgjörð sem þessum fyrirtækjum er búin auk breytinga á starfsheimildum Fjármálaeftirlitsins.
    Fjármálaeftirlitið hefur lagað starfsemi sína að nýjum lögum. Enn stendur yfir vinna við mótun og endurskoðun reglna sem Fjármálaeftirlitinu ber að setja samkvæmt lögunum. Enn fremur er Fjármálaeftirlitið að móta ný úrræði í eftirliti, m.a. nýja heimild til að ákveða hærri eiginfjárhlutföll fyrir einstök fjármálafyrirtæki.
    Það fellur í hlut Fjármálaeftirlitsins að hafa eftirlit með því að fjármálafyrirtæki tileinki sér ný lög og nýjar reglur í starfsemi sinni. Í því skyni hefur Fjármálaeftirlitið staðið fyrir kynningarfundum um nýju lögin.
    Áfram var fylgst með útlánagæðum lánastofnana, en slök gæði nokkurs hluta útlána sem veitt voru á árunum 1998–2001 eru enn að koma fram í auknum afskriftum. Hagstæðar ytri aðstæður og betri rekstur hefur leitt til þess að lánastofnunum hefur í heild tekist að mæta útlánaafskriftum án veikingar á eiginfjárstöðunni. Athuganir Fjármálaeftirlitsins hafa í nokkrum tilvikum leitt til aukinna framlaga í afskriftareikning. Í fjórum tilvikum hefur eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækis reynst undir lögbundnum mörkum. Í þeim tilvikum var gripið til aðgerða til að koma eiginfjárstöðunni í lögmælt horf. Í nokkrum tilvikum til viðbótar hefur Fjármálaeftirlitið lýst áhyggjum vegna slakrar eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækis. Þá hafa alloft verið gerðar athugasemdir við stórar áhættuskuldbindingar einstakra lánastofnana.
    Fjármálaeftirlitið hefur haldið áfram að þróa nýjar aðferðir í eftirliti með fjármálafyrirtækjum. Tekið var í notkun sérstakt áhættumatskerfi sem eftirlitið hefur þróað á síðustu árum, en kerfinu er m.a. ætlað að auðvelda mat á nauðsynlegri eiginfjárstöðu einstakra fjármálafyrirtækja, út frá upplýsingum um eigið fé, gæðum eigna, arðsemi, lausafjárstöðu, næmni fyrir markaðsáhættu og stjórnun. Kerfið er notað í eftirliti með fjármálafyrirtækjum og hefur því verið vel tekið í flestum tilvikum.
    Sérstök álagspróf hafa einnig verið tekin upp í eftirliti með fjármálafyrirtækjum. Reiknað er út hversu hátt eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækis þarf að vera til að standast tiltekna lækkun hlutabréfa og skuldabréfa í eigu fyrirtækisins og tiltekna niðurfærslu óvaxtaberandi útlána og fullnustueigna. Forsendur álagsprófsins miðast við aðstæður sem gætu komið upp. Niðurstöður þess styðja það álit Fjármálaeftirlitsins, sem áður hefur verið sett fram í ársskýrslum, að stærstu viðskiptabönkum beri að stefna að a.m.k. 10% eiginfjárhlutfalli, útreiknuðu samkvæmt lögum, og 8% eiginfjárhlutfalli að frátöldum víkjandi lánum.
    Fyrrgreint áhættumatskerfi og álagspróf munu liggja til grundvallar hugsanlegum ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins um hærri eiginfjárhlutföll fyrir einstök fjármálafyrirtæki, en kveðið er á um sérstaka heimild til slíkra ákvarðana í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Reglur um þessar ákvarðanir eru nú í mótun hjá eftirlitinu.
    Til viðbótar við framangreint hefur Fjármálaeftirlitið leitast við að styrkja eftirlit og yfirsýn yfir áhættustýringu stærri fjármálafyrirtækja á samstæðugrundvelli, einkum þeirra sem starfa einnig erlendis og eiga þar dótturfyrirtæki. Lagt er fyrir þessi fyrirtæki að greina áhættu í starfsemi samstæðunnar, sundurliðað eftir tekjusviðum og dótturfyrirtækjum. Enn fremur er lagt mat á mælingar fyrirtækisins á viðkomandi áhættum og stýringu þeirra. Sérstök skýrsluform vegna þessa hafa verið útbúin í samráði við hlutaðeigandi fyrirtæki. Í sama skyni er Fjármálaeftirlitið að taka upp sérstök skýrsluskil vegna landaáhættu stærri fjármálafyrirtækja, þ.e. áhættu vegna krafna og skulda við erlendra aðila.
    Fjármálaeftirlitið ber ábyrgð á samstæðueftirliti íslenskra fjármálafyrirtækja sem starfa erlendis, en erlend dótturfyrirtæki þeirra eru jafnframt undir eftirliti þar sem þau hafa starfsleyfi. Kappkostað er að styrkja samstarf við erlendar systurstofnanir í tengslum við samstæðueftirlit og eru sérstakir tvíhliða samstarfssamningar um eftirlit með tilteknum fjármálafyrirtækjum nú í vinnslu.
    Þá hefur Fjármálaeftirlitið tekið upp nýjar aðferðir við eftirlit með upplýsingatækni þar sem lagt er kerfisbundið mat á upplýsingakerfi og stjórnun þeirra.
    Fjármálaeftirlitið tók á tímabilinu til skoðunar stærsta samruna íslenskra fjármálafyrirtækja hingað til, þ.e. samruna Kaupþings banka hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Samruninn var tekinn til ítarlegrar athugunar og voru settar fram tilteknar kröfur um framgang hans og atriði er vörðuðu áhættustýringu og innra eftirlit.
    Fjármálaþjónusta á vegum erlendra fyrirtækja er í vaxandi mæli boðin hér á landi án þess að viðkomandi fyrirtæki hafi fullnægjandi leyfi. Fjármálaeftirlitið hefur í nokkrum tilvikum varað við starfsemi nafngreindra fyrirtækja. Í einu tilviki hefur Fjármálaeftirlitið bannað starfsemi innlends fjármálafyrirtækis erlendis.
    Á tímabilinu hefur Fjármálaeftirlitið unnið að nokkrum reglum og tilmælum sem varða fjármálafyrirtæki. Þar má nefna reglur um undanþágu smærri fjármálafyrirtækja frá starfrækslu innri endurskoðunardeilda. Fjármálaeftirlitið hefur í því efni lagt áherslu á að úttektir á innra eftirliti séu ekki framkvæmdar af ytri endurskoðanda viðkomandi fjármálafyrirtækis, eins og leyfilegt hefur verið hingað til. Einnig hefur verið unnið að endurskoðun reglna um reikningsskil fjármálafyrirtækja. Í því efni er gert ráð fyrir bættri upplýsingagjöf um laun og þóknanir til stjórnenda og endurskoðenda fjármálafyrirtækja. Einnig er unnið að styrkingu reglna um afskriftir fjármálafyrirtækja með hliðsjón af stöðlum Alþjóðareikningsskilaráðsins.

1.3.2. Verðbréfamarkaður.
    Áherslur á tímabilinu: Fyrirbyggjandi aðgerðir til að sporna við innherjasvikum og markaðsmisnotkun. Markaðsvakt. Aðlögun að nýjum lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.
    Fjármálaeftirlitið hefur lagt mikla vinnu í að stuðla að bættum starfsháttum útgefenda skráðra verðbréfa og fjármálafyrirtækja á verðbréfamarkaði. Þessi vinna miðar einkum að því að takmarka hættu á innherjasvikum og markaðsmisnotkun.
    Liður í þessu er að ganga eftir því við útgefendur skráðra verðbréfa að þeir setji sér reglur um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti fruminnherja. Jafnframt ber þeim að tilnefna regluvörð sem fylgja á framkvæmd reglnanna eftir. Fjármálaeftirlitið staðfestir reglurnar og gengur um leið úr skugga um að þær séu í samræmi við lög og leiðbeinandi tilmæli. Í mörgum tilvikum hefur gengið seinlega að fá þessar reglur til formlegrar staðfestingar. Dagsektum hefur verið beitt í þessu skyni. Nú hafa 110 félög sett sér reglur og hefur Fjármálaeftirlitið staðfest flestar þeirra.
    Fjármálaeftirlitið hefur leitast við að aðstoða útgefendur skráðra félaga við að koma á þeirri umgjörð sem framangreindar reglur gera ráð fyrir. Í því skyni hefur Fjármálaeftirlitið boðað regluverði félaganna til kynningarfunda. Einnig hafa regluverðir skráðra félaga verið heimsóttir til að ganga úr skugga um að farið sé að reglunum. Þetta er oft gert í tengslum við viðskipti fruminnherja á viðkvæmum tímabilum eða þegar veigamikil viðskipti eiga sér stað með verðbréf hlutaðeigandi félags.
    Í kjölfar nýrra laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, sem tóku gildi 1. júlí 2003, gerði Fjármálaeftirlitið breytingar á leiðbeinandi tilmælum nr. 2/2001, um efni reglna um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti fruminnherja.
    Í tengslum við markaðsvakt Fjármálaeftirlitsins voru 18 mál tekin til formlegrar athugunar á tímabilinu. Ríflega helmingur þessara mála varðaði innherjaviðskipti, tæplega helmingur varðaði upplýsingagjöf á markaði og eitt varðaði reglur um almennt útboð. Í tveimur tilvikum stendur athugun enn yfir, í átta málum reyndist ekki ástæða til athugasemda, en í sjö tilvikum voru gerðar athugasemdir og úrbóta krafist, eða settar fram leiðbeiningar um eðlilega viðskiptahætti. Í einu tilviki stöðvaði Fjármálaeftirlitið útboð verðbréfa. Ekki reyndust forsendur til að vísa framangreindum málum til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.
    Hér að framan eru talin mál er varða verðbréfaviðskipti og tekin eru formlega upp við aðila þess. Í reglulegri markaðsvakt eru fjölmörg mál tekin til skoðunar, en ekki talin ástæða til að hefja formlega athugun. Enn fremur eru ótalin allmörg mál sem varða starfshætti fjármálafyrirtækja á verðbréfamarkaði.
    Til viðbótar við framangreint hefur Fjármálaeftirlitið aðstoðað erlend eftirlitsstjórnvöld og innlend og erlend lögregluyfirvöld við athugun mála á verðbréfamarkaði.
    Fjármálaeftirlitið hefur enn fremur hugað að leiðbeinandi tilmælum um ýmis atriði er varða starfshætti fjármálafyrirtækja á verðbréfamarkaði. Þannig hefur verið unnið að leiðbeinandi tilmælum um greiningardeildir og greinendur. Enn fremur er unnið að leiðbeinandi tilmælum um starfshætti fjármálafyrirtækja þar sem tekið er á fjölmörgum þáttum er varða samskipti fjármálafyrirtækis og viðskiptamanns í verðbréfaviðskiptum. Í þessu efni er byggt á grunnreglum sem Samtök evrópskra verðbréfaeftirlita (CESR) hafa birt, en Fjármálaeftirlitið er aðili að þeim samtökum.
    Í eftirliti með fjármálafyrirtækjum hefur sérstaklega verið hugað að starfsháttum á verðbréfamarkaði. Athugun á starfsháttum eins fjármálafyrirtækis leiddi til allmargra athugasemda og krafna um úrbætur. Önnur athugun leiddi til þess að starfsleyfi viðkomandi var skilað inn.
    Lög nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, tóku gildi 1. júlí 2003. Lögin fela í sér viðamiklar breytingar á gildandi löggjöf. Í tengslum við hin nýju lög hefur Fjármálaeftirlitið m.a. haft til meðferðar umsóknir um starfsleyfi verðbréfasjóða og rekstrarfélaga verðbréfasjóða, en samkvæmt nýju lögunum verða rekstrarfélög nú fullgild fjármálafyrirtæki með víðtækari starfsheimildir en áður. Enn fremur hefur Fjármálaeftirlitið haft til meðferðar starfsleyfisumsóknir fjárfestingarsjóða sem er ný starfsleyfisskyld tegund sjóða um sameiginlega fjárfestingu. Á meðal nýrra eftirlitsverkefna samkvæmt lögunum er að taka afstöðu til þess hvaða aðilar skuli sækja um starfsleyfi sem fjárfestingarsjóðir.
    Fjármálaeftirlitið hefur átt í margháttuðum samskiptum við starfsmenn og stjórnendur fjármálafyrirtækja vegna framangreindra laga. Í aðdraganda nýrrar lagasetningar gerði Fjármálaeftirlitið ítarlega athugun á því hvernig verðbréfasjóðir framfylgdu fjárfestingarstefnu sinni, en ný og ítarlegri skýrsluskil um fjárfestingar verðbréfasjóða voru tekin upp á síðari hluta ársins 2002. Í ljós komu frávik frá fjárfestingarstefnu í allmörgum tilvikum. Gerðar voru athugasemdir vegna þessa og krafist úrbóta. Þær úrbætur tengjast í mörgum tilvikum aðlögun sjóðanna að nýrri löggjöf.

1.3.3. Lífeyrismarkaður.
    Áherslur á tímabilinu: Bætt innra eftirlit. Eftirlit með fjárfestingum. Betri gögn og gegnsæi í tryggingafræðilegu mati.
    Veigamestu eftirlitsverkefni Fjármálaeftirlitsins í eftirliti með lífeyrissjóðum hafa verið ítarlegar athuganir á fjárfestingum lífeyrissjóða undanfarin tímabil. Á síðasta tímabili var haldið áfram með eldri athuganir og hafist handa við nýjar. Meginmarkmiðið með þessum athugunum er að fara yfir fjárfestingar einstakra lífeyrissjóða með hliðsjón af ákvæðum VII. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þar sem kveðið er á um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Athuganirnar felast að hluta til í því að kanna flokkun í fjárfestingarskýrslum sem lífeyrissjóðir senda Fjármálaeftirlitinu ársfjórðungslega. Í skýrslunum eru fjárfestingar flokkaðar með hliðsjón af ákvæðum 36. gr. VII. kafla laganna. Skýrslurnar eru helsta tæki Fjármálaeftirlitsins til að fylgjast með því að fjárfestingar sjóðanna séu innan ramma laganna og nýtast ekki síður stjórnendum sjóðanna sem slíkar. Það er því afar mikilvægt að vandað sé til flokkunar í skýrslunum. Í tengslum við fjárfestingarathuganirnar var innra eftirlit hjá lífeyrissjóðum kannað auk þess sem farið var yfir ársreikninga, endurskoðunarskýrslur og fjárfestingarstefnur sjóðanna.
    Athugasemdir Fjármálaeftirlitsins í kjölfar fjárfestingarathugananna hafa helst lotið að fjárfestingum í óskráðum verðbréfum umfram heimildir laga enda hefur athugunum að verulegu leyti verið beint að sjóðum sem eru yfir hámarksheimildum laga í óskráðum verðbréfum. Fjármálaeftirlitið hefur krafið sjóðina um úrbætur og nú er svo komið að fjárfestingar lífeyrissjóða í óskráðum verðbréfum eru í langflestum tilvikum í löglegu horfi. Þá hafa athugasemdir í nokkrum mæli verið gerðar við fjárfestingar í verðbréfum útgefnum af sama aðila og heildarfjárfestingar í einstökum verðbréfasjóðum. Hjá allflestum lífeyrissjóðum sem gerðar voru athuganir á voru gerðar athugasemdir við ýmis atriði er vörðuðu fyrirkomulag innra eftirlits.
    Í þeim sjóðum þar sem fjárfestingar hafa ekki verið í samræmi við lög hefur innra eftirliti ekki verið nægilega vel sinnt. Almennt má segja að gögnum um innra eftirlit frá lífeyrissjóðum hafi verið heldur ábótavant og gögn ekki skilað sér nægilega vel. Þá hefur Fjármálaeftirlitið gert fjölda athugasemda og komið með ábendingar varðandi flokkun fjárfestinga í fjárfestingarskýrslum. Nokkur brögð hafa verið að því að ársreikningar og fjárfestingarstefnur lífeyrissjóðanna hafi ekki verið í samræmi við reglur sem um þau gilda og hafa margvíslegar athugasemdir verið gerðar við sjóðina í þessu sambandi og úrbóta krafist.
    Fjármálaeftirlitið hefur á tímabilinu hafið viðamiklar athuganir á starfsemi þriggja lífeyrissjóða. Tveimur þeirra lauk með athugasemdum og kröfum um úrbætur en einni er ólokið. Í einu tilviki afhenti Fjármálaeftirlitið efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra niðurstöður og gögn vegna athugunar.
    Á tímabilinu gaf Fjármálaeftirlitið út nýtt skýrsluform vegna skila á tryggingafræðilegum úttektum til eftirlitsins. Skýrslurnar gefa gott yfirlit yfir tryggingafræðilega stöðu viðkomandi lífeyrissjóðs, forsendur matsins og breytingar frá fyrri tíð. Skýrslunum er ætlað að auka gegnsæi tryggingafræðilegra úttekta. Þær eru liður í að styrkja eftirlit með skuldbindingum lífeyrissjóða og ættu jafnframt að nýtast lífeyrissjóðum sem eftirlitstæki.
    Rúmlega 20 lífeyrissjóðir, eða ríflega þriðjungur, hafa breytt samþykktum sínum á tímabilinu en Fjármálaeftirlitið veitir umsögn um breytingarnar að beiðni fjármálaráðuneytisins. Talsvert hefur verið um réttindaskerðingar, ýmist í formi lækkunar margföldunarstuðla eða breytingar á greiðslutímabilum lífeyris. Stafar það að hluta til af þeirri staðreynd að nokkrir sjóðir voru á árinu 2002 utan við þau mörk sem lög nr. 127/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, heimila þeim um mun á eignarliðum og lífeyrisskuldbindingum.
    Í því skyni að tryggja faglega starfshætti við ráðstöfun iðgjalds til lífeyrissparnaðar og viðbótartryggingavernd hefur Fjármálaeftirlitið unnið að leiðbeinandi tilmælum sem stuðla eiga að einsleitni og samræmi við framkvæmd reglna um þetta og að framkvæmdin verði í samræmi við heilbrigða og eðlilega starfshætti.
    Álitaefni hafa komið upp við túlkun og framkvæmd reglugerðar nr. 698/1998, um ráðstöfun iðgjalds til lífeyrissparnaðar og viðbótartryggingavernd. Einnig hefur Fjármálaeftirlitið orðið vart við ýmis vandkvæði sem tengjast starfsháttum þeirra sem starfa við að koma á eða veita ráðgjöf um samninga um lífeyrissparnað, en kvörtunarmálum vegna umræddra starfshátta hefur fjölgað á undanförnum mánuðum.
    Eins og fram kemur í kafla 1.1 hefur Fjármálaeftirlitið lagt áherslu á hlutverk og ábyrgð stjórna lífeyrissjóða og innra eftirlit hjá lífeyrissjóðum. Þannig sótti Fjármálaeftirlitið stjórnarfundi lífeyrissjóða í rekstri hjá fjármálafyrirtækjum og bauð enn fremur stjórnarmönnum lífeyrissjóða til funda í húsakynnum eftirlitsins. Á þessum fundum var farið yfir ábyrgð stjórna lífeyrissjóða, innra eftirlit og áhættustýringu. Þá var forsvarsmönnum lífeyrissjóða boðið til kynningar vegna skýrslu um ársreikninga lífeyrissjóða sem kom út í júlí 2003.

1.3.4. Vátryggingamarkaður.
     Áherslur á tímabilinu: Áhættustýring vátryggingafélaga. Eftirlit með vátryggingaskuld. Bættir starfshættir í sölu vátrygginga.
    Á tímabilinu hefur Fjármálaeftirlitið gert athuganir á áhættustýringu og innra eftirliti hjá allmörgum vátryggingafélögum og vátryggingamiðlurum. Athugasemdum og ábendingum hefur verið komið á framfæri þegar tilefni hefur verið til. Í þessu efni hefur Fjármálaeftirlitið m.a. mælst til þess að vátryggingafélög noti álagspróf í starfsemi sinni, í því skyni að draga fram stöðu félagsins við mismunandi aðstæður og greina betur áhættur. Fjármálaeftirlitið hefur enn fremur leitast við að styrkja eftirlit og yfirsýn yfir áhættustýringu stærri vátryggingafélaga á samstæðugrundvelli, í því skyni að greina áhættur á tekjusviðum og dótturfyrirtækjum og meta áhættumælingar og áhættustýringu.
    Fjármálaeftirlitið hefur fylgst áfram með þróun vátryggingaskuldar í lögboðnum ökutækjatryggingum. Fjármálaeftirlitið hefur á tímabilinu unnið sérstakar tölfræðigreiningar á stöðu vátryggingaskuldar hjá þremur stærstu skaðatryggingafélögunum. Hefur Fjármálaeftirlitið leitað sjónarmiða vátryggingafélaganna gagnvart þeim greiningum og mun í framhaldinu taka tiltekin atriði í mati tjóna til ítarlegri athugunar. Að þeirri athugun lokinni verða endanlegar niðurstöður kynntar viðkomandi vátryggingafélagi.
    Fjármálaeftirlitið er að ljúka athugun á hækkun iðgjalda sem varð á tímabilinu í lögboðnum brunatryggingum fasteigna og öðrum vátryggingagreinum eignatrygginga. Athuganirnar beindust að þremur stærstu vátryggingafélögunum og verða niðurstöðurnar kynntar hverju vátryggingafélagi.
    Tvö innlend vátryggingafélög fengu starfsleyfi á tímabilinu, Íslandstrygging hf. í skaðatryggingum og Líftryggingamiðstöðin hf. í líftryggingum. Fyrrnefnda félagið er sjálfstæð viðbót við vátryggingamarkaðinn en síðarnefnda félagið er dótturfélag í 100% eigu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. Fjármálaeftirlitið hefur að undanförnu haft til afgreiðslu umsóknir tveggja nýrra vátryggingafélaga. Umrædd félög hafa sérstöðu vegna þess að þau leggja áherslu á að vera með starfsemi erlendis í tilteknum vátryggingagreinum.
    Á tímabilinu urðu talsverðar breytingar á vátryggingamiðlunum. Þannig hafa fjórar nýjar vátryggingamiðlanir fengið starfsleyfi og tvær erlendar vátryggingamiðlanir verið skráðar hér á landi. Á tímabilinu skiluðu tíu vátryggingamiðlarar (einstaklingar og lögaðilar) inn starfsleyfum sínum, ýmist að eigin frumkvæði, í samráði við Fjármálaeftirlitið eða að kröfu þess. Til viðbótar skiluðu þrír vátryggingamiðlarar inn starfsleyfum sínum í ágúst sl. Nokkrar vátryggingamiðlanir hafa lent í talsverðum fjárhagslegum erfiðleikum í rekstri sínum. Dæmi eru um að vátryggingamiðlanir hafi verið teknar til gjaldþrotaskipta. Fjármálaeftirlitinu er ekki kunnugt um að vátryggingatakar hafi beðið tjón af fjárhagserfiðleikum vátryggingamiðlara.
    Eins og áður hefur verið hugað að starfsháttum á vátryggingamarkaði. Almennt er það mat Fjármálaeftirlitsins að starfshættir vátryggingamiðlara séu að færast til betra horfs. Þó hafa ábendingar til Fjármálaeftirlitsins og eftirlit þess á tímabilinu leitt í ljós misbresti í upplýsingagjöf og ráðgjöf starfsmanna vátryggingafélaga og vátryggingamiðlara. Dæmi um það er að vátryggingatakar hafa samkvæmt ráðgjöf fært vátryggingar til annars félags án þess að nægilega sé hugað að kostnaði sem af því hlýst og réttarstöðu vátryggingataka að öðru leyti. Með hliðsjón af þessu hefur Fjármálaeftirlitið gefið út leiðbeinandi tilmæli um starfshætti vátryggingamiðlara, nr. 7/2002. Tilmælunum er ætlað að stuðla að bættum starfsháttum vátryggingamiðlara, m.a. að því er varðar upplýsingagjöf gagnvart viðskiptavinum. Í framhaldinu hefur Fjármálaeftirlitið unnið að mótun tilmæla um starfshætti sölumanna vátryggingafélaga.
    Nokkuð hefur borið á samstarfserfiðleikum milli innlendra vátryggingafélaga og vátryggingamiðlara. Í ýmsum tilvikum hafa slík mál verið tekin til athugunar og afstaða tekin til ágreiningsefna.

1.4. Athugun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
     Áhersla: Skilvirkt eftirlit stuðlar að samkeppnishæfni íslensks fjármálamarkaðar.
    Sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum heimsótti Ísland í apríl 2003. Tilgangur heimsóknarinnar var að endurmeta stöðugleika íslenska fjármálakerfisins og hversu vel fylgt er alþjóðlegum viðmiðunum varðandi eftirlit og aðra skylda þætti (FSSA, Financial Sector Stability Assessment). Með athugun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nú var fylgt eftir athugun frá árinu 2001, en í skýrslu um þá athugun lagði sjóðurinn til ýmsar breytingar á löggjöf og eftirliti til að bregðast við veikleikum á fjármálamarkaði og eftirliti með honum. Meðal annars lagði sjóðurinn til verulega stækkun á eftirlitinu.
    Skýrsla um niðurstöður athugunarinnar nú var birt á heimasíðu Alþjóðgjaldeyrissjóðsins í ágúst 2003. Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að ójafnvægi sem greindist í FSSA- skýrslunni frá 2001 sé nú horfið og að meira jafnvægis gæti nú í áhættu fjármálageirans, m.a. fyrir tilstuðlan fyrirbyggjandi eftirlitsaðgerða. Í skýrslunni er borið lof á skjótar og umfangsmiklar umbætur sem gerðar hafa verið á regluverki og eftirliti. Staðfest er að Fjármálaeftirlitið og sú umgjörð sem fjármálafyrirtækjum er nú búin uppfylli flest ákvæði alþjóðlegra kjarnareglna um árangursríkt bankaeftirlit. Aðeins í einu tilviki er komist að þeirri niðurstöðu að eftirlit uppfylli ekki þessar alþjóðlegu kröfur þar sem reglulega upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja til eftirlitsins um áhættu í útlánum til lánþega erlendis skorti. Í kjölfar þessarar niðurstöðu er Fjármálaeftirlitið nú að koma slíkri upplýsingagjöf á.
    Í skýrslunni er enn fremur farið jákvæðum orðum um nýjar aðferðir í eftirliti sem Fjármálaeftirlitið hefur þróað og lýst er í kafla 1.3.1 hér að framan. Horft er til mælinga og aðferða eftirlitsins í mati sjóðsins á stöðu fjármálamarkaðar nú.
    Þrátt fyrir að sjóðurinn hrósi stjórnvöldum, þar á meðal Fjármálaeftirlitinu, fyrir aðgerðir sem styrkt hafa stöðugleika fjármálakerfisins hefur sjóðurinn fram að færa nokkrar ábendingar um áframhaldandi endurbætur. Má þar nefna að sjóðurinn telur að stjórnvöld þurfi að vera reiðubúin að endurskoða stærð Fjármálaeftirlitsins þar sem starf þess við að koma nýjum lögum í framkvæmd megi ekki koma niður á kjarnaeftirliti. Einnig er bent á að Fjármálaeftirlitið eigi enn nokkuð verk óunnið í að koma lögum um fjármálafyrirtæki að fullu til framkvæmda, m.a. með setningu tilmæla og reglna. Sú vinna er raunar talsvert lengra komin nú en þegar athugunin átti sér stað.
    Niðurstöður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gefa til kynna að Fjármálaeftirlitið og sú umgjörð sem fjármálafyrirtækjum er nú búin standist í heild samanburð við það sem best gerist. Sú niðurstaða er mikilvæg fyrir samkeppnishæfni íslensks fjármálamarkaðar.

1.5. Erlent samstarf.
     Áhersla: Samræming í eftirliti og reglusetningu á Evrópska efnahagssvæðinu styrkir skynsamlega útrás innlendra fyrirtækja.
    Hugað hefur verið sérstaklega að reikningsskilamálum í erlendu samstarfi Fjármálaeftirlitsins, en ákveðið hefur verið á vettvangi Evrópusambandsins að taka upp reikningsskilastaðla Alþjóðareikningsskilaráðsins í samstæðureikningsskilum skráðra félaga frá og með árinu 2005. Þær breytingar munu hafa veruleg áhrif hér á landi, en undirbúningur er á forræði fjármálaráðuneytisins. Fjármálaeftirlitið tekur þátt í norrænu samstarfi fjármálaeftirlita er varðar reikningsskil. Samstarfshópur um þessi málefni hélt fund í Reykjavík í ágúst 2003. Þar var fjallað um upptöku reikningsskilastaðla Alþjóðareikningsskilaráðsins og stöðu undirbúnings í hverju landi.
    Fjármálaeftirlitið hefur staðið fyrir kynningu og umræðu um fyrirhugaðar breytingar í reikningsskilum. Meðal annars hefur sérfræðingum fjármálafyrirtækja og vátryggingafélaga verið boðið til kynningarfunda um þessi mál.
    Á vettvangi samstarfsnefndar evrópskra verðbréfaeftirlita, CESR, er einnig unnið að undirbúningi þessara breytinga. Nefndin hefur m.a. samþykkt grunnreglur um framkvæmd breytinganna og eftirlit með reikningsskilum.
    Miklar breytingar hafa átt sér stað í samstarfi fjármálaeftirlita á einstökum sviðum fjármálamarkaðar, í tengslum við breytingar á ákvörðunarferli innan Evrópusambandsins. Fjármálaeftirlitið er aðili að samstarfi verðbréfaeftirlita, CESR (The Committee of European Securities Regulators). Nefndin hefur það hlutverk að samræma eftirlit á verðbréfamarkaði og styðja þannig við skilvirkan innri markað á Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig sinnir nefndin ráðgjöf til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um mótun samræmdrar löggjafar á verðbréfamarkaði. Í því efni hefur nefndin unnið að ráðgjöf vegna reglna um markaðssvik og útboðslýsingar. Enn fremur hefur nefndin gefið út grunnreglur um starfshætti í verðbréfaviðskiptum sem Fjármálaeftirlitið mun leitast við að innleiða hér á landi.
    Á tímabilinu hefur verið stofnað til hliðstæðra samstarfsnefnda á öðrum sviðum fjármálamarkaðar. Stofnuð hefur verið nefnd bankaeftirlita, CEBS (Committee of European Banking Supervisors), og nefnd vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita, CEIOPS (Committee of European Insurance and Occupational Pensions Supervisors). Þessar nefndir eru stofnaðar að fyrirmynd verðbréfaeftirlitsnefndarinnar, CESR, og munu hafa svipað hlutverk á sínu sviði.

1.6. Rekstur Fjármálaeftirlitsins.
     Áherslur: Skilvirkur rekstur og árangursstjórnun.

Rekstrarumfang og eftirlitsgjald.
    Árið 2002 námu gjöld Fjármálaeftirlitsins að meðtöldum eignakaupum alls 266,7 millj. kr. Tekjur að meðtöldum fjármunatekjum á árinu námu alls 217,5 millj. kr., en þar af voru tekjur af eftirlitsgjaldi 211,1 millj. kr. Gjöld umfram tekjur námu því 49,2 millj. kr. á árinu 2002. Undanskilið í framangreindu eru gjöld og tekjur vegna úrskurðarnefnda sem vistaðar eru hjá Fjármálaeftirlitinu. Í ársbyrjun 2002 nam höfuðstóll Fjármálaeftirlitsins, eða uppsafnaður rekstrarárangur stofnunarinnar frá fyrri árum, um 47,9 millj. kr. Tekið var tillit til þess við ákvörðun eftirlitsgjalds sem samþykkt var á Alþingi fyrir árið 2002. Tekjum ársins og höfuðstól var ráðstafað til reksturs á árinu og var eigið fé í árslok 2002 neikvætt um 1,3 millj. kr. eða 0,5% af gjöldum stofnunarinnar samtals.
    Samkvæmt endurskoðaðri rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2003 er gert ráð fyrir að gjöld á árinu verði alls 266,1 millj. kr. Áætlað er að tekjur að meðtöldum vaxtatekjum verði 263,7 millj. kr. en þar af verði tekjur af eftirlitsgjaldi 259,7 millj. kr. Gjöld umfram tekjur á árinu 2003 eru þannig áætlaðar 2,4 millj. kr. og að teknu tilliti til neikvæðs eiginfjár í ársbyrjun 2003, að fjárhæð 1,3 millj. kr., er gert ráð fyrir 3,7 millj. kr. yfirfærðum rekstrarhalla stofnunarinnar í rekstraráætlun vegna ársins 2004.
    Rekstraráætlun Fjármáleftirlitsins fyrir árið 2004 hefur verið kynnt viðskiptaráðherra í samræmi við ákvæði laga. Áætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarumfang á árinu 2004 aukist um 8,5% frá árinu 2003. Gert er ráð fyrir að á árinu 2004 muni gjöld ársins nema alls 288,7 millj. kr. og tekjur að meðtöldum fjármunatekjum verði 292,5 millj. kr. en þar af verði álagt eftirlitsgjald á árinu 2004 um 289,5 millj. kr.
    Samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, skulu eftirlitsskyldir aðilar standa straum af rekstri Fjármálaeftirlitsins. Um álagningu eftirlitsgjalds gilda lög nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum. Eftirlitsgjaldið reiknast ýmist sem hundraðshluti af heildareignum, rekstrargjöldum eða tryggingariðgjöldum eftirlitsskyldra aðila í samræmi við eðli starfsemi þeirra. Í öllum tilvikum er þó um að ræða ákveðna lágmarksfjárhæð.

Starfsmannafjöldi og starfsumhverfi.
    Í ársbyrjun 2003 voru föst stöðugildi við Fjármálaeftirlitið alls 33 en auk þess voru þá þrír lausráðnir starfsmenn í rúmlega tveimur stöðugildum. Fjöldi fastra stöðugilda var óbreyttur á miðju ári 2003 en þá voru tveir lausráðnir starfsmenn í rúmlega einu stöðugildi við eftirlitið. Í ársbyrjun 2002 voru alls 31 stöðugildi við Fjármálaeftirlitið. Frá miðju ári 2002 til miðs árs 2003 hófu tveir starfsmenn störf hjá stofnuninni en þrír létu af störfum, þar af einn lausráðinn. Starfsmenn Fjármálaeftirlitsins eru að meiri hluta sérfræðimenntaðir. Þannig eru 13 þeirra menntaðir á sviði viðskiptafræða, átta eru lögfræðimenntaðir, tveir tryggingastærðfræðingar og tveir tölvunarfræðingar.
    Með rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins vegna ársins 2004 sem lögð hefur verið fyrir viðskiptaráðherra fylgir sérstök greinargerð um rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár. Í greinargerðinni er leitast við að gefa mynd af því hvert stefnir í starfsemi og rekstri Fjármálaeftirlitsins jafnframt því að lýsa þróun eftirlits hér og í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við í þessum efnum. Fjallað er um nýlegar og fyrirsjáanlegar breytingar á lagaumhverfi og möguleg áhrif þessa á rekstur Fjármálaeftirlitsins. Þá er í skýrslunni fjallað um innri starfsemi Fjármálaeftirlitsins, starfstilhögun, markmið í starfsmannamálum og hvert stefnir í rekstri Fjármálaeftirlitsins.

Heimasíðan og upplýsingamiðlun varðandi eftirlitsstarfsemina.
    Unnið var að endurbótum á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins, www.fme.is, á síðari hluta ársins 2002 í þeim tilgangi að gera efni síðunnar aðgengilegra, en þessi miðill gegnir sífellt mikilvægara miðlunarhlutverki í starfsemi eftirlitsins. Eftirlitsskyldir aðilar sækja nú nær alfarið gögn og upplýsingar varðandi skýrslu- og upplýsingaskil til Fjármálaeftirlitsins á heimasíðu eftirlitsins og þaðan miðlar Fjármálaeftirlitið fréttum, umræðuskjölum og margvíslegum tölulegum upplýsingum um starfsemi eftirlitsskyldra aðila. Á síðunni er einnig að finna allar helstu upplýsingar er varða fyrirkomulag eftirlitsins og þær starfsreglur sem eftirlitið byggir á. Á árinu 2002 urðu breytingar í húsnæðismálum Fjármálaeftirlitsins en þá fékk stofnunin viðbótarhúsnæði sem gerbreytt hefur aðstöðu til kynninga og funda.

Ýmsar tölulegar upplýsingar á tímabilinu 1. júlí 2002 til 30. júní 2003.
    Fjármálaeftirlitið hefur í fyrri ársskýrslum sínum birt ýmsar tölulegar upplýsingar um starfsemi stofnunarinnar. Ekki ber að líta á upplýsingar þessar sem neins konar mælikvarða á árangur þeirrar starfsemi sem eftirlitið hefur með höndum en fremur sem vísbendingar um umfang hennar og breytingar á umfangi. Hér á eftir verða því birtar svipaðar upplýsingar og í fyrri ársskýrslum hvað þetta varðar.
    Á tímabilinu 1. júlí 2002 til 30. júní 2003 sendi Fjármálaeftirlitið frá sér ríflega 3.000 bréf og veitti móttöku tæplega 2.200 bréfum. Á sama tímabili skiluðu eftirlitsskyldir aðilar Fjármálaeftirlitinu um 1.600 skýrslum vegna reglubundinnar gagna- og upplýsingaöflunar tilheyrandi eftirlitsstarfseminni. Útsendu bréfin á þessu tímabili eru svipuð að fjölda og á sambærilegu tímabili þar á undan en mótteknum bréfum hefur fjölgað um tæplega 400. Skýrslur frá eftirlitsskyldum aðilum eru einnig tæplega 100 fleiri en á fyrra tímabili.
    Haldið er utan um verkefni Fjármálaeftirlitsins í sérstöku málaskráningarkerfi. Það felur í sér að stofnuð eru mál um erindi sem beint er til stofnunarinnar og einstök verkefni sem falla til vegna starfseminnar sem síðan fá afgreiðslu í samræmi við leiðbeiningar til starfsmanna. Á því 12 mánaða tímabili sem hér er fjallað um urðu til um 860 slík afgreiðslumál hjá stofnuninni sem er svipaður heildarfjöldi og fyrir sambærilegt tímabil þar á undan.
    Fjármálaeftirlitinu berast að jafnaði margs konar formlegar fyrirspurnir er varða starfsemi á fjármálamarkaði hér á landi frá eftirlitsskyldum aðilum, viðskiptavinum þeirra og ýmsum opinberum aðilum. Erlendis frá berst einnig nokkuð af fyrirspurnum í tengslum við alþjóðlegt samstarf um eftirlit á fjármálamörkuðum og einnig frá ýmsum aðilum sem stunda upplýsingamiðlun á fjármálamörkuðum og aðilum í fjármálastarfsemi. Á því tímabili sem hér um ræðir bárust Fjármálaeftirlitinu alls 146 formlegar fyrirspurnir og þar af voru 63 frá erlendum aðilum. Sambærilegar tölur fyrir næsta tólf mánaða tímabil þar á undan voru 152 og 62.
    Kvörtunar- og neytendamál eru annar flokkur erinda sem Fjármálaeftirlitinu berast. Um er að ræða erindi vegna viðskipta við eftirlitsskylda aðila sem Fjármálaeftirlitið telur ástæðu til að taka til athugunar. Alls bárust eftirlitinu 80 slík mál á nefndu tímabili en sambærilegur fjöldi fyrir tímabilið á undan var 55.
    Ýmsar fleiri tölulegar upplýsingar til viðbótar framangreindu liggja fyrir um viðfangsefni Fjármálaeftirlitsins. Þannig má nefna að á því tímabili sem hér er til umfjöllunar voru skráð mál vegna eftirlits á starfsstöðvum eftirlitskyldra aðila alls 38, en 45 fyrir næsta sambærilega tímabil á undan og mál sem varða umfjöllun um starfsleyfi fjármálafyrirtækja alls 40 en 29 tímabilið á undan.

Dagsektir.
    Reglubundin skýrsluskil eftirlitsskyldra aðila til Fjármálaeftirlitsins gegna þýðingarmiklu hlutverki við framkvæmd eftirlits á fjármálamarkaði og er því nauðsynlegt að þeim sé sinnt með eðlilegum og tilskildum hætti. Ákvæðum reglugerðar nr. 560/2001, um beitingu dagsekta og févítis í opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi, var í fyrsta sinn beitt á fyrri hluta ársins 2002 vegna skýrslna sem eftirlitsskyldum aðilum bar að skila Fjármálaeftirlitinu. Á því tímabili sem hér er til umfjöllunar hefur Fjármálaeftirlitið alls í 13 tilvikum tekið ákvörðun um að beita dagsektum á grundvelli reglugerðarinnar.

2. FJÁRMÁLAMARKAÐURINN – ÞRÓUN OG HORFUR
2.1. Lánamarkaður.
Aukin arðsemi.
    Arðsemi lánastofnana hefur aukist talsvert undanfarin missiri. Samanlagður hagnaður viðskiptabanka og sparisjóða 4 fyrir skatta árið 2002 nam 14,2 ma. kr. samanborið við 7,4 ma. kr. hagnað árið 2001. Arðsemi eigin fjár hækkaði úr 13,5% í 18,4% milli áranna 2001 og 2002, sbr. mynd 1. Hreinar rekstrartekjur hækkuðu talsvert á þessu tímabili en sú hækkun er fyrst og fremst tilkomin vegna hækkunar á öðrum rekstrartekjum. Hreinar vaxtatekjur hækkuðu lítillega en lækkuðu sem hlutfall af meðalstöðu efnahagsreiknings. Framlög í afskriftarreikning jukust um 1,5 ma. kr., þ.e. úr 8,0 ma. kr. árið 2001 í 9,5 ma. kr. árið 2002.

Mynd 1.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


















    Á fyrri hluta árs 2003 nam samanlagður hagnaður viðskiptabanka og sparisjóða fyrir skatta 9,5 ma. kr. Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 19,5% á fyrri hluta 2003. Arðsemi eigin fjár hélt áfram að aukast frá árinu 2002 sem stafar fyrst og fremst af áframhaldandi gengishagnaði lánastofnana. Í fyrsta skipti síðan 1998 hafa rekstrargjöld í hlutfalli af meðalstöðu efnahagsreiknings hækkað, sbr. mynd 2. Hlutfallið lækkaði úr 3,7% árið 1998 í 3,0% árið 2002 en hækkaði í 3,3% á fyrri árshluta 2003. Sem hlutfall af hreinum rekstrartekjum hafa rekstrargjöld þó haldið áfram að lækka, sbr. mynd 1, sem skýrist af meiri vexti í tekjum en rekstrargjöldum. Hreinar vaxtatekjur sem hlutfall af meðalstöðu efnahagsreiknings á fyrri hluta árs 2003 eru svipaðar og árið 2002 eða 2,6% en aðrar tekjur vaxa verulega eða úr 2,4% árið 2002 í 3,1% á fyrri hluta árs 2003, sbr. mynd 2. Aukning annarra tekna skýrist fyrst og fremst af miklum vexti í gengishagnaði af fjármálastarfsemi, sbr. enn fremur nánari umfjöllun hér á eftir.


Mynd 2.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

















    Framangre indar tölur um arðsemi eigin fjár og kostnaðarhlutföll eru mismunandi á milli einstakra lánastofnana. Þannig var miðgildi arðsemi eigin fjár 19,7% fyrir viðskiptabankana á fyrri hluta ársins 2003 og 9,9% fyrir sex stærstu sparisjóðina.

Aðrar rekstrartekjur fara hækkandi.
    Rekstrartekjur, aðrar en hreinar vaxtatekjur, hjá helstu lánastofnunum hækkuðu úr 16,8 ma. kr. árið 2001 í 28,4 ma. kr. árið 2002 eða um 69%. Þar af var gengishagnaður af fjármálastarfsemi neikvæður um 2,7 ma. kr. árið 2001 en jákvæður um 7,1 ma. kr. árið 2002 sem er 9,8 ma. kr. sveifla á milli ára og skýrir það aukningu annarra rekstrartekna á milli áranna. Á fyrri hluta ársins 2003 voru aðrar rekstrartekjur 19,8 ma. kr. eða 70% af heildartekjum ársins 2002 og þar af nam gengishagnaður af fjármálastarfsemi 7,5 ma. kr. Aukningin í gengishagnaði af fjármálastarfsemi stafar fyrst og fremst af aukningu gengishagnaðar af veltuverðbréfum vegna jákvæðrar gengisþróunar hluta og skuldabréfa í veltubók.
    Á mynd 3 er sýnd þróun í einstökum liðum annarra rekstrartekna hjá viðskiptabönkunum öðrum en Sparisjóðabanka. 5 Þar kemur glöggt fram sú sveifla sem verið hefur í tekjum af veltuverðbréfum undangengin ár og er hún í samræmi við verðþróun hluta og skuldabréfa á íslenskum fjármálamarkaði.
    Viðskiptabankarnir eru misnæmir fyrir breytingum á gengi verðbréfa á fjármálamarkaði. Sem dæmi má nefna að hlutfall gengishagnaðar veltuverðbréfa af hagnaði fyrir skatta var á bilinu 8% til 120% hjá helstu viðskiptabönkum á árinu 2002. Að öðru óbreyttu hefði verðfall verðbréfa á markaði haft mjög mismunandi áhrif á afkomu einstakra banka á því ári.

Líklegt að útlánavandinn hafi náð hámarki.
    Eins og mynd 4 sýnir nam 12 mánaða nafnaukning útlána 12,3% í lok júní 2003, 4,6% í lok mars 2003 og 5,1% í árslok 2002. Jafnframt benda upplýsingar um útlánavöxt á þriðja ársfjórðungi 2003 til aukins útlánavaxtar. Því virðist sem sá hægi vöxtur útlána undanfarin missiri, a.m.k. ef miðað er við þensluárin 1998 til 2001, sé á enda og framundan sé aukinn útlánavöxtur.

Mynd 3.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

















Mynd 4.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
















    Eins og sést á mynd 5 námu heildarvanskil 6 einstaklinga og fyrirtækja við innlánsstofnanir 27,1 ma. kr. í lok júní 2003 eða 3,3% af útlánum sem er lækkun um 0,8% frá því að vanskil náðu hámarki í lok september 2002. Hlutfallslega hafa vanskil einstaklinga verið hærri en vanskil fyrirtækja. Þannig námu vanskil einstaklinga 6,4% af útlánum til einstaklinga í lok júní 2003 en vanskil fyrirtækja námu 2,4% af útlánum til fyrirtækja. Til samanburðar má nefna að vanskil einstaklinga í lok mars 2003 námu einnig 6,4% af útlánum til einstaklinga en vanskil fyrirtækja námu 2,6% af útlánum til fyrirtækja. Samkvæmt þessu hafa vanskil fyrirtækja minnkað á milli ársfjórðunga en vanskil einstaklinga standa í stað. Líklegt er að á næstu missirum muni hlutfallsleg vanskil einstaklinga og fyrirtækja þokast niður á við.

Mynd 5.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
















    Frá árinu 2000 hafa óvaxtaberandi útlán 7 og fullnustueignir í hlutfalli af útlánum hjá bönkum og sparisjóðum aukist, sbr. mynd 6. Þannig nam hlutfallið 3,4% í lok júní 2003, 3,4% í lok 2002, 2,7% í lok 2001 og 1,9% í árslok 2000. Ekki kemur á óvart að árleg afskriftaframlög í hlutfalli af meðalútlánum hafa einnig aukist frá árinu 2000. Árið 2002 var hlutfallið 1,2%, árið 2001 var það einnig 1,2% en 0,8% árið 2000. Fjármálaeftirlitið áætlar að afskriftaframlög ársins 2003 í hlutfalli af meðalútlánum verði nálægt 1,3% en muni lækka árið 2004.

Mynd 6.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

















    Ljóst er af framansögðu að fjármálafyrirtæki hafa á undanförnum missirum glímt við aukinn útlánavanda samhliða niðursveiflu í efnahagslífinu eftir undanfarandi þensluskeið. Í því sambandi hefur Fjármálaeftirlitið beint sjónum sínum sérstaklega að útlánaáhættu fjármálafyrirtækja og framkvæmt ítarlegar kannanir á gæðum útlána. Samkvæmt framangreindum upplýsingum, sbr. myndir 4, 5 og 6, bendir ýmislegt til þess að útlánavandinn hafi náð hámarki og hafið sé tímabil útlánaaukningar sem mælast muni í tveggja stafa tölum. Við þannig aðstæður er mikilvægt að vandað sé til útlánaákvarðana til að lágmarka útlánatöp í framtíðinni.

Hlutfallsleg lækkun markaðsáhættu milli tímabila.
    Hluti eigna lánastofnana er bundinn í markaðsverðbréfum sem háð eru sveiflum á gengi á markaði. Eins og mynd 7 sýnir var nettó skuldabréfaeign 8 viðskiptabanka og sparisjóða 84,1 ma. kr. í lok júní 2003 samanborið við 73 ma. kr. nettó skuldabréfaeign í lok júní 2002. Nettó skuldabréfaeign viðskiptabanka og sparisjóða jókst því um 11,1 ma. kr. eða 15,3% á tímabilinu. Nettó hlutabréfaeign 9 í lok júní 2003 nam 50,7 ma. kr. samanborið við 53,8 ma. kr. eign í lok júní 2002 sem er lækkun um 3,1 ma. kr. eða 5,7%. Sé litið á skulda- og hlutabréfaeign í hlutfalli af lögbundnu eigin fé sést að um lækkun er að ræða á milli tímabila. Þannig nam skuldabréfaeign nettó í hlutfalli af lögbundnu eigin fé 75% í lok júní 2003 samanborið við 81% í lok júní 2002. Hlutabréf í hlutfalli af lögbundnu eigin fé námu 45% í lok júní 2003 samanborið við 60% í lok júní 2002. Framangreindar tölur sýna að markaðsáhætta lánastofnana lækkar hlutfallslega milli tímabila. Aukin hlutabréfaviðskipti viðskiptabankanna á þriðja ársfjórðungi 2003 benda hins vegar til þess að markaðsáhætta tengd hlutabréfum hafi aukist frá júní 2003.

Mynd 7.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
















Íslensku bankarnir eru í auknum mæli háðir framboði á erlendu lánsfé.
    Á fyrri hluta árs 2003 hafa nettó skuldir viðskiptabankanna 10 við erlenda aðila vaxið á nýjan leik, sbr. mynd 8. Í lok júní 2003 námu nettó skuldir viðskiptabankanna við erlenda aðila 364 ma. kr. sem er aukning um 17,8% frá árslokum 2002. Til samanburðar hafa heildareignir bankanna vaxið um 14,7% frá ármótum. Nýjustu tölur um nettó skuldir viðskiptabankanna við erlenda aðila benda til áframhaldandi aukningar. Aukin erlend skuldastaða bankanna hefur leitt til þess að íslensku bankarnir eru í auknum mæli háðir framboði á erlendu lánsfé við endurfjármögnun. Í ljósi þessa mun Fjármálaeftirlitið áfram huga að lausafjárstýringu bankanna, einkum m.t.t. erlendrar endurfjármögnunaráhættu.

Mynd 8.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



















Eigið fé eykst en víkjandi lán standa í stað.
    Lögbundið eigið fé viðskiptabanka og sparisjóða 11 nam 111,8 ma. kr. í lok júní 2003 samanborið við 96,6 ma. kr. í lok júní 2002 sem er hækkun um 15,2 ma. kr. eða 15,7%.
    Í lok júní 2003 höfðu viðskiptabankar og sparisjóðir gefið út víkjandi skuldabréf, sem teljast til eiginfjárþáttar A við útreikning á eiginfjárhlutfalli, fyrir 6,2 ma. kr. samanborið við 6,1 ma. kr. í lok júní 2002. Víkjandi skuldabréf, sem teljast til eiginfjárþáttar B og C við útreikning á eiginfjárhlutfalli, námu í lok júní 2003 28,7 ma. kr. samanborið við 28,2 ma. kr. í lok júní 2002. Ljóst er af framansögðu að aukning lögbundins eigin fjár var ekki fjármögnuð með víkjandi skuldabréfum heldur rekstrarhagnaði og útgáfu nýrra hlutabréfa í tengslum við kaup og sameiningar.
    Samanlagður áhættugrunnur viðskiptabanka og sparisjóða nam 1.017 ma. kr. í lok júní 2003 samanborið við 845,6 ma. kr. í lok júní 2002 sem er hækkun um 171,4 ma. kr. eða 20%.

Eiginfjárhlutföll viðunandi.
    Eins og mynd 9 ber með sér voru eiginfjárhlutföll viðskiptabankanna á milli 9 og 10% árin 1995–2000 en eiginfjárhlutföll án víkjandi lána B og C lækkuðu jafnt og þétt. Frá árinu 2001 hækkuðu eiginfjárhlutföll viðskiptabankanna og námu hæst 12,3% í lok árs 2002 og eiginfjárhlutföll án víkjandi lána B og C námu 9,2%. Í lok júní 2003 námu eiginfjárhlutföll viðskiptabankanna 10,6% og eiginfjárhlutföll án víkjandi lána B og C námu 7,8%.

Mynd 9.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.















    Frá árinu 1995 lækkuðu eiginfjárhlutföll sparisjóðanna úr rúmlega 14% í 10,5% og 7,1% án víkjandi lána B og C miðað við lok júní 2000. Frá miðju ári 2000 hafa eiginfjárhlutföllin hækkað og námu 13,6% og 10,6% án víkjandi lána B og C í lok júní 2003.
    Síðustu ár hefur Fjármálaeftirlitið varað við hugsanlegum afleiðingum lágra eiginfjárhlutfalla og nefnt í því sambandi að stærri fjármálafyrirtæki með trausta áhættustýringu ættu að miða lágmarkseiginfjárhlutfall við 10% og 8% án víkjandi lána B og C. Viðskiptabankarnir falla undir þessa skilgreiningu og samkvæmt framansögðu var eiginfjárstaða þeirra í heild m.v. júní 2003 viðunandi.
    Fjármálaeftirlitið reiknar reglulega svokölluð álagspróf fyrir viðskiptabanka og stærstu sparisjóði. Álagsprófið sýnir hvað eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja þarf að lágmarki að vera til að þola ákveðna lækkun á markaðsverðmæti verðbréfa og niðurfærslu útlána og fullnustueigna þannig að eiginfjárhlutfallið fari ekki niður fyrir 8% sem er lögbundið lágmark. Mynd 10 sýnir álagspróf viðskiptabankanna m.v. 20% lækkun hlutabréfa, 10% lækkun skuldabréfa og 20% niðurfærslu óvaxtaberandi útlána og fullnustueigna. Í lok júní 2003 nam reiknað lágmarkseiginfjárhlutfall samkvæmt álagsprófi 10,1% en lögbundið eiginfjárhlutfall m.v. sama tímamark nam 10,7%. Mynd 11 sýnir sambærilegt álagspróf fyrir sex stærstu sparisjóði. Í lok júní 2003 nam reiknað lágmarkseiginfjárhlutfall samkvæmt álagsprófi 11,3% en lögbundið eiginfjárhlutfall m.v. sama tímamark nam 13,6%. Lágmarkseiginfjárhlutfall stærstu sparisjóðanna er því rúmlega 1% hærra en viðskiptabankanna.

Mynd 10.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.














Mynd 11.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
















    Hafa verður í huga varðandi framangreindar niðurstöður álagsprófa að þær eru mismunandi eftir einstökum bönkum og stærstu sparisjóðum, enn fremur að niðurstöður varðandi stærstu sparisjóðina eru ekki einkennandi fyrir minni og meðalstóra sparisjóði.

2.2. Verðbréfamarkaður.
Velta á verðbréfamarkaði eykst enn.
    Heildarvelta hluta- og skuldabréfa í Kauphöll Íslands hefur farið vaxandi allt frá öðrum ársfjórðungi 2000 eftir þónokkra niðursveiflu. Þessi uppsveifla hefur haldið áfram allt til þriðja ársfjórðungs 2003 og lítur út fyrir að hún haldi enn áfram. Heildarvelta hluta- og skuldabréfa er í lok september 2003 orðin meiri en allt árið 2002. Hefur árið 2003 einkennst af samruna félaga og miklum sviptingum á eignarhaldi sem skýrir að stórum hluta veltuaukningu hvað varðar viðskipti með hlutabréf. Sé litið á hlut hlutabréfa í heildarveltu verðbréfa í Kauphöll Íslands var hann um 18,6% á árinu 2001, 28,4% af heildarveltu 2002 og er nú 31,9%, eftir þrjá ársfjórðunga ársins 2003. Þar á undan hafði hlutur hlutabréfa í heildarveltu verðbréfa verið hvað mestur árið 2000 eða 37,2%. Viðskipti með hlutabréf hafa því verið að sækja í sig veðrið eftir niðursveiflu þá er varð árið 2001. Velta með skuldabréf er blómleg sem aldrei fyrr og hefur lítið gefið eftir þrátt fyrir aukningu hlutabréfaveltu. Eftirspurn eftir skuldabréfum hefur verið mikil og má helst skýra hana með aukinni ásókn erlendra fjárfesta svo og lífeyrissjóða. Þessi eftirspurn hefur leitt til lækkunar á ávöxtunarkröfu skuldabréfa.

Hækkun á meðalvirði viðskipta með skráð verðbréf.
    Árin 2002 og 2003 hafa einkennst af miklum sviptingum á hlutabréfamarkaði og er ástæðunnar að leita í samruna félaga og miklum sviptingum á stórum hlutum á eignarhaldi félaga. Því fara sífellt stærri viðskipti með hlutabréf fram utan Kauphallar. Sé litið á mynd 12 sést að meðalvirði viðskipta með hlutabréf í Kauphöll á hverjum ársfjórðungi breytist lítið á milli ársfjórðunga. Lægst er meðalvirðið á fjórða ársfjórðungi ársins 2000 eða um 0,8 millj. kr. en hæst á þriðja ársfjórðungi ársins 2003 um 2,0 millj. kr. Sé hins vegar litið á meðalvirði viðskipta með hlutabréf utan Kauphallar kemur annað í ljós. Lægst er meðalvirði viðskipta á fyrsta ársfjórðungi 1998 um 1,1 millj. kr. en hæst á þriðja ársfjórðungi 2003 42,5 millj. kr. Hækkanir eru hvað mestar á árunum 2002 og 2003 eins og fyrr greinir.

Mynd 12.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


















    Sé litið á þróun meðalvirðis viðskipta með skuldabréf á hverjum ársfjórðungi kemur annað í ljós, sbr. mynd 13. Meðalvirði viðskipta með skuldabréf í Kauphöll hækkar nokkuð stöðugt frá öðrum ársfjórðungi 2000 en þá var meðalvirði viðskipta 26,3 millj. kr. Meðalvirði viðskipta með skuldabréf í Kauphöll á þriðja ársfjórðungi 2003 var hins vegar um 64,7 millj. kr. Meðalvirði viðskipta með skuldabréf utan Kauphallar hefur einnig hækkað verulega. Lægst var meðalvirðið á öðrum ársfjórðungi 1999, um 4,1 millj. kr., en hæst á öðrum ársfjórðungi 2003, um 43,1 millj. kr. Hækkanir hafa verið hvað mestar frá þriðja ársfjórðungi 2001 eins og sést á mynd 13 og skýrast eins og fyrr segir af aukinni eftirspurn erlendra fjárfesta sem og lífeyrissjóða.

Mynd 13.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


















    Sé litið fram hjá fyrrgreindum stærðartölum og sjónum beint að fjölda viðskipta, í Kauphöll annars vegar og utan Kauphallar hins vegar, kemur í ljós að frá og með árinu 2001 hafa meira en 50% viðskipta með hlutabréf átt sér stað í Kauphöll og er hlutfallið 64% á fyrstu þremur ársfjórðungum 2003. Sé litið á viðskipti með skuldabréf kemur einnig í ljós að sífellt fleiri viðskipti eiga sér stað í Kauphöll og fer hlutfallið úr 13% árið 1999 í 54% árið 2002. Fyrir fyrstu þrjá ársfjórðunga 2003 er hlutfallið 52%. Þessi þróun, þ.e. að meiri hluti viðskipta fari fram innan Kauphallar, er jákvæð og stuðlar að betri verðmyndun með fyrrgreinda fjármálagerninga.

Hlutabréfavísitölur.
    Hlutabréfavísitölur, þ.e. heildarvísitala aðallista Kauphallar og úrvalsvísitala, hafa haldið áfram að hækka á árinu 2003 og hafa þær hækkað nokkuð stöðugt allt frá þriðja ársfjórðungi 2001, sbr. mynd 14. Náði úrvalsvísitala hlutabréfa hæst 1.848 stigum í september 2003 en hún hafði áður náð hæst tæplega 1.889 stigum í febrúar árið 2000. Hún var hins vegar 1.436 stig í árslok 2002. Árið 2003 hefur einkennst af miklum sviptingum í eignarhaldi á hlutabréfamarkaði og hefur gengi hlutabréfa hækkað í kjölfarið. Á árinu bar svo við að þau þrjú olíufélög á Íslandi sem skráð voru í Kauphöll og mynduðu atvinnugreinavísitölu olíuverðs voru afskráð á þriggja mánaða tímabili. Með fækkun skráðra félaga í Kauphöllinni fækkar félögum sem standa að baki hverri atvinnugreinavísitölu. Sem dæmi standa nú aðeins tvö félög að baki lyfjagreinavísitölu, eitt að baki vísitölu þjónustu og verslunar og eitt að baki vísitölu bygginga- og verktakastarfsemi.

Mynd 14.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



















Skráðum félögum í Kauphöll fækkar enn.
    Skráðum félögum í Kauphöll heldur áfram að fækka og hefur svo verið allt frá árinu 2001, sbr. mynd 15. Við lok þriðja ársfjórðungs 2003 eru skráð félög 52 talsins. Flest voru skráð félög 75 talsins á árunum 1999 og 2000. Enn frekari fækkun er fyrirsjáanleg en tvö félög hafa þegar fengið samþykkta afskráningu á síðasta ársfjórðungi 2003 og eitt á fyrri hluta árs 2004. Vænst er afskráningar a.m.k. tveggja félaga til viðbótar þótt ekki hafi enn verið formlega sótt um afskráningu. Alls hafa 13 félög verið afskráð á fyrstu þremur árfjórðungum ársins 2003. Ástæður afskráninga eru fyrst og fremst af tvennum toga, þ.e. annars vegar samruni við félög sem eru þegar skráð í Kauphöll og hins vegar að félögin uppfylla ekki lengur kröfur um dreifða eignaraðild. Lítið hefur farið fyrir nýskráningu fyrirtækja allt frá árinu 1999 og er t.d. aðeins eitt nýtt félag skráð í Kauphöll það sem af er árinu 2003. Ekki hefur verið séð fyrir endann á þessari þróun, þ.e. fækkun skráðra félaga í Kauphöll, en þó er ekki ástæða til að hafa áhyggjur þar sem reynslan frá öðrum löndum sýnir að þessi stærð, þ.e. fjöldi skráðra félaga í Kauphöll, tekur breytingum. Við fækkun skráðra félaga falla að jafnaði út þau félög sem lítil viðskipti hafa verið með og verðmyndun þeirra er því ekki eins og best verður á kosið. Sum félög hafa jafnframt talið sér ofviða að uppfylla kröfur markaðarins til upplýsingagjafar sem sífellt verður stærri og kostnaðarsamari þáttur. Þau félög sem eftir verða í Kauphöll eru því líklegri til að vera með virkari verðmyndun og standa betur undir kröfum hvað varðar upplýsingagjöf.

Mynd 15.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

















Upplýsingagjöf.
    Kröfur til upplýsingagjafar félaga með fjármálagerninga skráða í Kauphöll verða sífellt meiri. Þessi félög þurfa að vera meðvituð um þær kröfur sem til þeirra eru gerðar og fram koma í lögum og reglum Kauphallar. Því miður virðist vera brotalöm á þessu því enn ber t.d. á viðskiptum fruminnherja sem og félaganna sjálfra á viðkvæmum tímapunktum, t.d. rétt fyrir birtingu uppgjörs félaga. Starf regluvarðar er tiltölulega nýtilkomið hjá þessum félögum. Regluvörður skal m.a. veita heimildir til viðskipta fruminnherja og meta hvort fyrir liggi innherjaupplýsingar hjá félaginu. Fruminnherjar verða þó að gera sér ljóst að þeir bera ábyrgð á því að meta sjálfstætt upplýsingar sem eru á forræði þeirra sjálfra og ætla má að regluvörður hafi ekki aðgang að.

2.3. Lífeyrismarkaður.
Neikvæð raunávöxtun þriðja árið í röð.
    Hrein eign lífeyrissjóða til greiðslu lífeyris í árslok 2002 nam 678,9 ma. kr. samanborið við 644,7 ma. kr. í árslok 2001. Raunaukning hreinnar eignar á árinu 2002 var um 3%. Iðgjaldagreiðslur á milli ára jukust lítillega eða úr 62,7 ma. kr. á árinu 2001 í 67,0 ma. kr. á árinu 2002. Gjaldfærður lífeyrir var 22,2 ma. kr. árið 2001 en var 25,8 ma. kr. árið 2002. Hrein raunávöxtun lífeyrissjóða á árinu 2002 var neikvæð um 3%. Árið 2002 er þriðja árið í röð þar sem ávöxtun lífeyrissjóða er neikvæð. Á mynd 16 má sjá 10 ára meðaltal hreinnar raunávöxtunar á þremur mismunandi tímabilum frá árinu 1991 til 2002.

Mynd 16.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.















Slæm fjárhagsstaða lífeyrissjóða.
    Samkvæmt lífeyrissjóðalögunum skal hrein eign lífeyrissjóðs ásamt núvirði framtíðariðgjalda vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris. Sé mismunur á milli eigna og skuldbindinga meiri en 10% samkvæmt árlegri tryggingafræðilegri úttekt þarf að breyta samþykktum sjóðsins þannig að jafnvægi náist. Sama á við hafi mismunurinn verið á bilinu 5–10% samfellt í fimm ár.
    Lífeyrissjóðir geta aldrei skert réttindi sjóðfélaga umfram þá lágmarkstryggingavernd sem skilgreind er í lífeyrissjóðalögunum. Komi upp sú staða hjá lífeyrissjóði að réttindaákvæði eru í lágmarki og ekki er mögulegt að breyta samþykktum þannig að jafnvægi náist þarf Fjármálaeftirlitið að meta í hverju tilfelli fyrir sig möguleika viðkomandi sjóðs til áframhaldandi starfsemi. Í mörgum tilfellum veita lífeyrissjóðir sjóðfélögum sínum betri réttindi en lágmarksákvæði lífeyrissjóðalaga kveða á um.
    Á mynd 17 má sjá yfirlit yfir tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóða án ábyrgðar annarra í árslok 2002. Tryggingafræðileg úttekt sem framkvæmd er árlega er gerð út frá réttindagrundvelli viðkomandi sjóðs sem skilgreindur er í samþykktum hans. Af 43 deildum voru fjórar reknar með meira en 10% halla, 18 voru með halla á bilinu 5,1–10%, níu með halla á bilinu 0,1–5% og 12 voru með jákvæða stöðu.

Mynd 17.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.













    Samtryggingadeildir lífeyrissjóða sem hafa bakábyrgð ríkis, sveitarfélaga eða banka á skuldbindingum eru undanskildar ákvæðum lífeyrissjóðalaganna um fulla sjóðsöfnun. Þessar deildir taka ekki við nýjum sjóðfélögum. Fjárhagsstaða samtryggingadeilda lífeyrissjóða með bakábyrgð annarra aðila er í nánast öllum tilfellum mjög slæm. Í árslok 2002 voru 14 deildir af 17 með halla á bilinu 51–100%, 2 deildir með halla á bilinu 0,1–50% og ein deild var rekin í jafnvægi.

Eignir lífeyrissjóða.
    Frá árslokum 2000 hafa fjárfestingar lífeyrissjóða og flokkun þeirra verið til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu. Helstu athugasemdir Fjármálaeftirlitsins í þeim athugunum hafa verið fjárfestingar umfram heimildir í óskráðum verðbréfum eftir gildistöku lífeyrissjóðalaganna. Í lok júní 2003 var hlutfall óskráðra verðbréfa af hreinni eign komið niður í um 6% fyrir sjóðina í heild samanborið við 9% í árslok 2001 og 8% í árslok 2002 og er eignarhald flestra lífeyrissjóða nú í samræmi við ákvæði laganna.
    Á mynd 18 má sjá hlutfallslega skiptingu annarra fjárfestinga lífeyrissjóða í árslok 2002, annars vegar séreignardeilda og hins vegar samtryggingadeilda. Eins og sjá má er hlutfall verðbréfa með breytilegum tekjum mun hærra hjá séreignardeildum en samtryggingadeildum. Hlutfall verðbréfa með föstum tekjum er hins vegar mun hærra hjá samtryggingadeildum en séreignardeildum. Til verðbréfa með breytilegum tekjum teljast hlutabréf og hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða. Margir verðbréfasjóðir samanstanda eingöngu af skuldabréfum og ber að líta til þess við samanburð á eignum deildanna. Í árslok 2002 voru um 89% af séreignarsparnaði ávöxtuð hjá lífeyrissjóðum sem störfuðu sem hreinir séreignarsjóðir fyrir gildistöku lífeyrissjóðalaganna og eru þeir sjóðir allir í rekstri hjá viðskiptabönkum.

Mynd 18.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



















    Á mynd 19 má sjá hlutfall gengisbundinna eigna af heildarverðbréfaeign hjá samtryggingadeildum (15,6%) og séreignardeildum (26,6%) í árslok 2002. Eins og sjá má er hlutfall gengisbundi nna eigna hjá séreignardei ldum mun hærra en hjá samtrygging adeildum.

Mynd 19.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


















    Hlutfall gengisbundi nna eigna lífeyrissjóða af hreinni eign til greiðslu lífeyris var í árslok 2002 um 16% og hafði lækkað um 6% á milli ára. Í lok júní sl. var hlutfallið komið í 17%, sbr. mynd 20, og má gera ráð fyrir frekari hækkun þess á árinu. Samkvæmt heimildum í lífeyrissjóða lögunum er leyfilegt að vera með allt að 50% af eignum í erlendum gjaldmiðlu m.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 20.



















Lífeyriskerfi.
    Þann 1. júlí 2003 voru starfandi lífeyrissjóðir alls 50 en þar af taka 11 þeirra ekki lengur við iðgjöldum og eru því fullstarfandi sjóðir 39 talsins. Nokkrir sjóðir starfa í fleiri en einni samtrygging adeild vegna mismunandi réttindakerfa. Í árslok 2002 voru samtals 60 fjárhagslega aðskildar samtryggingadeildir og 44 fjárhagslega aðskildar séreignardeildir/leiðir hjá lífeyrissjóðunum.
    Skipting heildareigna lífeyrissjóða í árslok 2002 eftir lífeyriskerfum er eftirfarandi: stigakerfi 438 ma. kr. (64,5%), hlutfallskerfi 140 ma. kr. (20,6%), aldursháð kerfi 51 ma. kr. (7,5%) og séreign 50 ma. kr. (7,3%). Á mynd 21 má sjá skiptingu eftir kerfum frá árinu 1999. Eins og sjá má er þróunin í þá átt að eignir séreigna og aldursháðra kerfa aukast á kostnað hefðbundins stigakerfis. Nítján samtryggingadeildir eru með hlutfallskerfi, þar af eru 17 með ábyrgð annarra á skuldbindingum. B-deild LSR er þar langstærst og nema eignir hennar um 65% af heildareignum deilda í hlutfallskerfum.

Mynd 21.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


















Viðbótartryggingavernd og séreignarlífeyrissparnaður.
    Vörsluaðilar lífeyrissparnaðar voru 48 talsins í árslok 2002, þ.e. 17 lífeyrissjóðir, 23 sparisjóðir, fimm bankar og verðbréfafyrirtæki og þrjú líftryggingafélög.
    Séreignarlífeyrissparnaður hefur vaxið stöðugt á milli ára frá árslokum 1999 en þá hóf Fjármáleftirlitið að kalla sérstaklega eftir upplýsingum um lífeyrissparnað frá lífeyrissjóðum og öðrum vörsluaðilum lífeyrissparnaðar. Lífeyrissparnaður í vörslu annarra en lífeyrissjóða var 0,6 ma. kr. í árslok 1999, 2 ma. kr. í árslok 2000, 5,5 ma. kr. í árslok 2001 og 9,1 ma. kr. í árslok 2002. Lífeyrissparnaður í vörslu lífeyrissjóða, annarra en þeirra sem störfuðu sem hreinir séreignarsjóðir fyrir gildistöku laga nr. 129/1997, var 1 ma. kr. í árslok 1999, 1,9 ma. kr. í árslok 2000, 3,4 ma. kr. í árslok 2001 og 5,6 ma. kr. í árslok 2002, sbr. mynd 22. Langstærstur hluti séreignarlífeyrissparnaðar er í vörslu þeirra sex lífeyrissjóða sem störfuðu sem hreinir séreignarlífeyrissjóðir fyrir gildistöku laga nr. 129/1997 en í árslok 2002 var séreignarlífeyrissparnaður að fjárhæð 44,3 ma. kr. í þeirra vörslu. Heildarséreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða og annrra vörsluaðila var því 58,9 ma. kr. í árslok 2002.
    Iðgjöld til séreignarlífeyrissparnaðar voru 9,7 ma. kr. á árinu 2001 og 14,2 ma. kr. á árinu 2002 og jukust því um 46% á milli ára. Af iðgjöldum ársins 2002 var 6,2 ma. kr. ráðstafað til lífeyrissjóða sem áður störfuðu sem hreinir séreignarsjóðir (þar af 1,5 ma. kr. til bundinnar séreignar), 2,3 ma. kr. til annarra lífeyrissjóða og 5,7 ma. kr. til annarra vörsluaðila lífeyrissparnaðar.
    Lífeyrisréttindi í séreign geta sprottið af viðbótariðgjaldi umfram lögbundið 10% iðgjald annars vegar og af 10% lögbundnu iðgjaldi til lágmarkstryggingaverndar hins vegar. Séreign sem sprettur af 10% lögbundnu iðgjaldi skiptist í séreign til lágmarkstryggingaverndar (bundin séreign) og séreign til viðbótartryggingaverndar. Sex lífeyrissjóðir nýta sér heimildir í lögum til að skilgreina lágmarkstryggingavernd lægri en 10% og bjóða upp á lágmarkstryggingavernd sem er samþætting séreignar og sameignar. Sjóðfélagi getur óskað eftir að þeim hluta lögbundins lágmarksiðgjalds sem skilgreindur er sem séreign sé ráðstafað til annars vörsluaðila lífeyrissparnaðar honum að kostnaðarlausu.

Mynd 22.





















Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




2.4. Vátryggingamarkaður.

Samstæðum vátryggingafélaga fjölgar.
    Nú hafa 14 vátryggingafélög starfsleyfi, en 10 þeirra taka að sér nýja vátryggingaáhættu. Tvö vátryg gingafé lög, Íslensk endurtr ygging hf. og Tryggi ng hf., vinna eingön gu að uppgjö ri eldri skuldbi ndinga. Vátryg gingast ofnar Vélbáta ábyrgð arfélags Ísfirðin ga og Vélbát aábyrg ðarféla gsins Gróttu hafa verið fluttir til Sjóvár- Almen nra tryggin ga hf. Þann 30. júlí 2002 fékk nýtt félag, Íslandstrygging hf., starfsleyfi í skaðatryggingarekstri og síðar á árinu, eða 12. nóvember, fékk Líftryggingamiðstöðin hf. starfsleyfi í líftryggingarekstri. Líftryggingamiðstöðin er dótturfélag í 100% eigu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. Þrjú líftryggingafélög eru nú dótturfélög skaðatryggingafélaga og eitt er dótturfélag banka.
    Hér á eftir er gerð nánari grein fyrir starfsemi íslenskra vátryggingafélaga eins og hún birtist í ársreikningum fyrir reikningsárið 2002, auk þess sem nýttar verða upplýsingar um afkomu helstu vátryggingagreina sem Fjármálaeftirlitið hefur birt á heimasíðu sinni. Allar fjárhæðir eru færðar til verðlags ársins 2002. Breytingar fjárhæða á milli ára verða því breytingar umfram verðlagsbreytingar. Viðlagatrygging Íslands starfar samkvæmt sérlögum, hefur afmarkað hlutverk og er því sleppt í umfjöllun um rekstur vátryggingafélaga hér á eftir. Iðgjöld Viðlagatryggingar voru 855 millj. kr. á árinu 2002, en tjón námu 172 millj. kr., og er það örlítið betri afkoma en á síðasta ári.
    Á mynd 23 má sjá að fjárfestingar í verðbréfum með breytilegum tekjum hafa aukist jafnt og þétt frá árinu 1998. Fjárfestingar í verðbréfum með föstum tekjum og veðlánum drógust saman á síðasta ári. Eignarhlutir vátryggingafélaga í hlutdeildarfélögum jukust um 739 millj. kr. og eignarhlutir í dótturfélögum um 310 millj. kr. Annars hafa þessir tveir liðir sveiflast í tengslum við breytingar á eignarhaldi á tímabilinu.


Mynd

23.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.












              










Góð afko ma í skaða tryggi ngare kstri.
    Árið 2002 einkenndist af betri afkomu í skaðatryggingarekstri en undanfarin ár. Sér í lagi var afkoman í rekstri ökutækjatrygginga góð og þakka vátryggingafélögin það einkum góðu veðurfari á árinu. Afkoma eignatrygginga var hins vegar óviðunandi að mati vátryggingafélaganna og í lok ársins hækkuðu félögin iðgjöldin í helstu flokkum eignatrygginga, einkum þó í lögboðnum brunatryggingum.
    Á mynd 24 sést hvernig hagnaður af helstu þáttum starfseminnar hefur skipst frá árinu 1998. Hagnaður af skaðatryggingarekstri hefur á þessu tímabili aldrei verið meiri en hann jókst um 87% frá fyrra ári. Hagnaður af fjármálarekstri dróst hins vegar saman um 45% og hefur aldrei verið lægri á tímabilinu. Líftryggingarekstur skilaði tapi á árinu 2002 sem er fyrsta árið með taprekstri á tímabilinu.






Mynd 24.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





















     Mynd 25 sýnir þróun iðgjalda og tjóna í skaðatryggingarekstri frá árinu 1998. Iðgjaldatekjur félaganna halda áfram að vaxa. Hlutur endurtryggjenda í iðgjöldum var 16% árið 2001, en jókst í 17% á síðasta ári.

Mynd 25.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




















    Tjónagre iðslur ársins 2002 í heild jukust frá árinu áður, en tjón félaganna í eigin hlut drógust saman um 4%. Stafar þessi munur af aukinni þátttöku endurtryggjenda í tjónum, en hún jókst úr 12% árið 2001 í 22% árið 2002.

Afkoma batnar í ökutækjatryggingum.
    Iðgjöld í lögboðnum ökutækjatryggingum námu 8,8 ma. kr. á síðasta ári samanborið við 8,2 ma. kr. árið 2001. Tjón ársins voru að upphæð 7,7 ma. kr. og lækkuðu um tæplega 1 ma. kr. frá fyrra ári. Hagnaður greinarinnar, þegar reiknað hefur verið með hlut endurtryggjenda, rekstrarkostnaði, fjárfestingarkostnaði, ágóðahlutdeild og afsláttum og breytingu á útjöfnunarskuld, var um 1 ma. kr. Árið 2001 var hagnaður af lögboðnum ökutækjatryggingum 42 millj. kr. en árin þar á undan var greinin rekin með tapi.
     Mynd 26 sýnir þróun í iðgjöldum ársins, tjónum ársins og hagnaði/tapi af lögboðnum ökutækjatryggingum frá árinu 1998.



Mynd 26.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






              














    Tjónaskuld lögboðinna ökutækjatrygginga var á síðasta ári 65% af tjónaskuld skaðatryggingafélaga í heild, eða 24 ma. kr. af 37 ma. kr. Vöxtur tjónaskuldar lögboðinna ökutækjatrygginga frá fyrra ári á verðlagi ársins 2002 var 1,8%, samanborið við 5,3% vöxt árið 2001 og 11,2% vöxt árið 2000. Á mynd 27 má sjá þróun tjónaskuldar í lögboðnum ökutækjatryggingum frá 1998.










Mynd 27.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.











              







    Tjón í frjálsum ökutækjatryggingum jukust á síðasta ári, fóru úr 2,0 ma. kr. í 2,2 ma. kr. Síðustu tvö ár hafa frjálsar ökutækjatryggingar skilað hagnaði. Mynd 28 sýnir þróun iðgjalda, tjóna og hagnaðar/taps í frjálsum ökutækjatryggingum frá 1998.

Mynd 28.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




















Slök afkoma í eignatryggingum.
    Í lok ársins 2002 hækkuðu vátryggingafélögin iðgjöld í nokkrum flokkum eignatrygginga. Töldu félögin að tjónatíðni hefði aukist varanlega. Á mynd 29 má sjá þróunina frá 1998 og þar sést að greinin hefur verið rekin með tapi frá árinu 2000. Það ár varð töluvert stökk í fjárhæð tjóna og síðan hafa tjónafjárhæðir verið verulega hærri en á árunum 1998–1999. Rekstrarkostnaður í eignatryggingum var árið 2002 638 millj. kr. og hækkaði úr 469 millj. kr. frá fyrra ári.

Mynd 29.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.












              







Tjónaskuld hækkar en útjöfnunarskuld lækkar.
    Á mynd 30 má sjá að þróun undanfarinna ára í tjónaskuld og útjöfnunarskuld hélt áfram á árinu 2002. Þó hægði á vexti tjónaskuldar þar sem raunaukning var 1,7%, samanborið við 7,2% árið áður. Útjöfnunarskuld lækkaði hins vegar hraðar en árið áður, um 7,2% samanborið við 4,9%.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 30.













                   





    Á mynd 31 sést hlutdeild helstu greina skaðatrygginga í tjónaskuld og útjöfnunarskuld.

Mynd 31.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





















    Greinar sem hafa hlutfallslega lága tjónaskuld miðað við hlutdeild í iðgjöldum gerast upp á tiltölulega skömmum tíma, t.d. eignatryggingar, á meðan t.d. fjárhæðir vegna hvers tjóns í slysatjónum lögboðinna ökutækjatrygginga eru í tjónaskuld í nokkur ár. Greinar sem hafa hlutfallslega háa útjöfnunarskuld einkennast af því að tjón eru fátíð, en einstök tjón geta orðið mjög dýr. Útjöfnunarskuld er hlutfallslega lág í greinum þar sem tjónatíðni er há, en tjónafjárhæðir að jafnaði lágar.

Góðar horfur í skaðatryggingarekstri á árinu 2003.
    Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Tryggingamiðstöðin hf. og Vátryggingafélag Íslands hf. eru einu vátryggingafélögin sem skráð eru á markaði og gefa því út milliuppgjör. Af milliuppgjörum þeirra má einnig fá mynd af starfsemi dótturfélaganna sem eru Sameinaða líftryggingafélagið hf., Líftryggingamiðstöðin hf. og Líftryggingafélag Íslands hf.
    Samanburður á hálfsársuppgjörum þessara þriggja samstæðna miðað við sama tímabil í fyrra á föstu verðlagi leiðir helst í ljós að iðgjöld í skaðatryggingarekstri jukust um 2,7% á meðan tjón drógust saman um 24,5%. Hagnaður af skaðatryggingarekstri varð 75% hærri á tímabilinu þannig að horfur eru á að árið 2003 reynist skaðatryggingafélögum einnig hagstætt.
    Samanlagt skilaði líftryggingarekstur áðurnefndra þriggja líftryggingafélaga 47 millj. kr. tapi á tímabilinu, en samanburðartölur frá sama tímabili árið 2002 liggja ekki fyrir.
    Loks má geta þess að frá áramótum hækkaði tjónaskuld félaganna að raungildi um 2,4% fyrstu sex mánuði ársins 2003, en ekki er hægt að bera þá tölu saman við hækkun síðasta árs þar sem hluti tjónaskuldar frá fyrri hluta árs er gerður upp á síðari hluta ársins.



Minnkandi sala vátryggingamiðlara til erlendra vátryggingafélaga.
    Bókfærð iðgjöld innlendra líftryggingafélaga námu 2,3 ma. kr. á síðasta ári, samanborið við 1,9 ma. kr. á síðasta ári. Frá árinu 1997 hafa vátryggingamiðlarar miðlað samtals 2,6 ma. kr. í iðgjöldum vegna nýrra samninga í persónutryggingum til erlendra vátryggingafélaga, en iðgjöld vegna nýrra samninga námu þó einungis 163 millj. kr. árið 2002. Hámarki náði miðlun nýrra samninga í persónutryggingum til erlendra vátryggingafélaga árið 2000, en þá var miðlað 809 millj. kr. 12 Sala vátryggingamiðlara í innlendum viðbótarlífeyrissparnaði hefur hins vegar aukist undanfarin ár. Á mynd 32 má sjá þróun í iðgjöldum vátryggingamiðlara til erlendra félaga vegna nýrra samninga á verðlagi ársins 2002.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 32.











                   








3. ÁHERSLUR Í STARFI FJÁRMÁLAEFTIRLITSINS NÆSTU MISSIRI
    Fjármálaeftirlitið byggir starfsemi sína á megináherslum sem mynda kjölfestu í starfseminni. Þessar megináherslur verða óbreyttar frá fyrra ári, en unnið verður að nýjum verkefnum á grundvelli þeirra. Í þessum kafla eru megináherslur Fjármálaeftirlitsins rifjaðar upp og vikið að verkefnum sem unnið verður að og falla að þessum áherslum.

3.1. Áhættustýring og innra eftirlit – hlutverk stjórna.
     Fjármálaeftirlitið stuðlar að því að í hverju fjármálafyrirtæki séu stjórnendur sem til þess eru bærir að búa fyrirtækinu sterkt skipulag, skýra stefnu, skilvirkar innri reglur og verkferla, viðeigandi upplýsingakerfi og innri endurskoðun. Með því er stjórnendunum sjálfum og öðrum starfsmönnum kleift að meta með réttu þá áhættu sem í starfseminni felst og stýra henni í samræmi við styrkleika fyrirtækisins.

Dæmi um almennar aðgerðir á síðasta tímabili:
          Fundir með stjórnarmönnum.
          Áhættumatskerfi fyrir fjármálafyrirtæki, álagspróf notuð í eftirliti.
          Styrking eftirlits á samstæðugrundvelli.
    Fjármálaeftirlitið mun halda áfram að efla samskipti við stjórnir fyrirtækja á fjármálamarkaði. Stefnt er að því að halda reglulega kynningarfundi fyrir stjórnarmenn eftirlitsskyldra aðila í því skyni að miðla af reynslu úr eftirliti Fjármálaeftirlitsins og koma á framfæri áhersluatriðum.
    Fjármálaeftirlitið mun auka vægi nýrra aðferða í eftirliti með áhættustýringu, koma á einkunnagjöf í eftirliti á fleiri sviðum og þróa álagspróf sem nýst geta í eftirliti.
    Fjármálaeftirlitið mun halda áfram að styrkja yfirsýn og eftirlit með samstæðum fyrirtækja á fjármálamarkaði. Samstarf við eftirlitsstofnanir í öðrum löndum verður eflt til að tryggja skilvirkt eftirlit með samstæðufyrirtækjum sem sótt hafa á erlenda markaði.

3.2. Starfshættir á fjármálamarkaði.
    Fjármálaeftirlitið fylgist með því að starfsemi á fjármálamarkaði sé í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Ör þróun í starfsemi á fjármálamarkaði kallar á stöðugt eftirlit með starfsháttum þar sem brugðist er við breyttum aðstæðum.

Dæmi um almennar aðgerðir á síðasta tímabili:
          Fyrirbyggjandi eftirlit í innherjaviðskiptum.
          Efling eftirlits með eigendum virkra eignarhluta.
          Setning tilmæla um efni reglna um stjórnir fjármálafyrirtækja.
    Aukið eftirlit með viðskiptum fjármálafyrirtækja við venslaða aðila.
          Mótun tilmæla er varða samninga um viðbótarlífeyrissparnað.
          Mótun tilmæla er varða miðlun og sölu vátrygginga.
    Fjármálaeftirlitið mun áfram leggja áherslu á fyrirbyggjandi eftirlit með starfsháttum á fjármálamarkaði í því skyni að draga úr hættunni á innherjasvikum, markaðsmisnotkun eða ófullnægjandi ráðgjöf til viðskiptamanna fyrirtækja á fjármálamarkaði. Mun Fjármálaeftirlitið m.a. huga að beitingu nýfenginna heimilda til að leggja stjórnvaldssektir á aðila sem ekki fylgja lagafyrirmælum um meðferð innherjaupplýsinga.
    Í þessu skyni er stefnt að því að setja leiðbeinandi tilmæli um viðskipti á verðbréfamarkaði, sem byggjast á grunnreglum sem nefnd evrópskra verðbréfaeftirlita (CESR) hefur staðfest og einsett sér að fylgja eftir. Grunnreglurnar varða ýmis atriði um samskipti fjármálafyrirtækja og viðskiptavina, svo sem ráðgjöf og frágang samninga. Huga þarf að nokkrum ákvæðum grunnreglnanna við næstu endurskoðun löggjafar á þessu sviði.
    Jafnframt þarf á næstu missirum að huga að innleiðingu og eftirfylgni við nýjar tilskipanir sem gilda munu á Evrópska efnahagssvæðinu um markaðssvik og útboðslýsingar. Þær tilskipanir gera m.a. ráð fyrir samræmingu og eflingu eftirlits og eftirlitsúrræða vegna þessara málaflokka.
    Hugað verður að umgjörð um starfsheimildir fjármálafyrirtækja. Stefnt er að því að styrkja eftirlit með tímabundinni starfsemi fjármálafyrirtækja í tengslum við svokallaða umbreytingafjárfestingu og huga að aðskilnaði hagsmuna í viðskiptabankastarfsemi annars vegar og fjárfestingarbankastarfsemi hins vegar.
    Áfram verður áhersla lögð á eftirlit með starfsháttum eigenda virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Miklar breytingar á eignarhaldi fjármálafyrirtækja undanfarna mánuði og fengin reynsla gefur Fjármálaeftirlitinu tilefni til að huga frekar að áhrifum þeirra á starfsemi viðkomandi fyrirtækja.

3.3. Markaðsaðhald.
    Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að stuðla að auknu gegnsæi í starfsemi fjármálafyrirtækja. Með því skapast aukið aðhald af hálfu markaðarins, samhliða aðhaldi innra eftirlits og opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi.

Dæmi um almennar aðgerðir á síðasta tímabili:
          Aukið gegnsæi í tryggingafræðilegum úttektum lífeyrissjóða, með framsetningu nýrra skýrslna. Umræðuskjal um ný skýrsluskil lífeyrissjóða um tryggingafræðilegar úttektir.
          Stórefld kynningarstarfsemi á vegum Fjármálaeftirlitsins gagnvart eftirlitsskyldum aðilum.
    Fjármálaeftirlitið mun taka þátt í undirbúningsvinnu við að taka upp reikningsskilastaðla Alþjóðareikningsskilaráðsins hér á landi í samræmi við skuldbindingar Íslands um að taka staðlana upp í samstæðureikningsskilum skráðra félaga frá og með árinu 2005. Fjármálaeftirlitið setur reglur um reikningsskil fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða og mun fylgjast með undirbúningi fjármálafyrirtækja vegna breytinganna. Ekki liggur hins vegar fyrir hvernig eftirliti með alþjóðareikningsskilastöðlunum verður háttað að öðru leyti. Mikilvægt er að vel verði staðið að breytingunum og að þær leiði til samræmdra og gegnsærra reikningsskila.
    Fjármálaeftirlitið telur brýnt að taka upp umræðu um hvernig auka megi upplýsingagjöf um starfsemi og niðurstöður eftirlitsins, einkum á verðbréfamarkaði. Í því efni verður að huga að því hvernig skilgreina megi betur þagnarskyldu eftirlitsins og um leið kveða á um upplýsingaskyldu þess í tilteknum málaflokkum.

3.4. Samkeppnishæfni fjármálamarkaðar.
    Fjármálaeftirlitið hefur hlutverki að gegna við að skapa hér samkeppnishæfan fjármálamarkað. Það er gert með þátttöku í mótun skilvirks fjármálamarkaðar og eftirfylgni við sjónarmið um hagsmuni viðskiptamanna og öryggi í fjármálaþjónustu.

Dæmi um almennar aðgerðir á síðasta tímabili:
          Efling eftirlits skilar sér í jákvæðum niðurstöðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í athugun á fjármálastöðugleika.
          Aukið samstarf við eftirlitsstofnanir í löndum þar sem innlend fjármálafyrirtæki stunda starfsemi.
    Fjármálaeftirlitið gegnir hlutverki við mótun samkeppnishæfs fjármálamarkaðar með þátttöku sinni í samstarfi evrópskra fjármálaeftirlita á einstökum sviðum fjármálamarkaðarins. Þessu samstarfi, sem lýst er nánar í kafla 1.5, er ætlað að stuðla að aukinni samræmingu reglna á fjármálamarkaði og einsleitni í eftirliti. Gangi þau áform eftir mun það koma íslenskum fyrirtækjum á fjármálamarkaði og viðskiptamönnum þeirra til góða. Vinna við upptöku staðla Alþjóðareikningsskilaráðsins er af sama meiði.
    Aukin útrás íslenskra fjármálafyrirtækja hefur í för með sér viðvarandi samanburð á íslenskum og erlendum fjármálamörkuðum. Fjármálaeftirlitið mun í starfsemi sinni leita samanburðar við erlend eftirlit í því skyni að styrkja samkeppnishæfni fjármálamarkaðarins.

4. EFTIRLITSSKYLDIR AÐILAR
4.1. Fjöldi eftirlitsskyldra aðila.
    Þann 30. júní 2003 var fjöldi þeirra aðila sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins sem hér greinir:

                   Starfa samkvamt lögum nr.:
Viðskiptabankar     4     161/2002, um fjármálafyrirtæki
Sparisjóðir     24     161/2002, um fjármálafyrirtæki
Lánafyrirtæki     9     161/2002, um fjármálafyrirtæki
Innlánsdeildir samvinnufélaga     7     22/1991, með síðari breytingum
Verðbréfafyrirtæki     7     161/2002, um fjármálafyrirtæki
Verðbréfamiðlanir     2     161/2002, um fjármálafyrirtæki
Verðbréfasjóðir     10     30/2003, um verðbréfasj. og fjárfestingarsj. *)
Rekstrarfélög verðbréfasjóða     6     161/2002, um fjármálafyrirtæki
Kauphallir og aðrir skipulegir tilboðsmarkaðir     1     34/1998, með síðari breytingum
Verðbréfamiðstöðvar     1     131/1997, með síðari breytingum
Lífeyrissjóðir     51     129/1997, með síðari breytingum
Vátryggingafélög     14     60/1994, með síðari breytingum
Vátryggingamiðlarar     19     60/1994, með síðari breytingum
Aðrir eftirlitsskyldir aðilar     5     Ýmis lög
Samtals     160

    *) Lög nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, tóku gildi 1. júlí 2003.

4.2.    Breytingar á starfsleyfum, heitum og fjölda eftirlitsskyldra aðila á tímabilinu 1. júlí 2002 til 30. júní 2003.
Lánamarkaður.
    Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn hf. var sameinað Þróunarfélagi Íslands hf. þann 7. október 2002 og starfaði félagið undir heiti hins síðarnefnda til 25. febrúar 2003 en þá var nafni félagsins breytt í Framtak Fjárfestingarbanka hf. Með lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem tóku gildi 1. janúar 2003 var kveðið á um að Hafnabótasjóður og Ferðamálasjóður teldust ekki til fjármálafyrirtækja en þessir sjóðir höfðu áður starfað samkvæmt lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Þann 11. febrúar 2003 samþykkti Fjármálaeftirlitið breytingu tveggja sparisjóða, Sparisjóðs Kaupþings og nb.is-sparisjóðsins, í hlutafélög.
    Þann 27. maí 2003 samþykkti Fjármálaeftirlitið samruna Kaupþings banka hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. en nafn hins sameinaða félags er Kaupþing Búnaðarbanki hf. Þann 20. september 2002 yfirtók Íslandsbanki hf., samkvæmt sérstökum samningi bankans og Kaupfélags Eyfirðinga, allar skuldbindingar innlánsdeildar Kaupfélags Eyfirðinga gagnvart eigendum innlánsfjár. Þann 31. desember 2002 var innlánsdeild Samvinnufélagsins Hreyfils lögð niður og viðskiptamönnum greiddar út innstæður við innlánsdeildina.

Verðbréfamarkaður.
Verðbréfafyrirtæki.
    Þann 3. október 2002 veitti viðskiptaráðherra félaginu Arion verðbréfavörslu hf. starfsleyfi verðbréfafyrirtækis á grundvelli laga nr. 13/1996.

Verðbréfamiðlanir.
    Þann 30. júní 2003 skilaði félagið Annar hf.-Verðbréf starfsleyfi sínu til verðbréfamiðlunar til Fjármálaeftirlitsins.

Lífeyrismarkaður.
    Þann 24. febrúar 2003 staðfesti fjármálaráðuneytið breytingar á samþykktum Almenna lífeyrissjóðsins VÍB hf. og Lífeyrissjóðs arkitekta og tæknifræðinga en sjóðirnir voru sameinaðir undir heitinu Almenni lífeyrissjóðurinn miðað við 1. janúar 2003.

Vátryggingamarkaður.
Vátryggingafélög.
    Þann 30. júlí 2002 veitti viðskiptaráðherra Íslandstryggingu hf. starfsleyfi vátryggingafélags í ákveðnum greinum skaðatrygginga. Þann 6. nóvember 2002 veitti viðskiptaráðherra Líftryggingamiðstöðinni hf. starfsleyfi vátryggingafélags í greinaflokki áhættu- og söfnunarlíftrygginga.

Vátryggingamiðlarar.
    Viðskiptaráðherra veitti eftirgreind starfsleyfi vátryggingamiðlara hér á landi á tímabilinu: Tryggingar og ráðgjöf ehf. 26. september 2002; DDF Vátryggingamiðlunin ehf. 12. nóvember 2002; Tryggingamiðlun Reykjavíkur ehf. 10. mars 2003; Tryggingaþjónustan ehf. 14. maí 2003.
    Fjármálaeftirlitið skráði þessi félög í vátryggingamiðlaraskrá á tímabilinu: Besso Limited, London, 30. september 2002; Aon Limited, London, 6. júní 2003.
    Eftirtalin félög skiluðu starfsleyfum sínum sem vátryggingamiðlarar til viðskiptaráðuneytisins á tímabilinu: Tryggingamiðlunin Gildi ehf. 28. ágúst 2002; Íslenska vátryggingamiðlunin ehf. (ÍSVÁ. ehf.) 10. október 2002; Vátryggingamiðlunin ehf. 18. október 2002; Nor Finans á Íslandi ehf. 26. febrúar 2003. Þann 15. janúar 2003 var starfsleyfi Den Danske Forsikringsmægler A/S hér á landi fellt niður.
    Á tímabilinu hafa eftirgreindir einstaklingar skilað starfsleyfum sínum til vátryggingamiðlunar: Valur Arnþórsson 27. júlí 2002; Örn Gústafsson 3. september 2002; Ingi Eldjárn Sigurðsson 22. nóvember 2002; Kristinn Rúnar Sigurðsson 13. febrúar 2003; Trausti Sigurðsson 24. febrúar 2003.

Aðrir eftirlitsskyldir aðilar.
    Þann 1. júlí 2002 var nafni Verðbréfaþings Íslands hf. breytt í Kauphöll Íslands hf.

4.3. Listi yfir eftirlitsskylda aðila 30. júní 2003.

         VIÐSKIPTABANKAR    Höfuðstöðvar
         Íslandsbanki hf.     Reykjavík
         Kaupþing Búnaðarbanki hf.     Reykjavík
         Landsbanki Íslands hf.     Reykjavík
         Sparisjóðabanki Íslands hf.     Reykjavík

         SPARISJÓÐIR
         nb.is-sparisjóður hf.     Reykjavík
         Sparisjóður Bolungarvíkur     Bolungarvík
         Sparisjóður Hafnarfjarðar     Hafnarfjörður
         Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis     Höfn
         Sparisjóður Hólahrepps     Sauðárkrókur
         Sparisjóður Húnaþings og Stranda     Hvammstangi
         Sparisjóður Höfðhverfinga     Grenivík
         Sparisjóður Kaupþings hf.     Reykjavík
         Sparisjóður Kópavogs     Kópavogur
         Sparisjóður Mýrasýslu     Borgarnes
         Sparisjóður Norðfjarðar     Neskaupstaður
         Sparisjóður Norðlendinga     Akureyri
         Sparisjóður Ólafsfjarðar     Ólafsfjörður
         Sparisjóður Ólafsvíkur     Ólafsvík
         Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis     Reykjavík
         Sparisjóður Siglufjarðar     Siglufjörður
         Sparisjóður Strandamanna     Hólmavík
         Sparisjóður Suður-Þingeyinga     Laugar
         Sparisjóður Svarfdæla     Dalvík
         Sparisjóður Vestfirðinga     Þingeyri
         Sparisjóður Vestmannaeyja     Vestmannaeyjar
         Sparisjóður vélstjóra     Reykjavík
         Sparisjóður Þórshafnar     Þórshöfn
         Sparisjóðurinn í Keflavík     Keflavík

         LÁNAFYRIRTÆKI
         Framtak Fjárfestingarbanki hf.     Reykjavík
         Frjálsi Fjárfestingarbankinn hf.     Reykjavík
         Greiðslumiðlun hf. – VISA Ísland     Reykjavík
         Kreditkort hf. – EUROPAY Ísland     Reykjavík
         Byggðastofnun     Reykjavík
         Lánasjóður landbúnaðarins     Selfoss
         Glitnir hf.     Reykjavík
         Lýsing hf.     Reykjavík
         SP-Fjármögnun hf.     Reykjavík

         INNLÁNSDEILDIR SAMVINNUFÉLAGA
         Kaupfélag Árnesinga     Selfoss
         Kaupfélag Austur-Skaftfellinga     Höfn
         Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga     Fáskrúðsfjörður
         Kaupfélag Héraðsbúa     Egilsstaðir
         Kaupfélag Skagfirðinga     Skagafjörður
         Kaupfélag Suðurnesja     Reykjanesbær
         Kaupfélag V-Húnvetninga     Hvammstangi

         VERÐBRÉFAFYRIRTÆKI     Höfuðstöðvar
         Arion verðbréfavarsla hf.     Reykjavík
         Fjárvernd – Verðbréf hf.     Reykjavík
         Íslensk verðbréf hf.     Akureyri
         Jöklar – Verðbréf hf.     Reykjavík
         MP Verðbréf hf.     Reykjavík
         Verðbréfastofan hf.     Reykjavík
         Virðing hf.     Reykjavík

         VERÐBRÉFAMIÐLANIR
         Íslenskir fjárfestar hf.     Reykjavík
         Vaxta ehf. – verðbréfamiðlun     Kópavogur

         VERÐBRÉFASJÓÐIR
         Hávöxtunarfélagið hf.     Reykjavík
         Heimasjóðir ÍSB hf. *)     Reykjavík
         Landssjóður hf.     Reykjavík
         Landssjóður2 hf. *)     Reykjavík
         SPH Verðbréfasjóðurinn hf. *)     Reykjavík
         Verðbréfasjóðir Íslandsbanka hf.     Reykjavík
         Verðbréfasjóður Búnaðarbankans hf.     Reykjavík
         Vísitölusjóður BÍ hf. *)     Reykjavík
         Verðbréfasjóður ÍV hf. *)     Akureyri
         Ævisjóðurinn hf. *)     Reykjavík

          *) Verðbréfasjóðir sem eingöngu er heimilt að markaðssetja á Íslandi.

         REKSTRARFÉLÖG VERÐBRÉFASJÓÐA
         Íslensk Verðbréf-Eignastýring ehf.     Akureyri
         Kaupþing-eignastýring ehf.     Reykjavík
         Landsvaki ehf.     Reykjavík
         Rekstrarfélag Verðbréfasjóðs Búnaðarbankans hf.     Reykjavík
         Rekstrarfélag ÍSB hf.     Reykjavík
         SPH Rekstrarfélag ehf.     Reykjavík

         KAUPHALLIR OG AÐRIR TILBOÐSMARKAÐIR
         Kauphöll Íslands hf.     Reykjavík

         VERÐBRÉFAMIÐSTÖÐVAR
         Verðbréfaskráning Íslands hf.     Reykjavík

         LÍFEYRISSJÓÐIR     Höfuðstöðvar
         Almenni lífeyrissjóðurinn     Reykjavík
         Eftirlaunasjóður F.Í.A.     Reykjavík
         Eftirlaunasjóður Reykjanesbæjar     Keflavík
         Eftirlaunasjóður Sláturfélags Suðurlands     Reykjavík
         Eftirlaunasjóður slökkviliðsmanna
                   á Keflavíkurflugvelli     Keflavík
         Eftirlaunasjóður starfsmanna
                   Hafnarfjarðarkaupstaðar     Hafnarfjörður
         Eftirlaunasjóður starfsmanna Íslandsbanka hf.     Reykjavík
         Eftirlaunasjóður starfsmanna Olíuverzlunar Íslands     Reykjavík
         Eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbanka Íslands     Reykjavík
         Frjálsi lífeyrissjóðurinn     Reykjavík
         Íslenski lífeyrissjóðurinn     Reykjavík
         Lífeyrissjóður Akraneskaupstaðar     Akranes
         Lífeyrissjóður Austurlands     Neskaupstaður
         Lífeyrissjóður bankamanna     Reykjavík
         Lífeyrissjóður Bolungarvíkur     Bolungarvík
         Lífeyrissjóður bænda     Reykjavík
         Lífeyrissjóður Hf. Eimskipafélags Íslands     Reykjavík
         Lífeyrissjóður Flugvirkjafélags Íslands     Reykjavík
         Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga     Reykjavík
         Lífeyrissjóður lækna     Reykjavík
         Lífeyrissjóður Mjólkursamsölunnar     Reykjavík
         Lífeyrissjóður Neskaupstaðar     Reykjavík
         Lífeyrissjóður Norðurlands     Akureyri
         Lífeyrissjóður Rangæinga     Hella
         Lífeyrissjóður sjómanna     Reykjavík
         Lífeyrissjóður starfsmanna Akureyrarbæjar     Akureyri
         Lífeyrissjóður starfsmanna
                   Áburðarverksmiðju ríkisins     Reykjavík
         Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf.     Reykjavík
         Lífeyrissjóður starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar     Reykjavík
         Lífeyrissjóður starfsmanna Kópavogsbæjar     Kópavogur
         Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurapóteks     Reykjavík
         Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar     Reykjavík
         Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins     Reykjavík
         Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga     Reykjavík
         Lífeyrissjóður starfsmanna Vestmannaeyjabæjar     Vestmannaeyjar
         Lífeyrissjóður Suðurlands     Selfoss
         Lífeyrissjóður Suðurnesja     Keflavík
         Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands     Reykjavík
         Lífeyrissjóður verkfræðinga     Reykjavík
         Lífeyrissjóður verslunarmanna     Reykjavík
         Lífeyrissjóður Vestfirðinga     Ísafjörður
         Lífeyrissjóður Vestmannaeyja     Vestmannaeyjar
         Lífeyrissjóður Vesturlands     Akranes
         Lífeyrissjóðurinn Framsýn     Reykjavík
         Lífeyrissjóðurinn Lífiðn     Reykjavík
         Lífeyrissjóðurinn Skjöldur     Reykjavík
         Sameinaði lífeyrissjóðurinn     Reykjavík
         Samvinnulífeyrissjóðurinn     Reykjavík
         Séreignalífeyrissjóðurinn     Reykjavík
         Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda     Reykjavík
         Tryggingasjóður lækna     Reykjavík
         
         VÁTRYGGINGAFÉLÖG     Höfuðstöðvar
         Alþjóða líftryggingarfélagið hf.     Reykjavík
         Íslensk endurtrygging hf.     Reykjavík
         Íslandstrygging hf.     Reykjavík
         Líftryggingamiðstöðin hf.     Reykjvaík
         Líftryggingafélag Íslands hf.     Reykjavík
         Sameinaða líftryggingarfélagið hf.     Reykjavík
         Sjóvá-Almennar tryggingar hf.     Reykjavík
         Trygging hf.     Reykjavík
         Tryggingamiðstöðin hf.     Reykjavík
         Vátryggingafélag Íslands hf.     Reykjavík
         Vélbátaábyrgðarfélagið Grótta     Reykjavík
         Vélbátaábyrgðarfélag Ísfirðinga     Ísafjörður
         Viðlagatrygging Íslands     Reykjavík
         Vörður vátryggingafélag     Akureyri

         VÁTRYGGINGAMIÐLANIR
         Aon Limited     London
         Alþjóðafjárfestinga- og vátryggingamiðlunin ehf.     Kópavogur
         Alþjóðleg miðlun ehf.
                   (skilaði starfsleyfi 22. ágúst 2003)     Reykjavík
         Árni Reynisson ehf.     Reykjavík
         Besso Limited     London
         DDF Vátryggingamiðlunin ehf.     Reykjavík
         Fjárfestingamiðlun Íslands ehf.     Kópavogur
         Heath Lambert Norway AS     Osló
         Howden Insurance Brokers Ltd.     London
         Marsh Ltd.     London
         Nýja vátryggingaþjónustan hf.     Reykjavík
         Provins Insurance AB     Svíþjóð
         Tryggingamiðlun Reykjvíkur ehf.     Reykjavík
         Tryggingastofan ehf.
                  (skilaði starfsleyfi 18. ágúst 2003)     Reykjavík
         Trygg miðlun ehf.     Reykjavík
         Tryggingamiðlun Íslands ehf.     Reykjavík
         Tryggingar og ráðgjöf ehf.     Reykjavík
         Tryggingaþjónustan ehf     Reykjavík
         UIB Nordic AB
                   (skráð í vátryggingamiðlaraskrá 27. ágúst 2003)     Svíþjóð
         Willis AB     Stokkhólmi

         AÐRIR EFTIRLITSSKYLDIR AÐILAR
         Íbúðalánasjóður – húsbréfadeild     Reykjavík
         Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins     Reykjavík
         Póstgíró – Íslandspóstur hf.     Reykjavík
         Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta     Reykjavík
         Tryggingasjóður sparisjóða     Reykjavík

4.4.    Vátryggingamiðlarar sem falla undir starfsábyrgðartryggingu vátryggingamiðlana.
         Árni Reynisson, Árni Reynisson ehf.     
         Eiríkur Hans Sigurðsson, Nýja vátryggingaþjónustan hf.
         Halldór Sigurðsson, Alþjóðleg miðlun ehf.
         Hákon Hákonarson, Trygging og ráðgjöf ehf.
         Karl Jónsson, Tryggingamiðlun Íslands ehf.
         Leo Árnason (skilaði starfsleyfi sínu 19. ágúst 2003), Tryggingastofan ehf.
         Ólaf Forberg, Alþjóðafjárfestinga- og vátryggingamiðlunin ehf.
         Ómar Einarsson, Nýja vátryggingaþjónustan hf.
         Sigurður Rúnar Ástvaldsson, Trygg miðlun ehf.
         Sigþór Hákonarson, DDF Vátryggingamiðlunin ehf.
         Þorlákur Pétursson, Fjárfestingamiðlun Íslands ehf.

5. BREYTINGAR Á LÖGUM OG REGLUM
5.1. Almennt.
Endurskipulagning fjármálalöggjafar á Íslandi.
    Á árinu 2002 lauk viðamikilli endurskipulagningu fjármálalöggjafar á Íslandi. Þann 1. janúar 2003 tóku gildi lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Frumvarp til þeirra laga hafði verið í undirbúningi í svokallaðri bankalaganefnd. Með lögunum féllu úr gildi lög um viðskiptabanka og sparisjóði, lög um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, lög um rafeyrisfyrirtæki og hluti laga um verðbréfaviðskipti. Með fjármálafyrirtækjum er átt við viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir, rafeyrisfyrirtæki og rekstrarfélög verðbréfasjóða. Einnig gengu í gildi 1. júlí sl. lög nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti og lög nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Fjármálaeftirlitið hefur unnið að endurskoðun og uppfærslu reglna sem því ber að setja samkvæmt nýrri löggjöf á fjármálamarkaði. Gefnar hafa verið út reglur og reglugerðir með stoð í nýju lögunum og er þeirra getið í viðeigandi undirköflum hér á eftir. Reglur og reglugerðir með stoð í eldri lögum sem gert er ráð fyrir í nýju lögunum halda gildi þar til endurskoðun er lokið.

Lög nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
Breytingar:
          Lög nr. 50/2003: Með lögunum er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli gefa út tilkynningar um einstaklinga og lögaðila sem eftirlitsskyldum aðilum ber sérstaklega að kanna hvort stofnað hafi verið til viðskipta við. Fjármálafyrirtækjum er skylt að koma í veg fyrir hvers konar fjármagnsflutninga, svo sem afhendingu fjármuna, úttektir, millifærslur, eignarskráningu sem og önnur viðskipti, og hindra þannig að þeir aðilar sem tilgreindir eru fái greiðslur í hendur eða geti nýtt sér fjármuni með öðrum hætti.

Lög nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
Breytingar:
          Lög nr. 157/2002: Með lögunum er hundraðshluta eftirlitsgjalds, sem kveðið er á um í 5. gr. laga nr. 99/1999, breytt til samræmis við áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins, sbr. 2. gr. laga nr. 99/1999.

Samstarfssamningur milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands.
    Fyrri samstarfssamningur Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins var endurskoðaður. Í samningnum er nú kveðið með skýrari hætti á um samstarf þessara aðila um mat á hugsanlegri kerfisáhættu á fjármálamarkaði og viðbrögð við slíkum aðstæðum. Þá var staðfestur sérstakur samningur á milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands vegna greiðslu- og uppgjörskerfa þar sem kveðið er á um hlutverk þeirra í umsjón og eftirliti á því sviði.

5.2. Lánamarkaður.
Lög nr. 98/1999, um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
Breytingar:
          Lög nr. 139/2002: Með lögunum er kveðið á um breytingar á 8. gr. laganna þar sem fram kemur að skuldbindingar sem stofnað sé til áður en leyfi sé afturkallað eða útibú útilokað frá sjóðnum skuli njóta tryggingaverndar í samræmi við III. kafla laganna.

Lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    Með lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, voru sameinuð í ein heildarlög um fjármálafyrirtæki lög nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, lög nr. 37/2002, um rafeyrisfyrirtæki, og ákvæði um stofnun og starfsemi verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana í lögum nr. 13/ 1996, um verðbréfaviðskipti. Gerðar voru ýmsar breytingar með lögunum til að taka mið af nýjum aðstæðum, greinum bætt við vegna nýrra krafna og ákvæði sem ekki eiga lengur við felld brott. Sem dæmi um ný ákvæði má nefna að Fjármálaeftirlitið veitir og afturkallar starfsleyfi í stað viðskiptaráðherra. Þá var Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að ákvarða hærra eiginfjárhlutfall en 8% fyrir þau fjármálafyrirtæki sem talin eru hafa ófullnægjandi fjárhagsstöðu með hliðsjón af áhættustigi. Þá var skilgreint með nánari hætti en gert var í fyrri löggjöf hvaða brot eru refsinæm og sérstakir brotaflokkar tilgreindir.

Reglugerð nr. 120/2000, um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
Breytingar:
          Reglugerð nr. 864/2002: Með reglugerðinni eru gerðar breytingar á þremur ákvæðum reglugerðar nr. 120/2000.
Reglur um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja, nr. 530/2003.
    Reglurnar ná nú til fjármálafyrirtækja í stað áður lánastofnana, verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana. Rafeyrisfyrirtæki eru þó undanskilin þar sem um þau gilda sérstakar eiginfjárreglur skv. 80. gr. laga nr. 161/2002. Sú tegund fyrirtækja sem kemur ný undir reglurnar er rekstrarfélög verðbréfasjóða.

Reglur um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum, nr. 531/2003.
    Reglurnar (áður reglugerð útgefin af viðskiptaráðuneytinu) ná nú til fjármálafyrirtækja í stað lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu áður. Þær tegundir fyrirtækja sem koma nýjar undir reglurnar eru rekstrarfélög verðbréfasjóða og rafeyrisfyrirtæki.

Reglur um endurskoðun fjármálafyrirtækja, nr. 532/2003.
    Reglurnar ná nú til fjármálafyrirtækja í stað lánastofnana áður, þ.e. verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir, rekstrarfélög verðbréfasjóða og rafeyrisfyrirtæki koma ný inn sem fyrirtæki sem reglurnar ná til.

Reglur um viðbótareiginfjárlið fyrir fjármálafyrirtæki, nr. 540/2003.
    Reglurnar ná nú til fjármálafyrirtækja en áður náðu þær til lánastofnana, verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana. Þær tegundir fjármálafyrirtækja sem koma nýjar undir reglurnar eru rekstrarfélög verðbréfasjóða og rafeyrisfyrirtæki.

5.3. Verðbréfamarkaður.
Lög nr. 98/1999, um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
Breytingar:
          Lög nr. 139/2002: Með lögunum er kveðið á um breytingar á 8. gr. laganna þar sem fram kemur að skuldbindingar sem stofnað sé til áður en leyfi sé afturkallað eða útibú útilokað frá sjóðnum skuli njóta tryggingaverndar í samræmi við III. kafla laganna.

Lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    Með lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, voru sameinuð í ein heildarlög um fjármálafyrirtæki lög nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, lög nr. 37/2002, um rafeyrisfyrirtæki, og ákvæði um stofnun og starfsemi verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana í lögum nr. 13/ 1996, um verðbréfaviðskipti.

Lög nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.
    Með lögunum er m.a. innleidd breyting á tilskipun um sameiginlega fjárfestingu ásamt því að skapa hagstæðara umhverfi til reksturs sjóða um sameiginlega fjárfestingu hér á landi og stuðla að skilvirkari neytendavernd.

Lög nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti.
    Með lögunum er komin heildarlöggjöf sem hefur að geyma hegðunarreglur á verðbréfamarkaði og ákvæði um réttindi og skyldur fjármálafyrirtækja sem heimild hafa til verðbréfaviðskipta. Ákvæði laganna byggjast á þeim grunni sem lagður var með gildandi lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 13/1996, og lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, nr. 34/1998.

Reglugerð nr. 120/2000, um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
Breytingar:
          Reglugerð nr. 864/2002: Með reglugerðinni eru gerðar breytingar á þremur ákvæðum reglugerðar nr. 120/2000.

Reglugerð nr. 630/2003, um verðbréfaviðskipti.
    Reglugerð þessi tekur til hverjir geta talist fagfjárfestar skv. c-lið 7. tölul. 2. gr. laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti og framkvæmd almennra útboða verðbréfa. Með henni féllu úr gildi reglugerð um yfirtökutilboð nr. 432/1999 og reglugerð um útboð verðbréfa nr. 477/2001.

Reglugerð nr. 633/2003, um próf í verðbréfaviðskiptum.
    Reglugerðin fjallar um framkvæmd á prófi í verðbréfaviðskiptum skv. 53. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Próf þetta nefnist verðbréfaviðskiptapróf. Starfsmenn fjármálafyrirtækis, sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga skv. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki, skulu hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum. Með henni féll úr gildi reglugerð nr. 506/2000, um próf í verðbréfamiðlun.

Reglur nr. 331/2003, um vísitölusjóði.
    Reglurnar gilda um vísitölusjóði er starfa á grundvelli laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði. Þar er m.a. kveðið á um að verðbréfasjóði, eða einstökum deildum hans, skv. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 10/1993, sé heimilt að fjárfesta allt að 35% af eignum sínum í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda, enda sé, í samþykktum og fjárfestingarstefnu sjóðsins, eða viðkomandi deild hans, kveðið á um að eignasamsetning hans skuli endurspegla ákveðna verðbréfavísitölu.

Reglur um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja, nr. 530/2003.
    Reglurnar ná nú til fjármálafyrirtækja í stað áður lánastofnana, verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana. Rafeyrisfyrirtæki eru þó undanskilin þar sem um þau gilda sérstakar eiginfjárreglur skv. 80. gr. laga nr. 161/2002. Þær tegundir fyrirtækja sem koma nýjar undir reglurnar eru rekstrarfélög verðbréfasjóða.

Reglur um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum, nr. 531/2003.
    Reglurnar (áður reglugerð útgefin af viðskiptaráðuneytinu) ná nú til fjármálafyrirtækja í stað áður til lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Þær tegundir fyrirtækja sem koma nýjar undir reglurnar eru rekstrarfélög verðbréfasjóða og rafeyrisfyrirtæki.

Reglur um endurskoðun fjármálafyrirtækja, nr. 532/2003.
    Reglurnar ná nú til fjármálafyrirtækja í stað lánastofnana áður, þ.e. verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir, rekstrarfélög verðbréfasjóða og rafeyrisfyrirtæki koma ný inn sem fyrirtæki sem reglurnar ná til.

Reglur um viðbótareiginfjárlið fyrir fjármálafyrirtæki, nr. 540/2003.
    Reglurnar ná nú til fjármálafyrirtækja en áður náðu þær til lánastofnana, verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana.

5.4. Lífeyrismarkaður.
Lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
Breytingar:
          Lög nr. 73/2003: Með þeim voru gerðar breytingar á innlendri löggjöf sem nauðsynlegar eru vegna Vaduz-samningsins.
                  Lúta þær að ákvæðum laga er varða vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjárfestingar og rétt til stofnsetningar.

Reglugerð nr. 391/1998, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
Breytingar:
          Reglugerð nr. 293/2003: Með reglugerðinni eru gerðar breytingar á þremur ákvæðum reglugerðar nr. 391/1998.

Reglur nr.765/2002, um breytingu á reglum nr. 55/2000, um ársreikninga lífeyrissjóða.
    Fjármálaeftirlitið hefur gefið út reglur nr. 765/2002, um breytingu á reglum nr. 55/2000, um ársreikninga lífeyrissjóða. Breytingarnar fela í sér afnám þeirra ákvæða sem kveða á um verðbólgureikningsskil. Enn fremur er gerð breyting á viðauka III með ársreikningareglunum sem felur í sér sérstaka reglu við útreikning á hreinni raunávöxtun hjá þeim lífeyrissjóðum sem reikna daglegt gengi eigna, sbr. enn fremur 10. gr. reglna nr. 765/2002.

5.5. Vátryggingamarkaður.
Lög nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.
Breytingar:
          Lög nr. 29/2003, um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi. Með lögunum var gerð breyting á lögum um vátryggingastarfsemi vegna lögleiðingar svonefndrar 4. tilskipunar um ökutækjatryggingar, þ.e. 2000/26/ESB, þar á meðal varðandi meðferð bótakrafna vegna tjóna erlendis, tjónsuppgjörsfulltrúa, tjónsuppgjörsmiðstöð og upplýsingamiðstöð. Í tengslum við þetta var einnig gerð breyting á umferðarlögum, nr. 87/1950, með lögum nr. 26/2003. Í framhaldi þessa var sett ný reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar, nr. 392/2003.
          Lög nr. 34/2003, um breytingu á lögunum um vátryggingastarfsemi. Lagabreytingin er vegna lögleiðingar tilskipunar Evrópusambandsins um endurskipulagningu og slit vátryggingafélaga nr. 2001/17/ESB. Megintilgangur tilskipunarinnar er að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á aðgerðum aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins og samvinnu varðandi endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélaga og slita þeirra og ákveðna lágmarksamræmingu landsreglna í því sambandi.
          Lög nr. 37/2003, um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi, í tengslum við lögleiðingu tilskipunar um lágmarksgjaldþol vátryggingafélaga nr. 2002/12/ESB og nr. 2002/13/ESB. Lágmarksfjárhæðir eru hækkaðar.

Reglugerð nr. 459/2003, um útreikning gjaldþols vátryggingafélaga.
Reglugerð nr. 632/2003, um eignir sem telja má til gjaldþols vátryggingafélaga og útreiknings lágmarksgjaldþols.
Reglugerð nr. 699/2003, um breytingu á reglugerð nr. 646/1995, um jöfnun eigna á móti vátryggingaskuld.



5.6. Leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins.
    Fjármálaeftirlitið hefur gefið út almenn leiðbeinandi tilmæli á nokkrum sviðum fjármálamarkaðar. Leiðbeinandi tilmæli eru sett á grundvelli lagaheimildar í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Samkvæmt ákvæðinu er Fjármálaeftirlitinu heimilt að gefa út og birta opinberlega almenn leiðbeinandi tilmæli um starfsemi eftirlitsskyldra aðila, enda varði málefnið hóp eftirlitsskyldra aðila.

Leiðbeinandi tilmæli nr. 2/2001, um efni reglna útgefenda verðbréfa um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja, með breytingum.
    Leiðbeinandi tilmæli nr. 2/2001 voru endurútgefin með áorðnum breytingum vegna laga nr. 39/2002 og vegna nýrra laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 sem tóku gildi 1. júlí sl. Breytingar þær sem gerðar hafa verið á tilmælunum taka til þeirra atriða sem tekið hafa breytingum í lögum, svo sem orðalagi ákvæðis um innherjasvik, ákvæðis um gildissvið reglna og hugtakaskilgreininga. Auk þess eru gerðar breytingar á orðalagi er lýtur að heimild regluvarðar til að hafna viðskiptum innherja, en það orðalag hefur sætt nokkurri gagnrýni.

Leiðbeinandi tilmæli nr. 7/2002, um starfshætti vátryggingamiðlara.
    Fjármálaeftirlitið hefur í samskiptum sínum við neytendur og vátryggingamiðlara orðið vart við að reglur skorti um ýmis atriði í tengslum við miðlun vátrygginga. Tilmælin eru því að miklu leyti unnin í tilefni af þeim erindum og athugasemdum sem Fjármálaeftirlitinu hafa borist vegna eftirlits með vátryggingamiðlurum.

Leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2003, um efni reglna skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    Í 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 kemur fram að stjórn fjármálafyrirtækja skuli setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa stjórnarinnar. Í leiðbeinandi tilmælum þessum er fjallað um tiltekin atriði sem til sérstakrar umræðu hafa verið í samskiptum eftirlitsins við fjármálafyrirtæki.



Fylgiskjal IV.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er greint frá áætlun um umfang og kostnað af opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi og lagðar til gjaldaheimildir til að standa undir kostnaðinum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að kostnaður af starfsemi Fjármálaeftirlitsins verði 288,7 millj. kr. árið 2004 sem er 8,5% hækkun frá áætluðum kostnaði yfirstandandi árs. Sú upphæð greiðist að mestu með álögðu gjaldi á fjármálafyrirtæki sem er áætlað 289,5 millj. kr. árið 2004 og er það 11,4% hækkun miðað við áætlaða innheimtu ársins 2003. Einnig er gert ráð fyrir að sértekjur stofnunarinnar verði 3 millj. kr. sem vegur að mestu leyti á móti 3,7 millj. kr. áætluðum halla stofunarinnar á yfirstandandi ári.
Neðanmálsgrein: 1
    1     Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til breytinga á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sem lagt var fram við 2. umræðu frumvarpsins á 127. löggjafarþingi 2001–2002 (þskj. 529–230. mál) lagði nefndin til að þegar frumvarp sama efnis yrði lagt fyrir Alþingi á næsta haustþingi yrði horft lengra en verið hefur hingað til og t.d. lagt mat á starfsmannaþörf Fjármálaeftirlitsins til næstu þriggja ára þaðan í frá.
Neðanmálsgrein: 2
    2     Ítarleg grein var gerð fyrir niðurstöðum skýrslunnar í greinargerð um mat á starfsmannaþörf í Fjármálaeftirlitinu sem unnin var á árinu 2001 og birt með frumvarpi til laga um breytingu á álagningarhlutföllum laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar af opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
Neðanmálsgrein: 3
    3     Í þessum kafla er fjallað um eftirlit með fyrirtækjum sem falla undir lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, bæði á sviði lána- og verðbréfamarkaðar.
Neðanmálsgrein: 4
    4     Tekið er mið af samstæðuuppgjörum viðskiptabankanna og sex stærstu sparisjóða þegar fjallað er um viðskiptabanka og sparisjóði í þessum kafla, nema annað sé tekið fram. Í tölum frá fyrri árum eru meðtaldir forverar bankanna sem þá höfðu stöðu sem lánastofnanir, t.d. FBA og Kaupþing.
Neðanmálsgrein: 5
    5     Hlutdeild þessara banka af öðrum rekstrartekjum hjá viðskiptabönkum og 6 stærstu sparisjóðum er nálægt 90%.
Neðanmálsgrein: 6
    6     Með vanskilum er hér átt við vanskil sem staðið hafa lengur en 1 mánuð. Kaupþing banki hf. er innifalinn í tölum m.v. lok mars 2002 og síðar.
Neðanmálsgrein: 7
    7     Óvaxtaberandi útlán að frádregnum sérstökum afskriftum.
Neðanmálsgrein: 8
    8      Skuldabréfaeign að frádregnum framvirkum samningum og skiptasamningum á móti skuldabréfaeign.
Neðanmálsgrein: 9
    9      Hlutabréfaeign að frádregnum framvirkum samningum og skiptasamningum á móti hlutabréfaeign.
Neðanmálsgrein: 10
    10 Miðað við móðurfélagsuppgjör.
Neðanmálsgrein: 11
    11     Kaupþings Búnaðarbanka (áður Búnaðarbanka og Kaupþings banka), Íslandsbanka, Landsbanka, og sex stærstu sparisjóða.
Neðanmálsgrein: 12
    12     Sem svarar til 903 millj. kr. á verðlagi ársins 2002.