Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 306. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 351  —  306. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



Breyting á orkulögum, nr. 58 29. apríl 1967, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 80. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þó skulu aðilar skv. 1. mgr. greiða til sveitarfélaga þau opinber gjöld sem gert er að greiða af húseignum í eigu þeirra samkvæmt öðrum lagafyrirmælum.

Breyting á lögum um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja,
nr. 10 19. mars 2001, með síðari breytingum.

2. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist nýr málsliður, er verður 2. málsl., svohljóðandi: Þó skal Hitaveita Suðurnesja hf. greiða til sveitarfélaga þau opinber gjöld sem gert er að greiða af húseignum félagsins samkvæmt öðrum lagafyrirmælum.

Breyting á lögum um stofnun hlutafélags um Norðurorku,
nr. 159 20. desember 2002, með síðari breytingum.

3. gr.

    Við 1. mgr. 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skal Norðurorka hf. greiða til sveitarfélaga þau opinber gjöld sem gert er að greiða af húseignum félagsins samkvæmt öðrum lagafyrirmælum.

Breyting á lögum um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða,
nr. 40 30. maí 2001, með síðari breytingum.

4. gr.

    Við 12. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skal Orkubú Vestfjarða hf. greiða til sveitarfélaga þau opinber gjöld sem gert er að greiða af húseignum félagsins samkvæmt öðrum lagafyrirmælum.

Breyting á lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur,
nr. 139 21. desember 2001, með síðari breytingum.

5. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist nýr málsliður, er verður 2. málsl., svohljóðandi: Þó skal Orkuveita Reykjavíkur greiða til sveitarfélaga þau opinber gjöld sem gert er að greiða af húseignum fyrirtækisins samkvæmt öðrum lagafyrirmælum.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að samræmd verði sérákvæði ýmissa laga á orkusviði hvað varðar skyldu orkufyrirtækja til greiðslu fasteignaskatta. Til þessa hafa gilt mismunandi reglur um skyldu orkufyrirtækja til greiðslu fasteignaskatts af húseignum sem hefur leitt til þess að sambærilegar eignir innan sama sveitarfélags hafa hlotið mismunandi meðhöndlun eftir því hvaða orkufyrirtæki er eigandi eignanna.
    Framan af gætti einkum óánægju með að Rafmagnsveitur ríkisins væru með öllu undanþegnar greiðslu fasteignaskatta. Í kjölfar þess að á 126. löggjafarþingi var samþykkt frumvarp til laga um breytingu á orkulögum urðu hins vegar deilur um skyldu Orkuveitu Reykjavíkur til greiðslu fasteignaskatts. Frumvarpið var lagt fram til að gera starfandi raf- og hitaveitum mögulegt að breyta um rekstrarform án þess að slíkt hefði áhrif á skattalega stöðu þeirra svo og setja skýrar almennar reglur um heimildir þeirra til að áskilja sér arð eins og gert er ráð fyrir í 4. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Í athugasemdum við frumvarpið segir að gera megi ráð fyrir að breytingar á skattalegu umhverfi orkufyrirtækjanna taki gildi samhliða því að nýtt skipulag raforkumála komi til framkvæmda. Ákvæðum frumvarpsins sé ætlað að standa þar til þær breytingar taka gildi.
    Í bréfi, dags. 29. ágúst 2003, óskaði Samband íslenskra sveitarfélaga eftir formlegum viðræðum við iðnaðarráðherra um skattalega stöðu raf- og hitaveitna. Beindi sambandið því til iðnaðarráðherra að sú breyting á skattalegri stöðu raf- og hitaveitna sem fólst í samþykkt 3. gr. laga nr. 78/2001, sbr. 80. gr. orkulaga, nr. 58/1967, yrði leiðrétt til samræmis við markmið frumvarpsins.
    Raforkulög, nr. 65 frá 27. mars 2003, komu til framkvæmda 1. júlí 2003. Lögin fela í sér umtalsverðar breytingar á rekstrarumhverfi orkufyrirtækja. Í 1. gr. laganna segir m.a. að markmið þeirra sé að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Í því skyni skuli m.a. skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna og stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku.
    Í tengslum við þessar breytingar skipaði fjármálaráðherra starfshóp um skattalegt umhverfi raforkufyrirtækja með það fyrir augum að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði. Frumvarp þessa efnis verður að öllum líkindum lagt fram á yfirstandandi þingi. Þessi endurskoðun tekur aðeins til greiðslu skatta til ríkisins en ekki greiðslu skatta eða gjalda til sveitarfélaga. Félagsmálaráðherra skipaði 2. janúar 2001 nefnd til að yfirfara undanþágur frá fasteignaskatti. Í skýrslu nefndarinnar sem skilaði tillögum sínum í desember 2001 er lagt til að felldar verði brott undanþágur frá fasteignaskatti í lögum á orkusviði en ekki gerð tillaga að nýju orðalagi umræddra ákvæða.

II. Um skyldu orkufyrirtækja til greiðslu fasteignaskatta.
    Lög nr. 4 frá 30. janúar 1995, um tekjustofna sveitarfélaga, fjalla m.a. um fasteignaskatt. Á grundvelli heimildar í lögunum hefur félagsmálaráðherra sett reglugerð nr. 945/2000, um fasteignaskatt. Lögin og reglugerðin kveða á um að leggja skuli fasteignaskatt árlega á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári. Í 5. gr. laganna er að finna undantekningar frá þessari reglu en greinin hefur ekki að geyma undanþágur varðandi greiðslu orkufyrirtækja á fasteignasköttum.
    Í lögum nr. 6 frá 6. febrúar 2001, um skráningu og mat fasteigna, og reglugerð nr. 406/ 1978, um fasteignaskráningu og fasteignamat, er m.a. að finna ákvæði er varða fasteignamat og undanþágur frá slíku mati. Í 26. gr. laganna er að finna upptalningu á eignum sem eru undanþegnar mati. Í 3. tölul. segir að rafveitur, þar á meðal línur til flutnings raforku ásamt burðarstólpum og spennistöðvum, skuli undanþegnar fasteignamati. Hins vegar skal meta eftir venjulegum reglum hús, sem reist eru yfir aflstöðvar og spennistöðvar, og þær lóðir er þau standa á. Í 3. tölul. 6. gr. reglugerðar nr. 406/1978, með áorðnum breytingum, segir m.a. að mannvirki, sem horfa fyrst og fremst til aukinna nota og arðs af landi, svo sem vegir, brýr og girðingar, skuli eigi metin sérstaklega, en við mat á landi skuli tekið tillit til aukins verðmætis sem frá mannvirkjunum stafar.
    Af þessum almennu reglum leiðir að orkufyrirtækjunum ber að greiða fasteignaskatta af þeim mannvirkjum sem metin eru í fasteignamati, að undanskildum línum til flutnings raforku ásamt burðarstólpum og spennistöðvum. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að ýmis mannvirki orkufyrirtækja eru ekki metin sérstaklega, sbr. ákvæði 3. tölul. 6. gr. reglugerðar nr. 406/1978.
    Á hinn bóginn er í sérlögum um orkufyrirtækin að finna ákvæði sem kveða nánar á um skyldu þeirra til greiðslu fasteignaskatta. Þessi ákvæði eru mismunandi og leiða því til ólíkrar niðurstöðu hvað varðar skyldu einstakra orkufyrirtækja til greiðslu fasteignaskatts.
     1.      Orkulög, nr. 58/1967.
        Í 80. gr. orkulaga, svo sem greininni var breytt með 3. gr. laga nr. 78/2001, segir: „Orkustofnun, Rafmagnsveitur ríkisins, Rafmagnseftirlit ríkisins og jarðboranir ríkisins eru undanþegnar tekjuskatti, útsvari, aðstöðugjaldi, stimpilgjaldi og öðrum sköttum til ríkis, sveitar- og bæjarfélaga. Sama á við um hitaveitur og/eða rafveitur sem hafa einkaleyfi til starfsemi sem kveðið er á um í IV. og V. kafla laga þessara.“
     2.      Lög um raforkuver, nr. 60/1981.
        Í 5. gr. laga um raforkuver segir: „Virkjunar- og rekstraraðili skv. 1. og 2. gr. er undanþeginn tekjuskatti, stimpilgjöldum, útsvari, aðstöðugjaldi og öðrum gjöldum til ríkis og sveitarfélaga að því er varðar framkvæmdir skv. 1. og 2. gr. Þó skal greiða sveitarfélögum þau gjöld sem rekstraraðila er gert að greiða vegna húseigna samkvæmt öðrum lagafyrirmælum.“
     3.      Lög um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja hf., nr. 10/2001.
        Í 14. gr. laga um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja segir: „Um skyldu Hitaveitu Suðurnesja hf. til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fer á sama hátt sem um skyldu sveitarfélaga er slíkan rekstur hafa með höndum. Hitaveita Suðurnesja hf. skal undanþegin stimpilgjöldum.“
     4.      Lög um Landsvirkjun, nr. 23/1983.
        Í 16. gr. laga um Landsvirkjun segir: „Landsvirkjun er undanþegin tekjuskatti, eignarskatti, stimpilgjöldum vegna lána sem fyrirtækið tekur eða vegna eignaafsala til fyrirtækisins, útsvari, aðstöðugjaldi svo og öðrum gjöldum til sveitarfélaga. Þó skal Landsvirkjun greiða til sveitarfélaga þau opinber gjöld sem gert er að greiða af húseignum Landsvirkjunar samkvæmt öðrum lagafyrirmælum.“
     5.      Lög um stofnun hlutafélags um Norðurorku, nr. 159/2002.
        Í 1. mgr. 9. gr. laga um stofnun hlutafélags um Norðurorku segir: „Um skyldu Norðurorku hf. til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fer á sama hátt sem um skyldu fyrirtækja og stofnana sem sýslu- og sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á og hafa slíkan rekstur með höndum. Norðurorka hf. skal undanþegin stimpilgjöldum.“
     6.      Lög um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða, nr. 40/2001.
        Í 12. gr. laga um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða segir: „Orkubú Vestfjarða hf. er undanþegið tekjuskatti, útsvari, stimpilgjaldi og öðrum sköttum til ríkis og sveitarfélaga.“
     7.      Lög um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, nr. 139/2001.
        Í 10. gr. laga um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur segir: „Um skyldu Orkuveitu Reykjavíkur til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fer á sama hátt sem um skyldu fyrirtækja og stofnana sem sýslu- og sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á og slíkan rekstur hafa með höndum. Orkuveita Reykjavíkur skal undanþegin stimpilgjöldum.“

III. Nánar um efni frumvarpsins.
    Eitt af grundvallarskilyrðum samkeppni er að samkeppnisaðilum sé ekki mismunað. Umrædd undanþáguákvæði eru misvíðtæk og um margt óljós. Þau gera stöðu þessara fyrirtækja mismunandi og ljóst er að ekki verður unað við slíkt í nýju skipulagi raforkumála.
    Í frumvarpi þessu er því lagt til að ákvæði laga um raforkuver og laga um Landsvirkjun hvað varðar skyldu til greiðslu fasteignaskatts verði gert að almennri reglu fyrir öll orkufyrirtæki í landinu sem starfa á grundvelli sérlaga eða hafa fengið einkaleyfi til starfsemi sinnar. Ákvæðið er skýrt og gengur skemur í að undanþiggja orkufyrirtæki skyldu til greiðslu fasteignaskatta en ákvæði annarra sérlaga. Frumvarpinu er á hinn bóginn ekki ætlað að hrófla við þeim almennu reglum sem gilda um fasteignaskatta og fasteignamat mannvirkja í eigu orkufyrirtækja.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði.

    Með frumvarpinu er lagt til að samræmd verði sérákvæði ýmissa laga á orkusviði um skyldu fyrirtækja til greiðslu fasteignaskatta. Ákvæði laga um raforkuver og Landsvirkjun er varða þessa skyldu verði gerð að almennri reglu fyrir öll orkufyrirtæki í landinu. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.