Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 312. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 358  —  312. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 2. mgr. fellur brott.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein:
                  Afsali alþjóðlegt viðskiptafélag starfsleyfi sínu starfar félagið áfram sem hlutafélag eða einkahlutafélag, sbr. lög um hlutafélög og einkahlutafélög. Sama gildir er starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags fellur niður við afnám laganna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2004.
    Lög nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög, falla úr gildi 1. janúar 2008. Samhliða falla úr gildi starfsleyfi starfandi alþjóðlegra viðskiptafélaga.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Eftir 31. desember 2003 verða ekki gefin út ný starfsleyfi. Fullbúna umsókn sem berst fyrir það tímamark er starfsleyfisnefnd þó heimilt að taka til afgreiðslu.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagðar til breytingar á lögum nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög. Er í fyrsta lagi lagt til að frá og með 1. janúar 2004 verði ekki gefin út ný starfsleyfi og í öðru lagi að lögin verði afnumin í heild 1. janúar 2008.
    Lög um alþjóðleg viðskiptafélög voru samþykkt á Alþingi 19. mars 1999. Jafnhliða var gerð breyting á einstökum ákvæðum í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, lögum nr. 83/1989, um þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, og lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald. Alþjóðlegt viðskiptafélag greiðir aðeins 5% tekjuskatt, auk þess sem slíkt félag er undanþegið eignarsköttum og stimpilgjöldum. Á hinn bóginn eru reglur skattalaga um útgreiðslu arðs frá alþjóðlegu viðskiptafélagi frábrugðnar því sem almennt gerist og raunar þyngri þegar arður er greiddur til innlendra aðila. Alþjóðlegt viðskiptafélag greiðir enn fremur sérstakt gjald í ríkissjóð til að mæta kostnaði við undirbúning og útgáfu starfsleyfis. Sérstök fimm manna starfsleyfisnefnd hefur eftirlit með alþjóðlegum viðskiptafélögum og greiða félögin 100.000 kr. í eftirlitsgjald árlega. Takmörk eru á heimildum alþjóðlegra viðskiptafélaga til eignarhalds í öðrum félögum. Er alþjóðlegu viðskiptafélagi heimilt að eiga annað alþjóðlegt viðskiptafélag, sem og erlend félög, en því er ekki heimilt að eiga innlend félög.
    Tilgangur laga um alþjóðleg viðskiptafélög var að efla erlenda fjárfestingu hér á landi auk þess að koma í veg fyrir að innlend fyrirtæki flyttu starfsemi sína til útlanda vegna hagstæðari rekstrarskilyrða erlendis. Í greinargerð með lögunum kemur fram að verkefnisstjórn, sem skipuð var til að kanna möguleika á að efna til sérhæfðrar alþjóðlegrar viðskiptastarfsemi utan lögsögu á Íslandi, lagði mat á það hversu mikil áhrif löggjöf af þessum toga kynni að geta haft á tekjur ríkissjóðs. Var talið að ekki væri óvarlegt að gera ráð fyrir að innan þriggja ára yrðu komin á laggirnar milli 50 og 200 fyrirtæki og að velta þeirra yrði á bilinu 25–100 milljarðar kr. á ári. Beinar skatttekjur voru áætlaðar 12–100 millj. kr. á ári, en óbeinar á bilinu 150–1.500 millj. kr. á ári.
    Raunveruleikinn nú rúmum fjórum árum eftir samþykkt laganna er annar. Alls hefur 14 fyrirtækjum verið veitt starfsleyfi, eitt hefur skilað inn starfsleyfi og þrjú verið svipt starfsleyfi. Þau 10 félög sem nú hafa starfsleyfi eru hins vegar ekki öll starfandi. Miðað við fyrirliggjandi ársskýrslur vegna rekstrarársins 2002 eru fimm félög í starfsemi og er heildarvelta þeirra um 1.200 millj. kr. Hefur heildarvelta dregist saman um 1 milljarð kr. frá árinu 2001 en er svipuð og árið 2000. Beinar skatttekjur síðan lögin tóku gildi árið 1999 eru samtals um 10,7 millj. kr.
    Af þessum tölum er ljóst að áhugi á þessu félagaformi er nokkuð langt frá því að vera sá sem væntingar stóðu til og ætluð áhrif laganna á íslenskt atvinnulíf hafa ekki gengið eftir. Frá árinu 1999 hefur skattalegu umhverfi íslenskra fyrirtækja hefur verið gjörbylt. Með lækkun á tekju- og eignarsköttum fyrirtækja sem samþykkt var árið 2001 má segja að stórt skref hafi verið stigið í þá átt að gera lögin um alþjóðlegu viðskiptafélögin óþörf.
    Vorið 1998 samþykkti ráðherraráð OECD skýrslu um aðgerðir til að stemma stigu við setningu nýrra skattalaga eða skattareglna sem haft gætu skaðleg áhrif á samkeppni ríkja. Öll aðildarríki OECD nema Lúxemborg og Sviss samþykktu skýrsluna. Sérstakri nefnd á vegum OECD var falið að annast framkvæmd og eftirfylgni með tilmælum skýrslunnar. Allt frá árinu 2000 hafa lögin um alþjóðleg viðskiptafélög verið til skoðunar hjá nefndinni ásamt tæplega 60 mismunandi skattareglum í öðrum aðildarríkjum OECD.
    Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur enn fremur haft lögin til skoðunar um nokkurt skeið á þeim grundvelli að lögin feli hugsanlega í sér óheimilan ríkisstyrk. Þá hafa lögin komið til umræðu í samningaviðræðum Íslands við önnur ríki um tvísköttunarsamninga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á því þegar alþjóðlegt viðskiptafélag afsalar sér starfsleyfi. Í lögunum er gert ráð fyrir að í slíkum tilvikum beri að slíta félaginu. Sú breyting sem lögð er til tengist þeim breytingum sem felast í frumvarpinu, þ.e. að lögin verði afnumin í heild 1. janúar 2008. Alþjóðlegt viðskiptafélag verður skv. 3. gr. laganna einungis stofnað sem hlutafélag eða einkahlutafélag. Bera félögin enn fremur skammstöfunina av. í heiti sínu. Sanngjarnt þykir að alþjóðlegu viðskiptafélagi verði heimilt að starfa áfram sem hlutafélag eða einkahlutafélag afsali það sér starfsleyfi á því tímabili sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að félögin hafi til að aðlaga starfsemi sína breytingum þeim sem frumvarpið felur í sér. Sama á við þegar starfsleyfi félags fellur niður við afnám laganna 1. janúar 2008.
    Frá þeim tíma eða fyrra tímamarki, ef alþjóðlegt viðskiptafélag afsalar sér starfsleyfi fyrir 1. janúar 2008, verður félagið skattlagt með sama hætti og önnur hlutafélög, en ekki er gert ráð fyrir að afnám av.-merkingarinnar sem slík feli í sér skattskyldar tekjur fyrir hluthafa eða félagið. Við afsal eða brottfall starfsleyfis alþjóðlegs viðskiptafélags verður því ekki önnur breyting á rekstri félags en sú að það verður skattlagt með sama hætti og önnur hlutafélög.

Um 2. gr.

    Lagt er til að lög nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög, falli úr gildi í heild 1. janúar 2008. Við brottfall þeirra falla jafnframt úr gildi starfsleyfi alþjóðlegra viðskiptafélaga. Um frekari skýringar er vísað til almennra athugasemda.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að eftir 31. desember 2003 verði nýjum félögum ekki veitt leyfi til að starfa sem alþjóðleg viðskiptafélög. Er enn fremur gert ráð fyrir að þeim fyrirtækjum sem fengið hafa starfsleyfi fyrir árslok 2003 verði veittur ákveðinn aðlögunartími til 1. janúar 2008 til að breyta rekstri sínum. Rétt þótti þó að taka fram að starfsleyfisnefnd yrði heimilt að veita félagi starfsleyfi hefði fullbúin umsókn borist fyrir 31. desember 2003. Um nánari skýringar er vísað til almennra athugasemda frumvarpsins.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 31/1999,
um alþjóðleg viðskiptafélög.

    Með frumvarpi þessu er verið að afnema í fyrsta lagi heimildir til stofnunar nýrra alþjóðlegra viðskiptafélaga frá og með 1. janúar 2004 og í öðru lagi eru lögin í heild sinni afnumin og þar með fyrirtækjaformið frá og með 1. janúar 2008.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.