Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 313. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 359  —  313. mál.
Frumvarp til lagaum uppfinningar starfsmanna.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Skilgreiningar.

    Orðið „uppfinning“ merkir í lögum þessum aðeins uppfinningu sem unnt er að fá einkaleyfi fyrir hér á landi.
    Orðið „starfsmaður“ merkir hvern þann sem ráðinn er til starfa hjá hinu opinbera eða einkaaðila.

2. gr.
Frávíkjanleg lög.

    Víkja má frá ákvæðum laga þessara með samningum nema ótvírætt sé kveðið á um annað í lögum þessum.

II. KAFLI
Réttarstaða starfsmanns og atvinnurekanda.
3. gr.
Réttur starfsmanns til uppfinningar.

    Starfsmaður á rétt til uppfinningar sem hann kemur fram með að svo miklu leyti sem annað leiðir eigi af lögum þessum eða öðrum lögum.

4. gr.
Framsal réttar til atvinnurekanda.

    Ef starfsmaður hefur komið fram með uppfinningu sem er þáttur í starfi hans getur atvinnurekandi krafist framsals réttarins yfir uppfinningunni til sín enda sé hagnýting hennar á starfssviði atvinnurekandans. Atvinnurekandinn hefur sama rétt þótt hagnýting uppfinningarinnar sé ekki á starfssviði atvinnurekandans ef uppfinning starfsmannsins tengist tilteknu verkefni sem atvinnurekandinn hefur falið honum.
    Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við ef fleiri starfsmenn en einn, sem ráðnir eru til starfa hjá atvinnurekanda, standa saman að uppfinningu.
    

5. gr.
Tilkynning um uppfinningu.

    Hafi starfsmaður komið fram með uppfinningu skv. 4. gr. skal hann án ástæðulauss dráttar tilkynna atvinnurekanda með sannanlegum hætti um uppfinninguna og gefa þannig upplýsingar um hana að atvinnurekandinn geti metið mikilvægi hennar.

6. gr.
Biðtími atvinnurekanda, þagnarskylda og einkaleyfisumsókn.

    Óski atvinnurekandi eftir því að öðlast rétt til uppfinningar skv. 4. gr. skal hann skýra starfsmanninum frá því innan þriggja mánaða frá móttöku tilkynningar skv. 5. gr.
    Áður en fresturinn rennur út er starfsmanni óheimilt, sbr. þó 3. mgr., án skriflegs samþykkis atvinnurekandans, að upplýsa aðra um uppfinninguna eða ráðstafa henni þannig að unnt sé að birta upplýsingar um uppfinninguna eða nota hana í þágu annarra. Þetta gildir þó ekki ef atvinnurekandinn hefur lýst því yfir skriflega að hann hafi ekki áhuga á uppfinningunni.
    Fyrir lok frestsins og eftir að hafa fullnægt tilkynningarskyldu sinni skv. 5. gr. getur starfsmaðurinn sótt um einkaleyfi fyrir uppfinningunni en hann skal þó áður tilkynna atvinnurekandanum það. Starfsmaðurinn getur ekki afsalað sér þessum rétti fyrir fram.

7. gr.
Sanngjarnt endurgjald.

    Ef atvinnurekandi öðlast rétt til uppfinningar starfsmanns skv. 4. gr. eða á öðrum grundvelli á starfsmaðurinn rétt á sanngjörnu endurgjaldi, jafnvel þótt um annað hafi verið samið, nema verðmæti uppfinningarinnar fari ekki fram úr því sem ætla má með sanngirni að starfsmanninum beri að inna af hendi með tilliti til heildarkjara hans.
    Við ákvörðun endurgjalds skal sérstakt tillit tekið til verðmætis uppfinningarinnar og mikilvægis hennar fyrir starfsemi atvinnurekandans, ráðningarkjara starfsmanns og hlutdeildar starfsmannsins í uppfinningunni.
    Krafa um endurgjald fyrnist á tíu árum. Telst fyrningarfrestur frá þeim tíma er atvinnurekandinn hefur gefið til kynna að hann vilji öðlast uppfinninguna. Að öðru leyti gilda ákvæði laganna um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda eftir því sem við á.
    Jafnvel þótt um annað hafi verið samið má breyta samningum um endurgjald að kröfu annars aðila síðar þegar aðstæður þær sem lágu til grundvallar hafa breyst verulega eða aðrar sérstakar aðstæður mæla með því. Á grundvelli 1. málsl. skal þó aldrei endurgreiða fé sem starfsmaður hefur tekið við samkvæmt fyrri ákvörðun um endurgjald.

8. gr.
Starfslok.

    Verði innan sex mánaða frá raunverulegum starfslokum sótt um einkaleyfi á uppfinningu starfsmanns sem 4. gr. hefði tekið til ef uppfinningin hefði orðið til á starfstímanum telst hún hafa orðið til á starfstímanum nema líkur megi leiða að því að uppfinningin hafi orðið til eftir raunveruleg starfslok.
    Ógilt er hvert það samkomulag milli atvinnurekanda og starfsmanns er takmarkar rétt starfsmannsins til að ráðstafa þeim uppfinningum sem verða til meira en ári eftir formleg starfslok.

III. KAFLI
Gildistaka.
9. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lagafrumvarp þetta, sem iðnaðarráðherra leggur fram, byggist á starfi nefndar sem ráðherrann skipaði 4. mars 2002 til að semja nauðsynleg lagafrumvörp um uppfinningar starfsmanna og líta í því starfi til danskrar löggjafar. Nefndin var skipuð Árna Vilhjálmssyni hrl., formanni, sem tilnefndur hafði verið af Samtökum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar (SVESI), Guðmundi G. Haraldssyni prófessor, tilnefndum af Háskóla Íslands, Jóni Vilberg Guðjónssyni lögfræðingi, tilnefndum af menntamálaráðuneyti, Jóni Ögmundi Þormóðssyni, skrifstofustjóra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Ólafi S. Andréssyni lífefnafræðingi, tilnefndum af Bandalagi háskólamanna, og Ólafi Helga Árnasyni lögfræðingi, tilnefndum af Samtökum iðnaðarins. Sumarið 2003 leitaði nefndin eftir umsögnum ýmissa aðila og gerði vissar breytingar í kjölfarið.
    Lagafrumvarpið er um uppfinningar starfsmanna almennt og þá m.a. uppfinningar starfsmanna er sinna vísindastörfum við háskóla eða aðra skóla á háskólastigi, svo og opinberar rannsóknastofnanir.
    Með frumvarpinu, sem byggt er á danskri löggjöf, er stefnt að setningu réttarreglna á þessu sviði sem taki tillit til hagsmuna atvinnurekanda og starfsmanns þannig að þeir þurfi ekki að semja sín á milli um öll atriði, t.d. rétt starfsmanns til uppfinningar, sem hann kemur fram með, og framsalsrétt atvinnurekandans til uppfinningarinnar. Ekki er talin fullnægjandi ástæða til að setja hér á landi sérstök lög um uppfinningar starfsmanna á opinberum rannsóknastofnunum eins og varðandi t.d. háskóla í Danmörku svo sem nánar verður vikið að í þættinum um form frumvarpsins. Nefna má í þessu sambandi að í Noregi eru nú ein lög um uppfinningar allra starfsmanna eins og gert er ráð fyrir hér.

Forsaga.
    Á undanförnum áratugum hefur öðru hverju verið spurt hvort æskilegt væri að setja hér á landi löggjöf um uppfinningar starfsmanna eins og gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndum og víðar. Hafa menntamálaráðuneytið og Rannsóknaráð ríkisins, svo og Rannsóknarráð Íslands síðar, m.a. komið hér við sögu. Upp á síðkastið hefur umræða aukist um að nauðsynlegt sé að efla vitund um einkaleyfi hér á landi en af þeim sökum hefur þótt rétt að iðnaðarráðuneytið, sem fer með einkaleyfamál, láti sérstaklega að sér kveða. Er talið æskilegt að fjölga einkaleyfum og er hugsanlegt að löggjöf um uppfinningar starfsmanna, sem beinlínis er gert ráð fyrir að leiði til einkaleyfa, geti ýtt undir slíkt. Samtök um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar hafa m.a. hvatt til lagasetningar á þessu sviði.
    Hinn 23. september 2000 skipaði iðnaðarráðherra síðan starfshóp sem í áttu sæti Jón Ögmundur Þormóðsson, skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum, formaður, Árni Vilhjálmsson hrl. og Stefán Baldursson, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneyti. Hlutverk starfshópsins var í megindráttum að huga að því hvort dönsk lög nr. 142/1955, um uppfinningar starfsmanna, og dönsk lög nr. 347/1999, um uppfinningar á opinberum rannsóknastofnunum, gætu orðið grundvöllur undir svipaða löggjöf hér á landi með minni háttar breytingum. Jafnframt yrði reynt að kanna eftir föngum hið fyrsta hvernig ýmsir aðilar, er tengjast þessum málum hér á landi, tækju hugmynd um slíka löggjöf. Síðar yrði hugað að skipun nefndar með fleiri fulltrúum til að vinna að gerð nauðsynlegra lagafrumvarpa ef nauðsyn krefði.
    Í greinargerð starfshópsins frá 8. október 2001 var m.a. fjallað um lög um einkaleyfi hér á landi og réttaróvissu er tengist túlkun þeirra. Lýst var danskri löggjöf almennt og síðan gerð grein fyrir eldri og yngri dönskum lögum. Loks var í niðurlagi gerð grein fyrir valkostum varðandi löggjöf hér á landi um þetta svið.
    Í greinargerðinni var nánar tiltekið vikið að aðalreglu laganna um einkaleyfi, þess efnis að uppfinningamaður eigi uppfinningu sína nema um annað sé samið. Sú regla á beinlínis við um sjálfstætt starfandi einstaklinga. Vafi er hins vegar á því hvort lagaákvæðunum verði beitt um starfsmenn vegna ummæla í athugasemdum við 1. gr. frumvarps til laga um einkaleyfi sem nánar verður vikið að hér á eftir. Er því nokkur réttaróvissa fyrir hendi.
    Að því er varðar dönsku löggjöfina mynda eldri lögin frá 1955 og yngri lögin frá 1999 eina lagaheild. Aðalreglan er réttur uppfinningamanns en framsalsréttur atvinnurekanda. Þá er kveðið á um sanngjarnt endurgjald til handa starfsmanni, svo og jafnvel atvinnurekanda í yngri lögunum um opinberar rannsóknastofnanir. Eldri lögin tóku auk starfsmanna almennt til þeirra sem sinna vísindastörfum á opinberum rannsóknastofnunum en kennarar og aðrir starfsmenn, er sinna vísindastörfum við háskóla og skóla á háskólastigi, voru og eru undanþegnir þeim lögum. Síðari lögin ná hins vegar til þeirra sem sinna vísindastörfum við háskóla og skóla á háskólastigi og auk þess hafa þeir sem sinna vísindastörfum á opinberum rannsóknastofnunum verið færðir úr eldri lögunum í yngri lögin. Í báðum lögunum er stefnt að því að tryggja hagsmuni jafnt starfsmanns sem atvinnurekanda.
    Almennt töldu umsagnaraðilar um greinargerð starfshópsins að æskilegt væri að huga að löggjöf um þessi efni hér á landi. Jafnframt töldu aðilarnir eðlilegt að hafa hliðsjón af danskri löggjöf á þessu sviði. Bæði Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík tóku jákvætt í löggjöf sem tæki til háskólamanna og töldu eðlilegt að taka tillit til hagsmuna bæði starfsmanna og atvinnurekanda. Aðeins Landssamband hugvitsmanna taldi rétt að búa við óbreytta löggjöf þar eð réttur uppfinningamannsins var af hálfu sambandsins talinn ótvíræður en löggjöf eins og í Danmörku fæli í sér að uppfinningamaðurinn yrði næstum hlunnfarinn.
    Starfshópurinn lagði til að skipuð yrði nefnd er hefði það hlutverk að semja tvö lagafrumvörp á grundvelli danskra laga. Yrði nefndin skipuð fleiri fulltrúum, m.a. fulltrúum hagsmunasamtaka. Nefndin var skipuð sem áður greinir en falið að semja nauðsynleg lagafrumvörp um uppfinningar starfsmanna og líta í því efni til danskrar löggjafar.

Lög um einkaleyfi.
    Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 17/1991, um einkaleyfi, segir:
    „Rétt til að fá einkaleyfi fyrir uppfinningu samkvæmt lögum þessum hefur uppfinningamaður eða sá sem hefur öðlast rétt hans. Einkaleyfi er veitt eftir umsókn fyrir uppfinningu sem hagnýta má í atvinnulífi. Leyfið veitir einkarétt til að hagnýta uppfinninguna í atvinnuskyni.“
    Hér kemur fram í íslenskri löggjöf sú aðalregla að uppfinningamaður eigi uppfinningu sína en reglan á beinlínis við um sjálfstætt starfandi einstaklinga. Undantekning frá henni er ef einhver annar hefur öðlast rétt hans, t.d. á grundvelli samnings. Álykta mætti af orðalagi 1. gr. laganna um einkaleyfi að uppfinningamenn hjá atvinnurekendum féllu undir greinina og ættu uppfinningu sína eins og aðrir uppfinningamenn nema um annað væri berlega samið. Ákvæði í athugasemdum við 1. gr. frumvarps til laga um einkaleyfi veldur þó vissum vafa um þetta atriði en það hljóðar svo:
    „Margir uppfinningamenn eru starfsmenn í þjónustu annarra og oft eru menn ráðnir gagngert til fyrirtækja til að vinna að uppfinningum. Ef ekki er samið sérstaklega um hver eigi réttinn til uppfinningar sem til verður á starfstíma getur leikið vafi á hver eigi réttinn til hennar. Hjá öðrum Norðurlandaþjóðum hafa verið sett sérlög um réttarstöðu í þessum málum þar sem slík ákvæði þykja ekki falla innan ramma almennra einkaleyfalaga. Í frumvarpi þessu er fordæmi frændþjóða okkar fylgt og ekki kveðið á um réttarstöðu varðandi eignarrétt að uppfinningum sem verða til hjá starfsmönnum í þjónustu annarra.“
    Áður en lög voru sett í Danmörku árið 1955 um uppfinningar starfsmanna var í dómum fallist á framsalsrétt atvinnurekanda gegn sanngjörnu endurgjaldi, með öðrum orðum meginreglur frumvarps að dönsku lögunum frá 1955, svo og frumvarps þessa. Meðal danskra fræðimanna hefur verið deilt um framsalsréttinn og hvað leggja beri til grundvallar við ákvörðun á sanngjörnu endurgjaldi. Nokkur réttaróvissa er því fyrir hendi, séu engin lög sett, og mismunandi atvik í einstökum málum, m.a. varðandi starfssvið, verkefni og samstarf að uppfinningu, geta haft áhrif á niðurstöður dómstóla. Benda má á hér að réttarstaða starfsmanns þarf ekki að vera mjög sterk í reynd hafi aðilar gert með sér samning þar eð hann getur verið veikari samningsaðilinn. Í máli gæti reynt á ákvæði samningalaga um ósanngjarna samningsskilmála. Ákvæði samningalaga kunna þó að veita honum ófullnægjandi vernd. Staðan hér á landi kann að vera svipuð og í framangreindum dönskum dómum þrátt fyrir 1. mgr. 1. gr. laganna um einkaleyfi. Eðlilegt má þó telja og öruggara að slík regla um framsalsrétt gegn sanngjörnu endurgjaldi sé sett í löggjöf.
    Eigi verður þó talið að löggjöf um uppfinningar starfsmanna sé eingöngu sett með hagsmuni starfsmanns að leiðarljósi heldur er það í þágu beggja aðila, atvinnurekandans og starfsmannsins, að réttaróvissu á þessu sviði sé eytt, jafnvel þótt lögin séu að meginstefnu til undanþæg.

Dönsk löggjöf.
    Til að bæta úr réttaróvissu um uppfinningar starfsmanna, m.a. vísindamanna, hér á landi gat komið til greina að nota sem fyrirmyndir, til viðbótar lögum um einkaleyfi, reglur úr tvennum lögum frá Danmörku, frá 1955 og 1999, einkum úr eldri almennu lögunum, en þó með frávikum. Eins og áður segir mynda lögin eina lagaheild. Í báðum lögunum er byggt á aðalreglunni um rétt uppfinningamanns en jafnframt framsalsrétti atvinnurekanda, m.a. opinbers aðila, sem hefur lagt fram laun, aðstöðu og jafnvel styrki, beint og óbeint. Lagareglur um uppfinningar starfsmanna geta hugsanlega leitt til fjölgunar einkaleyfa hér á landi en miklu færri einkaleyfi eru skráð hér en í nágrannalöndunum. Ákvæði um framsalsrétt atvinnurekanda og sanngjarnt endurgjald til handa starfsmanni getur eytt réttaróvissu og örvað bæði starfsmanninn, sem kann að standa höllum fæti gagnvart atvinnurekanda í samningagerð, og atvinnurekandann, svo og hvatt t.d. einkaaðila sem styrkja verkefni við opinberar rannsóknastofnanir.

Dönsk lög frá 1955 um uppfinningar starfsmanna.
    Í dönskum lögum nr. 142/1955, um uppfinningar starfsmanna, með síðari breytingum, eru skilgreiningar í 1. gr. Kennarar og aðrir starfsmenn, er sinna vísindastörfum við háskóla og aðrar æðri menntastofnanir, eru undanþegnir lögunum. Þeir sem sinna vísindastörfum á rannsóknastofnunum atvinnuvega féllu hins vegar lengst af undir lögin sem taka annars jafnt til starfsmanna í þjónustu hins opinbera eða einkaaðila. Skv. 2. gr. eru lögin frávíkjanleg, þ.e. semja má sig frá þeim nema annað komi skýrt fram. Í 3. gr. kemur fram sú aðalregla að starfsmaður eigi rétt til uppfinninga sinna en undantekningin er að annað geti leitt af þeim lögum eða öðrum lögum, sbr. það sem áður segir um frávik með samningum skv. 2. gr. Síðar í lögunum kemur fram að atvinnurekandi getur krafist framsals réttarins yfir uppfinningu með vissum skilyrðum. Starfsmaður þarf að tilkynna atvinnurekandanum um uppfinninguna. Atvinnurekandinn hefur fjögurra mánaða frest til að taka afstöðu til þess hvort hann vill fá réttinn framseldan. Á því tímabili eru takmarkanir á því að ráðstafa uppfinningu eða upplýsa aðra um hana, sbr. 7. gr. Síðan er fjallað um sanngjarnt endurgjald til handa starfsmanni (8. gr.). Sérákvæði eru um umsókn um einkaleyfi eftir starfslok og uppfinningar er verða til eftir starfslok (9. og 10. gr.). Loks eru refsi- og réttarfarsákvæði í lögunum (12. gr.) og gildistökuákvæði.

Dönsk lög frá 1999 um uppfinningar á opinberum rannsóknastofnunum.
    Dönsk lög nr. 347/1999, um uppfinningar á opinberum rannsóknastofnunum, eru svipuð og lögin frá 1955, eins og áður segir, og byggja á aðalreglu um rétt starfsmanns, sem kemur fram með uppfinningu er leitt getur til einkaleyfis í Danmörku, og framsalsrétti atvinnurekanda. Þau ná þó til aðila sem féllu ekki undir lögin frá 1955, þ.e. háskóla og annarra æðri menntastofnana, og rannsóknastofnanir atvinnuvega voru færðar yfir í lögin frá 1999.
    Áberandi er þó það ákvæði 1. gr. að tilgangur laganna, sem er stjórnmálalegs eðlis, sé að tryggja að niðurstöður rannsókna, sem verða til fyrir opinbert fé, séu hagnýttar í atvinnuskyni og gagnist þannig dönsku samfélagi. Greinilega er stefnt að því að fjölga einkaleyfum sem verða til vegna uppfinninga þar sem opinberir fjármunir eru að baki, annaðhvort styrkir eða framlög í formi launa. Er reynt að fá eitthvað af því fé til baka og stefnt að því að það gagnist viðkomandi stofnunum, m.a. háskólum. Ef hinum opinbera atvinnurekanda er tryggð sanngjörn hlutdeild í uppfinningum starfsmanna getur það virkað örvandi og leitt til meiri aðstoðar við starfsmenn og fleiri einkaleyfa. Hafa ber þó í huga að fæstar rannsóknir, byggðar á vísindafrelsi, leiða til einkaleyfishæfra umsókna og einkaleyfa. Áhugi atvinnulífsins á tengslum við ákveðin rannsóknarverkefni kann og að aukast en slíkt getur verið mikilvægt.
    Í 2.–6. gr. eru skilgreiningar sem varða gildissvið laganna. Eins og í fyrri lögunum eru uppfinningarnar takmarkaðar við þær uppfinningar sem unnt er að fá einkaleyfi fyrir í Danmörku, m.a. svokölluð smáeinkaleyfi. Nákvæmlega eru skilgreindar þær stofnanir sem lögin taka til, aðallega háskólar, en rannsóknastofnanir atvinnuvega eru færðar úr eldri lögunum yfir í þessi lög eins og áður segir.
    Ákvæði þessara laga um framsal réttar til atvinnurekanda, þ.e. opinberra rannsóknastofnana, m.a. háskóla, eru að sumu leyti ítarlegri en í eldri lögum og er t.d. vikið að því ef fleiri en einn starfsmaður standa saman að uppfinningu og ef samvinna er við aðrar stofnanir. Meðal hagræðis við lögin er að veitt kann að verða aðstoð til að gera uppfinningu einkaleyfishæfa, jafnvel í samstarfi við aðila utan stofnunar, þ.e. í einkageiranum, sem kann að leggja fram fjármagn. Sá aðili getur talið til hagsbóta að þurfa aðeins að semja við einn aðila, stofnunina, t.d. háskóla, um þessi mál.
    Í 10. og 11. gr. er fjallað um tilkynningarskyldu starfsmanns um uppfinningu og tveggja mánaða frest, þ.e. styttri frest en í eldri lögunum, en þennan frest má framlengja. Þar kemur fram að endurgjald getur verið á báða bóga, þ.e. til starfsmanns ef stofnunin fær réttinn framseldan en frá starfsmanni ef hann heldur réttinum. Í 12.–14. gr. er fjallað um hagnýtingu í atvinnuskyni og er þar kveðið á um sanngjarnt endurgjald o.fl., m.a. samninga stofnunarinnar við þriðja mann. Í 15.–16. gr. er fjallað um gjöld og tekjur stofnunarinnar. Kemur fram í 16. gr. að unnt er að nota tekjur í þágu starfsemi sem tengist markmiði stofnunar, t.d. háskóla. Síðar í lögunum eru fleiri ákvæði sem skipta ekki sérstöku máli.
    Framkvæmd laganna fyrstu árin í Danmörku virðist þó ekki hafa leitt til fleiri einkaleyfa en áður en of snemmt kann að vera að dæma um reynsluna af þeim að þessu leyti.

Önnur norræn lög.
    Séu norsk lög nr. 21/1970, um rétt til uppfinninga starfsmanna, finnsk lög nr. 657/1967, um rétt til uppfinninga starfsmanna, og sænsk lög nr. 345/1949, um rétt til uppfinninga starfsmanna, borin saman við almennu dönsku lögin frá 1955 sést að löggjöfin er svipuð. Í norsku og sænsku lögunum er þó möguleiki á að bera ágreining um framkvæmd laganna undir sérstaka nefnd er starfar í viðkomandi landi. Þar eð lítið hefur reynt á slíkt, a.m.k. í Noregi, þykir ekki ástæða til þess að gera tillögu um að svipuð leið verði farin hér á landi. Hér yrði unnt að leita til dómstóla en hugsanlegt er að aðilar komi sér saman um aðra leið til lausnar ágreiningi, t.d. gerðardóm.
    Það skal tekið fram hér að undanþágan í sænsku lögunum varðandi gildissviðið snertir kennara við háskóla og aðrar stofnanir á sviði menntamála en ekki aðra starfsmenn sem sinna vísindastörfum eins og í dönsku og norsku lögunum.
    Norðmenn hafa samið lagafrumvarp (skjal OT. prp. nr. 67 (2001–2002)), um uppfinningar háskólamanna o.fl., sem leiddi til breytinga á almennu lögunum þar í landi frá og með 1. janúar 2003. Svíar hafa hins vegar ekki samið frumvarp þar að lútandi. Hyggjast þeir bíða átekta og sjá hver reynslan verði af nýju dönsku lögunum um opinberar rannsóknastofnanir, m.a. háskóla. Búast þeir jafnvel við að samið kunni að verða á þeim grundvelli í Svíþjóð. Meginmunurinn á norsku og dönsku lögunum er sá að vísindamaðurinn hefur möguleika á því í Noregi að taka birtingarhagsmuni sína, þ.e. réttinn til að birta niðurstöður rannsókna í fræðiritum og á ráðstefnum, fram yfir framsalsrétt stofnunar. Af því getur hins vegar leitt að möguleikar á einkaleyfi verði fyrir bí sökum glataðs nýnæmis uppfinningarinnar. Þá tapast jafnframt möguleikar á að hið opinbera fái til baka á grundvelli einkaleyfis hluta framlags síns í formi launa, aðstöðu og styrkja sem þó hlýtur að vera markmið með löggjöf um uppfinningar starfsmanna, m.a. í háskólum og á opinberum rannsóknastofnunum. Hagsmunir vísindamannsins af því að birta niðurstöður rannsókna geti með öðrum orðum gengið gegn því markmiði að stuðla að sjálfbæru styrkjakerfi til vísindarannsókna þar sem tekjur af einkaleyfum geta runnið til nýrra rannsóknarstyrkja og þar með til nýrra uppfinninga.

Önnur erlend lög.
Bretland.
    Í bresku einkaleyfalögunum frá 1977 er kveðið á um að atvinnurekandinn eigi framsalsrétt til uppfinningarinnar þegar um svonefndar „starfsuppfinningar“ er að ræða. Sama regla gildir þegar verkefni, sem starfsmaður vinnur að, leiðir til uppfinningar og atvinnurekandinn mátti vænta þess að svo yrði.
    Á stjórnendum fyrirtækja hvílir ríkari trúnaðarskylda gagnvart atvinnurekandanum en þegar um almenna starfsmenn er að ræða. Rétturinn til uppfinningar fellur þannig atvinnurekanda í skaut þegar í hlut á stjórnandi sem vegna starfsskyldna sinna hefur sérstaka trúnaðarskyldu gagnvart atvinnurekandanum, óháð því hvort um starfsuppfinningu er að ræða eða ekki. Þegar þessum tilvikum sleppir er starfsmaðurinn ávallt talinn vera eigandi uppfinningarinnar, þ.e. um einkauppfinningu er að ræða, og eru allar tilraunir atvinnurekandans til þess að svipta starfsmanninn þeim rétti ógildar. 1
    Reglur bresku laganna um endurgjald mæla svo fyrir að það komi aðeins til álita ef sótt er um einkaleyfi sem leiðir til verulegs ávinnings (e. outstanding benefit) fyrir fyrirtækið. Ekki kemur til greiðslu endurgjalds ef atvinnurekandi hagnýtir sér uppfinninguna en ákveður að sækja ekki um einkaleyfi. Endurgjald til starfsmanns getur því jafnt komið til sögunnar þegar atvinnurekandinn á réttinn til uppfinningarinnar og þegar starfsmaðurinn á uppfinninguna og framselur réttinn eða nytjaleyfi til atvinnurekandans. Í báðum tilvikum verður einkaleyfið þó að hafa leitt til verulegs ávinnings fyrir atvinnurekandann en unnt er að krefjast endurskoðunar á endurgjaldinu síðar ef ávinningur atvinnurekandans er meiri en talið var í upphafi.
    Að því er varðar þá sem stunda rannsóknir og kennslu og ráðnir eru til að stunda slík störf almennt er staðan óviss. Því er haldið fram að stofnanirnar „eigi“ rannsóknarniðurstöður starfsmanna sinna, a.m.k. niðurstöður sem fást við framkvæmd þeirra sérstöku verkefna í vinnunni sem eru hluti af rannsóknaráætlunum. Ýmsir háskólar hafa mótað „stefnumið“ sem felur í sér að þeir eigi rétt á uppfinningum starfsmanna gegn því að greiða endurgjald nema gerður hafi verið samningur við þriðja aðila er leggur fram fé og honum eru veitt réttindi til niðurstaðna rannsóknanna. Um ýmis þessara stefnumiða gildir að ekki hefur verið samið um þau við einstaka starfsmenn eða stéttarfélög og er vafasamt að hve miklu leyti þau eru bindandi að lögum fyrir þá sem rannsóknirnar stunda.

Frakkland.
    Samkvæmt gildandi reglum um uppfinningar starfsmanna í Frakklandi er aðalreglan sú að atvinnurekandinn á rétt til uppfinningar sem starfsmaður kemur fram með, annars vegar til efnda á vinnusamningi, sem felur í sér starf að uppfinningum og er í samræmi við starfsverkefni hans, og hins vegar ef uppfinningin er niðurstaða rannsókna sem starfsmanni bar ótvírætt að framkvæma. Í lögum er uppfinningamanni ekki tryggt sérstakt endurgjald en lögin gera ráð fyrir að unnt sé að semja um slíkt í kjarasamningum.
    Samkvæmt frönsku lögunum á uppfinningamaðurinn allar aðrar uppfinningar ef hann kemur fram með uppfinningu sem lið í starfsframlagi sínu á sviði fyrirtækisins eða á grundvelli framlags og gagna frá atvinnurekandanum en atvinnurekandinn hefur rétt á að nýta að nokkru eða öllu leyti þau réttindi sem leiðir af einkaleyfi. Starfsmaðurinn á rétt á sérstöku endurgjaldi vegna þeirra réttinda sem hann verður að láta af hendi. Við ákvörðun endurgjalds skal m.a. taka tillit til þess hversu mikið framlag atvinnurekandans til uppfinningarinnar telst, svo og not af uppfinningunni frá atvinnu- og viðskiptasjónarmiði.
    Í sérlöggjöf í Frakklandi eru ákvæði um sérstaka hópa opinberra starfsmanna, m.a. þá sem stunda rannsóknir og kennslu við háskóla og aðra skóla á háskólastigi. Þessir aðilar njóta þó ekki betri kjara en aðrir starfsmenn.

Holland.
    Samkvæmt hollenskum lögum á atvinnurekandinn rétt til einkaleyfis á uppfinningu sem starfsmaður kemur fram með í starfi enda sé það fólgið í starfinu að starfsmaðurinn eigi að nýta þekkingu sína til að koma fram með uppfinningar af því tagi. Háskólar og rannsóknastofnanir eiga rétt til einkaleyfis á uppfinningum sem rannsóknarstarfsmenn þeirra koma fram með en þetta er þó umdeilt að einhverju leyti. Starfsmaðurinn á rétt á endurgjaldi sem reikna skal m.a. með hliðsjón af fjárhagslegu mikilvægi uppfinningar og aðstæðum varðandi tilurð hennar. Réttur til að krefjast slíks endurgjalds fellur niður þremur árum eftir að einkaleyfi er veitt. Samningsákvæði, sem víkja frá ákvæðinu um endurgjald, eru ógild. Uppfinningamaður á rétt á að nafn hans komi fram í tengslum við einkaleyfisumsókn og einkaleyfi.

Bandaríkin.
    Réttarstaða starfsmanna í Bandaríkjunum ræðst að mestu leyti af dómvenju (common law) og sérstakri lagasetningu í einstaka ríkjum en engin sérstök alríkislöggjöf fjallar um uppfinningar starfsmanna. 2 Réttarástandið í Bandaríkjunum er því ekki ólíkt því sem var í Bretlandi fyrir setningu einkaleyfalaganna frá 1977, þ.e. í þeim tilvikum þar sem starfsmaður er ráðinn til að finna upp og uppfinninguna leiðir af starfinu á atvinnurekandinn þá uppfinningu, með því fororði að vænta mátti þess að af starfi starfsmannsins yrði til uppfinning.
    Svonefnd „shop-right“-regla segir til um það að atvinnurekandinn eigi uppfinningu starfsmannsins hvort sem starfsmaðurinn var ráðinn til að finna upp eða ekki og hvort sem uppfinningin verður til innan eða utan starfssviðs starfsmannsins þegar svo háttar til að starfsmaðurinn nýtir í vinnutímanum hráefni og verkfæri atvinnurekandans til þess að finna upp eða fullgera uppfinningu. Ber þá starfsmanni að framselja atvinnurekandanum einkarétt til slíkrar uppfinningar. 3 Shop-right-reglunni hefur verið líkt við önnur tilvik í réttarsambandi starfsmanns og atvinnurekanda þar sem starfsmaðurinn lætur atvinnurekandanum í té ætlað leyfi (e. implied license), t.d. þegar ritstjóri ræður blaðamann til að skrifa greinar í fréttablað.
Ef starfsmaður nýtir á hinn bóginn ekki vinnutíma, hráefni eða starfsaðstöðu atvinnurekandans stofnast enginn framsalsréttur vegna uppfinningarinnar en slíka uppfinningu gæti starfsmaðurinn framselt til atvinnurekandans gegn endurgjaldi. Ef um shop-right er að ræða á starfsmaðurinn engan rétt á endurgjaldi.
    Með svonefndum Bayh-Dole-alríkislögum frá árinu 1980, sem nú eru hluti af bandarísku einkaleyfalögunum, 201.–211. gr., var gildandi reglum um eignarrétt á uppfinningum, sem verða til hjá opinberum vísindastofnunum, breytt á þann veg að framvegis skyldu einkaleyfaréttindi, með nokkrum undantekningum, vera eign rannsóknastofnana og styrkþega fremur en eign alríkisins. Tilgangur laganna var að stuðla að hagnýtingu uppfinninga sem verða til fyrir opinbert rannsóknarfé og hvetja til samvinnu atvinnufyrirtækja og opinberra stofnana, þ.m.t. háskóla, til að tryggja það að uppfinningar, sem verða til hjá stofnunum og smáfyrirtækjum, verði hagnýttar í þágu frjálsrar samkeppni og einkaframtaks. Á móti er lögð sú skylda á stofnanirnar að tilkynna stjórnvöldum um framangreindar uppfinningar, tryggja að sótt verði um einkaleyfi fyrir þær og vinna að því með virkum hætti að koma þeim í hagnýtingu með nytjaleyfissamningum. Reglur þessar voru síðar útvíkkaðar til þess ná til allra uppfinninga, sem verða til hjá ríkisstyrktum rannsóknastofum, með alríkislögum frá 1986 um yfirfærslu á tækni (Federal Technology Transfer Act). Samhliða hinni nýju stefnu hafa nokkrir háskólar gert það að stefnu sinni að halda eignarrétti á uppfinningum sem verða til fyrir rannsóknarframlög fyrirtækja en veita fyrirtækinu eða styrktaraðilanum nytjaleyfi til uppfinningarinnar.
    Uppfinningamenn við framangreindar rannsóknastofnanir öðlast rétt til hlutdeildar í tekjum af uppfinningu sinni en stofnunin fær jafnframt hlutdeild sem rennur til rannsókna og kennslu. Fyrir alríkisyfirvöld skapast jafnframt óbundin hagnýtingarheimild á uppfinningunni og skylda til að gera ráðstafanir ef viðkomandi stofnun bregst hlutverki sínu.
    Leiðandi háskólar í Bandaríkjunum eru einkafyrirtæki og Bayh-Dole-lögin hafa ekki bein áhrif innan þeirra nema um sé að ræða rannsóknir sem kostaðar eru af opinberu fé. Meginreglan er þá að starfsmaðurinn öðlast réttinn til uppfinningarinnar nema um annað sé samið. Ef starfsmaður er gagngert ráðinn til uppfinningastarfa öðlast atvinnurekandinn réttinn, sbr. það sem áður var rakið um „shop-right“. Um þessi atriði liggur oftast til grundvallar skriflegur samningur milli háskóla og starfsmanns.

Stanford-háskóli í Bandaríkjunum.
    Hjá Stanford-háskóla gilda þær reglur að skólinn áskilur sér eignarrétt að uppfinningum starfsmanna með samningi. Uppfinningamaðurinn á þess þó kost að ákvarða hvort hann birtir uppfinningu sína opinberlega til frjálsra afnota fyrir alla í stað þess að sótt verði um einkaleyfi. Slík ráðstöfun er þó með þeim fyrirvara að ekki má brjóta á réttindum þriðja manns, t.d. styrktaraðila rannsóknar. Í samningi sínum við Stanford-háskólann fellst uppfinningamaðurinn á að tilkynna um allar hugsanlegar uppfinningar sem til verða sem þáttur í starfi hans eða fyrir atbeina háskólans. Öll réttindi til uppfinningarinnar falla til háskólans og uppfinningamanninum ber að láta háskólanum í té öll nauðsynleg skjöl er varða uppfinninguna. Uppfinningamanninum er jafnframt heimilt að birta uppfinninguna opinberlega svo framarlega sem það gengur ekki gegn áður gerðum samningum. Nánari fyrirmæli um slíka birtingu eru sett í reglum háskólans.
    Allt frá sjöunda áratugnum hafa verið starfræktar sérstakar skrifstofur (e. OTL, Office of Technology Licensing) við Stanford-háskóla (1970) og Kaliforníuháskóla (1963) sem hafa haft það hlutverk að leggja inn umsóknir um einkaleyfi vegna háskólauppfinninga og koma þeim síðar í verð með nytjaleyfissamningum. Frá árinu 1994 var tekin upp sú stefna við Stanford-háskóla að skylt var að tilkynna um uppfinningar sem urðu til fyrir aðstöðu og fé háskólans. Enn fremur skyldi bæði höfundaréttur og einkaleyfaréttur vegna hugbúnaðargerðar og uppfinninga á því sviði vera eign háskólans ef fjárstuðnings háskólans nyti við. Sambærileg tilkynningarskylda um uppfinningar á sviði hugbúnaðar er ekki fyrir hendi við Kaliforníuháskóla.
    Í þeim tilvikum sem Stanford-háskóli selur hagnýtingarrétt að einkaleyfisverndaðri uppfinningu fær framangreind miðlunarskrifstofa 15% af tekjum til rekstrar og umsýslu, 1/ 3af því sem eftir verður rennur svo til uppfinningamannsins en afgangurinn rennur til háskólans.
Hafa ber í huga vegna umfjöllunar um birtingarrétt uppfinningamanna í Bandaríkjunum að þar í landi ónýtist nýnæmi uppfinningar ekki við opinbera birtingu heldur gildir svonefnd griðtímaregla (e. grace period) sem varðveitir nýnæmi uppfinningar allt að eitt ár frá opinberri birtingu. Birting uppfinningar í Bandaríkjunum er því ekki fyrirstaða fyrir síðari innlagningu einkaleyfisumsóknar eins og vera mundi í Evrópu og hér á landi.

Þýskaland.
    Í þýskum lögum um uppfinningar starfsmanna frá 1957 er gerður greinarmunur á svonefndum starfsuppfinningum (þ. Diensterfindungen) og einkauppfinningum (þ. freie Erfindungen) og eru hinar fyrrnefndu eign atvinnurekandans. Starfsuppfinning er uppfinning sem leiðir beinlínis af vinnu starfsmannsins fyrir atvinnurekandann, þ.e. leiðir af starfsskyldum starfsmannsins í þágu atvinnurekandans, eða er að verulegum hluta byggð á reynslu eða starfsemi atvinnurekandans. Allar aðrar uppfinningar tilheyra starfsmanninum.
    Þriðji flokkur uppfinninga starfsmanna eru svonefndar tillögur um tæknilegar úrbætur (þ. technische Verbesserungsvorschläge). Hér er um að ræða hugmyndir sem eru e.t.v. ekki einkaleyfishæfar en atvinnurekandinn öðlast engu að síður rétt til að nýta slíkar hugmyndir og ekki er gert skilyrði um að hugmynd eða uppfinning leiði til einkaleyfis áður en starfsmanni er ákvarðað endurgjald.
    Samkvæmt lögunum nær tilkynningarskylda starfsmanns bæði til starfsuppfinninga og hugmynda um tæknilegar úrbætur sem honum ber að tilkynna skriflega án dráttar til atvinnurekandans. Ákveði atvinnurekandinn að hagnýta sér uppfinninguna verður hann að taka afstöðu til þess hvort hann hagnýtir sér hana að öllu leyti eða að hluta. Í síðara tilvikinu verður þá aðeins um takmarkað nytjaleyfi að ræða. Fjárhæð þess endurgjalds, sem starfsmaðurinn á rétt á, ræðst m.a. af því hvort uppfinningin er hagnýtt að öllu leyti eða ekki hjá fyrirtækinu.
    Starfsuppfinning getur breyst í einkauppfinningu ef atvinnurekandi ákveður að nýta sér ekki uppfinningu starfsmannsins, ýmist með sérstakri tilkynningu þar um innan fjögurra mánaða eða með því að svara ekki tilkynningu starfsmannsins innan sama tímafrests.
    Ákvörðun endurgjalds getur byggst á samningi starfsmanns og atvinnurekanda en við útreikning þess er tekið tillit til kostnaðar atvinnurekanda af því að sækja um innlent einkaleyfi.
    Tilkynningarskylda starfsmanns nær jafnframt til einkauppfinninga. Ef atvinnurekandinn leggur ekki fram andmæli innan þriggja mánaða gegn því að umrædd uppfinning teljist vera einkauppfinning getur hann ekki síðar gert kröfu til uppfinningarinnar á þeim grundvelli að hún eigi að teljast starfsuppfinning.
    Áður en starfsmaður hagnýtir í eigin þágu einkauppfinningu verður hann að bjóða atvinnurekandanum nytjaleyfi með sanngjörnum skilmálum ef uppfinningin telst vera á starfssviði fyrirtækisins. Ella má starfsmaðurinn nýta sér uppfinninguna án frekari tilkynninga til atvinnurekandans.
    Breyting var gerð á þýsku lögunum um uppfinningar starfsmanna 30. nóvember 2001 varðandi þær uppfinningar sem verða til í háskólum. Batt breytingin enda á sérréttindi prófessora frá og með gildistöku laganna 6. febrúar 2002. Fyrir lagabreytinguna var gerður greinarmunur á uppfinningum sem gerðar voru af háskólastarfsmönnum annars vegar og prófessorum og aðstoðarmönnum þeirra hins vegar þannig að litið var á uppfinningar prófessora, aðstoðarmanna þeirra og lektora sem einkauppfinningar en uppfinningar annarra háskólastarfsmanna voru skilgreindar sem starfsuppfinningar. Fyrri réttindi prófessora voru þó e.t.v. meiri í orði en á borði því að háskólunum bar engin skylda til að aðstoða þá við öflun einkaleyfa vegna uppfinninga sinna eða frekari hagnýtingu þeirra heldur þurftu þeir sjálfir að leita styrkja eða samninga við einkafyrirtæki um slíka fjármögnun og hagnýtingu.
    Eftir lagabreytinguna er ekki lengur gerður greinarmunur á uppfinningum háskólastarfsmanna og prófessora. Allar uppfinningar, sem gerðar eru af starfsmönnum háskóla, falla nú undir lögin. Engin lagafyrirmæli eru nú sett varðandi stöðu annarra, svo sem nemenda og gistiprófessora, og er til þess vísað að semja þurfi við hlutaðeigandi um réttindi þeirra. Með framangreindum breytingum falla prófessorar nú undir tilkynningarskyldu um uppfinningar til háskólanna en þó því aðeins ef þeir hyggjast birta uppfinninguna opinberlega. Ef uppfinningamaðurinn óskar ekki eftir að birta uppfinninguna, t.d. vegna öryggissjónarmiða, skapast engin skylda til að tilkynna háskólanum um uppfinninguna. Tveimur mánuðum eftir tilkynningu er uppfinningamanninum heimilt að birta uppfinningu sína opinberlega. Innan fjögurra mánaða frá því að háskólanum barst tilkynning um uppfinningu getur háskólinn krafist eignarréttar yfir uppfinningunni líkt og gildir á einkamarkaði í Þýskalandi. Í raun gengur þó tveggja mánaða fresturinn framar að því er varðar þýska háskóla vegna birtingarréttar uppfinningamanna. Innan þess tíma verður háskólinn að semja einkaleyfisumsókn og leggja inn hjá einkaleyfastofnuninni. Hafi háskóli gert kröfu til uppfinningar og öðlast réttindi yfir henni og framselt þau eða uppfinninguna til þriðja aðila á uppfinningamaðurinn rétt á 30% af brúttótekjum sem háskólinn fær af slíkri ráðstöfun, t.d. nytjaleyfum. Framangreindar breytingar á sérréttindum prófessora munu leiða til þess að allar uppfinningar, sem verða til í háskólum, fara framvegis til skoðunar hjá háskólayfirvöldum. Til að bregðast við þessu verður þýskum háskólum gert kleift að koma upp fullmönnuðum hugverkaumsýsluskrifstofum (e. intellectual asset management offices) líkt og starfað hafa í mörg ár við bandaríska háskóla. Fram til þessa var lítil þörf fyrir slíkar stofnanir við þýska háskóla þar eð uppfinningar, gerðar af prófessorum, fóru fram hjá háskólakerfinu beint út á einkamarkaðinn með beinum samningum prófessora og fyrirtækja. Framvegis verða fyrirtækin að leita samninga við háskólana í því skyni að afla nytjaleyfa til hagnýtingar slíkra uppfinninga. Með innleiðingu þriðjungsreglu um hlutdeild uppfinningamanna við háskóla er talið að tilkynntum uppfinningum muni fjölga verulega einkanlega þar sem háskólinn tekur á sig fyrirhöfnina og kostnaðinn við að sækja um einkaleyfi. Með þessu verður ágóðahluti háskólamanna mun hærri en uppfinningamanna á almennum vinnumarkaði og bætir þar með upp missi fyrri forréttinda.
    Í þýskum lögum eru ákvæði um ógildingu ósanngjarnra samningsákvæða varðandi starfsuppfinningar, einkauppfinningar og tæknilegar úrbótatillögur. Sama á við ef fjárhæð endurgjalds reynist vera ósanngjörn.
    Einnig er að finna í þýskum lögum sérákvæði um réttarstöðu starfsmanns við gjaldþrot atvinnurekanda en þá öðlast krafa starfsmanns um endurgjald og endurframsal forgangsrétt í kröfuröðinni.

Form frumvarpsins.
    Svo sem greint hefur verið frá kom til athugunar af hálfu nefndarinnar, sem samdi lagafrumvarp þetta, að fara sömu leið og farin hefur verið í danskri löggjöf, hafa eitt frumvarp um uppfinningar starfsmanna almennt og síðan annað frumvarp um uppfinningar á opinberum rannsóknastofnunum en þar undir kæmu m.a. háskólar og aðrir skólar á háskólastigi. Við nánari skoðun taldi nefndin þó ekki fullnægjandi ástæðu til að vera með tvískipta löggjöf á þessu sviði og til nokkurs að vinna að hafa ein lög. Kom hér ýmislegt til, m.a. að Norðmenn hafa ein lög um þetta efni frá 1. janúar 2003. Þá hafði verið ákveðið í nefndinni að hafa þriggja mánaða frest til athugunar af hálfu atvinnurekanda í stað fjögurra mánaða frests í Danmörku fyrir atvinnurekendur almennt en tveggja mánaða frests fyrir opinberar rannsóknastofnanir. Mörg ákvæði hinna mismunandi laga í Danmörku voru efnislega eins. Þau ákvæði, sem skáru sig úr í lögunum um opinberar rannsóknastofnanir, þóttu ekki þess eðlis að þau ættu að skipta meginmáli.
    Nánar tiltekið þótti ekki nauðsynlegt að setja í lög ákvæði samsvarandi 1. gr. dönsku laganna um opinberar rannsóknastofnanir, þess efnis að tilgangur laganna væri að tryggja að niðurstöður rannsókna, sem yrðu til fyrir opinber framlög, væru hagnýttar í atvinnuskyni og gögnuðust þannig samfélaginu. Því markmiði þykir mega ná þótt ákvæði þar að lútandi sé ekki sett í lög. Í þessu sambandi má hafa í huga lög nr. 2/2003, um Vísinda- og tækniráð, lög nr. 3/2003, um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, og lög nr. 4/2003, um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins. Þá þykir rétt í frumvarpinu að láta heimild starfsmanns til að sækja um einkaleyfi á biðtíma gilda einnig um starfsmenn t.d. háskóla enda þarf samkvæmt frumvarpsákvæðinu að láta atvinnurekanda vita og má þá ræða um það hvort slíkt mundi valda sérstökum vandræðum. Ekki hafa fundist rök fyrir því að önnur regla eigi að gilda um starfsmenn t.d. háskóla en aðra að þessu leyti. Ekki er heldur talið nauðsynlegt að lögbinda ákvæði samsvarandi 9. gr. dönsku laganna um að atvinnurekandi geti afsalað rétti þeim er hann hefur fengið frá starfsmanni í hendur þriðja manni. Slíkt leiðir af almennum reglum. Þá þykja ákvæði frumvarpsins um að starfsmaður megi ekki á biðtíma upplýsa um uppfinningu eða ráðstafa henni betri en ákvæði 10.–11. gr. dönsku laganna, þess efnis að atvinnurekandi verði að banna starfsmanni að birta upplýsingar eða ráðstafa uppfinningu á biðtímanum. Ekki þykir heldur sérstök ástæða til að taka upp ákvæði 1. mgr. 11. gr. dönsku laganna um að stofnunin skuli meta möguleikana á að hagnýta uppfinninguna í atvinnuskyni og vernda þau réttindi er tengjast henni, svo og ræða við starfsmanninn um þessi mál. Ákvæðin um hvað skuli meta virðast sjálfsögð atriði sem ekki þarf að lögbinda sérstaklega og viðræður við starfsmenn hljóta að fara fram eftir þörfum þótt lagaákvæðum sé ekki til að dreifa. Þá þótti ekki nauðsynlegt að lögbinda ákvæði 4. mgr. 11. gr. dönsku laganna um endurgjald til atvinnurekanda. Ætla má að atvinnurekendur í einkarekstri krefjist framsalsréttar yfir arðbærum uppfinningum en krefji starfsmann ekki um endurgjald vilji atvinnurekandinn ekki nota sér þennan rétt. Þegar um háskóla og fleiri slíka aðila er að ræða getur skólinn, ef honum sýnist svo, farið fram á að samið verði um þetta atriði, jafnvel í kjarasamningum. Ekki eru heldur tekin upp ákvæði 6. mgr. 11. gr. dönsku laganna um að atvinnurekandi skuli nýta réttindi, er hann hefur fengið framseld, með virkum hætti. Hafa má í huga hér að aðilar kunna að hafa samið um sanngjarnt endurgjald, t.d. eingreiðslu, svo og að skaðabótaskylda getur stofnast ef hagsmuna starfsmanns er ekki gætt, t.d. þegar gert er ráð fyrir greiðslu miðað við fjölda seldra eininga af vörum. Hugsanlegt er og að í þessum tilvikum verði samið um að færa réttinn til uppfinninga til starfsmanns á nýjan leik. Þegar litið er til 12. gr. dönsku laganna þótti eðlilegt að stofnun eins og háskóli reyni að semja við starfsmenn sína í einstökum tilvikum eða kjarasamningum fremur en að setja einhliða reglur um sanngjarnt endurgjald. Haft er í huga að endanlegur úrskurður um það, hvað sé sanngjarnt endurgjald, heyrir undir dómstóla. Sum önnur ákvæði dönsku laganna, sem geyma viðbótarákvæði, þykja fela í sér sjálfsagða hluti, m.a. um innri mál atvinnurekandans, svo sem hvernig nota megi tekjur af uppfinningu í þágu starfsemi t.d. skóla. Er aðilar semja um viðmiðanir sem tengjast sanngjörnu endurgjaldi geta þeir t.d. haft í huga hvernig mál hafa verið leyst á Iðntæknistofnun (þriðjungaskiptaregla, sbr. fylgiskjal með frumvarpinu) og ýmsum skólum og stofnunum í Danmörku (t.d. þriðjungaskiptaregla eða jafnvel reglan um 2/ 3til starfsmanns og 1/ 3til atvinnurekanda). Hvorki einstök ákvæði dönsku laganna um opinberar rannsóknastofnanir, þar undir háskóla, sem eru frábrugðin ákvæðum frumvarpsins, né slík ákvæði í heild þykja veita fullnægjandi ástæðu til að vera með sérstök lög um slíkar stofnanir. Þróunin á Vesturlöndum hefur og á undanförnum árum verið í þá átt að draga úr sérstöðu starfsmanna þessara stofnana en semja um réttarstöðuna, m.a. með hliðsjón af hagsmunum allra viðkomandi aðila og því að eðlilegt sé að opinber framlög til vísinda og rannsókna skili sér að einhverju leyti til baka.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni er fjallað um skilgreiningar.
    Samkvæmt 1. mgr. merkir orðið „uppfinning“ aðeins uppfinningu sem unnt er að fá einkaleyfi fyrir hér á landi. Ekki þykir ástæða til að miða við uppfinningar sem unnt er að fá einkaleyfi fyrir erlendis enda getur óljós viðmiðun falist í því þótt erlendur einkaleyfaréttur sé oft svipaður íslenskum einkaleyfarétti. Í íslenskri löggjöf er eigi að finna skilgreiningu á uppfinningu fremur en í ýmsum öðrum löndum. Vísast nánar í einkaleyfarétt varðandi skilgreiningu á hugtakinu „uppfinning“ en utan þess hugtaks falla m.a. uppgötvanir, með öðrum orðum öflun þekkingar á því sem alltaf hefur verið til staðar í náttúrunni.
    Hvað snertir 1. mgr. skal tekið fram að í Danmörku tekur einkaleyfi líka yfir smáeinkaleyfi en eigi hefur verið sett löggjöf hér á landi um slík einkaleyfi. Fyrirhuguð lög taka ekki til hönnunar sem starfsmaður stendur að og heldur ekki yrkisréttar, sbr. lög nr. 58/2000, um yrkisrétt.
    Hugverk, sem falla undir höfundalög, t.d. tölvuforrit, falla heldur ekki undir þetta frumvarp, sbr. 1. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, með síðari breytingum. Ef verk starfsmanns, sem verndað er að höfundalögum, er jafnframt talið fela í sér einkaleyfishæfa uppfinningu fer um slíka uppfinningu eftir ákvæðum laga þessara eftir því sem við á. Tölvuforrit mundi í nær öllum tilvikum fullnægja skilyrðum til að njóta verndar að höfundarétti og gilda þá sérreglur höfundalaga, 42. gr. b, 4 um að atvinnurekandinn telst vera höfundur forritsins. Þarf þá ekki framsal á höfundarétti frá starfsmanni til atvinnurekanda. Á hinn bóginn þarf atvinnurekandi að fá framseldan réttinn til uppfinningar sem kann að vera fólgin í tölvuforriti sem starfsmaður hefur skrifað þar eð starfsmaðurinn telst vera „uppfinningamaður“ í skilningi einkaleyfalaga og þessara laga. Taka má undir þá ábendingu að tölvuforrit eða upprunakóti (e. source code) þess sé ekki gert opinbert í skilningi einkaleyfalaga fyrr en gengið hafi verið úr skugga um hvort um einkaleyfishæfa uppfinningu sé að ræða. Í skilningi einkaleyfalaga teljast tölvuforrit og viðskiptaaðferðir, sem slíkar, ekki vera uppfinningar en kunna hins vegar að öðlast einkaleyfahæfi ef uppfinning hefur tæknilega eiginleika og beita má henni sem „tæki“ til lausnar á tæknilegu vandamáli þar sem áþreifanleg breyting kemur fram. 5
    Gildissvið laganna takmarkast samkvæmt framansögðu við einkaleyfishæfar uppfinningar. Munu lögin því ekki taka til hugverka sem uppfylla ekki skilyrði einkaleyfaumsóknar en eru þó hagnýtanleg, t.d. með stofnun sprotafyrirtækis. Gert er ráð fyrir að viðkomandi aðilar semji um hvernig með skuli fara í slíkum tilvikum ef þeir telja slíkt heppilegt.
    Í 2. mgr. segir að orðið „starfsmaður“ merki hvern þann sem ráðinn er til starfa hjá hinu opinbera eða einkaaðila. Átt er við almenna launþega, m.a. þá sem ráðnir eru með stuttum uppsagnarfresti, t.d. nema á meistara- eða doktorsstigi. Hins vegar taka lögin ekki sem slík til verktaka, t.d. ráðgjafa. Dómstólar hafa síðasta orðið um það hvernig túlka beri hugtakið „starfsmaður“. Það hvort uppfinningamaður teljist starfsmaður eða verktaki ræðst af almennum reglum vinnuréttar og skaðabótaréttar.
    Undir hugtakið falla samkvæmt frumvarpi þessu kennarar og aðrir starfsmenn er sinna vísindastörfum við háskóla eða skóla á háskólastigi, svo og opinberar rannsóknastofnanir. Um slíka starfmenn mun því fara eftir lögum en samningar, þ.e. sérstakir samningar eða jafnvel kjarasamningar, geta haft áhrif á stöðu að svo miklu leyti sem lögin verða frávíkjanleg. Staðalsamningar geta bætt stöðu starfsmanna, m.a. ef stéttarfélög veita aðstoð sína við gerð þeirra. Nefna má að hér á landi hefur t.d. Iðntæknistofnun gert samninga við starfsmenn sína um uppfinningar þeirra.
    Að svo miklu leyti sem lögin snerta opinbera aðila er ekki gert ráð fyrir kæruleið til æðra stjórnvalds, m.a. um sanngjarnt endurgjald, heldur geta aðilar leitað til dómstóla um einkaréttarlega hagsmuni sína, svo og gerðardóms ef þeir semja um slíkt. Einnig er unnt að bera mál upp við umboðsmann Alþingis varðandi form og því um líkt.

Um 2. gr.


    Aðalregla þessarar greinar er sú að ákvæði laganna séu frávíkjanleg nema ótvírætt sé kveðið á um annað. Geta atvinnurekandi og starfsmaður því samið um önnur kjör en í ákvæðum laganna felast almennt. Slíkir samningar mega þó ekki vera í andstöðu við ófrávíkjanleg ákvæði laganna. Þannig mundu dómstólar hafa endanlegt úrskurðarvald um það hvað sé sanngjarnt endurgjald vegna uppfinningar, sbr. 7. gr.
    Ófrávíkjanleg eru ákvæði 3. mgr. 6. gr. um að starfsmaðurinn geti ekki fyrir fram afsalað sér rétti til að sækja um einkaleyfi fyrir uppfinningu á biðtíma, ákvæði 7. gr. um rétt starfsmanns til sanngjarns endurgjalds vegna framsalsréttar atvinnurekandans á uppfinningu hans og ákvæði 2. mgr. 8. gr. um rétt starfsmanns til að ráðstafa uppfinningu sem verður til meira en ári eftir starfslok.
    Þótt atvinnurekandi og starfsmaður hafi samið með tilteknum hætti hafa dómstólar heimild til þess að víkja til hliðar einstökum samningsákvæðum eða jafnvel samningum í heild á grundvelli ákvæða samningalaga um ósanngjarna samningsskilmála, sbr. 4. mgr. 7. gr. um breytingar á samningum eða einstökum ákvæðum þeirra vegna þess að aðstæður hafa breyst verulega eða aðrar sérstakar ástæður mæla með því. Þá skiptir ekki máli hvort samningar eru gerðir við upphaf starfs eða síðar.

Um 3. gr.


    Í greininni er fjallað um rétt starfsmanns til uppfinningar. Þar segir að starfsmaður eigi rétt til uppfinningar sem hann kemur fram með að svo miklu leyti sem annað leiði eigi af lögum þessum eða öðrum lögum. Aðalreglan er hér hin sama og í 1. gr. laganna um einkaleyfi þess efnis að starfsmaðurinn eigi rétt til uppfinningar sem hann kemur fram með nema annað komi til. Í þessari grein er vísað til hugsanlegra takmarkana í lögunum eða öðrum lögum. Meðal slíkra takmarkana geta verið ákvæði 4. gr. um framsal réttar til atvinnurekanda en einnig geta takmarkanir falist í samningum enda yrðu lögin almennt frávíkjanleg. Aðeins einstaklingar geta talist uppfinningamenn, ekki lögaðilar.

Um 4. gr.


    Í greininni er fjallað um framsal réttar til atvinnurekanda. Í 1. mgr. segir að atvinnurekandi geti krafist framsals á rétti starfsmanns yfir uppfinningu sem er þáttur í starfi hans enda sé hagnýting hennar á starfssviði atvinnurekandans. Þótt hagnýting uppfinningarinnar sé ekki á starfssviði atvinnurekandans hefur atvinnurekandinn þó framsalsrétt ef uppfinningin tengist einhverju tilteknu verkefni sem atvinnurekandinn hefur falið starfsmanni. Uppfinningin er með öðrum orðum starfsuppfinning.
    Komi starfsmaður á starfstíma sínum fram með uppfinningu sem er þáttur í starfi hans en fullnægir þó ekki öllum skilyrðum 1. mgr., þ.e. hagnýting hennar er ekki á starfssviði atvinnurekandans og tengist ekki verkefni sem atvinnurekandinn hefur falið starfsmanninum, á starfsmaðurinn fullan rétt til uppfinningar sinnar sem telst einkauppfinning.
    Skv. 2. mgr. eiga ákvæði 1. mgr. um framsalsrétt atvinnurekanda einnig við ef fleiri starfsmenn en einn, sem ráðnir eru til starfa hjá fyrirtækinu, standa saman að uppfinningunni. Er 2. mgr. byggð á dönsku lögunum um uppfinningar á opinberum rannsóknastofnunum. Standi fleiri en einn starfsmaður að uppfinningu þurfa þeir að semja sín á milli um sinn hlut í henni.
    Greinin er frávíkjanleg, þ.e. atvinnurekandinn getur fallið frá framsalsrétti sínum. Er jafnvel unnt að semja um slíkt í kjarasamningi.
    Þótt atvinnurekandi hafi öðlast rétt til uppfinningar samkvæmt framansögðu og sæki um einkaleyfi þarf að gæta ákvæða 4. mgr. 8. gr. laga nr. 17/1991, um einkaleyfi, en þar segir í 1. málsl.: „Nafn uppfinningamanns skal tilgreint í umsókn.“ Séu uppfinningamenn fleiri en einn skal greina frá nöfnum allra.

Um 5. gr.


    Í greininni er fjallað um tilkynningu starfsmanns um uppfinningu. Skal hann án ástæðulauss dráttar tilkynna atvinnurekanda um uppfinningu og gefa þannig upplýsingar um hana að atvinnurekandinn geti metið mikilvægi hennar.
    Tilkynningin verður að vera sannanleg. Ráðlegt er að hafa hana skriflega, þ.e. með bréfi, tölvupósti eða faxi, til að tryggja sönnun þess að tilkynningarskyldu hafi verið fullnægt þar eð frestur atvinnurekanda til að svara telst frá móttöku tilkynningarinnar.
    Starfsmanni er ekki skylt að greina strax frá því ef hann hefur fengið hugmynd sem hugsanlega kann að leiða til uppfinningar. Sé starfsmaður í vafa um það hvort uppfinning sé þess eðlis að hana beri að tilkynna með hliðsjón af 4. gr. er ráðlegast að tilkynna uppfinninguna til að komast hjá hugsanlegri skaðabótaskyldu. Í þessu sambandi má nefna 1. gr. laga nr. 17/1991, um einkaleyfi, þar sem segir m.a. að einkaleyfi megi ekki veita fyrir uppfinningum sem stríða mundu gegn siðgæði eða allsherjarreglu.
    Vilji starfsmaður sjálfur hagnýta uppfinningu sína í atvinnuskyni eða hafi hann fram að færa tillögu um annars konar hagnýtingu hennar en í höndum atvinnurekandans getur hann komið slíkri ósk að í tilkynningu til atvinnurekandans.

Um 6. gr.

    Í greininni er fjallað um biðtíma atvinnurekanda, þagnarskyldu starfsmanns og einkaleyfisumsókn starfsmanns á biðtíma.
    Í 1. mgr. er kveðið á um hversu langan biðtíma, frest, atvinnurekandi hefur eftir móttöku tilkynningar skv. 5. gr. til að skýra starfsmanninum frá því að hann óski eftir að öðlast rétt til uppfinningar skv. 4. gr. Fresturinn er þrír mánuðir frá móttöku tilkynningarinnar, þ.e. styttri en í dönsku almennu lögunum, þar sem hann er fjórir mánuðir, en lengri en í dönsku lögunum um opinberar rannsóknastofnanir þar sem hann er tveir mánuðir. Frestinn mundi atvinnurekandinn nota til að meta uppfinninguna. Við matið færi eftir atvikum fram tæknileg, lögfræðileg og markaðsleg athugun á möguleikunum á því að hagnýta uppfinninguna í atvinnuskyni. Ræða mætti við starfsmann eftir því sem þurfa þætti.
    Vakin er athygli á því að ákvæði þetta er frávíkjanlegt og það gæti eftir atvikum verið starfsmanni í hag að fá biðtímann styttan með samningi við atvinnurekanda.
    Eftir að atvinnurekandinn hefur skýrt starfsmanninum frá ákvörðun sinni er starfsmanninum skylt að undirrita nauðsynleg framsalsskjöl. Hafi atvinnurekandinn lýst því yfir að hann vilji öðlast rétt til uppfinningarinnar getur hann eigi dregið þá yfirlýsingu til baka án samþykkis starfsmanns. Þegar yfirlýsing atvinnurekandans er gefin öðlast starfsmaðurinn rétt til sanngjarns endurgjalds fyrir uppfinningu sína skv. 7. gr.
    Í 2. mgr. eru starfsmanni settar hömlur um meðferð uppfinningar sinnar meðan á biðtíma stendur. Má starfsmaðurinn ekki upplýsa aðra um uppfinninguna eða ráðstafa henni þannig að unnt sé að birta upplýsingar um uppfinninguna eða nota hana í þágu annarra. Ekki er þó um slíkar hömlur að ræða ef atvinnurekandinn hefur lýst því yfir skriflega að hann hafi ekki áhuga á uppfinningunni. Ástæðan fyrir hömlunum er sú að upplýsingar um uppfinninguna eða ráðstöfun hennar geta leitt til þess að möguleiki á öflun einkaleyfis sé fyrir bí en af því getur hlotist fjárhagstjón, jafnvel verulegt fjárhagstjón, sem tjónvaldur ber ábyrgð á (ásetnings- eða gáleysisbrot). Þykir slíkt ekki fýsilegt. Bent skal í þessu sambandi á almennar athugasemdir um reglur í framangreindu norsku lagafrumvarpi um uppfinningar háskólamanna o.fl. sem lögfestar voru þar sem farin er önnur leið. Skv. 2. mgr. 2. gr. laga um einkaleyfi telst það þekkt sem almennur aðgangur er að í rituðu máli, fyrirlestrum, með hagnýtingu eða á annan hátt. Útboð og eftirgerð má einnig nefna hér sérstaklega.
    Ekki ber að skilja þagnarskylduákvæðin þannig að starfsmaður geti veitt upplýsingar um uppfinninguna eftir að atvinnurekandi lýsir því yfir að hann vilji öðlast rétt til hennar heldur helst þagnarskylda starfsmannsins á grundvelli 27. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, varðandi atvinnuleyndarmál.
    Hugsanlegt er að ekki sé í öllum tilvikum sótt um einkaleyfi heldur sé uppfinning varðveitt sem viðskiptaleyndarmál. Ekki má þá birta upplýsingar um uppfinninguna. Slíkt getur verið brot á samkeppnislögum og verið refsivert. Einnig getur reynt á þagnarskyldu opinberra starfsmanna og þá ákvæði hegningarlaga.
    Ekki þótti ástæða til að setja refsiákvæði í lög þessi svipað og í almennu dönsku lögunum, þess efnis að sá sem á grundvelli laganna kemst á snoðir um uppfinningu megi ekki án heimildar hagnýta sér það sem hann hefur komist að eða upplýsa nokkuð þar að nauðsynjalausu. Slíkt getur varðað sektum eða fangelsi í Danmörku enda krefjist sá sem misgert er við að refsingu sé beitt. Sama gildir þar í landi um brot starfsmanns á biðtíma, sbr. 2. mgr. 6. gr., þ.e. ef hann upplýsir aðra um uppfinningu eða ráðstafar henni án skriflegs samþykkis atvinnurekanda þannig að unnt sé að birta upplýsingar um uppfinninguna eða nota hana í þágu annarra. Í því tilviki er gert ráð fyrir að atvinnurekandinn hafi ekki lýst því yfir skriflega að hann hafi ekki áhuga á uppfinningunni. Þykir ekki alveg fullnægjandi ástæða til að beita refsiákvæðum en skaðabótaskylda getur verið fyrir hendi í þessum tilvikum enda getur tjón, sem valdið er, verið umtalsvert. Þykir aðhald á grundvelli skaðabótasjónarmiða vera nægilegt. Það skal tekið fram í þessu sambandi að í dönsku lögunum um opinberar rannsóknastofnanir, sem gilda m.a. um háskóla, eru engin refsiákvæði eins og í almennu lögunum þar í landi.
    Þar eð starfsmaður getur átt mikið í húfi hefur hann skv. 3. mgr. 6. gr. rétt til þess á biðtíma að sækja um einkaleyfi fyrir uppfinningu en skal þó tilkynna atvinnurekandanum það áður. Nefna má hér að síðustu forvöð kunna að vera á að sækja um einkaleyfi í tilteknu ríki. Getur starfsmaðurinn lagt umsókn sína inn um leið og hann hefur tilkynnt atvinnurekandanum um uppfinninguna. Þetta ákvæði er ófrávíkjanlegt þannig að starfsmaðurinn getur ekki afsalað sér réttinum til að sækja um einkaleyfi fyrir fram. Með einkaleyfisumsókn getur starfsmaður tryggt sér forgangsrétt að uppfinningunni í öðrum löndum og getur hann lagt slíka umsókn fram hvort heldur er hér á landi eða erlendis. Heimild starfsmanns til að sækja um einkaleyfi á biðtíma gildir einnig um starfsmenn t.d. háskóla enda standi ekki til að halda uppfinningu leyndri sem er harla ólíklegt. Sæki starfsmaður um einkaleyfi á biðtíma gerir hann það á eigin áhættu enda ekki víst á þeirri stundu að atvinnurekandi taki ákvörðun um að krefjast framsals réttarins yfir uppfinningunni. Viðræður þeirra á milli við þessar aðstæður gætu þó auðveldað mat á því hvað gera bæri.

Um 7. gr.

    Í greininni er fjallað um sanngjarnt endurgjald til handa starfsmanni vegna framsals hans á uppfinningu til atvinnurekanda.
    Í 1. mgr. segir að starfsmaður eigi, jafnvel þótt um annað hafi verið samið, rétt á sanngjörnu endurgjaldi fyrir uppfinninguna ef atvinnurekandi öðlast rétt til hennar skv. 4. gr. eða á öðrum grundvelli. Þetta á þó ekki við ef verðmæti uppfinningarinnar fer ekki fram úr því sem ætla má með sanngirni að starfsmaðurinn skuli inna af hendi með tilliti til heildarkjara. Samkvæmt þessu er reglan um sanngjarnt endurgjald ófrávíkjanleg. Á hinn bóginn er ekki víst að starfsmenn beri í öllum tilvikum eitthvað úr býtum. Þannig geti hugsast að starfsmaður sé ráðinn til starfa sinna í þeim tilgangi að koma fram með uppfinningu og kann að vera tekið tillit til slíks í heildarkjörum. Atvinnurekandinn hefur sönnunarbyrðina fyrir því að starfsmaður eigi ekki að fá greitt sérstaklega vegna uppfinningarinnar, þ.e. umfram heildarkjör. Í málsgreininni er byggt á því að atvinnurekandinn öðlist rétt til uppfinningar starfsmanns ekki aðeins skv. 4. gr. heldur einnig á öðrum grundvelli, einkum ef það er með sérstökum samningi.
    Skv. 2. mgr. skal við ákvörðun endurgjalds tekið sérstakt tillit til verðmætis uppfinningarinnar og mikilvægis hennar fyrir starfsemi atvinnurekandans, ráðningarkjara starfsmanns og hlutdeildar starfsmannsins í uppfinningunni. Þegar verðmæti uppfinningar er metið nægir ekki að líta eingöngu til notkunarmöguleika hennar hjá atvinnurekandanum einum heldur þarf að líta til mikilvægis hennar í atvinnugreinum almennt. Ráðningarkjör starfsmanns skipta máli og þá hvort starfsmaður er að nokkru eða öllu leyti ráðinn með uppfinningastarfsemi í huga. Þegar hlutdeild starfsmannsins í uppfinningu er metið þarf einnig að hafa í huga framlag atvinnurekandans, m.a. í formi tækja sem hann leggur til og skipta sérstöku máli. Séu starfsmenn fleiri en einn þarf að ákveða skiptingu endurgjalds þeirra í milli. Einnig þarf uppfinningin að vera verðmæt og þarf að kanna hvort tekjur vegna uppfinningarinnar fari fram úr útgjöldum.
    Ekki er kveðið á um það í 2. mgr. í hvaða formi endurgjald skuli vera, t.d. ein greiðsla þannig að atvinnurekandinn beri áhættuna, eða gjald á hverja framleidda einingu. Þá er eigi kveðið á um það hvernig starfsmaður geti tryggt sig gegn því í einingagreiðslukerfi að atvinnurekandinn stöðvi framleiðsluna eða láti hjá líða að endurnýja einkaleyfi þannig að það falli niður og hver sem er geti hafið framleiðslu. Slíkt aðgerðaleysi af hálfu atvinnurekandans getur eftir atvikum leitt til þess að hann verði skaðabótaskyldur. Hugsanlegt er að samið sé um að uppfinningamaður taki aftur við uppfinningunni. Hér má hafa í huga að aðgerðaleysi getur í einhverjum tilvikum verið eðlilegt, sbr. það sem segir í athugasemdum við 6. gr. um að ekki sé í öllum tilvikum sótt um einkaleyfi heldur sé uppfinning varðveitt sem viðskiptaleyndarmál. Það leysir hann þó ekki undan reglunum um sanngjarnt endurgjald fyrir uppfinninguna.
    Ekki þykir ástæða til þess að kveða á um það í lögum frekar en fram kemur í greininni hvernig ákvarða skuli sanngjarnt endurgjald, t.d. ákveðna hlutaskiptingu, sbr. athugasemd um slíka skiptingu aftast í þættinum um frumvarpsform. Þykir það vera of ósveigjanlegt með tilliti til margbreytilegra aðstæðna.
    Í 3. mgr. er kveðið á um fyrningu kröfu um ákvörðun endurgjalds á tíu árum. Fyrningarfresturinn er í samræmi við almenna fyrningarreglu laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Við ákvörðun frestsins er haft í huga að langur tími getur liðið þar til verðmæti uppfinningar og þar með grundvöllur sanngjarns endurgjalds kemur í ljós. Telst fresturinn frá þeim tíma er atvinnurekandinn hefur gefið til kynna að hann vilji öðlast uppfinninguna. Rétt þykir að hafa í lögunum ákvæði um fyrningarfrest þannig að atvinnurekandi viti við hverju hann má búast. Eðlilegt er að bæði atvinnurekandinn og starfsmaðurinn hugi að ákvæðunum um sanngjarnt endurgjald, geri gangskör að því að mál liggi ljóst fyrir. Starfsmaðurinn hefur sérstaka hagsmuni af því að línur skýrist sem fyrst og krafa hans fyrnist ekki. Einnig má hafa í huga hugsanlegt gjaldþrot atvinnurekanda og breytingar á eignarhaldi fyrirtækis. Ákvæði fyrningarlaga gilda að öðru leyti um fyrningu krafna samkvæmt þessum lögum eftir því sem við á. Þannig verður fyrningarfestur rofinn með viðurkenningu aðila á skuld eða málssókn.
    Hugsanlegt er að atvinnurekandi og starfsmaður semji um skyldu atvinnurekanda til að setja tryggingu fyrir sanngjörnu endurgjaldi að ósk starfsmanns. Þá er það sérstakt athugunarefni sem taka má á síðar af hálfu viðkomandi stjórnvalds hvort breyta eigi löggjöf um gjaldþrotaskipti þannig að starfsmaður geti krafist endurheimtu á rétti sem atvinnurekanda var framseldur en ella verði krafa starfsmanns um sanngjarnt endurgjald forgangskrafa við skipti.
    Í 4. mgr. er kveðið á um breytingar á einstökum ákvæðum samninga eða samningum í heild um endurgjald að kröfu annars aðila. Gildir þetta jafnvel þótt um annað hafi verið samið þegar aðstæður þær sem lágu til grundvallar hafa breyst verulega eða aðrar sérstakar ástæður mæla með því. Talið er eðlilegt að hafa ákvæði um slíkt í lögum þar eð oft er erfitt að dæma um verðmæti uppfinningar áður en hún er hagnýtt í atvinnuskyni. Getur endurskoðunarmöguleiki gagnast báðum aðilum. Aldrei skal þó endurgreiða fé sem starfsmaður hefur tekið við samkvæmt fyrri ákvörðun um endurgjald.
    Nái atvinnurekandi og starfsmaður ekki samkomulagi um sanngjarnt endurgjald eða breytingu á endurgjaldi getur hvor um sig vísað málinu til dómstóla. Í máli gæti reynt á ákvæði samningalaga um ósanngjarna samningsskilmála eins og áður hefur komið fram. Einnig geta aðilar samið um að gerðardómur útkljái málið.
    Ákvæði í lögum um rétt starfsmanna til sanngjarns endurgjalds vegna uppfinninga þeirra í starfi eru talin geta örvað þá til að koma fram með uppfinningar.

Um 8. gr.

    Í greininni er að finna ákvæði sem tengjast réttarstöðu atvinnurekenda og starfsmanns með tilliti til starfsloka. Nánar tiltekið er í 1. mgr. fjallað um umsókn um einkaleyfi eftir raunveruleg starfslok en í 2. mgr. um uppfinningar eftir formleg starfslok. Um raunveruleg starfslok er þannig strax að ræða þegar starfsmanni er t.d. sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara en aðilar koma sér saman um að hann hætti strax störfum.
    Í 1. mgr. er sett fram líkindaregla. Telst uppfinning hafa orðið til á starfstíma nema t.d. starfsmaður leiði líkur að því að uppfinningin hafi orðið til eftir raunveruleg starfslok, þ.e. í þeim tilvikum þegar sótt er um það innan sex mánaða frá raunverulegum starfslokum að einkaleyfi sé veitt fyrir uppfinningu starfsmanns sem 4. gr. hefði tekið til ef uppfinningin hefði orðið til á starfstímanum. Hér er byggt á þeirri viðmiðun að atvinnurekandinn eigi að hafa rétt til framsals á uppfinningunni ef hún hefur orðið til á starfstíma. Rökin fyrir því að gera mun á raunverulegum starfslokum og formlegum starfslokum grundvallast á tilliti til hagsmuna starfsmanns, gagnstætt líkindareglunni. Er talið rétt að sá frestur sem líkindareglan tekur til hefjist sem fyrst enda eðlilegt að fresturinn byrji strax að líða þegar störfum er í reynd hætt.
    Í 2. mgr. segir að ógilt sé hvert það samkomulag milli atvinnurekanda og starfsmanns er takmarkar rétt starfsmannsins til að ráðstafa þeim uppfinningum sem verða til meira en ári eftir formleg starfslok. Greinin er samkvæmt þessu ófrávíkjanleg.

Um 9. gr.

    Greinin geymir gildistökuákvæði. Gert er ráð fyrir nokkrum aðlögunartíma en með honum gefst betra tóm til að vinna að samningsgerð aðila í upphafi, m.a. í háskólum, um þessi efni, t.d. um sanngjarnt endurgjald.
    Eigi er talið nauðsynlegt að kveða á um það í lögunum að þau taki einungis til þeirra uppfinninga sem koma fram eftir gildistöku laganna. Þá þykir eigi heldur nauðsynlegt að kveða á um það að ófrávíkjanlegar reglur laganna skuli gilda gagnvart samningum sem gerðir eru fyrir gildistöku laganna um uppfinningar sem koma fram eftir gildistöku þeirra. Ófrávíkjanlegu ákvæðin geta með öðrum orðum hrundið slíkum samningsákvæðum.


Fylgiskjal I.


Samningur Iðntæknistofnunar Íslands við starfsmenn sína.

SAMNINGUR

    Undirritaðir, Iðntæknistofnun Íslands, kt. 670279-0149, Keldnaholti, í samningi þessum nefnd „stofnunin“, annars vegar og __________________________ kt. ______________, í samningi þessum nefnd(ur) „starfsmaður“, sem ráðinn er til starfa hjá stofnuninni samkvæmt ráðningarsamningi dagsettum ___________________ 200_, með starfsheitinu ______________________, hins vegar, gera með sér eftirfarandi samning um hugsanlegar uppfinningar hins síðarnefnda og rétt stofnunarinnar til þess að krefjast framsals á rétti þessum.

1. grein
Eignarréttur að uppfinningum starfsmanns
og framsal hans.

    Samningur þessi tekur til allra uppfinninga á starfssviði starfsmanns, sem talið er hægt að öðlast einkaleyfi fyrir, hvort sem um er að ræða uppfinningu sem starfsmaður hefur gert einn eða í félagi við aðra starfsmenn stofnunarinnar, og hvort sem þær eru gerðar í eða utan vinnutíma starfsmannsins.
    Ef annað leiðir ekki af samningi þessum hefur starfsmaður allan rétt til þeirra uppfinninga, sem hann gerir í starfi sínu hjá stofnuninni.
    Geri starfsmaður uppfinningu í félagi við aðila utan stofnunarinnar og uppfinningin fellur undir gildissvið samnings þessa, öðlast stofnunin rétt til framsals á rétti starfsmannsins og ber skyldur að sama skapi.
    Uppfinning, sem gerð er utan reglulegs vinnutíma fellur einnig undir ákvæði samnings þessa, enda sé um að ræða uppfinningu á starfssviði viðkomandi starfsmanns.
    Samningur þessi gildir á meðan starfsmaður er bundinn af ráðningarsamningi við stofnunina, og í sex mánuði frá lokum slita á ráðningarsambandinu.

2. grein
Tilkynningarskylda.

    Starfsmaður skuldbindur sig til þess, á meðan hann er bundinn af samningi þessum, að tilkynna stjórn stofnunarinnar skriflega um allar þær uppfinningar, sem hann hefur gert.
    Starfsmaður skal í hinni skriflegu tilkynningu sinni til stjórnar stofnunarinnar, vegna sérhverrar uppfinningar, gera skýrlega grein fyrir því í hverju uppfinning hans felst, hvert sé sérstakt gildi hennar fyrir stofnunina, og/eða hvert sé almennt gildi hennar, á hvaða sviðum hún verði helst nýtt og með hvaða hætti.
    Skulu þessar upplýsingar vera svo ítarlegar, að stjórn stofnunarinnar geti metið gildi uppfinningarinnar.

3. grein
Hagnýtingarréttur stofnunarinnar.

    Stofnunin öðlast rétt til hagnýtingar á uppfinningu starfsmanns í samræmi við ákvæði samnings þessa. Stofnunin getur nýtt sér þann rétt, sem hún þannig hefur öðlast samkvæmt samningi þessum, hvort sem hún kýs að gera það á eigin vegum, í samvinnu við aðra, eða með framsali á rétti sínum.
    Ákveði stofnunin slíka hagnýtingu, er starfsmanni skylt að framselja uppfinningu sína til stofnunarinnar. Stofnunin skal ábyrgjast að nafns starfsmannsins (uppfinningamanns) sé ávallt getið í einkaleyfisgögnum.
    Stofnuninni er heimilt að framselja hagnýtingarrétt sinn til þriðja aðila fyrir fram, t.d. með samningi um verktöku af hálfu stofnunarinnar. Skal stofnuninni, í þeim tilvikum er henni berst tilkynning frá starfsmanni um uppfinningu sem framseld hefur verið fyrir fram, skylt að gæta hagsmuna starfsmannsins í hvívetna, jafnframt sem hún kemur fram fyrir starfsmannsins hönd gagnvart slíkum framsalshafa og ber hún ábyrgð á rétti hans. Réttur starfsmanns til þóknunar raskast í engu þótt svo standi á sem lýst er í þessari málsgrein.
    Starfsmaður getur öðlast rétt til þess að hagnýta sér á eigin kostnað uppfinninguna í löndum, þar sem stofnunin ætlar ekki að beita rétti sínum, enda skaði það ekki hagsmuni stofnunarinnar. Til þess að starfsmaður geti nýtt rétt sinn með þessum hætti, skal liggja fyrir skriflegt samþykki stjórnar stofnunarinnar.

4. grein
Hagnýtingarréttur – skylda til að svara.

    Stofnuninni ber að svara starfsmanni um það innan fjögurra mánaða frá því að tilkynning um uppfinningu kom til stjórnar, hvort stofnunin ætli að hagnýta sér rétt sinn samkvæmt 3. gr. samnings þessa. Berist svar stofnunarinnar ekki til starfsmanns innan hins tilgreinda frests, er honum heimilt að ráðstafa uppfinningunni að vild, án afskipta stofnunarinnar.
    Ef stofnunin ákveður að hætta við að hagnýta sér rétt sinn samkvæmt samningi þessum skal hún tilkynna það starfsmanni svo fljótt sem kostur er, í síðasta lagi innan fjögurra mánaða og fellur þá allur réttur til uppfinningarinnar aftur til starfsmanns. Hafi stofnunin lagt út kostnað vegna uppfinningarinnar, skal starfsmanni ekki skylt að endurgreiða þann kostnað, né heldur þóknanir sem hann kann að hafa móttekið.

5. grein
Einkaleyfisvernd o.fl.

    Ákveði stofnunin að nýta sér rétt sinn samkvæmt 3. gr. samnings þessa, þá skal hún strax gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að tryggja vernd uppfinningarinnar, þar með talið með því að sækja um einkaleyfi. Kostnaður varðandi einkaleyfisöflun og athuganir á einkaleyfishæfni skal greiddur af stofnuninni, enda sé til hans stofnað eftir ákvörðun stofnunarinnar. Starfsmanni er heimilt að stofna til kostnaðar á eigin ábyrgð vegna öflunar einkaleyfis, enda liggi fyrir skrifleg heimild stjórnar samkvæmt fyrirmælum 3. gr.

6. grein
Þóknun til starfsmanns o.fl. fyrir framsal
hagnýtingarréttar.

    Þegar stofnunin öðlast rétt til ráðstöfunar á uppfinningu starfsmanns síns, skal hann eiga rétt á þóknun vegna framsals á hagnýtingarrétti. Skal annaðhvort miðað við hlutdeild starfsmanns í væntanlegum tekjum af hagnýtingu uppfinningarinnar, sbr. síðari málsgr. í grein þessari, eða honum greitt í eitt skipti fyrir öll er stofnunin hefur tekið ákvörðun um að hagnýta sér uppfinninguna, allt eftir því hvað um semst hverju sinni. Samningar um þetta skulu vera skriflegir.
    Sé samið um hlutdeild starfsmanns í væntanlegum tekjum skulu þær skiptast milli stofnunar og starfsmanns þegar frá hefur verið dreginn útlagður kostnaður.
    Með „útlögðum kostnaði“ í 2. mgr. þessarar greinar er átt við beinan útlagðan kostnað varðandi tæknilega ráðgjöf um hagnýtingu uppfinningarinnar, könnun á einkaleyfishæfni, gerð einkaleyfisumsóknar svo og samningsgerð um hagnýtingu hennar.
    Þegar samið er um hlutdeild starfsmanns í væntanlegum tekjum, skal hann fá í sinn hlut 1/ 3hluta teknanna, þegar frá hefur verið dreginn útlagður kostnaður eins og hann er skilgreindur í 3. mgr. þessarar greinar. Þriðjungi teknanna skal síðan varið til rannsóknaverkefna sem viðkomandi starfsmaður vinnur við. Sinni starfsmaður ekki lengur rannsóknastörfum hjá stofnuninni, skal þessum hluta varið til rannsókna hjá stofnuninni í samráði við hann. Stofnunin fær kvaðalaust 1/ 3hluta teknanna í sinn hlut.
    Stofnuninni er skylt að gefa starfsmanninum, og/eða trúnaðarmanni hans ef starfsmaður óskar þess, allar upplýsingar úr bókhaldi um greiðslur útlagðs kostnaðar, auk þess sem stofnuninni er skylt að senda starfsmanni reikningsyfirlit og uppgjör eigi sjaldnar en á 6 mánaða fresti, nema um skemmri frest hafi verið samið.

7. grein
Gildistími o.fl.

    Samningur þessi gildir á meðan starfsmaður er bundinn af almennum ráðningarsamningi við stofnunina, og í sex mánuði eftir að ráðningarsamningi hefur verið slitið.
    Þóknun til starfsmanns er óháð gildistíma samningsins og öðrum ráðningarkjörum.
    Stofnunin getur greitt starfsmanni umfram það sem í 1. mgr. þessarar greinar segir, enda þótt stofnunin hafi ekki haft tekjur af uppfinningunni, eða hyggist ekki nýta rétt sinn samkvæmt 3. gr. samnings þessa.
    Réttur starfsmanns til þóknunar fyrir uppfinningu, sem tengist verkefni fyrir þriðja aðila, skal vera óskertur og skal stofnunin ábyrgjast rétt starfsmanns gagnvart þriðja aðila.

8. grein
Endurskoðun samnings.

    Hvor aðili um sig getur krafist endurskoðunar á samningi þessum í heild eða að hluta, ef það yrði talið ósanngjarnt, eða andstætt góðum viðskiptaháttum að byggja á ákvæðum hans. Við mat á því, hvort skilyrði endurskoðunar séu fyrir hendi, skal einkum líta til efnis samnings og atvika, sem síðar hafa komið til, s.s. eins og ef stofnunin hefur ekki nýtt þá möguleika til tekjuöflunar sem uppfinningin gefur tilefni til, tekjur eða tekjumöguleikar af uppfinningu eru meiri en fyrirséð var er samningur var gerður, einkum ef samið hefur verið um eingreiðsluþóknun, ný lög eða kjarasamningur koma til, sem breyta verulega þeim forsendum og aðstæðum sem samningur þessi byggir á.
    Þá skal taka samning þennan til endurskoðunar ef ný lög verða sett eða ef samningur verður gerður milli stéttarfélags starfsmanns og vinnuveitanda, sem kveður á um breytta réttarstöðu aðila miðað við samning þennan.

9. grein
Þagnarskylda.

    Starfsmanni er skylt að gæta þagnarskyldu um allt, sem starfi hans tengist og leynt á að fara. Stofnuninni ber einnig að sjá til þess að einkaleyfisréttur starfsmanns glatist ekki fyrir það að uppfinningin er gerð opinber án samþykkis hans.

10. grein
Meðferð ágreiningsmála.

    Ef ágreiningur rís um framkvæmd samnings þessa, eða túlkun hans, skulu aðilar reyna að jafna þann ágeining.
    Takist ekki að leysa ágreininginn, sker gerðardómur úr. Úrlausn gerðardómsins um efnisatriði skal vera bindandi.
    Gerðardómur skal skipaður þremur óvilhöllum mönnum, sem tilnefndir skulu af viðkomandi starfsmanni (1 maður), stjórn stofnunarinnar (1 maður) og Héraðsdómi Reykjavíkur (1 maður).
    Stofnunin skal bera kostnað af störfum dómara í gerðardóminum, en gerðardómurinn skal sjálfur úrskurða um það hver beri kostnað af störfum talsmanna málsaðila fyrir dómnum.
    Öllu ofanrituðu til staðfestingar undirrita aðilar nöfn sín í viðurvist tveggja vitundarvotta.

Reykjavík,                          200


                        _____________________________

                        _____________________________Vottar sem votta rétta dagsetningu,
undirskrift og fjárræði aðila.

__________________________

__________________________
Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um uppfinningar starfsmanna.

    Með frumvarpi þessu er verið að treysta stöðu eignarréttar milli atvinnurekanda og starfsmanna á uppfinningum sem tilkomnar eru vegna vinnu starfsmanns hjá atvinnurekanda. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Í málinu Electrolux g. Hudson [1977] FSR 312, DC, reyndi á rétt atvinnurekanda til uppfinningar starfsmanns sem var utan starfssviðs hans hjá fyrirtækinu og hann vann að utan vinnutíma á heimili sínu með eiginkonu sinni. Uppfinningin varðaði einnota ryksugupoka. Starfsmaðurinn, sem var hvorki vísindamaður né stjórnandi, heldur sölustjóri, fregnaði af vandkvæðum atvinnurekandans við að leysa vandamál í tengslum við einnota ryksugupoka. Hann leysti vandamálið heima í félagi við konu sína og fékk einkaleyfi fyrir uppfinningunni. Atvinnurekandinn höfðaði mál á hendur starfsmanninum til að krefjast eignarréttar yfir uppfinningunni. Þar sem deilan kom upp fyrir gildistöku einkaleyfalaganna frá 1977 var leyst úr henni á grundvelli dómvenju. Niðurstaðan var sú að þrátt fyrir ákvæði í ráðningarsamningi um eignarrétt atvinnurekanda á uppfinningum starfsmannsins var þeim vikið til hliðar þar eð þau þóttu of rúm og ósanngjörn gagnvart starfsmanninum og talið var að slíkir samningar væru andstæðir dómvenju.
    Í málinu Greater Glasgow Health Board's Application [1996] RPC 207 reyndi á rétt augnskurðlæknis til uppfinningar sinnar sem var tæki til augnskurðlækninga. Hann vann að uppfinningunni samhliða starfi sínu sem augnskurðlæknir. Atvinnurekandinn krafðist réttar yfir uppfinningunni og sótti um einkaleyfi. Læknirinn andmælti á þeim grundvelli að engin rannsóknarskylda hvíldi á honum í starfi og að aðalstarf hans væri umsjón með sjúklingum. Í ljós var leitt að hann stundaði rannsóknir sínar utan vinnutíma. Dæmt var að atvinnurekandinn ætti ekki rétt til uppfinningarinnar með vísan til starfsskyldna læknisins samkvæmt ráðningarskilmálum, þ.e. hann var ekki ráðinn til rannsóknarstarfa.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Í málinu US g. Dubilier Corporation (1938) 289 US 178 (USSC) var reglan orðuð svo: „Where a servant, during his hours of employment, working with his master's materials and appliances conceives and invents an invention for which he obtains a patent, he must give his master a non-exclusive right to patent the invention.“
Neðanmálsgrein: 3
    3 US g. Dubilier Corporation (1938) 289 US 178 (USSC).
Neðanmálsgrein: 4
    4 Höfundalög, 42. gr. b: Nú er gerð tölvuforrita liður í ráðningarskilmálum og eignast þá atvinnurekandi höfundaréttinn að forritinu nema áskilnaður sé gerður á annan veg.
Neðanmálsgrein: 5
    5 Sbr. European Patent Office Board of Appeal: Viacom/Computer-related invention [T208/84] og IBM/Computer-related product [T-1173/97].
    Þess má geta að fyrir liggja drög að tilskipun Evrópusambandsins um einkaleyfishæfi uppfinninga er fela í sér tölvubúnað þar sem mælt er fyrir um samræmdar reglur innan ESB á þessu sviði (Proposal for a Directive of the European Parliament and of the Council on the patentability of computer-implemented inventions (COM(2002) 92 final)).