Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 317. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 363  —  317. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um háskóla á Vestfjörðum.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson, Gunnar I. Birgisson,


Magnús Stefánsson, Einar Oddur Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að beita sér fyrir stofnun sjálfstæðs háskóla á Vestfjörðum. Skólinn verði á Ísafirði og starfi samkvæmt lögum um háskóla.
    Sérhæft námsframboð skólans mótist af sérstöðu svæðisins með tilliti til umhverfismála, ferðamála, sjávarútvegs og tónlistarlífs, en í upphafi verði lögð áhersla á almennar undirstöðugreinar, svo sem fræðileg vinnubrögð, sálfræði, siðfræði, félagsfræði, aðferðafræði og tölfræði.
    Horft verði til samstarfs við aðra háskóla og þannig stuðlað að fjölbreyttu námsframboði.
    Rektor verði ráðinn til starfa á næsta ári til undirbúnings kennslu sem hefjist haustið 2005.

Greinargerð.


    Á skömmum tíma hefur aðsókn að háskólanámi aukist svo á Vestfjörðum að líkja má við sprengingu. Enginn skóli á háskólastigi starfar í fjórðungnum svo nemendur verða að stunda fjarnám. Um það bil 130 manns á Vestfjörðum stunda háskólanám við a.m.k. fjóra háskóla. Flestir leggja stund á kennaranám til grunnskólastigs við Kennaraháskóla Íslands en einnig stunda margir rekstrarfræði við Háskólann á Akureyri, leikskólafræði í Kennaraháskóla Íslands og við Háskólann á Akureyri, íslensku við Háskóla Íslands og kerfisfræðinám í Háskólanum í Reykjavík.
    Fjarnámið er stundað á ýmsa vegu. Sumir fylgjast með fyrirlestrum um fjarfundabúnað sem komið hefur verið upp á nokkrum stöðum í fjórðungnum en aðrir notast einkum við eigin tölvu og eru í beinum samskiptum við skólana. Fræðslumiðstöð Vestfjarða annast skipulag fullorðinsfræðslu og hefur yfir að ráða fjarfundabúnaði á nokkrum stöðum og aðstöðu á Ísafirði sem notuð er til náms og prófa. Lítið er um beina kennslu eða námsaðstoð enda Fræðslumiðstöðin ekki í stakk búin til þess veita hana og afar fátítt að kennarar einstakra háskóla haldi fyrirlestra hjá miðstöðinni.
    Fræðslumiðstöð Vestfjarða fær 9 millj. kr. á fjárlögum þessa árs og lagt er til í frumvarpi til fjárlaga næsta árs að upphæðin verði óbreytt. Til viðbótar þessu fær miðstöðin 10 millj. kr. í ár og næstu tvö ár frá iðnaðarráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Þetta fé er ætlað til þess að efla háskólanám í fjórðungnum. Sjálfsaflafé miðstöðvarinnar er um 9–10 millj. kr. Samtals er hefur Fræðslumiðstöðin haft um 20 millj. kr. til umráða árlega en það verða liðlega 30 millj. kr. með framlagi ráðuneytanna. Þó ber þess að geta að Fræðslumiðstöðin fékk



Prentað upp.

6 millj. kr. árið 2001 og 3 millj. kr. árið 2002 í sérstakar fjárveitingar. En hafa verður í huga að fénu er varið til fullorðinsfræðslu almennt en ekki bara til háskólanáms. Nú starfa tveir starfsmenn í 1,65 stöðugildi við Fræðslumiðstöðina, en líklega bætist við einn starfsmaður á meðan viðbótarframlagsins nýtur við.
    Líta verður til þess að staða Fræðslumiðstöðvarinnar er óviss líkt og annarra símenntunarmiðstöðva á landsbyggðinni. Starfsmenn hafa ekki stöðu sem ríkisstarfsmenn og framlög ríkisins eru ákvörðuð frá ári til árs. Óljóst er hvernig á að þróa háskólanám og byggja upp háskólasetur eða jafnvel háskóla þegar stefnan er ekki mörkuð til lengri tíma.
    Flutningsmenn telja að öll rök hnígi að því að farsælast sé að stjórna uppbyggingu á háskólanámi á Vestfjörðum með sjálfstæðri stofnun með fjárveitingum af fjárlögum eins og aðrir háskólar búa við. Forystumenn skólans munu vinna að uppbyggingu hans og móta námsframboð á þeim forsendum sem gagnast best þeim sem skólanum er einkum ætlað að þjóna.
    Bent er á reynslu af uppbyggingu Háskólans á Akureyri. Í upphafi var lagt til að hafin yrði kennsla á háskólastigi á Akureyri í tilteknum greinum á vegum Háskóla Íslands en frá því var horfið og stofnaður sjálfstæður háskóli fyrir norðan. Eru væntanlega fáir í nokkrum vafa um að það hafi reynst heillaráð og að háskólanám fyrir norðan væri með allt öðrum og lakari hætti nú ef það hefði verið annexía og uppbyggingu þess hefði verið stjórnað af fjarlægum stjórnendum í öðrum landshluta. Miklar framfarir í fjarskiptum á síðasta áratug gera það kleift að hinn nýi háskóli getur átt samstarf við aðra skóla og sótt til þeirra þekkingu og námsframboð. Er gert ráð fyrir að þeir möguleikar verði nýttir sem mest í þágu háskólanáms á Vestfjörðum.
    Rökin fyrir sérstökum háskóla á Vestfjörðum eru enn þau sömu og sett voru fram þegar stofnað var til háskóla á Akureyri. Birgir Ísleifur Gunnarsson, þáverandi menntamálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi um Háskólann á Akureyri á Alþingi 12. desember 1987 og sagði þá m.a.: „Ég gat þess áðan að háskóli á Akureyri hefur verið mikið áhugaefni forystumanna í byggðum norðanlands. Það er mjög skiljanlegt. Ég hygg reyndar að ekkert sé raunhæfara í byggðamálum en að flytja menntun út í byggðir landsins. Mér er það í minni að menntamálaráðherra Svía var hér í heimsókn á sl. sumri og við ræddum um þróun skólamála, ekki síst þróun háskólamála í Svíþjóð. Hann sagði að ríkisstjórnir í Svíþjóð hefðu gert mjög margt til að halda uppi byggðastefnu. Þær hefðu látið mikið fé af hendi rakna í ýmiss konar félagsleg verkefni og til ýmiss konar atvinnufyrirtækja, en í rauninni hefði ekki nein stefna reynst betri en sú þegar Svíar fóru að flytja sitt æðra nám út í hinar dreifðu byggðir.
    Ég tel að sú ákvörðun að setja upp háskóla á Akureyri sé mikilvægur þáttur í byggðastefnu og vænti þess að frumvarpinu, sem hér er flutt, verði vel tekið.“
    Sömu sjónarmið komu síðar fram hjá Ólafi G. Einarssyni, þáverandi menntamálaráðherra 26. febrúar1992 þegar hann mælti fyrir frumvarpi til nýrra laga um Háskólann á Akureyri, en hann sagði þá: „Ég vil einnig minna á að starfsemi Háskólans á Akureyri er mikilvægur þáttur í byggðastefnu, þ.e. fólk í hinum dreifðu byggðum landsins fái aukna möguleika á að notfæra sér þá menningu og þau lífsgæði sem felast í þróttmikilli háskólamenntun og vísindastarfsemi.“
    Mikill áhugi er á háskólanámi á Vestfjörðum, enginn háskóli hefur starfsemi þar, staða byggðar er óvíða erfiðari né íbúafækkun meiri. Það er því ekki eftir neinu að bíða, notum það ráð sem vitað er að dugir vel. Þar sem gert er ráð fyrri stuttum undirbúningstíma verður í upphafi lögð áhersla á að koma af stað námi í almennum greinum. Það gefur möguleika á hagkvæmri rekstrareiningu sem er þýðingarmikið í upphafi starfsrækslu skólans. Í framhaldi af því verði síðan þróaðar sérhæfðari námsbrautir, að einhverju leyti með samstarfssamningum við aðra háskóla um kennslu og útskrift. Flutningsmenn vilja benda sérstaklega á kennaradeild fyrir tónlistarkennara og veiðarfærarannsóknir og þorskeldi sem áhugaverðar námsbrautir sem hinn nýi skóli getur tekið upp á sína arma.
    Eftir sem áður verður þörf fyrir Fræðslumiðstöð Vestfjarða til þess að hafa yfirumsjón með fullorðinsfræðslu í fjórðungnum að öðru leyti en háskólanámi.