Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 330. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 382  —  330. mál.
Tillaga til þingsályktunarum öldrunarstofnanir.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir,


Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Ásta R. Jóhannesdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að skipa nefnd sem geri heildarúttekt á tekjustofnum og greiðslum til einstakra öldrunarstofnana og beri saman við þá þjónustu sem þær veita hver fyrir sig. Einnig fari fram úttekt á störfum þeirra þjónustuhópa sem sveitarstjórnum ber að skipa í hverju heilsugæsluumdæmi skv. 6.–8. gr. laga um málefni aldraðra. Niðurstöður nefndarinnar ásamt tillögum til úrbóta verði lagðar fyrir Alþingi haustið 2004.

Greinargerð.


    Frá og með 1. janúar 2003 átti að taka upp samræmt greiðslukerfi fyrir hjúkrunarheimili aldraðra. Áður höfðu greiðslur til hjúkrunarheimila verið þrenns konar. Sum heimilanna fengu framlög í fjárlögum, önnur fengu fjárveitingar samkvæmt þjónustusamningi og enn önnur fengu daggjöld. Greiðslur til öldrunarheimila fyrir dvalar- og dagvistarrými hafa verið samkvæmt daggjöldum sem birt eru í reglugerð í upphafi hvers árs.
    Nauðsynlegt var orðið að samræma greiðslur til öldrunarstofnana, að greiðslurnar væru í samræmi við t.d. hjúkrunarþyngd á hjúkrunar- eða dvalarheimilum fyrir aldraða. Árlega á að meta heilsufar og aðhlynningarþörf með svokölluðu RAI-mati sem síðar er m.a. notað til að ákveða daggjaldaþörf stofnunar. En einnig þarf að taka tillit til stærðar stofnunar þar sem ljóst er að stærðin skiptir miklu um heildarrekstrarkostnað dvalar- og hjúkrunarheimila.
    Einingar eru oftar en ekki litlar þegar komið er út fyrir höfuðborgarsvæðið auk þess sem kostnaður við ýmsa rekstrarþætti er meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, t.d. hvað varðar alla sjúkraflutninga. Á höfuðborgarsvæðinu koma sjúklingar inn á stofnanirnar eftir langa bið í brýnni þörf og þá sem þungir hjúkrunarsjúklingar og eru þar tíðari skipti á þungum umönnunarsjúklingum á hvert rúm sem hefur aukinn kostnað í för með sér. Við ákvörðun daggjalda þarf því að taka tillit til margra mismunandi þátta.
    Um alla þessa þætti eiga að gilda skýrar reglur, en ekki er síður nauðsynlegt að skýrar reglur séu til um það hvaða þjónustu á að veita á hverri stofnun.
    Í 14. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, er kveðið á um að á dvalarheimilum skuli vera varsla allan sólarhringinn, öryggiskerfi í hverri íbúð og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum og félags- og tómstundastarfi, og aðstaða fyrir hjúkrun, læknishjálp og endurhæfingu. Þjónustan skal byggð á einstaklingsbundnu mati á þörfum hins aldraða og byggjast á hjálp til sjálfshjálpar.
    Í sömu grein er fjallað um hjúkrunarheimili sem ætluð eru þeim sem eru of lasburða til þess að vera á dvalarheimilum, sambýlum eða í sérhönnuðum íbúðum. Þar skal veita hjúkrunar- og læknisþjónustu og vera endurhæfing. Sérstök aðstaða skal vera fyrir aldraða með heilabilunareinkenni. Þjónustuna skal byggja á einstaklingsbundnu mati á heilsufarslegum og félagslegum þörfum hins aldraða.
    Í reglugerð er kveðið á um greiðslur sem öldrunarheimili skuli inna af hendi fyrir þá sem þar dveljast, t.d. fyrir lyf og læknishjálp, endurhæfingu, ýmis hjálpartæki sem heimilismenn þarfnast, sjúkraflutninga og fleira.
    Landlæknir á samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu að hafa faglegt eftirlit með gæðum þeirrar þjónustu sem öldrunarstofnanir veita vistmönnum sínum. Þá er í 6.–8. gr. laga um málefni aldraðra einnig kveðið á um að í hverju heilsugæsluumdæmi skuli starfa þjónustuhópur aldraðra. Sveitarstjórnir skulu samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu skipa fimm fulltrúa í þjónustuhóp og greiða kostnað af störfum hans. Þjónustuhópur aldraðra skal samkvæmt lögum hafa eftirtalin verkefni á starfssvæði sínu:
     1.      Að fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð aldraðra og samhæfa þjónustu.
     2.      Að gera tillögur til sveitarstjórna um öldrunarþjónustu.
     3.      Að leitast við að tryggja að aldraðir fái þá þjónustu sem þeir þarfnast og kynna öldruðum þá kosti sem í boði eru.
     4.      Að meta vistunarþörf aldraðra.
    Af þessari upptalningu má sjá að í lögum er gert ráð fyrir eftirliti með störfum öldrunarheimila og líðan þeirra sem þar dvelja. Engu að síður er það mat flutningsmanna þessarar tillögu að eftirlit sé hvergi nærri nægjanlegt, að verulegur munur sé á þjónustu sambærilegra heimila fyrir aldraða og í einhverjum tilvikum jafnvel um það að ræða að einstaklingar á þessum heimilum fái ekki þá þjónustu sem lögbundin er, t.d. á sviði endurhæfingar, jafnvel að það dragist úr hömlu að þeir fái nauðsynleg hjálpartæki.
    Þá er einnig nauðsynlegt að skoða virkni þeirra þjónustuhópa sem sveitarfélög eiga að skipa til þess að tryggja velferð aldraðra íbúa. En verulegur misbrestur er á því að þjónustuhópar sveitarfélaganna sinni hlutverki sínu.
    Flutningsmenn þessarar tillögu fagna því að reynt er að samræma greiðslur til öldrunarstofnana að teknu tilliti til ástands þeirra sem þar dvelja og reynt að meta rekstrarkostnað. En ekki er síður nauðsynlegt að stuðst sé við skýrar reglur um þá þjónustu sem stofnanir eiga að veita, stórar eða litlar, á höfuðborgarsvæði eða landsbyggð.
    Þá þarf eftirlit einnig að vera virkara en nú er. Því er lagt til að Alþingi feli heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að skipa nefnd sem geri heildarúttekt á tekjustofnum og greiðslum til einstakra öldrunarstofnana og beri saman þjónustu sambærilegra stofnana og hvort þær standast þær kröfur sem settar eru í lögum og reglugerðum. Störf þjónustuhópa sveitarfélaga verði einnig skoðuð. Niðurstöður þessarar úttektar ásamt tillögum til úrbóta skal síðan leggja fyrir Alþingi haustið 2004.