Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 394  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Störf nefndarinnar við afgreiðslu frumvarpsins hafa verið hefðbundin. Nefndin hóf störf 25. september sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.
    Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með bréfi, dags. 8. október sl., óskaði nefndin eftir álitum annarra fastanefnda þingsins um frumvarp til fjárlaga, þ.e. þá þætti er varða málefnasvið einstakra nefnda. Nefndirnar hafa skilað álitum og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu eins og fyrir er mælt í þingsköpum.
    Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 30 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila. Við 2. umræðu er nú fjallað um tekjur, B- og C-hluta og 5. og 6. gr. fjárlagafrumvarpsins sem venjulega hefur verið fjallað um við 3. umræðu.
    Fulltrúar frá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins og horfur í þjóðarbúskapnum. Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjur verði 282.021,3 m.kr. sem er 2,6 milljarða kr. hækkun frá frumvarpinu. Tekjujöfnuður verður 6.770,9 m.kr. sem er aukning um 380,9 m.kr.
    Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust, svo sem skiptingu fjárfestingarliða. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umræðu nema samtals 2.215,4 m.kr. til hækkunar á sundurliðun 2.
    Í nefndarálitinu er fyrst gerð grein fyrir þeim breytingum sem lagt er til að verði gerðar á sundurliðunum frumvarpsins. Síðan er gerð grein fyrir breytingum sem lagt er til að verði gerðar á 5. gr. frumvarpsins, um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir.
    Meiri hlutinn þakkar fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Þá hefur nefndin notið aðstoðar Ríkisendurskoðunar og fjármálaráðuneytis. Einnig hafa einstök ráðuneyti veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.
    Til 3. umræðu bíða ýmis viðfangsefni sem nefndin hefur enn til umfjöllunar.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins

        Lagt er til að fjárheimild æðstu stjórnar ríkisins verði aukin um 73,8 m.kr.
201     Alþingi.
        1.01
Alþingiskostnaður. Lagt er til að 7 m.kr. lækkun vegna almennrar hagræðingar á þessu viðfangsefni sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu falli niður þar sem fjárheimildin er ekki til almenns rekstrar heldur til greiðslu á þingfararkaupi samkvæmt úrskurðum kjaranefndar.
         1.04 Alþjóðasamstarf. Gerð er tillaga um 4,2 m.kr. tímabundið framlag vegna aukaþings Norðurlandaráðs sem haldið verður á Íslandi í febrúar 2004.
        1.06
Almennur rekstur. Lagt er til að 15 m.kr. framlag, sem veitt var tímabundið á fjárlögum fyrir árið 2003 til endurskipulagningar á skjalaskráningu og til að fullnægja auknum kröfum um upplýsinga- og tölvuþjónustu, verði veitt til frambúðar.
             Einnig er lögð til 3,5 m.kr. fjárveiting til að bæta aðstöðu fatlaðra alþingismanna á Alþingi í samræmi við samþykkt forsætisnefndar.
        1.10
Rekstur fasteigna. Lagt er til að veitt verði 1,9 m.kr. framlag til leigu á viðbótarhúsnæði fyrir skrifstofur alþingismanna í Austurstræti 12.
        5.20
Fasteignir. Lagt er til að veitt verði 15 m.kr. tímabundið framlag í eitt ár til að ljúka framkvæmdum við endurbætur og endurnýjun húsbúnaðar á 1. og 2. hæð í Alþingishúsi.
        6.01
Tæki og búnaður. Gerð er tillaga um 18 m.kr. tímabundið framlag í eitt ár til að ljúka endurgerð upplýsingakerfa Alþingis sem hafist var handa við í ár. Jafnframt er gerð tillaga um 2 m.kr. tímabundið framlag til kaupa á fjarfundabúnaði fyrir Alþingi.
620     Ríkisendurskoðun.
        1.01
Ríkisendurskoðun. Gerð er tillaga um 4,7 m.kr. fjárveitingu vegna kostnaðar við rekstur á starfsaðstöðu Ríkisendurskoðunar sem áformað er að setja á fót á Akureyri. Einnig er gerð tillaga um 2,5 m.kr. tímabundið framlag til kaupa á tækjum og búnaði í aðstöðu Ríkisendurskoðunar á Akureyri.

01 Forsætisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild forsætisráðuneytis verði aukin um 41 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.90
Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um 29 m.kr. tímabundið framlag vegna dagskrár og viðburða í tilefni 100 ára afmælis heimastjórnar á Íslandi árið 2004. Um er að ræða heildardagskrá sem samanstendur m.a. af sýningum, útgáfu, hátíðardagskrá og málþingum. Í frumvarpinu er þegar 20 m.kr. framlag vegna afmælisins en samkvæmt nýrri kostnaðaráætlun verða útgjöldin alls 57 m.kr. og er gert ráð fyrir að 8 m.kr. falli á yfirstandandi ár samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2003.
        6.52
Minningarkapella á Ljósavatni. Gerð er tillaga um tímabundið framlag í eitt ár að fjárhæð 5 m.kr. til að fullgera safnaðarheimili og kirkjubekki í Þorgeirskirkju á Ljósavatni.
231     Norræna ráðherranefndin.
        1.01
Norðurlandaskrifstofa forsætisráðuneytis. Lagt er til 7 m.kr. tímabundið framlag í eitt ár til að standa undir auknum ferðakostnaði ráðuneyta vegna formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni árið 2004. Fjárhæðinni verður skipt milli ráðuneyta í hlutfalli við ferðir sem tengjast störfum á vegum nefndarinnar.

02 Menntamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 1.060,5 m.kr.
201     Háskóli Íslands.
        1.02
Rannsóknir og önnur verkefni. Lögð er til 5 m.kr. tímabundin fjárveiting til áframhaldandi næringarfræðilegra rannsókna á kúamjólk og lágu nýgengi af sykursýki 1 hérlendis.
208     Örnefnastofnun Íslands.
        1.01
Örnefnastofnun Íslands. Gerð er tillaga um 1,5 m.kr. tímabundið framlag til að styrkja útgáfu á örnefnamyndum af Íslandi en það er samstarfsverkefni IWW ehf. og Örnefnastofnunar.
319     Framhaldsskólar, almennt.
        1.35
Myndlistarskólinn í Kópavogi. Lögð er til 2 m.kr. hækkun á rekstrarstyrk til skólans.
        1.90
Framhaldsskólar, óskipt. Lagt er til að fjárveiting til reksturs framhaldsskóla aukist um 600 m.kr. Skýringarnar eru tvær. Annars vegar hefur menntamálaráðuneytið endurskoðað spár um nemendafjölda sem benda til nokkurrar fjölgunar frá fyrri spá. Hins vegar er miðað við að hækka framlag á nemanda samkvæmt reiknilíkani. Ráðuneytið áformar að gera samninga við skólana um hámarksframlög og hámarksfjölda ársnemenda sem hverjum skóla verður greitt fyrir þannig að útgjöld framhaldsskólanna á árinu 2004 verði í samræmi við fjárveitingar til skólanna í fjárlögum. Miðað er við að ráðuneytið skipti fjárveitingu á milli skólanna í samræmi við samninga.
902     Þjóðminjasafn Íslands.
        1.10
Byggða- og minjasöfn. Gerð er tillaga um 12 m.kr. tímabundna hækkun á liðnum sem skiptist á þrjú verkefni þannig að 6 m.kr. renna til rannsókna og kynningar á miðaldaverslunarstaðnum Gásum í Hörgárbyggð, 4 m.kr. til fornleifarannsókna við Kolkuós sem var á miðöldum í hópi helstu hafna landsins, m.a. höfn Hólastóls, og 2 m.kr. til að breyta Verslun Haraldar Júlíussonar á Sauðárkróki í deild innan Byggðasafns Skagfirðinga og hafa þar „lifandi sýningu“ og þjónustumiðstöð.
919     Söfn, ýmis framlög.
        1.12
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar. Lögð er til 1 m.kr. hækkun á rekstrarstyrk til safnsins.
        1.41
Galdrasýning á Ströndum. Lögð er til 7 m.kr. tímabundin fjárveiting til að vinna áfram að uppbyggingu galdrasýningar á Ströndum.
        1.90
Söfn, ýmis framlög. Gerð er tillaga um tímabundna hækkun safnliðar um 8,8 m.kr. Sundurliðun er sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
        6.90
Söfn, ýmis stofnkostnaður. Lögð er til tímabundin hækkun safnliðarins um 39,5 m.kr. Sundurliðun er sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
971     Ríkisútvarpið.
        1.10
Ríkisútvarpið, afnotagjöld. Ríkisstjórnin hefur samþykkt 5% hækkun afnotagjalda Ríkisútvarpsins frá 1. janúar 2004. Áætlað er að tekjur af útvarpsgjaldi aukist um 110 m.kr. og hækkar framlag til Ríkisútvarpsins um sömu fjárhæð.
979     Húsafriðunarnefnd.
        6.10
Húsafriðunarsjóður. Lagt er til að liðurinn hækki tímabundið um 88 m.kr. og er framlagið ætlað til eftirfarandi 24 verkefna: 7 m.kr. til að halda áfram endurbyggingu gamla kaupfélagshússins á Breiðdalsvík, 7 m.kr. til að ljúka við endurbætur á Norska húsinu í Stykkishólmi, 7 m.kr. til að ljúka endurbótum á Þingeyrarkirkju í Dýrafirði, 7 m.kr. til áframhaldandi uppbyggingar Duus-húsa í Reykjanesbæ, 7 m.kr. til endurgerðar Bjarmaness, gamla skólans á Skagaströnd, 7 m.kr. til áframhaldandi endurbyggingar Kaupvangs á Vopnafirði, 5 m.kr. til að ljúka framkvæmdum við endurbyggingu Tryggvaskála á Selfossi, 5 m.kr. til endurbóta á húsinu Skjaldborg, Patreksfirði, 4 m.kr. til lagfæringa á Pakkhúsinu í Ólafsvík en endurbygging hússins er langt komin, 4 m.kr. til að greiða kostnað og ljúka endurgerð á gamla félagsheimilinu á Hólmavík, Bragganum, 4 m.kr. til áframhaldandi uppbyggingar Brydebúðar í Vík, 4 m.kr. til varðveislu og endurbyggingar svonefnds Stúkuhúss sem ráðgert er að flytja á safnasvæði byggðasafnsins að Görðum á Akranesi, 3 m.kr. tímabundið framlag til endurbyggingar Gamla spítala, Gudmanns Minde, á Akureyri sem var fyrsta sjúkrahúsið sem þar var reist, 3 m.kr. til að ljúka endurbótum á Syðstabæjarhúsinu í Hrísey þannig að hægt verði að opna hákarlasafn formlega sumarið 2004, 2,2 m.kr. til að gera heildarúttekt á bryggjuhúsunum þremur sem standa á Wathnestorfunni á Seyðisfirði og gera kostnaðaráætlun um verndun og endurbætur, 2 m.kr. til uppbyggingar gufubaðsins og smíðahússins á Laugarvatni, 2 m.kr. til endurbóta á kirkjunni í Flatey á Breiðafirði, 2 m.kr. til að ljúka endurgerð á Pakkhúsinu í Borgarnesi, 1,5 m.kr. til endurnýjunar á húsnæði Hvítasunnukirkjunnar á Vopnafirði, 1 m.kr. til að halda áfram vinnu við endurhleðslu á Hraunsrétt í Aðaldal, 1 m.kr. til þess að endurbyggja gamlar byggingar á Stað í Reykhólasveit, þ.e. fjögur sambyggð hús sem eru skemma, fjárhús, hesthús og hlaða úr torfi og grjóti, 1 m.kr. til að gera við neðra pakkhús í Englendingavík í Borgarnesi, 1 m.kr. til endurbyggingar bakhúss, svokallaðs Eggjaskúrs, við Húsið á Eyrarbakka en þar er m.a. áætlað að hafa náttúrugripasýningu og kynningu á fuglalífi Flóans og 0,3 m.kr. til endurbyggingar á húsinu Kaldalæk í Ólafsvík en húsið stendur í Sjómannagarðinum í Ólafsvík og var byggt 1905 sem sjómannsheimili.
982
     Listir, framlög.
        1.24
Starfsemi atvinnuleikhópa. Lagt er til að framlag til starfsemi atvinnuleikhópa hækki um 2,8 m.kr. og lækkar framlag á liðnum 02-982-1.90 Listir, framlög um sömu fjárhæð.
        1.29
Íslenska tónverkamiðstöðin. Gerð er tillaga um 0,8 m.kr. tímabundið framlag til skönnunar á tónverkasafni miðstöðvarinnar.
        1.80
Listahátíð í Reykjavík. Lagt er til að framlag til Listahátíðar í Reykjavík hækki um 6 m.kr. og verði 34,3 m.kr. á árinu 2004. Stefnt er að samningi við Reykjavíkurborg um að hátíðin verði haldin árlega með 30 m.kr. framlagi ríkisins frá og með árinu 2005.
        1.90
Listir. Tvær breytingar eru lagðar til á þessum lið sem hækkar þannig um 4,2 m.kr. Annars vegar er gerð tillaga um 7 m.kr. til Rannsóknarstofnunar í helgisiðafræðum í Skálholti. Stofnunin fékk 7 m.kr. framlag á sama fjárlagaviðfangsefni í fjárlögum fyrir árið 2003. Hins vegar eru millifærðar af þessum lið 2,8 m.kr. á liðinn 02-982-1.24 til hækkunar á framlagi til starfsemi atvinnuleikhópa.
988
     Æskulýðsmál.
        1.12 Ungmennafélag Íslands. Gerð er tillaga um 15 m.kr. hækkun á framlagi til Ungmennafélagsins. Af fjárhæðinni eru 10 m.kr. til að halda unglingalandsmót árið 2004 en félagið hyggst nú halda slík mót um verslunarmannahelgi á hverju ári. Þá hefur félagið ákveðið að gera átak í útbreiðslu á skák um allt landið í samvinnu við Hrókinn og eru 5 m.kr. ætlaðar í það verkefni.
        1.90
Æskulýðsmál. Lögð er til tímabundin hækkun safnliðar um 3,1 m.kr. og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
989     Ýmis íþróttamál.
        1.10
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Gerð er tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag vegna sumarólympíuleika á árinu 2004.
        1.12
Ólympíunefnd fatlaðra. Gerð er tillaga um 2,5 m.kr. tímabundið framlag vegna Ólympíuleika fatlaðra árið 2004.
        6.52
Skíðasvæðið í Tungudal við Skutulsfjörð. Lagt er til 7 m.kr. tímabundið framlag til framkvæmda á skíðasvæðinu í Tungudal og Seljalandsdal, m.a. til að ljúka byggingu skíðaskálans, til tækjakaupa og til að slétta, móta og grjóthreinsa lyftuspor og skíðaleiðir á svæðinu.
         6.54 Gaddstaðir. Lagt er til að 7 m.kr. verði áfram veittar tímabundið til framkvæmda við uppbyggingu á Gaddstaðaflötum.
        6.56
Skíðamannvirki í Skarðsdal, Siglufirði. Lagt er til 7 m.kr. tímabundið framlag til framkvæmda á skíðasvæðinu í Skarðsdal.
        6.57
Sparkvellir. Lagt er til að Knattspyrnusamband Íslands fái 30 m.kr. tímabundið framlag til að gera sparkvelli víðs vegar um landið.
999     Ýmislegt.
        1.44
Snorrastofa. Gerð er tillaga um 4 m.kr. tímabundið framlag til að hefja vinnu við frágang fornleifa í Reykholti, þ.e. gera deiliskipulag og gera fornminjar sýnilegar, ásamt því að þróa miðlun þekkingar um fornminjarnar til ferðamanna.
        1.90
Ýmis framlög. Lögð er til tímabundin hækkun safnliðar um 25,8 m.kr. Sundurliðun er sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
        6.90
Ýmis stofnkostnaðarframlög. Gerð er tillaga um nýjan safnlið með 61,5 m.kr. tímabundna fjárveitingu. Sundurliðun liðarins er sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
        6.93
Snorrastofa. Lagt er til að 6 m.kr. framlag til stofnkostnaðar Snorrastofu falli niður þar sem samningi um slík framlög er lokið.

03 Utanríkisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild utanríkisráðuneytis verði aukin um 68,3 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.90
Ýmis verkefni. Lagt er til 10 m.kr. tímabundið framlag til að styðja við markaðssetningu dilkakjöts erlendis í samstarfi við þá aðila sem við hana hafa unnið.
390     Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
        1.11
Þróunaraðstoð. Gerð er tillaga um 44,3 m.kr. hækkun á fjárheimild liðarins sem er leiðrétting á launa- og verðlagsreikningi frumvarpsins.
611     Útflutningsráð Íslands.
        1.10
Útflutningsráð Íslands. Gerð er tillaga um 14 m.kr. tímabundið framlag til ráðsins vegna útflutningsátaks á þess vegum í Þýskalandi í samvinnu við íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu.

04 Landbúnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild landbúnaðarráðuneytis verði lækkuð um 29,6 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.31
Skógræktarfélag Íslands. Lagt er til að rekstrarstyrkur félagsins verði hækkaður um 1,5 m.kr.
        1.90
Ýmis verkefni. Lögð er til tímabundin hækkun safnliðarins um 7,3 m.kr. og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
221     Veiðimálastofnun.
        1.01
Veiðimálastofnun. Lögð er til 5 m.kr. hækkun til eflingar á rekstri deilda stofnunarinnar á landsbyggðinni. Jafnframt er gerð tillaga um að stofnunin fái 7 m.kr. tímabundið framlag til að halda áfram rannsóknum á laxi í sjó sem hófust 2003.
233     Yfirdýralæknir.
        1.01
Yfirdýralæknir. Gerð er tillaga um 2 m.kr. fjárveitingu til embættis dýralæknis á Þórshöfn.
271     Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal.
        1.01
Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal. Gerð er tillaga um 15 m.kr. hækkun á framlagi til skólans vegna aukinna umsvifa sem tengjast rannsóknum, kennslu og fiskeldi.
331     Héraðsskógar.
        1.10 Skógræktarátak á Fljótsdalshéraði. Lagt er til að Héraðsskógar fái 8 m.kr. tímabundið framlag til gerðar gagnagrunns í skógrækt sem unnið hefur verið að sl. tvö ár í samvinnu við landshlutaverkefnin fimm og Skógrækt ríkisins. Verkið er nú hálfnað.
818     Búnaðarsjóður.
        1.10
Búnaðarsjóður. Endurskoðuð áætlun um ríkistekjur af hlutdeild Búnaðarsjóðs í búnaðargjaldi á búvöruframleiðslu gerir ráð fyrir að tekjurnar lækki um 26,4 m.kr. og verði 242 m.kr. Búnaðargjald miðast við 2% af verðmæti búvöruframleiðslu sem er áætluð 21 milljarður kr. á árinu 2004. Þar af renna um 0,72% til Lánasjóðs landbúnaðarins og 1,28% til Búnaðarsjóðs. Gert er ráð fyrir um 90% innheimtu af álögðu búnaðargjaldi.
823     Lánasjóður landbúnaðarins.
        6.60
Lánasjóður landbúnaðarins. Endurskoðuð áætlun um ríkistekjur af hlutdeild Lánasjóðs landbúnaðarins í búnaðargjaldi á búvöruframleiðslu gerir ráð fyrir að tekjurnar lækki um 49 m.kr. og verði 136 m.kr. Búnaðargjald miðast við 2% af verðmæti búvöruframleiðslu sem er áætluð 21 milljarður kr. á árinu 2004. Þar af renna um 0,72% til Lánasjóðs landbúnaðarins og 1,28% til Búnaðarsjóðs. Gert er ráð fyrir um 90% innheimtu af álögðu búnaðargjaldi.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegsráðuneytis verði aukin um 32,4 m.kr.
203     Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
        1.01
Almenn starfsemi. Unnið hefur verið að endurskipulagningu Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins vegna viðvarandi rekstrarerfiðleika stofnunarinnar. Stefnt er að því að hætta þjónustumælingum sem eru í samkeppni við einkaaðila og hafa farið fram í útibúunum á Ísafirði, Akureyri og í Vestmannaeyjum og draga mjög úr þeim í Reykjavík. Þess í stað verða vísindarannsóknir í útibúunum efldar. Gerð er tillaga um 32,4 m.kr. hækkun til að koma þessum breytingum á. Þar af verður 26 m.kr. varið til að efla varanleg störf við vísindarannsóknir í útibúunum og 6,4 m.kr. til að greiða tímabundinn kostnað við breytingarnar.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild dóms- og kirkjumálaráðuneytis verði lækkuð um 125,1 m.kr.
111     Kosningar.
        1.10
Kosningar. Lagt er til 26 m.kr. tímabundið framlag á næsta ári vegna forsetakosninga. Við undirbúning frumvarpsins var ákveðið að gera ekki ráð fyrir slíkum útgjöldum og að óskað yrði eftir fjárveitingu til þessa liðar ef til kæmi í fjáraukalögum ársins. Eftir frekari athugun þykir rétt að gera ráð fyrir þessum útgjöldum í fjárlögum fyrir árið 2004. Fjárhæðin tekur mið af útgjöldum við kosningarnar 1996 uppfærðum til verðlags fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2004.
190     Ýmis verkefni.
        
Ríkisstjórnin tók ákvörðun um tilflutning verkefna milli ráðuneyta og færast umferðarmál og umferðaröryggismál frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Málefni sem hafa verið í umsjá samgönguráðuneytis og tengjast leit og björgun flytjast þaðan til dómsmálaráðuneytis. Næstu fjórar breytingar eru liður í tilflutningi þessara verkefna.
        1.10
Fastanefndir. Lagt er til að 4,8 m.kr. framlag til rannsóknarnefndar umferðarslysa flytjist frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis þar sem nefndin flyst þangað.
        1.25
Tilkynningaskylda íslenskra skipa. Lagt er til að 36,1 m.kr. framlag til tilkynningarskyldu íslenskra skipa flytjist til dómsmálaráðuneytis þar sem verkefnið er flutt frá samgönguráðuneyti.
        1.26
Almannavarna- og björgunarskóli á Gufuskálum. Lagt er til að 12,2 m.kr. framlag til almannavarna- og björgunarskóla á Gufuskálum flytjist frá samgönguráðuneyti til dómsmálaráðuneytis.
        1.27
Slysavarnafélagið Landsbjörg. Lagt er til að 50,3 m.kr. framlag til Slysavarnafélagsins Landsbjargar flytjist til dómsmálaráðuneytis þar sem verkefnið er flutt frá samgönguráðuneyti.
             Jafnframt er gerð tillaga um 20 m.kr. tímabundna fjárveitingu til að stækka og efla björgunarbátaflota félagsins.
        1.82
Biblíuþýðingar. Lagt er til að Hið íslenska biblíufélag fái 3 m.kr. tímabundið framlag til vinnu við heildarendurskoðun Biblíutextans frá 1912. Þýðingu Gamla testamentisins verður lokið á þessu ári en eftir er að þýða um helming Nýja testamentisins.
210     Héraðsdómstólar.
        1.01
Héraðsdómstólar og 6.01 Tæki og búnaður. Lagt er til að 12,3 m.kr. fjárveiting verði millifærð af stofnkostnaðarviðfangsefni yfir á rekstrarviðfangsefni héraðsdómstóla. Dómstólarnir hafa átt við rekstrarvanda að stríða undanfarin ár en stofnkostnaður vegna tækja og búnaðar hefur hins vegar verið verulega lægri en gert hefur verið ráð fyrir í fjárlögum. Við 3. umræðu um fjárlagagafrumvarp fyrir árið 1999 var samþykkt tillaga meiri hluta fjárlaganefndar um 12 m.kr. stofnkostnaðarframlag á viðfangsefninu 6.10 Tæki og búnaður vegna tölvubúnaðar héraðsdómstóla og upplýsingakerfis. Safnast hefur upp verulegur afgangur stofnkostnaðarheimilda og í tillögu við 2. umræðu um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2003 var lagt til á sama hátt að þær yrðu fluttar á rekstrarviðfangsefni til að mæta að mestu uppsöfnuðum rekstrarhalla síðustu ára.
303     Ríkislögreglustjóri.
        1.01
Ríkislögreglustjóri. Gert er ráð fyrir 15 m.kr. tímabundnu framlagi til að fjölga störfum lögreglumanna við efnahagsbrotadeild embættisins. Málum deildarinnar fjölgar stöðugt, svo sem vegna meintra samkeppnislagabrota, peningaþvættis, fíkniefnabrota og annarra umfangsmikilla sakamála sem mikilvægt er að ekki dragist á langinn að rannsaka. Gerð var tillaga um sambærilega hækkun fjárveitingar til embættisins við 2. umræðu um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2003.
333     Umferðarstofa.
        1.01
Umferðarstofa. Lagt er til að niður falli 300,9 m.kr. framlag til reksturs Umferðarstofu þar sem stofnunin flyst frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Ríkisstjórnin tók ákvörðun um flutning verkefna milli ráðuneyta og færast umferðarmál og umferðaröryggismál frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Málefni sem hafa verið í umsjá samgönguráðuneytis og tengjast leit og björgun flytjast þaðan til dómsmálaráðuneytis. Breytingin er liður í tilflutningi þessara verkefna.
             Jafnframt er lagt til að millifært verði 72,5 m.kr. framlag frá Umferðarstofu til tölvumiðstöðvar dómsmálaráðuneytisins á safnlið hjá því ráðuneyti en tölvumiðstöðin er aðskilin frá fjárhag Umferðarstofu sökum framangreinds flutnings verkefna milli ráðuneyta.
        6.01 Tæki og búnaður. Lagt er til að niður falli 4,5 m.kr. framlag til tækjakaupa Umferðarstofu þar sem stofnunin flytur frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis í samræmi við fyrrgreinda ákvörðun ríkisstjórnarinnar um tilflutning verkefna milli ráðuneyta.
390     Ýmis löggæslu- og öryggismál.
        1.10
Ýmis löggæslukostnaður. Gerð er tillaga um 8 m.kr. hækkun á framlagi til vopnaleitar. Í fjárlögum fyrir árið 2002 var veitt 12 m.kr. framlag til vopnaleitar vegna millilandaflugs frá innanlandsflugvöllum en þetta eftirlit er afleiðing hryðjuverkanna í Bandaríkjunum og aukinnar spennu á alþjóðavettvangi í kjölfar þeirra. Hækkun nú stafar af auknu eftirliti á Reykjavíkurflugvelli en þó aðallega á Akureyri vegna áætlunarflugs milli Akureyrar og Kaupmannahafnar. Áhrif stórframkvæmda á Austurlandi á flug um Egilsstaðaflugvöll eru ekki enn þá ljós. Vopnaleitargjald sem rennur í ríkissjóð hækkar sem fjölgun farþega nemur. Samsvarandi tillögu er að finna í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár.
413     Sýslumaðurinn í Borgarnesi.
        1.40
Tollgæsla. Lögð er til 6 m.kr. hækkun á liðnum til að stofna stöðu tollgæslumanns við Grundartangahöfn.
432     Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum.
        1.20
Löggæsla. Lögð er til 2 m.kr. tímabundin fjárveiting til fíkniefnavarna í Vestmannaeyjum.
490     Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannsembætta.
        1.63
Tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytisins. Lagt er til að millifæra 72,5 m.kr. framlag til tölvumiðstöðvar dómsmálaráðuneytisins frá Umferðarstofu á safnlið hjá dómsmálaráðuneyti. Ríkisstjórnin tók ákvörðun um flutning verkefna milli ráðuneyta og færist Umferðarstofa til samgönguráðuneytis. Af þeim sökum er tölvumiðstöðin aðskilin frá fjárhag Umferðarstofu.
701     Þjóðkirkjan.
        1.16
Langamýri í Skagafirði. Lagt er til að rekstrarstyrkur fyrir Löngumýri í Skagafirði verði hækkaður um 0,5 m.kr.
        6.28
Þingeyraklausturskirkja. Lagt er til að sóknarnefnd Þingeyraklausturskirkju fái 6 m.kr. tímabundið framlag til byggingar aðstöðuhúss við kirkjuna.

07 Félagsmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði aukin um 432,5 m.kr.
701     Málefni fatlaðra, Reykjavík.
        1.01
Almennur rekstur. Gerð er tillaga um að styrkur til hjóna til að annast alvarlega veik börn sín verði hækkaður tímabundið um 2 m.kr. en í frumvarpinu er gert ráð fyrir 1 m.kr. framlagi.
703     Málefni fatlaðra, Vesturlandi.
        1.30
Dagvist og verndaðir vinnustaðir. Gerð er tillaga um 2,5 m.kr. fjárveitingu til Fjöliðjunnar á Akranesi.
750     Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
        1.01
Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Lögð er til 5 m.kr. viðbótarfjárheimild til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins til að stytta biðtíma barna á grunnskólaaldri sem talin eru vera með þroskahömlun eða einhverfurófsröskun. Tilvísunum barna til stofnunarinnar hefur fjölgað ár frá ári og biðtími barna á grunnskólaaldri er nú um tvö ár.
984     Atvinnuleysistryggingasjóður.
        1.11
Atvinnuleysisbætur. Lagt er til að framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs hækki um 106 m.kr. frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu í ljósi endurmats á kostnaði við hvert atvinnuleysisstig sem er áætlaður 1.130 m.kr. Forsendur fjárlagafrumvarps eru að öðru leyti óbreyttar og áfram er gert ráð fyrir 2,5% atvinnuleysi á árinu 2004 en í greinargerð fjárlagafrumvarps hefur misritast að atvinnuleysi sé talið munu verða 2% að meðaltali á næsta ári.
989     Fæðingarorlof.
        1.11
Fæðingarorlofssjóður. Lagt er til að framlag til Fæðingarorlofssjóðs hækki um 280 m.kr. frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Útgjöld hafa verið endurskoðuð í ljósi þróunar það sem af er þessu ári.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi.
        1.30
Sjómannastofur. Gerð er tillaga um 4 m.kr. hækkun fjárveitinga til sjómannastofa.
        1.31
Félagasamtök, styrkir. Lagt er til 15 m.kr. tímabundið framlag á ári í þrjú ár til að styrkja starfsemi Sjónarhóls, þjónustumiðstöðvar fyrir fjölskyldur barna með sérþarfir.
        1.34
Geysir, vinnumiðlun fyrir geðfatlaða. Lögð er til 4 m.kr. hækkun á fjárveitingu til klúbbsins Geysis sem vinnur uppbyggingarstarf í þágu geðsjúkra. Fyrirhugað er að fjölga stöðugildum til að sinna markmiðum klúbbsins þar sem starfsemin hefur aukist vegna fjölgunar félagsmanna.
        1.36
Félagið Geðhjálp. Gerð er tillaga um 7 m.kr. hækkun á framlagi til Geðhjálpar til þess að efla rekstur félagins.
        1.48
Nýbúamiðstöð á Vestfjörðum. Lögð er til 2 m.kr. tímabundin fjárveiting til fjölmenningarsetursins á Ísafirði.
        1.90
Ýmis framlög. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til verkefna í málefnum fatlaðra.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 361,7 m.kr.
203     Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
        1.31
Endurhæfingarlífeyrir. Lögð er til 72 m.kr. hækkun á framlagi til endurhæfingarlífeyris vegna fjölgunar bótaþega. Samkomulag ríkisstjórnar og eldri borgara frá október 2002 um hækkun lífeyristrygginga hefur einnig áhrif á tekjutryggingarlið endurhæfingarlífeyris. Upphaflegt kostnaðarmat var byggt á fjölda bótaþega í október 2002.
206     Sjúkratryggingar.
        1.11
Lækniskostnaður. Lagt er til að millifærðar verði 2,3 m.kr. til Læknavaktar ehf. vegna gjaldskrárverka sem greidd hafa verið af Tryggingastofnun. Stefnt er að nýjum samningi um vaktþjónustu þar sem greiðslur fyrir gjaldskrárverk verða innifaldar í samningsupphæð.
        1.15
Lyf. Gerð er tillaga um 238 m.kr. hækkun á framlagi til lyfja á árinu 2004 í samræmi við endurskoðaða áætlun Tryggingastofnunar um útgjöld vegna lyfja í lok október. Samkvæmt henni er ljóst að lyfjaútgjöld stefna í rúmlega 5,9 milljarða kr. á árinu 2003 sem er tæpum 340 m.kr. umfram fjárlög fyrir árið 2003 en gert hefur verið ráð fyrir viðbótarframlagi í fjáraukalagafrumvarpi. Í ljósi þessa hefur áætlun um lyfjaútgjöld ársins 2004 verið endurskoðuð og er gert ráð fyrir 6.160 m.kr. að teknu tilliti til 450 m.kr. hagræðingarkröfu eins og forsendur frumvarpsins gera ráð fyrir.
305     Lýðheilsustöð.
        1.01
Lýðheilsustöð. Lögð er til 5,7 m.kr. hækkun á framlagi til tóbaksvarna en samkvæmt lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, skal framlagið vera a.m.k. 0,9% af brúttósölu tóbaks. Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR í september sl. er áætluð brúttósala tóbaks 6.789,5 m.kr. með virðisaukaskatti á árinu 2004 og lögbundið framlag er því áætlað 61,1 m.kr., en á fjárlögum þessa árs er framlagið 55,4 m.kr. og þarf að hækka um 5,7 m.kr. í samræmi við nýja áætlun. Í breytingartillögum við fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2003 er gerð tillaga um 11,8 m.kr. til leiðréttingar á framlögum síðustu þriggja ára.
        1.90
Forvarnasjóður. Gerð er tillaga um 10 m.kr. tímabundið framlag til samstarfsráðs um forvarnir.
340     Málefni fatlaðra.
        6.90
Styrkir til ýmissa framkvæmda. Lögð er til 4 m.kr. hækkun framlags svo að unnt verði að styrkja áfram kaup á tölvum og öðrum hjálpartækjum fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta. Á árinu 2004 átti að falla niður tímabundið framlag til þriggja ára til kaupa á tölvum (tölvutextasímum) fyrir heyrnarlausa en ákveðið var að halda styrkjunum áfram. Vegna mistaka féll tillaga um varanlegt framlag til styrkjanna niður og er því lagt til að það verði leiðrétt.
373     Landspítali – háskólasjúkrahús.
        1.01
Landspítali – háskólasjúkrahús. Lagt er til að 21 m.kr. verði millifærð frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi til Heilsugæslunnar í Reykjavík þar sem ákveðið hefur verið að hreyfanlegt fagteymi fyrir alvarlega geðsjúka einstaklinga fái aðstöðu þar. Í fjárlögum fyrir árið 2003 er 10 m.kr. framlag til að koma á fót hreyfanlegu fagteymi tveggja hjúkrunarfræðinga og tveggja annarra starfsmanna, auk geðlæknisvaktar til að fylgja eftir sjúkrahúsmeðferð alvarlega geðsjúkra einstaklinga á heimilum þeirra í samráði við Geðhjálp. Í frumvarpinu er lagt til að veittar verði 11 m.kr. til teymisins eða alls 21 m.kr. miðað við heilt ár. Var gert ráð fyrir að Landspítali – háskólasjúkrahús hefði þetta nýja verkefni með höndum. Ákveðið hefur verið að fela verkefnið Heilsugæslunni í Reykjavík í samráði við hjúkrunarstjórnendur geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss og er því lagt til að fjárveitingin verði flutt.
        5.60 Viðhald, 6.01 Tæki og búnaður og 6.70 Nýframkvæmdir. Lagt er til að samtals 100 m.kr. verði færðar á milli viðfanga hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Annars vegar verði færðar 70 m.kr. af viðfanginu 5.60 Viðhald og hins vegar 30 m.kr. af viðfanginu 6.01 Tæki og búnaður yfir á viðfangið 6.70 Nýframkvæmdir. Áformað er að reisa sérhæfða byggingu fyrir nýtt segulómtæki og tæknirými fyrir G-álmu auk þess að bæta aðstöðu röntgendeildar fyrir slysa- og bráðamóttöku. Stærð viðbyggingarinnar verður um 220 m² að grunnfleti á þremur hæðum, samtals 660 m². Heildarkostnaður við bygginguna er áætlaður um 140 m.kr. Kaup á segulómtæki hafa verið boðin út og er við það miðað að tækið verði sett upp í maí 2004.
381     Sjúkrahús og læknisbústaðir.
        6.90
Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða. Lögð er til tímabundin 5 m.kr. hækkun safnliðar en sundurliðun hans er sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
399     Heilbrigðismál, ýmis starfsemi.
        1.35
Hjartavernd, rannsóknarstöð. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til rannsóknarstöðvar Hjartaverndar til að halda áfram skráningu kransæðastíflutilfella og rannsóknum á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi.
        1.90
Ýmis framlög. Lögð er til tímabundin hækkun safnliðar um 9 m.kr. og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
        1.98
Ýmis framlög heilbrigðis- og tryggingaráðuneytis. Lagt er til að veitt verði 10 m.kr. framlag til Geðræktar. Verkefnið var í upphafi ætlað til þriggja ára frá október 2000 til jafnlengdar árið 2003. Ákveðið hefur verið að landlæknisembættið, Heilsugæslan og geðsvið Landspítalans endurnýi samning um Geðrækt og er því gert ráð fyrir áframhaldi verkefnisins. Í fjárlögum fyrir árið 2003 er gert ráð fyrir 5,5 m.kr. undir þessum fjárlagalið til Geðræktar.
492     Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands.
        6.21
Stofnkostnaðarstyrkur til heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands. Lagt er til að Náttúrulækningafélag Íslands fái 3 m.kr. tímabundna fjárveitingu til kaupa á lækningatækjum og öðrum búnaði í bað- og meðferðarhús heilsustofnunarinnar.
500     Heilsugæslustöðvar, almennt.
        1.10
Heilsugæslustöðvar, almennt. Lagt er til að 6,4 m.kr. verði millifærðar til Læknavaktarinnar ehf., annars vegar vegna launabóta og hins vegar til að hækka rekstrargrunn Læknavaktarinnar í nýjum samningi en að því er stefnt að hann taki gildi í upphafi árs 2004.
505     Heilsugæsla í Reykjavík.
        1.01
Heilsugæsla í Reykjavík. Lagt er til að 21 m.kr. verði millifærð frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi til Heilsugæslunnar í Reykjavík þar sem ákveðið hefur verið að hreyfanlegt fagteymi fyrir alvarlega geðsjúka einstaklinga hafi þar aðstöðu. Í fjárlögum fyrir árið 2003 er 10 m.kr. framlag til að koma á fót hreyfanlegu fagteymi tveggja hjúkrunarfræðinga og tveggja annarra starfsmanna, auk geðlæknisvaktar til að fylgja eftir sjúkrahúsmeðferð alvarlega geðsjúkra einstaklinga á heimilum þeirra í samráði við Geðhjálp. Í frumvarpinu er lagt til að veittar verði 11 m.kr. til teymisins eða alls 21 m.kr. miðað við heilt ár. Var gert ráð fyrir að Landspítali – háskólasjúkrahús hefði þetta nýja verkefni með höndum. Ákveðið hefur verið að fela Heilsugæslunni í Reykjavík framkvæmd þessa verkefnis, þó í samráði við hjúkrunarstjórnendur geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss, og er því lagt til að fjárveitingin verði flutt á þann lið.
517     Læknavaktin.
        1.01
Læknavaktin. Gert er ráð fyrir að sértekjur og önnur gjöld Læknavaktarinnar hækki um 29,7 m.kr. vegna aukins umfangs þjónustu í nýjum samningi sem áformað er að taki gildi í byrjun næsta árs. Nýr samningur gerir ráð fyrir 44.000 móttökum og 7.000 vitjunum, en eldri samningur gerði ráð fyrir 17.000 móttökum og 9.000 vitjunum.
             Lagt er til að 6,4 m.kr. verði millifærðar af liðnum 08-500 Heilsugæslustöðvar, almennt, annars vegar vegna launabóta og hins vegar til að hækka rekstrargrunn Læknavaktarinnar í framangreindum nýjum samningi. Jafnframt er lagt til að millifærðar verði 2,3 m.kr. af lækniskostnaðarlið sjúkratrygginga vegna gjaldskrárverka sem greidd hafa verið af Tryggingastofnun. Í nýjum samningi um vaktþjónustu verða greiðslur fyrir gjaldskrárverk innifaldar í samningsupphæð.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 220 m.kr.
989     Launa- og verðlagsmál.
        1.90
Launa- og verðlagsmál. Gerð er tillaga um 220 m.kr. viðbótarfjárheimild á þessum lið vegna leiðréttingar á kostnaðarmati á úrskurðum kjaranefndar árið 2002 um vottorð og gjaldskrárverk heilsugæslulækna. Gert var ráð fyrir þessum kostnaði heilsugæslustöðva í frumvarpinu en í ljós kom að villa var í talnaefni sem lagt var til grundvallar við breytingar á launafjárveitingum stöðvanna. Kostnaðurinn snýr í fyrsta lagi að því að samkvæmt úrskurðum kjaranefndar telst útgáfa vottorða vera hluti af aðalstarfi lækna og fá heilsugæslustöðvar nú tekjur af gjöldum sem þær innheimta af sjúklingum fyrir vottorðin en þurfa jafnframt að greiða læknum laun samkvæmt gjaldskrá fyrir vottorðin þegar þau eru gefin út utan dagvinnutíma og læknir er ekki á yfirvinnulaunum. Áætlað er að sértekjur stöðvanna hækki vegna þessa um 87 m.kr. á ársgrundvelli en að launagreiðslur aukist um 135 m.kr. Áður innheimtu læknar vottorðsgjöldin að jafnaði beint frá sjúklingum þannig að þau voru ekki færð í bókhald stöðvanna. Í annan stað greiða stöðvarnar heimilislæknum nú fyrir tilgreind læknisverk samkvæmt gjaldskrá þegar þau eru unnin utan vanalegs dagvinnutíma og læknir fær ekki greidd yfirvinnulaun. Áður voru slík gjaldskrárverk greidd af Tryggingastofnun ríkisins. Við þá breytingu er gert ráð fyrir að launagreiðslur heilsugæslustöðvanna aukist um rúmlega 230 m.kr. á ári. Í forsendum frumvarpsins hefur verið gert ráð fyrir hluta kostnaðarins.

10 Samgönguráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytis verði aukin um 292 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um tilflutning verkefna milli ráðuneyta og færast umferðarmál og umferðaröryggismál frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Málefni sem hafa verið í umsjá samgönguráðuneytis og tengjast leit og björgun flytjast þaðan til dómsmálaráðuneytis. Eftirfarandi breytingar eru liður í tilflutningi þessara verkefna.
        1.11
Fastanefndir. Lagt er til að 4,8 m.kr. framlag til rannsóknarnefndar umferðarslysa flytjist frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis þar sem verkefni nefndarinnar flyst milli ráðuneytanna.
        1.24
Tilkynningarskylda íslenskra skipa. Lagt er til að 36,1 m.kr. framlag til tilkynningarskyldu íslenskra skipa falli niður þar sem verkefnið er flutt frá samgönguráðuneyti til dómsmálaráðuneytis.
        1.29
Almannavarna- og björgunarskóli á Gufuskálum. Lagt er til að 12,2 m.kr. framlag til Almannavarna- og björgunarskólans á Gufuskálum falli niður þar sem verkefnið er flutt frá samgönguráðuneyti til dómsmálaráðuneytis.
        1.32
Slysavarnafélagið Landsbjörg. Lagt er til að 50,3 m.kr. framlag til Slysavarnafélagsins Landsbjargar falli niður þar sem verkefnið er flutt frá samgönguráðuneyti til dómsmálaráðuneytis.
211     Rekstur Vegagerðarinnar.
        Í samræmi við samgönguáætlun er lagt til að framlög til reksturs Vegagerðarinnar hækki samtals um 688,3 m.kr. á móti 627,9 m.kr. lækkun á framkvæmdalið stofnunarinnar. Nettóhækkun á fjárheimild til Vegagerðarinnar er því 60,4 m.kr.
        1.01
Yfirstjórn. Gerð er tillaga um 50,5 m.kr. hækkun á fjárheimild til yfirstjórnar stofnunarinnar.
        1.07
Þjónusta. Lögð er til 511,7 m.kr. hækkun á fjárheimild til þjónustuviðfangs stofnunarinnar.
        1.11
Styrkir til ferja og sérleyfishafa. Lögð er til 132,1 m.kr. hækkun á fjárheimild til styrkja til ferja og sérleyfishafa. Þá er lögð til 6 m.kr. lækkun á framlagi þar sem afborganir af ferjulánum sem ríkissjóður greiðir af eru að hækka. Í frumvarpinu var gerð tillaga um 31 m.kr. lækkun á viðfangsefninu vegna afborgana á verðlagi 2003. Áætlað er að afborganir af ferjulánum verði 327 m.kr. á árinu 2004.
212     Framkvæmdir Vegagerðarinnar.
        5.10
Viðhald. Gerð er tillaga um 222,1 m.kr. hækkun á fjárheimild til viðhaldsverkefna stofnunarinnar.
        6.10
Framkvæmdir. Lögð er til 850 m.kr. lækkun á framkvæmdum til stofnunarinnar. Á móti hækka útgjöld á öðrum viðfangsefnum, aðallega til þjónustu, til samræmis við samgönguáætlun. Samtals er lagt til að framlög til reksturs hækki um 688,3 m.kr. og til viðhalds um 222,1 m.kr. Nettóhækkun á fjárheimild til Vegagerðarinnar er því 60,4 m.kr
251     Umferðarstofa.
        1.01
Umferðarstofa. Lagt er til að 300,9 m.kr. framlag til reksturs Umferðarstofu verði fært hjá samgönguráðuneyti þar sem stofnunin flyst frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Ríkisstjórnin tók ákvörðun um flutning verkefna milli ráðuneyta og færast umferðarmál og umferðaröryggismál frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Málefni sem hafa verið í umsjón samgönguráðuneytis og tengjast leit og björgun flytjast þaðan til dómsmálaráðuneytis. Breytingin er liður í tilflutningi þessara verkefna.
             Þá er lagt til að útgjöld stofnunarinnar hækki um 30 m.kr. á móti jafnháum sértekjum. Við flutning stofnunarinnar til samgönguráðuneytis verður tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytis skilin frá Umferðarstofu. Stofnunin mun hins vegar áfram sinna verkefnum tölvumiðstöðvar tímabundið og því er gert ráð fyrir að hún hafi sértekjur af sölu þjónustunnar til dómsmálaráðuneytis.
        6.01
Tæki og búnaður. Lagt er til að 4,5 m.kr. framlag til tækjakaupa Umferðarstofu verði flutt frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Það er í samræmi við framangreindan flutning verkefna milli ráðuneytanna.
335     Siglingastofnun Íslands.
        1.01
Yfirstjórn. Gerð er tillaga um 20 m.kr. framlag til verkefnis um líkantilraunir og grunnkort. Samkvæmt samgönguáætlun er verkefnið fært úr stofnkostnaði í rekstur. Það var gert að ábendingu Ríkisendurskoðunar um að rannsóknir Siglingastofnunar ættu að færast undir rekstrargjöld en ekki stofnkostnað. Við frágang frumvarpsins var stofnkostnaður lækkaður en það láðist að auka rekstrargöld á móti. Sams konar tillaga hefur verið lögð fram við frumvarp til fjáraukalaga 2003.

11 Iðnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytis verði aukin um 18 m.kr.
299     Iðja og iðnaður, framlög.
        1.30
Alþjóðlegt samstarf. Gerð er tillaga um 3 m.kr. tímabundið framlag í tvö ár til þátttöku Íslands, ásamt öðrum Norðurlandaþjóðum, í að gera Eystrasaltssvæðin að tilraunasvæði fyrir sveigjanleikaákvæði Kyoto-bókunarinnar.
301     Orkustofnun.
        1.02
Orkumálasvið. Lagt er til að millifærðar verði 107,9 m.kr. af þessu viðfangsefni, sem hverfur úr fjárlögum, á viðfangsefni 1.03 Orkurannsóknir. Er tillagan í samræmi við ný lög um stofnunina.
        1.03
Orkurannsóknir. Lagt er til að á þennan lið verði millifærðar 107,9 m.kr. af viðfangsefni 1.02 Orkumálasvið, sem hverfur úr fjárlögum. Er það í samræmi við ný lög um stofnunina.
             Einnig er lagt til að millifærð verði 50 m.kr. fjárheimild frá Orkusjóði. Samkvæmt lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003, er hlutverki Orkusjóðs breytt í að vera sjóður sem veitir styrki eða áhættulán til sérstakra verkefna og hefur hann ekki lengur með fjármögnun virkjanarannsókna að gera. Framlag í C-hluta fjárlaga lækkar einnig sem nemur 50 m.kr.
         1.04 Vatnamælingar. Samkvæmt lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun, skal starfsemi Vatnamælinga vera sjálfstæð eining og fjárhagslega aðgreind frá annarri starfsemi stofnunarinnar.
371     Orkusjóður.
        6.11
Virkjanarannsóknir. Lagt er til að millifærð verði 50 m.kr. fjárheimild á Orkustofnun. Samkvæmt lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003, er hlutverki Orkusjóðs breytt í að vera sjóður sem veitir styrki eða áhættulán til sérstakra verkefna og hefur hann ekki lengur með fjármögnun virkjanarannsókna að gera. Framlag í C-hluta fjárlaga lækkar einnig um 50 m.kr.
411     Byggðastofnun.
        1.11
Atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni. Lögð er til 15 m.kr. hækkun á framlagi til atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni.

12 Viðskiptaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild viðskiptaráðuneytis verði lækkuð um 8,3 m.kr.
402     Fjármálaeftirlitið.
        1.01
Fjármálaeftirlitið. Lagt er til að fjárheimild stofnunarinnar lækki um 8,3 m.kr. Stofnunin lagði fram fjárlagatillögur sínar á verðlagi næsta árs í stað þessa árs en í fjárlagafrumvarpinu voru jafnframt færðar launa- og verðlagshækkanir á fjárlagaliðinn. Þær hækkanir voru því tvítaldar.

13 Hagstofa Íslands

        Lagt er til að fjárheimild Hagstofu Íslands verði aukin um 28 m.kr.
101     Hagstofa Íslands, aðalskrifstofa.
        1.01
Yfirstjórn. Lagt er til að framlag til Hagstofu Íslands hækki um 28 m.kr. til að bæta að fullu tekjutap stofnunarinnar við flutning fyrirtækjaskrár til ríkisskattstjóra. Við færslu á verkefninu á milli aðila í fjárlagafrumvarpinu láðist að taka tillit til hluta af þeim tekjum sem stofnunin verður af og er lagt til að úr því verði bætt. Með tillögunni verður komið í veg fyrir að fjárhagsstaða stofnunarinnar versni við það að fyrirtækjaskrá flyst af verkefnasviði hennar.

14 Umhverfisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði lækkuð um 249,8 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.23
Ýmis umhverfisverkefni. Lagt er til að veitt verði tímabundið framlag að fjárhæð 4,5 m.kr. vegna aðalfundar OSPAR sem verður haldinn á Íslandi á árinu 2004. Samningurinn er um varnir gegn mengun sjávar og verndun Norður-Atlantshafsins og eru aðildarríki hans 14 talsins. Markmiðið með honum er að draga úr losun mengandi efna í hafið.
        1.40
Alþjóðastofnanir. Lögð er til 6 m.kr. fjárveiting vegna aukinna framlaga til alþjóðastofnana. Þar af eru 3,5 m.kr. vegna tveggja alþjóðasamninga, Stokkhólmssamningsins um þrávirk lífræn efni og Kyoto-bókunarinnar við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. 1,5 m.kr. eru vegna hækkunar á framlagi til Montreal-sjóðsins og 1 m.kr. til alþjóðlegrar framkvæmdaáætlunar um mengun sjávar frá landi (GPA).
        1.90
Ýmis verkefni. Lagt er til að Reykhólahreppur fái 3 m.kr. tímabundið framlag til að fjarlægja gamalt frystihús í Flatey á Breiðafirði og bora eftir vatni og lagfæra brunavarnir.
211     Umhverfisstofnun.
        1.01
Umhverfisstofnun. Lagt er til að veita 10 m.kr. tímabundið framlag til Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls vegna ýmissa verkefna, svo sem upplýsingaskilta, deiliskipulags á nokkrum stöðum og stíga, fræðslubæklinga fyrir börn og bæklinga á blindraletri, undirbúnings þjóðgarðsmiðstöðvar við Hellissand, lagfæringa á slysavarnaskýli í Dritvík og uppsetningar sýningar um björgunarstörf og björgunarsveitir.
287     Úrvinnslusjóður.
        1.01
Almennur rekstur. Lögð er til 18 m.kr. lækkun útgjalda til reksturs Úrvinnslusjóðs. Ný áætlun gerir ráð fyrir að rekstrarkostnaður ársins verði 55 m.kr. en við gerð frumvarpsins var hann áætlaður 73 m.kr.
        1.10
Úrvinnslusjóður. Lögð er til 297 m.kr. lækkun útgjalda Úrvinnslusjóðs. Ný áætlun gerir ráð fyrir að í ár verði kostnaður sjóðsins við úrvinnslu 660 m.kr. en við gerð frumvarpsins var kostnaðurinn áætlaður 957 m.kr.
403     Náttúrustofur.
        1.10
Náttúrustofa Neskaupstað. Lagt er til að Náttúrustofa Austurlands fái 5 m.kr. tímabundið fjárframlag til áframhaldandi rannsókna og vöktunar á hreindýrastofninum sem stofnunin annast lögum samkvæmt.
         1.11 Náttúrustofa Vestmannaeyjum. Lagt er til að Náttúrustofa Suðurlands fái 5 m.kr. tímabundið framlag til ýmissa verkefna, svo sem rannsókna á glerinnlyksum í kristöllum, rannsókna á framandsteinum í Sæfelli, athugunar á stofnun þjóðgarðs í friðlandi að Fjallabaki, verndunar jarðminja, heimasíðugerðar og verndunar og friðunar hafsvæða. 1.12 Náttúrustofa Bolungarvík. Lagt er til að Náttúrustofa Vestfjarða fái 5 m.kr. tímabundið framlag til rannsókna í Hornstrandafriðlandi og nágrenni, svo sem rannsókna á refum, gróðri og smádýralífi.
        1.13
Náttúrustofa Stykkishólmi. Lagt er til að Náttúrustofa Vesturlands fái 5 m.kr. tímabundið framlag til rannsókna á íslenska arnarstofninum og íslenska minkastofninum.
        1.14
Náttúrustofa Sauðárkróki. Lagt er til að Náttúrustofa Norðurlands vestra fái 5 m.kr. tímabundið framlag til ýmissa rannsóknarverkefna.
        1.15
Náttúrustofa Sandgerði. Lagt er til að Náttúrustofa Reykjaness í Sandgerði fái 5 m.kr. tímabundið framlag til að byggja upp aðstöðu fyrir rannsóknir á hegðun fiska og til að stofna vinnuhóp um verkefnið Þjóðgarður í sjó þar sem á m.a. að kanna hvort þjóðgarðar í sjó geti verið í sátt við þá sem nýta hafið sem auðlind og hvort slík svæðafriðun geti nýst við veiðistjórn.
        1.16
Náttúrustofa Norðausturlands. Lagt er til að stofunni verði veitt 7,7 m.kr. rekstrarframlag. Hún var stofnuð í júní sl. og verður rekin undir hatti Þekkingarseturs Þingeyinga á Húsavík.
410     Veðurstofa Íslands.
        1.01
Almenn starfsemi. Gerð er tillaga um 4 m.kr. fjárveitingu til Rannsóknarmiðstöðvar snjóflóðavarna á Ísafirði.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR
VIÐ SUNDURLIÐUN 3 (B-HLUTA)

22 Menntamálaráðuneyti

971    Ríkisútvarpið.
        Framlag úr ríkissjóði til rekstrar Ríkisútvarpsins eykst um 110 m.kr. frá því sem gert var ráð fyrir í áætlun frumvarpsins. Skýrist það af því að fyrirhugað er að afnotagjöld hækki um 5% í byrjun ársins 2004. Gert er ráð fyrir að afkoma Ríkisútvarpsins batni sem nemur tekjuaukanum.

23 Utanríkisráðuneyti

111    Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli.

        Gerðar hafa verið breytingar á fjárreiðum stofnunarinnar frá frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að afborganir af teknum löngum lánum verði 9,5 m.kr. á árinu í stað 22,9 m.kr. Handbært fé í árslok er áætlað 138 m.kr. í stað 351,3 m.kr. í frumvarpinu.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR
VIÐ SUNDURLIÐUN 4 (C-HLUTA)

44 Landbúnaðarráðuneyti

823    Lánasjóður landbúnaðarins.
        Endurskoðuð áætlun um ríkistekjur af hlutdeild Lánasjóðs landbúnaðarins í búnaðargjaldi á búvöruframleiðslu gerir ráð fyrir að tekjurnar lækki um 49 m.kr. og lækkar framlag til rekstrar úr ríkissjóði því úr 185 m.kr. í 136 m.kr. Búnaðargjald miðast við 2% af verðmæti búvöruframleiðslu sem er áætluð 21 milljarður kr. á árinu 2004. Þar af renna um 0,72% til Lánasjóðs landbúnaðarins. Hagnaður af rekstri minnkar og verður 100,8 m.kr. og handbært fé í árslok verður 928,7 m.kr.

47 Félagsmálaráðuneyti

Íbúðalánasjóður.
    Nokkrar breytingar verða á lánsfjárheimildum Íbúðalánasjóðs frá því sem áætlað er í frumvarpinu. Þar vega þyngst heimildir til að auka útgáfu húsbréfa um 2.595 m.kr. Þá hækka útlán til leiguíbúða um 5.250 m.kr. og viðbótarlán um 1.000 m.kr. Umsóknum hefur fjölgað mikið á árinu 2003 og eftir fyrstu tíu mánuði ársins eru umsóknir orðnar fleiri en allt fyrra ár. Fátt bendir til að umsóknum fækki árið 2004.

201    Íbúðalánasjóður, húsbréfadeild.
        Í endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir að veittar verði samtals 50.150 m.kr. í löng lán í stað 47.555 m.kr. samkvæmt frumvarpinu. Á móti kemur að gert er ráð fyrir að sjóðurinn taki 49.650 m.kr. löng lán en þau voru áætluð 47.079 m.kr. í frumvarpinu.

205    Íbúðalánasjóður, leiguíbúðir.
        Heildarlánveitingar eru áætlaðar 16.500 m.kr. og aukast um 5.250 m.kr. frá því sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þar af eru 5.000 m.kr. til almennra leiguíbúða sem verða 9.500 m.kr. Hjá Íbúðalánasjóði liggja fyrir umsóknir sem nema um 13 milljörðum kr. umfram áður útgefin lánsloforð. Þar af eru um 3 milljarðar kr. vegna leiguíbúða á Austurlandi og óskar stjórn sjóðsins eftir að geta orðið við þeim umsóknum án þess að dregið verði úr öðrum lánveitingum. Enn fremur er gert ráð fyrir að aðrir lánaflokkar hækki úr 250 m.kr. í 500 m.kr. vegna sambýla fatlaðra en búist er við umsóknum í það verkefni á næsta ári. Tekin löng lán alls til að fjármagna aukin útlán hækka í 24.300 m.kr. en þau voru 16.800 m.kr. í frumvarpinu.

211    Íbúðalánasjóður, viðbótarlán.
        Í endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir að veitt löng lán verði 7.000 m.kr. en þau eru 6.000 m.kr. í frumvarpinu. Samsetning umsækjenda viðbótarlána er nokkuð önnur en húsbréfalána en viðbótarlán eru veitt að beiðni húsnæðisnefnda sveitarfélaga og á ábyrgð sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að tekin löng lán til að fjármagna útlánin hækki um 1.277 m.kr. og verði 10.100 m.kr.

51 Iðnaðarráðuneyti

371    Orkusjóður.
        Gert er ráð fyrir að framlag til sjóðsins frá A-hluta fjárlaga af lið 11-371 Orkusjóður lækki um 50 m.kr. til samræmis við breytt lög um sjóðinn. Í breytingartillögu við A-hluta er lagt til að framlagið verði fært á fjárlagalið 11-301 Orkustofnun þar sem fjármögnun virkjanarannsókna heyrir undir stofnunina. Önnur rekstrargjöld sjóðsins lækka jafnframt um sömu fjárhæð þar sem sjóðurinn hefur greitt styrki sem framlaginu nemur. Afkoma sjóðsins verður því óbreytt eftir þessa breytingu.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR VIÐ 5. GR.

    Breyting sem gerð er tillaga um í a-lið er vegna endurskoðunar á útgáfu almennra húsbréfalána það sem af er þessu ári. Afgreiðsla húsbréfalána árið 2003 hefur aukist mikið frá fyrra ári. Er því lagt til að heimildir Íbúðalánasjóðs til lántöku verði auknar á næsta ári og miðist við svipaða útgáfu og stefnir í á yfirstandandi ári.
    Í b-lið er lagt til að heimildir Íbúðalánasjóðs til að veita lán til almennra leiguíbúða verði auknar um 5,3 milljarða kr., þar af eru 250 m.kr. lán til sambýla fatlaðra. Til að fjármagna framangreind útlán er gerð tillaga um að heimild Íbúðalánasjóðs til lántöku verði aukin um 7,5 milljarða kr. og verði 12 milljarðar kr. Samtals verður því fjármögnun almennra og félagslegra leiguíbúða auk greiðsluerfiðleikalána 24,3 milljarðar kr.
    Loks er lagt til í c-lið að lántökur Íbúðalánasjóðs til að fjármagna viðbótarlán sem veitt eru á ábyrgð sveitarfélaga verði auknar um tæplega 1,3 milljarða kr. Er sú áætlun byggð á fyrirliggjandi umsóknum sveitarfélaga um heimildir til veitingar viðbótarlána og reynslu undanfarinna ára um nýtingu slíkra heimilda.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 21. nóv. 2003.



Magnús Stefánsson,


form., frsm.


Drífa Hjartardóttir.


Guðmundur Hallvarðsson.



Bjarni Benediktsson.


Birkir J. Jónsson.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.

Fylgiskjal I.


Álit


um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2004, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, hefur nefndin fjallað um 1. gr. fjárlagafrumvarps fyrir árið 2003, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.
    Nefndin fékk á sinn fund Bolla Þór Bollason og Örnu Sigurðardóttur frá fjármálaráðuneytinu.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2004 voru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar 279,4 milljarðar kr. Þessi áætlun hefur nú verið endurskoðuð. Að öllu samanlögðu er nú talið að tekjur ríkissjóðs á árinu 2004 muni nema 282 milljörðum kr. sem er hækkun um 2,6 milljarða kr. miðað við upphaflega áætlun í fjárlagafrumvarpi. Þá hækkun má fyrst og fremst rekja til tveggja þátta, annars vegar er áætlað að tekjur af sköttum á vörum og þjónustu verði tæplega 1,9 milljörðum kr. meiri en gert var ráð fyrir og hins vegar að áætlaðar tekjur af eignarsköttum aukist um 450 millj. kr. Þessar hækkanir má rekja til endurmats á tekjum ríkisins á þessum sköttum á árinu 2003.
    Spá um þjóðhagsforsendur er óbreytt. Spáð er að hagvöxtur verði um 3,5% á árinu 2004 og verðbólgan um 2,5%. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann er talinn munu aukast um allt að 2,5%. Enn fremur er gert ráð fyrir að einkaneysla aukist um 3,5%. Spáð er minnkandi atvinnuleysi eða um 2,5%. Hins vegar er gert ráð fyrir að viðskiptahalli verði nálægt 3,25% af landsframleiðslu.
    Birkir J. Jónsson skrifar undir álitið með fyrirvara þar sem hann situr í fjárlaganefnd.

Alþingi, 21. nóv. 2003.

Pétur H. Blöndal, form.
Gunnar Birgisson.
Dagný Jónsdóttir.
Birgir Ármannsson.
Birkir J. Jónsson, með fyrirvara.




Fylgiskjal II.


Álit


um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2004, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Undanfarin ár hefur frumvarp til fjárlaga verið sett upp sem glansmynd sem hefur tekið verulegum breytingum frá upphaflegu frumvarpi til endanlegra fjárlaga, fjáraukalaga og loks til endanlegrar niðurstöðu eins og hún birtist í ríkisreikningi. Ríkisstjórnin hefur alla jafna notað upphaflegu glansmyndina til að berja sér á brjóst og auglýsa eigið ágæti. Hún hefur hins vegar gætt þess vendilega að gera sem allra minnst úr endanlegri niðurstöðu þegar hún birtist loks í ríkisreikningi og er þá í sumum tilvikum víðs fjarri upphaflegu markmiði fjárlaga.
    Í stíl við þetta hefur tekjuhlið fjárlaga undanfarinna ára einkennst af því að einstakir mikilvægir tekjuliðir hafa stundum breyst svo milljörðum króna skiptir frá frumvarpi til endanlegrar niðurstöðu. Í yfirliti efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis um skiptingu tekna ríkissjóðs frá fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2003 til áætlunar nú í nóvember kemur í ljós að tekjur ársins voru vanáætlaðar um 16,6 milljarða kr.
    Margt bendir til þess að miðað við væntingar um batnandi hag þjóðarbúsins séu ýmsir tekjuliðir vanáætlaðir í fjárlagafrumvarpinu. Má þar nefna vaxtatekjur, tekjuskatt og virðisaukaskatt. Vaxtatekjur ársins voru t.d. vanáætlaðar í frumvarpinu fyrir árið 2003 miðað við áætlun fjárlagaskrifstofu nú í nóvember um 1,6 milljarða kr. Nú þegar fjárlagafrumvarpið er tekið til 2. umræðu liggur fyrir að tekjur næsta árs voru vanáætlaðar um 2,6 milljarða kr. þegar frumvarpið var lagt fram.
    Í áætlun fyrir árið 2004 gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir því að tekjuskattur einstaklinga verði milljarði króna lægri en áætlað var í frumvarpinu. Skýringar fjármálaráðuneytisins við yfirferð efnahags- og viðskiptanefndar voru þær að þetta stafaði af atvinnuleysi og styttri vinnutíma einstaklinga. Engar tölulegar upplýsingar fylgdu á hinn bóginn því mati. Þótt því sé spáð má gera ráð fyrir að efnahagsuppsveiflan sem nú er hafin muni ekki einkennast af jafnmikilli þenslu og í síðustu uppsveiflu er þó ljóst að þenslan verður töluverð og hlýtur að segja til sín á vinnumarkaði með einhverjum hætti. Í því sambandi má minna á endurteknar yfirlýsingar einstakra ráðherra um að atvinnuleysi minnki verulega í kjölfar aukinnar eftirspurnar eftir vinnuafli. Í tölum fjármálaráðuneytisins birtist því ákveðin vantrú á að verulega rætist úr atvinnumálum á næstu missirum. Þá virðist litið fram hjá því að kjarasamningar eru lausir og launahækkanir óhjákvæmilegar á árinu. Lækkun á áætluðum tekjuskatti einstaklinga frá fjárlagafrumvarpi er því ekki í samræmi við atriðin sem hér eru nefnd og telja fulltrúar stjórnarandstöðunnar í efnahags- og viðskiptanefnd að liðurinn sé vanáætlaður.
    Sömuleiðis má færa rök að því að annar mikilvægur tekjuliður, virðisaukaskattur, fari fram úr spá fjármálaráðuneytisins. Þróun þess liðar fylgir nokkuð vel þróun hagvaxtar. Áætlun fjármálaráðuneytis byggist á því að hagvöxtur verði 3,5% árið 2004, en greiningardeildir bankanna spá yfirleitt meiri hagvexti. Því er líklegt að liðurinn sé vanáætlaður. Áætlanir um tekjur ríkisins þurfa hins vegar að byggjast á sterkum tölulegum grunni en ekki slumpareikningi eins og reyndin virðist með marga mikilvæga þætti í tekjugrein fjárlaga að þessu sinni.
    Miðstjórn ASÍ hefur gagnrýnt harðlega þá auknu misskiptingu sem felst í frumvarpinu. Í því sambandi er ástæða til að minna á að upphaf þeirrar jákvæðu þróunar sem nú er til staðar í efnahagslífinu má tímasetja við öflugt átak verkalýðshreyfingarinnar fyrir tveimur árum. Henni tókst þá með harðfylgi og af atorku að brjóta á bak aftur verðhækkunarhrinu hins opinbera. Hún hafði í reynd frumkvæði að þeirri samvinnu stjórnvalda, stjórnarandstöðu og ábyrgrar verkalýðshreyfingar sem náði að koma böndum á þá uggvænlegu gengis- og verðbólguþróun sem agaleysi stjórnarráðsins hafði hleypt af stað. Frá sjónarhóli jafnaðar og réttlætis skiptir miklu að hagkerfið fari hvorki í gamla farið, þar sem verðbólga leiðir að lokum til gengisfellingar, né að til verði umhverfi þar sem gengið hækkar úr hófi fram og þrengir að samkeppnis- og útflutningsgreinum, ekki síst á landsbyggðinni.

Alþingi, 24. nóv. 2003.

Össur Skarphéðinsson.
Jóhanna Sigurðardóttir.
Lúðvík Bergvinsson.
Álfheiður Ingadóttir.

Fylgiskjal III.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 (01 Forsætisráðuneyti og 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá allsherjarnefnd.

    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 8. október 2003.
    Á fund nefndarinnar komu Halldór Árnason og Óðinn H. Jónsson frá forsætisráðuneyti og Björn Friðfinnsson og Ásdís Ingibjargardóttir frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Heildargjöld forsætisráðuneytis árið 2004 eru áætluð um 1.155 millj. kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð tæpar 26 millj. kr. en þær nema 2% af heildargjöldum ráðuneytisins. Heildargjöld dóms- og kirkjumálaráðuneytis árið 2004 eru áætluð um 15.946 millj. kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 770 millj. kr. en þær nema tæplega 5% af heildargjöldum ráðuneytisins.
    Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að rekstrarframlag til Fangelsismálastofnunar hækkar um 35 millj. kr. frá fyrra ári. Hækkunin kemur einkum til af rekstrarvanda sem stofnunin hefur átt við að stríða undanfarin ár, m.a. vegna fjölgunar fanga. Þá kemur fram í frumvarpinu að lóð undir nýtt fangelsi hafi verið tryggð í Hólmsheiði og að forval hafi farið fram, en að fjárveiting til að undirbúa byggingu nýs fangelsis að fjárhæð 10 millj. kr. falli niður. Nefndin telur óviðunandi að fangar séu vistaðir í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg sem er löngu orðið úrelt sem fangelsisbygging, jafnvel þótt til skamms tíma sé, og leggur áherslu á að fjármagn til byggingar nýs fangelsis á höfuðborgarsvæðinu verði tryggt eins fljótt og unnt er vegna fjölgunar fanga og viðvarandi skorts á fangelsisrými.
    Nefndin fagnar því átaki sem undanfarið hefur verið gert til að bæta rekstur Landhelgisgæslunnar og að hafinn skuli undirbúningur að nýrri stefnumótun fyrir stofnunina.
    Eins og gert var í sambærilegu áliti til fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2003 bendir nefndin á að verkefnum dómstóla hefur verið fjölgað undanfarið. Nefndin telur mikilvægt að um leið og dómstólum eru falin aukin verkefni verði tryggt að nægilegt fjármagn fylgi, svo að ekki verði tafir á afgreiðslu mála.
    Í ljósi umfangs þeirra mála sem efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur haft á sinni könnu telur nefndin mikilvægt að auknu fjármagni verði varið til embættisins svo að viðunandi málshraði verði tryggður.
    Þá kom fram í yfirferð nefndarinnar á fjárlagafrumvarpinu að fjárveitingar til málskostnaðar í opinberum málum og opinberrar réttaraðstoðar hækka enn. Nefndin telur mikilvægt að tekið verði til skoðunar hvort hægt sé að stemma stigu við þessum kostnaðarauka án þess að þrengdur verði réttur til slíkrar aðstoðar.
    Lögð er áhersla á mikilvægi þess að umboðsmanni Alþingis verði með fullnægjandi fjárstuðningi gert kleift að sinna frumkvæðisathugunum og fræðslustarfi. Nefndin tekur jafnframt undir með umboðsmanni að hugað verði að því með sérstakri könnun hvernig til hefur tekist um framkvæmd stjórnsýslulaganna í tilefni af 10 ára afmæli þeirra árið 2004.     
    Ágúst Ólafur Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Bjarni Benediktsson skrifar undir álitið með þeim fyrirvara að hann á sæti í fjárlaganefnd. Guðrún Ögmundsdóttir, Katrín Júlíusdóttir og Sigurlín Margrét Sigurðardóttir skrifa undir álitið með fyrirvara sem lýtur að fyrirsjáanlegum breytingum á starfi Rauða kross Íslands varðandi umönnun flóttamanna, en samningur Útlendingastofnunar við Rauða krossinn rennur út um næstu áramót og ekki er ljóst hvernig þeim málum verður háttað framvegis. Kolbrún Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi er samþykk afgreiðslu málsins en hefur sams konar fyrirvara í málinu.

Alþingi, 12. nóv. 2003.

Bjarni Benediktsson, form., með fyrirvara.
Guðrún Ögmundsdóttir, með fyrirvara.
Jónína Bjartmarz.
Birgir Ármannsson.
Katrín Júlíusdóttir, með fyrirvara.
Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, með fyrirvara.
Sigurður Kári Kristjánsson.
Sigurrós Þorgrímsdóttir.





Fylgiskjal IV.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá menntamálanefnd.

    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 8. október 2003.
    Á fund nefndarinnar komu Örlygur Geirsson og Auður Árnadóttir frá menntamálaráðuneyti.
    Heildargjöld menntamálaráðuneytis árið 2004 eru áætluð um 34.984 millj. kr. á rekstrargrunni sem er 6% hækkun frá áætlun fjárlaga fyrir árið 2003. Frá dragast sértekjur að fjárhæð um 2.734 millj. kr. en þær nema 7,8% af heildargjöldum ráðuneytisins.
    Nefndin bendir á mikilvægi þess að fjöldi nemenda við háskóla og framhaldsskóla verði áætlaður eins nákvæmlega og unnt er á hverju ári svo að hægt verði að haga fjárveitingum til hvers skóla í samræmi við hann. Náin samvinna mennta- og fjármálaráðuneyta er nauðsynleg í þeim efnum.
    Þá leggur nefndin áherslu á að jafnræðis verði gætt við úthlutun rannsóknafjár til háskóla og bendir í því sambandi sérstaklega á Tækniháskóla Íslands sem hefur ekki fengið úthlutað fé til rannsókna.
    Hvað varðar skiptingu safnliða tekur nefndin fram að hún fellst á þær úthlutanir af safnliðum sem þegar hefur verið gerð grein fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Hér er átt við liðina 02- 988-1.90 Æskulýðsmál, þar sem tekið er fram í frumvarpinu að 6 millj. kr. hækkun eigi að renna í Tómstundasjóð barna og ungmenna sem ráðgert er að stofna til að veita styrki til starfsemi samtaka á sviði félags- og tómstundamála, rannsókna og þróunarverkefna, og 02- 989-1.90 Ýmis íþróttamál, þar sem ráðgert er í frumvarpinu að verja 1 millj. kr. til samnings um verkefnið Education through Sport og hækka framlag til lyfjaeftirlits um 5 millj. kr. Nefndin telur þó að það vinnulag að eyrnamerkja ákveðnar fjárhæðir af safnliðum áður en þeir koma til afgreiðslu nefndarinnar sé óheppilegt.
    Brynja Magnúsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir og Mörður Árnason skrifa undir álitið með fyrirvara sem lýtur að afgreiðslu safnliða og þáttum sem ekki er gerð grein fyrir í álitinu. Þá standa þessir sömu fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í nefndinni ekki að bréfi meiri hlutans til fjárlaganefndar um vísun erinda til hennar vegna safnliða. Þeir vilja vekja athygli fjárlaganefndar á erindum sem einkum snerta konur, svo sem frá Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum, Kvennasögusafni Íslands, Leiðbeiningarstöð Kvenfélagasambands Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands og Heimilisiðnaðarfélagi Íslands. Þá vekja þeir athygli á að Vélsmiðjan á Þingeyri er svo fjárfrekt verkefni að ekki verður séð að það rúmist undir nokkrum af safnliðum ráðuneytisins og er því rétt að fjárlaganefnd fjalli sérstaklega um það erindi. Hið sama er að segja um erindi Tónskáldafélags Íslands, sem sækir um 12 millj. kr. til stofnunar nýsköpunarsjóðs tónlistar, og um erindi um tónlistarþróunarmiðstöð. Umsókn Leikminjasafns Íslands rúmast einnig illa á safnlið, en á síðasta ári fékk safnið sérstakan stuðning í tillögum fjárlaganefndar.

Alþingi, 12. nóv. 2003.

Gunnar Birgisson, form.
Brynja Magnúsdóttir, með fyrirvara.
Dagný Jónsdóttir.
Guðjón Hjörleifsson.
Katrín Júlíusdóttir, með fyrirvara.
Kolbrún Halldórsdóttir, með fyrirvara.
Sigurður Kári Kristjánsson.
Kristinn H. Gunnarsson.
Mörður Árnason, með fyrirvara.


Fylgiskjal V.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 (03 Utanríkisráðuneyti).

Frá utanríkismálanefnd.



    Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. þingskapa og bréf fjárlaganefndar frá 8. október 2003.
    Nefndin fékk á sinn fund Gunnar Snorra Gunnarsson og Pétur Ásgeirsson frá utanríkisráðuneyti.
    Gert er ráð fyrir að fjárlagarammi utanríkisráðuneytisins hækki um 167 millj. kr. miðað við fjárlög fyrir árið 2003. Skýring á aukinni fjárþörf utanríkisráðuneytisins er fyrst og fremst aukið framlag til áframhaldandi uppbyggingar íslensku friðargæslunnar og aukin framlög Íslands til Þróunarsjóðs EFTA. Á móti hækkunum kemur hins vegar lækkun á viðhalds- og stofnkostnaði sem var tímabundinn og einkum vegna innréttingar á nýju sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn og viðgerða á sendiherrabústað í Brussel.
    Nefndin vekur athygli á því að svo virðist sem hækkun útgjalda vegna öryggisráðstafana á Keflavíkurflugvelli eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 sé orðin varanleg og muni að öllum líkindum fara vaxandi næstu árin. Kostnaður við íslensku friðargæsluna hefur aukist en Ísland hefur lagt mikinn metnað í að velja hæft fólk til starfans og almennt þykir vel hafa tekist til. Hins vegar er ljóst að efling friðargæslunnar krefst fjármuna, skipulagningar og forgangsröðunar verkefna. Utanríkismálanefnd styður styrkingu íslensku friðargæslunnar og fagnar einnig áætlunum ríkisstjórnarinnar um aukin framlög til þróunarsamvinnu í heiminum. Í þessu sambandi minnir nefndin á að framlag Íslands til Þróunarsjóðs EFTA á eftir að hækka á samningstímabilinu sem stendur frá 1. maí 2004 til 30. apríl 2008 í allt að 500 millj. kr. á ári.
    Utanríkismálanefnd styður framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og telur rétt að Ísland axli þá ábyrgð á alþjóðavettvangi sem seta í öryggisráðinu krefst. Hins vegar minnir nefndin á að framboðið á eftir að kosta nokkurt fé og leggur áherslu á að vandað verði til allrar skipulagningar og kostnaðaráætlana í tengslum við það og minnir enn á mikilvægi þess að nýta takmarkaðan mannafla og fjármagn sem best.
    Steingrímur J. Sigfússon og Guðmundur Árni Stefánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi 17. okt. 2003.


Sólveig Pétursdóttir, form.
Hjálmar Árnason.
Drífa Hjartardóttir.
Rannveig Guðmundsdóttir.
Einar K. Guðfinnsson.
Magnús Stefánsson.
Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Fylgiskjal VI.

Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 (04 Landbúnaðarráðuneyti).

Frá landbúnaðarnefnd.


    Landbúnaðarnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 8. október sl.
    Nefndin fékk á sinn fund Ingimar Jóhannsson frá landbúnaðarráðuneyti sem skýrði þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess.
    Erindi Björns Steinbjörnssonar vísar landbúnaðarnefnd til afgreiðslu fjárlaganefndar þar sem nefndin telur verkefnið það viðamikið að það rúmist ekki innan skiptingar safnliðar.
    Þá vísar nefndin einnig erindi Gróðurs fyrir fólk í landnámi Ingólfs til afgreiðslu fjárlaganefndar. Nefndin telur að verkefnið, sem fór af stað sem brautryðjendaverkefni og nefndin hefur stutt frá árinu 1998, rúmist ekki lengur innan skiptingar safnliðar en leggur jafnframt áherslu á að erindið hljóti afgreiðslu í fjárlaganefnd.
     Jafnframt er athygli vakin á því að starfsemi Vottunarstofunnar Túns ehf., sem fær afgreiðslu hjá landbúnaðarnefnd, fellur undir fleiri málefnasvið en landbúnaðarnefnd fer með forræði fyrir og er að því leyti vísað til afgreiðslu fjárlaganefndar.
    Loks leggur nefndin til að framlag til Veiðimálastofnunar verði aukið þar sem nefndin telur verkefni stofnunarinnar mjög viðamikil og sífellt að aukast og því nauðsynlegt að styrkja starfsemi hennar til samræmis við það.
    Drífa Hjartardóttir og Anna Kristín Gunnarsdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.

Alþingi, 10. nóv. 2003.

Drífa Hjartardóttir, form., með fyrirvara.
Lúðvík Bergvinsson.
Birkir J. Jónsson.
Ásta Möller.
Ásgeir Friðgeirsson.
Árni Steinar Jóhannsson.
Einar K. Guðfinnsson.
Dagný Jónsdóttir.
Anna Kristín Gunnarsdóttir, með fyrirvara.




Fylgiskjal VII.


Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 (05 Sjávarútvegsráðuneyti).

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 8. október 2003.
    Nefndin fékk á sinn fund Þorstein Geirsson og Arndísi Á. Steinþórsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Jóhann Sigurjónsson og Vigni Thoroddsen frá Hafrannsóknastofnuninni, Þórð Ásgeirsson og Gylfa Ástbjartsson frá Fiskistofu og Sjöfn Sigurgísladóttur og Aðalbjörgu Halldórsdóttur frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
    Sjávarútvegsnefnd telur ástæðu til að vekja athygli fjárlaganefndar á fjórum atriðum í frumvarpinu og mælist til þess að hún taki þau til frekari skoðunar.
    Í fyrsta lagi vekur nefndinn athygli á því að ekki er gerð grein fyrir væntanlegum tekjum ríkissjóðs af veiðigjaldi sem samþykkt var á 127. löggjafarþingi og kemur til framkvæmda 1. september á næsta ári.
    Í öðru lagi virðist gert ráð fyrir innheimtu þróunarsjóðsgjalds út árið 2004, en þegar hefur verið ákveðið að fella það niður samhliða upptöku veiðigjaldsins 1. september 2004.
    Í þriðja lagi er í frumvarpinu ekki gerð grein fyrir væntanlegum tekjum vegna svokallaðs „hafróafla“, þ.e. fiski sem skipum er heimilt að koma með að landi án þess að sá afli dragist frá aflaheimildum þeirra, en hagnaður af sölu þessa afla rennur nú til Hafrannsóknastofnunarinnar.
    Í fjórða og síðasta lagi er ekki í frumvarpinu að finna fjárveitingu til Hafrannsóknastofnunarinnar vegna áætlunar um vísindaveiðar á hvölum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 100 millj. kr. fjárveitingu í nýjan rannsóknasjóð til auka verðmæti sjávarfangs. Nefndin hvetur til þess að settar verði skýrar reglur um úthlutun úr sjóðnum.
    Þá bendir nefndin á að ekki er gert ráð fyrir fjárveitingu til rannsókna á loðnu í norðurhöfum, en brýnt er að ráðist verði í slíkar rannsóknir.
    Nefndin tók til skoðunar skipingu safnliðar 05-190-1.90. Tvær umsóknir bárust nefndinni, báðar vegna kalkþörungavinnslu, og leggur nefndin til að þær verði báðar teknar til greina. Auk þessa leggur nefndin til að fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunarinnar verði hækkaðar um 15,2 millj. kr. sem skiptast þannig að 5,5 millj. kr. fari til veiðarfærarannsókna og 9,7 millj. kr. til rannsókna á áframeldi á þorski.
    Nefndin vekur athygli á því að á fundi nefndarinnar var þess farið á leit við forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar að hann léti nefndinni í té fjárlagatillögur þær sem stofnunin gerði til sjávarútvegsráðuneytisins við undirbúning fjárlagafrumvarpsins og var þeirri beiðni vel tekið. Þegar óskin var ítrekuð vísaði stofnunin beiðninni til sjávarútvegsráðuneytisins með þeim rökum að um vinnuskjal ráðuneytisins væri að ræða. Nefndin hyggst taka þessa málsmeðferð til frekari skoðunar.
    Einar K. Guðfinnsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Jón Gunnarsson skrifar undir álit nefndarinnar með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd. Jón Bjarnason var viðstaddur afgreiðslu málsins sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.

Alþingi, 12. nóv. 2003.

Kristinn H. Gunnarsson, varaform.
Jóhann Ársælsson.
Kristján L. Möller.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Kjartan Ólafsson.
Birkir J. Jónsson.
Grétar Mar Jónsson.
Jón Gunnarsson, með fyrirvara.




Fylgiskjal VIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 8. október sl. Á fund nefndarinnar komu Sesselja Árnadóttir, Húnbogi Þorsteinsson, Sturlaugur Tómasson, Guðni Geir Einarsson og Elín Pálsdóttir frá félagsmálaráðuneyti.
    Nefndin fór yfir einstaka liði frumvarpsins og ræddi auk þess við ýmsa aðila er sótt höfðu um fjárveitingar vegna safnliða á málefnasviði nefndarinnar.
    Segja má að áherslur þessa frumvarps lúti að málefnum fatlaðra. Frá gildandi fjárlögum hækka útgjöld til málefna fatlaðra til viðbótar við launa- og verðlagsbætur um 164,9 millj. kr.
    Helstu áform á árinu 2004 tengjast öll áætlun um að stytta biðlista eftir þjónustu við fatlaða:
     a.      Gert er ráð fyrir fjármagni til tveggja nýrra sambýla í Reykjavík, frá miðju ári.
     b.      Gert er ráð fyrir fjármagni til tveggja nýrra sambýla á Reykjanesi, frá miðju ári.
     c.      Gert er ráð fyrir opnun nýs sambýlis á Suðurlandi, frá miðju ári.
     d.      Áætlað er fyrir heilsársrekstri nýrrar hæfingarstöðvar (dagvistarstofnunar) á Reykjanesi.
     e.      Efla á skammtímaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.
     f.      Efla á dagvistun (hæfingu) á Suðurlandi.
    Þannig hækka útgjöld til málaflokksins um 118 millj. kr. í samræmi við áætlun um styttri biðlista. Útgjöld vegna samninga við sveitarfélög og einkaaðila, sem annast þjónustu við fatlaða, hækka um 33,7 millj. kr.
    Framlag í Framkvæmdasjóð fatlaðra hækkar um 23 millj. kr. Frumvarpið gerir eigi að síður ráð fyrir að ráðstöfunarfé sjóðsins hækki um 40 millj. kr. frá gildandi fjárlögum þar sem horfið er frá því að láta sjóðinn greiða kostnað við tvö rekstrarverkefni sem hann hefur greitt sl. tíu ár. Um er að ræða kostnað við félagslega endurhæfingu og kostnað vegna starfa stjórnarnefndar. Í frumvarpinu er áætlað fyrir þessum útgjöldum á fjárlagalið 07-700-1.90 og hækkar sá fjárlagaliður um 17 millj. kr. Alls hækka því útgjöld til málaflokksins um 191,2 millj. kr .
    Hvað varðar skiptingu safnliða telur meiri hlutinn óheppilegt að opinberir styrkir til félagasamtaka komi víða fram þannig að erfitt reynist að öðlast yfirsýn yfir heildarstyrkveitingu hins opinbera. Meiri hlutanum er kunnugt um að fjárlaganefnd hyggst taka fyrirkomulag þessara mála til endurskoðunar. Meiri hlutinn vekur athygli fjárlaganefndar á því að Geðhjálp sækir um styrk til eigin starfa og einnig í samstarfi við Fjölmennt en beinir umsóknum til fleiri en einnar fastanefndar þingsins. Eðlilegt er að fjárlaganefnd og/eða ráðuneytið samræmi afgreiðslu slíkra mála. Meiri hlutinn gerir tillögu að skiptingu safnliða á hennar málefnasviði en verður að vísa nokkrum erindum til afgreiðslu hjá fjárlaganefnd.
    Hvað varðar Jöfnunarsjóð sveitarfélaga bendir meiri hlutinn á það starf sem nú er hafið í samstarfi félagsmálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga um endurskoðun á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, verkefnaflutning milli ríkis og sveitarfélaga ásamt hugsanlegri stækkun sveitarfélaga. Í því starfi má búast við að tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga, sem og Jöfnunarsjóður, verði tekin til gagngerrar endurskoðunar.
    Sigurjón Þórðarson og Margrét Frímannsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Birkir J. Jónsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara þar sem hann á sæti í fjárlaganefnd.

Alþingi, 11. nóv. 2003.

    

Hjálmar Árnason, form.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðjón Hjörleifsson.
Pétur H. Blöndal.
Birkir J. Jónsson, með fyrirvara.





Fylgiskjal IX.


Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Minni hluti félagsmálanefndar stendur ekki að áliti meiri hlutans, enda um að ræða verulegar vanáætlanir á stórum útgjaldaliðum ráðuneytisins sem stjórnarliðar verðar sjálfir að bera ábyrgð á. Að auki gerir minni hlutinn alvarlegar athugasemdir við hvernig ýmsir veigamiklir þættir velferðarsamfélagsins eru hornreka hjá núverandi valdhöfum. Ekki síst á þetta við um þá atlögu sem gerð er í þessu frumvarpi að atvinnulausum. Átelur minni hlutinn það harðlega, enda er þar ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Skorar minni hlutinn á félagsmálaráðherra að hverfa frá þessum áformum áður en fjárlagafrumvarpið verður afgreitt frá Alþingi.
    Hér verður farið yfir helstu gagnrýnisatriði og vakin athygli á verulegum vanáætlunum í stórum málaflokkum sem falla undir ráðuneytið.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
    Ýmis sveitarfélög hafa gagnrýnt lækkun á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á þessu ári miðað við síðustu ár. Meginskýringin er sú að á árunum 1999, 2000 og 2001 var greitt úr ríkissjóði sérstakt framlag til Jöfnunarsjóðs sem nam 700 millj. kr. árlega. Á árinu 2002 var gengið á eigið fé sjóðsins og það lækkað um 500 millj. kr. Þeim fjármunum var varið til hækkunar á framlögum Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaganna. Að óbreyttu því framlagi sem er á fjárlögum þessa árs lækka því framlög til sveitarfélaga verulega frá því sem verið hefur á undanförnum árum.
    Í öðru lagi var reglum um úthlutun úr sjóðnum breytt verulega á þessu ári. Breytingin leiddi til þess að fjármunir færast á milli einstakra sveitarfélaga. Annars vegar voru færðir fjármunir frá þeim sveitarfélögum sem hafa mjög háar tekjur á hvern íbúa, og hins vegar voru framlög færð til sveitarfélaga sem eru með 2.000 til 20.000 íbúa. Mörg dreifbýlissveitarfélög sem jafnframt eru fámenn fóru einnig illa út úr þessum breytingum, sérstaklega hvað varðar framlög til skólaaksturs eins og sést í ályktun frá samtökum fámennra skóla sem er fylgiskjal með áliti þessu.
    Forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa átt í viðræðum við félags- og fjármálaráðherra og lagt til að sérstakt framlag verði greitt úr ríkissjóði á þessu og næsta ári þannig að sjóðurinn hafi sambærilega fjármuni til ráðstöfunar og undanfarin ár. Þetta verði gert í tengslum við sérstakt átak í sameiningu sveitarfélaga sem nú er að hefjast. Einnig er gert ráð fyrir heildarendurskoðun á tekjustofnum og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Mikilvægt er að tekjur jöfnunarsjóðs lækki ekki á meðan þessi vinna stendur yfir og meðan farið er yfir þær athugasemdir sem komið hafa frá sveitarfélögum vegna nýrra úthlutunarreglna.

Ábyrgðasjóður launa.
    
Áætlun um útgjöld sjóðsins fyrir árið 2003 er 740 millj. kr. en í fjárlögum fyrir árið 2003 er gert ráð fyrir 441 millj. kr. Fyrir árið 2004 er gert ráð fyrir tæplega 687 millj. kr. og sér minni hlutinn enga ástæðu til að ætla að útgjöld Ábyrgðasjóðs verði minni á næsta ári en áformað er að þau verði á yfirstandandi ári.

Fæðingarorlofssjóður.
    
Ljóst er að veruleg fjárvöntun er líka hjá Fæðingarorlofssjóði. Frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár gerir ráð fyrir að útgjöld Fæðingarorlofssjóðs verði 5.546 millj. kr. Markaðar tekjur sjóðsins eru áætlaðar 4.211 millj. kr. og ríkisframlag 387 millj. kr. eða samtals tekjur að fjárhæð 4.598 millj. kr. Gjöld umfram tekjur eru þannig áætluð 948 millj. kr. og því um verulega vanáætlun að ræða á tekjum til að mæta áætluðum útgjöldum. Í árslok 2004 er gert ráð fyrir að gengið hafi verið verulega á eigið fá sjóðsins og það verði um 400–450 millj. kr. Ástæða er til að benda á að í þessum tölum er ekki gert ráð fyrir að greitt verði orlof í töku fæðingarorlofs og er þar um að ræða mikla mismunun eftir því hvort um er að ræða foreldra á almenna vinnumarkaðinum eða hinum opinbera, en þar fá foreldrar í fæðingarorlofi greitt orlof. Í raun er hér um að ræða mismunun sem jafna má til þess að foreldrar á almenna vinnumarkaðnum hafi þremur vikum skemmra fæðingarorlof en foreldrar sem vinna hjá hinu opinbera.

Atvinnuleysistryggingasjóður.
    
Áætluð útgjöld sjóðsins á árinu 2003 eru rúmir 4,3 milljarðar kr. Byggist það á því að atvinnuleysi verði 3,3% og að kostnaður á hvert prósentustig sé 1.084 millj. kr. Fjárlög gerðu ráð fyrir 3.163 millj. kr. og því stefnir í að útgjöld vegna atvinnuleysis hafi verið vanmetin um 1.100 millj. kr. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2004 gerir ráð fyrir að gjöld sjóðsins verði samtals 3.314 millj. kr. og er þar byggt á að meðalatvinnuleysi ársins 2004 verði 2,5%. Spá Seðlabankans frá því nú í nóvember gerir ráð fyrir 2¾% og Kaupþing spáir að atvinnuleysi á næsta ári verði kringum 3%. Ef tekið er mið af spá Seðlabankans vantar tæpar 280 millj. kr. á næsta ári í Atvinnuleysistryggingasjóð og ef miðað er við spá Kaupþings vantar um 550 millj. kr. Því til viðbótar verður ekki séð að gert hafi verið ráð fyrir 75 millj. kr. sem varið var úr Atvinnuleysistryggingasjóði til vinnumarkaðsaðgerða á þessu ári til viðbótar þeim 112 millj. kr. sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Á það var rækilega bent við umræðu um fjárlög fyrir árið 2003 að veruleg vanáætlun væri í útgjöldum vegna atvinnuleysis sem nú hefur komið á daginn. Atvinnuleysisspá fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka bar ekki saman þar sem Seðlabankinn gerði ráð fyrir 3,25% atvinnuleysi en í forsendum ráðuneytisins var miðað við 2,75% atvinnuleysi. Það gekk eftir sem stjórnarandstaðan varaði við um vanáætlun á útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs, en á fjáraukalögum fyrir árið 2003 er farið fram á 1.100 millj. kr. vegna atvinnuleysisbóta.
    Minni hlutinn gagnrýnir harðlega áformaða skerðingu á atvinnuleysisbótum þar sem atvinnuleysisbætur eru skertar um 10–11% með því að greiða ekki bætur fyrstu þrjá daga atvinnuleysis. Hér er ráðist harkalega á kjör þeirra sem minnst hafa í þjóðfélaginu, sem í ofanálag hafa verið verulega skert á öllu síðasta kjörtímabili sömu ríkisstjórnar.

Leiguíbúðir.
    
Ljóst er að sú stefna sem ríkisstjórnin fylgir að leiguíbúðir beri 3,5–4,9% vexti hefur íþyngt verulega láglaunahópunum í þjóðfélaginu og m.a. gert námsmannasamtökum og samtökum öryrkja afar erfitt með að halda áfram uppbyggingu ódýrra leiguíbúða án þess að það komi fram í hárri húsaleigu. Áfram er haldið á þessari braut í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár og gengið þvert á þá stefnu sem t.d. ASÍ hefur markað í málinu í skýrslu sinni „Velferð fyrir alla“ í mars á þessu ári. Að mati ASÍ er biðlisti eftir um 1.700 leiguíbúðum, en tillögur þeirra gera ráð fyrir að eyða þeim biðlistum á þremur árum. Annars vegar er miðað við að fjölga þeim íbúðum sem lánað er til á lægstu vöxtum og hins vegar að auka vaxtaniðurgreiðsluna þannig að miðað verði við 1% vexti í stað 3,5% eins og lægsta vaxtaprósenta til uppbyggingar leiguíbúða er í dag. Stefna ríkisstjórnarinnar sem birtist í fjárlagafrumvarpi næsta árs gengur þvert á þessi markmið.

Húsaleigubætur.
    
Útgjöld sveitarfélaga til húsaleigubóta hafa þanist út á undanförnum árum. Það má að miklu leyti rekja til þess að verð á leiguhúsnæði hækkaði verulega eftir að þessi sama ríkisstjórn og nú situr lagði af félagslega húsnæðiskerfið og hækkaði vexti til leiguíbúða úr 1% í allt að 4,9%. Ljóst er að sveitarfélögin hafa farið mjög halloka út úr þeim samningi sem ríkisvaldið gerði við þau fyrir nokkrum árum. Má þar nefna að á árinu 1999 var greiðsluhlutfall Jöfnunarsjóðs vegna húsaleigubóta 55% og sveitarfélaga 45%. Þá voru heildargreiðslur vegna húsaleigubóta 529 millj. kr. og nam endurgreiðsla Jöfnunarsjóðs það ár um 291 millj. kr. Á yfirstandandi ári er áætlað að heildargreiðslur sveitarfélaga til húsaleigubóta verði tæpir 1,2 milljarðar kr., eða 56% heildargreiðslna, og greiðsla úr Jöfnunarsjóði verði 526 millj. kr., eða 44%. Þetta er enn ein staðfesting þess að verulega hallar á sveitarfélögin í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga

Málefni fatlaðra.
    
Þótt nokkur aukning sé á framlögum til málefna fatlaðra er ljóst þegar litið er til fjárlaga næsta árs og til áforma fyrir árið 2005 að ekki verður staðið við það samkomulag sem gert var milli samtaka fatlaðra og félagsmálaráðuneytisins um að eyða biðlistum eftir búsetuúrræðum fyrir fatlaðra, þ.e. eftir sambýlum og sjálfstæðri búsetu, á árunum 2000–2005. Þegar aðgerðaáætlun til að eyða biðlistum eftir búsetuúrræðum er borin saman við svar félagsmálaráðherra um búsetumál fatlaðra (þskj. 281) kemur í ljós að veruleg vanáætlun er vegna nýliðunar og vegna biðlista eftir sjálfstæðri búsetu og frekari liðveislu. Fram kemur í svarinu að á árunum 2000–2003 voru umsóknir fyrir 41 fatlaðan einstakling, eða um 14 á ári, en í áætluninni frá árinu 2000 var einungis gert ráð fyrir sex nýjum fötluðum einstaklingum á ári.
    Ef eyða á biðlistum að teknu tilliti til nýliðunar á árunum 2000–2005 vantar sambýli fyrir 16 einstaklinga, eða um 3–4 sambýli, og í allt væru að óbreyttu 42 einstaklingar á biðlista í árslok 2005. Auk þess hefur biðlisti eftir sjálfstæðri búsetu og frekari liðveislu lengst verulega frá því sem ráð var fyrir gert og eru nú 108 einstaklingar á biðlista eftir frekari liðveislu, þar af 93 í Reykjavík og á Reykjanesi. Í apríl 2003 voru 78 á biðlista eftir sambýlum, þar af rúmlega 50 í Reykjavík. Í svari félagsmálaráðherra er líka viðurkennt að fækkun hafi orðið á skammtímavistunarplássum í Reykjavík árið 2003, en samtals er nú þörf fyrir 15 pláss í skammtímavistun, mest í Reykjavík og á Reykjanesi. Því skal haldið til haga að í samkomulagi ráðuneytisins og samtaka fatlaðra frá árinu 2000 var gert ráð fyrir að á næstu fimm árum, eða fram til ársins 2005, yrði biðlistum eftir búsetu í Reykjavík og á Reykjanesi eytt.
    Loks skal á það bent að á árinu 2004 er gert ráð fyrir að Framkvæmdasjóður fatlaðra hafi til ráðstöfunar um 294 millj. kr., en sjóðurinn hefur verið skertur gífurlega á undanförnum árum og hefur það dregið verulega úr allri uppbyggingu í málefnum fatlaðra. Þörfin er þó gífurleg sem best sést á því að umsóknir í Framkvæmdasjóð fatlaðra fyrir árið 2003 voru vegna 81 verkefnis, alls að fjárhæð 891,2 millj. kr. fyrir utan viðhald fasteigna í eigu Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Gert er ráð fyrir að viðhaldsþörf fasteigna sem eru í eigu sjóðsins verði á bilinu 40–50 millj. kr.

Starfsmenntun í atvinnulífinu.
    
Starfsmenntaráð auglýsti í febrúar 2003 eftir umsóknum um styrki til starfsmenntunar í atvinnulífinu. Auglýst var eftir umsóknum en til úthlutunar voru 50 millj. kr. Alls sóttu 64 aðilar um styrk samtals að upphæð 252 millj. kr., en einungis voru 60 millj. kr. til ráðstöfunar. Ljóst er að fjármagn það sem ríkisvaldið ver til starfsmennta í atvinnulífinu gagnast fyrst og fremst ófaglærðu fólki og fólki með litla menntuna og er einatt lykillinn að bættum kjörum þeirra. Minni hlutinn gagnrýnir að einungis eigi að verja 60 millj. kr. á næsta ári í starfsmenntasjóð því að staðreyndin er sú að auk þess sem fjármagnið nýtist til að bæta kjör láglaunafólks getur það orðið til þess að draga úr atvinnuleysi og þar með þörf fyrir atvinnuleysisbætur.

Atvinnumál kvenna.
    
Á árinu 2003 bárust umsóknir um styrk vegna atvinnumála kvenna sem námu um 236 millj. kr. Úthlutað var 25 millj. kr. til 44 aðila. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er einungis gert ráð fyrir 20 millj. kr. Það er skoðun minni hlutans að auka eigi fjármagn til þessara styrkveitinga en ekki draga úr þeim. Reynslan af þessari úthlutun er mjög góð og hefur nýst vel gegnum árin í frumkvöðlastarf og gert mörgum konum kleift að koma á fót atvinnurekstri sem ætla má að ekki hefði orðið af hefði þessa fjármagns ekki notið við.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og málefni barna.
    
Ríkisstjórnin sýnir ekki í þessu frumvarpi að hún hafi málefni barna eða fjölskyldunnar að leiðarljósi. Þetta birtist í framlögum til málefna barna sem standa í stað milli ára og lækka reyndar lítillega. Sama á við um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem hefur búið við mikinn fjárhagsvanda undanfarin ár með þeim afleiðingum að bið eftir ráðgjöf og greiningu hefur sífellt lengst. Fjárframlög til stöðvarinnar eru óbreytt milli áranna 2003 og 2004 ef undan er skildar verðlagsbreytingar og smá leiðrétting vegna launabreytinga. Einsýnt er að ekki verður hægt að stytta biðlista. Nýrri stjórn Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, sem skipuð var í maí 2002, var ætlað að gera úttekt á stjórnun og rekstri stöðvarinnar og vinna að nýrri lagasetningu fyrir hana, ásamt því að móta stefnu hennar fyrir árin 2004–2008. Vinnan fólst m.a. í greiningu á þörf fyrir fjármagn og mannafla til að mæta betur eftirspurn eftir þjónustu næstu árin, þ.e. stytta biðtíma og efla ráðgjafarþátt starfseminnar. Lögð var áhersla á að stytta biðtíma barna á grunnskólaaldri eftir þjónustu stofnunarinnar með því að ráða starfsmenn í þrjú stöðugildi til viðbótar á árinu 2004 á fagsvið þroskahamlana og málhamlana. Það markmið var sett að biðtími þessa hóps barna væri orðinn viðunandi í lok ársins 2004. Horft til næstu fjögurra ára voru áformin að leita eftir samtals átta stöðugildum á þeim árum, þ.e. 2004–2007, til að stytta biðtíma og auka ráðgjöf vegna einhverfra barna. Ljóst er í fjárlagafrumvarpinu að ekkert tillit er tekið til þessara tillagna. Biðtíminn nú er algjörlega óviðunandi en 18–24 mánaða bið er eftir þjónustu fyrir börn með þroskafrávik frá 6–18 ára, en markmiðið með þremur nýjum stöðugildum á næsta ári var að koma á jafnvægi í biðlista grunnskólabarna. Sífellt fjölgar líka í hópi einhverfra barna en biðtími fyrir einhverf börn á aldrinum 4–6 ára er nú 6–8 mánuðir.
    Minni hlutinn telur þessa stöðu algjörlega óviðunandi og hvetur stjórnarflokkana til að bæta hér úr við meðferð fjárlagafrumvarpsins þannig að staðið sé við áformin um að ráða starfsmenn í þrjú ný stöðugildi á næsta ári.

Niðurstaða.
    
Af framangreindu er ljóst að um verulega vanáætlun er að ræða í fjárlagakafla félagsmálaráðuneytisins sem stjórnarflokkarnir einir verða að bera fulla ábyrgð á. Auk þess hefur verið sýnt fram á ranga forgangsröðun og áherslur stjórnarflokanna. Þær eru óréttlátar og munu ekki stuðla að sparnaði né bættum aðbúnaði barna og fjölskyldna.

Alþingi, 18. nóv. 2003.



Jóhanna Sigurðardóttir.


Margrét Frímannsdóttir.
Helgi Hjörvar.


Fskj.

Ályktun frá Samtökum fámennra skóla vegna breytinga
á úthlutun úr jöfnunarsjóði til skólaaksturs.


    Stjórn Samtaka fámennra skóla harmar þá aðför sem gerð er að fámennum sveitarfélögum í landinu með nýjum starfsreglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
    Ljóst er, að þau sveitarfélög sem í dreifbýlinu eru, koma illa út og er menntun grunnskólanema í þeim stefnt í mikla hættu. Aukinn kostnaður hefur m.a. orðið vegna:
          valgreina í eldri bekkjum grunnskóla,
          endurmenntunar starfsfólks,
          mats á skólastarfi,
          breyttra kennsluhátta,
          stóraukins vægis upplýsinga- og tæknimenntar sem kallar á dýra aðstöðu,
          lengingar skólaárs,
          fjölgunar kennslustunda.
    Öllum er ljós sú staða að sveitarfélögin sem minnsta hafa tekjustofnana hafa treyst á framlag Jöfnunarsjóðsins til að tryggja íbúum sínum lögboðna þjónustu, svo sem leik- og grunnskóla.
    Stjórn samtaka fámennra skóla skorar á ríkisvaldið að taka sérstakt tillit til fámennari og dreifðari byggða, þar sem sameining sveitarfélaga hefur ekki enn farið fram. Stjórn samtakanna bendir einnig á að ekki verður alltaf hagræðing af því að sameina sveitarfélög þar sem vegalengdir verða í sumum tilfellum lengri og því aukinn kostnaður við skólaakstur, sem ekki verður hjá komist. Þá má benda á að til eru þau byggðarlög þar sem sameining hefur farið fram og verður hagræðingu ekki náð með frekari sameiningu þrátt fyrir að byggðarlagið sé fremur fámennt (u.þ.b. 500 íbúar). Fámennu skólarnir eru gullmolar í byggðarlögum landsins sem eru of dýrmætir til að láta fjúka eða skolast burt í veðurofsa sameiningarlægðarinnar.

Stjórn Samtaka fámennra skóla.



Fylgiskjal X.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 8. október sl.
    Á fund nefndarinnar komu Svanhvít Jakobsdóttir og Hrönn Ottósdóttir frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Karl Steinar Guðnason, Ásta R. Magnúsdóttir, Ingibjörg Þorsteinsdóttir, Ragnar M. Gunnarsson og Ágúst Þór Sigurðsson frá Tryggingastofnun ríkisins og Magnús Pétursson, Anna Lilja Gunnarsdóttir, Anna Stefánsdóttir og Jóhannes M. Gunnarsson frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi.
    Fram kemur í frumvarpinu að heildargjöld ráðuneytisins nemi rúmlega 113 milljörðum kr. Auk hagræðingar sem krafist er á ýmsum sviðum hefur verið gripið til ýmissa aðhaldsaðgerða. Þær varða aðgerðir í lyfjamálum, jafnframt því að endurskoðaðar hafa verið greiðslur fyrir hjálpartæki, fyrir þjálfun og til sérfræðinga, auk þess sem komugjöld á heilsugæslu og til sérfræðinga eru hækkuð. Gert er ráð fyrir að þessar aðhaldsaðgerðir skili um 849 millj. kr.
    Nefndin tekur fram í tengslum við umræðu um aðhaldsaðgerðir og hagræðingu að um árabil hefur staðið til að byggja upp rafræna sjúkraskrá og samtengja skráningu upplýsinga í heilbrigðiskerfinu. Undirbúningur hefur farið fram innan ramma íslenska upplýsingasamfélagsins auk þess sem Landspítali – háskólasjúkrahús og heilsugæslan í Reykjavík hafa unnið að undirbúningi, hvor á sínu sviði. Telur nefndin tímabært að unnið verði frekar að innleiðingu rafrænna sjúkraskráa enda verði hagræði af slíku kerfi mikið auk þess sem það ætti að tryggja öruggari, betri og greiðari þjónustu fyrir sjúklinga og auka skilvirkni í heilbrigðisþjónustunni.
    Fjallað var um mikinn lyfjakostnað hjá Landspítala og Tryggingastofnun. Fulltrúar beggja bentu á að lyfjaverð hér á landi væri hærra en í nágrannalöndunum en stofnanirnar hafa hvor um sig leitað leiða til að lækka þennan kostnað. Í þessu skyni hafa þrjú lyfjaútboð farið fram á árinu og þrjú eru í undirbúningi hjá Landspítalanum. Á þessu ári verða samtals boðin út lyf fyrir 1.574 millj. kr. eða um 75% af heildarinnkaupum. Nefndinni var hins vegar greint frá því að tilboð bærust ekki í öll lyf sem boðin væru út og einnig kæmi fyrir að tilboð hljóðuðu upp á hámarksheildsöluverð. Útboðin skili því ekki næstum því alltaf þeim sparnaði sem að er stefnt. Fulltrúar Tryggingastofnunar bentu á að lyfjamarkaðurinn hafi breyst gríðarlega á síðustu árum. Þegar fyrirkomulagi hans var breytt var gert ráð fyrir 25% sparnaði í lyfjaútgjöldum. Ljóst væri hins vegar að sparnaðurinn er minni fyrir stofnunina. Almenningi er veittur afsláttur sem oft er umtalsverður en Tryggingastofnun þarf í öllum tilvikum að greiða fullt verð. Var jafnframt bent á mikilvægi þess að Tryggingastofnun væri gert kleift að hafa eftirlit með lyfjakostnaði sem mótvægi við markaðssetningu lyfjafyrirtækja og ónóga samkeppni. Nefndin tekur undir þetta. Einnig leggur hún áherslu á að á sama hátt verði tryggt að Tryggingastofnun geti rækt eftirlitshlutverk sitt með samningum sínum við sérfræðinga á heilbrigðissviði, m.a. með því að hafa nægilega margt starfsfólk til að framfylgja eftirliti á vettvangi. Bent hefur verið á að þannig verði hægt að veita meira aðhald í beinum útgjöldum og auka skilvirkni.
    Nefndin minnir á að væntanleg er úttekt Ríkisendurskoðunar á sameiningu sjúkrahúsanna og á starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss. Vert er að taka fram að í gögnum sem nefndinni hafa borist frá Landspítala kemur fram að bið eftir flestum aðgerðum á spítalanum hefur styst umtalsvert. Helgast það einkum af því að aðgerðum hefur fjölgað í flestum sérgreinum á árinu.
    Einnig var fjallað um þann vanda sem skortur á hjúkrunarrýmum hefur valdið. Fram kom að 112 legusjúklingar á Landspítala bíða eftir hjúkrunarrýmum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til uppbyggingar öldrunarþjónustu, þar af um 500 millj. kr. til reksturs nýrra hjúkrunar- og dagvistarrýma og 440 millj. kr. í stofnkostnað vegna þeirra. 163 ný hjúkrunarrými verða tekin í notkun árið 2004 en þar af eru 158 á höfuðborgarsvæðinu. Nefndin fagnar þessari uppbyggingu, svo og auknum rekstrarframlögum til heilsugæslu- og heilbrigðisstofnana sem samkvæmt frumvarpinu hækka um 440 millj. kr. árið 2004.
    Þá fagnar nefndin þeirri ákvörðun að veita aukið fé til málefna geðsjúkra. Gert er ráð fyrir því að árið 2004 verði 222 millj. kr. varið til nýrra verkefna til að bregðast við skorti á úrræðum. Meðal þeirra er lokuð deild fyrir alvarlega geðsjúka en sakhæfa einstaklinga og efling barna- og unglingageðdeildar.
    Margrét Frímannsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir og Þuríður Backmann skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Fyrirvarar þeirra varða m.a. aðhaldsaðgerðir sem beita á, einkum hækkun komugjalda á heilsugæslustöðvar. Leggjast þær gegn þessari hækkun enda munu þær bitna á barnafólki og þeim sem minna mega sín. Einnig gera þær athugasemdir við að ekki er að finna fjármuni til frekari uppbyggingar heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni. Þá er erfitt að ná heildarsýn yfir allan málaflokkinn hvað varðar stofnanir og ýmis verkefni og þær benda á að erfitt er að sjá á hvaða verkefni er verið að byrja og af hverju. Nærtækasta dæmið um það er framlag til uppbyggingar deildar fyrir alvarlega geðsjúka sakhæfa einstaklinga. Telja þær óeðlilegt að sú uppbygging eigi ekki að fara fram á réttargeðdeildinni að Sogni, þar sem nú er vistun fyrir geðsjúka ósakhæfa einstaklinga, því að þar sé öll sérþekking þegar til staðar.
    Ágúst Ólafur Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    

Alþingi, 12. nóv. 2003.



Jónína Bjartmarz, form.


Drífa Hjartardóttir.
Margrét Frímannsdóttir, með fyrirvara.
Pétur H. Blöndal.
Þuríður Backman, með fyrirvara.
Sigríður A. Þórðardóttir.
Dagný Jónsdóttir.
Guðrún Ögmundsdóttir, með fyrirvara.


Fylgiskjal XI.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá samgöngunefnd.



    Samgöngunefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 8. október sl.
    Nefndin fékk á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Halldór S. Kristjánsson og Odd Einarsson frá samgönguráðuneyti og gerðu þau grein fyrir þeim liðum frumvarpsins sem snerta ráðuneytið. Framsetningu kaflans hefur verið breytt frá síðasta ári þannig að skipting liða er skýrari en hún var.
    Nefndin leggur ekki til breytingar á þeim liðum frumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar.
    Tvö erindi bárust nefndinni til umfjöllunar undir safnliðnum 10-190-1.12, Vetrarsamgöngur og vöruflutningar. Annað er frá Árneshreppi, sem hefur fengið styrk af þessum safnlið á síðustu árum enda samgöngur oft mjög erfiðar þar á veturna. Hin er frá Djúpavogshreppi. Nefndin telur fulla ástæðu til að báðar umsóknirnar hljóti jákvæða afgreiðslu en þar sem skiptingu liðarins hefur verið breytt á síðustu árum telur nefndin rétt að vísa erindunum aftur til fjárlaganefndar.
    Nefndin leggur til að af safnliðnum 10-190-1.42, Gestastofur, söfn og markaðsstarf, fái Þórbergssetur á Hala í Suðursveit styrk til uppbyggingar. Nefndin mælir einnig með styrkveitingu til ferðamálanefndar Austur-Flóa og hreppsnefndar Kelduneshrepps til uppbyggingar á aðstöðu fyrir ferðamenn.
    Nefndin leggur til að af lið 10-190-1.45, Söfn tengd samgöngum og ferðaþjónustu, fái samgönguminjasafnið Ystafelli 1 millj. kr. styrk, Véla- og samgönguminjasafnið að Stóragerði í Óslandshlíð í Skagafirði 1 millj. kr. og Ferðaþjónustan Grunnavík ehf. 0,8 millj. kr.
    Nefndin leggur til styrkveitingu af lið 10-190-1.90, Ýmislegt, til Svifflugfélags Íslands og Jónasar Sigurðssonar til að setja upp í Kiðagili myndasýningu frá fyrstu bílferðinni yfir Sprengisand.
    Heiðar Marteinsson óskaði eftir styrk til myndasafns úr atvinnusögu landsins. Nefndin vísar beiðninni til fjárlaganefndar þar sem skriflegt erindi hefur ekki borist.
    Nefndin vill vekja athygli fjárlaganefndar og samgönguráðuneytis á því að hún telur ástæðu til að móta heildarstefnu í styrkveitingum til aðila sem vinna að uppbyggingu ferðamála hjá einstökum sveitarfélögum eða í tilteknum landshlutum.
    Guðmundur Hallvarðsson, formaður, Birkir J. Jónsson og Einar Már Sigurðarson skrifa undir álitið með fyrirvara þar sem þeir sitja í fjárlaganefnd.

Alþingi, 11. nóv. 2003.

Guðmundur Hallvarðsson, form., með fyrirvara.
Kristinn H. Gunnarsson.
Guðjón Hjörleifsson.
Ásta R. Jóhannesdóttir.

Birkir J. Jónsson, með fyrirvara.
Einar Már Sigurðarson, með fyrirvara.
Guðjón A. Kristjánsson.
Jóhann Ársælsson.
Sigurrós Þorgrímsdóttir.



Fylgiskjal XII.


Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 (11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá iðnaðarnefnd.


    Iðnaðarnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 8. október 2003.
    Nefndin fékk á sinn fund Kristján Skarphéðinsson, Helga Bjarnason, Sigurrós Hilmarsdóttur og Pétur Örn Sverrisson frá iðnaðarráðuneyti og skýrðu þau þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess.
    Nefndinni hefur borist meðfylgjandi svar frá fjármálaráðuneyti þar sem óskað var skýringa á lið 7.10 í heimildagrein fjárlagafrumvarps fyrir árið 2004, sem heimilar fjármálaráðherra að leggja fram viðbótarhlutafé í Eignarhaldsfélag Suðurnesja hf.
    Nefndin bendir á að á síðasta ári voru felld niður framlög til eignarhaldsfélaga fyrir milligöngu Byggðastofnunar. Engu að síður telur nefndin skynsamlegt að verja fé til atvinnuuppbyggingar með framlögum úr ríkissjóði til eignarhaldsfélaga með skilyrði um mótframlög annarra hluthafa eignarhaldsfélaganna. Nefndin styður því framlag til Eignarhaldsfélags Suðurnesja en telur bæði rétt og skylt að sambærileg framlög renni til annarra eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni til atvinnuuppbyggingar.
    Þá telur nefndin nauðsynlegt að staðið verði við þær áætlanir í húsnæðismálum Orkustofnunar sem koma fram í áliti meiri hluta fjárlaganefndar Alþingis vegna afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2003, þ.e. að veitt verði 100 millj. kr. tímabundið framlag í þrjú ár til viðgerða og viðhalds á fasteign ríkisins að Grensásvegi 9, sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.
     Bjarni Benediktsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Sigurrós Þorgrímsdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Við afgreiðslu málsins voru fjarverandi Einar Oddur Kristjánsson og Sigurjón Þórðarson.
    Steingrímur J. Sigfússon sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er hann með fyrirvara við álit þetta.
    

Alþingi, 12. nóv. 2003.

Kristinn H. Gunnarsson, form.
Bjarni Benediktsson, með fyrirvara.
Kristján L. Möller.
Ásta R. Jóhannesdóttir.
Sigurður Kári Kristjánsson, með fyrirvara.
Sigurrós Þorgrímsdóttir, með fyrirvara.
Brynja Magnúsdóttir.

Fskj.

Bréf fjármálaráðuneytis.


(7. nóvember 2003.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



F.h.r.
Baldur Guðlaugsson.



Fylgiskjal XIII.

Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 8. október sl.
    Á fund nefndarinnar komu Þórður H. Ólafsson frá umhverfisráðuneyti, Ingvar A. Sigurðsson, Menja von Schmalensee og Róbert A. Stefánsson frá Samtökum náttúrustofa, Magnús Jónsson frá Veðurstofu Íslands, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Stefán Thors frá Skipulagsstofnun og Elín Guðmundsdóttir og Þórey I. Guðmundsdóttir frá Umhverfisstofnun.
    Útgjöldum umhverfisráðuneytisins er skipt í fjóra helstu málaflokka í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2004, sem eru rannsóknir, skipulagsmál, ráðuneyti og umhverfisvernd. Sá síðastnefndi er langstærstur og telur um 60% af útgjöldum ráðuneytisins. Innan hans er m.a. Umhverfisstofnun, sem tók til starfa um síðustu áramót, en í henni sameinuðust Náttúruvernd ríkisins, Hollustuvernd ríkisins, veiðistjóraembættið og stjórnsýsluhluti hreindýraráðs. Umhverfisstofnun er ung stofnun sem byggist á gömlum grunni og er enn að móta áherslur í starfi sínu. Fram kom hjá fulltrúum hennar að stofnunin leggi sérstaka áherslu á náttúruverndarþáttinn. Á þessu ári var sett aukið fé í þjóðgarða og starfsmönnum fjölgað um þrjá í þjóðgörðum landsins jafnframt því sem landvarsla var aukin. Þá verður gestastofa opnuð á Hellnum í þjóðgarðinum Snæfellsjökli á næsta ári. Að mati meiri hlutans er mikilvægt að stofnunin geri þessum þætti hátt undir höfði. Í starfi hennar er einnig lögð áhersla á vinnu vegna EES- gerða, gerð náttúruverndaráætlunar og á þann þátt starfseminnar sem varðar villt dýr.
    Náttúruverndaráætlun verður lögð fyrir þetta löggjafarþing í fyrsta skipti skv. 65. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, en drög hennar voru lögð fyrir umhverfisþing sem haldið var í október. Gert er ráð fyrir fjárveitingu vegna framkvæmdar hennar í framlagi til Umhverfisstofnunar. Nefndin fær náttúruverndaráætlun til umfjöllunar í formi þingsályktunartillögu á þessu þingi. Meiri hlutinn leggur áherslu á að tryggilega verði gengið frá fjárveitingum vegna hennar.
    Á nýafstöðnu umhverfisþingi kom það skýrt fram að eitt brýnasta verkefnið á sviði umhverfisverndar væri vinna að kortagerð. Nú er mjög mikilvægt að ljúka gerð korta um náttúrufar og vistgerðir landsins en vinna við þróun aðferðafræði við slíka kortlagningu hófst árið 1999. Þeirri þróunarvinnu er nú lokið og því brýnt að setja peninga í vinnuna sjálfa en í fjárlögum er ekkert framlag til þessa verkefnis sem kostar 3,5–5 millj. kr. á ári.
    Nefndin ræddi málefni náttúrustofa. Lögum um þær var breytt á síðasta ári þannig að nú eru náttúrustofur starfræktar á ábyrgð sveitarfélaga sem gert hafa samning við umhverfisráðherra um rekstur slíkrar stofu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir lögbundnum fjárveitingum til þeirra náttúrustofa sem starfa samkvæmt slíkum samningi. Meiri hluti nefndarinnar lítur svo á að það sé fyrst og fremst ákvörðun þeirra sveitarfélaga sem standa að hverri náttúrustofu hvernig staðið sé að rekstri hennar.

Alþingi, 11. nóv. 2003.



Sigríður A. Þórðardóttir, form.
Rannveig Guðmundsdóttir.
Dagný Jónsdóttir.
Kjartan Ólafsson.
Bryndís Hlöðversdóttir.
Gunnar Birgisson.
Mörður Árnason.
Drífa Hjartardóttir.



Fylgiskjal XIV.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 8. október sl.
    Á fund nefndarinnar komu Þórður H. Ólafsson frá umhverfisráðuneyti, Ingvar A. Sigurðsson, Menja von Schmalensee og Róbert A. Stefánsson frá Samtökum náttúrustofa, Magnús Jónsson frá Veðurstofu Íslands, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Stefán Thors frá Skipulagsstofnun og Elín Guðmundsdóttir og Þórey I. Guðmundsdóttir frá Umhverfisstofnun.
    Fram kom hjá fulltrúum Umhverfisstofnunar að stofnunin leggur sérstaka áherslu á náttúruverndarþáttinn í starfi sínu. Á þessu ári var sett aukið fé í þjóðgarða og starfsmönnum fjölgað um þrjá í þjóðgörðum landsins jafnframt því sem landvarsla var aukin. Þá verður gestastofa opnuð á Hellnum í þjóðgarðinum Snæfellsjökli á næsta ári. Rétt er að fagna því að hlutur náttúruverndar skuli hafi aukist í hinni nýju stofnun frá því sem var meðan Náttúruvernd ríkisins sá um þennan málaflokk, en á sama tíma er það alvarlegt að málefni dýraverndar skuli þurfa að sitja á hakanum. Sérstaklega ber að fagna áformum um gestastofu á Hellnum sem þjóna mun gestum þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Fram kom í máli gesta nefndarinnar að stofnunin hafi sótt um aukið fjármagn til þriggja afmarkaðra þátta: Í fyrsta lagi til þess að geta staðið undir því mikla starfi sem fólgið er í þýðingu og innleiðingu EES-gerða á sviði stofnunarinnar, í öðru lagi vegna væntanlegrar stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs og í þriðja lagi vegna villtra dýra. Minni hlutinn leggur til að fjárlaganefnd sinni þessari beiðni og hækki fjárheimildir til stofnunarinnar.
    Það kom fram í máli forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands að stofnunin hafi fengið fjárframlög til undirbúnings gerðar náttúrufarskorta, en nú væri ekki gert ráð fyrir áframhaldandi framlagi þegar komið væri að hinni eiginlegu vinnu. Í ljósi þess hversu mikilvægt verk er hér komið á rekspöl leggur minni hlutinn til að fjárlaganefnd hugi sérstaklega að þessum þætti við endanlegar ákvarðanir um fjárframlög til stofnunarinnar. Það skýtur skökku við að stofnun sem hefur það hlutverk að sinna slíkum grundvallaratriðum við rannsóknir og kortlagningu náttúru Íslands skuli þurfa að segja upp starfsfólki sem hefur næg aðkallandi verkefni, en eins og kunnugt er þurfti að segja upp sex starfsmönnum í upphafi þessa árs og að óbreyttu stefnir í einhverjar uppsagnir í upphafi næsta árs. Til að klára vistgerðaflokkun og gerð náttúrufarskorta væri hægt að ljúka kortlagningu landsins á 4–5 árum, en þá þyrfti stofnunin 30 millj. kr. á ári í það verkefni.
    Þá ber að nefna þátt náttúrustofanna sem starfa samkvæmt lögum nr. 60/1992. Það kom fram í máli gesta nefndarinnar að framlag það sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir til stofanna uppfyllir ekki skilyrði laganna. Þannig vanti 3,3 millj. kr. upp á framlag til hverrar stofu fyrir sig til að framlagið standi undir því sem því er ætlað samkvæmt lögunum. Um fjárframlag ríkisins til stofanna segir eftirfarandi í lögunum: „Framlag ríkissjóðs til náttúrustofu er ákveðið í fjárlögum hverju sinni og miðast við fjárhæð sem nemur launum forstöðumanns í fullu starfi að viðbættri fjárhæð sem er allt að jafnhá þeirri fjárhæð og rennur hún til reksturs náttúrustofu.“ Um þessar mundir eru laun líffræðinga í stjórnunarstörfum á borð við forstöðumannsstarfið 5,8 millj. kr. á ári með launatengdum gjöldum. Þannig ætti framlag ríkisins að vera 11,6 millj. kr. á hverja stofu í stað 7,7 millj. kr. eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Loks skal gerð athugasemd við það að ekki er gert ráð fyrir framlagi til náttúrustofunnar á Húsavík, sem þó er í bígerð. Mun samningur um þá stofu vera tilbúinn til undirskriftar og hlýtur því að þurfa að áætla fyrir framlagi á fjárlögum.
    Varðandi afgreiðslu safnliða vill minni hlutinn leggja áherslu á að náttúruverndarsamtök ber að styrkja með opinberum framlögum og tryggja það að bróðurparturinn fari til almenns rekstrar eða óskilgreindra verkefna. Það er ófært að ráðherra sé ritstjóri þeirra verkefna sem frjáls félagasamtök á sviði náttúruverndar leggja út í. Slík samtök eiga eðli máls samkvæmt að veita stjórnvöldum aðhald og því er mikilvægt að tryggja sjálfstæði þeirra, enda er mikilvægi þess áréttað í Árósasamningnum sem samstarfsyfirlýsing ráðuneytisins og frjálsu félagasamtakanna grundvallast á.

Alþingi, 11. nóv. 2003.

Kolbrún Halldórsdóttir.