Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 338. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 412  —  338. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
     7.      samning um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu, þ.e. meginmál samningsins og viðauka, sem gerður var í Lúxemborg 14. október 2003.

2. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    1. mgr. 2. gr. samningsins, sem vísað er til í 7. tölul. 1. gr., um aðild nýrra samningsaðila að Evrópska efnahagssvæðinu, skal hafa lagagildi hér á landi.
    Þau ákvæði samningsins, sem vísað er til í 5. mgr., eru prentuð sem fylgiskjal VI með lögum þessum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.



Fylgiskjal VI.


1. MGR. 2. GR. AÐILDARSAMNINGS EES


2. gr.

1. AÐLÖGUN MEGINMÁLS EES-SAMNINGSINS
     a)      Eftirfarandi komi í stað skrárinnar yfir samningsaðila:
                „EVRÓPUBANDALAGIÐ,
                KONUNGSRÍKIÐ BELGÍA,
                LÝÐVELDIÐ TÉKKLAND,
                KONUNGSRÍKIÐ DANMÖRK,
                SAMBANDSLÝÐVELDIÐ ÞÝSKALAND,
                LÝÐVELDIÐ EISTLAND,
                LÝÐVELDIÐ GRIKKLAND,
                KONUNGSRÍKIÐ SPÁNN,
                LÝÐVELDIÐ FRAKKLAND,
                ÍRLAND,
                LÝÐVELDIÐ ÍTALÍA,
                LÝÐVELDIÐ KÝPUR,
                LÝÐVELDIÐ LETTLAND,
                LÝÐVELDIÐ LITHÁEN,
                STÓRHERTOGADÆMIÐ LÚXEMBORG,
                LÝÐVELDIÐ UNGVERJALAND,
                LÝÐVELDIÐ MALTA,
                KONUNGSRÍKIÐ HOLLAND,
                LÝÐVELDIÐ AUSTURRÍKI,
                LÝÐVELDIÐ PÓLLAND,
                LÝÐVELDIÐ PORTÚGAL,
                LÝÐVELDIÐ SLÓVENÍA,
                LÝÐVELDIÐ SLÓVAKÍA,
                LÝÐVELDIÐ FINNLAND,
                KONUNGSRÍKIÐ SVÍÞJÓÐ,
                HIÐ SAMEINAÐA KONUNGSRÍKI STÓRA-BRETLANDS OG NORÐUR- ÍRLANDS,
                OG
                LÝÐVELDIÐ ÍSLAND,
                FURSTADÆMIÐ LIECHTENSTEIN,
                KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR,“
     b)      2. gr.
             i.        Í stað textans í b-lið komi eftirfarandi:
                  „Hugtakið „EFTA-ríki“ merkir Lýðveldið Ísland, Furstadæmið Liechtenstein og Konungsríkið Noreg;“.
             ii.    Í c-lið falli brott orðin „og stofnsáttmála Kola- og stálbandalags Evrópu“.
             iii.    Eftirfarandi málsgrein bætist við:
                  „d)        Hugtakið „aðildarlögin frá 16. apríl 2003“ merkir lögin um aðildarskilmála Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu og um aðlögun sáttmálanna sem mynda grundvöll Evrópusambandsins sem voru samþykkt í Aþenu 16. apríl 2003“.
     c)      109. gr.
             Í 1. mgr. falli brott orðin „ , stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins“.
     d)      117. gr.
             Í stað textans í 117. gr. komi eftirfarandi:
             „Ákvæði um fjármagnskerfin er að finna í bókun 38 og bókun 38a.“
     e)      121. gr.
             Liður c falli brott.
     f)      126. gr.
             Eftirfarandi breytingar skulu gerðar á 1. mgr.:
             i.        Í stað orðanna „og stofnsáttmáli Kola- og stálbandalags Evrópu taka til“ komi orðin „tekur til“.
             ii.    Þessi breytingarliður á ekki við um íslensku útgáfuna.
             iii.    Í stað orðanna „Lýðveldisins Austurríkis, Lýðveldisins Finnlands, Lýðveldisins Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins, Konungsríkisins Noregs, Konungsríkisins Svíþjóðar“ komi orðin „Lýðveldisins Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins og Konungsríkisins Noregs“.
     g)      129. gr.
             i.        Eftirfarandi málsliður bætist við á eftir fyrsta málslið 1. mgr.:
                  „Vegna stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins skulu útgáfur af samningi þessum á eistnesku, lettnesku, litháísku, maltnesku, pólsku, slóvakísku, slóvensku, tékknesku og ungversku vera jafngildar.“
             ii.    Eftirfarandi komi í stað málsliðarins sem nú er þriðji málsliður 1. mgr.:
                  „Textar gerða, sem vísað er til í viðaukunum, eru jafngildir á dönsku, eistnesku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, ítölsku, lettnesku, litháísku, maltnesku, pólsku, portúgölsku, slóvakísku, slóvensku, spænsku, sænsku, tékknesku, ungversku og þýsku eins og þeir birtast í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, og skulu með tilliti til jafngildingar gerðir á íslensku og norsku og birtir í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.“

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.



I. INNGANGUR


1. Aðildarsamningur EES.
    Með frumvarpi þessu er leitað eftir heimild Alþingis til að fullgilda samning um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu, sem hér eftir verður nefndur „aðildarsamningur EES“. Jafnframt er lagt til að þær breytingar sem gerðar eru á meginmáli EES-samningsins með aðildarsamningnum hafi lagagildi hér á landi.
    Þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var fullgiltur fyrir Íslands hönd var farin sú leið að leita lagaheimildar fyrir fullgildingu hans og lögfesta meginmál samningsins. Í samræmi við það er lagt til að sami háttur verði hafður á varðandi aðildarsamning EES, enda felur aðildarsamningurinn í sér breytingar á ákvæðum meginmáls EES-samningsins.
    Aðildarsamningur EES var gerður í Lúxemborg 14. október 2003. Vegna ágreinings milli Liechtenstein annars vegar og Tékklands og Slóvakíu hins vegar um viðurkenningu fullveldis Liechtenstein var samningurinn ekki undirritaður fyrir Íslands hönd fyrr en 11. nóvember 2003 í Vaduz, höfuðborg Liechtenstein. Eigi að síður skal vísa til fyrri dagsetningarinnar hvað formlega gerð samningsins varðar.
    Aðilar samningsins eru Evrópubandalagið, aðildarríki þess (hér eftir nefnd ESB-ríkin eða aðildarríki ESB), Lýðveldið Ísland, Furstadæmið Liechtenstein, Konungsríkið Noregur (hér eftir nefnd EES–EFTA-ríkin) og Lýðveldið Tékkland, Lýðveldið Eistland, Lýðveldið Kýpur, Lýðveldið Lettland, Lýðveldið Litháen, Lýðveldið Ungverjaland, Lýðveldið Malta, Lýðveldið Pólland, Lýðveldið Slóvenía og Lýðveldið Slóvakía (hér eftir nefnd nýju aðildarríkin eða nýju samningsaðilarnir). Aðildarsamningur EES, ásamt lokagerð, er birtur í fylgiskjali I með frumvarpi þessu. Fylgisamningarnir fylgja með lokagerð aðildarsamningsins. Á lestrarsal Alþingis munu auk þess liggja frammi aðildarsáttmáli ESB og meginmál aðildarlaganna ásamt þeim ákvæðum þeirra sem vísað er til í viðaukum A og B við aðildarsamning EES. Einnig má nálgast aðildarsáttmála ESB, meginmál aðildarlaganna og þau ákvæði þeirra sem vísað er til í viðaukum A og B við aðildarsamning EES á vefsetri utanríkisráðuneytisins (http://www.utanrikisraduneyti.is).

2. EES-samningurinn.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var undirritaður í Óportó hinn 2. maí 1992. Var samningurinn fullgiltur af Íslands hálfu með heimild í lögum nr. 2 13. janúar 1993. Meginmarkmið samningsins er að mynda öflugt og einsleitt evrópskt efnahagssvæði er grundvallast á sameiginlegum reglum og sömu samkeppnisskilyrðum, tryggri framkvæmd, m.a. fyrir dómstólum, og jafnrétti, gagnkvæmni og heildarjafnvægi hagsbóta, réttinda og skyldna samningsaðila. Samningurinn takmarkar hins vegar ekki sjálfræði samningsaðila til ákvarðanatöku eða rétt þeirra til að gera samninga, með þeim takmörkunum sem leiðir af ákvæðum samningsins og almennum reglum þjóðaréttarins.
    Í meginatriðum má segja að EES-samningurinn tryggi EES–EFTA-ríkjunum þátttöku í innri markaði Evrópusambandsins, án þess EFTA-ríkin teljist vera fullgildir aðilar að Evrópusambandinu með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Með innri markaði Evrópusambandsins er stefnt að því að koma á frjálsum viðskiptum með vörur og þjónustu, frjálsum fjármagnsflutningum, sameiginlegum vinnumarkaði, sameiginlegum samkeppnisreglum og sameiginlegum reglum um ríkisaðstoð. EES-samningurinn endurspeglar því reglur Evrópusambandsins á þessum sviðum.
    Sjálfur EES-samningurinn skiptist í meginmál, sem er í 129 greinum, 49 bókanir og 22 viðauka, auk nokkurs fjölda yfirlýsinga og samþykkta. Samkvæmt 98. gr. EES-samningsins er sameiginlegu EES-nefndinni heimilt að breyta viðaukum við samninginn og nánar tilgreindum bókunum við hann. Er það gert til þess að hægt sé að fella inn í EES-samninginn nýja löggjöf Evrópusambandsins á þeim sviðum sem EES-samningurinn tekur til. Hins vegar verður ekki gerð breyting á sjálfu meginmáli samningsins nema samningsaðilar geri með sér sérstakan samning um slíkar breytingar.
    Rétt er að árétta að það er forsenda fyrir þátttöku EES–EFTA-ríkjanna í innri markaði Evrópusambandsins að sömu reglur gildi á öllum innri markaðinum. EES-samningurinn tryggir þetta samræmi með tvennum hætti. Annars vegar eru ákvæði meginmáls EES- samningsins samhljóða sambærilegum ákvæðum stofnsáttmála Evrópubandalagsins (Rómarsáttmálans) eins og þau voru við undirritun EES-samningsins. Hins vegar ber að fella inn í EES-samninginn löggjöf Evrópusambandsins á þeim sviðum sem samningurinn tekur til. Er vísað til þessarar löggjafar í viðaukum og bókunum við EES-samninginn. Þegar ný löggjöf bætist við á þessu sviði eða þegar samþykktar eru breytingar á eldri reglum skal sameiginlega EES-nefndin gera viðeigandi breytingu á viðaukum eða bókunum EES- samningsins. Er þannig tryggt að sömu reglur gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu á þeim sviðum sem EES-samningurinn tekur til.
    Við undirritun EES-samningsins voru aðilar samningsins Efnahagsbandalag Evrópu, Kola- og stálbandalag Evrópu, þau 12 ríki sem þá áttu aðild að EB og EFTA-ríkin Austurríki, Finnland, Ísland, Liechtenstein, Noregur, Svíþjóð og Sviss. Aðild Sviss að EES-samningnum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu þar í landi og var því nauðsynlegt að aðlaga meginmál samningsins að þeirri staðreynd. Samþykktu samningsaðilarnir bókun um breytingu á EES- samningnum af þeim sökum og fékkst heimild Alþingis til að fullgilda bókunina með lögum nr. 66 6. maí 1993. Ekki var hins vegar gerð sambærileg aðlögun á meginmáli EES- samningsins við inngöngu Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar í Evrópusambandið árið 1995.


II. AÐDRAGANDI AÐILDARSAMNINGS EES


1. Ákvæði 128. gr. EES-samningsins.
    Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 128. gr. EES-samningsins getur aðild nýrra samningsaðila komið til með tvennum hætti. Annars vegar er ríki sem gengur í EFTA heimilt að sækja um aðild að EES-samningnum. Hins vegar er ríki sem gerist aðili að Evrópusambandinu skylt að gerast jafnframt aðili að EES-samningnum. Helgast þessi munur af því að ný aðildarríki Evrópusambandsins verða sjálfkrafa aðilar að innri markaðinum og því nauðsynlegt að þau séu einnig aðilar að EES-samningnum. Það er hins vegar sjálfstæð ákvörðun nýs EFTA-ríkis hvort það sækist eftir þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu.
    Samkvæmt 2. mgr. 128. gr. skulu samningsaðilar og umsóknarríki gera með sér samkomulag um skilmála og skilyrði fyrir slíkri aðild. Af þessum sökum er nauðsynlegt að gera sérstakan samning um aðild nýrra samningsaðila að EES-samningnum. Þá leiðir jafnframt af öðrum ákvæðum í meginmáli EES-samningsins að ef nýtt ríki gerist aðili að samningnum er nauðsynlegt að gera aðlaganir á meginmáli hans. Að öðru leyti er ekki að finna ákvæði í EES-samningnum um efni eða form slíks aðildarsamnings. Aðilar að slíkum aðildarsamningi eru núverandi samningsaðilar (þ.e. Evrópubandalagið sjálft, aðildarríki þess og EFTA-ríkin) og hinir nýju samningsaðilar.

2. Stækkun Evrópusambandsins – aðildarsáttmáli Evrópusambandsins.
a) Forsaga stækkunar ESB.
    Hinn 16. apríl 2003 var í Aþenu undirritaður sáttmáli um aðild Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu sem hér eftir verður nefndur „aðildarsáttmáli ESB“.
    Þessi stækkun Evrópusambandsins er sú umfangsmesta frá upphafi. Eftir stækkunina verður Evrópusambandið að sambandi 25 þjóðríkja í Evrópu með um 450 milljónir íbúa. Á stækkunin nú sér nokkurn sögulegan aðdraganda. Má rekja hana aftur til loka kalda stríðsins og endurreisnar lýðræðis í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu undir lok níunda áratugar síðustu aldar. Eftir að ríkin í austurvegi endurheimtu stjórnarfarslegt sjálfstæði sitt hafa þau lagt á það ríka áherslu að verða fullgildir þátttakendur í samvinnu og samstarfi Evrópuþjóða. Hafa þau litið á aðild að Evrópusambandinu sem mikilvægan áfanga á þeirri leið.
    Leiðtogar Evrópusambandsins ákváðu á fundi sínum í Kaupmannahöfn árið 1993 að þeim ríkjum Mið- og Austur-Evrópu sem kysu að sækjast eftir aðild að ESB skyldi vera gefinn kostur á því. Á leiðtogafundinum í Kaupmannahöfn voru jafnframt sett fram helstu skilyrðin fyrir aðild að Evrópusambandinu. Meginskilyrðið er virðing fyrir lýðræði og mannréttindum. Þá þarf ríki sem sækist eftir inngöngu í Evrópusambandið að búa við pólitískan stöðugleika, lýðræði og réttarríki og virða réttindi minnihlutahópa. Enn fremur þarf nýtt aðildarríki að búa við markaðsbúskap og vera í stakk búið til að taka þátt í innri markaðinum. Að lokum þarf nýtt aðildarríki að geta lagt sitt af mörkum til framtíðarþróunar sambandsins. Þessi skilyrði eru jafnan kennd við fyrrgreindan fundarstað leiðtoganna og nefnd „Kaupmannahafnar- skilyrðin“.
    Á fundi leiðtoga Evrópusambandsins í Lúxemborg árið 1997 var ákveðið að hefja stækkunarferli ESB með formlegum hætti. Ári síðar hófust formlegar aðildarviðræður við Eistland, Pólland, Slóveníu, Tékkland, Ungverjaland og Kýpur. Er þessi hópur ríkja yfirleitt kenndur við leiðtogafundinn í Lúxemborg og kallaður Lúxemborgar-hópurinn. Á leiðtogafundinum í Helsinki árið 1999 var ákveðið að hefja jafnframt samningaviðræður við Búlgaríu, Lettland, Litháen, Rúmeníu, Slóvakíu og Möltu. Þessi hópur ríkja nefnist Helsinki- hópurinn og hófust viðræður um aðild þessara ríkja um mitt árið 2000. Öll framangreind ríki voru talin uppfylla hin stjórnarfarslegu skilyrði fyrir aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar var talið vafasamt að Búlgaríu og Rúmeníu tækist að uppfylla efnahagsleg skilyrði aðildar.
    Samningaviðræður um aðild umsóknarríkjanna að Evrópusambandinu voru bæði tímafrekar og vandasamar. Eru skýringar þess vafalaust margvíslegar. Í fyrsta lagi má benda á að aldrei áður hefur Evrópusambandið átt í viðræðum um aðild jafn margra ríkja í einu. Í öðru lagi er rétt að hafa í huga að flest umsóknarríkjanna standa núverandi aðildarríkjum nokkuð að baki í efnahagslegu tilliti og hvað varðar þróun markaðsbúskapar. Hafa ber í huga að við aðild að Evrópusambandinu verður nýtt aðildarríki að taka yfir alla gildandi löggjöf Evrópusambandsins. Í mörgum tilfellum var hins vegar nauðsynlegt að semja um aðlögun á löggjöf Evrópusambandsins gagnvart umsóknarríkjunum. Þar sem löggjöf Evrópusambandsins spannar vítt svið og ríkin sem sátu að samningaborðinu hafa ólíkra hagsmuna að gæta var oft og tíðum vandfundin niðurstaða sem allir gátu sætt sig við. Sum málefni reyndust sérstaklega viðkvæm í þessum samningaviðræðum. Má þar nefna styrkveitingar til umsóknarríkjanna úr byggða- og þróunarsjóðum Evrópusambandsins, þátttaka umsóknarríkjanna í sameiginlegri landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins og frjáls för launþega frá umsóknarríkjunum til núverandi aðildarríkja Evrópusambandsins.
    Samningaviðræðunum lauk síðan á leiðtogafundi Evrópusambandsins í Kaupmannahöfn í desember 2002 þar sem endanlegt samkomulag náðist um aðild umsóknarríkjanna að Evrópusambandinu, að Búlgaríu og Rúmeníu undanskildum. Stefnt er að því að ljúka samningum við þau ríki árið 2007. Á grundvelli samkomulagsins sem náðist í Kaupmannahöfn var aðildarsáttmáli við nýju aðildarríkin undirritaður í Aþenu þann 16. apríl 2003.

b) Aðildarsáttmálinn og aðildarlögin.
    Samningurinn um inngöngu Tékklands, Eistlands, Kýpur, Lettlands, Litháens, Ungverjalands, Möltu, Póllands, Slóveníu og Slóvakíu sem undirritaður var í Aþenu er nefndur aðildarsáttmálinn. Sjálft meginmál aðildarsáttmálans er fremur stutt, í raun aðeins þrjár efnisgreinar. Er þar kveðið á um aðild áðurnefndra ríkja að Evrópusambandinu og þá um leið að þessi ríki gerist aðilar að stofnsáttmálum Evrópusambandsins. Nánari ákvæði um aðild þessara ríkja að Evrópusambandinu er hins vegar að finna í svonefndum aðildarlögum. Aðildarlögin er að finna í viðauka við aðildarsáttmálann og eru því hluti hans. Í aðildarlögunum er að finna nánari skilmála fyrir inngöngu þessara ríkja í Evrópusambandið. Er þar m.a. mælt fyrir um aðlögun að löggjöf Evrópusambandsins vegna aðildar nýju aðildarríkjanna að sambandinu. Eru aðildarlögin af þeim sökum talsvert yfirgripsmikil.

3. Viðræður um stækkun EES.
    Eins og áður er getið er nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins skylt að sækja um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu skv. 128. gr. EES-samningsins. Af þessum sökum var nauðsynlegt að hefja viðræður um þátttöku nýju aðildarríkjanna í Evrópska efnahagssvæðinu um leið og samkomulag hafði náðst um aðild þeirra að Evrópusambandinu. Hófust þær viðræður í byrjun janúar 2003.
    Meginmarkmið viðræðnanna var að tryggja samhliða stækkun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins þannig að nýju aðildarríkin yrðu samtímis aðilar að Evrópusambandinu og EES-samningnum. Í því skyni var nauðsynlegt að semja um þátttöku þessara ríkja í EES-samningnum og gera um leið nauðsynlegar breytingar á ákvæðum EES- samningsins. Í fyrsta lagi kallaði aðild nýju samningsaðilanna á aðlögun á meginmáli EES- samningsins. Í öðru lagi var nauðsynlegt að fella inn í EES-samninginn þær aðlaganir, sem gerðar eru á löggjöf Evrópusambandsins í aðildarlögunum, svo að tryggja mætti samræmda beitingu þessarar löggjafar á öllu efnahagssvæðinu. Segja má að í þessu felist að niðurstaða stækkunarviðræðna Evrópusambandsins sé felld inn í EES-samninginn, að svo miklu leyti sem það er nauðsynlegt. Í meginatriðum var hér fyrst og fremst um að ræða lagatæknilega uppfærslu á EES-samningnum vegna stækkunar Evrópusambandsins og gekk þessi þáttur viðræðnanna um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins snurðulaust fyrir sig.
    Helsta samningsmarkmið Íslands í stækkunarviðræðunum var að tryggja að stækkun Evrópska efnahagssvæðisins mundi ekki leiða til slakari viðskiptakjara en fríverslunarsamningar EFTA-ríkjanna við nýju samningsaðilanna höfðu þegar tryggt. Af þeim sökum lögðu Ísland og Noregur áherslu á frekari tollalækkanir vegna viðskipta með sjávarafurðir. Var sú krafa byggð á því að með aðild hinna nýju aðildarríkja að Evrópusambandinu mundu fríverslunarsamningar sem flest þessara ríkja höfðu gert við EFTA-ríkin falla úr gildi, en í þeim samningum var m.a. kveðið á um fulla fríverslun með sjávarafurðir. Lögðu bæði Noregur og Ísland ríka áherslu á að stækkun Evrópska efnahagssvæðisins yrði ekki til að hindra viðskipti með sjávarafurðir til nýju aðildarríkjanna. Sérstaklega hefðu slíkar tollahækkanir komið niður á útflutningi síldarafurða frá Íslandi til nýju aðildarríkjanna. Af hálfu Evrópusambandsins lagði framkvæmdastjórn þess hins vegar áherslu á aukin framlög EFTA-ríkjanna til þróunarsjóðs EFTA. Í upphafi viðræðnanna krafðist framkvæmdastjórnin því allt að 38-faldrar hækkunar á framlagi EES–EFTA-ríkjanna til þróunarsjóðsins. EES–EFTA-ríkin mótmæltu þessari kröfu og töldu að engar forsendur væru fyrir slíkum fjárkröfum af hálfu Evrópusambandsins.
    Í samningaviðræðunum reyndust þessi málefni því erfiðust viðfangs. Eftir þriggja mánaða samningaviðræður, þar sem lengst af bar himinn og haf milli aðila, virtist sameiginleg niðurstaða vera í sjónmáli í aprílbyrjun. Þegar til átti að taka hafði þó framkvæmdastjórninni láðst að tryggja sér stuðning hinna nýju samningsaðila við þá niðurstöðu. Það voru sérstaklega fiskinnflutningsþjóðirnar Pólland og Eystrasaltsríkin þrjú sem lýstu yfir óánægju sinni. Eftir tveggja mánaða viðræður þeirra í millum, einkum milli framkvæmdastjórnarinnar og Pólverja, náðist endanlegt samkomulag. Samningaviðræðunum lauk 3. júlí 2003 með áritun samnings um þátttöku nýju samningsaðilanna í EES. Samningurinn var gjörður í Lúxemborg 14. október 2003, af ástæðum sem áður hafa verið raktar var hann formlega undirritaður fyrir Íslands hönd 11. nóvember 2003 í Vaduz, höfuðborg Liechtenstein.

4. Niðurstaða samningaviðræðnanna.
    Niðurstaða samningaviðræðnanna gerir ráð fyrir því að stofnaður verði nýr þróunarsjóður EFTA (sem nefnist fjármagnskerfi EES í samningnum). Framlög EFTA-ríkjanna til sjóðsins verða fimmfalt hærri en þau hafa verið síðustu fimm árin. Er þessi niðurstaða fjarri upphaflegum kröfum Evrópusambandsins og verður hún í því ljósi að teljast viðunandi fyrir EES–EFTA-ríkin. Stærstur hluti framlags EES–EFTA-ríkjanna til þróunarsjóðsins, eða rúmlega 80 af hundraði, mun renna til hinna tíu nýju aðildarríkja Evrópusambandsins. Af hálfu Íslands var áhersla lögð á að þróunarsjóðurinn mundi einkum styrkja verkefni á sviði sjávarútvegs, hagnýtingar jarðhita og orkuvinnslu. Á þessum sviðum búa Íslendingar yfir reynslu og þekkingu sem við getum miðlað til nýju aðildarríkjanna.
    Þá gerir samkomulagið enn fremur ráð fyrir því að Evrópusambandið felli niður tolla á frosnum síldarsamflökum frá Íslandi. Hafa ber í huga að samkvæmt núgildandi fríverslunarsamningum Íslands við nýju samningsaðilana ber þessi afurð ekki tolla. Hins vegar hefði þessi afurð að öllu óbreyttu þurft að bera 15% toll við inngöngu nýju aðildarríkjanna í Evrópusambandið. Samkvæmt tölum útflytjenda frá árinu 2002 flutti Ísland út rúm 21.000 tonn af síldarsamflökum til þessara ríkja. Ef 15% tollur hefði verið greiddur af þeim útflutningi hefði hann numið 200–300 milljónum króna á ári. Þetta er rúmlega 90% af öllum þeim tollum sem á Ísland hefðu fallið hefðu viðskiptakjör EES-samningsins óbreytt komið í stað þeirra viðskiptakjara sem fríverslunarsamningar EFTA við nýju samningsaðilana mæla fyrir um. Af þeim sökum lagði Ísland ríka áherslu á afnám tolla á þessa afurð. Að lokum féllst Evrópusambandið á þessa kröfu Íslands. Aðildarsamningi EES fylgir því viðbótarbókun við fríverslunarsamning Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu frá 1972. Þar er mælt fyrir um að frosin síldarsamflök verði endurflokkuð í tollskrá ESB og munu þau eftir gildistöku samningsins fá sömu tollameðferð og frosin síldarflök.
    Ekki reyndist vera fyrir hendi grundvöllur til að ræða frekari lækkun eða niðurfellingu tolla á sjávarafurðir vegna andstöðu Spánverja og Portúgala sem höfnuðu algerlega slíkum hugmyndum nema undanþágur Íslands og Noregs frá fjárfestingum í sjávarútvegi yrðu samhliða teknar til skoðunar. Þess í stað varð samkomulag um að kvótar yrðu settir fyrir tollfrjáls viðskipti með helstu vörutegundir sem notið hefðu betri viðskiptakjara samkvæmt gildandi fríverslunarsamningum. Þetta gildir þó einungis um þær vörur sem í raun hafa verið einhver viðskipti með. Það þýðir að Íslendingar og Norðmenn fá nokkurn kvóta fyrir tollfrjáls viðskipti með heilfrysta síld og Norðmenn fyrir makríl og lítils háttar af rækju að auki. Í heild verður því að telja að niðurstaða samningaviðræðnanna um viðskipti með sjávarafurðir sé ásættanleg fyrir Íslendinga.
    Evrópusambandið gerði jafnframt kröfur um aukinn markaðsaðgang fyrir unnar og óunnar landbúnaðarafurðir. Íslensk stjórnvöld töldu hins vegar að viðræður um viðskipti með landbúnaðarvörur milli Íslands og Evrópusambandsins skyldu fara fram á grundvelli 19. gr. EES-samningsins. Féllst Evrópusambandið á þessa afstöðu og tók Ísland því ekki þátt í viðræðum um þessi málefni. Norðmenn féllust hins vegar á að veita ESB minni háttar kvóta fyrir tollfrjálsan innflutning landbúnaðarvara þar sem nýju aðildarríkin nutu betri viðskiptakjara fyrir þær gagnvart Noregi en EES-samningurinn veitir.


III. MEGINEFNI AÐILDARSAMNINGS EES


    Aðildarsamningi EES má skipta í fjóra meginhluta. Í fyrsta lagi er í 1. mgr. 2. gr. samningsins að finna ákvæði um nauðsynlegar breytingar á meginmáli EES-samningsins vegna aðildar nýju samningsaðilanna að samningnum. Í öðru lagi mælir 2. mgr. 2. gr. samningsins fyrir um breytingar á bókunum við samninginn. Í þriðja lagi er í viðaukum A og B við samninginn að finna nauðsynlegar aðlaganir á þeirri löggjöf Evrópusambandsins sem felld hefur verið inn í EES-samninginn. Í fjórða lagi fylgja aðildarsamningnum viðbótarsamningar sem gerðir voru samhliða aðildarsamningi EES. Þessir viðbótarsamningar teljist ekki hluti samningsins en eru eigi að síður hluti af þeirri pólitísku heildarlausn sem náðist með aðildarsamningi EES.

1. Aðlögun á meginmáli EES-samningsins.
    Þær breytingar á meginmáli EES-samningsins sem kveðið er á um í aðildarsamningnum eru fyrst og fremst tæknilegar uppfærslur á ákvæðum samningsins sem nauðsynlegar eru vegna þátttöku nýju samningsaðilanna í Evrópska efnahagssvæðinu. Að auki eru gerðar minni háttar breytingar á meginmáli samningsins til að aðlaga hann þeirri staðreynd að fyrrum EFTA-ríkin Austurríki, Finnland og Svíþjóð eru nú aðildarríki Evrópusambandsins og að tilvist Kola- og Stálbandalagsins, sem var sjálfstæður samningsaðili EES-samningsins, lauk þegar stofnsamningur þess féll úr gildi árið 2002.

2. Aðlögun á bókunum við EES-samninginn.
    Í aðildarsamningi EES er bætt tveimur nýjum bókunum við EES-samninginn. Annars vegar kemur ný bókun 38a um fjármagnskerfi EES, en þar er mælt fyrir um fjárhagslegan stuðning EES–EFTA-ríkjanna til fjárfestingar- og þróunarverkefna í einstökum aðildarríkjum Evrópusambandsins. Hins vegar er bætt við nýrri bókun, bókun 44. Þar er mælt fyrir um að EES–EFTA-ríkjunum skuli heimilt að beita öryggisákvæði EES-samningsins í þeim tilfellum sem verndarákvæði (öryggisákvæði) aðildarlaganna taka til. Enn fremur er gerð breyting á ákvæði um fjölda nefndarmanna í bókun 36 við EES-samninginn um stofnsamþykkt sameiginlegu EES-þingmannanefndarinnar.

3. Aðlögun á viðaukum EES-samningsins.
    Í viðaukum við EES-samninginn er að finna tilvísun til þeirrar löggjafar Evrópusambandsins sem felld hefur verið inn í EES-samninginn. Aðildarlögin mæla hins vegar fyrir um aðlögun á hluta löggjafar Evrópusambandsins. Er hér bæði um að ræða tæknilega aðlögun sem beinlínis er nauðsynleg vegna stækkunarinnar og einnig aðlögunarákvæði sem ástæða var talin að setja vegna aðstæðna í hinum nýju aðildarríkjum. Til að tryggja samræmda beitingu þessara reglna á öllu Evrópska efnahagssvæðinu er nauðsynlegt að fella breytingar af þessu tagi inn í EES-samninginn.
    Í viðaukum A og B við aðildarsamning EES er mælt fyrir um þær breytingar á viðaukum EES-samningsins sem nauðsynlegar eru sökum þeirrar aðlögunar á löggjöf Evrópusambandsins sem leiðir af aðildarlögunum. Í viðauka A er að finna tæknilegar aðlaganir en í viðauka B eru hins vegar ákvæði um efnislegar aðlaganir.

4. Fylgisamningar við aðildarsamning EES.
    Eins og getið var um hér að framan er stækkunarsamningur EES hluti af heildarlausn sem samningsaðilar náðu sín á milli vegna margvíslegra ágreiningsefna í samningaviðræðunum um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins. Með aðildarsamningi EES voru því gerðir fylgisamningar um málefni sem varða samskipti EES–EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið en falla eigi að síður utan gildissviðs EES-samningsins.
    Alls eru þessir fylgisamningar fjórir að tölu. Hins vegar er Ísland aðeins aðili að einum þessara samninga. Er þar um að ræða viðbótarbókun við fríverslunarsamning Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu frá 22. júlí 1972. Áður hefur verið fjallað um efni þessarar viðbótarbókunar.
    Hinir fylgisamningarnir þrír varða eingöngu Noreg. Er þar um að ræða sambærilega viðbótarbókun við fríverslunarsamning Noregs við Efnahagsbandalag Evrópu frá árinu 1973, samning í formi bréfaskipta milli Noregs og ESB um aukin tollfríðindi vegna innflutnings á tilteknum landbúnaðarafurðum frá löndum Evrópusambandsins til Noregs og tvíhliða samning Norðmanna og Evrópusambandsins um framlög Noregs til þróunarverkefna í nýju aðildarríkjunum.


IV. ATHUGASEMDIR VIÐ AÐILDARSAMNING EES


1. Inngangsorð samningsins.
    Inngangsorð samningsins eru almenns eðlis. Fyrst er vísað til þess að sáttmáli um aðild nýju samningsaðilanna að Evrópusambandinu hafi verið undirritaður í Aþenu þann 16. apríl 2003. Þá er vísað til ákvæðis 128. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og til þess að nýju samningsaðilarnir hafi sótt um að gerast aðilar að EES-samningnum. Þá er þar enn fremur tekið fram að fjalla skuli um skilyrði og skilmála fyrir slíkri þátttöku í samningi milli núverandi samningsaðila og umsóknarríkjanna.

2. Athugasemdir við 1. gr. samningsins.
    Í 1. gr. samningsins er kveðið á um að Tékkland, Eistland, Kýpur, Lettland, Litháen, Ungverjaland, Malta, Pólland, Slóvenía og Slóvakía skuli öðlast aðild að EES-samningnum.
    Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skulu ákvæði EES-samningsins vera skuldbindandi fyrir nýju ríkin um leið og samningurinn öðlast gildi, með áorðnum breytingum samkvæmt þeim ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem samþykktar voru fyrir 1. nóvember 2002. Hafa ber í huga að EES-samningurinn er síbreytilegur þar sem stöðugt er verið að bæta við samninginn nýrri löggjöf Evrópusambandsins. Af þeim sökum var nauðsynlegt að tiltaka við hvaða tímamark skyldi miða við gerð samningsins. Á seinni stigum mun sameiginlega EES- nefndin afgreiða nauðsynlegar aðlaganir á gerðum sem felldar hafa verið inn í EES- samninginn á tímabilinu frá 1. nóvember 2002 til þess dags þegar nýju aðildarríkin hafa að fullu gengið í Evrópusambandið.
    Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skal EES-samningurinn binda nýju samningsaðilana með sama hætti og núverandi samningsaðila í samræmi við frekari ákvæði sjálfs aðildarsamningsins. Hafa ber í huga að í aðildarsamningnum er að finna ákvæði um hvernig nánar skuli beita tilteknum EES-reglum gagnvart hinum nýju samningsaðilum.
    Í 3. mgr. 1. gr. er hnykkt á því að viðaukar við aðildarsamninginn skuli teljast óaðskiljanlegur hluti hans.

3. Athugasemdir við 1. mgr. 2. gr. samningsins (breytingar á meginmáli EES- samningsins).
    Ákvæði 2. gr. samningsins eru tvíþætt. Í 1. mgr. er mælt fyrir um þá aðlögun á meginmáli samningsins sem nauðsynleg er vegna þátttöku nýju samningsaðilanna í EES. Í 2. mgr. er hins vegar fjallað um breytingar á bókunum við EES-samninginn sem leiðir af stækkun EES.
    Það leiðir af 98. gr. EES-samningsins að samningsaðilar verða að gera nýjan samning sín á milli til að breyta meginmáli samningsins. Þær breytingar sem mælt er fyrir um í aðildarsamningnum á meginmáli EES-samningsins hnika í engu beinum efnisákvæðum samningsins. Þær breytingar sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 2. gr. aðildarsamningsins eru í raun eingöngu tæknileg uppfærsla á texta meginmáls EES-samningsins.
    Rétt er að vekja athygli á að þar sem meginmál EES-samningsins hefur lagagildi, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993, er nauðsynlegt að 1. mgr. 2. gr. aðildarsamningsins sé sömuleiðis fengið lagagildi. Sjá nánar athugasemdir við 2. gr. frumvarpsins.

     A-liður 1. mgr.
    Hér er mælt fyrir um breytingu á skrá yfir samningsaðila í upphafsorðum EES- samningsins. Þar er tekin út tilvísun til Kola- og stálbandalags Evrópu, en stofnsamningur bandalagsins féll úr gildi árið 2002. Þá er nýju aðildarríkjunum bætt við í upptalningu samningsaðila. Jafnframt eru Austurríki, Finnland og Svíþjóð talin meðal ESB-ríkjanna. Þessi ríki voru í hópi EFTA-ríkjanna við undirritun EES-samningsins en gerðust aðilar að Evrópusambandinu árið 1995.

     B-liður 1. mgr.
    Í ákvæðinu eru gerðar þrjár breytingar á 2. gr. Skilgreiningunni á EFTA-ríki er breytt til samræmis við áðurnefnda stækkun ESB árið 1995. Þá er tilvísun í Kola- og stálbandalagið felld út. Að lokum er bætt við 2. gr. skilgreiningu á hugtakinu „aðildarlögin frá 16. apríl 2003“.

     C-iður 1. mgr.
    Með þessu ákvæði er felld út tilvísun til Kola- og stálbandalagsins í 1. mgr. 109. gr. EES- samningsins.

     D-liður 1. mgr.
    Með ákvæðinu er bætt við 117. gr. EES-samningsins tilvísun til bókunar 38a við EES- samninginn. Bókun 38a er ný bókun sem kveðið er á um í aðildarsamningnum. Þar er að finna ákvæði um nýtt fjármagnskerfi EES. Nánar verður fjallað hér á eftir um þessa nýju bókun við EES-samninginn.

     E-liður 1. mgr.
    Hér er kveðið á um að fella skuli brott c-lið 121. gr. EES-samningsins. Þar er fjallað um samstarf milli Austurríkis og Ítalíu varðandi héruðin Tíról, Voralberg og Trentínó og Suður- Tóról/Altó Adíge. Eftir að Austurríki gekk í Evrópusambandið hafði ákvæðið ekki lengur neina þýðingu og er því tækifærið nú notað til að fella það úr samningnum.

     F-liður 1. mgr.
    Með þessu ákvæði er felld út tilvísun til Kola- og stálbandalagsins og gerð breyting á upptalningu EFTA-ríkjanna í ljósi þess að þau eru nú aðeins þrjú. Aðrar breytingar varða ekki íslensku útgáfuna.

     G-liður 1. mgr.
    Í ákvæðinu er kveðið á um breytingu á 129. gr. EES-samningsins sem fjallar um tungumál samningsins og texta gerða í viðaukum. Er þar mælt fyrir um að EES-samningurinn skuli vera gefinn út á opinberum tungumálum nýju samningsaðilanna og skulu þær útgáfur vera jafngildar. Gildir það einnig um þær gerðir sem vísað er til í viðaukum við samninginn.

4. Athugasemdir við 2. mgr. 2. gr. (breytingar á bókunum við EES-samninginn).
a) Almennt um 2. mgr. 2. gr.
    Í 2. mgr. 2. gr. aðildarsamningsins er kveðið á um aðlaganir á tilteknum bókunum við EES-samninginn. Þar er mælt fyrir um breytingu á bókun 36 og einnig bætt við tveimur nýjum bókunum, annars vegar bókun 38a um fjármagnskerfi EES og hins vegar bókun 44 um verndarráðstafanir í aðildarlögunum.

b) Bókun 36 um sameiginlegu EES-þingmannanefndina.
    Í bókun 36 er að finna stofnsamþykktir sameiginlegu EES-þingmannanefndarinnar, en í henni sitja fulltrúar frá Evrópuþinginu og þjóðþingum EES–EFTA-ríkjanna. Áður en Austurríki, Finnland og Svíþjóð gengu í ESB áttu 66 þingmenn sæti í sameiginlegu þingmannanefndinni. Eftir 1995 hafa þeir hins vegar aðeins verið 24. Er með þessari breytingu á bókun 36 verið að staðfesta þá tilhögun.

c)     Bókun 38a um fjármagnskerfi Evrópska efnahagssvæðisins.
     Eins og áður er getið reyndust fjárframlög EES–EFTA-ríkjanna til þróunarverkefna í ríkjum Evrópusambandsins vera hvað erfiðust viðfangs í viðræðum um stækkun EES. Niðurstaða samningaviðræðnanna var sú að stofnaður yrði nýr þróunarsjóður EFTA fyrir nýju samningsaðilana, Grikkland, Spán og Portúgal. EES–EFTA-ríkin greiða til sjóðsins sem nemur 120 milljónum evra frá 1. maí 2004 til 30. apríl 2009, eða næstu fimm árin. Þessi niðurstaða felur það í sér að nýi þróunarsjóðurinn mun hafa til ráðstöfunar fimmfalt hærri fjárhæð en eldri þróunarsjóðurinn. Samkvæmt þessu mun árlegt framlag Íslands hækka úr um 100 millj. kr. í um 500 millj. kr.
    Þó að nýi þróunarsjóðurinn verði nokkur að vöxtum er ljóst að smærri nýju aðildarríkin munu ekki sækja þangað háar fjárhæðir. Af þeim sökum er mikilvægt að leggja áherslu á smærri verkefni og möguleika þeirra til að draga með sér frekari fjárfestingu, þekkingu og reynslu. Er talið æskilegt að sjóðurinn styðji öðru fremur við verkefni á sviðum þar sem EFTA-ríkin hafa þekkingu og reynslu til að bera, t.d. ráðgjöf, rannsóknir og beina þátttöku í verkefnum sem tengjast sjávarútvegi og hagnýtingu jarðvarma.
    Þegar EES-samningurinn var undirritaður á sínum tíma var mælt fyrir um þróunarsjóð EFTA (fjármagnskerfið) í bókun 38. Ákvæði bókunar 38 voru tímabundin til fimm ára. Þegar fyrsti þróunarsjóðurinn var að renna sitt skeið á enda þrýsti Evrópusambandið á að EES–EFTA-ríkin héldu áfram að greiða til þróunarverkefna í aðildarríkjum ESB og styddu þannig við stefnu Evrópusambandsins á þessu sviði. Eftir samningaviðræður ESB við EES–EFTA-ríkin varð niðurstaðan sú að með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar var stofnaður nýr fjármagnssjóður EES fyrir tímabilið 1999–2003. Voru ákvæði um hann felld inn í 4. viðbæti við bókun 31 í EES-samningnum. EES–EFTA-ríkin hafa hins vegar aldrei fallist á að skuldbinda sig til að greiða til þróunarverkefna af þessu tagi til lengri tíma en fimm ára í senn. Í ljósi þessa var því ákveðið að semja sérstaklega um nýja bókun við EES- samninginn sem yrði tilgreind sem bókun 38a. Eru ákvæði hennar um þennan þriðja þróunarsjóð EFTA tímabundin eins og í fyrri tilvikum. Er mælt fyrir um ákvæði þessarar nýju bókunar við EES-samninginn í b-lið 2. mgr. aðildarsamningsins.

     Um 1. gr. bókunar 38a.
    Í 1. gr. er fjallað almennt um fjárframlagið og markmið þess. Skulu fjárframlög einungis veitt til fjárfestingar- og þróunarverkefna í þeim geirum sem vísað er til í 3. gr. bókunarinnar. EFTA-sjóðirnir hafa fram til þessa verið nýttir til fjárfestinga og er talið eðlilegt að svo verði áfram.

     Um 2. gr. bókunar 38a.
    Í ákvæðinu er fjallað um fjárframlagið sjálft og hvernig það verði gert aðgengilegt. Fé er greitt úr sjóðnum í tengslum við framgang þess verkefnis sem ákveðið er að styðja hverju sinni

     Um 3. gr. bókunar 38a.
    Í 3. gr. er mælt fyrir um að veita skuli styrki úr sjóðnum til verkefna í nánar tilgreindum forgangsgeirum. Þessir forgangsgeirar eru umhverfisvernd, stuðningur við sjálfbæra þróun, verndun menningararfleifðar Evrópu, þróun mannauðs og heilbrigðismál og umönnun barna. Þess er sérstaklega getið að styrkja skuli verkefni sem varða endurnýtanlegar orkulindir og betri nýtingu og stýringu auðlinda. Undir þetta fellur m.a. nýting jarðhita, fiskveiðistjórnun og sjávarútvegur, en á þeim sviðum hafa Íslendingar mikla þekkingu sem þeir geta miðlað til þeirra ríkja sem þegið geta styrki úr sjóðnum. Þá er þess sérstaklega getið í 2. mgr. 3. gr. að heimilt sé að veita fjárstyrki til fræðilegra rannsókna sem beinast að einum eða fleiri forgangsgeirum.

     Um 4. gr. bókunar 38a.
    Í 4. gr. er kveðið á um þær reglur sem gilda um styrki til einstakra verkefna. Er þar kveðið á um hámarkshlutföll fjármögnunar.
    Samkvæmt 2. mgr. skal virða reglur um ríkisaðstoð við úthlutun úr sjóðnum.
    Þá skal framkvæmdastjórn ESB skoða tillögur um verkefni og ganga úr skugga um að þær samræmist markmiðum bandalagsins skv. 3. mgr. Framkvæmdastjórninni er að þessu leyti falið að fjalla um tillögur að styrkveitingum áður en ákvörðun er tekin um styrkveitingar. Endanlegt ákvörðunarvald er hins vegar í höndum nefndar EFTA-ríkjanna, sbr. 8. gr. bókunar 38.
    Þá verða EFTA-ríkin ekki ábyrg gagnvart þriðja aðila að því er varðar framkvæmd einstakra verkefna skv. 4. mgr. 4. gr.

     Um 5. gr. bókunar 38a.
    Í 5. gr. er kveðið á um hvernig fjármagni sjóðsins skuli skipt milli ríkjanna 13 sem geta notið styrkja úr sjóðnum. Rétt er að hafa í huga að skipting fjármagnsins til einstakra ríkja byggist á reglum Evrópusambandsins um framlög úr þróunarsjóðum þess.

     Um 6. gr. bókunar 38a.
    Í 6. gr. bókunar 38a er mælt fyrir um hvernig standa skuli að endurúthlutun á þeim afgangi sem er af árlegum fjárframlögum EFTA-ríkjanna og ekki hefur verið úthlutað. Er þessi niðurstaða hluti af málamiðlun samningsaðila þar sem regla af þessu tagi á sér ekki fyrirmynd í reglum ESB á sambærilegum sviðum. Með þessu er á hinn bóginn tryggt að það fjármagn sem EES–EFTA-ríkin hafa skuldbundið sig til að greiða til ríkjanna skili sér þangað.

     Um 7. gr. bókunar 38a.
    Samkvæmt 7. gr. skulu fjárframlög úr þróunarsjóði EFTA vandlega samræmd tvíhliða framlagi Noregs sem kveðið er á um í sérstökum samningi milli Evrópusambandsins og Noregs sem fylgir aðildarsamningnum. Getur sjóður Norðmanna styrkt annars konar verkefni en sjóður EFTA en EFTA-ríkin skulu sjá til þess að sömu reglur gildi um málsmeðferð við umsóknir beggja fjármagnskerfanna.

     Um 8. gr. bókunar 38a.
    Í 8. gr. er kveðið á um stofnun nefndar sem annast mun rekstur sjóðsins og skulu EFTA- ríkin setja nánari reglur um starfsemi hans. Rekstrarkostnaður sjóðsins er innifalinn í heildarframlaginu til sjóðsins. Greinin endurspeglar núgildandi reglur um fyrri sjóð.

     Um 9. gr. bókunar 38a.
    Samkvæmt ákvæðinu munu samningsaðilar við lok fimm ára tímabilsins skoða hvort enn sé þörf á því að veita fjármuni til að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi á Evrópska efnahagssvæðinu. Eru EES–EFTA-ríkin því ekki skuldbundin til að greiða til sjóðsins lengur en til fimm ára, en að loknu því tímabili skal taka ákvörðun um hvort halda skuli áfram slíkum greiðslum.

     Um 10. gr. bókunar 38a.
    Í 10. gr. er mælt fyrir um hvað gera skuli ef eitthvert hinna nýju aðildarríkja fullgildir ekki samninginn eða breytingar verða á EFTA-stoðinni. Skulu þá gerðar nauðsynlegar breytingar á bókuninni.

d) Um bókun 44 – verndarráðstafanir í aðildarlögum ESB.
    Aðildarlög Evrópusambandsins hafa að geyma ákvæði um heimildir ESB-ríkjanna til að grípa til tímabundinna verndarráðstafana (öryggisráðstafana) vegna stækkunar sambandsins. Við skýringu þessara ákvæða ber að hafa í huga að þessi stækkun Evrópusambandsins er sú umfangsmesta í sögu þess. Nýju aðildarríkin standa aðildarríkjum ESB talsvert að baki í efnahagslegu tilliti og eru lífskjör almennings í þessum ríkjum almennt nokkuð lakari en meðal ESB-ríkjanna. Af þessum ástæðum var talið rétt að möguleiki væri á að gripið yrði til ráðstafana ef erfiðleikar kynnu að rísa í kjölfar stækkunar Evrópusambandsins.
    Helstu verndarákvæði aðildarlaga ESB eru sem hér segir:
     *      almennt verndarákvæði í 37. gr. aðildarlaga ESB;
     *      verndarákvæði varðandi innri markaðinn í 38. gr. aðildarlaga ESB;
     *      verndarákvæði á einstökum sviðum í viðaukum við aðildarlög ESB.
    Í viðræðum um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins var rætt um hvort og með hvaða hætti fella skyldi þessi verndarákvæði inn í EES-samninginn. Hafa ber í huga að verndarákvæði aðildarlaganna gera ráð fyrir því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi víðtæk völd varðandi beitingu þessara ákvæða. Fortakslaus beiting slíkra ákvæða gagnvart EES–EFTA-ríkjunum hefði hins vegar ekki samræmst sjónarmiðum um sjálfræði samningsaðila EES-samningsins til ákvarðanatöku. Enn fremur ber að hafa í huga að í EES- samningnum er að finna sjálfstætt ákvæði um heimild samningsaðila til að beita verndarráðstöfunum (öryggisráðstöfunum) í 112. gr. Þar segir að ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, geti samningsaðili gripið einhliða til viðeigandi ráðstafana. Þessu ákvæði hefur ekki verið beitt hingað til.
    Niðurstaðan í viðræðunum um stækkun EES var sú að bætt yrði nýrri bókun við EES- samninginn, bókun 44. Þar er mælt fyrir um hvernig beita skuli verndarákvæðum aðildarlaganna innan ramma EES-samstarfsins. Er markmiðið að tryggja að samningsaðilar hafi sama svigrúm til að beita verndarráðstöfunum innan EES og mælt er fyrir um í aðildarlögum ESB, án þess þó að takmarka það sjálfræði þeirra til ákvarðanatöku sem þegar er tryggt í EES-samningnum.
    Í 1. mgr. bókunar 44 er því slegið föstu að ákvæði 112. gr. EES-samningsins skuli gilda í þeim tilvikum sem tilgreind eru í 37. gr. aðildarlaganna. Þau tilvik sem þarna er vísað til eru alvarlegir erfiðleikar sem kunna að valda örðugleikum í einstökum atvinnugreinum eða geta haft í för með sér samdrátt á einstökum landsvæðum. Samkvæmt 37. gr. aðildarlaganna getur eitt nýju aðildarríkjanna jafnt sem núverandi aðildarríki farið þess á leit við framkvæmdastjórnina að hún heimili þeim að beita verndarráðstöfunum til að vinna bug á aðsteðjandi erfiðleikum í slíkum tilfellum. Með hliðsjón af 112. gr. EES-samningsins og bókun 44 er EES–EFTA-ríki hins vegar heimilt að taka einhliða ákvörðun um að beita slíkum verndarráðstöfunum. Hins vegar ber að fjalla um slíkar ákvarðanir í sameiginlegu EES- nefndinni í samræmi við gildandi ákvæði 113. gr. EES-samningsins.
    Rétt er að vekja athygli á því að skv. 37. gr. aðildarlaga ESB getur núverandi aðildarríki sótt um heimild til að beita slíkum verndarráðstöfunum að því er varðar eitt eða fleiri nýju aðildarríkjanna. Í bókun 44 felst að EES–EFTA-ríki er einnig heimilt að beita slíkum verndarráðstöfunum gagnvart einu eða fleiri nýju aðildarríkjanna. Ákvæði 3. mgr. 112. gr. EES-samningsins, sem kveður á um að slíkar ráðstafanir skuli gilda gagnvart öllum samningsaðilum, á því ekki við í þessu tilfelli.
    Í 1. mgr. bókunar 44 segir enn fremur að 112. gr. EES-samningsins skuli gilda varðandi beitingu verndarráðstafana sem er að finna í ákvæðum aðildarlaganna um frjálsa för fólks og flutninga á vegum. Er EES–EFTA-ríkjunum því einnig heimilt að grípa til verndarráðstafana í þeim tilfellum sem falla undir þessi ákvæði aðildarlaganna, en um málsmeðferðina gildir ákvæði 112. gr. EES-samningsins. Í viðauka B er fjallað nánar um efni þessara ákvæða. Hins vegar skal vakin athygli á því að bókun 44 heimilar að beita þessum ráðstöfunum gagnvart einu eða fleiri af nýju aðildarríkjunum. Gengur ákvæðið að þessu leyti lengra en ákvæði 112. gr. EES-samningsins, sbr. umfjöllun hér að framan.
    Samkvæmt 2. mgr. bókunar 44 skal almenn tilhögun EES-samningsins um ákvarðanatöku gilda um ákvarðanir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tekur í tengslum við beitingu 38. gr. aðildarlaganna. Í 38. gr. aðildarlaganna er mælt fyrir um að framkvæmdastjórninni sé heimilt, að beiðni aðildarríkis eða af eigin frumkvæði, að grípa til viðeigandi aðgerða ef nýtt aðildarríki uppfyllir ekki skyldur sínar samkvæmt aðildarsamningnum og veldur þannig röskun á innri markaðinum. Er tilgangur ákvæðisins að veita framkvæmdastjórninni úrræði til að tryggja góða framkvæmd innri markaðarins. Hafa ber í huga að samkvæmt EES-samningnum getur framkvæmdastjórnin ekki tekið bindandi ákvarðanir gagnvart EES–EFTA-ríkjunum. Með 2. mgr. bókunar 44 er hins vegar tekið af skarið um að þær ákvarðanir sem framkvæmdastjórnin kann að taka skv. 38. gr. verða ekki bindandi gagnvart EES–EFTA-ríkjunum fyrr en um málið hefur verið fjallað innan sameiginlegu EES-nefndarinnar.

5. Athugsemdir við 3. og 4. gr.
    Í aðildarviðræðum Evrópusambandsins náðist samkomulag um að gera margvíslegar aðlaganir á löggjöf Evrópusambandsins vegna stækkunarinnar sem kalla á breytingar á löggjöf þess. Er mælt fyrir um þessar aðlaganir í aðildarlögum Evrópusambandsins.
    Ákvæðin um aðlögun á löggjöf Evrópusambandsins er að finna í viðaukum við aðildarlög Evrópusambandsins. Í II. viðauka er að finna ákvæði um tæknilegar aðlaganir. Skulu þessi ákvæði gilda ótímabundið. Ákvæðin sem fela í sér efnislegar aðlaganir á EB-gerðum er hins vegar að finna í viðaukum V–XIV við aðildarlögin. Í hverjum þessara viðauka er að finna þau efnislegu aðlögunarákvæði sem gilda eiga gagnvart hverju hinna nýju aðildarríkja. Til að tryggja að sömu reglur gildi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu er nauðsynlegt að fella þessar aðlaganir inn í EES-samninginn. Tilgangur 3. og 4. gr. aðildarsamningsins er því að mæla fyrir um þá aðlögun á EES-samningnum sem nauðsynleg er af þeim sökum.

a)     Um 3. gr. aðildarsamningsins.
    Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. aðildarsamningsins skulu allar þær breytingar sem aðildarlögin mæla fyrir um á gerðum, sem stofnanir Evrópubandalagsins hafa samþykkt og eru orðnar hluti af EES-samningnum, felldar inn í EES-samninginn og verða breytingarnar þannig einnig hluti samningsins. Er tilgangur ákvæðisins að fella inn í EES-samninginn þær tæknilegu aðlaganir sem gera skal á löggjöf Evrópusambandsins vegna stækkunar þess. Nánari útfærslu á ákvæði 1. mgr. er að fínna í 2.–5. mgr. 3. gr. aðildarsamningsins. Segir í 2. og 3. mgr. 3. gr. að við þá liði í viðaukum og bókunum við EES-samninginn, sem breyta skal til samræmis við aðildarlögin, skuli bæta stöðluðu ákvæði þar sem vísað skal til aðildarlaga Evrópusambandsins. Þá segir í 4. mgr. 3. gr. að í viðauka A við samningin skuli taldir upp þeir liðir í viðaukum og bókunum við EES-samninginn sem breyta skuli með því að fella inn þann texta sem getið er um í 2. og 3. mgr.
    Í þessu felst að í viðauka A eru talin upp þau ákvæði EES-samningsins sem nauðsynlegt er að fella ákvæðin um tæknilegar aðlaganir inn í. Þessi ákvæði eru felld inn í EES- samninginn með tilvísun til viðauka II við aðildarlög Evrópusambandsins, en þar er hin eiginlegu aðlögunarákvæði að finna. Viðauki II mun liggja frammi á lestrarsal Alþingis og jafnframt má nálgast efni hans á vefsetri utanríkisráðuneytisins.
    Í 5. mgr. 3. gr. segir að nauðsynlegt sé vegna tilkomu nýju samningsaðilanna að aðlaga gerðir sem hafa verið felldar inn í EES-samninginn fyrir gildistöku samningsins og sé þann aðlögunartexta ekki að finna í samningi þessum verði staðið að slíkri aðlögun í samræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í EES-samningnum. Gerir ákvæðið því ráð fyrir því að nauðsynlegt kunni að vera að gera frekari breytingar á viðaukum við EES-samninginn vegna stækkunarinnar og á það við gerðir sem teknar hafa verið inn í EES-samninginn frá og með 1. nóvember 2002. Slíkar breytingar verði hins vegar felldar inn í EES-samninginn með hefðbundnum hætti með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
    Nánar er fjallað um viðauka A í V. kafla athugasemdanna hér á eftir.

b)     Um 4. gr. aðildarsamningsins.
    Í 1. mgr. 4. gr. segir að það fyrirkomulag, sem kveðið er á um í viðauka B við samninginn, sé hér með fellt inn í EES-samninginn og gert hluti af honum. Með „fyrirkomulagi“ er átt við þær efnislegu aðlaganir á gerðum Evrópubandalagsins sem samkomulag náðist um í aðildarviðræðum Evrópusambandsins. Er mælt fyrir um þessar efnislegu aðlaganir í aðildarlögum ESB.
    Í 2. mgr. 4. gr. segir að staðið verði að hverju því fyrirkomulagi, sem varðar EES- samninginn og um getur í aðildarlögunum frá 16. apríl 2003 en er ekki getið um í viðauka B við samninginn, í samræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í EES-samningnum. Hafa ber í huga að ekki er loku fyrir það skotið að frekari efnislegar aðlaganir verði gerðar á EES-gerðum vegna stækkunarinnar en getið er um í viðauka B, m.a. á gerðum sem samþykktar hafa verið í sameiginlegu EES-nefndinni frá og með 1. nóvember 2002 til gildistöku samningsins. Ákvarðanir um breytingar á EES-samningnum af þeim sökum verða teknar með venjulegum hætti af sameiginlegu EES-nefndinni.
    Nánar er fjallað um viðauka B í V. kafla athugasemdanna hér á eftir.

6. Athugasemdir við 5.–7. gr. samningsins (lokaákvæði).
a) Um 5. gr. samningsins.
    Komi upp álitamál eða vafaatriði um túlkun eða beitingu samningsins geta samningsaðilar lagt málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Skal málið þá tekið þar fyrir og reynt að finna lausn á málinu sem stuðlar að góðri framkvæmd EES-samningsins. Er þetta ákvæði í samræmi við 92. gr. EES-samningsins þar sem segir m.a. að samningsaðilar skuli hafa samráð í sameiginlegu EES-nefndinni um öll þau mál á grundvelli samningsins sem valda erfiðleikum og einhver þeirra hefur tekið upp.

b) Um 6. gr. samningsins.
    Í 6. gr. er fjallað um fullgildingu og gildistöku samningsins. Skal samningurinn taka gildi sama dag og aðildarsáttmáli ESB. Jafnframt eru taldir upp fjórir fylgisamningar sem gerðir voru vegna aðildar hinna nýju aðildarríkja að EES-samningnum og skulu þeir taka gildi sama dag. Hafi eitthvert nýju aðildarríkjanna ekki afhent fullgildingarskjöl eða samþykki fyrir tilsettan tíma skal samningurinn samt sem áður öðlast gildi gagnvart þeim nýju ríkjum sem hafa afhent tilskilin gögn. Í þessu felst að hafi eitthvert núverandi 18 aðildarríkja ekki fullgilt samninginn tekur hann ekki gildi. Undir þeim kringumstæðum verða samningsaðilar að finna lausn á stöðu mála.

c) Um 7. gr. samningsins.
    Í greininni er kveðið á um á hvaða tungumálum frumrit samningsins er gert og telst textinn jafngildur á öllum tungumálunum.


V. AÐLÖGUN VIÐAUKA EES-SAMNINGSINS – VIÐAUKAR A OG B


1. Viðauki A
    Með viðauka A eru ákvæði aðildarlaga Evrópusambandsins um tæknilega aðlögun á löggjöf Evrópusambandsins felld inn í EES-samninginn. Í aðildarlögum Evrópusambandsins er að finna fjölmörg ákvæði um tæknilegar aðlaganir á EB-gerðum. Í tæknilegri aðlögun felst t.d. að bætt er við sérfræðiheitum eða hugtökum á tungumálum nýju aðildarríkjanna og heiti lögbærra yfirvalda í nýju aðildarríkjunum er bætt við upptalningu þeirra sem fyrir eru. Er ákvæðunum um tæknilega aðlögun að jafnaði ætlað ótímabundið gildi.
    Nauðsynlegt er að fella þessar tæknilegu aðlaganir inn í EES-samninginn til að tryggja samræmda beitingu þessara gerða innan alls Evrópska efnahagssvæðisins. Í viðauka A eru því talin upp þau ákvæði í viðaukum EES-samningsins þar sem vísað er til þeirra gerða sem gera þarf slíkar tæknilegar aðlaganir á.
    Viðauki A skiptist í tvo hluta. Í fyrri hlutanum er að finna upptalningu á þeim ákvæðum í viðaukum EES-samningsins sem verður að breyta vegna tæknilegra aðlagana. Við þessi ákvæði er bætt hinu staðlaða tilvísunarákvæði sem fjallað var um í athugasemdum við 3. gr. aðildarsamningsins. Hefur fyrri hluti viðauka A því að geyma tilvísanir til ákvæða II. viðauka aðildarlaga ESB. Í síðari hlutanum er hins vegar að finna lista yfir breytingar sem nauðsynlegar eru samhliða þeim breytingum sem mælt er fyrir um í fyrri hlutanum og varða aðlögun þessara ákvæða að EES-samningnum.
     Rétt er að leggja áherslu á að viðauki A mælir í raun aðeins fyrir um minni háttar tæknilegar breytingar á viðaukum EES-samningsins. Eigi að síður er þessi breyting nauðsynleg til að tryggja fullt samræmi milli EES-samningsins og löggjafar Evrópusambandsins eftir stækkun og tryggja þannig hnökralausa framkvæmd EES- samningsins.
    Til að varpa gleggra ljósi á hvernig þessi aðlögunarákvæði eru felld inn í EES-samninginn með viðauka A er rétt að taka dæmi. Í 1. hluta viðauka A er vísað til sjöundu félagaréttartilskipunarinnar (tilskipun ráðsins nr. 83/349/EBE). Er tilskipun þessi hluti EES- samningsins og er vísað til hennar í XXII. viðauka við EES-samninginn. Samkvæmt fyrri hluta viðauka A skal við tilvísun til þessarar gerðar bæta tilvísun til hins staðlaða ákvæðis 2. og 3. mgr. aðildarlaganna sem áður hefur verið fjallað um. Þannig eru þær breytingar sem gerðar eru með aðildarlögunum á þessari tilskipun felldar inn í EES-samninginn. Í þessu tilfelli nægir hins vegar ekki að bæta tilvísun til aðildarlaganna við ákvæðið í XXII. viðauka. Í einu ákvæði tilskipunarinnar er að finna upptalningu á opinberum heitum á tilteknum félagaformum með takmarkaðri ábyrgð á tungumáli í hverju aðildarríki fyrir sig. Í XXII. viðauka EES-samningsins er að finna slíkt tæknilegt aðlögunarákvæði þar sem bætt er við opinberum heitum þessara félagaforma á Íslandi, Noregi og Liechtenstein (á Íslandi, einkahlutafélag eða hlutafélag). Er þessi upptalning í bókstafsröð og er íslenska heitið merkt með bókstafnum p, o.s.frv. Þegar aðildarríkjum Evrópusambandsins fjölgar um 10 og verða 25 verður að endurraða upptalningu þessara félagaforma í gerðinni. Þá þarf jafnframt að gera þá breytingu á ákvæði XXII. viðauka að endurraða heitum þessara félaga í EFTA-ríkjunum. Í 2. hluta viðauka A er því að finna ákvæði sem mælir fyrir um breytingu á aðlögunarákvæðinu í EES-samningnum. Samkvæmt ákvæðinu skal íslenska heitið framvegis vera merkt með bókstöfunum za.
    Ákvæðin í viðauka A um tæknilegar aðlaganir á ákvæðum EES-samningsins vegna stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins kalla ekki á lagabreytingar. Með hliðsjón af því og í ljósi þess að hér er ekki um að ræða efnislegar breytingar á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands verður ekki talin ástæða til að rekja nánar ákvæði viðauka A.

2. Viðauki B.
    Þær breytingar á löggjöf Evrópusambandsins sem mælt er fyrir um í aðildarlögunum eru ekki eingöngu tæknilegs eðlis. Í stækkunarviðræðum Evrópusambandsins var einnig samið um margs konar aðlaganir á efnisákvæðum löggjafar Evrópusambandsins fyrir hin nýju aðildarríki. Slíkum ákvæðum er þó nær eingöngu ætlað tímabundið gildi. Eigi að síður er nauðsynlegt að fella þessi ákvæði inn í EES-samninginn, að svo miklu leyti sem þau fela í sér breytingu á reglum EES-samningsins. Fyrirkomulag af þessu tagi nefnist efnislegar aðlaganir og eru nánari ákvæði um þær í viðauka B við aðildarsamninginn.
    Með efnislegri aðlögun er átt við breytingu á efnisákvæðum löggjafar Evrópusambandsins. Dæmi um slíka efnislega aðlögun er að aðildarríki er undanþegið einstökum ákvæðum löggjafarinnar, gildistöku löggjafar er frestað gagnvart aðildarríkinu eða sett er sérákvæði um hvernig framkvæmd reglna Evrópusambandsins skuli hagað í aðildarríkinu.
    Ákvæðin um slíkar efnislegar aðlaganir er að finna í viðauka B við aðildarsamning EES. Rétt er að vekja athygli á því að í viðauka B er látið nægja að vísa til viðeigandi ákvæða í aðildarlögum Evrópusambandsins. Er það í samræmi við hina hefðbundnu tilvísunaraðferð sem jafnan er notuð þegar löggjöf Evrópusambandsins er felld inn í EES-samninginn. Þessi ákvæði er að finna í fjórða hluta aðildarlaga Evrópusambandsins. Í 24. gr. aðildarlaganna segir að þær ráðstafanir sem mælt er fyrir um í viðaukum V–XIV við lögin skuli gilda varðandi nýju aðildarríkin í samræmi við þá skilmála sem þar eru tilgreindir. Þær efnislegu aðlaganir sem samið var um að veita hverju og einu umsóknarríkjanna er að finna í framangreindum viðaukum. Er í hverjum viðauka að finna þau aðlögunarákvæði sem eiga að gilda gagnvart einu af hinum nýju aðildarríkjum. Í V. viðauka er að finna ákvæði sem varða Tékkland, í VI. viðauka ákvæði sem varða Eistland, VII. viðauki hefur að geyma ákvæði er varða Kýpur, í VIII. viðauka eru ákvæðin um Lettland, viðauki IX. hefur að geyma ákvæðin um Litháen, ákvæðin um Ungverjaland er að finna í X. viðauka, í XI. viðauka eru ákvæðin um Möltu, í XII. viðauka er að finna ákvæðin um Pólland, XIII. viðauki gildir um Slóveníu og þá er ákvæðin um Slóvakíu að finna í XIV. viðauka.
    Ákvæðin í viðauka B um efnislegar aðlaganir á ákvæðum EES-samningsins vegna stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins kalla ekki á lagabreytingar. Þá hafa þessi ákvæði ekki áhrif á þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum að öðru leyti en því að með samningnum skuldbindur Ísland sig til að hlíta því að nýju samningsaðilarnir fá ákveðinn aðlögunartíma til að laga sig að nánar tilgreindum ákvæðum EES-samningsins. Að meginstefnu til hafa ákvæði viðauka B lítil sem engin áhrif hér á landi og er af þeirri ástæðu látið nægja að stikla hér á stóru í umfjöllun um viðauka B. Rétt er þó að vekja athygli á því að samkvæmt viðauka B er gildistöku tiltekinna ákvæða EES-samningin frestað gagnvart nýju samningsaðilunum, jafnframt því sem núverandi samningsaðilum EES- samningsins er veitt heimild til að beita verndarráðstöfunum á vissum sviðum, fyrst og fremst á sviði frjálsrar farar launþega.

a) Heilbrigði dýra og plantna.
    Í viðauka I við EES-samninginn er að finna tilvísun til þeirra gerða Evrópubandalagsins er varða heilbrigði dýra og plantna og felldar hafa verið inn í EES-samninginn. Er viðauka I skipt í þrjá kafla. Í I. kafla er að finna sameiginlegar heilbrigðisreglur í viðskiptum með dýr og dýraafurðir. Í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 69/98 frá 17. júlí 1998, þar sem ákvæði I. kafla viðauka I voru endurskoðuð, eiga þær gerðir sem vísað er til í I. kafla aðeins við um Ísland sé þess sérstaklega getið. Í meginatriðum má segja að aðeins þær reglur I. kafla viðauka I sem varða heilbrigðisreglur vegna viðskipta með fisk og sjávarafurðir eigi við Ísland. Í II. kafla viðauka I er síðan að finna reglur um fóður og í III. kafla reglur um plöntur.
    Evrópusambandið hefur lagt á það áherslu að halda uppi ströngu heilbrigðiseftirliti á innri markaðinum og sett nákvæmar reglur á þessu sviði, sérstaklega varðandi heilbrigði dýra. Í stækkunarviðræðunum lagði Evrópusambandið áherslu á að þessar reglur skyldu gilda um öll viðskipti með landbúnaðar- og sjávarafurðir á innri markaðinum eftir stækkun. Hins vegar var viðbúið að það mundi valda ýmsum fyrirtækjum sem starfrækt eru í nýju aðildarríkjunum erfiðleikum að mæta þessum kröfum. Af þeim sökum var samið um að tiltekin fyrirtæki fengju undanþágur frá heilbrigðisreglunum. Óheimilt er að flytja afurðir frá þessum fyrirtækjum inn á innri markaðinn og þurfa afurðir frá þessum fyrirtækjum að vera sérstaklega merktar. Í ljósi víðtækra undanþágna Íslands frá ákvæðum I. kafla viðauka I hafa þessi aðlögunarákvæði litla þýðingu hér á landi.

b) Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun.
    Í viðauka II við EES-samninginn er að finna þær gerðir Evrópubandalagsins sem varða ráðstafanir gegn svokölluðum tæknilegum viðskiptahindrunum. Í gerðunum felst samræming á margvíslegum reglum er varða viðskipti með vörur. Má þar t.d. nefna samræmdar reglur um prófanir, gagnkvæma viðurkenningu, margvíslega staðla og reglur um eftirlitskerfi. Skiptist viðauki II við EES-samninginn í 32 kafla þar sem fjallað er um tæknilegar reglur á hinum ýmsu sviðum vöruviðskipta.
    Í meginatriðum má segja að viðauki II mæli fyrir um þær kröfur sem framleiðsluvörur, sem markaðssettar eru á innri markaði Evrópusambandsins, skulu uppfylla, svo sem varðandi umhverfisþætti, öryggi og neytendavernd. Í aðildarlögum Evrópusambandsins er mælt fyrir um að tímabundið er heimilt að víkja að einhverju leyti frá þessum kröfum við framleiðslu fyrir heimamarkað í nýju aðildarríkjunum. Hins vegar er óheimilt að setja vörur sem ekki uppfylla þær kröfur sem mælt er fyrir um í viðauka II á markað í öðru EES-ríki en heimaríkinu. Af þeim sökum hafa ákvæðin um efnislegar aðlaganir frá ákvæðum viðauka II við EES-samninginn ekki mikla þýðingu hér á landi.

c) Orka.
    Í 24. gr. EES-samningsins segir að sérstök ákvæði og fyrirkomulag varðandi orkumál sé að finna í viðauka IV við EES-samninginn. Er því að finna í viðauka IV þær gerðir Evrópubandalagsins á sviði orkumála sem teljast hluti EES-samningsins. Er þar m.a. að finna gerðir sem mæla fyrir um innri markað með raforku og jarðgas. Samkvæmt viðauka B og ákvæðum í aðildarlögum ESB skal Eistlandi veitt undanþága fram til ársins 2008 frá reglum um innri markað með raforku. Þá skulu reglur um innri markað með jarðgas ekki taka gildi í Tékklandi fyrr en í lok ársins 2004. Þessi aðlögunarákvæði hafa litla þýðingu hér á landi.

d) Frjáls för launþega.
    Í 28. gr. EES-samningsins er mælt fyrir um frjálsa för launþega innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í viðauka V við EES-samninginn er síðan að finna þær gerðir Evrópubandalagsins er varða frjálsa för launþega sem felldar hafa verið inn í EES- samninginn.
    Samkvæmt viðauka B við aðildarsamning EES skal fella inn í viðauka V bráðabirgðafyrirkomulagið sem mælt er fyrir um í viðaukum við aðildarlögin. Með þessu er verið að fella inn í EES-samninginn ákvæði aðildarlaga ESB um heimild núverandi aðildarríkja Evrópusambandsins til að beita tímabundnum takmörkunum á frjálsri för launþega frá nýju aðildarríkjunum, að undanskilum launþegum frá Möltu og Kýpur.
    Framangreind ákvæði er að finna í viðaukum V–XIV við aðildarlögin. Samkvæmt ákvæðinu skal löggjöf einstakra aðildarríkja Evrópusambandsins um atvinnuréttindi launþega frá nýju aðildarríkjunum gilda áfram næstu tvö árin frá og með þeim degi sem nýju aðildarríkin hafa fengið fulla aðild að Evrópusambandinu. Enn fremur er aðildarríkjunum heimilt að framlengja þennan aðlögunartíma í allt að fimm ár til viðbótar. Ef fyrir hendi er alvarleg röskun á vinnumarkaði í aðildarríki eða hætta er á slíkri röskun er aðildarríkjunum jafnframt heimilt að framlengja þennan aðlögunartíma í allt að sjö ár frá því að nýju aðildarríkin gengu í Evrópusambandið.
    Í þessu felst að núverandi aðildarríkjum Evrópusambandsins er heimilt að beita eigin löggjöf um atvinnuréttindi launþega frá einhverju hinna nýju aðildarríkja í allt að sjö ár frá því að þessi ríki hafa öðlast fulla aðild að Evrópusambandinu. Reglur Evrópusambandsins um frjálsa för launþega innan Evrópusambandsins munu því ekki taka að fullu gildi gagnvart hinum nýju aðildarríkjum meðan á þessu aðlögunartímabili stendur. Rétt er hins vegar að leggja áherslu á að það er einstökum aðildarríkjum Evrópusambandsins í sjálfsvald sett hvort og hvernig þau beita þessari heimild gagnvart launþegum frá einhverju hinna nýju aðildarríkja. Af þeim sökum má vænta að framkvæmd þessarar heimildar verði mismunandi eftir aðildarríkjum.
    Þá ber jafnframt að vekja athygli á því að samkvæmt aðildarlögunum skal ríkisborgari í einu af nýju aðildarríkjunum, sem starfað hefur í tilteknu aðildarríki samfleytt í 12 mánuði eða lengur, hafa fullan rétt á því að starfa þar áfram. Þetta er þó háð því skilyrði að viðkomandi hafi dvalist með lögmætum hætti í viðkomandi aðildarríki. Í þessu felst hins vegar eingöngu réttur til að halda áfram að starfa í þessu tiltekna aðildarríki.
    Með tilvísun til framangreindra ákvæða í viðauka B við aðildarsamning EES eru þau ákvæði aðildarlaganna er varða frjálsa för fólks felld inn í EES-samninginn. Er þýðing þessara ákvæða sem hér segir:
     1.      Fyrstu tvö árin frá aðildardegi gilda ákvæði EES-samningsins um frjálsa för ekki gagnvart launþegum frá nýju aðildarríkjunum.
     2.      EES–EFTA-ríkin hafa sömu heimild og núverandi aðildarríki Evrópusambandsins til að fresta gildistöku ákvæðanna um frjálsa för launþega í allt að sjö ár frá aðildardegi.
    Við beitingu þessara heimilda verður hins vegar að líta til sameiginlegrar yfirlýsingar EFTA-ríkjanna um frelsi launþega til flutninga sem fylgir með lokagerð aðildarsamnings EES. Segir þar m.a.:
            „EFTA-ríkin leggja áherslu á að atriði eins og aðgreining og sveigjanleiki hafi mikið vægi í fyrirkomulagi um frelsi launþega til flutninga. Þau munu leitast við að veita ríkisborgurum Tékklands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Ungverjalands, Póllands, Slóveníu og Slóvakíu greiðari aðgang að vinnumarkaði samkvæmt landslögum til þess að flýta fyrir samræmingu réttarreglnanna. Af þessu leiðir að atvinnutækifærum ríkisborgara Tékklands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Ungverjalands, Póllands, Slóveníu og Slóvakíu í EFTA-ríkjunum ætti að fjölga verulega eftir að þessi ríki hafa gerst aðilar. Jafnframt munu EFTA-ríkin nýta fyrirkomulagið, sem lagt er til, eins vel og unnt er til að beita réttarreglunum að fullu á sviði frelsis launþega til flutninga.“
    Með þessari yfirlýsingu hnykktu EES–EFTA-ríkin á þeim eindregna vilja sínum að veita ríkisborgurum nýju aðildarríkjanna greiðan aðgang að vinnumarkaði sínum og flýta fyrir því að sömu reglur gildi um frjálsa för launþega á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Þessi yfirlýsing er nánast samhljóða sambærilegri yfirlýsingu núverandi aðildarríkja Evrópusambandsins vegna undirritunar aðildarsáttmála ESB.
    Samkvæmt ákvæðum aðildarlaga Evrópusambandsins er aðildarríki sem verður fyrir röskun á vinnumarkaði sínum, sem getur stefnt lífskjörum og atvinnutækifærum á tilteknu svæði eða í tiltekinni atvinnugrein í hættu, heimilt að beina því til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að gripið verði til verndarráðstafana (öryggisráðstafana) til að takmarka megi aðsókn launþega frá nýju aðildarríkjunum inn á vinnumarkað í viðkomandi ríki. Heimilt er að vísa ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar í þeim efnum til ráðs Evrópusambandsins. Ákvæðið gerir því ráð fyrir því að ákvörðun um beitingu slíkra ráðstafana sé í höndum framkvæmdastjórnar ESB, eða eftir atvikum ráðsins. Með hliðsjón af meginreglum EES- samningsins um sjálfræði ákvarðanatöku geta þessar stofnanir Evrópusambandsins vitaskuld ekki tekið slíkar bindandi ákvarðanir gagnvart EES–EFTA-ríkjunum. Samkvæmt bókun 44 er EES–EFTA-ríkjunum því heimilt að taka einhliða ákvörðun um beitingu slíkra verndarráðstafana á grundvelli 112. gr. EES-samningsins. Rétt er að vekja athygli á því að heimilt er að taka slíkar ákvarðanir gagnvart einu eða fleiri af nýju aðildarríkjunum, sbr. framangreinda umfjöllun um bókun 44.

e) Staðfesturéttur.
    Í 31. gr. EES-samningsins er mælt fyrir um rétt borgara aðildarríkja EES-samningsins til að setjast að og stofna til atvinnurekstrar hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá er í viðauka VIII við EES-samninginn að finna nánari ákvæði um staðfesturétt. Samkvæmt aðildarsamningnum skal fella inn í EES-samningin tvö ákvæði er varða þetta svið.

    i) Frjáls för launþega.
    Samkvæmt viðauka B við aðildarsamning EES eru ákvæði aðildarlaga Evrópusambandsins um frjálsa för launþega felld inn í viðauka VIII við EES-samninginn. Í þessu felst að þrátt fyrir ákvæði EES-samningsins um staðfesturétt er eigi að síður heimilt að beita þeim takmörkunum á frjálsri för launþega frá nýju aðildarríkjunum sem áður hefur verið fjallað um. Rétt er að vekja athygli á því að ákvæðin eiga aðeins við um launþega en ekki um réttindi þeirra sem hyggjast veita þjónustu hér á landi á grundvelli ákvæða um staðfesturétt eða frjálsa þjónustustarfsemi. Þá eiga ákvæðin heldur ekki við um nemendur eða lífeyrisþega.

    ii) Aðlögun fyrir Liechtenstein.
    Þá er í viðauka B einnig að finna ákvæði um aðlögun fyrir Liechtenstein varðandi staðfesturétt. Samkvæmt núgildandi ákvæðum viðauka VIII hefur Liechtenstein verulegar undanþágur frá ákvæðum EES-samningsins um staðfesturétt. Segir í viðauka VIII að þau ákvæði skuli gilda til 31. desember 2006 en sameiginlega EES-nefndin skal taka ákvörðun um hvort framlengja skuli þessa aðlögun fyrir þann tíma. Í viðauka B er hins vegar mælt fyrir um að það fyrirkomulag skuli endurskoðað á fimm ára fresti og í fyrsta sinn fyrir maí 2009. Skal við þá endurskoðun taka viðeigandi tillit til sérstakra landfræðilegra aðstæðna í Liechtenstein.

f) Fjármálaþjónusta.
    Frjáls viðskipti með þjónustu teljast meðal hins fjórþætta frelsis sem innri markaður Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðið byggjast á. Fjármálaþjónusta telst hluti þjónustustarfsemi og hefur Evrópusambandið sett fjölmargar reglur er varða slíka starfsemi. Í viðauka IX við EES-samninginn er að finna þær gerðir Evrópusambandsins á þessu sviði sem felldar hafa verið inn í EES-samninginn. Er þar m.a. að finna gerðir er varða bankastarfsemi, vátryggingastarfsemi og starfsemi annarra lánastofnana.
    Í viðauka B er mælt fyrir um tiltekin aðlögunarákvæði fyrir nýju samningsaðilana á sviði fjármálaþjónustu. Eru tilteknar tegundir fjármálafyrirtækja í nokkrum þessara ríkja undanþegnar um tíma þeim kröfum sem mælt er fyrir um í tilskipunum Evrópubandalagsins á þessu sviði varðandi kröfur um stofnfé og lágmarksinnlánatryggingar. Fjármálastofnanir sem ekki þurfa að uppfylla kröfur um lágmarksinnlánatryggingar geta hins vegar ekki komið á fót útibúi utan síns heimalands nema að hafa uppfyllt reglur Evrópusambandsins í þessum efnum. Einnig fær Slóvenía aðlögun til ársloka 2004 frá reglum um ársreikninga fjármálastofnana. Ekki verður séð að efnislegu aðlögunarákvæðin á sviði fjármálaþjónustu hafi áhrif á íslenska hagsmuni.

g) Fjarskiptaþjónusta.
    Í viðauka XI við EES-samninginn er að finna þær gerðir sem varða fjarskiptaþjónustu og felldar hafa verið inn í EES-samninginn. Þeirra á meðal er tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 97/67/EB frá 15. desember 1997 um sameiginlegar reglur varðandi þróun innri markaðar bandalagsins á sviði póstþjónustu og um umbætur á þeirri þjónustu. Samkvæmt viðauka B skulu ákvæði um innri markað á sviði póstþjónustu ekki gilda gagnvart Póllandi til ársloka 2005. Þetta aðlögunarákvæði hefur enga þýðingu hér á landi.

h) Frjálsir fjármagnsflutningar.
    Í 40. gr. EES-samningsins er mælt fyrir um frjálsar fjármagnshreyfingar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Samkvæmt ákvæðinu skulu engin höft vera milli samningsaðila á flutningi fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum ESB eða EFTA-ríkjunum né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar. Þá eru í viðauka XII við EES-samninginn ákvæði er varða framkvæmd frjálsra fjármagnsflutninga.
    Í frjálsum fjármagnsflutningum felst m.a. réttur ríkisborgara í EES-ríki til að fjárfesta í fasteignum í öðru aðildarríki. Samkvæmt viðauka B hafa Tékkland, Kýpur, Pólland og Ungverjaland heimild til að beita áfram núgildandi löggjöf sinni um fjárfestingar erlendra aðila í orlofshúsnæði næstu fimm árin. Þá fær Malta ótímabundna undanþágu til að beita áfram eigin löggjöf á þessu sviði samkvæmt ákvæði í bókun 6 við aðildarlög ESB. Þá er Tékklandi, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Slóvakíu, Póllandi og Ungverjalandi heimilt að beita núgildandi löggjöf sinni um fjárfestingar erlendra aðila í jarðnæði. Í tilfelli Póllands gildir aðlögunarákvæðið næstu 12 árin, en gagnvart hinum ríkjunum skal það gilda næstu sjö ár og er heimilt að framlengja þann tíma í allt að þrjú ár til viðbótar ef nauðsyn krefur. Ekki verður talið að þessi aðlögunarákvæði hafi neina þýðingu gagnvart Íslandi.

i) Flutningastarfsemi.
    Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. EES-samningsins eru sérstök ákvæði um allar tegundir flutninga í viðauka XIII við EES-samninginn. Má þar finna þær gerðir Evrópubandalagsins sem felldar hafa verið inn í EES-samninginn á sviði flutningastarfsemi. Taka reglur EES- samningsins um flutningastarfsemi til flutninga á landi, á vegum, með járnbrautum, á skipgengum vatnaleiðum og á sjó auk reglna um flugmál.
    Rétt er að vekja athygli á því að samkvæmt viðauka B við aðildarsamning EES skal veita tímabundna aðlögun vegna reglugerðar ráðsins nr. 3118/93 frá 25. október 1993 um skilyrði fyrir því að farmflytjendur geti stundað flutningaþjónustu á vegum í aðildarríki þar sem þeir eru ekki búsettir. Samkvæmt reglugerðinni er farmflytjanda heimilt að stunda þjónustu sína á Evrópska efnahagssvæðinu utan heimalands síns. Er þar mælt fyrir um að fyrstu tvö árin eftir inngöngu Tékklands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Ungverjalands, Póllands og Slóvakíu er ríkisborgurum frá þessum ríkjum ekki heimilt að stunda tímabundna flutningaþjónustu á vegum gegn gjaldi. Eftir þann tíma er aðildarríkjum Evrópusambandsins heimilt að fresta gildistöku gerðarinnar í tvö ár til viðbótar eða jafnvel, ef um er að ræða alvarlega röskun eða hættu á röskun á innanlandsmarkaði fyrir flutningaþjónustu á vegum, í allt að þrjú ár. Hafa EES–EFTA-ríkin sömu heimild til að beita þessum takmörkunum. Í þessu felst að fyrstu tvö árin gilda ákvæði EES-samningsins um heimild ríkisborgara EES- ríkjanna til að stunda flutningaþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu ekki í þeim ríkjum sem voru talin upp hér að framan. Næstu þrjú ár til viðbótar getur aðildarríki ESB eða EES–EFTA-ríki tekið einhliða ákvörðun um að þessi ákvæði skuli ekki gilda.
    Í aðildarlögum ESB er jafnframt mælt fyrir um ef ríki, sem ekki hefur beitt þeim takmörkunum sem greint var frá hér að framan, verður fyrir alvarlegri röskun á innanlandsmarkaði vegna slíkrar flutningastarfsemi, getur það óskað eftir því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins heimili því að beita sambærilegum takmörkunum. Er framkvæmdastjórninni því falið vald til að taka ákvörðun um beitingu slíkra verndarráðstafana (eða öryggisráðstafana). Í ljósi sjónarmiða um sjálfræði samningsaðila til ákvarðanatöku í EES-samstarfinu getur framkvæmdastjórnin ekki tekið slíka ákvörðun gagnvart EES–EFTA-ríki. Á því bókun 44 við um beitingu verndarráðstafana af þessu tagi, en í þeim felst að EES–EFTA-ríki tekur einhliða ákvörðun um beitingu

j) Samkeppni.
    Reglur EES-samningsins um samkeppnismál er að finna í 54.–60. gr. Þá er í viðauka XIV við EES-samninginn að finna gerðir ESB sem varða samkeppnismál og felldar hafa verið inn í EES-samninginn.
    Samkvæmt viðauka B við aðildarsamning EES skal fella inn í EES-samninginn ákvæði aðildarlaga Evrópusambandsins varðandi það bráðabirgðafyrirkomulag sem veita skal Kýpur, Ungverjalandi, Möltu, Póllandi og Slóvakíu. Með þessu er verið að vísa til tímabundinna undanþágna sem fyrrnefnd ríki hafa fengið frá samkeppnisreglum Evrópusambandsins. Skulu þessar undanþágur því einnig gilda gagnvart samkeppnisreglum EES-samningsins.
    Í þeim undanþágum sem hér um ræðir felst fyrst og fremst tímabundin heimild framangreindra ríkja til að veita tilteknum fyrirtækjum í þessum ríkjum sérstök skattfríðindi sem annars væri ekki heimilt samkvæmt reglum Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins um ríkisaðstoð. Er í aðildarlögunum að finna nánari ákvæði um gildissvið, umfang, skilyrði og gildistíma fyrir þessum tímabundnu aðlögunum. Ekki er hægt að útiloka að þessi ákvæði kunni að hafa einhver neikvæð áhrif á samkeppnisskilyrði á innri markaðinum og þar á meðal á Evrópska efnahagssvæðinu. Ekki verður þó séð að þessar aðlaganir muni hafa veruleg áhrif á íslenska hagsmuni.

k) Ríkisaðstoð.
    Reglur um ríkisstyrki er að finna í 61.–64. gr. EES-samningsins. Þá segir í 63. EES- samningsins að í viðauka XV séu sérstök ákvæði um ríkisstyrki. Er þar að finna þær gerðir Evrópusambandsins á sviði ríkisaðstoðar sem eru hluti EES-samningsins. Enn fremur er ákvæði um þetta efni að finna í bókun 26 þar sem mælt er fyrir um valdsvið og störf Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar. Þá er að finna mikilvæg ákvæði um þetta svið í bókun 3 við samning EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
    Í viðauka B við aðildarsamning EES segir að það fyrirkomulag varðandi núverandi aðstoðarkerfi, sem mælt er fyrir um í 3. kafla (Samkeppni) í IV. viðauka við aðildarlögin frá 16. apríl 2003, skuli gilda milli samningsaðila.
    Það fyrirkomulag sem hér er vísað til eru ákvæði 3. kafla IV. viðauka aðildarlaga Evrópusambandsins. Þar er að finna skýringu á því hvað skuli teljast „aðstoðarkerfi sem eru við lýði“ í skilningi 1. mgr. 88. gr. EES-samningsins í hinum nýju aðildarríkjum. Rétt er að geta þess að sambærilegt ákvæði er ekki að finna í sjálfum EES-samningnum. Hins vegar er sambærilegt ákvæði í 1. mgr. 1. gr. bókunar 3 við samning EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Bæði í 88. gr. stofnsamnings EB og 1. gr. bókunar 3 við framangreindan samning er að finna sérstakar reglur um hvernig framkvæma beri eftirlit með reglum um ríkisstyrki gagnvart þeim aðstoðarkerfum sem þegar eru við lýði í ESB eða EFTA-ríki. Það ákvæði aðildarlaganna sem hér um ræðir mælir fyrir um hvernig þessu eftirliti skuli háttað gagnvart hinum nýju aðildarríkjum. Í ljósi þess að sömu reglur gilda um ríkisaðstoð innan alls Evrópska efnahagssvæðisins var talið rétt að fella þessi ákvæði aðildarlaganna inn í EES-samninginn.

l) Hugverkaréttindi.
    Reglur um hugverkarétt er að finna í bókun 28 við EES-samninginn. Þá eru nánari ákvæði um þær gerðir sem falla undir bókun 28 í viðauka XVII við samninginn.
    Í viðauka B við aðildarsamning EES segir að sú sérstaka málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 2. kafla (Félagaréttur) IV. viðauka við aðildarlögin skuli gilda milli samningsaðila. Hér er vísað til sérstaks ákvæðis er varðar einkaleyfisvernd vegna lyfjaframleiðslu. Gildir þetta ákvæði gagnvart Tékklandi, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Ungverjalandi, Póllandi, Slóveníu og Slóvakíu. Ekki verður séð að þetta aðlögunarákvæði hafi áhrif hér á landi.

m) Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna.
    Samkvæmt 68. gr. EES-samningsins skulu samningsaðilar gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja góða framkvæmd samningsins á sviði vinnulöggjafar. Skulu þessar ráðstafanir tilgreindar í viðauka XVIII. Í honum er því að finna þær gerðir Evrópusambandsins varðandi öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnurétt og jafnrétti kynjanna sem felldar hafa verið inn í EES-samninginn.
    Við aðild nýju samningsaðilanna að Evrópusambandinu og EES-samningnum verða nýju aðildarríkin að leiða í lög samevrópskar reglur á sviði vinnuverndar og vinnuréttar. Má fullyrða að það muni hafa jákvæð áhrif á stöðu launþega í þessum ríkjum. Samkvæmt viðauka B munu sum af nýju aðildarríkjunum þó fá skamman aðlögunartíma til að gangast undir tilteknar gerðir sem varða öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, en öll ríkin skulu þó hafa lokið við að innleiða reglur á þessu sviði eigi síðar en 31. desember 2005. Ekki verður talið að þessi ákvæði hafi áhrif hér á landi.

n) Umhverfismál.
    Ákvæði um umhverfismál er að finna í 73.–74. gr. EES-samningsins. Segir í 74. gr. að í viðauka XX séu sérstök ákvæði um verndarráðstafanir sem skulu gilda skv. 73. gr. samningsins. Í viðauka XX er því að finna þær gerðir á sviði umhverfismála sem felldar hafa verið inn í EES-samninginn.
    Telja verður að það muni hafa veruleg jákvæð áhrif á stöðu umhverfismála í Evrópu að löggjöf Evrópusambandsins á þessu sviði verði innleidd meðal hinna tíu nýju aðildarríkja Evrópusambandsins, en jafnframt er ljóst að það mun kosta verulegt átak í mörgum þessara ríkja að ná að uppfylla þessa reglur. Af þeim sökum var samið um nokkrar efnislegar aðlaganir vegna þeirra gerða Evrópubandalagsins sem varða þetta svið. Sérstaklega reyndist þessum ríkjum erfitt að uppfylla kröfur um gæði neysluvatns, varnir gegn loftmengun, eyðingu úrgangs og fráveitumál. Er því mælt fyrir um í viðauka B að þessi ríki fái aðlögunartíma til að ná að uppfylla þessar kröfur. Þessi aðlögunarákvæði hafa ekki áhrif hér á landi.


VI. LOKAGERÐ

    Með frumvarpi þessu fylgir lokagerð aðildarsamnings EES. Lokagerðinni fylgja sameiginlegar og einhliða yfirlýsingar samningsaðila í tengslum við gerð aðildarsamningsins. Þá fylgja lokagerðinni einnig fylgisamningarnir fjórir sem gerðir voru samhliða gerð aðildarsamnings EES, þar á meðal viðbótarbókun við samning Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu.
    Þá er í lokagerð aðildarsamningsins mælt fyrir um að leggja skuli fram, eigi síðar en við gildistöku samningsins, EES-samninginn með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og óstyttum texta allra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, í staðfestri útgáfu á opinberum tungumálum nýju samningsaðilanna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með frumvarpinu er lagt til að heimild verði veitt til að fullgilda samninginn um aðild Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Með samningnum er átt við meginmál samningsins og fylgiskjöl með honum, þ.e. bókanir og viðauka.
    Samningnum fylgja sameiginlegar yfirlýsingar, yfirlýsingar allra samningsaðila og yfirlýsingar eins eða fleiri samningsaðila, en þær geta haft áhrif á túlkun samningsins. Einnig fylgja samningnum fylgisamningar, en einungis einn þeirra varðar Ísland, þ.e. viðbótarbókun við samning Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands frá 22. júlí 1972 um fríverslun, vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu.

Um 2. gr.

    Með 2. gr. er lagt til að 1. mgr. 2. gr. samningsins hafi lagagildi hér á landi. Eins og áður er getið mælir 1. mgr. 2. gr. aðildarsamnings EES fyrir um breytingar á sjálfu meginmáli EES-samningsins. Þar sem meginmál EES-samningsins hefur lagagildi hér á landi samkvæmt lögum nr. 2/1993 er nauðsynlegt að lögfesta einnig breytingar á meginmáli hans. Vísað er til umfjöllunar um 1. mgr. 2. gr. hér að framan um efni þessara ákvæða.
    Ekki þykir nauðsynlegt að lögfesta önnur ákvæði aðildarsamningsins.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.
Fylgiskjal I.


SAMNINGUR
UM ÞÁTTTÖKU LÝÐVELDISINS TÉKKLANDS,
LÝÐVELDISINS EISTLANDS, LÝÐVELDISINS KÝPUR,
LÝÐVELDISINS LETTLANDS, LÝÐVELDISINS LITHÁENS,
LÝÐVELDISINS UNGVERJALANDS, LÝÐVELDISINS MÖLTU,
LÝÐVELDISINS PÓLLANDS, LÝÐVELDISINS SLÓVENÍU
OG LÝÐVELDISINS SLÓVAKÍU
Á EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐINU


EVRÓPUBANDALAGIÐ,

KONUNGSRÍKIÐ BELGÍA,
KONUNGSRÍKIÐ DANMÖRK,
SAMBANDSLÝÐVELDIÐ ÞÝSKALAND,
LÝÐVELDIÐ GRIKKLAND,
KONUNGSRÍKIÐ SPÁNN,
LÝÐVELDIÐ FRAKKLAND,
ÍRLAND,
LÝÐVELDIÐ ÍTALÍA,
STÓRHERTOGADÆMIÐ LÚXEMBORG,
KONUNGSRÍKIÐ HOLLAND,
LÝÐVELDIÐ AUSTURRÍKI,
LÝÐVELDIÐ PORTÚGAL,
LÝÐVELDIÐ FINNLAND,
KONUNGSRÍKIÐ SVÍÞJÓÐ,
HIÐ SAMEINAÐA KONUNGSRÍKI STÓRA-BRETLANDS OG NORÐUR-ÍRLANDS,
(hér á eftir nefnd „aðildarríki EB“)

LÝÐVELDIÐ ÍSLAND,
FURSTADÆMIÐ LIECHTENSTEIN,
KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR,
(hér á eftir nefnd „EFTA-ríki“)

(nefnast saman hér á eftir „núverandi samningsaðilar“)

og

LÝÐVELDIÐ TÉKKLAND,
LÝÐVELDIÐ EISTLAND,
LÝÐVELDIÐ KÝPUR,
LÝÐVELDIÐ LETTLAND,
LÝÐVELDIÐ LITHÁEN,
LÝÐVELDIÐ UNGVERJALAND,
LÝÐVELDIÐ MALTA,
LÝÐVELDIÐ PÓLLAND,
LÝÐVELDIÐ SLÓVENÍA,
LÝÐVELDIÐ SLÓVAKÍA,

ÞAR EÐ sáttmáli um aðild Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu (hér á eftir nefndur „aðildarsáttmáli“) var undirritaður í Aþenu 16. apríl 2003,

ÞAR EÐ, skv. 128. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem var undirritaður í Óportó 2. maí 1992, er Evrópuríki, sem gengur í bandalagið, skylt að sækja um aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (hér á eftir nefndur „EES-samningurinn“),

ÞAR EÐ Lýðveldið Tékkland, Lýðveldið Eistland, Lýðveldið Kýpur, Lýðveldið Lettland, Lýðveldið Litháen, Lýðveldið Ungverjaland, Lýðveldið Malta, Lýðveldið Pólland, Lýðveldið Slóvenía og Lýðveldið Slóvakía hafa sótt um að gerast aðilar að EES-samningnum,

ÞAR EÐ fjallað skal um skilyrði og skilmála fyrir slíkri þátttöku í samningi milli núverandi samningsaðila og umsóknarríkjanna,

HAFA ÁKVEÐIÐ að gera með sér svohljóðandi samning:

1. gr.

1.          Lýðveldið Tékkland, Lýðveldið Eistland, Lýðveldið Kýpur, Lýðveldið Lettland, Lýðveldið Litháen, Lýðveldið Ungverjaland, Lýðveldið Malta, Lýðveldið Pólland, Lýðveldið Slóvenía og Lýðveldið Slóvakía öðlast hér með aðild að EES-samningnum og nefnast hér á eftir „nýju samningsaðilarnir“.
2.          Um leið og samningur þessi öðlast gildi skulu ákvæði EES-samningsins, með áorðnum breytingum samkvæmt þeim ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem samþykktar voru fyrir 1. nóvember 2002, verða bindandi fyrir nýju samningsaðilana með sömu skilmálum og fyrir núverandi samningsaðila og með þeim skilmálum sem mælt er fyrir um í samningi þessum.
3.          Viðaukar við samning þennan skulu vera óaðskiljanlegur hluti samningsins.

2. gr.

1)          AÐLÖGUN MEGINMÁLS EES-SAMNINGSINS
         a)          INNGANGSORÐ
                    Eftirfarandi komi í stað skrárinnar yfir samningsaðila:
                    „EVRÓPUBANDALAGIÐ,
                    KONUNGSRÍKIÐ BELGÍA,
                    LÝÐVELDIÐ TÉKKLAND,
                    KONUNGSRÍKIÐ DANMÖRK,
                    SAMBANDSLÝÐVELDIÐ ÞÝSKALAND,
                    LÝÐVELDIÐ EISTLAND,
                    LÝÐVELDIÐ GRIKKLAND,
                    KONUNGSRÍKIÐ SPÁNN,
                    LÝÐVELDIÐ FRAKKLAND,
                    ÍRLAND,
                    LÝÐVELDIÐ ÍTALÍA,
                    LÝÐVELDIÐ KÝPUR,
                    LÝÐVELDIÐ LETTLAND,
                    LÝÐVELDIÐ LITHÁEN,
                    STÓRHERTOGADÆMIÐ LÚXEMBORG,
                    LÝÐVELDIÐ UNGVERJALAND,
                    LÝÐVELDIÐ MALTA,
                    KONUNGSRÍKIÐ HOLLAND,
                    LÝÐVELDIÐ AUSTURRÍKI,
                    LÝÐVELDIÐ PÓLLAND,
                    LÝÐVELDIÐ PORTÚGAL,
                    LÝÐVELDIÐ SLÓVENÍA,
                    LÝÐVELDIÐ SLÓVAKÍA,
                    LÝÐVELDIÐ FINNLAND,
                    KONUNGSRÍKIÐ SVÍÞJÓÐ,
                    HIÐ SAMEINAÐA KONUNGSRÍKI STÓRA-BRETLANDS OG NORÐUR- ÍRLANDS,

                    OG

                    LÝÐVELDIÐ ÍSLAND,
                    FURSTADÆMIÐ LIECHTENSTEIN,
                    KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR,“
        b)          2. gr.
                      i.          Í stað textans í b-lið komi eftirfarandi:
                               „Hugtakið „EFTA-ríki“ merkir Lýðveldið Ísland, Furstadæmið Liechtenstein og Konungsríkið Noreg;“.
                      ii.     Í c-lið falli brott orðin „og stofnsáttmála Kola- og stálbandalags Evrópu“.
                      iii.     Eftirfarandi liður bætist við:
                            „d)    Hugtakið „aðildarlögin frá 16. apríl 2003“ merkir lögin um aðildarskilmála Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu og um aðlögun sáttmálanna sem mynda grundvöll Evrópusambandsins sem voru samþykkt í Aþenu 16. apríl 2003“.
        c)         109. gr.
                    Í 1. mgr. falli brott orðin „ , stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins“.
        d)         117. gr.
                    Í stað textans í 117. gr. komi eftirfarandi:
                    „Ákvæði um fjármagnskerfin er að finna í bókun 38 og bókun 38a.“
        e)         121. gr.
                    Liður c falli brott.
        f)         126. gr.
                    Eftirfarandi breytingar skulu gerðar á 1. mgr.:
                    i.        Í stað orðanna „og stofnsáttmáli Kola- og stálbandalags Evrópu taka til“ komi orðin „tekur til“.
                    ii.    Þessi breytingarliður á ekki við um íslensku útgáfuna.
                    iii.    Í stað orðanna „Lýðveldisins Austurríkis, Lýðveldisins Finnlands, Lýðveldisins Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins, Konungsríkisins Noregs, Konungsríkisins Svíþjóðar“ komi orðin „Lýðveldisins Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins og Konungsríkisins Noregs“.
        g)        129. gr.
                    i.        Eftirfarandi málsliður bætist við á eftir fyrsta málslið 1. mgr.:
                            „Vegna stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins skulu útgáfur af samningi þessum á eistnesku, lettnesku, litháísku, maltnesku, pólsku, slóvakísku, slóvensku, tékknesku og ungversku vera jafngildar.“
                    ii.    Eftirfarandi komi í stað málsliðarins sem nú er þriðji málsliður 1. mgr.:
                            „Textar gerða, sem vísað er til í viðaukunum, eru jafngildir á dönsku, eistnesku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, ítölsku, lettnesku, litháísku, maltnesku, pólsku, portúgölsku, slóvakísku, slóvensku, spænsku, sænsku, tékknesku, ungversku og þýsku eins og þeir birtast í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, og skulu með tilliti til jafngildingar gerðir á íslensku og norsku og birtir í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.“
2)        AÐLÖGUN BÓKANA VIÐ EES-SAMNINGINN
        a)        Bókun 36
                    Eftirfarandi komi í stað fyrstu málsgreinar 2. gr.:
                    „Sameiginlegu EES-þingmannanefndina skulu skipa alls tuttugu og fjórir nefndarmenn.“
        b)         Ný bókun 38a
                    Ný bókun 38a bætist við á eftir bókun 38:
                    „BÓKUN 38a
                    UM FJÁRMAGNSKERFI EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐISINS

1. gr.

EFTA-ríkin skulu leggja sitt af mörkum til að draga úr efnahagslegu og félagslegu misvægi á Evrópska efnahagssvæðinu með því að veita fjárstyrki til fjárfestingar- og þróunarverkefna í forgangsgeirunum sem um getur í 3. gr.

2. gr.

Framlagið, sem kveðið er á um í 1. gr., skal nema 600 milljónum evra alls og skulu vera til ráðstöfunar á hverju ári 120 milljónir evra á tímabilinu 1. maí 2004 til 30. apríl 2009, að báðum dögum meðtöldum.

3. gr.

1.          Styrki skal veita til verkefna í eftirtöldum forgangsgeirum:
a)        umhverfisvernd, þ.m.t. umhverfi mannsins, m.a. með mengunarvörnum og nýtingu endurnýjanlegra orkulinda,
b)        stuðningur við sjálfbæra þróun með betri nýtingu og stýringu auðlinda,
c)        verndun menningararfleifðar Evrópu, þ.m.t. almenningssamgöngur og borgarendurnýjun,
d)        þróun mannauðsins, m.a. með eflingu menntunar og starfsþjálfunar, styrkingu stjórnsýslu eða opinberrar þjónustu héraðs- og sveitarstjórna og tengdra stofnana, sem og þeirrar lýðræðisskipanar sem þær hvíla á,
e)        heilbrigðismál og umönnun barna.
2.         Heimilt er að veita fjárstyrki til fræðilegra rannsókna sem beinast að einum eða fleiri forgangsgeirum.

4. gr.

1.          Styrkir EFTA-ríkjanna skulu nema að hámarki 60% af kostnaði við hvert verkefni, nema það sé fjármagnað að öðru leyti með framlögum úr ríkissjóði eða frá héraðs- eða sveitarstjórnum en í slíkum tilvikum má styrkurinn nema að hámarki 85% af heildarkostnaði. Virða skal gildandi reglur bandalagsins um hámark sameiginlegrar fjármögnunar.
2.          Virða skal gildandi reglur um ríkisaðstoð.
3.          Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna skal skoða tillögur um verkefni og ganga úr skugga um að þær samræmist markmiðum bandalagsins.
4.          Ábyrgð EFTA-ríkjanna á verkefnunum takmarkast við fjárveitingar samkvæmt samþykktri áætlun. Þau bera ekki ábyrgð gagnvart þriðja aðila.

5. gr.

Fjárveitingar skulu renna til þeirra ríkja sem njóta styrks (Tékklands, Eistlands, Grikklands, Spánar, Kýpur, Lettlands, Litháens, Ungverjalands, Möltu, Póllands, Portúgals, Slóveníu og Slóvakíu) og skiptast þannig:

Ríki sem nýtur styrks Hlutfall af heildarframlagi
Tékkland 8,09 %
Eistland 1,68 %
Grikkland 5,71 %
Spánn 7,64 %
Kýpur 0,21 %
Lettland 3,29 %
Litháen 4,50 %
Ungverjaland 10,13 %
Malta 0,32 %
Pólland 46,80 %
Portúgal 5,22 %
Slóvenía 1,02 %
Slóvakía 5,39 %

6. gr.

Í því skyni að endurúthluta þeim fjármunum, sem hefur ekki verið úthlutað og eru til ráðstöfunar til forgangsverkefna, í einhverju þeirra ríkja sem njóta styrks skal fara fram endurskoðun á styrkúthlutun í nóvember 2006 og aftur í nóvember 2008.

7. gr.

1.          Fjárframlögin, sem kveðið er á um í bókun þessari, skulu vandlega samræmd tvíhliða framlagi Noregs sem kveðið er á um í samningi um norska fjármagnskerfið.
2.          Einkum skulu EFTA-ríkin sjá til þess að sömu reglur gildi um málsmeðferð við umsóknir til beggja fjármagnskerfanna sem um getur í málsgreininni hér að framan.
3.          Tillit skal tekið til viðeigandi breytinga sem verða á samheldnistefnumiðum bandalagsins eftir því sem við á.

8. gr.

1.          EFTA-ríkin skulu skipa nefnd til þess að stýra EES-fjármagnskerfinu.
2.          EFTA-ríkin skulu setja frekari ákvæði um framkvæmd EES-fjármagnskerfisins eftir því sem þörf krefur.
3.          Stjórnunarkostnaður skal greiddur af heildarfjárhæðinni sem um getur í 2. gr.

9. gr.

Við lok fimm ára tímabilsins og með fyrirvara um réttindi og skyldur samkvæmt samningnum munu samningsaðilar endurskoða þörfina á að taka á efnahagslegu og félagslegu misvægi á Evrópska efnahagssvæðinu með tilliti til 115. gr.

10. gr.

Ef ríki, sem nýtur styrks og nefnt er í 5. gr. þessarar bókunar, hefur ekki gerst aðili að samningnum hinn 1. maí 2004 eða hafi orðið breytingar á þeim hópi EFTA-ríkja, sem eiga aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, skulu gerðar nauðsynlegar breytingar á bókun þessari.“
        c)         Ný bókun 44
                    Eftirfarandi bætist við sem bókun 44:
                    „BÓKUN 44
                    UM VERNDARRÁÐSTAFANIR Í AÐILDARLÖGUNUM FRÁ 16. APRÍL 2003

                    1.    Beiting 112. gr. samningsins í tengslum við almenn, efnahagsleg verndarákvæði og verndarráðstafanir sem er að finna í tilteknu bráðabirgðafyrirkomulagi um frjálsa fólksflutninga og flutninga á vegum.
                            Ákvæði 112. gr. gilda einnig í þeim tilvikum sem tilgreind eru eða um getur í ákvæðum 37. gr. aðildarlaganna frá 16. apríl 2003 og í verndarráðstöfunum í bráðabirgðafyrirkomulaginu undir fyrirsögnunum „Aðlögunartímabil“ í V. viðauka (Frelsi launþega til flutninga) og VIII. viðauka (Staðfesturéttur), í lið 30 (tilskipun 96/71/EB) í XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) og í lið 26c (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3118/93) í XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) og skulu tímamörk, gildissvið og áhrif vera hin sömu og mælt er fyrir um í þessum ákvæðum.
                    2.    Verndarákvæði sem varða innra markaðinn
                            Almenn tilhögun ákvarðanatöku, sem kveðið er á um í samningnum, gildir einnig um ákvarðanir sem framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna tekur í tengslum við beitingu 38. gr. aðildarlaganna frá 16. apríl 2003.“

3. gr.

1.          Allar breytingar samkvæmt lögum um aðild Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu og aðlögun sáttmálanna, sem mynda grundvöll Evrópusambandsins (hér á eftir nefnd „aðildarlögin frá 16. apríl 2003“), á gerðum, sem stofnanir bandalagsins hafa samþykkt og felldar hafa verið inn í EES-samninginn, eru hér með felldar inn í EES- samninginn og gerðar hluti af honum.
2.          Í þessu skyni bætist eftirfarandi undirliður við í þeim liðum viðauka og bókana við EES- samninginn sem hafa að geyma tilvísanir til gerða sem samþykktar hafa verið af viðkomandi stofnunum bandalagsins:
    „–        [CELEX-númer]: Lög um aðildarskilmála Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu og aðlögun sáttmálanna sem mynda grundvöll Evrópusambandsins, samþykkt 16. apríl 2003.“
3.          Ef undirliðurinn, sem um getur í 2. mgr., er fyrsti undirliður í viðkomandi lið skal setja á undan honum orðin „eins og henni var breytt með:“.
4.          Í viðauka A við samning þennan eru taldir upp þeir liðir í viðaukum og bókunum við EES- samninginn sem breyta þarf með því að skjóta inn textanum sem um getur í 2. og 3. mgr.
5.          Sé nauðsynlegt vegna tilkomu nýju samningsaðilanna að aðlaga gerðir sem hafa verið felldar inn í EES-samninginn fyrir gildistökudag samnings þessa og sé þann aðlögunartexta ekki að finna í samningi þessum verður staðið að slíkri aðlögun í samræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í EES-samningnum.

4. gr.

1.          Það fyrirkomulag, sem kveðið er á um í viðauka B við samning þennan, er hér með fellt inn í EES-samninginn og gert hluti af honum.
2.          Staðið verður að hverju því fyrirkomulagi, sem varðar EES-samninginn og um getur í aðildarlögunum frá 16. apríl 2003 en er ekki getið í viðauka B við samning þennan, í samræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í EES-samningnum.

5. gr.

Öllum aðilum að samningi þessum er heimilt að leggja fyrir sameiginlegu EES-nefndina hvert það mál sem varðar túlkun hans eða beitingu. Sameiginlegu EES-nefndinni ber að taka málið til athugunar með það fyrir augum að finna lausn sem stuðlar að góðri framkvæmd EES- samningsins.

6. gr.

1.          Núverandi samningsaðilar og nýir samningsaðilar skulu fullgilda eða samþykkja samning þennan í samræmi við reglur sínar um málsmeðferð. Skjöl um fullgildingu eða samþykki skulu afhent aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins til vörslu.
2.          Samningur þessi öðlast gildi sama dag og aðildarsáttmálinn, að því tilskildu að skjöl um fullgildingu eða samþykki samnings þessa hafi verið afhent fyrir þann dag og að eftirtaldir samningar öðlist einnig gildi þann dag:
a)    samningur milli Konungsríkisins Noregs og Evrópubandalagsins um norskt fjármagnskerfi fyrir árin 2004–2009,
b)    viðbótarbókun við samning Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu,
c)    viðbótarbókun við samning Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu,
d)    samningur í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um tilteknar landbúnaðarafurðir.
3.          Þótt einhverjir nýju samningsaðilanna hafi ekki afhent skjöl sín um fullgildingu eða samþykki til vörslu á tilsettum tíma öðlast samningurinn gildi gagnvart þeim ríkjum sem það hafa gert. EES-ráðið skal þá tafarlaust ákveða hvernig aðlaga beri samning þennan, sem og EES-samninginn eftir atvikum.

7. gr.

Samningi þessum, sem er gerður í einu frumriti á dönsku, eistnesku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, íslensku, ítölsku, lettnesku, litháísku, maltnesku, norsku, pólsku, portúgölsku, slóvakísku, slóvensku, spænsku, sænsku, tékknesku, ungversku og þýsku, og er hver þessara texta jafngildur, skal komið í vörslu hjá aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins og sendir skrifstofan ríkisstjórn hvers samningsaðila staðfest endurrit.

Þessu til staðfestu hafa fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

Gjört í


Fyrir hönd Evrópubandalagsins

VIÐAUKI A


Skrá sem um getur í 3. gr. samningsins

I. HLUTI

GERÐIR SEM VÍSAÐ ER TIL Í EES-SAMNINGNUM EINS OG HONUM VAR BREYTT MEÐ AÐILDARLÖGUNUM FRÁ 16. APRÍL 2003


Undirliðnum, sem um getur í 2. mgr. 3. gr., skal skotið inn á eftirfarandi stöðum í viðaukum og bókunum við EES-samninginn:

Í I. kafla (Heilbrigði dýra) í I. viðauka (Heilbrigði dýra og plantna):
    –          í 4. lið hluta 1.1 (tilskipun ráðsins 97/78/EB),
    –          í 5. lið hluta 1.1 (tilskipun ráðsins 91/496/EBE),
    –          í 16. lið hluta 1.2 (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 93/13/EBE),
    –          í 67. lið hluta 1.2 (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 97/735/EB),
    –          í 71. lið hluta 1.2 (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2629/97),
    –          í 1. lið hluta 3.1 (tilskipun ráðsins 85/511/EBE),
    –          í 3. lið hluta 3.1 (tilskipun ráðsins 80/217/EBE),
    –          í 4. lið hluta 3.1 (tilskipun ráðsins 92/35/EBE),
    –          í 5. lið hluta 3.1 (tilskipun ráðsins 92/40/EBE),
    –          í 6. lið hluta 3.1 (tilskipun ráðsins 92/66/EBE),
    –          í 7. lið hluta 3.1 (tilskipun ráðsins 93/53/EBE),
    –          í 8. lið hluta 3.1 (tilskipun ráðsins 95/70/EB),
    –          í 9. lið hluta 3.1 (tilskipun ráðsins 92/119/EBE),
    –          í 9. lið a í hluta 3.1 (tilskipun ráðsins 2000/75/EB),
    –          í 1. lið hluta 4.1 (tilskipun ráðsins 64/432/EBE),
    –          í 3. lið hluta 4.1 (tilskipun ráðsins 90/426/EBE),
    –          í 4. lið hluta 4.1 (tilskipun ráðsins 90/539/EBE),
    –          í 9. lið hluta 4.1 (tilskipun ráðsins 92/65/EBE),
    –          í 1. lið hluta 5.1 (tilskipun ráðsins 72/461/EBE),
    –          í 4. lið hluta 5.1 (tilskipun ráðsins 92/46/EBE),
    –          í 5. lið hluta 5.1 (tilskipun ráðsins 91/495/EBE),
    –          í 6. lið hluta 5.1 (tilskipun ráðsins 92/45/EBE),
    –          í 7. lið hluta 5.1 (tilskipun ráðsins 92/118/EBE),
    –          í 1. lið hluta 6.1 (tilskipun ráðsins 64/433/EBE),
    –          í 2. lið hluta 6.1 (tilskipun ráðsins 71/118/EBE),
    –          í 4. lið hluta 6.1 (tilskipun ráðsins 77/99/EBE),
    –          í 7. lið hluta 6.1 (tilskipun ráðsins 89/437/EBE),
    –          í 8. lið hluta 6.1 (tilskipun ráðsins 91/493/EBE),
    –          í 11. lið hluta 6.1 (tilskipun ráðsins 92/46/EBE),
    –          í 13. lið hluta 6.1 (tilskipun ráðsins 91/495/EBE),
    –          í 14. lið hluta 6.1 (tilskipun ráðsins 92/45/EBE),
    –          í 15. lið hluta 6.1 (tilskipun ráðsins 92/118/EBE),
    –          í 17. lið hluta 6.2 (ákvörðun ráðsins 93/383/EBE),
    –          í 39. lið hluta 6.2 (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 98/536/EB),
    –          í 2. lið hluta 7.1 (tilskipun ráðsins 96/23/EB),
    –          í 14. lið hluta 7.2 (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 98/179/EB),
    –          í 2. lið hluta 8.1 (tilskipun ráðsins 90/426/EBE),
    –          í 3. lið hluta 8.1 (tilskipun ráðsins 90/539/EBE),
    –          í 8. lið hluta 8.1 (tilskipun ráðsins 71/118/EBE),
    –          í 11. lið hluta 8.1 (tilskipun ráðsins 91/493/EBE),
    –          í 13. lið hluta 8.1 (tilskipun ráðsins 92/46/EBE),
    –          í 14. lið hluta 8.1 (tilskipun ráðsins 92/45/EBE),
    –          í 15. lið hluta 8.1 (tilskipun ráðsins 92/65/EBE),
    –          í 16. lið hluta 8.1 (tilskipun ráðsins 92/118/EBE),
    –          í 17. lið hluta 8.1 (tilskipun ráðsins 77/96/EBE),
    –          í 9. lið hluta 9.1 (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2000/50/EB).

Í II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun)

A.         Í I. kafla (Vélknúin ökutæki)
        –          í 1. lið (tilskipun ráðsins 70/156/EBE),
        –          í 2. lið (tilskipun ráðsins 70/157/EBE),
        –          í 3. lið (tilskipun ráðsins 70/220/EBE),
        –          í 4. lið (tilskipun ráðsins 70/221/EBE),
        –          í 8. lið (tilskipun ráðsins 70/388/EBE),
        –          í 9. lið (tilskipun ráðsins 71/127/EBE),
        –          í 10. lið (tilskipun ráðsins 71/320/EBE),
        –          í 11. lið (tilskipun ráðsins 72/245/EBE),
        –          í 14. lið (tilskipun ráðsins 74/61/EBE),
        –          í 16. lið (tilskipun ráðsins 74/408/EBE),
        –          í 17. lið (tilskipun ráðsins 74/483/EBE),
        –          í 19. lið (tilskipun ráðsins 76/114/EBE),
        –          í 22. lið (tilskipun ráðsins 76/757/EBE),
        –          í 23. lið (tilskipun ráðsins 76/758/EBE),
        –          í 24. lið (tilskipun ráðsins 76/759/EBE),
        –          í 25. lið (tilskipun ráðsins 76/760/EBE),
        –          í 26. lið (tilskipun ráðsins 76/761/EBE),
        –          í 27. lið (tilskipun ráðsins 76/762/EBE),
        –          í 29. lið (tilskipun ráðsins 77/538/EBE),
        –          í 30. lið (tilskipun ráðsins 77/539/EBE),
        –          í 31. lið (tilskipun ráðsins 77/540/EBE),
        –          í 32. lið (tilskipun ráðsins 77/541/EBE),
        –          í 36. lið (tilskipun ráðsins 78/318/EBE),
        –          í 39. lið (tilskipun ráðsins 78/932/EBE),
        –          í 44. lið (tilskipun ráðsins 88/77/EBE),
        –          í 45. lið a (tilskipun ráðsins 91/226/EBE),
        –          í 45. lið r (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/20/EB),
        –          í 45. lið t (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/28/EB),
        –          í 45. lið za (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/24/EB).

B.         Í II. kafla (Landbúnaðardráttarvélar):
        –          í 1. lið (tilskipun ráðsins 74/150/EBE),
        –          í 7. lið (tilskipun ráðsins 75/322/EBE),
        –          í 11. lið (tilskipun ráðsins 77/536/EBE),
        –          í 13. lið (tilskipun ráðsins 78/764/EBE),
        –          í 17. lið (tilskipun ráðsins 79/622/EBE),
        –          í 20. lið (tilskipun ráðsins 86/298/EBE),
        –          í 22. lið (tilskipun ráðsins 87/402/EBE),
        –          í 23. lið (tilskipun ráðsins 89/173/EBE).

C.         Í IV. kafla (Heimilistæki):
        –          í 4. lið a (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 94/2/EB),
        –          í 4. lið b (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 95/12/EB),
        –          í 4. lið c (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 95/13/EB),
        –          í 4. lið d (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 96/60/EB),
        –          í 4. lið f (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/17/EB).

D.         Í VIII. kafla (Þrýstihylki):
        –          í 2. lið (tilskipun ráðsins 76/767/EBE).

E.         Í IX. kafla (Mælitæki):
        –          í 1. lið (tilskipun ráðsins 71/316/EBE),
        –          í 5. lið (tilskipun ráðsins 71/347/EBE),
        –          í 6. lið (tilskipun ráðsins 71/348/EBE),
        –          í 12. lið (tilskipun ráðsins 75/106/EBE).

F.          Í XI. kafla (Textílefni):
        –          í 4. lið b (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/74/EB).

G.          Í XII. kafla (Matvæli):
        –          í 18. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/13/EB),
        –          í 24. lið (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 80/590/EBE),
        –          í 47. lið (tilskipun ráðsins 89/108/EBE),
        –          í 54. lið a (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 91/321/EBE),
        –          í 54. lið b (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2092/91),
        –          í 54. lið w (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 1999/21/EB),
        –          í 54. lið zh (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/36/EB),
        –          í 54. lið zn (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 466/2001),
        –          í 54. lið zs (tilskipun ráðsins 2001/114/EB).

H.          Í XIV. kafla (Áburður):
         –          í 1. lið (tilskipun ráðsins 76/116/EBE).

I.          Í XV. kafla (Hættuleg efni):
         –          í 1. lið (tilskipun ráðsins 67/548/EBE).

J.          Í XVI. kafla (Snyrtivörur):
         –          í 9. lið (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 95/17/EB).

K.          Í XIX. kafla (Almenn ákvæði á sviði tæknilegra viðskiptahindrana):
        –          í 1. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/34/EB),
        –          í 3. lið b (reglugerð ráðsins 339/93/EBE),
        –          í 3. lið e (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/11/EB),
        –          í 3. lið g (tilskipun ráðsins 69/493/EBE).

L.          Í XXIV. kafla (Vélar):
         –          í 1. lið a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/68/EB).

M.          Í XXVII. kafla (Brenndir drykkir):
         –          í 1. lið (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1576/89).

        Í IV. viðauka (Orka):
        –          í 7. lið (tilskipun ráðsins 90/377/EBE),
        –          í 8. lið (tilskipun ráðsins 90/547/EBE),
        –          í 9. lið (tilskipun ráðsins 91/296/EBE),
        –          í 11. lið b (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 95/12/EB),
        –          í 11. lið c (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 95/13/EB),
        –          í 11. lið d (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 96/60/EB),
        –          í 11. lið f (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/17/EB).

        Í V. viðauka (Frelsi launþega til flutninga):
        –          í 3. lið (tilskipun ráðsins 68/360/EBE).

        Í VI. viðauka (Félagslegt öryggi):
        –          í 1. lið (reglugerð ráðsins (EB) nr. 1408/71),
        –          í 2. lið (reglugerð ráðsins (EB) nr. 574/72),
        –          í lið 3.18 (ákvörðun nr. 117),
        –          í lið 3.19 (ákvörðun nr. 118),
        –          í lið 3.27 (ákvörðun nr. 136),
        –          í lið 3.37 (ákvörðun nr. 150).

        Í VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi):
        –          í 1. lið a (tilskipun ráðsins 92/51/EBE),
        –          í 2. lið (tilskipun ráðsins 77/249/EBE),
        –          í 2. lið a (tilskipun ráðsins 98/5/EB),
        –          í 4. lið (tilskipun ráðsins 93/16/EBE),
        –          í 8. lið (tilskipun ráðsins 77/452/EBE),
        –          í 10. lið (tilskipun ráðsins 78/686/EBE),
        –          í 11. lið (tilskipun ráðsins 78/687/EBE),
        –          í 12. lið (tilskipun ráðsins 78/1026/EBE),
        –          í 14. lið (tilskipun ráðsins 80/154/EBE),
        –          í 17. lið (tilskipun ráðsins 85/433/EBE),
        –          í 18. lið (tilskipun ráðsins 85/384/EBE).

        Í IX. viðauka (Fjármálaþjónusta):
        –          í 2. lið (fyrsta tilskipun ráðsins 73/239/EBE),
        –          í 11. lið (fyrsta tilskipun ráðsins 79/267/EBE),
        –          í 13. lið (tilskipun ráðsins 77/92/EBE),
        –          í 14. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB).

        Í XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta):
        –          í 5. lið i (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/34/EB).

         Í XIII. viðauka (Flutningastarfsemi):
        –          í 1. lið (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1108/70),
        –          í 3. lið (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 281/71),
        –          í 5. lið (ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1692/96/EB),
        –          í 7. lið (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1017/68),
        –          í 13. lið (tilskipun ráðsins 92/106/EBE),
        –          í 18. lið a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/62/EB),
        –          í 19. lið (tilskipun ráðsins 96/26/EB),
        –          í 21. lið (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3821/85),
        –          í 24. lið a (tilskipun ráðsins 91/439/EBE),
        –          í 24. lið c (tilskipun ráðsins 1999/37/EB),
        –          í 26. lið a (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 881/92),
        –          í 32. lið (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 684/92),
        –          í 33. lið c (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 2121/98),
        –          í 37. lið (tilskipun ráðsins 91/440/EBE),
        –          í 39. lið (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1192/69),
        –          í 46. lið a (tilskipun ráðsins 91/672/EBE),
        –          í 47. lið (tilskipun ráðsins 82/714/EBE),
        –          í 49. lið (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 77/527/EBE),
        –          í 50. lið (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 4056/86),
        –          í 64. lið a (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2408/92),
        –          í 66. lið c (tilskipun ráðsins 93/65/EBE),
        –          í 66. lið f (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/30/EB).

         Í XIV. viðauka (Samkeppni):
        –          í 2. lið (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2790/99),
        –          í 4. lið b (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1400/2002),
        –          í 5. lið (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 240/96),
        –          í 6. lið (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2658/2000),
        –          í 7. lið (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2659/2000),
        –          í 10. lið (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1017/68),
        –          í 11. lið (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 4056/86),
        –          í 11. lið b (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1617/93),
        –          í 11. lið c (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 823/2000).

         Í XVI. viðauka (Opinber innkaup):
        –          í 2. lið (tilskipun ráðsins 93/37/EBE),
        –          í 3. lið (tilskipun ráðsins 93/36/EBE),
        –          í 4. lið (tilskipun ráðsins 93/38/EBE),
        –          í 5. lið a (tilskipun ráðsins 92/13/EBE),
        –          í 5. lið b (tilskipun ráðsins 92/50/EBE).

         Í XVII. viðauka (Hugverkaréttindi):
        –          í 6. lið (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1768/92),
        –          í 6. lið a (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1610/96).

         Í XX. viðauka (Umhverfismál):
        –          í 2. lið fa (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 761/2001),
        –          í 19. lið a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/80/EB),
        –          í 21. lið aa (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2037/2000).

         Í XXI. viðauka (Hagskýrslugerð):
        –          í 1. lið c (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2702/98),
        –          í 1. lið f (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1227/1999),
        –          í 1. lið g (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1228/1999),
        –          í 6. lið (tilskipun ráðsins 80/1119/EBE),
        –          í 7. lið (tilskipun ráðsins 80/1177/EBE),
        –          í 7. lið c (tilskipun ráðsins 95/57/EB),
        –          í 7. lið f (reglugerð ráðsins (EB) nr. 1172/98),
        –          í 24. lið (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 837/90),
        –          í 24. lið a (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 959/93),
        –          í 25. lið b (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2018/93),
        –          í 26. lið (tilskipun ráðsins 90/377/EBE).

         Í XXII. viðauka (Félagaréttur):
        –          í 1. lið (fyrsta tilskipun ráðsins 68/151/EBE),
        –          í 2. lið (önnur tilskipun ráðsins 77/91/EBE),
        –          í 3. lið (þriðja tilskipun ráðsins 78/855/EBE),
        –          í 4. lið (fjórða tilskipun ráðsins 78/660/EBE),
        –          í 6. lið (sjöunda tilskipun ráðsins 83/349/EBE),
        –          í 9. lið (tólfta tilskipun ráðsins um félagarétt 89/667/EBE).

         Í bókun 21 um framkvæmd samkeppnisreglna sem gilda um fyrirtæki:
        –          í 2. lið 1. mgr. 3. gr. (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) 447/98),
        –          í 7. lið 1. mgr. 3. gr. (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1017/68),
        –          í 11. lið 1. mgr. 3. gr. (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 4056/86).

         Í bókun 26 um valdsvið og störf eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar:
         –          í 2. gr. (reglugerð ráðsins (EB) nr. 659/1999).

         Í bókun 31 um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins:
        –         í neðanmálsgrein (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 337/75) við 6. mgr. 4. gr. (Menntun, þjálfun og æskulýðsmál),
        –         í neðanmálsgrein (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1365/75) við 10. mgr. 5. gr. (Félagsmál),
        –         sjöunda undirlið (ákvörðun ráðsins 2000/819/EB) 5. mgr. 7. gr. (Fyrirtæki, framtakssemi og lítil og meðalstór fyrirtæki).


II. HLUTI

AÐRAR BREYTINGAR Á VIÐAUKUNUM VIÐ EES-SAMNINGINN


Eftirfarandi breytingar skulu gerðar á viðaukunum við EES-samninginn:

Í I. kafla (Heilbrigði dýra) í I. viðauka (Heilbrigði dýra og plantna):

Í 4. lið hluta 1.1 í 1. undirkafla (tilskipun ráðsins 97/78/EB) skulu 16. og 17. liður í aðlögunarlið b endurtölusettir sem 26. og 27. liður.

Í II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun):

Í XII. kafla (Matvæli):

Í 54. lið zs (tilskipun ráðsins 2001/114/EB) skal textanum, sem merktur er „k“ og bætist við II. viðauka, endurraðað og verða „za“.

Í V. viðauka (Frelsi launþega til flutninga):
1)         Í 3. lið (tilskipun ráðsins 68/360/EB) komi eftirfarandi í stað ii-liðar í aðlögunarlið e:
         „ii)         eftirfarandi komi í stað neðanmálsgreinarinnar:
                    „belgísku/belgískir, tékknesku/tékkneskir, dönsku/danskir, þýsku/þýskir, eistnesku/ eistneskir, grísku/grískir, íslensku/íslenskir, spænsku/spænskir, frönsku/ franskir, írsku/írskir, ítölsku/ítalskir, kýpversku/kýpverskir, lettnesku/ lettneskir, liechtensteinsku/liechtensteinskir, litháísku/litháískir, lúxemborgsku/lúxemborgskir, ungversku/ungverskir, maltnesku/maltneskir, hollensku/hollenskir, norsku/norskir, austurrísku/austurrískir, pólsku/pólskir, portúgölsku/ portúgalskir, slóvensku/slóvenskir, slóvakísku/slóvakískir, finnsku/finnskir, sænsku/sænskir og bresku/breskir, eftir því hvaða land gefur leyfið út.“
2)         Í 7. lið (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 93/569/EBE) komi orðin „Ísland og Noreg“ í stað orðanna „Austurríki, Finnland, Ísland, Noreg og Svíþjóð“.

Í VI. viðauka (Félagslegt öryggi):
1)         Eftirfarandi breytingar skulu gerðar á aðlögunarliðunum í 1. lið (reglugerð ráðsins (EB) nr. 1408/71):
        a)         Í aðlögunarliðum h, i, j, k, l, m, p, q, r, t og v skal P-, Q- og R-lið endurraðað og þeir verða ZA-, ZB- og ZC-liður.
         b)         Í stað skrárinnar í aðlögunarlið n komi eftirfarandi:
                    „301.     ÍSLAND – BELGÍA
                                   Enginn samningur.
                    302.          ÍSLAND – TÉKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    303.          ÍSLAND – DANMÖRK
                                 Ákvæði 10. gr. samnings Norðurlandanna um félagslegt öryggi frá 15. júní 1992.
                    304.          ÍSLAND – ÞÝSKALAND
                                   Enginn samningur.
                    305.          ÍSLAND – EISTLAND
                                   Enginn samningur.
                    306.          ÍSLAND – GRIKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    307.          ÍSLAND – SPÁNN
                                   Enginn samningur.
                    308.          ÍSLAND – FRAKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    309.          ÍSLAND – ÍRLAND
                                   Enginn samningur.
                    310.          ÍSLAND – ÍTALÍA
                                   Enginn samningur.
                    311.          ÍSLAND – KÝPUR
                                   Enginn samningur.
                    312.          ÍSLAND – LETTLAND
                                   Enginn samningur.
                    313.          ÍSLAND – LITHÁEN
                                   Enginn samningur.
                    314.          ÍSLAND – LÚXEMBORG
                                   Enginn samningur.
                    315.          ÍSLAND – UNGVERJALAND
                                   Enginn samningur.
                    316.          ÍSLAND – MALTA
                                   Enginn samningur.
                    317.          ÍSLAND – HOLLAND
                                   Enginn samningur.
                    318.          ÍSLAND – AUSTURRÍKI
                                   Engin.
                    319.          ÍSLAND – PÓLLAND
                                   Enginn samningur.
                    320.          ÍSLAND – PORTÚGAL
                                   Enginn samningur.
                    321.          ÍSLAND – SLÓVENÍA
                                   Enginn samningur.
                    322.          ÍSLAND – SLÓVAKÍA
                                   Enginn samningur.
                    323.          ÍSLAND – FINNLAND
                                Ákvæði 10. gr. samnings Norðurlandanna um félagslegt öryggi frá 15. júní 1992.
                    324.          ÍSLAND – SVÍÞJÓÐ
                                Ákvæði 10. gr. samnings Norðurlandanna um félagslegt öryggi frá 15. júní 1992.
                    325.          ÍSLAND – BRESKA KONUNGSRÍKIÐ
                                   Engin.
                    326.          ÍSLAND – LIECHTENSTEIN
                                   Enginn samningur.
                    327.          ÍSLAND – NOREGUR
                                Ákvæði 10. gr. samnings Norðurlandanna um félagslegt öryggi frá 15. júní 1992.
                    328.          LIECHTENSTEIN – BELGÍA
                                   Enginn samningur.
                    329.          LIECHTENSTEIN – TÉKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    330.          LIECHTENSTEIN – DANMÖRK
                                   Enginn samningur.
                    331.          LIECHTENSTEIN – ÞÝSKALAND
                                  Ákvæði 2. mgr. 4. gr. samningsins um félagslegt öryggi frá 7. apríl 1977, eins og honum var breytt með viðbótarsamningi nr. 1 frá 11. ágúst 1989, varðandi greiðslu bóta í peningum til einstaklinga sem eru búsettir í þriðja ríki.
                    332.          LIECHTENSTEIN – EISTLAND
                                   Enginn samningur.
                    333.          LIECHTENSTEIN – GRIKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    334.          LIECHTENSTEIN – SPÁNN
                                   Enginn samningur.
                    335.          LIECHTENSTEIN – FRAKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    336.          LIECHTENSTEIN – ÍRLAND
                                   Enginn samningur.
                    337.          LIECHTENSTEIN – ÍTALÍA
                                Annar málsliður 5. gr. samningsins um félagslegt öryggi frá 11. nóvember 1976 varðandi greiðslu bóta í peningum til einstaklinga sem eru búsettir í þriðja ríki.
                    338.          LIECHTENSTEIN – KÝPUR
                                   Enginn samningur.
                    339.          LIECHTENSTEIN – LETTLAND
                                   Enginn samningur.
                    340.          LIECHTENSTEIN – LITHÁEN
                                   Enginn samningur.
                    341.          LIECHTENSTEIN – LÚXEMBORG
                                   Enginn samningur.
                    342.          LIECHTENSTEIN – UNGVERJALAND
                                   Enginn samningur.
                    343.          LIECHTENSTEIN – MALTA
                                   Enginn samningur.
                    344.          LIECHTENSTEIN – HOLLAND
                                   Enginn samningur.
                    345.          LIECHTENSTEIN – AUSTURRÍKI
                                Ákvæði 4. gr. samningsins um félagslegt öryggi frá 23. september 1998.
                    346.          LIECHTENSTEIN – PÓLLAND
                                   Enginn samningur.
                    347.          LIECHTENSTEIN – PORTÚGAL
                                   Enginn samningur.
                    348.          LIECHTENSTEIN – SLÓVENÍA
                                   Enginn samningur.
                    349.          LIECHTENSTEIN – SLÓVAKÍA
                                   Enginn samningur.
                    350.          LIECHTENSTEIN – FINNLAND
                                   Enginn samningur.
                    351.          LIECHTENSTEIN – SVÍÞJÓÐ
                                   Enginn samningur.
                    352.          LIECHTENSTEIN – BRESKA KONUNGSRÍKIÐ
                                   Enginn samningur.
                    353.          LIECHTENSTEIN – NOREGUR
                                   Enginn samningur.
                    354.          NOREGUR – BELGÍA
                                   Enginn samningur.
                    355.          NOREGUR – TÉKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    356.          NOREGUR – DANMÖRK
                                Ákvæði 10. gr. samnings Norðurlandanna um félagslegt öryggi frá 15. júní 1992.
                    357.          NOREGUR – ÞÝSKALAND
                                   Enginn samningur.
                    358.          NOREGUR – EISTLAND
                                   Enginn samningur.
                    359.          NOREGUR – GRIKKLAND
                                Ákvæði 5. mgr. 16. gr. samningsins um félagslegt öryggi frá 12. júní 1980.
                    360.          NOREGUR – SPÁNN
                                   Enginn samningur.
                    361.          NOREGUR – FRAKKLAND
                                   Engin.
                    362.          NOREGUR – ÍRLAND
                                   Enginn samningur.
                    363.          NOREGUR – ÍTALÍA
                                   Engin.
                    364.          NOREGUR – KÝPUR
                                   Enginn samningur.
                    365.          NOREGUR – LETTLAND
                                   Enginn samningur.
                    366.          NOREGUR – LITHÁEN
                                   Enginn samningur.
                    367.          NOREGUR – LÚXEMBORG
                                   Engin.
                    368.          NOREGUR – UNGVERJALAND
                                   Engin.
                    369.          NOREGUR – MALTA
                                   Enginn samningur.
                    370.          NOREGUR – HOLLAND
                                Ákvæði 2. mgr. 5. gr. samningsins um félagslegt öryggi frá 13. apríl 1989.
                    371.          NOREGUR – AUSTURRÍKI
                                   a)    Ákvæði 2. mgr. 5. gr. samningsins um félagslegt öryggi frá 27. ágúst 1985.
                                  b)    Ákvæði 4. gr. fyrrnefnds samnings að því er varðar einstaklinga sem eru búsettir í þriðja ríki.
                                  c)    Ákvæði II. liðar í lokabókun fyrrnefnds samnings að því er varðar einstaklinga sem eru búsettir í þriðja ríki.
                    372.          NOREGUR – PÓLLAND
                                   Enginn samningur.
                    373.          NOREGUR – PORTÚGAL
                                   Ákvæði 6. gr. samningsins um félagslegt öryggi frá 5. júní 1980.
                    374.          NOREGUR – SLÓVENÍA
                                   Engin.
                    375.          NOREGUR – SLÓVAKÍA
                                   Enginn samningur.
                    376.          NOREGUR – FINNLAND
                                Ákvæði 10. gr. samnings Norðurlandanna um félagslegt öryggi frá 15. júní 1992.
                    377.          NOREGUR – SVÍÞJÓÐ
                                Ákvæði 10. gr. samnings Norðurlandanna um félagslegt öryggi frá 15. júní 1992.
                    378.          NOREGUR – BRESKA KONUNGSRÍKIÐ
                                   Engin.“
        c)         Í stað skrárinnar í aðlögunarlið o komi eftirfarandi:
                    „301.     ÍSLAND – BELGÍA
                                   Enginn samningur.
                    302.          ÍSLAND – TÉKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    303.          ÍSLAND – DANMÖRK
                                   Engin.
                    304.          ÍSLAND – ÞÝSKALAND
                                   Enginn samningur.
                    305.          ÍSLAND – EISTLAND
                                   Enginn samningur.
                    306.          ÍSLAND – GRIKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    307.          ÍSLAND – SPÁNN
                                   Enginn samningur.
                    308.          ÍSLAND – FRAKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    309.          ÍSLAND – ÍRLAND
                                   Enginn samningur.
                    310.          ÍSLAND – ÍTALÍA
                                   Enginn samningur.
                    311.          ÍSLAND – KÝPUR
                                   Enginn samningur.
                    312.          ÍSLAND – LETTLAND
                                   Enginn samningur.
                    313.          ÍSLAND – LITHÁEN
                                   Enginn samningur.
                    314.          ÍSLAND – LÚXEMBORG
                                   Enginn samningur.
                    315.          ÍSLAND – UNGVERJALAND
                                   Enginn samningur.
                    316.          ÍSLAND – MALTA
                                   Enginn samningur.
                    317.          ÍSLAND – HOLLAND
                                   Enginn samningur.
                    318.          ÍSLAND – AUSTURRÍKI
                                Ákvæði 4. gr. samningsins um félagslegt öryggi frá 18. nóvember 1993.
                    319.          ÍSLAND – PÓLLAND
                                   Enginn samningur.
                    320.          ÍSLAND – PORTÚGAL
                                   Enginn samningur.
                    321.          ÍSLAND – SLÓVENÍA
                                   Enginn samningur.
                    322.          ÍSLAND – SLÓVAKÍA
                                   Enginn samningur.
                    323.          ÍSLAND – FINNLAND
                                   Engin.
                    324.          ÍSLAND – SVÍÞJÓÐ
                                   Engin.
                    325.          ÍSLAND – BRESKA KONUNGSRÍKIÐ
                                   Engin.
                    326.          ÍSLAND – LIECHTENSTEIN
                                   Enginn samningur.
                    327.          ÍSLAND – NOREGUR
                                  Engin.
                    328.          LIECHTENSTEIN – BELGÍA
                                   Enginn samningur.
                    329.          LIECHTENSTEIN – TÉKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    330.          LIECHTENSTEIN – DANMÖRK
                                   Enginn samningur.
                    331.          LIECHTENSTEIN – ÞÝSKALAND
                                Ákvæði 2. mgr. 4. gr. samningsins um félagslegt öryggi frá 7. apríl 1977, eins og honum var breytt með viðbótarsamningi nr. 1 frá 11. ágúst 1989, varðandi greiðslu bóta í peningum til einstaklinga sem eru búsettir í þriðja ríki.
                    332.          LIECHTENSTEIN – EISTLAND
                                   Enginn samningur.
                    333.          LIECHTENSTEIN – GRIKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    334.          LIECHTENSTEIN – SPÁNN
                                   Enginn samningur.
                    335.          LIECHTENSTEIN – FRAKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    336.          LIECHTENSTEIN – ÍRLAND
                                   Enginn samningur.
                    337.          LIECHTENSTEIN – ÍTALÍA
                                 Annar málsliður 5. gr. samningsins um félagslegt öryggi frá 11. nóvember 1976 varðandi greiðslu bóta í peningum til einstaklinga sem eru búsettir í þriðja ríki.
                    338.          LIECHTENSTEIN – KÝPUR
                                   Enginn samningur.
                    339.          LIECHTENSTEIN – LETTLAND
                                   Enginn samningur.
                    340.          LIECHTENSTEIN – LITHÁEN
                                   Enginn samningur.
                    341.          LIECHTENSTEIN – LÚXEMBORG
                                   Enginn samningur.
                    342.          LIECHTENSTEIN – UNGVERJALAND
                                   Enginn samningur.
                    343.          LIECHTENSTEIN – MALTA
                                   Enginn samningur.
                    344.          LIECHTENSTEIN – HOLLAND
                                   Enginn samningur.
                    345.          LIECHTENSTEIN – AUSTURRÍKI
                                 Ákvæði 4. gr. samningsins um félagslegt öryggi frá 23. september 1998.
                    346.          LIECHTENSTEIN – PÓLLAND
                                   Enginn samningur.
                    347.          LIECHTENSTEIN – PORTÚGAL
                                   Enginn samningur.
                    348.          LIECHTENSTEIN – SLÓVENÍA
                                   Enginn samningur.
                    349.          LIECHTENSTEIN – SLÓVAKÍA
                                   Enginn samningur.
                    350.          LIECHTENSTEIN – FINNLAND
                                   Enginn samningur.
                    351.          LIECHTENSTEIN – SVÍÞJÓÐ
                                   Enginn samningur.
                    352.          LIECHTENSTEIN – BRESKA KONUNGSRÍKIÐ
                                   Enginn samningur.
                    353.          LIECHTENSTEIN – NOREGUR
                                   Enginn samningur.
                    354.          NOREGUR – BELGÍA
                                   Enginn samningur.
                    355.          NOREGUR – TÉKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    356.          NOREGUR – DANMÖRK
                                   Engin.
                    357.          NOREGUR – ÞÝSKALAND
                                   Enginn samningur.
                    358.          NOREGUR – EISTLAND
                                   Enginn samningur.
                    359.          NOREGUR – GRIKKLAND
                                   Engin.
                    360.          NOREGUR – SPÁNN
                                   Enginn samningur.
                    361.          NOREGUR – FRAKKLAND
                                   Engin.
                    362.          NOREGUR – ÍRLAND
                                   Enginn samningur.
                    363.          NOREGUR – ÍTALÍA
                                   Engin.
                    364.          NOREGUR – KÝPUR
                                   Enginn samningur.
                    365.          NOREGUR – LETTLAND
                                   Enginn samningur.
                    366.          NOREGUR – LITHÁEN
                                   Enginn samningur.
                    367.          NOREGUR – LÚXEMBORG
                                   Engin.
                    368.          NOREGUR – UNGVERJALAND
                                   Engin.
                    369.          NOREGUR – MALTA
                                   Enginn samningur.
                    370.          NOREGUR – HOLLAND
                                  Ákvæði 2. mgr. 5. gr. samningsins um félagslegt öryggi frá 13. apríl 1989.
                    371.          NOREGUR – AUSTURRÍKI
                                   a)    Ákvæði 2. mgr. 5. gr. samningsins um félagslegt öryggi frá 27. ágúst 1985.
                                   b)    Ákvæði 4. gr. fyrrnefnds samnings að því er varðar einstaklinga sem eru búsettir í þriðja ríki.
                                   c)    II. liður í lokabókun fyrrnefnds samnings að því er varðar einstaklinga sem eru búsettir í þriðja ríki.
                    372.          NOREGUR – PÓLLAND
                                   Enginn samningur.
                    373.          NOREGUR – PORTÚGAL
                                   Engin.
                    374.          NOREGUR – SLÓVENÍA
                                   Engin.
                    375.          NOREGUR – SLÓVAKÍA
                                   Enginn samningur.
                    376.          NOREGUR – FINNLAND
                                   Engin.
                    377.          NOREGUR – SVÍÞJÓÐ
                                   Engin.
                    378.          NOREGUR – BRESKA KONUNGSRÍKIÐ
                                   Engin.“
         d)         Í aðlögunarlið s skal g-lið endurraðað og hann verða j-liður.
         e)         Í aðlögunarlið u skulu 13., 14. og 15. liður endurtölusettir sem 17., 18. og 19. liður.
2)         Eftirfarandi breytingar skulu gerðar á aðlögunarliðunum í 2. lið (reglugerð ráðsins (EB) nr. 574/72):
         a)         Í aðlögunarliðum a, b, c, f, h, i, l, m og n skal P-, Q- og R-lið endurraðað og þeir verða ZA-, ZB- og ZC-liður.
         b)         Í aðlögunarliðum d og e komi „R. AUSTURRÍKI“ í stað „K. AUSTURRÍKI“.
         c)         Í stað skrárinnar í aðlögunarlið g komi eftirfarandi:
                    „301.     ÍSLAND – BELGÍA
                                   Á ekki við.
                    302.          ÍSLAND – TÉKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    303.          ÍSLAND – DANMÖRK
                                Ákvæði 23. gr. samnings Norðurlandanna um félagslegt öryggi frá 15. júní 1992: samningur um gagnkvæma niðurfellingu endurgreiðslna skv. 36. gr. (3. mgr.), 63. gr. (3. mgr.) og 70. gr. (3. mgr.) reglugerðarinnar (kostnaður vegna aðstoðar við veikindi og meðgöngu og fæðingu, vinnuslys og atvinnusjúkdóma og atvinnuleysisbætur) og 2. mgr. 105. gr. framkvæmdarreglugerðarinnar (kostnaður við eftirlit og læknisskoðanir).
                    304.          ÍSLAND – ÞÝSKALAND
                                   Á ekki við.
                    305.          ÍSLAND – EISTLAND
                                   Enginn samningur.
                    306.          ÍSLAND – GRIKKLAND
                                   Á ekki við.
                    307.          ÍSLAND – SPÁNN
                                   Á ekki við.
                    308.          ÍSLAND – FRAKKLAND
                                   Á ekki við.
                    309.          ÍSLAND – ÍRLAND
                                   Á ekki við.
                    310.          ÍSLAND – ÍTALÍA
                                   Á ekki við.
                    311.          ÍSLAND – KÝPUR
                                   Enginn samningur.
                    312.          ÍSLAND – LETTLAND
                                   Enginn samningur.
                    313.          ÍSLAND – LITHÁEN
                                   Enginn samningur.
                    314.          ÍSLAND – LÚXEMBORG
                                   Engin.
                    315.          ÍSLAND – UNGVERJALAND
                                   Enginn samningur.
                    316.          ÍSLAND – MALTA
                                   Enginn samningur.
                    317.          ÍSLAND – HOLLAND
                                Bréfaskipti frá 25. apríl og 26. maí 1995 varðandi 3. mgr. 36. gr. og 3. mgr. 63. gr. reglugerðarinnar um niðurfellingu á endurgreiðslu á kostnaði vegna aðstoðar við veikindi, meðgöngu og fæðingu, vinnuslys og atvinnusjúkdóma, eins og mælt er fyrir um í 1. og 4. kafla III. bálks reglugerðar 1408/71, að frátöldum c-lið 1. mgr. 22. gr. og c-lið 1. mgr. 55. gr.
                    318.          ÍSLAND – AUSTURRÍKI
                                Samkomulag frá 21. júní 1995 um endurgreiðslu kostnaðar á sviði almannatrygginga.
                    319.          ÍSLAND – PÓLLAND
                                   Enginn samningur.
                    320.          ÍSLAND – PORTÚGAL
                                   Á ekki við.
                    321.          ÍSLAND – SLÓVENÍA
                                   Enginn samningur.
                    322.          ÍSLAND – SLÓVAKÍA
                                   Enginn samningur.
                    323.          ÍSLAND – FINNLAND
                                Ákvæði 23. gr. samnings Norðurlandanna um félagslegt öryggi frá 15. júní 1992: samningur um gagnkvæma niðurfellingu endurgreiðslna skv. 36. gr. (3. mgr.), 63. gr. (3. mgr.) og 70. gr. (3. mgr.) reglugerðarinnar (kostnaður vegna aðstoðar við veikindi og meðgöngu og fæðingu, vinnuslys og atvinnusjúkdóma og atvinnuleysisbætur) og 2. mgr. 105. gr. framkvæmdarreglugerðarinnar (kostnaður við eftirlit og læknisskoðanir).
                    324.          ÍSLAND – SVÍÞJÓÐ
                                 Ákvæði 23. gr. samnings Norðurlandanna um félagslegt öryggi frá 15. júní 1992: samningur um gagnkvæma niðurfellingu endurgreiðslna skv. 36. gr. (3. mgr.), 63. gr. (3. mgr.) og 70. gr. (3. mgr.) reglugerðarinnar (kostnaður vegna aðstoðar við veikindi og meðgöngu og fæðingu, vinnuslys og atvinnusjúkdóma og atvinnuleysisbætur) og 2. mgr. 105. gr. framkvæmdarreglugerðarinnar (kostnaður við eftirlit og læknisskoðanir).
                    325.          ÍSLAND – BRESKA KONUNGSRÍKIÐ
                                   Engin.
                    326.          ÍSLAND – LIECHTENSTEIN
                                   Á ekki við.
                    327.          ÍSLAND – NOREGUR
                                  Ákvæði 23. gr. samnings Norðurlandanna um félagslegt öryggi frá 15. júní 1992: samningur um gagnkvæma niðurfellingu endurgreiðslna skv. 36. gr. (3. mgr.), 63. gr. (3. mgr.) og 70. gr. (3. mgr.) reglugerðarinnar (kostnaður vegna aðstoðar við veikindi og meðgöngu og fæðingu, vinnuslys og atvinnusjúkdóma og atvinnuleysisbætur) og 2. mgr. 105. gr. framkvæmdarreglugerðarinnar (kostnaður við eftirlit og læknisskoðanir).
                    328.          LIECHTENSTEIN – BELGÍA
                                   Á ekki við.
                    329.          LIECHTENSTEIN – TÉKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    330.          LIECHTENSTEIN – DANMÖRK
                                   Á ekki við.
                    331.          LIECHTENSTEIN – ÞÝSKALAND
                                   Engin.
                    332.          LIECHTENSTEIN – EISTLAND
                                   Enginn samningur.
                    333.          LIECHTENSTEIN – GRIKKLAND
                                   Á ekki við.
                    334.          LIECHTENSTEIN – SPÁNN
                                   Á ekki við.
                    335.          LIECHTENSTEIN – FRAKKLAND
                                   Á ekki við.
                    336.          LIECHTENSTEIN – ÍRLAND
                                   Á ekki við.
                    337.          LIECHTENSTEIN – ÍTALÍA
                                   Engin.
                    338.          LIECHTENSTEIN – KÝPUR
                                   Enginn samningur.
                    339.          LIECHTENSTEIN – LETTLAND
                                   Enginn samningur.
                    340.          LIECHTENSTEIN – LITHÁEN
                                   Enginn samningur.
                    341.          LIECHTENSTEIN – LÚXEMBORG
                                   Á ekki við.
                    342.          LIECHTENSTEIN – UNGVERJALAND
                                   Enginn samningur.
                    343.          LIECHTENSTEIN – MALTA
                                   Enginn samningur.
                    344.          LIECHTENSTEIN – HOLLAND
                                 Ákvæði 2. til 6. gr. í samningnum frá 27. nóvember 2000 um uppgjör kostnaðar á sviði félagslegs öryggis.
                    345.          LIECHTENSTEIN – AUSTURRÍKI
                                Samkomulag frá 14. desember 1995 um endurgreiðslu kostnaðar á sviði almannatrygginga.
                    346.          LIECHTENSTEIN – PÓLLAND
                                   Enginn samningur.
                    347.          LIECHTENSTEIN – PORTÚGAL
                                   Á ekki við.
                    348.          LIECHTENSTEIN – SLÓVENÍA
                                   Enginn samningur.
                    349.          LIECHTENSTEIN – SLÓVAKÍA
                                   Enginn samningur.
                    350.          LIECHTENSTEIN – FINNLAND
                                   Á ekki við.
                    351.          LIECHTENSTEIN – SVÍÞJÓÐ
                                   Á ekki við.
                    352.          LIECHTENSTEIN – BRESKA KONUNGSRÍKIÐ
                                   Á ekki við.
                    353.          LIECHTENSTEIN – NOREGUR
                                   Á ekki við.
                    354.          NOREGUR – BELGÍA
                                   Á ekki við.
                    355.          NOREGUR – TÉKKLAND
                                   Enginn samningur.
                    356.          NOREGUR – DANMÖRK
                                Ákvæði 23. gr. samnings Norðurlandanna um félagslegt öryggi frá 15. júní 1992: samningur um gagnkvæma niðurfellingu endurgreiðslna skv. 36. gr. (3. mgr.), 63. gr. (3. mgr.) og 70. gr. (3. mgr.) reglugerðarinnar (kostnaður vegna aðstoðar við veikindi og meðgöngu og fæðingu, vinnuslys og atvinnusjúkdóma og atvinnuleysisbætur) og 2. mgr. 105. gr. framkvæmdarreglugerðarinnar (kostnaður við eftirlit og læknisskoðanir).
                    357.          NOREGUR – ÞÝSKALAND
                                Ákvæði 1. gr. samningsins frá 28. maí 1999 um niðurfellingu á endurgreiðslu á kostnaði vegna aðstoðar við veikindi, meðgöngu og fæðingu, vinnuslys og atvinnusjúkdóma og vegna kostnaðar við eftirlit og læknisskoðun.
                    358.          NOREGUR – EISTLAND
                                   Enginn samningur.
                    359.          NOREGUR – GRIKKLAND
                                   Engin.
                    360.          NOREGUR – SPÁNN
                                   Á ekki við.
                    361.          NOREGUR – FRAKKLAND
                                   Engin.
                    362.          NOREGUR – ÍRLAND
                                   Á ekki við.
                    363.          NOREGUR – ÍTALÍA
                                   Engin.
                    364.          NOREGUR – KÝPUR
                                   Enginn samningur.
                    365.          NOREGUR – LETTLAND
                                   Enginn samningur.
                    366.          NOREGUR – LITHÁEN
                                   Enginn samningur.
                    367.          NOREGUR – LÚXEMBORG
                                Ákvæði 2. til 4. gr. samkomulagsins frá 19. mars 1998 um endurgreiðslu kostnaðar á sviði félagslegs öryggis.
                    368.          NOREGUR – UNGVERJALAND
                                   Engin.
                    369.          NOREGUR – MALTA
                                   Enginn samningur.
                    370.          NOREGUR – HOLLAND
                                  Bréfaskipti frá 13. janúar 1994 og 10. júní 1994 varðandi 3. mgr. 36. gr. og 3. mgr. 63. gr. reglugerðar 1408/71 (um niðurfellingu á endurgreiðslu á kostnaði vegna aðstoðar, eins og mælt er fyrir um í 1. og 4. kafla III. bálks reglugerðar 1408/71, að frátöldum c-lið 1. mgr. 22. gr. og c-lið 1. mgr. 55. gr. og einnig á kostnaði vegna eftirlits og læknisskoðana sem um getur í 105. gr. reglugerðar 574/72.
                    371.          NOREGUR – AUSTURRÍKI
                                Samkomulag frá 17. desember 1996 um endurgreiðslu kostnaðar á sviði almannatrygginga.
                    372.          NOREGUR – PÓLLAND
                                   Enginn samningur.
                    373.          NOREGUR – PORTÚGAL
                                   Engin.
                    374.          NOREGUR – SLÓVENÍA
                                   Engin.
                    375.          NOREGUR – SLÓVAKÍA
                                   Enginn samningur.
                    376.          NOREGUR – FINNLAND
                                 Ákvæði 23. gr. samnings Norðurlandanna um félagslegt öryggi frá 15. júní 1992: samningur um gagnkvæma niðurfellingu endurgreiðslna skv. 36. gr. (3. mgr.), 63. gr. (3. mgr.) og 70. gr. (3. mgr.) reglugerðarinnar (kostnaður vegna aðstoðar við veikindi og meðgöngu og fæðingu, vinnuslys og atvinnusjúkdóma og atvinnuleysisbætur) og 2. mgr. 105. gr. framkvæmdarreglugerðarinnar (kostnaður við eftirlit og læknisskoðanir).
                    377.          NOREGUR – SVÍÞJÓÐ
                                Ákvæði 23. gr. samnings Norðurlandanna um félagslegt öryggi frá 15. júní 1992: samningur um gagnkvæma niðurfellingu endurgreiðslna skv. 36. gr. (3. mgr.), 63. gr. (3. mgr.) og 70. gr. (3. mgr.) reglugerðarinnar (kostnaður vegna aðstoðar við veikindi og meðgöngu og fæðingu, vinnuslys og atvinnusjúkdóma og atvinnuleysisbætur) og 2. mgr. 105. gr. framkvæmdarreglugerðarinnar (kostnaður við eftirlit og læknisskoðanir).
                    378.          NOREGUR – BRESKA KONUNGSRÍKIÐ
                                Bréfaskipti frá 20. mars 1997 og 3. apríl 1997 varðandi 3. mgr. 36. gr. og 3. mgr. 63. gr. reglugerðarinnar (endurgreiðsla eða niðurfelling endurgreiðslna vegna aðstoðar) og 105. gr. framkvæmdareglugerðarinnar (niðurfelling endurgreiðslna vegna kostnaðar við eftirlit og læknisskoðanir).“
         d)         Í stað skrárinnar í aðlögunarlið j komi eftirfarandi:
                    „Ísland og Belgía
                    Ísland og Tékkland
                    Ísland og Þýskaland
                    Ísland og Eistland
                    Ísland og Spánn
                    Ísland og Frakkland
                    Ísland og Kýpur
                    Ísland og Lettland
                    Ísland og Litháen
                    Ísland og Lúxemborg
                    Ísland og Ungverjaland
                    Ísland og Malta
                    Ísland og Holland
                    Ísland og Austurríki
                    Ísland og Pólland
                    Ísland og Slóvenía
                    Ísland og Slóvakía
                    Ísland og Finnland
                    Ísland og Svíþjóð
                    Ísland og Breska konungsríkið
                    Ísland og Liechtenstein
                    Ísland og Noregur
                    Liechtenstein og Belgía
                    Liechtenstein og Tékkland
                    Liechtenstein og Þýskaland
                    Liechtenstein og Eistland
                    Liechtenstein og Spánn
                    Liechtenstein og Frakkland
                    Liechtenstein og Kýpur
                    Liechtenstein og Lettland
                    Liechtenstein og Litháen
                    Liechtenstein og Írland
                    Liechtenstein og Lúxemborg
                    Liechtenstein og Holland
                    Liechtenstein og Ungverjaland
                    Liechtenstein og Malta
                    Liechtenstein og Austurríki
                    Liechtenstein og Pólland
                    Liechtenstein og Slóvenía
                    Liechtenstein og Slóvakía
                    Liechtenstein og Finnland
                    Liechtenstein og Svíþjóð
                    Liechtenstein og Breska konungsríkið
                    Liechtenstein og Noregur
                    Noregur og Belgía
                    Noregur og Tékkland
                    Noregur og Þýskaland
                    Noregur og Eistland
                    Noregur og Spánn
                    Noregur og Frakkland
                    Noregur og Írland
                    Noregur og Kýpur
                    Noregur og Lettland
                    Noregur og Litháen
                    Noregur og Lúxemborg
                    Noregur og Ungverjaland
                    Noregur og Malta
                    Noregur og Holland
                    Noregur og Austurríki
                    Noregur og Pólland
                    Noregur og Portúgal
                    Noregur og Slóvenía
                    Noregur og Slóvakía
                    Noregur og Finnland
                    Noregur og Svíþjóð
                    Noregur og Breska konungsríkið“.
3)         Í aðlögunarlið liðar 3.27 (ákvörðun nr. 136) skal P-, Q- og R-lið endurraðað og þeir verða ZA-, ZB- og ZC-liður.
4)         Í aðlögunarlið liðar 3.37 (ákvörðun nr. 150) skal P-, Q- og R-lið endurraðað og þeir verða ZA-, ZB- og ZC-liður.

Í VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi):
1)         Í aðlögunarlið a í 18. lið (tilskipun ráðsins 85/384/EBE) skal n-, o- og p-lið endurraðað og þeir verða za-, zb- og zc-liður og l-, m- og q-liður falli brott.
2)         Í 1. mgr. aðlögunartextans í 11. lið (tilskipun ráðsins 78/687/EBE) komi orðin „19. gr., 19. gr. a, 19. gr. b, 19. gr. c og 19. gr. d“ í stað orðanna „19. gr., 19. gr. a og 19. gr. b“.

Í XIII. viðauka (Flutningastarfsemi):
1)         Eftirfarandi breytingar skulu gerðar á 5. lið (ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1692/96):
         a)        Í aðlögunarlið i skulu liðir 2.15 og 2.16 endurtölusettir sem liðir 2.26 og 2.27.
         b)         Í aðlögunarlið j skal liður 3.16 endurtölusettur sem liður 3.24.
         c)         Í aðlögunarlið ja skulu liðir 5.6 og 5.7 endurtölusettir sem liðir 5.8 og 5.9.
         d)         Í aðlögunarlið k skulu liðir 6.8 og 6.9 endurtölusettir sem liðir 6.18 og 6.19.
2)         Í stað VI. viðauka (FYRIRMYND), sem settur er fram í 6. viðbæti, komi textinn sem settur er fram í viðbæti við þennan viðauka.

Í XXI. viðauka (Hagskýrslugerð):
1)        Eftirfarandi komi í stað aðlögunarliðar b í 6. lið (tilskipun ráðsins 80/1119/EBE):
         „III. viðauka er breytt á eftirfarandi hátt:
         1)         Eftirfarandi bætist við á milli fyrirsagnarinnar ,,LISTI YFIR LÖND OG LANDAHÓPA“ og I. hluta töflunnar:
                        „A.     EES-ríki“;
         2)         Í stað II.–VII. hluta komi eftirfarandi:
                        „II.     EFTA-ríki innan EES
                                  26.     Ísland
                                  27.     Noregur
                        B.     Lönd utan EES
                                  III.     Evrópulönd utan EES
                                       28.     Sviss
                                       29.     Samveldi sjálfstæðra ríkja (CIS)
                                       30.     Rúmenía
                                       31.     Búlgaría
                                       32.     Sambandslýðveldið Júgóslavía
                                       33.     Tyrkland
                                       34.     Önnur Evrópulönd utan EES
                                  IV.
                                       35.     Bandaríki Norður-Ameríku
                                  V.
                                       36.     Önnur lönd“.
2)          Eftirfarandi komi í stað aðlögunarliðar c í 7. lið (tilskipun ráðsins 80/1177/EBE):
        „III. viðauka er breytt á eftirfarandi hátt:
         1)         Eftirfarandi bætist við á milli fyrirsagnarinnar ,,LISTI YFIR LÖND OG LANDAHÓPA“ og I. hluta töflunnar:
                        „A.     EES-ríki“;
         2)         Í stað II.–VII. hluta komi eftirfarandi:
                        „II.     EFTA-ríki innan EES
                                  26.     Ísland
                                  27.     Noregur
                        B.     Lönd utan EES
                                  28.     Sviss
                                  29.     Sambandslýðveldið Júgóslavía
                                  30.     Tyrkland
                                  31.     Samveldi sjálfstæðra ríkja (CIS)
                                  32.     Rúmenía
                                  33.     Búlgaría
                                  34.     Austurlönd nær
                                  35.     Önnur lönd“.

Í XXII. viðauka (Félagaréttur):
1)         Í aðlögunarlið b í 4. lið (fjórða tilskipun ráðsins 78/660/EBE) skal p-, q- og r-lið endurraðað og þeir verða za-, zb- og zc-liður.
2)         Í 6. lið (sjöunda tilskipun ráðsins 83/349/EBE) skal p-, q- og r-lið endurraðað og þeir verða za-, zb- og zc-liður.


Viðbætir


„VI. VIÐAUKI

FYRIRMYND

sem um getur í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 12/98 frá 11. desember 1997
um skilyrði fyrir því að flutningafyrirtæki geti stundað farþegaflutninga á vegum
innanlands í aðildarríki sem þau hafa ekki aðsetur í, eins og hún hefur verið aðlöguð
að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið


Gestaflutningar sem starfræktir eru á ............................ (ársfjórðungur) .................... (ár)
af flutningafyrirtækjum með staðfestu í .............................................. (heiti EFTA-ríkis)

Gistiríki
(aðildarríki
EB eða
EFTA-ríki)
Farþegafjöldi Farþegafjöldi – km
Tegund flutninga Tegund flutninga
Sérstakar áætlunarferðir Óreglubundnir flutningar Sérstakar áætlunarferðir Óreglubundnir flutningar
A
CZ
B
D
EST
DK
E
GR
FIN
F
I
CY
LV
LT
IRL
L
H
M
NL
PL
P
SLO
SK
S
UK
IS
FL
N
Gestaflutninga r
alls


VIÐAUKI B


Skrá sem um getur í 4. gr. samningsins


Eftirfarandi breytingar skulu gerðar á viðaukunum við EES-samninginn:

I. viðauki (Heilbrigði plantna og dýra):
1)         Eftirfarandi bætist við í 4. lið hluta 5.1 í I. kafla (tilskipun ráðsins 92/46/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (1. liður I. hluta A-þáttar í 3. kafla V. viðauka), Lettlands (1. liður I. hluta B-þáttar í 4. kafla VIII. viðauka), Litháens (I. hluta B-þáttar í 5. kafla IX. viðauka), Möltu (1. liður I. hluta B-þáttar í 4. kafla XI. viðauka) og Póllands (1. liður I. hluta B-þáttar í 6. kafla XII. viðauka), gildir.“
2)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 1. lið hluta 6.1 í I. kafla (tilskipun ráðsins 64/433/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (1. liður I. hluta A-þáttar í 3. kafla V. viðauka), Lettlands (1. liður I. hluta B-þáttar í 4. kafla VIII. viðauka), Litháens (I. hluti B-þáttar í 5. kafla IX. viðauka), Ungverjalands (1. liður B-þáttar í 5. kafla X. viðauka), Póllands (1. liður I. hluta B-þáttar í 6. kafla XII. viðauka) og Slóvakíu (B-þáttur í 5. kafla XIV. viðauka) gildir.“
3)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 2. lið hluta 6.1 í I. kafla (tilskipun ráðsins 71/118/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (1. liður I. hluta A-þáttar í 3. kafla V. viðauka), Lettlands (1. liður I. hluta B-þáttar í 4. kafla VIII. viðauka), Litháens (I. hluti B-þáttar í 5. kafla IX. viðauka), og Póllands (1. liður I. hluta B-þáttar í 6. kafla XII. viðauka), gildir.“
4)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 4. lið hluta 6.1 í I. kafla (tilskipun ráðsins 77/99/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (1. liður I. hluta A-þáttar í 3. kafla V. viðauka), Lettlands (1. liður I. hluta B-þáttar í 4. kafla VIII. viðauka), Litháens (I. hluti B-þáttar í 5. kafla IX. viðauka), Póllands (1. liður I. hluta B-þáttar í 6. kafla XII. viðauka) og Slóvakíu (B-þáttur í 5. kafla XIV. viðauka), gildir.“
5)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 6. lið hluta 6.1 í I. kafla (tilskipun ráðsins 94/65/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Lettlands (1. liður I. hluta B-þáttar í 4. kafla VIII. viðauka), Litháens (I. hluti B-þáttar í 5. kafla IX. viðauka) og Póllands (1. liður I. hluta B-þáttar í 6. kafla XII. viðauka) gildir.“
6)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 7. lið hluta 6.1 í I. kafla (tilskipun ráðsins 89/437/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (1. liður I. hluta A-þáttar í 3. kafla V. viðauka), gildir.“
7)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 8. lið hluta 6.1 í I. kafla (tilskipun ráðsins 91/493/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Lettlands (1. liður I. hluta B-þáttar í 4. kafla VIII. viðauka), Litháens (I. hluti B-þáttar í 5. kafla IX. viðauka), Póllands (1. liður I. hluta B-þáttar í 6. kafla XII. viðauka) og Slóvakíu (B-þáttur í 5. kafla XIV. viðauka) gildir.“
8)        Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 11. lið hluta 6.1 í I. kafla (tilskipun ráðsins 92/46/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (1. liður I. hluta A-þáttar í 3. kafla V. viðauka), Lettlands (1. liður I. hluta B-þáttar í 4. kafla VIII. viðauka), Litháens (I. hluti B-þáttar í 5. kafla IX. viðauka), Möltu (1. liður I. hluta B-þáttar í 4. kafla XI. viðauka) og Póllands (1. liður I. hluta B-þáttar í 6. kafla XII. viðauka), gildir.“
9)         Eftirfarandi bætist við í 10. lið hluta 8.1 í I. kafla (tilskipun ráðsins 94/65/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Lettlands (1. liður I. hluta B-þáttar í 4. kafla VIII. viðauka), Litháens (I. hluti B-þáttar í 5. kafla IX. viðauka) og Póllands (1. liður I. hluta B-þáttar í 6. kafla XII. viðauka) gildir.“
10)    Eftirfarandi bætist við í 11. lið hluta 8.1 í I. kafla (tilskipun ráðsins 91/493/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Lettlands (1. liður I. hluta B-þáttar í 4. kafla VIII. viðauka), Litháens (I. hluti B-þáttar í 5. kafla IX. viðauka), Póllands (1. liður I. hluta B-þáttar í 6. kafla XII. viðauka) og Slóvakíu (B-þáttur í 5. kafla XIV. viðauka) gildir.“
11)    Eftirfarandi bætist við í 13. lið hluta 8.1 í I. kafla (tilskipun ráðsins 92/46):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (1. liður I. hluta A-þáttar í 3. kafla V. viðauka), Lettlands (1. liður I. hluta B-þáttar í 4. kafla VIII. viðauka), Litháens (I. hluti B-þáttar í 5. kafla IX. viðauka), Möltu (1. liður I. hluta B-þáttar í 4. kafla XI. viðauka) og Póllands (1. liður I. hluta B-þáttar í 6. kafla XII. viðauka), gildir.“
12)    Eftirfarandi bætist við í 8. lið hluta 9.1 í I. kafla (tilskipun ráðsins 1999/74/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (2. liður I. hluta A-þáttar í 3. kafla V. viðauka), Ungverjalands (2. liður B-þáttar í 5. kafla X. viðauka), Möltu (2. liður I. hluta B-þáttar í 4. kafla XI. viðauka), Póllands (2. liður I. hluta B-þáttar í 6. kafla XII. viðauka) og Slóveníu (1. liður I. hluta B-þáttar í 5. kafla XIII. viðauka), gildir.“
13)    Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 15. lið í II. kafla (tilskipun ráðsins 82/471/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (B-þáttur í 3. kafla V. viðauka), gildir.“
14)    Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 3. lið í III. kafla (tilskipun ráðsins 66/402/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Kýpur (1. liður B-þáttar í 5. kafla VII. viðauka), gildir.“

II. viðauki (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun):
1)         Eftirfarandi bætist við í 27. lið a í IX. kafla (tilskipun ráðsins 93/42/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Póllands (2. liður í 1. kafla XII. viðauka), gildir.“
2)        Eftirfarandi bætist við í 5. lið í X. kafla (tilskipun ráðsins 93/42/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Póllands (2. liður í 1. kafla XII. viðauka), gildir.“
3)         Eftirfarandi bætist við í 7. lið í X. kafla (tilskipun ráðsins 90/385/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Póllands (1. liður í 1. kafla XII. viðauka), gildir.“
4)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 54. lið b í XII. kafla (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2092/91):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Eistlands (1. liður í 4. kafla VI. viðauka) Lettlands (1. liður A-þáttar í 4. kafla VIII. viðauka) og Litháens (1. liður A-þáttar í 5. kafla IX. viðauka), gildir.“
5)         Eftirfarandi bætist við í 15. lið p í XIII. kafla (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/82/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Litháens (1. liður í 1. kafla IX. viðauka) og Póllands (4. liður í 1. kafla XII. viðauka), gildir.“
6)         Eftirfarandi bætist við í 15. lið q í XIII. kafla (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/83/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Kýpur (1. kafli VII. viðauka), Litháens (2. liður 1. kafla IX. viðauka), Möltu (2. liður 1. kafla XI. viðauka), Póllands (5. liður 1. kafla XII. viðauka) og Slóveníu (1. kafli XIII. viðauka), gildir.“
7)         Eftirfarandi bætist við í 12. lið a í XV. kafla (tilskipun ráðsins 91/414/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Póllands (2. liður II. hluta B-þáttar í 6. kafla XII. viðauka), gildir.“
8)         Eftirfarandi bætist við í 7. lið í XVII. kafla (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/62/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (A-þáttur í 7. kafla V. viðauka), Kýpur (B-þáttur í 9. kafla VII. viðauka), Lettlands (2. liður B-þáttar í 10. kafla VIII. viðauka), Litháens (B-þáttur í 10. kafla IX. viðauka), Ungverjalands (2. liður A-þáttar í 8. kafla X. viðauka). Möltu (2. liður B-þáttar í 10. kafla XI. viðauka), Póllands (2. liður B-þáttar í 13. kafla XII. viðauka), Slóveníu (A-þáttur í 9. kafla XIII. viðauka) og Slóvakíu (2. liður B-þáttar í 9. kafla XIV. viðauka), gildir.“
9)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 8. lið í XVII. kafla (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/63/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Eistlands (A-þáttur í 9. kafla VI. viðauka), Lettlands (A-þáttur í 10. kafla VIII. viðauka), Litháens (A-þáttur í 10. kafla IX. viðauka), Möltu (A-þáttur í 10. kafla XI. viðauka), Póllands (1. liður A-þáttar í 13. kafla XII. viðauka) og Slóvakíu (A-þáttur í 9. kafla XIV. viðauka), gildir.“
10)    Eftirfarandi bætist við í 2. lið í XXX. kafla (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/79/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Póllands (3. liður í 1. kafla XII. viðauka), gildir.“

IV. viðauki (Orka):
1)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 14. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Eistlands (2. liður í 8. kafla VI. viðauka), gildir.“
2)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 16. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/30/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (2. liður í 6. kafla V. viðauka), gildir.“

V. viðauki (Frelsi launþega til flutninga):
Eftirfarandi bætist við á undan fyrirsögninni „GERÐIR SEM VÍSAÐ ER TIL“:

„AÐLÖGUNARTÍMABIL
Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (1. kafli V. viðauka), Eistlands (1. kafli VI. viðauka), Lettlands (1. kafli VIII. viðauka), Litháens (2. kafli IX. viðauka), Ungverjalands (1. kafli X. viðauka), Möltu (2. kafli XI. viðauka), Póllands (2. kafli XII. viðauka), Slóveníu (2. kafli XIII. viðauka) og Slóvakíu (1. kafli XIV. viðauka), gildir.
Að því er varðar 7. mgr. verndarráðstafananna sem er að finna í bráðabirgðafyrirkomulaginu, sem vísað er til í fyrri málsgrein, að undanskildu fyrirkomulagi vegna Möltu, gildir BÓKUN 44 UM VERNDARRÁÐSTAFANIR SEM ER AÐ FINNA Í AÐILDARLÖGUNUM FRÁ 16. APRÍL 2003.“

VIII. viðauki (Staðfesturéttur):
1)         Eftirfarandi bætist við á undan fyrirsögninni „GERÐIR SEM VÍSAÐ ER TIL“:

        „AÐLÖGUNARTÍMABIL
        Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (1. kafli V. viðauka), Eistlands (1. kafli VI. viðauka), Lettlands (1. kafli VIII. viðauka), Litháens (2. kafli IX. viðauka), Ungverjalands (1. kafli X. viðauka), Möltu (2. kafli XI. viðauka), Póllands (2. kafli XII. viðauka), Slóveníu (2. kafli XIII. viðauka) og Slóvakíu (1. kafli XIV. viðauka), gildir.
        Að því er varðar 7. mgr. verndarráðstafananna, sem er að finna í bráðabirgðafyrirkomulaginu, sem vísað er til í fyrri málsgrein, að undanskildu fyrirkomulagi vegna Möltu, gildir BÓKUN 44 UM VERNDARRÁÐSTAFANIR SEM ER AÐ FINNA Í AÐILDARLÖGUNUM FRÁ 16. APRÍL 2003.“
2)         Eftirfarandi komi í stað inngangsmálsgreinarinnar um aðlögun Liechtensteins undir fyrirsögninni „AÐLÖGUN Á TILTEKNUM SVIÐUM“ sem komið var á með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 191/1999 frá 17. desember 1999:
        „Eftirfarandi gildir um Liechtenstein. Endurskoðun þessa fyrirkomulags skal fara fram á fimm ára fresti og í fyrsta sinn fyrir maí 2009, að teknu viðeigandi tilliti til sérstakra landfræðilegra aðstæðna í Liechtenstein.“

IX. viðauki (Fjármálaþjónusta):
1)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 14. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Kýpur (2. kafli VII. viðauka), Ungverjalands (2. liður í 2. kafla X. viðauka), Póllands (2. liður í 3. kafla XII. viðauka) og Slóveníu (4. liður í 3. kafla XIII. viðauka), gildir.“
2)         Eftirfarandi bætist við í 19. lið a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Eistlands (1. liður í 2. kafla VI. viðauka) Lettlands (1. liður í 2. kafla VIII. viðauka), Litháens (1. liður í 3. kafla IX. viðauka) og Slóveníu (2. liður 3. kafla XIII. viðauka), gildir.“
3)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 21. lið (tilskipun ráðsins 86/635/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Slóveníu (1. liður í 3. kafla XIII. viðauka), gildir.“
4)         Eftirfarandi bætist við í 30. lið c (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/19/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Eistlands (2. liður í 2. kafla VI. viðauka), Lettlands (2. liður í 2. kafla VIII. viðauka), Litháens (2. liður í 3. kafla IX. viðauka), Ungverjalands (1. liður í 2. kafla X. viðauka), Póllands (1. liður í 3. kafla XII. viðauka), Slóveníu (3. liður í 3. kafla XIII. viðauka) og Slóvakíu (2. kafli XIV. viðauka), gildir.“

XI. viðauki (Fjarskiptaþjónusta):
Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 5. lið d (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/67/EB):
„Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Póllands (12. kafli XII. viðauka), gildir.“

XII. viðauki (Frjálsir fjármagnsflutningar):
Eftirfarandi bætist við á undan fyrirsögninni „GERÐIR SEM VÍSAÐ ER TIL“:

„AÐLÖGUNARTÍMABIL
Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (2. kafli V. viðauka), Eistlands (3. kafli VI. viðauka), Kýpur (3. kafli VII. viðauka), Lettlands (3. kafli VIII. viðauka), Litháens (4. kafli IX. viðauka), Ungverjalands (3. kafli X. viðauka), Póllands (4. kafli XII. viðauka), Slóveníu (4. kafli XIII. viðauka) og Slóvakíu (3. kafli XIV. viðauka), gildir.

AÐLÖGUN Á TILTEKNUM SVIÐUM
Fyrirkomulagið í bókun nr. 6 við aðildarlögin frá 16. apríl 2003 um kaup á aukahúsnæði á Möltu gildir.“

XIII. viðauki (Flutningastarfsemi):
1)         Eftirfarandi bætist við í 15. lið a (tilskipun ráðsins 96/53/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Ungverjalands (4. liður í 6. kafla X. viðauka) og Póllands (3. liður í 8. kafla XII. viðauka), gildir.“
2)         Eftirfarandi bætist við í 16. lið a (tilskipun ráðsins 96/96/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Möltu (2. liður í 6. kafla XI. viðauka), gildir.“
3)         Eftirfarandi bætist við í 17. lið b (tilskipun ráðsins 92/6/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Möltu (1. liður í 6. kafla XI. viðauka), gildir.“
4)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 18. lið a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/62/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Möltu (3. liður í 6. kafla XI. viðauka), gildir.“
5)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 19. lið (tilskipun ráðsins 96/26/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Lettlands (3. liður í 6. kafla VIII. viðauka) og Litháens (4. liður í 7. kafla IX. viðauka), gildir.“
6)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 21. lið (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3821/85):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Kýpur (6. kafli VII. viðauka), Lettlands (1. liður í 6. kafla VIII. viðauka) og Litháens (1. liður í 7. kafla IX. viðauka), gildir.“
7)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 26. lið c (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3118/93):
        Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (4. kafli V. viðauka), Eistlands (6. kafli VI. viðauka), Lettlands (2. liður 6. kafla VIII. viðauka), Litháens (3. liður 7. kafla IX. viðauka), Ungverjalands (3. liður 6. kafla X. viðauka), Póllands (2. liður 8. kafla XII. viðauka) og Slóvakíu (6. kafli XIV. viðauka), gildir.
        Að því er varðar verndarráðstafanirnar, sem er að finna í bráðabirgðafyrirkomulaginu sem vísað er til í fyrri málsgrein, gildir BÓKUN 44 UM VERNDARRÁÐSTAFANIR SEM ER AÐ FINNA Í AÐILDARLÖGUNUM FRÁ 16. APRÍL 2003.“
8)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 37. lið (tilskipun ráðsins 91/440/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Ungverjalands (1. liður í 6. kafla X. viðauka) og Póllands (1. liður í 8. kafla XII. viðauka), gildir.“
9)         Eftirfarandi bætist við í 66. lið e (tilskipun ráðsins 92/14/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Litháens (2. liður í 7. kafla IX. viðauka) og Ungverjalands (2. liður í 6. kafla X. viðauka), gildir.“

XIV. viðauki (Samkeppni):
Eftirfarandi bætist við á undan fyrirsögninni „AÐLÖGUN Á TILTEKNUM SVIÐUM“:

„AÐLÖGUNARTÍMABIL
1)         Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Kýpur (4. kafli VII. viðauka), Ungverjalands (4. kafli X. viðauka), Möltu (1., 2. og 3. liður í 3. kafla XI. viðauka), Póllands (1. og 2. liður í 5. kafla XII. viðauka) og Slóvakíu (1. og 2. liður í 4. kafla XIV. viðauka), gildir.
2)         Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Möltu (1. liður í 1. kafla XI. viðauka), gildir.“

XV. viðauki (Ríkisaðstoð):
Eftirfarandi bætist við á undan fyrirsögninni „GERÐIR SEM VÍSAÐ ER TIL“:

„AÐLÖGUN Á TILTEKNUM SVIÐUM
Fyrirkomulagið varðandi núverandi aðstoðarkerfi, sem mælt er fyrir um í 3. kafla (Samkeppni) í IV. viðauka við aðildarlögin frá 16. apríl 2003, gildir milli samningsaðila.“

XVII. viðauki (Hugverkaréttindi):
Eftirfarandi bætist við á undan fyrirsögninni „GERÐIR SEM VÍSAÐ ER TIL“:

„AÐLÖGUN Á TILTEKNUM SVIÐUM
Sérstaka málsmeðferðin, sem mælt er fyrir um í 2. kafla (Félagaréttur) IV. viðauka við aðildarlögin frá 16. apríl 2003, gildir milli samningsaðila.“

XVIII. viðauki (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna):
1)         Eftirfarandi bætist við í 3. lið a (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 91/322/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Slóveníu (2. liður í 7. kafla XIII. viðauka), gildir.“
2)         Eftirfarandi bætist við í 6. lið (tilskipun ráðsins 86/188/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Slóveníu (1. liður í 7. kafla XIII. viðauka), gildir.“
3)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 9. lið (tilskipun ráðsins 89/654/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Lettlands (1. liður í 8. kafla VIII. viðauka), gildir.“
4)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 10. lið (tilskipun ráðsins 89/655/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Lettlands (2. liður í 8. kafla VIII. viðauka), Möltu (1. liður í 8. kafla XI. viðauka) og Póllands (10. kafli XII. viðauka), gildir.“
5)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 13. lið (tilskipun ráðsins 90/270/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Lettlands (3. liður í 8. kafla VIII. viðauka), gildir.“
6)         Eftirfarandi bætist við í 15. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/54/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Slóveníu (5. liður í 7. kafla XIII. viðauka), gildir.“
7)         Eftirfarandi bætist við í 16. lið h (tilskipun ráðsins 98/24/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Slóveníu (3. liður í 7. kafla XIII. viðauka), gildir.“
8)         Eftirfarandi bætist við í 16. lið j (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2000/39/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Slóveníu (4. liður í 7. kafla XIII. viðauka), gildir.“
9)         Eftirfarandi bætist við í 28. lið (tilskipun ráðsins 93/104/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Möltu (2. liður í 8. kafla XI. viðauka), gildir.“
10)    Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 30. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/71/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (1. kafli V. viðauka), Eistlands (1. kafli VI. viðauka), Lettlands (1. kafli VIII. viðauka), Litháens (2. kafli IX. viðauka), Ungverjalands (1. kafli X. viðauka), Póllands (2. kafli XII. viðauka), Slóveníu (2. kafli XIII. viðauka) og Slóvakíu (1. kafli XIV. viðauka), gildir.
        Að því er varðar 7. mgr. verndarráðstafananna, sem er að finna í bráðabirgðafyrirkomulaginu sem vísað er til í fyrri málsgrein, gildir BÓKUN 44 UM VERNDARRÁÐSTAFANIR SEM ER AÐ FINNA Í AÐILDARLÖGUNUM FRÁ 16. APRÍL 2003.“

XX. viðauki (Umhverfismál):
1)         Eftirfarandi bætist við í 2. lið g (tilskipun ráðsins 96/61/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Lettlands (2. liður D-þáttar í 10. kafla VIII. viðauka), Póllands (1. liður D- þáttar í 13. kafla XII. viðauka), Slóveníu (C-þáttur í 9. kafla XIII. viðauka) og Slóvakíu (2. liður D-þáttar í 9. kafla XIV. viðauka), gildir.“
2)         Eftirfarandi bætist við í 7. lið a (tilskipun ráðsins 98/83/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Eistlands (2. liður C-þáttar í 9. kafla VI. viðauka) Lettlands (2. liður C- þáttar í 10. kafla VIII. viðauka), Ungverjalands (2. liður B-þáttar í 8. kafla X. viðauka) og Möltu (4. liður C-þáttar í 10. kafla XI. viðauka), gildir.“
3)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 8. lið (tilskipun ráðsins 82/176/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Póllands (1. liður C-þáttar í 13. kafla XII. viðauka), gildir.“
4)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 9. lið (tilskipun ráðsins 83/513/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Möltu (1. liður C-þáttar í 10. kafla XI. viðauka) og Póllands (1. liður C- þáttar í 13. kafla XII. viðauka), gildir.“
5)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 10. lið (tilskipun ráðsins 84/156/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Póllands (1. liður C-þáttar í 13. kafla XII. viðauka) og Slóvakíu (1. liður C-þáttar í 9. kafla XIV. viðauka), gildir.“
6)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 12. lið (tilskipun ráðsins 86/280/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Möltu (2. liður C-þáttar í 10. kafla XI. viðauka), Póllands (1. liður C-þáttar í 13. kafla XII. viðauka) og Slóvakíu (2. liður C-þáttar í 9. kafla XIV. viðauka), gildir.“
7)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 13. lið (tilskipun ráðsins 91/271/EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (B-þáttur í 7. kafla V. viðauka), Eistlands (1. liður C-þáttar í 9. kafla VI. viðauka), Kýpur (C-þáttur í 9. kafla VII. viðauka), Lettlands (1. liður C-þáttar í 10. kafla VIII. viðauka), Litháens (C-þáttur í 10. kafla IX. viðauka), Ungverjalands (1. liður B-þáttar í 8. kafla X. viðauka), Möltu (3. liður C-þáttar í 10. kafla XI. viðauka), Póllands (2. liður C-þáttar í 13. kafla XII. viðauka), Slóveníu (B-þáttur í 9. kafla XIII. viðauka) og Slóvakíu (3. liður C-þáttar í 9. kafla XIV. viðauka), gildir.“
8)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 18. lið (tilskipun ráðsins 87/217/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Lettlands (1. liður D-þáttar í 10. kafla VIII. viðauka), gildir.“
9)         Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 19. lið a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/80/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Tékklands (C-þáttur í 7. kafla V. viðauka), Eistlands (D-þáttur í 9. kafla VI. viðauka), Kýpur (D-þáttur í 9. kafla VII. viðauka), Litháens (D-þáttur í 10. kafla IX. viðauka), Ungverjalands (2. liður C-þáttar í 8. kafla X. viðauka), Möltu (E-þáttur í 10. kafla XI. viðauka), Póllands (2. liður D-þáttar í 13. kafla XII. viðauka) og Slóvakíu (3. liður D-þáttar í 9. kafla XIV. viðauka), gildir.“
10)    Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 21. lið ad (tilskipun ráðsins 99/32/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Kýpur (A-þáttur í 9. kafla VII. viðauka) og Póllands (2. liður A-þáttar í 13. kafla XII. viðauka), gildir.“
11)    Eftirfarandi bætist við í 21. lið b (tilskipun ráðsins 94/67/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Ungverjalands (1. liður C-þáttar í 8. kafla X. viðauka) og Slóvakíu (1. liður D-þáttar í 9. kafla XIV. viðauka), gildir.“
12)    Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 32. lið c (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 259/93):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Lettlands (1. liður B-þáttar í 10. kafla VIII. viðauka), Ungverjalands (1. liður A-þáttar í 8. kafla X. viðauka), Möltu (1. liður B-þáttar í 10. kafla XI. viðauka), Póllands (1. liður B-þáttar í 13. kafla XII. viðauka) og Slóvakíu (1. liður B-þáttar í 9. kafla XIV. viðauka), gildir.“
13)    Eftirfarandi bætist við í 32. lið d (tilskipun ráðsins 1999/31/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 16. apríl 2003 um aðild Eistlands (B-þáttur í 9. kafla VI. viðauka), Lettlands (3. liður B-þáttar í 10. kafla VIII. viðauka) og Póllands (3. liður B-þáttar í 13. kafla XII. viðauka), gildir.“

LOKAGERÐ


Fulltrúar með fullt umboð
EVRÓPUBANDALAGSINS,
hér á eftir nefnt „bandalagið“, og eftirfarandi ríkja:

KONUNGSRÍKISINS BELGÍU,
KONUNGSRÍKISINS DANMERKUR,
SAMBANDSLÝÐVELDISINS ÞÝSKALANDS,
LÝÐVELDISINS GRIKKLANDS,
KONUNGSRÍKISINS SPÁNAR,
LÝÐVELDISINS FRAKKLANDS,
ÍRLANDS,
LÝÐVELDISINS ÍTALÍU,
STÓRHERTOGADÆMISINS LÚXEMBORGAR,
KONUNGSRÍKISINS HOLLANDS,
LÝÐVELDISINS AUSTURRÍKIS,
LÝÐVELDISINS PORTÚGALS,
LÝÐVELDISINS FINNLANDS,
KONUNGSRÍKISINS SVÍÞJÓÐAR,
HINS SAMEINAÐA KONUNGSRÍKIS STÓRA-BRETLANDS OG NORÐUR-ÍRLANDS,
aðila að stofnsáttmála EVRÓPUBANDALAGSINS,
hér á eftir nefnd „aðildarríki EB“,

fulltrúar með fullt umboð
LÝÐVELDISINS ÍSLANDS,
FURSTADÆMISINS LIECHTENSTEINS,
KONUNGSRÍKISINS NOREGS,
hér á eftir nefnd „EFTA-ríkin“,

öll aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem var undirritaður í Óportó 2. maí 1992, hér á eftir nefndur „EES-samningurinn“, nefnast saman hér á eftir „núverandi samningsaðilar“,

og

fulltrúar með fullt umboð
LÝÐVELDISINS TÉKKLANDS,
LÝÐVELDISINS EISTLANDS,
LÝÐVELDISINS KÝPUR,
LÝÐVELDISINS LETTLANDS,
LÝÐVELDISINS LITHÁENS,
LÝÐVELDISINS UNGVERJALANDS,
LÝÐVELDISINS MÖLTU,
LÝÐVELDISINS PÓLLANDS,
LÝÐVELDISINS SLÓVENÍU,
LÝÐVELDISINS SLÓVAKÍU,
hér á eftir nefndir „nýju samningsaðilarnir“,

komu saman í              dag               mánaðar árið tvö þúsund og þrjú til þess að undirrita samninginn um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu og hafa samþykkt eftirfarandi skjöl:

I.        Samning um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu (hér á eftir nefndur „samningurinn“).

II.         Eftirtalin skjöl sem fylgja samningnum:

        viðauka A: skrá sem um getur í 3. gr. samningsins,
        viðauka B: skrá sem um getur í 4. gr. samningsins.

        Fulltrúar með fullt umboð núverandi samningsaðila og fulltrúar með fullt umboð nýju samningsaðilanna hafa samþykkt sameiginlegar yfirlýsingar sem taldar eru upp hér á eftir og fylgja lokagerð þessari:
        1.        Sameiginleg yfirlýsing um samhliða stækkun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins.
        2.         Sameiginleg yfirlýsing um beitingu upprunareglna eftir að samningur um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands og Lýðveldisins Slóveníu á Evrópska efnahagssvæðinu öðlast gildi.
        3.         Sameiginleg yfirlýsing um 126. gr. EES-samningsins.
                     Fulltrúar með fullt umboð bandalagsins, aðildarríkja EB, EFTA-ríkjanna og nýju samningsaðilanna hafa tekið mið af yfirlýsingum sem taldar eru upp hér á eftir og fylgja lokagerð þessari:
                    1.    Almenn, sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna.
                    2.    Sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna um frelsi launþega til flutninga.
                    3.    Sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna um innri markað á sviði raforku.
                    4.    Yfirlýsing ríkisstjórnar Liechtensteins.
                    5.    Yfirlýsing Lýðveldisins Tékklands varðandi einhliða yfirlýsingu Furstadæmisins Liechtensteins.
                    6.    Yfirlýsing Lýðveldisins Slóvakíu varðandi einhliða yfirlýsingu Furstadæmisins Liechtensteins.
                    7.    Yfirlýsing Eistlands, Kýpur, Lettlands, Möltu og Slóveníu um 5. gr. bókunar 38a um fjármagnskerfi Evrópska efnahagssvæðisins.
                    8.    Yfirlýsing framkvæmdastjórnar Evrópubandalaganna um upprunareglur fyrir fisk og aðrar sjávarafurðir.

                    Fulltrúar með fullt umboð núverandi samningsaðila og fulltrúar með fullt umboð nýju samningsaðilanna hafa samþykkt að nýju samningsaðilunum skuli með fullnægjandi hætti veittar upplýsingar og að haft verði samráð við þá í hverju því máli sem fjallað verður um í EES-ráðinu og sameiginlegu EES-nefndinni í aðdraganda þátttöku nýju samningsaðilanna á Evrópska efnahagssvæðinu.

                    Þeir hafa einnig samþykkt að EES-samningurinn, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og óstyttum texta allra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, skuli, eigi síðar en við gildistöku samningsins, lagður fram á eistnesku, lettnesku, litháísku, maltnesku, pólsku, slóvakísku, slóvensku, tékknesku og ungversku og staðfestur af fulltrúum samningsaðilanna.

                    Þeir hafa tekið mið af samningi milli Konungsríkisins Noregs og Evrópubandalagsins um norskt fjármagnskerfi fyrir tímabilið 2004–2009 sem fylgir einnig lokagerð þessari.

                    Þeir hafa jafnframt tekið mið af viðbótarbókun við samninginn milli Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu sem fylgir lokagerð þessari.

                    Þeir hafa auk þess tekið mið af viðbótarbókun við samninginn milli Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu sem fylgir lokagerð þessari.

                    Enn fremur hafa þeir tekið mið af samningi í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um tilteknar landbúnaðarafurðir sem fylgir með lokagerð þessari.

                    Þeir leggja áherslu á að framangreindir samningar séu þættir í heildarlausn hinna ýmsu mála sem tekið er á í tengslum við þátttöku nýju samningsaðilanna á Evrópska efnahagssvæðinu og að samningurinn og þeir fjórir samningar, sem honum tengjast, skuli allir öðlast gildi samtímis.

Gjört í

Fyrir hönd Evrópubandalagsins

SAMEIGINLEGAR YFIRLÝSINGAR
ALLRA SAMNINGSAÐILA

SAMEIGINLEG YFIRLÝSING
UM SAMHLIÐA STÆKKUN
EVRÓPUSAMBANDSINS OG
EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐISINS


Samningsaðilarnir leggja áherslu á mikilvægi þess að núverandi samningsaðilar og nýju samningsaðilarnir fullgildi eða samþykki samninginn tímanlega í samræmi við stjórnskipuleg skilyrði hvers þeirra um sig til þess að unnt verði að tryggja samhliða stækkun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins 1. maí 2004.


SAMEIGINLEG YFIRLÝSING
UM BEITINGU UPPRUNAREGLNA
EFTIR AÐ SAMNINGUR
UM ÞÁTTTÖKU LÝÐVELDISINS TÉKKLANDS,
LÝÐVELDISINS EISTLANDS, LÝÐVELDISINS KÝPUR,
LÝÐVELDISINS LETTLANDS, LÝÐVELDISINS LITHÁENS,
LÝÐVELDISINS UNGVERJALANDS, LÝÐVELDISINS MÖLTU,
LÝÐVELDISINS PÓLLANDS, LÝÐVELDISINS SLÓVENÍU
OG LÝÐVELDISINS SLÓVAKÍU
Á EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐINU
ÖÐLAST GILDI


1.         Upprunasönnun, sem EFTA-ríki eða einn nýju samningsaðilanna gefur út á viðeigandi hátt á grundvelli fríðindasamnings milli EFTA-ríkjanna og nýja samningsaðilans eða á grundvelli einhliða innlendrar lagasetningar í EFTA-ríki eða hjá einum nýju samningsaðilanna, skal teljast sönnun á EES-fríðindauppruna, að því tilskildu að:
        a)         upprunasönnunin og flutningsskjölin hafi verið gefin út eigi síðar en daginn áður en samningurinn öðlaðist gildi,
         b)        upprunasönnunin sé lögð fram hjá tollyfirvöldum áður en fjórir mánuðir eru liðnir frá því að samningurinn öðlaðist gildi.
        Ef lýst hefur verið yfir innflutningi á vörum frá EFTA-ríki eða nýjum samningsaðila til nýs samningsaðila eða EFTA-ríkis, eftir því sem við á, áður en samningurinn öðlast gildi, samkvæmt því fríðindafyrirkomulagi sem er í gildi milli EFTA-ríkis og nýs samningsaðila á þeim tíma, má einnig taka gilda í EFTA-ríkjunum eða hjá nýju samningsaðilunum upprunasönnun sem er gefin út eftir á í samræmi við slíkt fyrirkomulag, að því tilskildu að hún hafi verið send tollyfirvöldum innan fjögurra mánaða frá gildistöku samningsins.
2.         EFTA-ríkjunum annars vegar og Tékklandi, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Ungverjalandi, Póllandi, Slóveníu og Slóvakíu hins vegar er heimilt að halda í gildi leyfum sem veita stöðu „viðurkennds útflytjanda“ í samræmi við samninga sem gerðir hafa verið milli EFTA-ríkjanna annars vegar og Tékklands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Ungverjalands, Póllands, Slóveníu og Slóvakíu hins vegar, að því tilskildu að hinir viðurkenndu útflytjendur beiti upprunareglum EES-samningsins.
        Eigi síðar en einu ári eftir að nýju samningsaðilarnir gerast aðilar að samningnum skulu EFTA-ríkin og Tékkland, Eistland, Lettland, Litháen, Ungverjaland, Pólland, Slóvenía og Slóvakía skipta þessum leyfum út fyrir ný leyfi sem eru gefin út í samræmi við skilyrði sem mælt er fyrir um í bókun 4 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
3.         Lögbær yfirvöld í EFTA-ríkjunum og hjá nýju samningsaðilunum skulu taka til greina óskir um síðari sannprófun á upprunasönnun, sem er gefin út samkvæmt fríðindafyrirkomulagi sem um getur í 1. og 2. mgr. hér að framan, í þrjú ár eftir að upprunasönnunin er gefin út og er yfirvöldunum heimilt að leggja fram slíkar óskir í þrjú ár eftir að upprunasönnunin var samþykkt.


SAMEIGINLEG YFIRLÝSING
UM 126. GR. EES-SAMNINGSINS


Samningsaðilarnir staðfesta að tilvísanir í 126. gr. EES-samningsins í „sáttmálann um Evrópubandalagið“ og „skilyrðin sem mælt er fyrir um í sáttmálanum“ nái yfir bókun 10 um Kýpur sem fylgir sem viðauki við aðildarlögin frá 16. apríl 2003.


AÐRAR YFIRLÝSINGAR
EINS EÐA FLEIRI SAMNINGSAÐILA

ALMENN, SAMEIGINLEG YFIRLÝSING EFTA-RÍKJANNA


EFTA-ríkin taka mið af yfirlýsingum sem varða EES-samninginn og fylgja lokagerð sáttmálans um aðild Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu.

EFTA-ríkin leggja áherslu á að yfirlýsingarnar, sem varða EES-samninginn og fylgja lokagerð sáttmálans sem um getur í málsgreininni hér að framan, megi ekki túlka eða beita þannig að brjóti í bága við skuldbindingar samningsaðilanna samkvæmt þessum samningi eða EES- samningnum.


SAMEIGINLEG YFIRLÝSING EFTA-RÍKJANNA
UM FRELSI LAUNÞEGA TIL FLUTNINGA


EFTA-ríkin leggja áherslu á að atriði eins og aðgreining og sveigjanleiki hafi mikið vægi í fyrirkomulagi um frelsi launþega til flutninga. Þau munu leitast við að veita ríkisborgurum Tékklands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Ungverjalands, Póllands, Slóveníu og Slóvakíu greiðari aðgang að vinnumarkaði samkvæmt landslögum til þess að flýta fyrir samræmingu réttarreglnanna. Af þessu leiðir að atvinnutækifærum ríkisborgara Tékklands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Ungverjalands, Póllands, Slóveníu og Slóvakíu í EFTA-ríkjunum ætti að fjölga verulega eftir að þessi ríki hafa gerst aðilar. Jafnframt munu EFTA-ríkin nýta fyrirkomulagið, sem lagt er til, eins vel og unnt er til að beita réttarreglunum að fullu á sviði frelsis launþega til flutninga. Í Liechtenstein verður þetta gert í samræmi við sérstakt fyrirkomulag sem mælt er fyrir um í ákvæðum um aðlögun á tilteknum sviðum í V. viðauka (Frelsi launþega til flutninga) og VIII. viðauka (Staðfesturéttur) við EES-samninginn.


SAMEIGINLEG YFIRLÝSING EFTA-RÍKJANNA
UM INNRI MARKAÐ Á SVIÐI RAFORKU


Með tilvísun til tímabundinna ákvæða fyrir Eistland sem mælt er fyrir um í 2. tölul. 8. kafla 6. viðauka við aðildarlögin frá 16. apríl 2003 og 8. yfirlýsingu um olíuleir, innri markað á sviði raforku og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB frá 19. desember 1996 um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku (raforkutilskipunina): Eistland, benda EFTA-ríkin á að í því skyni að draga úr hugsanlegri samkeppnisröskun á innri markaði á sviði raforku kann að reynast nauðsynlegt að beita verndarráðstöfunum á borð við gagnkvæmniákvæði tilskipunar 96/92/EB.


YFIRLÝSING
RÍKISSTJÓRNAR LIECHTENSTEINS


Ríkisstjórn Liechtensteins telur víst að allir samningsaðilar virði Furstadæmið Liechtenstein sem rótgróið fullvalda og viðurkennt ríki sem var hlutlaust alla fyrri heimsstyrjöld og alla seinni heimsstyrjöld.


YFIRLÝSING
LÝÐVELDISINS TÉKKLANDS
VARÐANDI EINHLIÐA YFIRLÝSINGU
FURSTADÆMISINS LIECHTENSTEINS


Lýðveldið Tékkland lýsir ánægju með gerð samnings milli umsóknarlandanna og aðila að Evrópska efnahagssvæðinu sem er mikilvægt skref í þá átt að yfirvinna sundrungu fyrri tíma í Evrópu og til frekari þróunar á vettvangi stjórnmála og efnahagsmála. Lýðveldið Tékkland er reiðubúið til samstarfs á Evrópska efnahagssvæðinu við öll aðildarríkin, að meðtöldu Furstadæminu Liechtenstein.

Að því er varðar Furstadæmið Liechtenstein hefur Lýðveldið Tékkland allt frá stofnun sýnt ótvíræðan áhuga á að koma á stjórnmálasambandi við það ríki. Þegar árið 1992 sendi Tékkland ríkisstjórnum allra landa, að meðtöldu Furstadæminu Liechtenstein, beiðni um að þær viðurkenndu Tékkland sem nýjan þjóðréttaraðila frá og með 1. janúar 1993. Var svar nær allra ríkisstjórna jákvætt en Furstadæmið Liechtenstein hefur verið undantekning fram að þessu.

Lýðveldið Tékkland lítur svo á að yfirlýsingar, sem varða ekki viðfang og tilgang samnings þessa, hafi ekkert lagagildi.


YFIRLÝSING
LÝÐVELDISINS SLÓVAKÍU
VARÐANDI EINHLIÐA YFIRLÝSINGU
FURSTADÆMISINS LIECHTENSTEINS


Lýðveldið Slóvakía lýsir ánægju með gerð samnings milli umsóknarlandanna og aðila að Evrópska efnahagssvæðinu sem er mikilvægt skref í átt til frekari þróunar á vettvangi stjórnmála og efnahagsmála í Evrópu.

Lýðveldið Slóvakía hefur allt frá stofnun viðurkennt Furstadæmið Liechtenstein sem fullvalda og sjálfstætt ríki og verið reiðubúið að koma á stjórnmálasambandi við Furstadæmið.

Lýðveldið Slóvakía lítur svo á að yfirlýsingar, sem varða ekki viðfang og tilgang samnings þessa, hafi ekkert lagagildi.


YFIRLÝSING
EISTLANDS, KÝPUR, LETTLANDS, MÖLTU OG SLÓVENÍU
UM 5. GR. BÓKUNAR 38a
UM FJÁRMAGNSKERFI EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐISINS


Eistland, Kýpur, Lettland, Malta og Slóvenía vilja láta það koma greinilega fram að úthlutunarlykillinn í 5. gr. var eingöngu settur saman með fjármagnskerfi Evrópska efnahagssvæðisins í huga. Það er skilningur þessara ríkja að úthlutunarlykillinn hafi ekki áhrif á tillögur, sem síðar kunna að koma fram, um úthlutunarlykla fyrir samstöðu- og þróunarsjóði bandalagsins.


YFIRLÝSING
FRAMKVÆMDASTJÓRNAR EVRÓPUBANDALAGANNA
UM UPPRUNAREGLUR FYRIR FISK
OG AÐRAR SJÁVARAFURÐIR


Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna mun kanna hvort hagkvæmt sé að samræma upprunareglurnar fyrir 1. maí 2004.


SAMNINGUR
MILLI KONUNGSRÍKISINS NOREGS OG EVRÓPUBANDALAGSINS
UM NORSKT FJÁRMAGNSKERFI
FYRIR TÍMABILIÐ 2004–2009


1. gr.

Konungsríkið Noregur skuldbindur sig til að koma á fót fjármagnskerfi til þess að draga úr félagslegu og efnahagslegu misvægi á Evrópska efnahagssvæðinu. Markmiðið með þessu fjármagnskerfi er að styrkja nýju aðildarríkin til fullrar þátttöku í stærri innri markaði á Evrópska efnahagssvæðinu með því að veita styrki til fjárfestingarverkefna í forgangsgeirunum sem um getur í 3. gr. Skuldbindingar þær, sem norsk stjórnvöld taka á sig samkvæmt þessum samningi, byggjast á aðild Noregs sem EFTA-ríkis að Evrópska efnahagssvæðinu.

2. gr.

Framlagið, sem kveðið er á um í 1. gr., skal nema 567 milljónum evra alls og skulu vera til ráðstöfunar á hverju ári 113,4 milljónir evra á tímabilinu 1. maí 2004 til 30. apríl 2009, að báðum dögum meðtöldum.

3. gr.

Styrkir skulu veittir til verkefna í sömu geirum og styrktir eru með fjármagnskerfi Evrópska efnahagssvæðisins. Þó skulu verkefni á eftirtöldum sviðum njóta forgangs:
a)        framkvæmd Schengen-gerða, stuðningur við innlendar Schengen-aðgerðaáætlanir og efling réttarkerfisins,
b)        umhverfismál, m.a. með áherslu á að styðja stjórnsýsluna í því að taka upp viðkomandi gerðir og styrkja fjárfestingar í grunnvirkjum og tækni, með meðhöndlun úrgangs í sveitarfélögum sem forgangsverkefni,
c)        stefna í byggðamálum og samstarf yfir landamæri,
d)        tækniaðstoð vegna framkvæmdar réttarreglna Evrópubandalagsins.

4. gr.

Framlag Norðmanna í formi styrkja skal nema að hámarki 60% af kostnaði við hvert verkefni, nema það sé fjármagnað að öðru leyti með framlögum úr ríkissjóði eða frá héraðs- eða sveitarstjórnum en í slíkum tilvikum má styrkurinn nema að hámarki 85% af heildarkostnaði. Virða skal gildandi reglur bandalagsins um hámark sameiginlegrar fjármögnunar.

Virða skal gildandi reglur um ríkisaðstoð.

Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna skal skoða tillögur um verkefni og ganga úr skugga um að þær samræmist markmiðum bandalagsins.

Ábyrgð Konungsríkisins Noregs á verkefnunum takmarkast við fjárveitingar samkvæmt samþykktri áætlun. Það ber ekki ábyrgð gagnvart þriðja aðila.

5. gr.

Fjárveitingar skulu renna til þeirra ríkja sem njóta styrks (Tékklands, Eistlands, Kýpur, Lettlands, Litháens, Ungverjalands, Möltu, Póllands, Slóveníu og Slóvakíu) og skiptast þannig:

Ríki sem nýtur styrks Hlutfall af
heildarframlagi
Tékkland 11,0 %
Eistland 4,0 %
Kýpur 0,6 %
Lettland 6,0 %
Litháen 7,1 %
Ungverjaland 13,1 %
Malta 0,3 %
Pólland 49,0 %
Slóvenía 2,2 %
Slóvakía 6,7 %

6. gr.

Í því skyni að endurúthluta þeim fjármunum, sem hefur ekki verið úthlutað og eru til ráðstöfunar, til forgangsverkefna í einhverju þeirra ríkja sem njóta styrks skal fara fram endurskoðun á styrkúthlutun í nóvember 2006 og aftur í nóvember 2008.

7. gr.

Fjárframlögin, sem kveðið er á um í 1. gr., skulu vandlega samræmd framlagi EFTA-ríkjanna sem kveðið er á um í reglum um fjármagnskerfi Evrópska efnahagssvæðisins.

Einkum skal Konungsríkið Noregur sjá til þess að sömu reglur gildi við málsmeðferð um umsóknir til beggja fjármagnskerfanna sem um getur í málsgreininni hér að framan.

Tillit skal tekið til viðeigandi breytinga sem verða á samheldnistefnumiðum ESB eftir því sem við á.

8. gr.

Norska fjármagnskerfið verður undir stjórn norsku ríkisstjórnarinnar eða aðila sem hún tilnefnir.

Norska ríkisstjórnin skal setja frekari ákvæði um framkvæmd fjármagnskerfisins eftir því sem þörf krefur.

Stjórnunarkostnaður skal greiddur af heildarfjárhæðinni sem um getur í 2. gr.

9. gr.

Aðilar að samningi þessum skulu fullgilda hann eða samþykkja í samræmi við reglur sínar um málsmeðferð. Skjöl um fullgildingu eða samþykki skulu afhent aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins til vörslu.

Samningur þessi öðlast gildi sama dag og sáttmálinn um aðild Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu frá 16. apríl 2003, að því tilskildu að skjöl um fullgildingu eða samþykki eftirtalinna samninga, er þessu tengjast, hafi einnig verið afhent til vörslu:
a)        samningur um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu,
b)        viðbótarbókun við samning Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu,
c)         viðbótarbókun við samning Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu,
d)        samningur í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um tilteknar landbúnaðarafurðir.

Ef ríki, sem nýtur styrks og nefnt er í 5. gr., hefur ekki gerst aðili að Evrópska efnahagssvæðinu hinn 1. maí 2004 skulu gerðar nauðsynlegar breytingar á samningi þessum.

Gjört í Brussel

    Fyrir hönd Evrópubandalagsins

    Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs


VIÐBÓTARBÓKUN
VIÐ SAMNING EFNAHAGSBANDALAGS EVRÓPU
OG LÝÐVELDISINS ÍSLANDS VEGNA AÐILDAR LÝÐVELDISINS TÉKKLANDS, LÝÐVELDISINS EISTLANDS, LÝÐVELDISINS KÝPUR, LÝÐVELDISINS LETTLANDS, LÝÐVELDISINS LITHÁENS, LÝÐVELDISINS UNGVERJALANDS, LÝÐVELDISINS MÖLTU, LÝÐVELDISINS PÓLLANDS, LÝÐVELDISINS SLÓVENÍU OG LÝÐVELDISINS SLÓVAKÍU
AÐ EVRÓPUSAMBANDINU


EVRÓPUBANDALAGIÐ

og

LÝÐVELDIÐ ÍSLAND,

MEÐ HLIÐSJÓN af samningnum milli Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands, sem undirritaður var í Brussel 22. júlí 1972 og er hér á eftir nefndur „samningurinn“, og gildandi reglum um verslun með fisk og sjávarafurðir milli Íslands og bandalagsins,

MEÐ HLIÐSJÓN af aðild Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu,

MEÐ HLIÐSJÓN af samningnum um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu, hér á eftir nefndur „samningurinn um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins“,

MEÐ HLIÐSJÓN af gildandi reglum um verslun með fisk og sjávarafurðir milli Íslands og inngönguríkjanna,

HAFA ÁKVEÐIÐ sameiginlega að gera breytingar á samningnum vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu,

OG SVOHLJÓÐANDI BÓKUN:

1. gr.

Texti samningsins, viðaukanna og bókananna við hann, sem eru óaðskiljanlegur hluti hans, svo og lokagerðin og yfirlýsingarnar, sem fylgja hér með, skulu lögð fram á eistnesku, lettnesku, litháísku, maltnesku, pólsku, slóvakísku, slóvensku, tékknesku og ungversku og teljast þeir textar jafngildir upprunalegu textunum. Sameiginlega nefndin skal samþykkja eistneska, lettneska, litháíska, maltneska, pólska, slóvakíska, slóvenska, tékkneska og ungverska textann.

2. gr.

Í bókun þessari og viðauka við hana er mælt fyrir um sérákvæði um innflutning til bandalagsins á tilteknum fisktegundum og sjávarafurðum frá Íslandi.

Árlegur, tollfrjáls kvóti, sem kveðið er á um í viðaukanum við þessa bókun, skal koma til framkvæmda á tímabilinu frá 1. maí 2004 til 30. apríl 2009. Kvótinn skal endurskoðaður við lok þess tímabils, að teknu tilliti til allra þeirra hagsmuna sem máli skipta.

3. gr.

Stofna skal SAT-númerið 0304 90 22 í hinni samþættu tollskrá ESB, TARIC, fyrir fryst síldarsamflök (fiðrildi) og skulu þau njóta sömu fríðinda og vörur sem falla undir SAT-númer 0304 20 75 þannig að fryst síldarsamflök hljóti sömu fríðindameðferð og fryst flök frá 1. maí 2004.

4. gr.

Samningsaðilar skulu fullgilda eða samþykkja bókun þessa í samræmi við reglur sínar um málsmeðferð. Skjöl um fullgildingu eða samþykki skulu afhent aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins til vörslu.

Bókun þessi öðlast gildi sama dag og sáttmálinn um aðild Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu frá 16. apríl 2003, að því tilskildu að skjöl um fullgildingu eða samþykki eftirtalinna samninga hafi einnig verið afhent til vörslu:
a)         samningur um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu,
b)        samningur milli Konungsríkisins Noregs og Evrópubandalagsins um norskt fjármagnskerfi fyrir tímabilið 2004–2009,
c)        viðbótarbókun við samning Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu,
d)        samningur í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um tilteknar landbúnaðarafurðir.

5. gr.

Bókun þessi er gerð í tvíriti á dönsku, eistnesku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, íslensku, ítölsku, lettnesku, litháísku, maltnesku, portúgölsku, pólsku, slóvakísku, slóvensku, spænsku, sænsku, tékknesku, ungversku og þýsku og er hver þessara texta jafngildur.

Gjört í Brussel

    Fyrir hönd Evrópubandalagsins

    Fyrir hönd Lýðveldisins Íslands
VIÐAUKI


SÉRÁKVÆÐI SEM UM GETUR Í 2. GR.
VIÐBÓTARBÓKUNARINNAR


Bandalagið skal heimila tollfrjálsan innflutning á afurðum sem eru upprunnar á Íslandi sem hér segir:

SAT-nr. Vörulýsing Árlegur kvóti
úr 0303 50 00 Fryst síld af tegundunum Clupea harengus og Clupea pallasii, þó ekki lifur og hrogn, til iðnaðarvinnslu1. 950 tonn


1     Tollkvótinn skal ekki ná til afurða sem tilkynnt hefur verið að settar verði í frjálsa dreifingu á tímabilinu 15. febrúar til 15. júní.


VIÐBÓTARBÓKUN
VIÐ SAMNING EFNAHAGSBANDALAGS EVRÓPU OG KONUNGSRÍKISINS NOREGS VEGNA AÐILDAR LÝÐVELDISINS TÉKKLANDS, LÝÐVELDISINS EISTLANDS, LÝÐVELDISINS KÝPUR, LÝÐVELDISINS LETTLANDS, LÝÐVELDISINS LITHÁENS, LÝÐVELDISINS UNGVERJALANDS, LÝÐVELDISINS MÖLTU, LÝÐVELDISINS PÓLLANDS, LÝÐVELDISINS SLÓVENÍU OG LÝÐVELDISINS SLÓVAKÍU
AÐ EVRÓPUSAMBANDINU


EVRÓPUBANDALAGIÐ

og

KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR,

MEÐ HLIÐSJÓN af samningnum milli Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs, sem undirritaður var í Brussel 14. maí 1973 og er hér á eftir nefndur „samningurinn“, og gildandi reglum um verslun með fisk og sjávarafurðir milli Noregs og bandalagsins,

MEÐ HLIÐSJÓN af aðild Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu,

MEÐ HLIÐSJÓN af samningnum um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu, hér á eftir nefndur „samningurinn um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins“,

MEÐ HLIÐSJÓN af gildandi reglum um verslun með fisk og sjávarafurðir milli Noregs og inngönguríkjanna,

HAFA ÁKVEÐIÐ sameiginlega að gera breytingar á samningnum vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu,

OG SVOHLJÓÐANDI BÓKUN:

1. gr.

Texti samningsins, viðaukanna og bókananna við hann, sem eru óaðskiljanlegur hluti hans, svo og lokagerðin og yfirlýsingarnar, sem fylgja hér með, skulu lögð fram á eistnesku, lettnesku, litháísku, maltnesku, pólsku, slóvakísku, slóvensku, tékknesku og ungversku og teljast þeir textar jafngildir upprunalegu textunum. Sameiginlega nefndin skal samþykkja eistneska, lettneska, litháíska, maltneska, pólska, slóvakíska, slóvenska, tékkneska og ungverska textann.

2. gr.

Í bókun þessari og viðauka við hana er mælt fyrir um sérákvæði um innflutning til bandalagsins á tilteknum fisktegundum og sjávarafurðum frá Noregi.

Árlegur, tollfrjáls kvóti, sem kveðið er á um í viðauka við bókun þessa, skal gilda fyrir tímabilið 1. maí 2004 til 30. apríl 2009. Kvótinn skal endurskoðaður við lok þess tímabils, að teknu tilliti til allra þeirra hagsmuna sem máli skipta.

Viðbótarkvóti fyrir frysta, skelfletta rækju (SAT-númer 1605 20 10) skal veittur um leið og leyst hefur verið úr málum sem varða gegnumflutning á fiski og sjávarafurðum, sem skip frá bandalaginu hafa landað í Noregi, til bandalagslanda um Noreg.

3. gr.

Stofna skal SAT-númerið 0304 90 22 í hinni samþættu tollskrá ESB, TARIC, fyrir fryst síldarsamflök (fiðrildi) og skulu þau njóta sömu fríðinda og vörur sem falla undir SAT-númer 0304 20 75 þannig að fryst síldarsamflök hljóti sömu fríðindameðferð og fryst flök frá 1. maí 2004.

4. gr.

Samningsaðilar skulu fullgilda eða samþykkja bókun þessa í samræmi við reglur sínar um málsmeðferð. Skjöl um fullgildingu eða samþykki skulu afhent aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins til vörslu.

Bókunin öðlast gildi sama dag og sáttmálinn um aðild Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu frá 16. apríl 2003, að því tilskildu að skjöl um fullgildingu eða samþykki eftirtalinna samninga hafi einnig verið afhent til vörslu:
a)        samningur um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu,
b)        samningur milli Konungsríkisins Noregs og Evrópubandalagsins um norskt fjármagnskerfi fyrir tímabilið 2004–2009,
c)        viðbótarbókun við samning Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu,
d)        samningur í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um tilteknar landbúnaðarafurðir.

5. gr.

Bókun þessi er gerð í tvíriti á dönsku, eistnesku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, íslensku, ítölsku, lettnesku, litháísku, maltnesku, portúgölsku, pólsku, slóvakísku, slóvensku, spænsku, sænsku, tékknesku, ungversku og þýsku og er hver þessara texta jafngildur.

Gjört í Brussel

    Fyrir hönd Evrópubandalagsins

    Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs


VIÐAUKI


SÉRÁKVÆÐI SEM UM GETUR Í 2. GR.
VIÐBÓTARBÓKUNARINNAR


Bandalagið skal heimila tollfrjálsan innflutning á afurðum sem eru upprunnar í Noregi, til viðbótar gildandi kvótum, sem hér segir:

SAT-nr. Vörulýsing Árlegur kvóti
úr 0303 50 00 Fryst síld af tegundunum Clupea harengus og Clupea pallasii, þó ekki lifur og hrogn, til iðnaðarvinnslu1 44 000 tonn
úr 0303 74 30 Frystur makríll af tegundunum Scomber scombrus og Scomber japonicus, þó ekki lifur og hrogn, til iðnaðarvinnslu1 30 500 tonn2
03042075
úr 0304 90 22 (undirflokkur sem stofnaður verður fyrir fryst síldarsamflök sem hljóta munu sömu fríðindameðferð og vörur sem falla undir nr. 0304 20 75)
Fryst síldarflök
Fryst síldarsamflök (fiðrildi) til iðnaðarvinnslu3
67 000 tonn
16052010 Fryst og skelflett rækja4 2 500 tonn

1     Tollkvótinn skal ekki ná til afurða sem tilkynnt hefur verið að settar verði í frjálsa dreifingu á tímabilinu 15. febrúar til 15. júní.
1     Tollkvótinn skal ekki ná til afurða sem tilkynnt hefur verið að settar verði í frjálsa dreifingu á tímabilinu 15. febrúar til 15. júní.
2     Með fyrirvara um að samningur þessi öðlist gildi 1. maí 2004 skal 24 800 tonna makrílkvóta fyrir árið 2004 úthlutað fyrir eitt samfellt tímabil, þ.e. frá 15. júní 2004 til 31. desember 2004.
    Frá árinu 2005 fram í apríl 2009 skal innflutningskvótanum úthlutað fyrir skemmri tímabil í einu í samræmi við eftirfarandi skiptingu:
    1. janúar–14. febrúar: 7 500 tonn,
    15. júní–30. september: 7 500 tonn og
    1. október–31. desember: 15 500 tonn.
    Frá og með árinu 2005 skal úthlutun af tveimur fyrstu hlutakvótum almanaksársins hætt 15. október ár hvert. Næsta virkan dag á eftir skal ónotaður hluti þessara kvóta reiknaður og sameinaður síðasta hlutakvóta ársins. Hlutdeild í hlutakvótum þess almanaksárs, sem skilað er vegna þess að þeir hafa ekki verið nýttir, skal frá þeim degi sameinuð síðasta hlutakvóta ársins. Kvótinn frá 1. janúar 2009 til 14. febrúar 2009 skal vera 5 700 tonn.
    Ef þörf gerist er heimilt að endurskoða þessa kvótastýringu með gagnkvæmu samkomulagi.
3     Tollkvótinn skal ekki ná til afurða sem tilkynnt hefur verið að settar verði í frjálsa dreifingu á tímabilinu 15. febrúar til 15. júní.
4     Viðbótarkvóti fyrir frysta, skelfletta rækju (SAT-númer 1605 20 10) skal veittur um leið og leyst hefur verið úr málum sem varða gegnumflutning á fiski og sjávarafurðum, sem skip frá bandalaginu hafa landað í Noregi, til bandalagslanda um Noreg.


SAMNINGUR
Í FORMI BRÉFASKIPTA
MILLI EVRÓPUBANDALAGSINS OG KONUNGSRÍKISINS NOREGS
UM TILTEKNAR LANDBÚNAÐARAFURÐIR


A.         Bréf frá Konungsríkinu Noregi

Brussel,
Herra,

Mér veitist sá heiður að vísa til samninga í formi bréfaskipta frá 16. apríl 1973, 14. júlí 1986, 2. maí 1992, 20. desember 1995 og 20. júní 2003, tvíhliða ívilnana, sem bandalagið og Noregur hafa veitt á grundvelli 19. gr. EES-samningsins, og viðræðna sem aðilar hafa átt um að aðlaga fyrrnefnd bréfaskipti og koma á viðskiptafyrirkomulagi varðandi tilteknar landbúnaðarvörur, í anda 15. gr. fríverslunarsamnings milli Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs, vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu.

Ég staðfesti hér með að niðurstöður viðræðnanna voru sem hér segir:

1.         Frá og með 1. maí 2004 munu norsk stjórnvöld veita bandalaginu árlega, tollfrjálsa kvóta sem hér segir:
Norskt tollnúmer Vörulýsing Magn á ári
(í tonnum)
0811 10 09 Fryst jarðarber án viðbætts sykurs eða annarra sætuefna 1400
0811 20 05 Frosin hindber, brómber, mórber, logaber, sólber, hvít rifsber, rifsber og garðaber án viðbætts sykurs eða annarra sætuefna
950
0811 20 06
0811 20 08
1209 25 00 Rýgrasfræ 100
2009 79 00
2009 71 00
Eplasafi 1300
2309 10 12 Kattafóður úr kjöti eða innmat úr landdýrum sem er selt í loftþéttum umbúðum 1000
2.         Þessir kvótar bætast við tvíhliða ívilnanir sem bandalagið og Noregur hafa veitt á grundvelli 19. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
3.         Noregur mun, ef við á, áfram stjórna þessum tollkvótum með svipuðu leyfisveitingakerfi og nú er notað til að stjórna kvótum sem inngöngulöndunum er úthlutað.
4.         Upprunareglur, sem nota ber við framkvæmd ívilnana samkvæmt samningi þessum, koma fram í IV. viðauka við bréfaskiptin frá 2. maí 1992. Þó skal 2. mgr. IV. viðauka vísa til skrárinnar í II. viðauka við bókun 4 við EES-samninginn, sem beitt skal í samræmi við I. viðauka við sömu bókun, í stað skrárinnar í viðbætinum sem um getur í 2. mgr. IV. viðauka við bréfaskiptin frá 2. maí 1992.
5.         Konungsríkið Noregur og bandalagið eru sammála um að ekki skuli leggja fram kröfur í samræmi við grein XXIV.6 í GATT-samningnum og staðfesta að engar frekari kröfur verða lagðar fram að því er varðar landbúnaðarvörur í tengslum við þessa stækkun bandalagsins.
6.         Aðilar að samningi þessum skulu fullgilda hann eða samþykkja í samræmi við reglur sínar um málsmeðferð. Skjöl um fullgildingu eða samþykki skulu afhent aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins til vörslu.
7.         Samningurinn öðlast gildi sama dag og sáttmálinn um aðild Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu frá 16. apríl 2003, að því tilskildu að skjöl um fullgildingu eða samþykki eftirtalinna samninga hafi einnig verið afhent til vörslu:
        a)    samningur um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu,
        b)    samningur milli Konungsríkisins Noregs og Evrópubandalagsins um norskt fjármagnskerfi fyrir tímabilið 2004–2009,
        c)    viðbótarbókun við samning Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu,
        d)    viðbótarbókun við samning Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu.
8.         Öðlist samningurinn um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu ekki gildi 1. maí 2004, eða aðeins gagnvart sumum undirritunaraðilanna, skulu samningsaðilar tafarlaust koma sér saman um hvaða breytingar beri að gera á samningi þessum. Þar sem þörf er á verður hlutfallslegum tollkvótum beitt fyrir árið 2004.

Ég væri yður þakklátur ef þér vilduð staðfesta að þér samþykkið efni þessa bréfs.

Ég votta yður virðingu mína,

Fyrir hönd ríkisstjórnar

Konungsríkisins Noregs
B.         Bréf frá Evrópubandalaginu

Brussel,

Herra,

Mér veitist sá heiður að staðfesta að mér hefur borist bréf yðar frá í dag, sem hljóðar svo:

        „Mér veitist sá heiður að vísa til samninga í formi bréfaskipta frá 16. apríl 1973, 14. júlí 1986, 2. maí 1992, 20. desember 1995 og 20. júní 2003, tvíhliða ívilnana, sem bandalagið og Noregur hafa veitt á grundvelli 19. gr. EES-samningsins og viðræðna sem aðilar hafa átt um að aðlaga fyrrnefnd bréfaskipti og koma á viðskiptafyrirkomulagi varðandi tilteknar landbúnaðarvörur, í anda 15. gr. fríverslunarsamnings milli Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs, vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu.

        Ég staðfesti hér með að niðurstöður viðræðnanna voru sem hér segir:

        1.         Frá og með 1. maí 2004 munu norsk stjórnvöld veita bandalaginu árlega, tollfrjálsa kvóta sem hér segir:
Norskt tollnúmer Vörulýsing Magn á ári
(í tonnum)
0811 10 09 Fryst jarðarber án viðbætts sykurs eða annarra sætuefna 1400
0811 20 05 Frosin hindber, brómber, mórber, logaber, sólber, hvít rifsber, rifsber og garðaber án viðbætts sykurs eða annarra sætuefna
950
0811 20 06
0811 20 08
1209 25 00 Rýgrasfræ 100
2009 79 00
2009 71 00
Eplasafi 1300
2309 10 12 Kattafóður úr kjöti eða innmat úr landdýrum sem er selt í loftþéttum umbúðum 1000
        2.         Þessir kvótar bætast við tvíhliða ívilnanir sem bandalagið og Noregur hafa veitt á grundvelli 19. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
        3.         Noregur mun, ef við á, áfram stjórna þessum tollkvótum með svipuðu leyfisveitingakerfi og nú er notað til að stjórna kvótum sem inngöngulöndunum er úthlutað.
        4.        Upprunareglur, sem nota ber við framkvæmd ívilnana samkvæmt samningi þessum, koma fram í IV. viðauka við bréfaskiptin frá 2. maí 1992. Þó skal 2. mgr. IV. viðauka vísa til skrárinnar í II. viðauka við bókun 4 við EES-samninginn, sem beitt skal í samræmi við I. viðauka við sömu bókun, í stað skrárinnar í viðbætinum sem um getur í 2. mgr. IV. viðauka við bréfaskiptin frá 2. maí 1992.
        5.         Konungsríkið Noregur og bandalagið eru sammála um að ekki skuli leggja fram kröfur í samræmi við grein XXIV.6 í GATT-samningnum og staðfesta að engar frekari kröfur verða lagðar fram að því er varðar landbúnaðarvörur í tengslum við þessa stækkun bandalagsins.
        6.         Aðilar að samningi þessum skulu fullgilda hann eða samþykkja í samræmi við reglur sínar um málsmeðferð. Skjöl um fullgildingu eða samþykki skulu afhent aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins til vörslu.
        7.         Samningurinn öðlast gildi sama dag og sáttmálinn um aðild Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu frá 16. apríl 2003, að því tilskildu að skjöl um fullgildingu eða samþykki eftirtalinna samninga hafi einnig verið afhent til vörslu:
                    a)    samningur um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu,
                    b)    samningur milli Konungsríkisins Noregs og Evrópubandalagsins um norskt fjármagnskerfi fyrir tímabilið 2004–2009,
                    c)    viðbótarbókun við samning Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu,
                    d)    viðbótarbókun við samning Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs vegna aðildar Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu að Evrópusambandinu.
        8)        Öðlist samningurinn um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu ekki gildi 1. maí 2004, eða aðeins gagnvart sumum undirritunaraðilanna, skulu samningsaðilar tafarlaust koma sér saman um hvaða breytingar beri að gera á samningi þessum. Þar sem þörf er á verður hlutfallslegum tollkvótum beitt fyrir árið 2004.“

Mér veitist sá heiður að staðfesta að ég er samþykkur efni bréfs yðar.

Ég votta yður virðingu mína,

              Fyrir hönd
ráðs Evrópusambandsins

Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið,
nr. 2/1993, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að fullgiltur verði aðildarsamningur EES, þ.e. samningur um aðild nýrra ríkja að Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig eru gerðar breytingar á meginmáli EES- samningsins og breytingar á viðaukum vegna aðildar nýju ríkjanna að EES-svæðinu. Samkvæmt bókun 38a, sem er ný bókun í samningunum, er gert ráð fyrir að EFTA-ríki leggi sitt af mörkum til að draga úr efnahagslegu og félagslegu misvægi á Evrópska efnahagssvæðinu með því að veita fjárstyrki til fjárfestingar- og þróunarverkefna í ákveðnum forgangsgeirum. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að stofnaður verði nýr þróunarsjóður EFTA og samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2004 er gert ráð fyrir að framlög Íslands í sjóðinn verði 250 m.kr. á árinu 2004 en hækki í 500 m.kr. frá árinu 2005 til 2009. Alls er áætlað framlag EFTA-ríkjanna um 600 milljónir evra á tímabilinu 1. maí 2004 til 30. apríl 2009.