Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 341. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 415  —  341. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)I. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993,
með síðari breytingum.

1. gr.

    2. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skipar forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins til fimm ára í senn að fenginni tillögu tryggingaráðs. Forstjóri ræður aðra starfsmenn Tryggingastofnunar.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist: með stoð í þeim.
     b.      2. og 3. mgr. falla brott.

4. gr.

    2. málsl. 6. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Í stað orðsins „Tryggingaráð“ í 3. mgr. 7. gr. b laganna kemur: Tryggingastofnun ríkisins.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „tryggingaráðs“ í 2. mgr. kemur: stofnunarinnar.
     b.      3. mgr. fellur brott.

7. gr.

    2. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

    2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Tryggingastofnun ríkisins metur örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Ráðherra setur reglugerð um örorkustaðalinn að fengnum tillögum Tryggingastofnunar ríkisins. Heimilt er að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 8. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Tryggingaráð“ í 3. mgr. kemur: Tryggingastofnun ríkisins.
     b.      Í stað orðanna „Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar“ í 4. mgr. kemur: Tryggingastofnun ríkisins.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 23. gr. laganna:
     a.      Orðin „samkvæmt nánari reglum sem tryggingaráð setur“ í 2. málsl. falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins.

11. gr.

    Orðin „eftir nánari reglum er tryggingaráð setur“ í 2. mgr. 24. gr. laganna falla brott.

12. gr.

    Í stað orðsins „Tryggingaráði“ í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur: Tryggingastofnun ríkisins.

13. gr.

    Í stað orðanna „reglum er ráðuneytið setur að fengnum tillögum tryggingaráðs“ í 1. málsl. 5. mgr. 29. gr. laganna kemur: reglugerð er ráðherra setur.

14. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „4. mgr. 29. gr.“ í 4. mgr. 30. gr. laganna kemur: 5. mgr. 29. gr.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Sjúkratryggingadeild eða hlutaðeigandi umboðsskrifstofa“ í 3. mgr. kemur: Tryggingastofnun ríkisins.
     b.      Orðin „um starfsemi sjúkratryggingadeildar“ í 4. mgr. falla brott.

16. gr.

    35. gr. laganna orðast svo:
    Nú er sjúkratryggðum brýn nauðsyn á að vistast í erlendu sjúkrahúsi vegna þess að ekki er unnt að veita honum nauðsynlega hjálp í íslensku sjúkrahúsi og greiðir þá Tryggingastofnun ríkisins kostnað við sjúkrahúsvistina. Sama gildir um kostnað við dvöl, lyf og læknishjálp sem nauðsynleg er erlendis að lokinni sjúkrahúsvistinni þar. Tryggingastofnun ríkisins úrskurðar um hvort fyrrgreind skilyrði eru fyrir hendi og hvar sjúkratryggður skuli vistaður erlendis. Nú er sjúkratryggður vistaður á öðrum og dýrari stað erlendis en Tryggingastofnun ríkisins hefur ákveðið og greiðir þá stofnunin aðeins þann kostnað sem greiða hefði átt á þeim stað sem hún ákvað.
    Í stað úrræðis sem getið er um í 1. mgr. og með sömu skilyrðum og þar greinir er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að ákveða að sérfræðilæknar sem starfa erlendis veiti sjúklingi meðferð hér á landi og greiðir stofnunin þá launa- og ferðakostnað hins erlenda sérfræðings sem af því hlýst.
    Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sérfræðingum“ og „sérfræðings“ hvarvetna í b-lið 1. mgr. kemur í viðeigandi beygingarfalli: sérgreinalæknir.
     b.      Í stað orðanna „reglum sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir“ tvívegis í i-lið 1. mgr. kemur: ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur.
     c.      Í stað orðsins „sérfræðilæknum“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: sérgreinalæknum.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 37. gr. laganna:
     a.      Orðin „samkvæmt reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs“ í 3. tölul. falla brott.
     b.      Við 3. tölul. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins.
     c.      Orðin „eftir reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs“ í 4. tölul. falla brott.
     d.      Við 4. tölul. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins.

19. gr.

    Í stað orðanna „Tryggingaráð skal setja reglur“ í 2. mgr. 40. gr. laganna kemur: Ráðherra setur reglugerð.

20. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 49. gr. laganna fellur brott.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 51. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „meðan hann dvelst þar, sbr. þó síðustu málsgrein 43. gr.“ í 1. málsl. kemur: eftir fjögurra mánaða samfellda fangelsisvist eða dvöl.
     b.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður sem orðast svo: Þegar bætur hafa verið felldar niður er heimilt að greiða fanga vasapeninga í samræmi við 8. mgr. 43. gr.

22. gr.

    58. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að fela Tryggingastofnun ríkisins að semja við atvinnufyrirtæki um að þau taki í vinnu öryrkja sem fá greiddan örorkulífeyri, örorkustyrk, endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða slysaörorkubætur undir 50% og hafa vinnugetu sem ekki hefur nýst á vinnumarkaði og ekki verulegar aðrar tekjur til lífsviðurværis en bætur almannatrygginga. Skerðing bóta á starfstímabilinu fer eftir almennum skerðingarreglum á hverjum tíma. Í reglugerð skal kveða nánar á um öryrkjavinnu þessa.

23. gr.

    2. og 8. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum falla brott.

II. KAFLI
Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993,
með síðari breytingum.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Bætur félagslegrar aðstoðar eru mæðra- og feðralaun, barnalífeyrir vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18–20 ára, umönnunargreiðslur, makabætur, umönnunarbætur, dánarbætur, endurhæfingarlífeyrir, heimilisuppbót, frekari uppbætur, uppbót vegna kaupa á bifreið, uppbót vegna reksturs bifreiðar og endurgreiðsla umtalsverðs kostnaðar við læknishjálp og lyf.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                   Tryggingastofnun ríkisins greiðir bætur samkvæmt lögum þessum.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Tryggingaráði“ í 1. málsl. kemur: Tryggingastofnun ríkisins.
     b.      Orðin „samkvæmt reglum er tryggingaráð setur“ í 2. málsl. falla brott.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar“ í 1. málsl. kemur: Tryggingastofnun.
     b.      Í stað orðsins „Lífeyrisdeild“ í 3. og 8. málsl. kemur: Tryggingastofnun.
     c.      Orðin „eftir reglum er tryggingaráð setur“ í 9. málsl. falla brott.
     d.      Orðin „samkvæmt reglum er tryggingaráð setur“ í 11. málsl. falla brott.
     e.      Í stað orðanna „Í reglum sem tryggingaráð setur um rétt“ í 12. málsl. kemur: Við ákvörðun á rétti.
     f.      Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
                   Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Orðin „eftir reglum sem tryggingaráð setur“ í lokamálslið 1. mgr. falla brott.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                   Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar.

28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Orðin „eftir reglum sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir“ í 2. málsl. falla brott.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
                   Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar.

29. gr.

    Í stað orðsins „umönnunarbótaþega“ í 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: umönnunargreiðsluþega.

30. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Orðin „og í samræmi við reglur sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið setur“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                   Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar.

31. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er unnið í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og hefur að markmiði að ljúka lagfæringum á ýmsum ákvæðum laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð. Lagfæringar þessar eru nauðsynlegar í framhaldi af öðrum breytingum sem gerðar hafa verið á þessum og öðrum lögum á undanförnum árum. Þá koma þær jafnframt í kjölfar breytinga sem orðið hafa á skipuriti Tryggingastofnunar ríkisins.
    Á 127. löggjafarþingi 2001–2002 lagði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fram frumvarp til laga um breyting á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð o.fl. sem samþykkt var sem lög nr. 74/2002. Í frumvarpinu voru ekki lagðar til breytingar á hlutverki tryggingaráðs en í nefndaráliti heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis um frumvarpið, sem samþykkt var samhljóða segir m.a.:
    „Nefndin fjallaði nokkuð um hlutverk tryggingaráðs. Nefndin leggur til breytingar á 14. gr. frumvarpsins er varða hlutverk ráðsins til samræmis við nútímastjórnsýsluhætti og ábyrgð ráðherra, sbr. 2. tölul. hér á eftir. Nefndin hvetur til þess að hlutverk og staða tryggingaráðs verði tekin til endurskoðunar í heild sinni.
    …
    Helstu breytingar eru eftirfarandi:
    1. …
    2. Lagt er til nýtt orðalag í 14. gr. frumvarpsins og 33. gr. almannatryggingalaga. Með breytingunum eru heimildir tryggingaráðs til að setja reglur um einstaka stafliði 1. mgr. 33. gr. felldar brott. Þess í stað er ráðherra veitt heimild í sérstakri málsgrein til að setja reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæðinu. Greiðslur samkvæmt ákvæðinu eru á ábyrgð ráðherra sem æðsta yfirmanns Tryggingastofnunar og því eðlilegt að reglugerðarvaldið sé hjá honum.“
    Í samræmi við framangreint álit heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til endurskoðunar hlutverk og stöðu tryggingaráðs.
    Í framhaldi af því eru í frumvarpinu m.a. lagðar til eftirfarandi breytingar á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum:
     1.      Ákvæði laganna sem heimila tryggingaráði að setja reglur um tilteknar bætur eru felld brott og í stað þeirra sett ákvæði um að ráðherra skuli setja reglugerðir.
     2.      Ýmis ákvæði þar sem tilteknum deildum Tryggingastofnunar eru falin verkefni eru felld brott og í stað þeirra settar heimildir til Tryggingastofnunar enda þykir óeðlilegt að deildaskipting og verkaskipting stofnunarinnar sé ákveðin í lögum.
     3.      Ráðherraskipuð nefnd sem ákveður vist í erlendu sjúkrahúsi (siglinganefnd) er lögð niður og Tryggingastofnun ríkisins falin verkefni hennar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni eru felld brott ákvæði sem fjalla um deildaskiptingu Tryggingastofnunar ríkisins, enda þykir óeðlilegt að binda innra skipulag stofnunarinnar í lögum.

Um 2. gr.

    Í núgildandi 3. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, er gert ráð fyrir að ráðherra skipi forstjóra og ráði tryggingayfirlækni að fengnum tillögum tryggingaráðs Frumvarpið gerir áfram ráð fyrir að ráðherra skipi forstjóra að fenginni tillögu tryggingaráðs en lagt er til að fellt verði niður ákvæði um að ráðherra ráði tryggingayfirlækni. Samkvæmt lögum nr. 70/1996 er almenna reglan sú að forstöðumaður stofnunar ræður starfsmenn hennar. Ekki verður séð að sérstök ástæða sé til þess að sérregla gildi um ráðningu tryggingayfirlæknis.

Um 3. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lagfæring á orðalagi en í b-lið eru felld brott ákvæði er kveða á um störf deildarstjóra Tryggingastofnunar ríkisins og ákvæði um að heimilt sé að ráða tannlækni eða semja við aðila utan stofnunarinnar til að hafa eftirlit með framkvæmd ákvæða laganna er lúta að tannlækningum. Ekki er talin þörf á sérstökum lagaákvæðum um störf og verksvið deildarstjóra. Enn fremur er talið ónauðsynlegt að binda í lög heimild forstjóra Tryggingastofnunar til að ráða tannlækni til stofnunarinnar eða að semja við aðila utan stofnunarinnar. Er talið að forstjóri hafi slíkar heimildir þó að ekki sé sérstaklega kveðið á um það í lögum.

Um 4. gr.

    Gert er ráð fyrir að 2. málsl. 6. gr. laganna falli brott en ákvæðið fjallar um starfsemi endurskoðunardeildar Tryggingastofnunar ríkisins. Ekki er talin þörf á sérstöku lagaákvæði sem kveði á um að við Tryggingastofnun skuli starfa endurskoðunardeild. Slík deild er nú þegar í stofnuninni og er með frumvarpinu tekið tillit til ábendinga Ríkisendurskoðunar í skýrslu um lífeyristryggingasvið Tryggingastofnunar ríkisins frá 1999 að stjórnsýslulega skuli endurskoðunardeild heyra beint undir forstjóra stofnunarinnar. Með því að fella brott ákvæði í lögum um endurskoðunardeild heyrir sú deild undir forstjóra eins og aðrar deildir eða svið stofnunarinnar.

Um 5. gr.

    Í núgildandi 7. gr. b laganna hefur tryggingaráð það hlutverk að höfða dómsmál til að fá hnekkt úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins hafi það hlutverk í stað tryggingaráðs.

Um 6. gr.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að verkefni tryggingaráðs er varða staðarval, fyrirkomulag og rekstur umboðsskrifstofa Tryggingastofnunar ríkisins verði flutt til stofnunarinnar. Gera má ráð fyrir að forstjóri Tryggingastofnunar beri slíkar ákvarðanir undir tryggingaráð. Þá eru ákvæði um trúnaðarmenn Tryggingastofnunar felld brott til samræmis við núgildandi framkvæmd.

Um 7. gr.

    Í greininni er lagt til að fellt verði brott ákvæði um birtingu reikninga Tryggingastofnunar ríkisins í B-deild Stjórnartíðinda. Birting á reikningum stofnunarinnar hefur ekki farið fram í Stjórnartíðindum og er ákvæðið því ekki í samræmi við þá framkvæmd sem nú tíðkast.

Um 8. gr.

    Í greininni eru ákvæði 2. mgr. 12. gr. laganna umorðuð. Sú breyting er gerð á orðalagi að Tryggingastofnun ríkisins skal meta örorku þeirra sem sækja um örorkubætur en ekki er tiltekið að það skuli gert af tryggingayfirlækni. Þótt orðalagi sé breytt er áfram gert ráð fyrir að læknar Tryggingastofnunar eða læknar utan stofnunarinnar framkvæmi slíkt mat fyrir stofnunina. Í núgildandi 12. gr. laganna er gert ráð fyrir að læknadeild Tryggingastofnunar semji staðalinn, tryggingaráð staðfesti hann og ráðherra annist birtingu á honum. Í stað þessa fyrirkomulags gerir frumvarpið ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um örorkustaðalinn að fengnum tillögum Tryggingastofnunar ríkisins.

Um 9. gr.

    Í a-lið er felld brott tilvísun í tryggingaráð og gert ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins geti í stað tryggingaráðs ákveðið að greiða barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega og með barni manns sem sætir gæsluvist eða afplánar fangelsi.
    Í b-lið er felld brott tilvísun í lífeyrisdeild þar sem ekki er talið rétt að binda í lögum hvaða deild Tryggingastofnunar skuli annast ákveðin verkefni. Þar að auki hefur skipurit stofnunarinnar breyst þannig að það sem áður var lífeyrisdeild er nú lífeyristryggingasvið.

Um 10. gr.

    Í a-lið er heimild tryggingaráðs til að setja reglur felld brott. Í b-lið er í stað reglna tryggingaráðs gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins.

Um 11. gr.

    Í greininni er felld brott heimild tryggingaráðs til að setja reglur um undanþágu frá slysatryggingu ef hlutaðeigandi er sannanlega tryggður samkvæmt erlendri slysatryggingalöggjöf. Ekki er talin þörf á að setja reglugerðarheimild í þessu tilviki.

Um 12. gr.

    Í greininni er felld brott heimild tryggingaráðs til að ákveða að dagpeningar skuli greiddir lengur en í 52 vikur, einkum ef ekki er lokið lækningatilraunum og óvíst er hvort um varanlega örorku verður að ræða og líkur eru til að afstýra megi eða draga úr örorku með lengri bótagreiðslu. Gerir frumvarpið ráð fyrir að það verði Tryggingastofnun ríkisins sem taki ákvörðun um slíka framlengingu í stað tryggingaráðs.

Um 13. gr.

    Hér er fellt brott ákvæði um að ráðuneytið skuli setja reglur að fengnum tillögum tryggingaráðs og í stað þess gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð.

Um 14. gr.

    Í 4. mgr. 30. gr. laganna er vísað ranglega í 4. mgr. 29. gr. Villa þessi hefur verið lengi í lögunum og er hér leiðrétt og vísað í 5. mgr. 29. gr. laganna.

Um 15. gr.

    Í a-lið er felld brott tilvísun í sjúkratryggingadeild eða hlutaðeigandi umboðsskrifstofu og í stað hennar kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli gefa út réttindaskírteini til hvers þess sem sjúkratryggður er.
    Í b-lið er felld brott heimild ráðherra til að setja reglugerð um starfsemi sjúkratryggingadeildar. Er talið óeðlilegt að ráðherra setji reglur um starfsemi deildar innan Tryggingastofnunar ríkisins. Þá er enn fremur talið óheppilegt að fjalla í lögum um deildir í stofnuninni og sem dæmi má nefna að sjúkratryggingadeild heitir nú samkvæmt skipuriti stofnunarinnar sjúkratryggingasvið.

Um 16. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að ráðherraskipuð nefnd (siglinganefnd) verði lögð niður og Tryggingastofnun ríkisins falið það verkefni að úrskurða um hvort brýn nauðsyn sé fyrir sjúklinga að vistast í erlendu sjúkrahúsi þar sem ekki sé unnt að veita þeim nauðsynlega hjálp í íslensku sjúkrahúsi. Núgildandi ákvæði 35. gr. um skipan „siglinganefndar“ er orðið úrelt og þarfnast lagfæringa. Í meira en helmingi tilvika þar sem senda þarf sjúklinga á sjúkrahús erlendis er enginn vafi um það hvort og hvert senda beri sjúkling til meðferðar. Í öðrum tilvikum er reiknað með að Tryggingastofnun leiti eftir ráðgjöf viðeigandi sérfræðilækna. Gert er ráð fyrir að kostnaður við ráðgjöf sérfræðilækna komi á móti sparnaði við niðurlagningu „siglinganefndar“. Frumvarpið breytir ekki réttindum sjúklinga í núgildandi lögum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild Tryggingastofnunar til að ákveða að sérfræðilæknar erlendis frá meðhöndli sjúkling hér á landi og að stofnunin skuli greiða launa- og ferðakostnað hins erlenda sérfræðings sem af því hlýst. „Siglinganefnd“ hefur beitt þessu úrræði og hefur það gefist vel en ákvæði vantar í núgildandi lög um að Tryggingastofnun skuli greiða fyrir slíka meðferð.

Um 17. gr.

    Breytingar á b-lið 1. mgr. og 3. mgr. 36. gr. laganna eru gerðar að tillögu samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Hugtakið „sérfræðingur“ í ákvæðum laganna hefur valdið misskilningi hjá ýmsum stéttum þrátt fyrir að orðið hafi í þessu samhengi fram að þessu verið túlkað sem „sérfræðilæknir“. Því er lögð til sú breyting á b-lið 1. mgr. og 3. mgr. að í stað orðsins „sérfræðingur“ verði notað orðið „sérgreinalæknir“ til að taka af allan vafa.
    Enn fremur er lögð til breyting á i-lið 1. mgr. þannig að felld verði brott heimild tryggingaráðs til að setja reglur um ferðakostnað sem ráðherra skuli staðfesta. Í stað þess er gert ráð fyrir heimild ráðherra til að setja reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra.

Um 18. og 19. gr.

    Í ákvæðunum er lagt til að felld verði brott heimild ráðherra til að setja reglur að fengnum tillögum tryggingaráðs og heimild tryggingaráðs til að setja reglur og í stað þess gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð.

Um 20. gr.

    Hér er lagt til að felld verði brott ákvæði sem heimila að greiða megi bætur eftir á fyrir lengri tíma en einn mánuð þar sem samgöngur eru erfiðar. Ljóst er að samgöngur hafa ekki lengur áhrif á bótagreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins.

Um 21. gr.

    Ákvæði 1. mgr. 51. gr. laganna vísa til síðustu málsgreinar 43. gr. laganna. Með 16. gr. laga nr. 74/2002 var fjölgað málsgreinum í 43. gr. þannig að tilvísunin er röng. Lög nr. 74/2002 rýmkuðu ákvæði 43. gr. laganna til hagsbóta fyrir þá sem þurfa að vistast tímabundið á sjúkrahúsi og tekur sú rýmkun gildi 1. janúar 2004. Í a-lið frumvarpsgreinarinnar er gert ráð fyrir að hætt verði að vísa til 43. gr. varðandi niðurfellingu á bótum og sett sérregla um fanga. Gert er ráð fyrir að þessir aðilar haldi bótum í fjóra mánuði og hefst fjögurra mánaða tímabilið við upphaf fangelsisvistar eða dvalar. Í b-lið er gert ráð fyrir að fangar geti fengið greidda vasapeninga þegar bæturnar hafa fallið niður á sama hátt og samkvæmt núgildandi lögum.


Um 22. og 23. gr.

    Rétt þykir að flytja ákvæði um öryrkjavinnu úr 2. tölul. bráðabirgðaákvæðis laganna í 58. gr. laganna. Ákvæðin eru efnislega óbreytt. Þá er lagt til að 8. tölul. bráðabirgðaákvæðisins verði lagður niður þar sem hann hefur ekki lengur þýðingu.

Um 24. gr.

    Í a-lið greinarinnar er upptalning í 1. gr. laganna lagfærð en misbrestur hefur orðið á að lagfæra hana um leið og öðrum ákvæðum laganna hefur verið breytt.
    Í núgildandi 3. mgr. 1. gr. laganna er tekið fram að lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins skuli annast greiðslur félagslegrar aðstoðar. Í b-lið frumvarpsgreinarinnar er orðalagi breytt á þann veg að Tryggingastofnun ríkisins skuli greiða bætur samkvæmt lögunum. Óhentugt þykir að vísa til tiltekinna deilda í Tryggingastofnun þar sem deildaskipting stofnunarinnar getur tekið breytingum í tímans rás og sem dæmi má nefna að lífeyrisdeild heitir nú samkvæmt skipuriti stofnunarinnar lífeyristryggingasvið.

Um 25. gr.

    Í a-lið er felld brott heimild tryggingaráðs til að ákveða hvort greiða skuli mæðra- og feðralaun til maka elli- eða örorkulífeyrisþega þegar bætur almannatrygginga falla niður vegna vistunar á stofnun og í stað þess gerir frumvarpið ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins taki þessa ákvörðun. Ráðherra hefur sett reglugerð um mæðra- og feðralaun og er óeðlilegt að tryggingaráð setji eingöngu reglur þegar um þessi tilteknu tilvik er að ræða.
    Í b-lið er felld brott heimild tryggingaráðs til að setja reglur um það hvenær heimilt er að greiða maka einstaklings sem sætir gæsluvist eða afplánar fangelsi mæðra- eða feðralaun þegar vistin hefur varað a.m.k. þrjá mánuði. Í stað heimildar tryggingaráðs er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins.

Um 26. gr.

    Í greininni er felld brott tilvísun í lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins. Er vísað til athugasemda við 24. gr. frumvarpsins til skýringar. Þá eru felldar brott heimildir tryggingaráðs til að setja reglur um barnalífeyri og gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar.

Um 27. og 28. gr.

    Hér er lagt til að heimildir tryggingaráðs til að setja reglur verði felldar brott og í stað þess gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerðir um nánari framkvæmd greinanna.

Um 29. gr.

    Orðalag ákvæðisins er lagfært til að fyrirbyggja misskilning en hætta er á því eftir að 5. gr. laganna var breytt með 24. gr. laga nr. 74/2002. Ákvæði 1. mgr. 11. gr. laganna vísar til umönnunargreiðslna til framfærenda fatlaðra og langveikra barna en ekki umönnunarbóta skv. 5. gr. laganna.

Um 30. gr.

    Gert er ráð fyrir að fellt sé brott ákvæði um að sjúkratryggingadeild annist endurgreiðslu umtalsverðs kostnaðar við læknishjálp og lyf. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að 1. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, sé breytt þannig að hún kveði á um að Tryggingastofnun ríkisins greiði bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sbr. athugasemdir við 24. gr. frumvarpsins.

Um 31. gr.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að lögin taki gildi þegar í stað og að „siglinganefnd“ verði leyst frá störfum frá sama tíma.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um
almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

    Í frumvarpinu eru m.a. lagðar til breytingar á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum. Í fyrsta lagi er lagt til að í stað heimildar tryggingaráðs til að setja reglur um tilteknar bætur komi ákvæði um að ráðherra skuli setja reglugerðir um sama efni. Í öðru lagi eru felld niður ýmis ákvæði þar sem tilteknum deildum og starfmönnum Tryggingastofnunar eru falin verkefni en í stað þeirra koma heimildir stofnunarinnar til að ráða sjálf innri verkaskiptingu og skipan mála. Í þriðja lagi er lagt til að ráðherraskipuð nefnd sem ákveður brýna vist í erlendu sjúkrahúsi (siglinganefnd) verði lögð niður. Í hennar stað er lagt til að Tryggingastofnun úrskurði hvort fyrrgreint skilyrði sé fyrir hendi og kalli sérgreinalækna til ráðgjafar þegar þess þarf með. Útgjöld Tryggingastofnunar til starfs nefndarinnar nam 1,3 m.kr. á árinu 2003 og gert er ráð fyrir að sú fjárhæð verði notuð til kaupa á ráðgjöf sérgreinalækna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að það hafi óveruleg áhrif á rekstur Tryggingastofnunar ríkisins.