Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 342. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 416  —  342. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal tryggja að allt tóbak sem flutt er inn frá útlöndum eða framleitt hér á landi, hvort heldur er unnið eða óunnið, sé merkt. Um merkingar tóbaks fer eftir ákvæði 6. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Þess skal gætt að jafnræði gildi gagnvart öllum áfengis- og tóbaksbirgjum.
     b.      2. mgr. fellur brott.

3. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er einni heimilt að selja tóbak innan lands í heildsölu. Um smásölu tóbaks fer eftir ákvæði 8. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


         Með breytingu á bókun 3 við EES-samninginn, sem tók gildi 1. janúar 2002, var vörusviði samningsins breytt þannig að nú fellur tóbak undir almennar reglur EES-samningsins um frjálst flæði vara. Í 16. gr. EES-samningsins er sú skylda lögð á samningsaðila að tryggja breytingar á ríkiseinkasölum í viðskiptum þannig að enginn greinarmunur sé gerður milli ríkisborgara aðildarríkja ESB og EFTA-ríkja hvað snertir skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar vara. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur, í kjölfar þess að tóbak var fellt undir vörusvið EES-samningsins frá og með 1. janúar 2002, gert athugasemdir við einkarétt ríkisins á innflutningi og framleiðslu á tóbaki. Telja verður einsýnt, með hliðsjón af dómafordæmum Evrópudómstólsins, að núverandi einkaréttur ríkisins á innflutningi og framleiðslu á tóbaki sé andstæður ákvæðum EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga.
    Í frumvarpi þessu er því lagt til að felldur verði niður einkaréttur ríkisins á innflutningi og framleiðslu á tóbaki en að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) hafi áfram einkarétt á heildsölu á tóbaki. Innkaupareglur ÁTVR munu gilda áfram og tryggja jafnræði gagnvart öllum birgjum.
    Ríkið öðlaðist einkarétt til innflutnings og heildsölu tóbaks á árinu 1922. Árið 1926 var einkaréttur þessi afnuminn. Í ársbyrjun 1932 öðlaðist ríkið einkasöluréttinn á ný, sbr. lög nr. 58/1931, og hefur það haft hann æ síðan. Þau sjónarmið, sem einkum réttlættu einkarétt ríkisins til innflutnings og heildsölu á tóbaki, voru á sínum tíma þau að með þessum hætti mætti afla ríkissjóði tryggra tekna í formi einkasölugjalda af vörum þessum, auk þess sem líklegra þótti að þetta fyrirkomulag tryggði betur en ella hagstæðari innkaup á vörum þessum til landsins. Einnig var á það bent að með þessum hætti væri mun auðveldara að annast eftirlit með innflutningi á þessum vörum þar sem honum mætti aðeins einn aðili sinna með lögmætum hætti.
    Í frumvarpi til breytingar á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu, er lagt til að ÁTVR muni áfram leggja á og innheimta tóbaksgjald af tóbaksvörum sem fluttar eru til landsins eða framleiddar hér á landi. Ekki er reiknað með að breytingar verði á nettótekjum ríkissjóðs verði frumvarp þetta að lögum. Tóbaksgjaldið verður þannig áfram lagt á og innheimt af ÁTVR á heildsölustigi við sölu verslunarinnar á tóbaksvörum til smásala.
    Frumvarpið felur því í sér ákveðnar breytingar á gildandi fyrirkomulagi. Í dag er staðan sú að ÁTVR hefur einkarétt á innflutningi og framleiðslu tóbaks. ÁTVR hefur því flutt inn og framleitt tóbakið, tryggt að tóbakið sé merkt og lagt á það tóbaksgjald áður en smásalar hafa getað nálgast tóbakið. Samkvæmt frumvarpinu verður framangreint einkaleyfi á innflutningi tóbaks fellt niður, sem leiðir til þess að allir sem vilja geta flutt inn tóbak að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru fyrir slíkum innflutningi. Því verður að telja líklegt að innflytjendum tóbaks muni fjölga nokkuð, en hlutverk ÁTVR verður engu að síður verulegt. Líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir mun ÁTVR tryggja merkingar tóbaks og álagningu tóbaksgjalds. Verður því allt það tóbak sem flutt er inn til landsins eða framleitt hér á landi fært til ÁTVR þar sem tryggt verður að merkingar á tóbakinu hafi farið fram, sem og álagning tóbaksgjaldsins. Það verða því í raun engar grundvallarbreytingar á framkvæmdinni, að undanskildu því að ÁTVR mun ekki lengur hafa einkarétt á innflutningi og framleiðslu tóbaks. Því mun það öryggi sem til staðar er, vegna ákveðinnar millifærslu af hendi ÁTVR, ekki hverfa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í þessari grein er lagt til að einkaréttur ríkisins á innflutningi tóbaks verði felldur niður. Áfram er þó gert ráð fyrir því að ÁTVR tryggi að allt tóbak sem flutt er inn til landsins eða framleitt hér á landi sé merkt í samræmi við ákvæði 6. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

Um 2. gr.

    Hér er verið að tryggja að gætt sé að jafnræði gagnvart öllum tóbaksbirgjunum. Í því sambandi skal áréttað að í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu kemur fram að innkaupareglur ÁTVR munu gilda áfram og tryggja jafnræði milli allra birgja. Þá er lagt til að felldur verði niður einkaréttur ríkisins á framleiðslu tóbaks.

Um 3. gr.

    Hér er verið að tryggja einkarétt ÁTVR á heildsölu tóbaks innan lands. Þá er lagt til að smásala tóbaks fari eftir ákvæði 8. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

Um 4. gr.

    Grein þessi þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 63/1969,
um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að einkaréttur ríkisins á innflutningi og framleiðslu á tóbaki falli niður í samræmi við framkvæmd EES-samningsins. Jafnframt er gert ráð fyrir að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi eftir sem áður einkarétt á heildsölu á tóbaki. Skylt verður að merkja allt tóbak hjá ÁTVR og verður því allt innflutt tóbak fært til fyrirtækisins í því skyni. Framkvæmdinni verður því hagað í höfuðatriðum með sama hætti og verið hefur þótt innflutningsaðilum tóbaks kunni að fjölga. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki. Í því frumvarpi er gert ráð fyrir að ÁTVR leggi tóbaksgjald á tóbaksvörur eins og verið hefur og að það verði innheimt á heildsölustigi. Tekjur ríkissjóðs af tóbaksgjaldi verða því óbreyttar og er ekki heldur ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpanna hafi áhrif á fjárreiður ÁTVR svo nokkru nemi.