Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 343. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 417  —  343. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins leggur á og innheimtir tóbaksgjald af tóbaksvörum sem hafa verið fluttar hingað til lands eða framleiddar hér á landi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu sem lagt er fram í tengslum við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum, er gerð tillaga um að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) leggi áfram á og innheimti tóbaksgjald af tóbaksvörum sem fluttar hafa verið til landsins eða framleiddar hér á landi. Er hér um að ræða eðlilega breytingu með hliðsjón af framangreindu frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum, sem felur í sér afnám einkaleyfis ÁTVR til framleiðslu og innflutnings tóbaks. Þá ber að geta þess að frumvarp þetta mun engin áhrif hafa á nettótekjur ríkissjóðs heldur mun gjaldtakan einungis færast yfir á heildsölustigið, þ.e. ÁTVR mun áfram halda einkarétti til sölu tóbaks innan lands í heildsölu, og mun gjaldtakan fara þar fram.
    Í dag er staðan sú að ÁTVR hefur einkarétt á innflutningi og framleiðslu tóbaks. ÁTVR hefur því flutt inn og framleitt tóbakið, tryggt að tóbakið sé merkt og lagt á það tóbaksgjald áður en smásalar hafa getað nálgast tóbakið. Samkvæmt frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum, er einkaleyfi ÁTVR á innflutningi og framleiðslu tóbaks fellt niður. Þar er þó áfram gert ráð fyrir því að ÁTVR haldi einkarétti til þess að selja tóbak innan lands í heildsölu. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að ÁTVR leggi á og innheimti tóbaksgjald af þeim tóbaksvörum sem fluttar hafa verið hingað til lands eða framleiddar hér á landi. Verða því í raun engar grundvallarbreytingar á framkvæmdinni, heldur verður allt tóbak, hvort sem það er innflutt eða framleitt hér á landi, flutt til ÁTVR þar sem álagning og innheimta tóbaksgjaldsins fer fram og tryggt að merkingar á tóbakinu hafi farið fram. Það öryggi sem felst í ákveðinni millifærslu og eftirliti af hendi ÁTVR mun því ekki hverfa. Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 96/1995,
um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

    Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum. Í því frumvarpi er lagt til að einkaréttur ríkisins á innflutningi og framleiðslu á tóbaki falli niður í samræmi við framkvæmd EES-samningsins. Jafnframt er gert ráð fyrir að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi eftir sem áður einkarétt á heildsölu á tóbaki. Skylt verður að merkja allt tóbak hjá ÁTVR og verður því allt innflutt tóbak fært til fyrirtækisins í því skyni. Framkvæmdinni verður því hagað í höfuðatriðum með sama hætti og verið hefur þótt innflutningsaðilum tóbaks kunni að fjölga. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að ÁTVR leggi tóbaksgjald á tóbaksvörur eins og verið hefur og að það verði innheimt á heildsölustigi. Tekjur ríkissjóðs af tóbaksgjaldi verða því óbreyttar og er ekki heldur ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpanna hafi áhrif á fjárreiður ÁTVR svo nokkru nemi.