Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 344. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 418  —  344. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 33 16. apríl 2002, um eldi nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)1. gr.

    Við 4. mgr. 3. gr. laganna bætist: þar á meðal að takmarka eða banna eldi á lifandi sjávardýrum er lög þessi ná til ef ljóst þykir að aðrar verndunar- og friðunaraðgerðir sem kveðið er á um í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum duga ekki til að koma í veg fyrir erfðablöndun við staðbundna stofna eða að líffræðilegri fjölbreytni sé ógnað og tegundum eða stofnum stefnt í hættu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögum um eldi nytjastofna sjávar verði breytt þannig að hægt verði að grípa til ráðstafana til að verja stofna íslenskra sjávardýra gegn óæskilegum áhrifum erfðablöndunar við aðra stofna sömu tegundar eða innfluttra tegunda eða stofna sem ekki finnast við Íslandsstrendur.
    Nauðsynlegt er að slík heimild sé í íslenskum lögum í ljósi aukins eldis sjávardýra jafnt erlendis sem hér á landi. Samfara þeirri þróun má vænta aukinna viðskipta með ýmsar tegundir eldisdýra og kynbætta stofna.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 33/2002,
um eldi nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að sjávarútvegsráðherra sé heimilt að takmarka eða banna eldi á lifandi sjávardýrum er lögin ná til ef ljóst er að aðrar aðgerðir og stjórnvaldsfyrirmæli duga ekki til að koma í veg fyrir erfðablöndun við staðbundna stofna eða líffræðilegri fjölbreytni, tegundum og stofnum stefnt í hættu. Að mati fjármálaráðuneytisins hefur frumvarpið ekki í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkið og er það í samræmi við mat sjávarútvegsráðuneytisins á frumvarpinu.