Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 367. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 491  —  367. mál.
Tillaga til þingsályktunarum úttekt á gerð jarðganga í Reynisfjalli.

Flm.: Hjálmar Árnason, Dagný Jónsdóttir.    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta fara fram úttekt á gerð jarðganga í Reynisfjalli í Vestur-Skaftafellssýslu. Úttektinni verði lokið fyrir 1. september 2004.

Greinargerð.


    Samkvæmt tillögu þessari felur Alþingi samgönguráðherra að láta gera úttekt á kostum jarðganga í Reynisfjalli í Vestur-Skaftafellssýslu. Í langtímaáætlun um jarðgöng er minnst á göng í Reynisfjalli. Ekki eru þau hins vegar tímasett. Með ákvörðun um jarðgöng undir Almannaskarð í Austur-Skaftafellssýslu má segja að leiðin frá Hveragerði að Djúpavogi liggi öll á láglendi með einni undantekningu þó – Víkurskarði vestan Víkur í Mýrdal. Í vetrarfærð er það eina hindrun umferðar frá Reykjavík og austur á firði.
    Ljóst er að með auknum umsvifum á Austurlandi á umferð um Suðurland eftir að vaxa stórlega. Þá eru í undirbúningi framkvæmdir í Vestur-Skaftafellssýslu er kunna að fela í sér mikla þungaflutninga úr Mýrdalshreppi í Þorlákshöfn. Spáð er almennum vexti í ferðaþjónustu og liggur straumur ferðamanna um Vestur-Skaftafellssýslu.
    Lagt er til að samgönguráðherra láti gera úttekt á kostum jarðganga í Reynisfjalli sem nái annars vegar til jarðfræðilegs mats og hins vegar mats á kostnaði. Verkinu skal lokið fyrir 1. september 2004.