Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 376. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 502  —  376. mál.




Beiðni um skýrslu



frá dómsmálaráðherra um afdrif hælisleitenda.

Frá Jóhanni Ársælssyni, Guðrúnu Ögmundsdóttur, Bryndísi Hlöðversdóttur,


Ástu R. Jóhannesdóttur, Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, Merði Árnasyni,
Jóhönnu Sigurðardóttur, Björgvin G. Sigurðssyni og Valdimar L. Friðrikssyni.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að dómsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um afdrif útlendinga sem sótt hafa um hæli á Íslandi síðastliðin átta ár.
    Í skýrslunni verði skýrt hver meðferð þessara mála er, m.a. hvaða reglur og starfshættir gilda, hvaða stjórnvöld, stofnanir og samtök sinna þessum málum, hvort sérstakir samningar eru í gildi á milli þessara aðila, hvert umfang starfa þeirra er og hver kostnaður hefur verið af störfum þeirra hvert ár.
    Í skýrslunni verði gerð grein fyrir fjölda hælisleitenda hvert ár, þjóðerni, aldri, kyni, hjúskaparstöðu og menntun. Gerð verði grein fyrir tilfærðum ástæðum hælisleitenda, hvort við beiðnum hafi verið orðið eða ekki og rökstuðningi að baki ákvarðana. Einnig komi fram hvernig og á hvaða tungumáli ákvarðanir og rökstuðningur þeirra hafa verið birt hælisleitendum.
    Leitað verði upplýsinga um hvar hver hælisleitandi er niður kominn og hverjir hagir hans eru nú. Hvort viðkomandi hafi atvinnu, haldi sjálfur heimili eða dvelji e.t.v. í flóttamannabúðum eða fangelsi eða sé með einhverjum hætti í umsjá hins opinbera og þá hverjar ástæður þess séu.

Greinargerð.


    Oft hafa orðið miklar umræður hér á landi um óskir útlendinga um hæli. Hælisleitendur hafa byggt umsóknir á ýmsum rökum, m.a. þeim að þeir verði fyrir ofsóknum í heimalandi og telji jafnvel líf sitt í hættu. Íslensk stjórnvöld hafa oftast hafnað slíkum rökum útlendinga og það heyrir því til undantekninga að þau hafi orðið við beiðnum um hæli.
    Að neita fólki, sem telur sig sæta ofsóknum, um hæli er auðvitað afar alvarlegt mál. Það er augljóslega skylda stjórnvalda að grafast vel fyrir um hagi þeirra sem leita hér hælis. Stjórnvöld hafa því góðar upplýsingar um þá sem hér hafa leitað hælis á undanförnum árum.
    Margir hafa orðið til að gagnrýna stjórnvöld fyrir hörku gagnvart hælisleitendum og er full ástæða til að sannreyna hvort mat stjórnvalda á aðstæðum í hverju máli hafi reynst rétt. Það ætti líka að vera hluti meðferðar hvers máls fyrir sig að meta það að hæfilegum tíma liðnum hvort niðurstaðan hafi reynst byggð á réttu mati. Sú skýrsla sem hér er óskað að gerð verði gæti eytt tortryggni í garð stjórnvalda og einnig verið gagnleg fyrir þau til að meta hvort niðurstaða einstakra mála hafi verið rétt og byggð á nægilega góðum upplýsingum.