Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 386. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 516  —  386. mál.




Frumvarp til laga



um textun.

Flm.: Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, Guðjón A. Kristjánsson, Sigurjón Þórðarson,


Grétar Mar Jónsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir,
Björgvin G. Sigurðsson, Katrín Júlíusdóttir.


1. gr.
Markmið.

Markmið laga þessara er að tryggja heyrnarskertum og heyrnarlausum aðgang að upplýsingum, afþreyingar- og fræðsluefni til jafns við þá sem hafa fulla heyrn.

2. gr.
Gildissvið.

    Eftirtöldum aðilum er skylt að texta allt efni sem þeir í atvinnuskyni senda út, framleiða eða dreifa:
     1.      sjónvarpsstöðvum sem hafa leyfi til sjónvarpsútsendinga samkvæmt útvarpslögum,
     2.      framleiðendum íslensks auglýsinga-, fræðslu-, kynningar- og sjónvarpsefnis, hvort sem efnið verður sýnt í kvikmyndahúsum eða sett á myndbönd eða stafrænt form,
     3.      framleiðendum íslenskra kvikmynda, óháð lengd og útgáfuformi kvikmyndar.
     4.      Öðrum aðilum sem dreifa hér á landi kvikmyndum og auglýsinga-, fræðslu-, kynningar- og sjónvarpsefni, hvort sem efnið er til sölu eða leigu.

3. gr.

Textun efnis.


    Allt efni sem aðilar skv. 2. gr. senda út, framleiða eða dreifa skal textað með íslenskum texta óháð því á hvaða tungumáli efnið er.
    Ef um beina útsendingu er að ræða, svo sem fréttir, dægurmálaþætti, viðtalsþætti, stjórnmálaumræður, íþróttakappleiki eða mót, skal sá er útsendingu annast leitast við að texta jafnóðum. Ef ekki er unnt að texta útsendingu samtímis skal efnið endursýnt innan 48 klukkustunda með íslenskum texta.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er óskylt að texta efni ef um er að ræða endurvarp frá erlendum sjónvarpsstöðvum enda sé um að ræða viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár sjónvarpsstöðvar. Sama gildir ef sjónvarpsstöð hefur fengið leyfi til útsendingar á öðru tungumáli en íslensku.

4. gr.
Aðlögunartími.

    Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skal aðilum sem falla undir lög þessi veittur fimm ára aðlögunartími frá gildistöku laganna til að uppfylla kröfur um textun efnis til samræmis við markmið 1. gr. Nýir aðilar sem koma inn á markaðinn á aðlögunartímanum skulu uppfylla sömu skyldur og þeir sem fyrir eru og njóta sömu réttinda til styrkja úr Textunarsjóði.
    Aðlögunartími skal vera sem hér segir:
     1.      eftir 1 ár frá gildistöku laganna skulu 40% af öllu innlendu efni textuð,
     2.      eftir 2 ár frá gildistöku laganna skulu 60% af öllu innlendu efni textuð,
     3.      eftir 3 ár fra gildistöku laganna skulu 80% af öllu innlendu efni textuð,
     4.      eftir 4 ár frá gildistöku laganna skulu 90% af öllu innlendu efni textuð og
     5.      eftir 5 ár frá gildistöku laganna skal allt innlent efni textað í samræmi við ákvæði laganna.
    Á meðan á aðlögunartíma stendur er aðilum skv. 2. gr. heimilt að sækja um styrk til uppbyggingar á nauðsynlegum tækjabúnaði og innleiðingar nýrrar tækni til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt lögum þessum. Textunarsjóður annast styrkveitingar samkvæmt þessari grein.

5. gr.
Textunarsjóður.

    Stofnaður skal Textunarsjóður sem hafi það að markmiði að styrkja aðila skv. 2. gr. til að koma sér upp nauðsynlegum tækjabúnaði og innleiða nýja tækni við textun efnis sem þeir senda út, framleiða eða dreifa.
    Styrkir sem Textunarsjóður veitir eru óafturkræfir og geta numið allt að 80% af stofnkostnaði búnaðar.
    Textunarsjóður skal almennt ekki veita styrki til textunar á efni en er þó heimilt að veita styrki til að kosta textun á ótextuðu efni sem til hefur orðið fyrir gildistöku laga þessara og getur hámarksstyrkur numið allt að 50% af kostnaði við textun.
    Menntamálaráðherra skipar fimm manna stjórn Textunarsjóðs til fimm ára frá gildistöku laga þessara. Ráðherra tilnefnir einn mann sem jafnframt skal vera formaður stjórnar, samtök myndbandaframleiðenda tilnefna einn, samtök kvikmyndaframleiðenda einn, einn stjórnarmaður skal vera fulltrúi hagsmunasamtaka heyrnarlausra og heyrnarskertra og einn skal vera fulltrúi einkarekinna sjónvarpsstöðva á Íslandi.
    Stjórnin setur úthlutunarreglur og nánari skilyrði fyrir styrkveitingu.
    Stjórnin skal kanna fjárþörf sjóðsins í samræmi við markmið 1. gr. og gera tillögur til menntamálaráðherra um fjárþörf hvers árs. Tekjur sjóðsins eru föst framlög ríkisins af fjárlögum hvers árs. Menntamálaráðherra gerir tillögur um fjárveitingar á grundvelli áætlunar sjóðstjórnar og skulu fjárveitingar miðast við að markmið laga þessara nái fram að ganga á aðlögunartíma skv. 4. gr.
    Þegar aðlögunartími skv. 4. gr. er liðinn skal Textunarsjóður lagður niður. Ríkið tekur við öllum réttindum og skyldum sjóðsins frá þeim tíma. Jafnframt fellur umboð stjórnarmanna niður.

6. gr.

Viðurlög.     


    Nú vanrækir aðili skv. 2. gr. skyldur sínar samkvæmt ákvæðum laga þessara og er menntamálaráðherra þá heimilt að leggja á dagsektir uns aðilinn færir starfsemi sína í lögmætt horf.
    Dagsektir eru aðfararhæfar og skulu renna til Textunarsjóðs.

7. gr.
Gildistaka og lagaskil.

Lög þessi öðlast þegar gildi.
Lög þessi gilda um efni sem sent er út, framleitt eða dreift eftir gildistöku laganna.

Greinargerð.


Frumvarpi þessu er ætlað að tryggja að heyrnarskertir og heyrnarlausir njóti þeirra mannréttinda að geta notið frétta-, upplýsinga-, fræðslu-, kynningar-, auglýsinga- og afþreyingarefnis til jafns við þá sem heyra. Einungis hluti þess efnis sem sent er út á sjónvarpsstöðvum eða aðgengilegt er á myndböndum og stafrænu formi er með íslenskum texta ef tungumálið er íslenska. Flestar erlendar kvikmyndir og erlent sjónvarpsefni er með íslenskum texta til að almenningur geti notið þess til fulls og þykir það sjálfsagt og eðlilegt. Heyrnarskertir og heyrnarlausir fá ekki notið þessa sjónvarpsefnis, kvikmynda eða myndbanda nema það sé textað.
Á Alþingi hafa textunarmál oft verið til umræðu og á 126. löggjafarþingi var samþykkt þingsályktun nr. 33/2001, um textun íslensks sjónvarpsefnis. Hins vegar virðist samþykkt Alþingis litlu hafa skilað í reynd. Í apríl sl. ákvað menntamálaráðherra að hækka verulega framlag til textunar á innlendu sjónvarpsefni í Ríkissjónvarpinu (RÚV). Forsætisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti lögðu saman 4,5 millj. kr. aukalega til RÚV til að auka við textaða dagskrá sjónvarpsins. Nú, fimm mánuðum síðar, hafa aðeins tveir þættir (hálftími hvor) verið textaðir á viku. Efni líðandi stundar er ekki textað og er það mjög bagalegt. Þá þarf einnig að hafa í huga að hér er um tímabundna fjárveitingu að ræða og ekki er gefið að sams konar fjárveiting fáist á næsta ári.
Samkvæmt upplýsingum frá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er talið að um 25 þúsund manns séu meira og minna heyrnarskertir að einhverju leyti þannig að þeir nái ekki að heyra efni sjónvarpsins. Textun veitir fullkomið aðgengi að upplýsingum og er það sjálfsögð mannréttindi og mikið jafnréttismál. Annar staðar á Norðurlöndum er textun innlends efnis sjálfsögð í rekstri sjónvarpstöðvanna. Talið er að textun stuðli að bættri lestrargetu heyrnarskertra barna og unglinga og annarra sem eru í lestrarnámi eða eiga við lestrarörðugleika að stríða. Þá er textun mikilvægur stuðningur við nýbúa sem eru að læra málið. Það auðveldar þeim að skilja efnið geti þeir fylgst með skjátextanum jafnframt því sem þeir hlusta og sjá atburði.
Textun er atvinnuskapandi og gefur færi á nýjum atvinnumöguleika. Hjá BBC í Bretlandi störfuðu sex starfsmenn við textun í byrjun en þeir voru 90 árið 2002. BBC hefur verið leiðandi í textun í Evrópu á síðustu missirum og voru 78% af öllu efni breska ríkissjónvarpsins textuð á síðasta ári, þar á meðal íþróttafréttir, fréttir, þingmál og bíómyndir, og er ekki gerður neinn greinarmunur á hvort um beina útsendingu er að ræða eða ekki. Frá árinu 1996 hefur textun á innlendu sjónvarpsefni aukist stöðugt. Þess má einnig geta að í Bretlandi voru samþykkt lög þess efnis að 50% innlends efnis yrðu textuð og var gefinn átta ára aðlögunartími til að ná markmiðinu, sem á að nást árið 2004. Ekkert vandamál er að senda texta út í beinni útsendingu þar og eru til dæmis allar beinar útsendingar frá breska þinghúsinu (House of Common) textaðar, en nú er verið að vinna að nýrri tækni sem breytir tali í texta.
Íslendingar hafa sýnt að þeir gleypa við allri nýrri tækni. Því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að þeir gerðu það í þessu máli og stór hópur gæti notið góðs af.
Rétt er að geta þess að á Norðurlöndum hefur komið fram að fólk missir eitthvað af heyrninni um þrítugt en aldursviðmiðið var áður um fimmtugt. Ástæðan fyrir því er sú að nú verða unglingar fyrir stöðugt meira hávaðaáreiti sem gerir það að verkum að heyrnin skerðist fyrr á ævinni en áður. Ekki er til nein rannsókn sem hægt er að styðjast við þar sem ekki fór að bera á þessu fyrr en mjög nýlega en gera má ráð fyrir að sá hópur sem ekki heyrir í sjónvarpi fari stækkandi í framtíðinni og aldursbilið mun breikka verulega. Því er mikilvægt að veita þessum hópi aðgengi, sem og þeim hópi sem fyrir er.
BBC hefur mikla reynslu af því að senda út texta í beinni útsendingu. Það gera þeir með hraðritun með svokölluðu hljóðritunarlyklaborði. Samkvæmt upplýsingum frá yfirmanni textunardeildar BBC í Bretlandi, Martin Davies, er nú unnið að nýrri tækni sem breytir tali í texta og byrjað er að prufukeyra þá tækni í beinum útsendingum af íþróttakappleikjum og þingfundum.
Í Bandaríkjunum hefur allri textun fleygt fram vegna svokallaðra ADA-laga (Americans with Disabilities Act) um aðgengi. Nú má sjá textun á nærri öllum sjónvarpsstöðum þar, bæði stórum og smáum. Bandaríkjamenn nota aðra tækni en Evrópumenn. Á sjónvarpstækjunum sjálfum er takki þannig að áhorfendum er í sjálfvald sett hvort það horfir á mynd með texta eða ekki. Ef sjónvarpsstöð þar í landi býður upp á textun er allt efnið textað, þar á meðal kappleikir í beinni útsendingu og jafnvel auglýsingar. ADA-lögin um aðgengi tóku gildi 1985 og hafa verið endurskoðuð. Þau fjalla um aðgengi hvers konar, allt frá upplýsingum til aðgengis að opinberum stofnunum. Við endurskoðun hafa þau tekið stakkaskiptum og ná núna einnig til einkafyrirtækja. Gefinn hefur verið aðlögunartími til að koma á aðgengi án hnökra, eftir það er beitt sektum. Aðlögunartímabilið rennur út árið 2004.
Textun í Evrópu er orðin það mikil að jafnvel fyrrum austantjaldslönd eru farin að nota textun og finnst það sjálfsagt. Í austurrískri könnun sem Landssamtök heyrnarlausra í Austurríki gerðu í 16 Evrópulöndum og var gefin út 18. maí 2003 kemur eftirfarandi fram um fjölda tíma í textun á mánuði:


Land:

Textun á mánuði (ríkisstöðvar):
Albanía Enginn, aðeins textun fyrir erlent mál
Austurríki 170 tímar
Belgía 5 tímar
Danmörk 189 tímar
England 80% af öllu efni á BBC, ITV og C4
20% í stafrænum útsendingum (nýtt)
Finnland 15% af öllu innlendu efni
Grikkland 14 tímar
Írland 23 tímar
Ísland 1 tími
Ítalía 80 tímar
Pólland 30 tímar
Spánn 446 tímar
Sviss 240 tímar
Þýskaland 387 tímar
 
Þegar þessi tafla er skoðuð hlýtur fólk að spyrja hvað sé eiginlega að gerast hér á landi. Í landi þar sem hagvöxtur er það mikill að Ísland er í 3.– 5. sæti yfir ríkustu lönd í heiminum. Hvort virkilega sé enginn áhugi á að koma á fullu aðgengi að upplýsingum í landinu. Hjá þingmönnum er fullur vilji til að koma textun í framkvæmd. Umræður um málið á síðustu þingum sýna það og sanna vel. Það sem stöðvað hefur málið er að einblínt hefur verið á Ríkisútvarpið – sjónvarp sem einu stöðina sem á að texta, hinar stöðvarnar eru ekki skyldugar til að texta. Eins og taflan sýnir er eflaust mjög lítill metnaður hjá RÚV að texta ef aðeins einn tími á viku er textaður. Textun er illframkvæmanleg þrátt fyrir góðan vilja æðsta yfirmanns RÚV, þ.e. menntamálaráðherra, en það vantar sama metnað hjá undirmönnum hans. Textun þarf að setja í lög og gera jafnar kröfur til allra stöðva um að texta innlent sjónvarpsefni og veita þeim stuðning til að koma textun á innlendu efni í framkvæmd. Með tímanum mun textun festast í sessi og verða sjálfsagður hluti rekstrar stöðvanna sjálfra.
Þetta stóra verkefni verður þó ekki unnið án nokkurs kostnaðar. Því meira sem sjónvarpsstöðvar texta því minni verður kostnaðurinn og reynsla BBC hefur sýnt að eftir að farið var að texta sjónvarpsefni fundu aðrar sjónvarpsstöðvar einnig þörf hjá sér að texta. Textun var því boðin út og samkeppni um verkefnin jókst smám saman þannig að nú er kostnaðurinn minni. Því er ekki hægt að tala um dýra fjárfestingu. Þegar allt kemur til alls verður hagur notenda sennilega einna mestur. Það hefur verið sparað á aðgerðaleysinu einu í textunarmálum undanfarin missiri. Á sama tíma hafa verið veittir alls konar styrkir og fjárframlög til tónlistar en þeir sem ekki heyra hafa lítið sem ekkert fengið til að uppfylla sínar þarfir, þ.e. til textunar eða túlkunar.
Í 1. gr. er markmið laganna skilgreint en það er að tryggja heyrnarskertum og heyrnarlausum sömu möguleika til fræðslu og afþreyingar og þeim sem heyrandi eru. Markmiðsgreinina ber að túlka rúmt og almenn regla laganna er sú að allt efni sem framleitt er, sent er út eða dreift skuli veita heyrandi og heyrnarskertum sömu möguleika til að meðtaka og skilja efnið.
Í 2. gr. er gildissvið laganna afmarkað. Samkvæmt henni skulu allar sjónvarpsstöðvar sem hafa leyfi samkvæmt útvarpslögum til sjónvarpsreksturs, kvikmyndaframleiðendur, kvikmyndahús, framleiðendur auglýsinga-, fræðslu- og kynningarefnis, myndabanda- og mynddiskaframleiðendur og aðrir þeir sem dreifa slíku efni sjá til þess að efnið sé textað. Dreifingaraðilum hér á landi ber m.a. að sjá til þess að efni sé textað og tekur það m.a. til alls efnis sem framleitt er erlendis, óháð tungumáli, og sýnt eða dreift á Íslandi. Ekki skiptir máli hvort efni er selt eða leigt. Sú mikilvæga takmörkun er þó á gildissviði laganna að þeim er aðeins ætlað að ná til þeirra sem framleiða, útvarpa eða dreifa á annan hátt efni í atvinnuskyni.
Í 3. gr. er kveðið nánar á um skyldu til textunar. Minni kröfur eru gerðar til efnis sem sýnt er beint (bein útsending) enda getur það stundum verið örðugt tæknilega. Hins vegar er gert ráð fyrir að aðilar skuli gera allt sem í þeirra valdi stendur til að texta efni jafnóðum, t.d. með aðstoð textavélar en þessi tækni er í stöðugri þróun. Ef ekki er unnt að texta efnið jafnóðum skal það endursýnt innan 48 klst. með íslenskum texta. Í 3. mgr. 3. gr. er hins vegar kveðið á um undanþágu frá textun ef um er að ræða beint endurvarp frá erlendum sjónvarpsstöðvum þar sem ekkert er unnið með dagskrána að öðru leyti. Ef efnið væri hins vegar tekið upp og sýnt síðar í sjónvarpi, á myndbandi eða sem kvikmynd væri skylt að texta. Ákvæði þetta er sama efnis og 2. mgr. 8. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000.
Í 4. gr. er kveðið á um sérstakan fimm ára aðlögunartíma frá gildistöku laganna. Í samræmi við markmið laganna er stefnt að því að allt efni verði textað fimm árum eftir frá gildistöku þeirra. Gera verður ráð fyrir því að í upphafi fylgi aukinni textun nokkur kostnaðarauki og er því kveðið á um að ríkið leggi til fjármuni með stofnun Textunarsjóðs sem auðveldi fyrirtækjum að koma sér upp nauðsynlegum tækjabúnaði og þekkingu til að uppfylla markmið laganna. Komi nýir aðilar inn á markaðinn eftir gildistöku laganna skulu þeir uppfylla sömu kröfur og þeir sem fyrir eru þar sem þeir eru þá staddir í aðlögunarferlinu.
Í 5. gr. er kveðið á um stofnun Textunarsjóðs. Mjög mikilvægt er að nægileg fjárveiting fáist til sjóðsins svo markmið laganna náist. Gert er ráð fyrir að um tímabundið fjárframlag sé að ræða og að markaðsaðilar hafi náð að laga sig að breyttu umhverfi að loknum aðlögunartíma.
Í 6. gr. er kveðið á um viðurlög við brotum á lögunum en ráðherra er veitt heimild til að beita aðila þvingunarúrræði í formi dagsekta ef ekki er uppfyllt skylda um textunarhlutfall efnis.
Í 7. gr. er tekið fram að lögin skuli aðeins gilda um efni sem sent er út, framleitt eða dreift eftir gildistöku laganna. Eldra efni sem orðið hefur til er því ekki skylt að texta ef það hefur þegar verið framleitt eða því dreift. Eldra ótextað efni væri hins vegar skylt að texta ef senda ætti það út að nýju, hefja dreifingu á ný eða endurgera það. Gert er ráð fyrir að Textunarsjóður geti styrkt textun á eldra ótextuðu efni svo að hægt sé að gera það aðgengilegt heyrnarskertum og heyrnarlausum.