Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 400. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 536  —  400. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Gjaldtímabil vegna bifreiða samkvæmt málsgrein þessari er 1. janúar – 31. desember og skal skráður eigandi gjaldskylds ökutækis á gjaldtímabilinu greiða úrvinnslugjald að fjárhæð 1.040 kr. fyrir hvert gjaldskylt ökutæki sitt. Gjalddagi úrvinnslugjalds á bifreiðar samkvæmt málsgrein þessari er 1. júlí ár hvert. Um innheimtu gjaldsins að öðru leyti gildir 1. mgr.
     b.      2. málsl. 2. mgr. verður 3. mgr.

2. gr.

    Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr töluliður er orðast svo:
     11.      Veiðarfæri úr gerviefnum: sbr. viðauka XVII.

3. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum orðast svo:
    Leggja skal úrvinnslugjald á heyrúlluplast frá 1. janúar 2004 og á veiðarfæri úr gerviefnum frá 1. janúar 2005.

4. gr.

    Í stað „11,50 kr./kg“ í viðauka IV við lögin kemur hvarvetna: 14,50 kr./kg.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka V við lögin:
     a.      Í stað orðanna „Úr 27., 29. og 38. kafla tollskrárinnar“ í inngangi viðaukans kemur: Úr 22., 27., 29. og 38. kafla tollskrárinnar.
     b.      Við bætast eftirfarandi tollskrárnúmer:
Úr 2207          Ómengað etylalkóhól að alkóhólstyrkleika 80% eða meira miðað við rúmmál; etylalkóhól og aðrir áfengir vökvar, mengað, að hvaða styrkleika sem er:
    2207.2000     – Etylalkóhól og aðrir áfengir vökvar, mengað, að hvaða styrkleika sem er     3,00 kr./kg
Úr 2905          Raðtengd alkóhól ásamt halógen- , súlfó-, nítró- eða nítrósóafleiðum þeirra:
         – Mettuð monohydrísk alkóhól:
    2905.1100     – – Metanól (metylalkóhól)     3,00 kr./kg
    2905.1200     – – Própan-l-ól (própylalkóhól) og própan-2-ól (ísóprópylalkóhól)     3,00 kr./kg
    2905.1300     – – Bútan-l-ól (n-bútýlalkóhól)     3,00 kr./kg
    2905.1400     – – Önnur bútanól     3,00 kr./kg
    2905.1500     – – Pentanól (amylalkóhól)     3,00 kr./kg
         – Díól:
    2905.3100     – – Etylenglýkól (etandíól)     3,00 kr./kg
    2905.3200     – – Própylenglýkól (própan-1,2-díól)     3,00 kr./kg
    2905.3900     – – Önnur     3,00 kr./kg
Úr 2906          Hringliða alkólhól ásamt halógen-, súlfó-, nítró- eða nítrósóafleiðum þeirra:
         – Arómatísk:
    2906.2100     – – Bensylalkóhól     3,00 kr./kg
Úr 2909          Eterar, eteralkóhól, eterfenól, eteralkóhólfenól, alkóhólperoxíð, eterperoxíð, ketonperoxíð (einnig kemískt skýrgreind), og halógen-, súlfó-, nítró- eða nítrósóafleiður þeirra:
         – Raðtengdir eterar og halógen-, súlfó-, nítró- eða nítrósóafleiður þeirra:
    2909.1100     – – Díetyleter     3,00 kr./kg
         – Eteralkóhól og halógen-, súlfó-, nítró- eða nítrósóafleiður þeirra:
    2909.4100     – – 2,2'-Oxydíetanól (díetylenglýkól, dígól)     3,00 kr./kg
    2909.4200     – – Monometyleterar etylenglýkóls eða díetylenglýkóls     3,00 kr./kg
    2909.4300     – – Monobútýleterar etylenglýkóls eða díetylenglýkols     3,00 kr./kg
    2909.4400     – – Aðrir monoalkyleterar etylenglýkóls eða díetylenglýkols     3,00 kr./kg
    2909.4900     – – Annað     3,00 kr./kg
Úr 2915          Mettaðar raðtengdar monokarboxylsýrur og anhydríð, halíð, peroxíð og peroxysýrur þeirra; halógen-, súlfó-, nítró- eða nítrósóafleiður þeirra:
         – Maurasýra, sölt hennar og esterar:
    2915.1300     – – Esterar maurasýru     3,00 kr./kg
         – Esterar ediksýru:
    2915.3100     – – Etylacetat     3,00 kr./kg
    2915.3200     – – Vinylacetat     3,00 kr./kg
    2915.3300     – – n-Bútylacetat     3,00 kr./kg
    2915.3400     – – Ísóbútylacetat     3,00 kr./kg
    2915.3500     – – 2-Etoxyetylacetat     3,00 kr./kg
    2915.3900     – – Aðrir     3,00 kr./kg
     c.      Tollskrárnúmer 2912.4100, 2912.4200 og 2912.4900 falla brott.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka VI við lögin:
     a.      Í stað „105,00 kr./kg“ kemur hvarvetna: 130,00 kr./kg.
     b.      Heiti tollskrárnúmers 3814.0002 verður svohljóðandi: Málningar- eða lakkeyðar, merkingarskyldir vegna innihalds hættulegra efna.

7. gr.

    Í stað „1,30 kr./kg“ í viðauka VII við lögin kemur hvarvetna: 1,50 kr./kg.

8. gr.

    Í stað „17,00 kr./kg“ í viðauka VIII við lögin kemur hvarvetna: 20,00 kr./kg.

9. gr.

    Í stað „20,00 kr./kg“ í viðauka IX við lögin kemur hvarvetna: 34,00 kr./kg.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka XII við lögin:
     a.      Í stað „36,75 kr./kg“ kemur: 51,00 kr./kg.
     b.      Í stað „61,25 kr./kg“ kemur: 85,00 kr./kg.
     c.      Í stað „122,50 kr./kg“ kemur: 170,00 kr./kg.
     d.      Í stað „147,00 kr./kg“ kemur: 204,00 kr./kg.
     e.      Í stað „196,00 kr./kg“ kemur: 272,00 kr./kg.
     f.      Í stað „294,00 kr./kg“ kemur hvarvetna: 408,00 kr./kg.

11. gr.

    Við lögin bætist við nýr viðauki, viðauki XVII, sem orðast svo:

Veiðarfæri úr gerviefnum.

    Á veiðarfæri úr gerviefnum sem flokkast undir neðangreind tollskrárnúmer skal leggja úrvinnslugjald sem hér segir:
    Úr 39., 55. og 56. kafla tollskrárinnar:
Úr 3926          Aðrar vörur úr plasti og vörur úr efnum í nr. 3901–3914:
         – Annars:
    3926.9021     – – Netahringir     24,10 kr./kg
    3926.9022     – – Neta- og trollkúlur     24,10 kr./kg
    3926.9023     – – Vörur til veiðarfæra ót.a.     24,10 kr./kg
Úr 5509          Garn (þó ekki saumþráður) úr syntentískum stutttrefjum, ekki umbúið til smásölu:
         – Sem í er 85% eða meira að þyngd af stutttrefjum úr nyloni eða öðrum pólyamíðum:
         – – Einþráða garn:
    5509.1101     – – – Til veiðarfæragerðar     14,40 kr./kg
         – – Margþráða (snúið) eða kaðalbrugðið garn:
    5509.1201     – – – Til veiðarfæragerðar     14,40 kr./kg
         – Sem í er 85% eða meira að þyngd af pólyesterstutttrefjum:
         – – Einþráða garn:
    5509.2101     – – – Til veiðarfæragerðar     24,10 kr./kg
         – – Margþráða (snúið) eða kaðalbrugðið garn:
    5509.2201     – – – Til veiðarfæragerðar     24,10 kr./kg
         – Annað garn sem í er 85% eða meira að þyngd af syntetískum stutttrefjum:
         – – Einþráða garn:
    5509.4101     – – – Til veiðarfæragerðar     24,10 kr./kg
         – – Margþráða (snúið) eða kaðalbrugðið garn:
    5509.4201     – – – Til veiðarfæragerðar     24,10 kr./kg
Úr 5510          Garn (þó ekki saumþráður) úr gervistutttrefjum, ekki umbúið til smásölu:
         – Sem í er 85% eða meira að þyngd af gervistutttrefjum:
         – – Einþráða garn:
    5510.1101     – – – Til veiðarfæragerðar     24,10 kr./kg
         – – Margþráða (snúið) eða kaðalbrugðið garn:
    5510.1201     – – – Til veiðarfæragerðar     24,10 kr./kg
         – Annað garn:
    5510.9001     – – Til veiðarfæragerðar     24,10 kr./kg
Úr 5607          Seglgarn, snæri, reipi og kaðlar, einnig brugðið eða fléttað og einnig gegndreypt, húðað, hjúpað eða klætt með gúmmíi eða plasti:
         – Úr pólyetyleni eða pólyprópyleni:
         – – Annað:
    5607.4901     – – – Færi og línur til fiskveiða     24,10 kr./kg
    5607.4902     – – – Kaðlar     24,10 kr./kg
    5607.4903     – – – Einþáttungar til veiðarfæragerðar     24,10 kr./kg
         – Úr öðrum syntetískum trefjum:
    5607.5001     – – Færi og línur til fiskveiða     24,10 kr./kg
    5607.5003     – – Einþáttungar til veiðarfæragerðar     24,10 kr./kg
          – Annað:
    5607.9001     – – Færi og línur til fiskveiða     24,10 kr./kg
Úr 5608          Hnýtt net úr seglgarni, snæri eða reipi; uppsett fiskinet og önnur fullgerð net úr spunaefnum:
         – Úr tilbúnum spunaefnum:
         – – Fullgerð fiskinet:
    5608.1101     – – – Nætur     14,10 kr./kg
    5608.1102     – – – Flotvörpur     15,90 kr./kg
    5608.1103     – – – Rækjutroll     11,40 kr./kg
    5608.1104     – – – Aðrar botnvörpur     15,00 kr./kg
    5608.1105     – – – Önnur net     14,00 kr./kg
    5608.1109     – – – Annað     24,00 kr./kg
         – – Annað:
    5608.1901     – – – Fiskinetjaslöngur     14,40 kr./kg
    5608.1909     – – – Annars     24,10 kr./kg
Úr 5609          Vörur úr garni, ræmum eða þess háttar sem lýst er í nr. 5404 eða 5405, seglgarni, snæri, reipum eða köðlum, ót. a.:
    5609.0002     – Öngultaumar     24,10 kr./kg
    5609.0003     – Botnvörpuhlífar     24,10 kr./kg

12. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lög nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, öðluðust gildi 1. janúar 2003. Frá sama tíma tók Úrvinnslusjóður, sbr. IV. kafla laganna, til starfa og tók við verkefnum spilliefnanefndar samkvæmt lögum nr. 56/1996 sem þá voru felld niður. Úrvinnslusjóður fer með framkvæmd laga um úrvinnslugjald. Ljóst var strax í upphafi þegar frumvarp til laga um úrvinnslugjald var lagt fram að gjaldtaka samkvæmt lögunum yrði endurskoðuð reglulega og hvaða vörur skuli bera úrvinnslugjald, enda er gert ráð fyrir því í 2. mgr. 4. gr. laga um úrvinnslugjald. Þar er kveðið á um að umhverfisráðherra leggi fram, að fenginni tillögu stjórnar Úrvinnslusjóðs, tillögu til fjármálaráðherra um breytingar á fjárhæðum úrvinnslugjalds, álagningu skilagjalds og nýjar gjaldskyldar vörur og að fjármálaráðherra flytji frumvarp á Alþingi um fjárhæðir úrvinnslugjalds.
    Í frumvarpi þessu er lagðar til fjórar breytingar. Í fyrsta lagi eru gerðar breytingar vegna veiðarfæra þar sem bætt er við nýjum viðauka um veiðarfæri, viðauka XVII, og fjárhæðum vegna þessa vöruflokks, sbr. ákvæði til bráðabirgða III í lögunum og einnig lagt til að gjaldtöku verði frestað um eitt ár. Í ákvæði til bráðabirgða III í lögum um úrvinnslugjald er kveðið á um að leggja skuli úrvinnslugjald á veiðarfæri úr gerviefnum frá 1. janúar 2004. Lagt er til að gjaldtöku vegna veiðarfæra verði frestað um eitt ár enda hefur komið í ljós að lengri tíma þarf til að undirbúa framkvæmd þessarar gjaldtöku. Í öðru lagi er lögð til breyting á fjárhæðum úrvinnslugjalds á tiltekna vöruflokka. Upphæð úrvinnslugjalds var ákvörðuð með gildistöku frá 1. janúar 2003 og jafnvel fyrr hvað varðar vörur sem verða að spilliefnum. Óvissuþættir eru við rekstur hvers vöruflokks. Þannig getur innheimta vöruafganga verið mismikil milli ára og þarf nokkurra ára tímabil til að ná fram tölulegum upplýsingum um hlutfall innflutnings og skila. Að fenginni reynslu hefur stjórn Úrvinnslusjóðs því gert tillögu til umhverfisráðherra að breytingu úrvinnslugjalds í nokkrum vöruflokkum til þess að ná því markmiði laganna að hver uppgjörsflokkur standi undir sér og sé fjárhagslega sjálfstæður, sbr. ákvæði 3. og 4. gr. laga um úrvinnslugjald. Tillögur um breytingar á fjárhæðum úrvinnslugjalds eru grundvallaðar á þeirri meginreglu að ná jöfnuði í afkomu hvers vöruflokks á næstu fimm árum. Þá er í þriðja lagi gerð tillaga um að fella út tollskrárnúmer til gjaldtöku og bæta öðrum við. Loks er í fjórða lagi lagt til að álagningu úrvinnslugjalds á pappírs-, pappa- og plastumbúðir verði frestað enda krefst það töluverðs undirbúnings að hefja gjaldtöku á þessa vöruflokka, m.a. vegna þess hve víða pappírs-, pappa- og plastumbúðir koma fyrir í vöruframleiðslu og innflutningi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að bifreiðar sem undanþegnar eru bifreiðagjaldi skv. 4. gr. laganna beri úrvinnslugjald einu sinni á ári í stað tvisvar eins og er samkvæmt núgildandi lögum. Úrvinnslugjaldið verður óbreytt, eða 1.040 kr. á ári, en verður innheimt einu sinni á ári í stað tvisvar. Gjalddagi verður 1. júlí.
    Um innheimtu úrvinnslugjaldsins vegna umræddra ökutækja sem undanþegin eru bifreiðagjaldi fer að öðru leyti eftir ákvæðum 1. mgr. 5. gr. laganna.

Um 2. gr.

    Þegar frumvarp til laga um úrvinnslugjald var til meðferðar á Alþingi lagði meiri hluti umhverfisnefndar til að veiðarfæri úr gerviefnum yrði einn af þeim vöruflokkum sem bæru úrvinnslugjald, sbr. ákvæði til bráðabirgða III í lögunum. Því er lagt til að við 1. mgr. 8. gr. laganna verði bætt við nýjum tölulið um veiðarfæri úr gerviefnum, sbr. nánar viðauka XVII.

Um 3. gr.

    Gerð er tillaga um að breyta ákvæði til bráðabirgða III samkvæmt tillögu stjórnar Úrvinnslusjóðs í þá veru að fresta því til 1. janúar 2005 að leggja úrvinnslugjald á veiðarfæri þannig að tími vinnist til að undirbúa framkvæmdina. Nokkur rök liggja að baki þessarar tillögu. Fordæmi er fyrir slíkum fresti vegna álagningar úrvinnslugjalds á heyrúlluplast, sbr. núgildandi ákvæði til bráðabirgða III. Nauðsynlegt er að hafa lengri aðdraganda að álagningu þar sem nætur og hugsanlega fleiri veiðarfæri eru gjarnan boðin út með nokkrum fyrirvara og því viðbúið að þau séu í vinnslu og þurfi að greiða af þeim úrvinnslugjald án þess að tekið hafi verið tillit til þess í tilboði. Þá er hægt að skoða nánar hvernig best er að standa að endurgreiðslu vegna útflutnings og kanna leiðir til að einfalda innheimtu á innlenda framleiðslu eins og gert er t.d. með innheimtu á samsettar pappaumbúðir fyrir drykkjarvörur. Þá þarf einnig að kanna leiðir til að tryggja samkeppnisaðstöðu innlendra framleiðenda vegna veiðarfæra sem tekin eru beint í skip þegar þau eru keypt erlendis og notuð áður en komið er með þau að landi hér. Þá er erfitt fyrir innheimtumenn ríkissjóðs að sannreyna hvort þau eru ný eða ekki og leggja á þau úrvinnslugjald. Þá er lagt til að fresta jafnframt álagningu úrvinnslugjalds á pappírs-, pappa- og plastumbúðir um óákveðinn tíma enda krefst það töluverðs undirbúnings að hefja gjaldtöku á þessa vöruflokka vegna þess hve víða þeir koma fyrir í vöruframleiðslu og innflutningi. Nú er unnið að því hjá Úrvinnslusjóði að undirbúa álagningu á þessa vöruflokka og er fyrirhugað að leggja fram frumvarp um það við fyrsta tækifæri.

Um 4. gr.

    Gerð er tillaga um að úrvinnslugjald á olíuvörur í viðauka IV, aðrar en þær sem falla undir tollskrárnúmer 2710.1920, hækki um 26% eða úr 11,50 kr./kg í 14,50 kr./kg. Tillaga þessi er gerð vegna aukins tilkostnaðar af endurnýjuðum samningi við verktaka sem sér um mestan hluta olíuúrgangsins.

Um 5. gr.

    Annars vegar er gerð tillaga um að tollskrárnúmer 2912.4100, 2912.4200 og 2912.4900 í viðauka V við lögin falli brott þar sem um er að ræða vörur þar sem afgangar þeirra verða ekki að spilliefnum og því ekki í samræmi við gildissvið og markmið laganna að leggja úrvinnslugjald á þær.
    Hins vegar er gerð tillaga um að við viðauka V, sem fjallar um lífræn leysiefni, bætist tiltekin tollskrárnúmer.

Um 6. gr.

    Málningar- og lakkeyðar sem flokkast undir tollskrárnúmer 3814.0002 hafa innihaldið efni sem verða að spilliefnum. Nú eru einnig komnir á markað málningar- og lakkeyðar sem innihalda ekki slík efni. Til að stuðla að notkun þeirra er gerð tillaga um að þau beri ekki úrvinnslugjald og tollskrárnúmerinu verði skipt upp. Því þarf að breyta texta við framangreint tollskrárnúmer og tiltaka að um sé að ræða málningar- eða lakkeyða sem eru merkingarskyldir vegna innihalds hættulegra efna.
    Þá er í greininni gerð tillaga um að úrvinnslugjald á halógeneruð efnasambönd í viðauka VI hækki um 24%, eða úr 105,00 kr./kg í 130,00 kr./kg. Tillaga þessi er gerð vegna aukinna skila vöruafganga en einnig vegna hækkunar tilkostnaðar.

Um 7. gr.

    Gerð er tillaga um að úrvinnslugjald á ísócyanöt og polyúretön í viðauka VII hækki um 15% eða úr 1,30 kr./kg í 1,50 kr./kg. Tillaga þessi er fyrst og fremst gerð vegna aukinna skila vöruafganga.

Um 8. gr.

    Gerð er tillaga um að úrvinnslugjald á málningu í viðauka VIII hækki um 18% eða úr 17,00 kr./kg í 20,00 kr./kg. Tillaga um hækkun úrvinnslugjalds á málningu er til komin af þremur meginástæðum. Skil vöruafganga jukust mjög á fyrri árum. Þetta leiddi til viðvarandi hallareksturs á uppgjörsflokknum í tíð spilliefnanefndar sem ekki hefur náðst að vinna upp. Skil hafa nú verið nokkuð stöðug sl. 3–4 ár en tekjur af innflutningi á olíumálningu hafa verið verulega minni sl. 2–3 ár en þær voru fyrstu þrjú árin. Tekjur af innlendri framleiðslu hafa hins vegar ekki dregist saman.

Um 9. gr.

    Í greininni er gerð tillaga um að úrvinnslugjald á prentliti í viðauka IX hækki um 70% eða úr 20,00 kr./kg í 34,00 kr./kg. Tillaga þessi er gerð vegna hallareksturs þessara vöruflokka á fyrri árum.

Um 10. gr.

    Í greininni er gerð tillaga um að úrvinnslugjald á vörur í ljósmyndaiðnaði í viðauka XII hækki um 39%. Tillaga þessi er gerð vegna þess að tekjur af þessum vöruflokki hafa minnkað með tilkomu stafrænnar tækni við prentun en skil vöruafganga hafa ekki minnkað að sama skapi.

Um 11. gr.

    Gerð er tillaga um að við lögin bætist nýr viðauki, viðauki XVII, sem fjallar um veiðarfæri úr gerviefnum, sbr. nánar 2. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.

    Gerð er tillaga um að lögin öðlist gildi 1. janúar 2004. Til að skapa festu í starfsemi Úrvinnslusjóðs er rétt að miða að því að breytingar á fjárhæðum úrvinnslugjalds komi til framkvæmda um áramót, þ.e. að það verði meginregla þótt frá því verði að bregða í sérstökum tilvikum, t.d. með tilkomu nýrra vöruflokka.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 162/2002,
um úrvinnslugjald, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á álagningu úrvinnslugjalds.
    Í 1. gr. er lagt til að gjaldatímabil úrvinnslugjalds af þeim bifreiðum sem eru undanþegnar bifreiðagjaldi verði heilt ár í senn í stað tveggja hálfs árs tímabila.
    Í 3. gr. er lagt til að frestað verði um eitt ár að leggja úrvinnslugjald á veiðarfæri úr gerviefnum auk þess sem frestað er ótímabundið upptöku úrvinnslugjalds á pappírs-, pappa- og plastumbúðir, en samkvæmt gildandi lögum skal leggja úrvinnslugjald á hvort tveggja frá 1. janúar 2004. Kostnaður við úrvinnslu veiðarfæranna er áætlaður 30 m.kr. á ári og áætlað er að kostnaður við úrvinnslu umbúðanna geti orðið um 320 m.kr. á ári en hér er um að ræða umfangsmikinn vöruflokk og áætlunin nokkurri óvissu háð.
    Í 4.–10. gr. eru lagðar til ýmsar breytingar á gjaldstofnum og fjárhæð úrvinnslugjalds á tiltekna vöruflokka sem teljast til spilliefna. Hér er um að ræða breytingar, sbr. ákvæði 4. gr. laganna, um að hver uppgjörsflokkur standi undir sér og sé fjárhagslega sjálfstæður. Áætlað er að tekjur af úrvinnslugjaldi hækki um tæpar 33 m.kr. á ári við þessar breytingar.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum má ætla að tekjur af úrvinnslugjaldi á spilliefni hækki um tæpar 33 m.kr. á ári frá því sem þær annars hefðu orðið. Á móti kemur að áætluð 30 m.kr. álagning á veiðarfæri frestast um eitt ár og áætluð 320 m.kr. álagning á umbúðir frestast ótímabundið.
    Áhrifin hjá ríkissjóði eru helst þau að á meðan frestað er upptöku úrvinnslugjalds á umbúðirnar er líklegt að á móti minni umsýslukostnaði verði árlegar tekjur ríkissjóðs af 0,5% umsýslugjaldi um 1,6 m.kr. lægri en þær hefðu orðið að óbreyttum lögum.