Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 401. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 539  —  401. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Í stað orðsins ,,tryggingayfirlæknir“ í 7. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna kemur (í viðeigandi beygingarfalli): trúnaðarlæknir sjóðsins.

2. gr.

    1. og 2. mgr. 17. gr. laganna verða svohljóðandi:
    Hjúkrunarfræðingar, sem starfa við hjúkrun og áttu aðild að sjóðnum við árslok 1996, skulu eiga rétt til aðildar að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga á meðan þeir gegna störfum hjá ríki eða sveitarfélögum, eða stofnun sem alfarið er í þeirra eigu, enda séu þeir ráðnir með föst mánaðarlaun.
    Launagreiðendur, sem fengið höfðu heimild fyrir árslok 2003 til að greiða iðgjald til sjóðsins fyrir starfsmenn sína, hafa áfram sömu heimild til að greiða iðgjald fyrir þá starfsmenn sína og aðra sjóðfélaga sem uppfylla skilyrði 1. mgr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er annars vegar lagt til að fellt verði niður ákvæði um að tryggingayfirlæknir Tryggingastofnunar ríkisins meti orkutap sjóðfélaga Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga og hins vegar að ákvæðum um skilyrði til aðildar að sjóðnum verði breytt.
    Vegna breyttra aðstæðna hjá Tryggingastofnun ríkisins hefur stofnunin óskað eftir því að fellt verði niður ákvæði í lögunum um að tryggingayfirlæknar stofnunarinnar meti orkutap sjóðfélaga sjóðsins. Með frumvarpinu er lagt til að í stað tryggingayfirlækna Tryggingastofnunar ríkisins muni trúnaðarlæknir sjóðsins annast matið. Er það í samræmi við þá framkvæmd er tíðkast meðal annarra lífeyrissjóða.
    Þá er í frumvarpinu lagt til að ákvæðum 1. og 2. mgr. 17. gr. laganna um aðildarskilyrði að sjóðnum verði breytt. Samkvæmt gildandi lögum skulu allir hjúkrunarfræðingar, sem áttu aðild að sjóðnum við árslok 1996 og vinna hjúkrunarstörf í þjónustu ríkis, bæjar- og sveitarfélaga eða annarra opinberra stofnana eða við heilbrigðisstofnanir sem eru viðurkenndar af heilbrigðisstjórninni, eiga rétt til aðildar að sjóðnum. Þá hafa enn fremur aðrir hjúkrunarfræðingar sem áttu aðild að sjóðnum við árslok 1996 á meðan þeir starfa að hjúkrun heimild til aðildar, svo og þeir hjúkrunarfræðingar er starfa að félagsmálum á vegum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
    Framangreind ákvæði um aðild að sjóðnum hafa á undanförnum misserum ekki þótt nægilega skýr. Þannig hefur komið upp ágreiningur um hvort aðrir en þeir sem starfa á vegum ríkis eða sveitarfélaga eigi rétt á aðild að sjóðnum. Hefur einkum verið litið til ákvæða um bakábyrgð ríkisins á ábyrgðarskuldbindingu launagreiðenda í því sambandi.
    Til að taka af öll tvímæli um skilyrði til aðildar að sjóðnum er með frumvarpi þessu lögð til breyting á 1. og 2. mgr. 17. gr. Samkvæmt frumvarpinu skulu hjúkrunarfræðingar, sem starfa við hjúkrun og áttu aðild að sjóðnum við árslok 1996, eiga rétt til aðildar að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga á meðan þeir gegna störfum hjá ríki eða sveitarfélögum, eða stofnun sem alfarið er í þeirra eigu, enda séu þeir ráðnir með föst mánaðarlaun. Þá er lagt til að launagreiðendur, sem fengið höfðu heimild fyrir árslok 2003 til að greiða iðgjald til sjóðsins fyrir starfsmenn sína, hafi áfram sömu heimild til að greiða iðgjald fyrir þá starfsmenn sína og aðra sjóðfélaga sem uppfylla skilyrði 1. mgr.
    Framangreind tillaga er í samræmi við þá breytingu sem gerð var á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og sjóðfélaga í B-deild sjóðsins sem tók gildi 1. maí 1997. Þannig var B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins alfarið lokað fyrir öðrum launagreiðendum en þeim sem höfðu fengið heimild sjóðsins fyrir árslok 1996. Ekkert sambærilegt ákvæði var hins vegar sett í lögin um Lífeyrissjóð hjúkrunafræðinga.
    Samkvæmt 18. gr. laganna um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga ábyrgjast ríkissjóður og aðrir aðilar, sem tryggja hjúkrunarfræðinga í sjóðnum, hver fyrir sinn hóp, greiðslur úr sjóðnum. Samkvæmt sömu grein er ríkissjóður hins vegar bakábyrgur reynist sá aðili sem tryggt hefur hjúkrunarfræðinga í sjóðnum ekki fær um að standa við ábyrgðarskuldbindingu sína. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laganna skal ríkissjóður og aðrir launagreiðendur, sem tryggja starfsmenn sína í sjóðnum, endurgreiða sjóðnum hækkun á lífeyrisgreiðslum vegna almennra launahækkana.
    Með vísan til framangreinds er með frumvarpi þessu lagt til að eftirleiðis verði sjóðurinn aðeins opinn fyrir hjúkrunarfræðingum sem starfa á vegum opinberra stofnana, þ.e. hjá stofnunum sem eru alfarið í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Áfram gilda þau skilyrði að viðkomandi sjóðfélagi starfi við hjúkrun, hafi greitt iðgjald til sjóðsins við árslok 1996 og sé ráðinn með föst mánaðarlaun.
    Þá gerir frumvarpið ráð fyrir því að launagreiðendur, sem hafa fengið heimild sjóðsins fyrir árslok 2003, án þess að vera í eigu opinberra aðila, hafi áfram rétt til að greiða iðgjald til sjóðsins fyrir starfsmenn sína og aðra sjóðfélaga sem uppfylla skilyrði 1. mgr. 17. gr. laganna. Í þessu felst að frá og með 1. janúar 2004 geta launagreiðendur, sem ekki eru að fullu í eigu ríkis eða sveitarfélags og höfðu ekki fengið heimild til að greiða til sjóðsins fyrir starfsmenn sína fyrir árslok 2003, ekki óskað eftir því að greiða iðgjöld til sjóðsins fyrir starfsmenn sína.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að í stað tryggingayfirlæknis muni trúnaðarlæknir sjóðsins annast mat á orkutapi sjóðfélaga. Um nánari umfjöllun sjá skýringar hér að framan.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er lagt til að ákvæðum um heimild til aðildar að sjóðnum verði breytt á þann veg að framvegis verði sjóðurinn opinn hjúkrunarfræðingum, sem starfa við hjúkrun og greiddu iðgjald til sjóðsins við árslok 1996, á meðan þeir gegna störfum hjá ríki eða sveitarfélögum, eða stofnun sem sé alfarið í þeirra eigu, enda séu þeir ráðnir með föst mánaðarlaun. Samkvæmt 2. mgr. er lagt til að launagreiðendur, sem fengið höfðu heimild fyrir árslok 2003 til að greiða iðgjald til sjóðsins fyrir starfsmenn sína, hafi áfram sömu heimild til að greiða iðgjald fyrir þá starfsmenn sína og aðra sjóðfélaga sem uppfylla skilyrði 1. mgr.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 2/1997,
um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta er tvíþætt. Í fyrsta lagi er lagt til að felld verði niður ákvæði um að tryggingayfirlæknir Tryggingastofnunar meti orkutap sjóðfélaga Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga. Matið verði falið trúnaðarlækni sjóðsins eins og tíðkast hjá öðrum lífeyrissjóðum. Ekki er gert ráð fyrir að breytt tilhögun matsins að þessu leyti hafi umtalsverð áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Í öðru lagi er lagt til að ákvæði um aðildarskilyrði að sjóðnum verði breytt á þá leið að frá og með 1. janúar 2004 geti launagreiðendur, sem ekki eru að fullu í eigu ríkis eða sveitarfélags og höfðu ekki fengið heimild til að greiða til sjóðsins fyrir starfsmenn sína fyrir árslok 2003, ekki óskað eftir því að greiða iðgjöld til sjóðsins fyrir starfsmenn sína. Þetta felur t.d. í sér að hjúkrunarfræðingar sem starfa hjá einkareknum hjúkrunarheimilum og læknastofum munu ekki fá aðild að sjóðnum, enda óeðlilegt að ríkissjóður taki almennt á sig bakábyrgð á lífeyrisskuldbindingum gagnvart öðrum en opinberum aðilum. Með frumvarpinu er kveðið skýrar á um að lífeyrissjóðurinn taki ekki á sig nýjar skuldbindingar með bakábyrgð ríkissjóðs fyrir aðra en opinbera aðila en ekki er unnt að segja fyrir um í hvaða mæli annars mundi reyna á slíka ábyrgð.