Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 411. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 559  —  411. mál.
Frumvarp til lagaum starfsmenn í hlutastörfum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að koma í veg fyrir að starfsmenn í hlutastörfum sæti mismunun og stuðla að auknum gæðum slíkra starfa, einnig að greiða fyrir því að starfsmenn eigi völ á hlutastörfum og sveigjanlegri tilhögun vinnutíma þannig að tekið sé tillit til þarfa bæði atvinnurekanda og starfsmanna.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til starfsmanna sem ekki eru með kjarasamningum tryggð þau lágmarksréttindi sem svara til efnisákvæða tilskipunar 97/81/EB, um rammasamning um hlutastörf.
    Lögin hafa ekki áhrif á efni kjarasamninga sem gerðir eru til að innleiða efni tilskipunarinnar að því tilskyldu að í þeim felist ekki lakari réttur en felst í tilskipuninni, sbr. 1. mgr.
    Ákvæði laga þessara taka ekki til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga, sem á grundvelli hlutlægra ástæðna fá greitt tímavinnukaup, enda byggist sú undanþága á kjarasamningi, ákvörðun stjórnvalds eða venju í slíkum tilvikum. Aðilum vinnumarkaðarins ber að endurskoða reglulega hvort þær hlutlægu ástæður sem lagðar eru til grundvallar undantekningunum séu enn í gildi.
    Ákvæði laganna taka ekki til þeirra sem stunda störf á grundvelli grunnnáms og námssamninga eða ráðningarsambands sem er liður í þjálfunar-, aðlögunar- eða endurmenntunaráætlun sem nýtur stuðnings opinberra aðila.

3. gr.
Skýring hugtaka.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     a.      Starfsmaður telst í hlutastarfi ef venjulegur vinnutími hans á viku eða að meðaltali miðað við heilt ár er styttri en sambærilegs starfsmanns í fullu starfi.
     b.      Sambærilegur starfsmaður, sbr. a-lið, er starfsmaður sem gegnir fullu starfi hjá sama fyrirtæki eða stofnun og starfsmaður í hlutastarfi og vinnur sama eða sambærilegt starf að teknu tilliti til annarra áhrifaþátta, svo sem kunnáttu og hæfni. Þegar ekki er sambærilegur starfsmaður í fullu starfi hjá sama fyrirtæki eða stofnun skal samanburður gerður með vísan til viðeigandi kjarasamnings en þar sem slíkur samningur er ekki fyrir hendi með vísan til gildandi laga, annarra kjarasamninga eða venju.

4. gr.
Réttindi og skyldur.

    Starfsmenn í hlutastörfum skulu ekki njóta hlutfallslega lakari kjara eða sæta lakari meðferð en sambærilegir starfsmenn í fullu starfi af þeirri ástæðu einni að þeir eru ekki í fullu starfi, nema slíkt sé réttlætanlegt á grundvelli hlutlægra ástæðna.
    Atvinnurekendur skulu svo sem kostur er leitast við að:
     a.      taka tillit til óska starfsmanns um að flytjast úr fullu starfi í hlutastarf eða úr hlutastarfi í fullt starf,
     b.      taka tillit til óska starfsmannsins um að auka eða minnka starfshlutfall sitt, skapist svigrúm til þess,
     c.      auðvelda aðgang að hlutastörfum á öllum sviðum fyrirtækisins eða stofnunarinnar, þar á meðal að sérhæfðum störfum og stjórnunarstörfum,
     d.      veita tímanlega upplýsingar um störf sem losna á vinnustaðnum, þar með talin hlutastörf, til að auðvelda flutning úr hlutastarfi í fullt starf og öfugt,
     e.      greiða fyrir aðgangi hlutavinnufólks að starfsmenntun og starfsþjálfun, m.a. í því skyni að það geti aukið hæfni sína og til að stuðla að starfsframa og hreyfanleika í starfi, og
     f.      veita trúnaðarmönnum starfsmanna upplýsingar um hlutastörf á vinnustað.
    Það telst ekki eitt og sér gild ástæða uppsagnar að starfsmaður neiti að fara úr fullu starfi í hlutastarf eða öfugt. Uppsögn telst þó ekki andstæð lögum þessum ef hún er í samræmi við lög, kjarasamninga eða venju og stafar af öðrum ástæðum, svo sem rekstrarþörfum viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar.

5. gr.
Réttur til skaðabóta.

    Brjóti atvinnurekandi gegn ákvæðum laga þessara varðar það skaðabótum.

6. gr.
Innleiðing á tilskipun.

    Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun ráðsins 97/81/EB, um rammasamninginn um hlutastörf sem Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC), Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE) og Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) hafa gert, sem vísað er til í 31. lið í XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 104/1998.

7. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram til innleiðingar á tilskipun ráðsins 97/81/EB, frá 15. desember 1997, um rammasamninginn um hlutastörf sem Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC), Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE) og Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) hafa gert. Sameiginlega EES-nefndin samþykkti að fella tilskipun þessa undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. ákvörðun nefndarinnar nr. 104/1998.
    Í inngangsorðum rammasamningsins kemur fram að hann sé framlag til skipulags atvinnumála í Evrópu. Þar eru settar fram almennar meginreglur og lágmarkskröfur er varða hlutastörf. Í samningnum komi fram vilji aðila vinnumarkaðarins til að setja almennan ramma í því skyni að uppræta mismunun gagnvart launþegum í hlutastörfum og til að auka möguleika á hlutastörfum á forsendum sem eru viðunandi bæði fyrir vinnuveitendur og launþega. Með samningnum sé einnig viðurkennt að aðstæður í aðildarríkjunum séu misjafnar. Tilgangur rammasamningsins er einnig að stuðla að sveigjanlegri skipulagningu vinnutíma. Meginsjónarmiðið er að hlutavinnufólk sæti ekki lakari meðhöndlun en þeir sem eru í fullu starfi nema mismunun verði réttlætt á grundvelli hlutlægra ástæðna.
    Aðildarríkjunum er heimilt skv. 2. gr. tilskipunarinnar að fela samtökum aðila vinnumarkaðarins að semja um efni rammasamningsins í stað þess að kveða á um efni hans með lögum eða stjórnsýslufyrirmælum. Félagsmálaráðuneytið fór þess á leit við samtök vinnumarkaðarins með bréfi, dags. 19. mars 2000, að þau tækju samninga sína til endurskoðunar með tilliti til efnis rammasamningsins um hlutastörf. Lögð var áhersla á að kannað væri hvort gildandi samningar geymdu ákvæði sem mismunuðu þeim sem stunda hlutastörf. Markmiðið væri að afnema slík ákvæði í samræmi við tilskipun 97/81/EB.
    Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) hófu viðræður sín á milli um það að hrinda í framkvæmd efni tilskipunarinnar um hlutastörf. Samningaviðræðunum lauk með undirritun kjarasamnings 13. nóvember 2002.
    Með bréfi félagsmálaráðuneytisins, dags. 21. nóvember 2002, vakti ráðuneytið athygli á því að til þess að tilskipunin um hlutastörf teldist innleidd á fullnægjandi hátt hér á landi þyrftu einnig að koma til samningar um efni hennar sem tækju til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga.
    Félagsmálaráðherra barst greinargerð frá fjármálaráðuneytinu, dags. 5. júní 2003. Í henni er gerð grein fyrir viðræðum fulltrúa fjármálaráðherra, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga við fulltrúa Bandalags háskólamanna (BHM), Kennarasambands Íslands (KÍ), Bandalags starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) og ASÍ um innleiðingu á efni framangreindrar gerðar með kjarasamningum. Í greinargerðinni kemur meðal annars fram að á fundi 9. desember 2002 hafi verið til umfjöllunar drög að heildarsamningi á milli ASÍ, BSRB og KÍ annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga hins vegar. Byggðust þau á áðurnefndum samningi ASÍ og SA. Ekki tókst samkomulag milli aðila um þessi drög. Samningaviðræður milli þessara aðila hafa ekki leitt til niðurstöðu.
    Samkvæmt áðurnefndri greinargerð fjármálaráðuneytisins strönduðu viðræður einkum á gildissviði væntanlegs samnings, þ.e. hvaða hlutastörf samkvæmt tilskipuninni skyldu undanþegin, sbr. heimild í 2. tölul. 2. gr. rammasamningsins. Í henni er bent á að með tilskipun 97/81/EB, um hlutastörf, sé fest í sessi regla um jafna meðhöndlun þeirra sem ráðnir eru í hlutastörf og þeirra sem eru í fullu starfi. Vakin er athygli á því að í inngangsorðum rammasamningsins segir að með samningnum sé viðurkennt að aðstæður í aðildarríkjunum séu misjafnar og að hlutastörf séu sérstakur þáttur á sumum sviðum tiltekinnar starfsemi og enn fremur séu í samningnum settar fram almennar meginreglur og lágmarksreglur er varða hlutastörf. Í greinargerðinni er tekið fram að samningsaðilar hafi ekki deilt um framangreind sjónarmið.
    Í greinargerð fjármálaráðuneytisins er lögð áhersla á að heimildin í 2. tölul. í 2. ákvæði rammasamningsins um undanþágur frá gildissviði samningsins leiði til þess að samningsaðilum sé mögulegt að taka mið af hefðum í löggjöf og kjarasamningum í hverju landi fyrir sig, m.a. með því að undanskilja þá launþega sem eru „lausráðnir í hlutastörf“ (e. on casual basis), enda byggist slíkt á hlutlægum og málefnalegum ástæðum. Löng hefð sé fyrir því í kjarasamningum opinberra starfsmanna að greina á milli þeirra sem ráðnir eru í tímavinnu og annarra sem fá mánaðarlaun. Eitt megineinkenni slíks ráðningarfyrirkomulags er að hinir fyrrnefndu eru yfirleitt ekki taldir í föstu ráðningarsambandi og skyldur þeirra því ekki sambærilegar því sem gerist almennt hjá mánaðarkaupsfólki. Þá er bent á að tímakaup í dagvinnu sé almennt hlutfallslega hærra en hjá þeim sem ráðnir eru á mánaðarlaun. Í kjarasamningum opinberra starfsmanna séu taldar upp þær hlutlægu ástæður sem heimila ráðningu tímakaupsmanna. Sambærileg ákvæði finnast einnig í kjarasamningum Launanefndar sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar annars vegar og aðildarfélaga ASÍ hins vegar, en þó sjaldnast í kjarasamningum fjármálaráðherra f.h. ríkisjóðs og aðildarfélaga ASÍ.
    Einnig kemur fram í áðurnefndri greinargerð að af hálfu fulltrúa fjármálaráðherra, Launanefndar sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar hafi verið lagt til á fundi aðila 31. mars 2003 að byggt yrði á því að tímakaupsfólk væri undanskilið gildissviði samningsins enda gert ráð fyrir slíku ráðningarfyrirkomulagi á grundvelli hlutlægra ástæðna í viðkomandi kjarasamningi. Jafnframt hafi verið lagt til að samningsaðilar endurmætu heimildir kjarasamninga til greiðslu tímakaups til þess að ganga úr skugga um að hlutlægar ástæður byggju þar að baki. Með þessu fyrirkomulagi yrði tryggt að ekki væri farið gegn gildandi kjarasamningum aðila og að ráðrúm gæfist til að endurmeta og skýra nánar eftir atvikum þær hlutlægu ástæður sem heimiluðu ráðningu tímakaupsfólks. Í greinargerð fjármálaráðuneytisins kemur fram að fulltrúar opinberra vinnuveitenda hafa haldið því fram í samningaviðræðunum að unnt sé að undanskilja þá launþega sem eru tímakaupsráðnir með málefnalegum rökum. Heimild sé til þess er í tilskipuninni sjálfri, sbr. 2. tölul. í 2. ákvæði rammasamningsins, og heimildin hafi verið nýtt í öðrum Evrópulöndum, til dæmis í Danmörku. Undanþágan sé því ekki andstæð Evrópurétti eða íslenskum réttarreglum og hafi ekki áhrif á markmið tilskipunarinnar sjálfrar. Tilskipunin felur ekki í sér bein réttaráhrif varðandi niðurfellingu tímakaupsráðningarforms. Markmið tilskipunarinnar sé að ekki eigi að mismuna launþegum í hlutastarfi og launþegum sem er í fullu starfi og stuðla eigi að þróun hlutastarfa, þannig að tekið sé tillit til þarfa vinnuveitenda og launþega. Þessi túlkun endurspeglist í kjarasamningum starfsmanna ríkis og sveitarfélaga í Danmörku, en þar eru lausráðnir starfsmenn eða tímakaupsráðnir undanskildir gildissviði tilskipunarinnar.
    Félagsmálaráðuneytinu barst bréf, dags. 28. maí 2003, frá ASÍ þar sem kynnt eru sjónarmið BSRB, BHM og KÍ, varðandi framangreind atriði sem voru þess valdandi að ekki tókst með kjarasamningi að láta réttindi sem felast í tilskipun ESB um hlutastörf ná til starfsmanna í þjónustu ríkisins og sveitarfélaganna. Í bréfinu kemur fram að fulltrúar ríkis og sveitarfélaga hafi lagt til að allt launafólk hjá hinu opinbera sem ráðið er í svokallaða tímavinnu verði undanþegið ákvæðum kjarasamningsins. Þetta hafi ASÍ ekki getað fallist á. Ástæðan sé sú að samkvæmt nokkrum kjarasamningum er heimilt að ráða félagsmenn aðildarfélaga ASÍ í störf hjá hinu opinbera í tímavinnu. Dæmi um þetta er ráðning til að leysa afmörkuð verkefni eða ef starfshlutfall er þriðjungur eða minna. Starfmenn sem þannig eru ráðnir fá réttarstöðu sem hlutavinnufólk samkvæmt gildandi kjarasamningum, ýmist í tímabundinni ráðningu eða ótímabundinni. Í bréfinu leggur ASÍ áherslu á að undanþágur af þessum toga, a.m.k. að því er varðar hinn almenna vinnumarkað, séu ekki heimilar samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar um hlutastörf. Það fæli í sér skerðingu réttinda samkvæmt gildandi kjarasamningum sem gengur gegn markmiði tilskipunarinnar. Í bréfinu er upplýst að SA hafi farið þess á leit að svipuð undanþága kæmi inn í kjarasamning ASÍ og SA um innleiðingu tilskipunarinnar á almennum vinnumarkaði. Þessir aðilar undirrituðu kjarasamning án slíkrar undanþágu.
    Af framangreindu má ljóst vera að ólíkur skilningur aðila á orðalagi í 2. tölul. í 2. ákvæði í evrópska rammasamningnum hefur valdið mestu um það hversu samningaviðræður hafa reynst torveldar. Í nefndu ákvæði er aðildarríkjum EES heimilað að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins og í samræmi við landslög, kjarasamninga eða venjur, og/eða aðilum vinnumarkaðarins á viðeigandi vettvangi og í samræmi við venjur í samskiptum aðila vinnumarkaðarins í hverju ríki, að undanskilja af hlutlægum orsökum, að öllu leyti eða að hluta til, frá skilmálum samningsins, launafólk sem er lausráðið í hlutastörfum. Slíkar undantekningar skal endurskoða reglulega til að ganga úr skugga um að hlutlægu orsakirnar sem liggja þeim til grundvallar séu enn í gildi. Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til lausn á þessu ágreiningsefni sem vænst er að aðilar geti búið við og sé í samræmi við ákvæði í þegar gerðum kjarasamningum.
    Þess skal getið að frá ASÍ kom rökstutt álit þess efnis að 2. gr. 2. tölul. rammasamningsins um hlutastörf heimili ekki að undanskilja allt fólk sem vinni á grundvelli kjarasamninga sem „tímavinnustarfsmenn“. Í 2. gr. 2. tölul. rammasamningsins segi að aðilar geti af hlutlægum ástæðum undanskilið „part-time workers who work on a casual basis“. Í samningaviðræðunum á Evrópuvettvangi hafi á sínum tíma ekki tekist að ná fram skilgreiningu á því við hvað væri átt með „casual“ en þó ljóst að „casual“ verði einungis notað um stutta, bráðabirgða/tímabundna (e. temporary) samninga sem ekki séu endurnýjaðir. Tímavinnufólk geti ekki talist vinna „on casual basis“ jafnvel þó starfshlutfall þeirra sé lágt. Að mati ASÍ heimili 2. gr. 2. tölul. rammasamningsins því ekki þá almennu og víðtæku undanþágu frá rammasamningnum og tilskipuninni að undanskilja frá vernd hennar alla sem vinni á grundvelli kjarasamninga sem „tímavinnustarfsmenn“. Að mati ASÍ geti undanþáguheimildin einungis átt við um þann hóp launafólks sem stofni yfir ákveðið tímabil til skammtíma ráðningarsambands við fleiri en einn atvinnurekanda, auk þess sem það ræður sig í mjög lágt starfshlutfall. Í slíkum tilvikum sé síður ástæða til að leggja sérstakar skyldur á atvinnurekendur en þegar um sé að ræða hlutavinnustarfsmenn sem vinni „reglulega“ hjá sama atvinnurekanda, þó að reiknað starfshlutfall geti verið hvort tveggja lágt og breytilegt milli tímabila.
    Alþýðusamband Íslands bendir á að 4. gr. rammasamningsins geymi nokkrar heimildir til takmörkunar á gildissviði varðandi jafna meðferð. Í fyrsta lagi í 1. tölul. 4. gr. þar sem segi að „mismuna“ megi hlutavinnustarfsmönnum í starfskjörum ef það er réttlætt með hlutlægum ástæðum en hins vegar heimili 1. tölul. 4. gr. ekki að undanskilja alla sem vinni á grundvelli kjarasamninga sem „tímavinnustarfsmenn“. Í öðru lagi heimili 4. tölul. 4. gr. að skilyrða aðgang að tilteknum starfskjörum eftir lengd þjónustu, vinnutíma eða tekjumörkum. Þetta ákvæði feli ekki í sér heimild til beinnar mismununar en heimili öllu fremur aðra meðferð en ella þó svo að í því geti falist tímabundin mismunun þar til sérstök skilyrði séu uppfyllt. Allar slíkar undanþágur beri hins vegar að endurskoða reglulega eins og segi í 4. tölul. 4. gr. enda er meginreglan sú að ekki skuli mismuna. Því heimili 4. tölul. 4. gr. rammasamningsins ekki heldur að undanskildir séu allir sem vinni á grundvelli kjarasamninga sem „tímavinnustarfsmenn“.
    ASÍ vakti einnig athygli á að efnislegan rökstuðning skorti fyrir notkun undanþáguheimildarinnar. Ljóst væri að sambærilegir starfsmenn væru bornir saman og því væri tímavinnustarfsmaður í fullu starfi borinn saman við tímavinnustarfsmann í hlutastarfi. Undanþágan eins og hún væri sett fram í frumvarpinu heimilaði hins vegar mismunun milli þeirra en það væri í andstöðu við megintilgang rammasamningsins og tilskipunarinnar.
    Að lokum vakti ASÍ athygli á að undanþáguheimild 2. tölul. 2. gr. rammasamningsins heimili einungis að undanskilja „starfsmenn í hlutavinnu“ sem vinni af og til eins og skýrt komi fram í ákvæðinu, þ.e. „part-time workers…“. Frumvarpið geri hins vegar ráð fyrir því að tímavinnustarfsmenn í fullu starfi njóti til dæmis ekki réttinda skv. 4. gr., t.d. hvað varðar minna starfshlutfall.
    Íslenskum stjórnvöldum hefur borist rökstutt álit Eftirlitsstofnunar EFTA, dags. 7. febrúar 2003, vegna innleiðingar á tilskipun 97/81/EB um hlutastörf. Í áliti Eftirlitsstofnunarinnar er vakin á því athygli að Íslandi hafi borið að hrinda efni tilskipunarinnar í framkvæmd í síðasta lagi 20. janúar 2000. Í álitinu er vísað til bréfs félagsmálaráðuneytisins, 27. mars 2000, þar sem fram kemur að ákveðið hafi verið í samráði við aðila vinnumarkaðarins að innleiða efni tilskipunarinnar með kjarasamningum og því sé nauðsynlegt að nýta heimild um lengri frest til að hrinda efni hennar í framkvæmd. Lokafrestur til innleiðingar hafi því verið 20. janúar 2001. Á fundum samráðsnefndar félagsmálaráðuneytisins og helstu samtaka á vinnumarkaði um reglur á sviði félagsmála á EES-svæðinu hefur verið reglulega fjallað um framvindu þessa máls. Lengi vel horfði vænlega um að samningar tækjust á milli aðila um að láta efni tilskipunarinnar ná til starfsmanna hins opinbera. Eftirlitsstofnun EFTA hefur verið haldið upplýstri um gang mála og kann það að einhverju leyti að skýra þá þolinmæði sem hún hefur sýnt íslenskum stjórnvöldum í þessu máli. Það er hins vegar ljóst að verði efni tilskipunarinnar ekki innleitt án frekari tafa mun Eftirlitsstofnunin stefna stjórnvöldum fyrir EFTA-dómstólinn fyrir brot á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni kemur fram hvert markmið frumvarpsins er. Efnislega er um að ræða hliðstæðu við 1. ákvæði í rammasamningi Evrópusambands verkalýðsfélaga (ETUC), Samtaka evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE) og Evrópusamtaka fyrirtækja með opinbera eignaraðild (CEEP) um hlutastörf. Í rammasamningnum segir að markmið hans sé að skapa grundvöll til að uppræta mismunun gagnvart launamönnum í hlutastarfi og gera hlutastarf að fýsilegum kosti.

Um 2. gr.


    Við afmörkun á gildissviði frumvarpsins hefur verið litið til innleiðingar Dana á tilskipun 97/81/EB þar sem ákvæði dönsku laganna taka fyrst og fremst til þeirra launþega sem ekki hafa verið tryggð í kjarasamningum þau lágmarksréttindi sem tilskipunin ákveður. Þótt lög nr. 55/1980 geri ráð fyrir því að í kjarasamningum sé kveðið á um lágmarkskjör á vinnumarkaði þykir rétt að taka fram að njóti launþegi ekki réttinda samkvæmt tilskipuninni eins og hún var innleidd með kjarasamningi SA og ASÍ þá skuli ákvæði frumvarpsins gilda. Tilvísun 2. mgr. á við um samning SA og ASÍ eins og hann er á hverjum tíma og er þannig gert ráð fyrir því að samningurinn geti tekið breytingum enda fullnægi hann ákvæðum tilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að heimilt sé að undanskilja ákvæðum frumvarpsins þá starfsmenn ríkis og sveitarfélaga sem fá greitt tímavinnukaup eins og það er oftast nefnt í kjarasamningum þeirra. Slíkar undanþágur hafa tekið til skólafólks við störf í skólafríum, lífeyrisþega sem vinna hluta úr starfi, starfsmanna sem ráðnir eru til skamms tíma á sérstökum, árvissum álagstímum stofnana ríkis eða sveitarfélaga, þó eigi lengur en tvo mánuði, starfsmanna sem ráðnir hafa verið til að vinna að sérhæfðum afmörkuðum verkefnum og starfsmanna sem starfa óreglubundið um lengri eða skemmri tíma, þó aðeins í algjörum undantekningartilvikum. Með þessu fyrirkomulagi er stefnt að því að samningsaðilar á opinberum vinnumarkaði hafi í samræmi við þær hefðir sem þar hafa ríkt möguleika til þess að gera hlutastarf að ákjósanlegum kosti. Í samræmi við efni tilskipunarinnar er gert ráð fyrir því að samningsaðilar endurskoði slíkar undantekningar reglulega til að ganga úr skugga um að þær hlutlægu ástæður sem liggja þeim til grundvallar séu enn í gildi.

Um 3. gr.


         Í greininni eru skýringar á hugtökunum starfsmaður í hlutastarfi og sambærilegur starfsmaður. Skýringarnar eru byggðar á 3. gr. tilskipunar 97/81/EB.
    Skilgreiningarnar eru í samræmi við þær skilgreiningar sem rammasamningurinn kveður á um. Starfsmaður í hlutastarfi er starfsmaður sem í viku hverri, eða að meðaltali á ráðningartímabili sem er allt að eitt ár, vinnur færri vinnustundir en sambærilegur starfsmaður í fullu starfi.
    Sambærilegur starfsmaður er starfsmaður í fullu starfi hjá sama fyrirtæki eða stofnun og starfsmaður í hlutastarfi sem hefur sams konar ráðningarsamning eða ráðningarskilmála og vinnur sambærilegt, sams konar eða áþekkt starf, að teknu tilhlýðilegu tilliti til annarra atriða, svo sem menntunar og færni. Ef enginn sambærilegur starfsmaður er í fullu starfi hjá sama fyrirtæki eða stofnun skal samanburðurinn gerður með því að vísa til viðeigandi kjarasamnings eða, ef ekki er um gildandi kjarasamning að ræða, í samræmi við innlend lög, kjarasamninga eða venjur. Er litið svo á að hugtakið ráðningarsamningur sé svo vítt að ekki er talin ástæða til að skilja milli tilvika þar sem er ráðningarsamningur og tilvika þar sem er ráðningarsamband. Ráðningarsamningar samkvæmt íslenskum rétti eru jafngildir hvort heldur sem þeir eru skriflegir eða munnlegir.
    Þegar ekki eru sambærilegir starfsmenn í fullu starfi innan þess fyrirtækis þar sem starfsmaðurinn í hlutastarfi starfar skal samanburður gerður með vísan til hlutaðeigandi kjarasamnings. Í þeim tilvikum þar sem slíkur samningur er ekki til skal samanburðurinn gerður með vísan til gildandi laga, annarra kjarasamninga eða venju. Gera má þó ráð fyrir að í flestum tilvikum sé að finna gildandi kjarasamning sem unnt er að vísa til, sbr. 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

Um 4. gr.


    Greinin hefur að geyma ákvæði um réttindi og skyldur. Með greininni er lagt til að lögfestar séu meginreglur tilskipunar 97/81/EB sem tryggja starfsmönnum í hlutastörfum sambærileg kjör og meðferð og hliðstæðum starfsmönnum í óskertu starfshlutfalli.
    Önnur málsgreinin felur í sér vernd gegn uppsögn af þeirri ástæðu einni að starfsmaður neiti að fara úr fullu starfi í hlutastarf og öfugt. Þó telst uppsögn ekki andstæð lögunum ef starfslok eru af öðrum ástæðum og þau varða rekstraraðstæður viðkomandi fyrirtækis og ef þau byggjast á ákvæðum í lögum, kjarasamningum eða venju. Rétt er að árétta að rökstuddar aðrar ástæður fyrir starfslokum sem varða rekstraraðstæður eru ekki í andstöðu við lögin.

Um 5. gr.


    Starfsmaður sem ráðinn er í hlutastarf getur átt rétt á skaðabótum úr hendi atvinnurekanda virði sá síðarnefndi ekki ákvæði samkvæmt frumvarpi þessu ef það verður að lögum. Er gert ráð fyrir að slíkum málum sé vísað til almennra dómstóla og er það í höndum þeirra að meta hvort ekki hafi verið farið að lögum.

Um 6. gr.


    Samkvæmt 4. efnisgrein 2. gr. tilskipunar ráðsins 97/81/EB um rammasamninginn um hlutastörf sem Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC), Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE) og Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) hafa gert, skulu aðildarríkin er þau innleiða efni rammasamningsins inn í innlendan rétt hafa tilvísun í tilskipunina þegar lögin, stjórnsýslufyrirmælin eða kjarasamningurinn eru birt opinberlega. Er lagt til að umrædd tilvísun verði eins og fram kemur í ákvæðinu.

Um 7. gr.


    Ákvæði þetta þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal I.Tilskipun ráðsins 97/81/EB frá 15. desember 1997


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


um rammasamninginn um hlutastörf sem UNICE, CEEP og ETUC stóðu að.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:Umsögn um frumvarp til laga um starfsmenn í hlutastörfum.

    Frumvarp þetta er lagt fram til innleiðingar á tilskipun ráðsins 97/81/EB, frá 15. desember 1997, um rammasamninginn um hlutastörf sem Evrópusamband verkalýðsfélaga ( ETUC), Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda ( UNICE) og Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild ( CEEP) hafa gert. Sameiginlega EES-nefndin samþykkti að fella tilskipun þessa undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. ákvörðun nr. 104/1998. Tilgangur rammasamningsins er m.a. að stuðla að sveigjanlegri skipulagningu vinnutíma og að hlutavinnufólk sæti ekki lakari meðhöndlun en þeir sem eru í fullu starfi, nema mismunun verði réttlætt á grundvelli hlutlægra ástæðna. Frumvarpinu er því ætlað að innleiða framangreinda tilskipun ráðsins með það að markmiði að koma í veg fyrir að starfsmenn í hlutastörfum sæti mismunun og stuðla að auknum gæðum slíkra starfa, einnig að greiða fyrir því að starfsmenn eigi völ á hlutastörfum og sveigjanlegri tilhögun vinnutíma þannig að tekið sé tillit til þarfa atvinnurekanda og starfsmanna.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.