Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 567  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2004 kemur nú til lokaafgreiðslu við 3. umræðu. Í frumvarpinu með þeim breytingum sem gerðar voru við 2. umræðu er gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs á næsta ári verði um 275,3 milljarðar kr. Engar breytingartillögur liggja fyrir frá ríkisstjórn og meiri hluta nefndarinnar nú við 3. umræðu þrátt fyrir að ljóst sé að útgjöld ríkissjóðs eru vanmetin á mörgum sviðum í frumvarpinu. Samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári verði um 282 milljarðar kr. Tekjuafgangur ríkissjóðs er því áætlaður um 6,7 milljarðar kr. Ef miðað er við fjárlög yfirstandandi árs hækkuðu útgjöld ríkissjóðs frá því sem samþykkt var í fjárlögum 2003 og því sem nú liggur fyrir við samþykkt fjáraukalaga um 6,7%. Ef miðað er við að það sama gerist á næsta ári má gera ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs fari í um 294 milljarða kr. á árinu 2004. Ljóst er því að ef gjöldin þróast eins á næsta ári og á þessu þurfa að koma til auknar tekjur af hálfu ríkissjóðs ef hann á að skila afgangi. Vísað er til nefndarálits 2. minni hluta við 2. umræðu fjárlaga á þingskjali 428.

Samkomulagið við Öyrkjabandalagið.
    Í mars 2003 gerðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og formaður Öryrkjabandalagsins samkomulag um hækkun grunnlífeyris öryrkja frá 1. janúar 2004. Í fréttatilkynningu frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, dags. 25. mars. 2003, sagði m.a. „Er með samkomulaginu komið sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni, en gert er ráð fyrir allt að tvöfaldri hækkun grunnlífeyris til þeirra sem yngstir verða öryrkjar.“ Enn fremur kom fram í fréttatilkynningunni að samkvæmt útreikningum sérfræðinga heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins yrði kostnaðurinn við þessa hækkun grunnlífeyris og kerfisbreytingar rúmur 1milljarður kr. á ári. Þessu samkomulagi var fagnað mjög og í grein í Morgunblaðinu 27. mars 2003 sagði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra m.a.: „Á blaðamannafundum í fyrradag var spurt hvort samkomulagið nú væri nokkuð annað en rétt og slétt kosningabomba. Ekkert er eðlilegra en fréttamenn spyrji spurninga af þessu tagi í aðdraganda kosninga. Það sem athyglisvert var á fundinum með blaðamönnum var að báðir aðilar, bæði sá sem þetta ritar og Garðar Sverrisson, formaður ÖBÍ, lýstu yfir að þannig bæri ekki að skilja niðurstöðuna og báðir sögðumst við sannfærðir um að enginn stjórnmálaflokkanna myndi einn eða í samráði við aðra flokka reyna að rokka við því samkomulagi sem gert hefur verið.“
    Samkvæmt samkomulaginu hefur starfshópur unnið að tillögum að lagabreytingum og nánari útfærslu á framkvæmdinni þannig að hægt verði að standa að greiðslum samkvæmt þessari ákvörðun frá 1. janúar 2004. Á aðalfundi Öryrkjabandalagsins í október sl. kom fram í máli formanns bandalagsins, sem jafnframt á sæti í umræddri nefnd, að um 1,5 milljarð kr. þurfi á fjárlögum næsta árs til að fullnusta þetta tímamótasamkomulag ríkisstjórnarinnar og Öryrkjabandalagsins. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2004, eins og það liggur fyrir nú við 3. umræðu, er einungis gert ráð fyrir 1 milljarði kr. Ljóst er því að ekki á að standa að fullu við það samkomulag sem gert var við Öryrkjabandalagið rétt fyrir kosningar.
    Mikil umræða hefur orðið um þá ætlan ríkisstjórnarinnar að standa ekki að fullu við það samkomulag sem gert var við Öryrkjabandalagið. Svo virðist sem fjármálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra greini á um hvað samið var um. Fram hafa komið upplýsingar sem sýna að stjórnvöldum var ljóst þegar í vor að nærri 1,5 milljarða kr. þyrfti til að standa við samkomulagið. Fjármálaráðherra telur samkomulagið fullefnt með 1 milljarði kr. en heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra viðurkenndi í umræðum á Alþingi að samkomulagið væri aðeins efnt að tveimur þriðju hlutum með þessari upphæð sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Það liggur hins vegar skýrt fyrir að þegar samið var við Öryrkjabandalagið í vor var ekki kveðið á um áfangaskiptingu samkomulagsins. Í samkomulaginu er skýrt kveðið á um að samkomulagið eigi að koma til framkvæmda 1. janúar 2004 en ekki síðar. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra verður að standa að fullu við það samkomulag sem hann gerði. Eða ætlar hann að vera sá sem stendur í vegi fyrir að staðið verði við samkomulagið eða, eins og hann orðaði það í áðurnefndri grein, „rokka við því samkomulagi sem gert hefur verið“. Alvarlegast er þó að nú hyggst ríkisstjórnin ganga á bak orða sinna í samkomulaginu með því að staðfesta einhliða með lögum að þessi réttarbót nái aðeins til hluta þeirra öryrkja sem samið var um.
    Undirritaður flytur breytingartillögu nú við 3. umræðu þar sem lagt er til að útgjöld ríkissjóðs verði aukin um 500 milljónir kr. svo að hægt sé að standa að fullu við samkomulag heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við Öryrkjabandalagið frá því í vor. Vinstri hreyfingin – grænt framboð skorar á alla þingmenn að styðja þetta mál. Jafnframt er skorað á heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að styðja það að staðið verði að fullu við það samkomulag sem hann gerði.

Heilbrigðismál.
    Nauðsynlegt er að styrkja betur heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir um allt land. Fjárþörf Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri er stórlega vanmetin og heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir utan Reykjavíkur líða fyrir fjárskort. Sérstök þörf er á að fjölga enn frekar hjúkrunarrýmum við öldrunarstofnanir um allt land en með auknum aldri og bættri heimahjúkrun eykst sú þörf hlutfallslega. Mikilvægt er að heilsugæslustöðvar og sjúkrahús á landsbyggðinni haldi hlut sínum og veiti fjölbreytta staðbundna þjónustu.
    Sú stefna er röng að skerða stöðugt verkefni og þjónustu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og auka þannig óöryggi íbúanna, kostnað þeirra og óþægindi þar sem þeir þurfa því að sækja læknisþjónustu langt að. Það var mikið óheillaspor að leggja niður stjórnir sjúkrahúsanna á landsbyggðinni og slíta þar með á tengsl þeirra við heimafólk og íbúana sem vilja standa vörð um þessa þjónustu. Skerðing á þjónustu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni leiðir til aukins álags á hátæknisjúkrahúsum á Akureyri og Reykjavík.

Landspítali – háskólasjúkrahús.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2004 og breytingum frá ríkisstjórn og meiri hlutanum við 2. umræðu er gert ráð fyrir að útgjöld Landspítala – háskólasjúkrahúss umfram sértekjur verði tæpir 24,8 milljarðar kr. Forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss kom á fund fjárlaganefndar eftir 1. umræðu um frumvarpið. Hann telur að spítalinn þurfi 1.400 millj. kr. til viðbótar við þá fjárheimild sem frumvarpið gerir ráð fyrir miðað við óbreytta starfsemi árið 2004. Af þessu má ljóst vera, þar sem ekki er gert ráð fyrir frekari fjárveitingu til spítalans á næsta ári, að annaðhvort þarf að draga úr þjónustu eða spítalinn verður rekinn með halla sem síðan verður að gera upp í fjáraukalögum næsta árs.
    Í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík kemur m.a. fram að sameiningin hafi ekki verið nógu markvisst undirbúin. Hvorki hafi verið gerð tímasett framkvæmda- eða kostnaðaráætlun né sett markmið um það hverju ætti að ná fram með sameiningunni. Í mati á afköstum fyrir og eftir sameiningu verði ekki komist nær en að umfang þjónustu sé óbreytt og ekki hefði tekist að auka afköst sjúkrahússins. Enn fremur kemur fram að fyrirliggjandi upplýsingar gefi ekki til kynna að bið eftir þjónustu hafi almennt styst. Af skýrslunni virðist því mega draga þá ályktun að sameining sjúkrastofnana þýði ekki endilega bætta og/eða aukna þjónustu. Ofurtrú þessarar ríkisstjórnar á að sameiningar þjónustustofnana og stærð eininga ráði öllu um gæði þjónustu og rekstrarhagkvæmni fær enn eina falleinkunn með þessari skýrslu.

Háskólarnir.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að útgjöld Háskóla Íslands umfram sértekjur verði um 4,5 milljarðar kr. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að skólinn fái framlag fyrir 5.200 ársnemendur. Á fundi sem fulltrúar Háskóla Íslands áttu með fjárlaganefnd var lögð fram spá um fjölgun ársnemenda 2004–2007. Talið er að þeir verði 5.750 á næsta ári en ekki 5.200 eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Að óbreyttu mun Háskóli Íslands þurfa að vísa frá 900 nýnemum haustið 2004. Samkvæmt því mun Háskóli Íslands ekki lengur verða þjóðskóli. Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir því að aðgangur að skólanum verði takmarkaður.
    Enn fremur lögðu fulltrúar Háskóla Íslands fram samanburð á framlagi til kennslu í lagadeild Háskóla Íslands annars vegar og í lagadeild Háskólans í Reykjavík hins vegar. Ráðstöfunarfé til kennslu virks laganema samkvæmt því er um 346 þús. kr. í Háskóla Íslands en um 530 þús. kr. í Háskólanum í Reykjavík. Mismunurinn er því um 184 þús. kr. eða um 53%. Vandi Háskólans á Akureyri og Kennaraháskólans er hliðstæður. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu flytja breytingartillögur sem ætlað er að leiðrétta bráðavanda þessara skóla.

Efnahagsforsendur.
    Í DV 3. desember sl. kemur fram að sérfræðingar á fjármálamarkaði hafa áhyggjur af því hvort Seðlabanki Íslands nái að standa vörð um verðbólgumarkmiðin. Þeir benda á að verðbólguspá bankans sé of lág og vanmetnar séu vísbendingar í hagkerfinu sem gefa til kynna að verðhækkanir séu í þann mund að fara á skrið. Ljóst er að mikið liggur við að verðbólgumarkmið Seðlabankans náist. Kjarasamningar byggjast meðal annars á þeim.
    Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands var viðskiptahallinn 32,3 milljarðar kr. fyrstu níu mánuði ársins 2003 en 2,1 milljarður kr. á sama tíma 2002. Samkvæmt greiningardeild Íslandsbanka virðist því flest benda til þess nú að viðskiptahallinn verði meira en 4% af landsframleiðslu í ár en í fyrra var 0,6% afgangur. Landsbankinn telur að viðskiptahallinn verði 35–40 milljarðar kr. á þessu ári. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að hallinn verði einungis 2,5% af landsframleiðslu í ár. Í lok september sl. hafði hrein skuldastaða þjóðarbúsins hækkað um 24 milljarða kr. frá árslokum 2002. Fram kemur hjá greiningardeild Íslandsbanka að viðsnúningurinn væri lítið áhyggjuefni ef hann væri kominn til alfarið eða að mestu vegna þess að fjárfestingar hafi aukist samhliða því að stóriðjuframkvæmdir hafa farið af stað. Samkvæmt bankanum er viðsnúningurinn þó ekki nema að litlum hluta tilkominn vegna aukins innflutnings af fjárfestingarvörum. Að mestu má skýra aukinn halla með því að innlend neysla hafi tekið við sér og útflutningur hafi átt undir högg að sækja. Enn fremur kemur frá hjá greiningardeild Íslandsbanka að þróun viðskiptajafnaðarins undanfarið bendi til þess að krónan sé orðin öllu verðmeiri en hún getur orðið til lengdar – gengið samræmist ekki langtímajafnvægi þjóðarbúsins. Ef allt væri með felldu væri nú að hefjast hóflegt hagvaxtarskeið sem skapaði grundvöll fyrir fjölbreytt atvinnulíf og jarðveg fyrir nýja vaxtarsprota.
    Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar stefnir þjóðfélaginu í aðra átt. Ráðist er í framkvæmdir sem eru allt of viðamiklar fyrir íslenskt efnahagslíf og gríðarleg fórn á náttúruauðlindum. Ruðningsáhrif þessara stórframkvæmda eru þegar farin að hafa mjög neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu annars atvinnulífs í landinu.
    Með stefnu þessarar ríkisstjórnar í atvinnumálum verður heilu atvinnugreinunum, búsetu í mörgum byggðarlögum, eðlilegum vexti og stöðugleika í efnahagsmálum stefnt í mikla tvísýnu á næstu árum.

Lokaorð.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að ríkisfjármálum sé beitt til að auka jöfnuð í samfélaginu. Mikilvægt er að létta af þeirri spennu sem hefur magnast á síðustu árum vegna aukins tekjumunar í þjóðfélaginu og kerfisbundinnar mismununar á lífskjörum fólks. Það að öllum þegnum þjóðfélagsins séu tryggð mannsæmandi lífskjör á að vera aðalsmerki hins samábyrga velferðarsamfélags. Öll mismunun á lífskjörum leiðir til hættulegrar spennu og þenslu í þjóðfélaginu, sem og röskunar fjölskyldubanda, byggðar og atvinnulífs. Gegn þessu ójafnvægi verður að berjast með öllum tiltækum ráðum.
    Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggja til að tekjum ríkisins verði í auknum mæli varið til menntunar og rannsókna, að framlög til umhverfismála verði aukin og að tekið verði upp „grænt bókhald“ þegar meta skal arðsemi í rekstri og framkvæmdum.     Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir því að aðhald með útgjöldum skuli bitna mest á þeim sem síst skyldi: barnafólki, sjúklingum, öryrkjum, atvinnulausum og þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir því að þessir hópar eigi að borga brúsann til að viðhalda stöðugleikanum
    Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks situr í skjóli svikinna kosningaloforða. Lofað var tuga milljarða skattlækkunum, 90% húsnæðislánum, línuívilnun til bátaflotans og jarðgöngum svo nokkur dæmi sé nefnd sem ekki er staðið við. Skerðing á rétti atvinnulausra, hækkun á komugjöldum og hlut sjúklinga í lyfjakostnaði voru ekki meðal kosningaloforða Framsóknarflokksins
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð skorar á stjórnarflokkanna að standa að minnsta kosti við eitt kosningaloforð, en það er að efna að fullu samkomulagið sem gert var við Öryrkjabandalagið.

Alþingi, 3. des. 2003.



Jón Bjarnason.





Fylgiskjal I.


Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands árið 2003.

    Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn fimmtudaginn 9. október 2003, fagnar því samkomulagi sem náðst hefur við ríkisstjórn Íslands um hið nýja kerfi örorkulífeyris sem tekið verður upp frá og með 1. janúar næstkomandi. Með kerfisbreytingu þessari er hin margvíslega sérstaða öryrkja viðurkennd í verki. Fyrir það pólitíska raunsæi eiga íslensk stjórnvöld þakkir skildar.
    Samkomulagið markar ekki aðeins þáttaskil í sögu og þróun almannatrygginga, heldur einnig í samskiptum stjórnvalda við Öryrkjabandalag Íslands. Með beinu og milliliðalausu samkomulagi við bandalagið sýna ráðamenn þjóðarinnar mikilsverðan skilning á nýjum og breyttum viðhorfum til mannréttindabaráttu fatlaðra.
    Öryrkjabandalag Íslands lítur svo á að þau þáttaskil sem hér hafa orðið, ásamt því góða samstarfi sem hafið er í tilefni Evrópuárs fatlaðra, marki upphafið að betri og bjartari framtíð, samfélaginu öllu til hagsbóta. Nútíminn krefst þess að stjórnvöld og samtök fatlaðra haldi áfram að vinna sameiginlega að því brýna verkefni sem þeim hefur verið treyst til að leysa – því verkefni að rjúfa einangrun fatlaðra, leyfa þeim að njóta raunverulegs frelsis og taka fullan þátt í því lýðræðislega samfélagi sem við Íslendingar viljum búa í.



Fylgiskjal II.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið:

Fréttatilkynning nr. 17/2003.


(25. mars 2003.)



Samkomulag um að bæta hag ungra öryrkja sérstaklega.


Allt að tvöföldun grunnlífeyris.


    Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands hafa, fyrir hönd ríkisstjórnar og Öryrkjabandalagsins, gert samkomulag um hækkun grunnlífeyris öryrkja frá 1. janúar 2004. Er með samkomulaginu komið sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni, en gert er ráð fyrir allt að tvöfaldri hækkun grunnlífeyris til þeirra sem yngstir verða öryrkjar.
    Ríkisstjórnin samþykkti samkomulagið á fundi sínum í morgun. Það er gert í framhaldi af formlegum og óformlegum viðræðum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og forsvarsmanna Öryrkjabandalags Íslands sem staðið hafa frá í febrúar 2002, eða í rúmt ár, og hefur Öryrkjabandlagið lagt sérstaka áherslu á það í viðræðunum að sérstaða þeirra sem yngstir verða öryrkjar verði bætt. Samkomulagið er einnig gert í tilefni Evrópuárs fatlaðra.
    Samkvæmt samkomulaginu er lagt til að skipaður verði starfshópur sem geri endanlegar tillögur að breytingum á lögum um almannatryggingar í samræmi við samkomulagið sem taka gildi 1. janúar 2004, eins og áður sagði, og tillögur sem eiga að auka möguleika öryrkja til atvinnuþátttöku.
    Starfshópurinn skal miða störf sín við framangreint samkomulag sem felur í sér eftirfarandi:
    *    Stigið verði fyrsta skref til viðurkenningar á hinni margvíslegu sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni.
    *     Þeir sem yngstir verða öryrkjar til lífstíðar fá þannig hækkun á núverandi grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, sem nemur allt að tvöföldun grunnlífeyrisins.
    *     Þeir sem verða öryrkjar síðar á lífsleiðinni fá hins vegar hækkun á núverandi grunnlífeyri með hliðsjón af aldri, þannig að þeir sem verða öryrkjar 67 ára fá grunnlífeyri sem nemur sömu upphæð og ellilífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins.
    *     Hækkunin kemur til framkvæmda 1. janúar 2004.
    Í samkomulaginu er sömuleiðis gert ráð fyrir að starfsendurhæfing öryrkja verði efld og taki mið af þeim margvíslegu möguleikum sem nú hafa skapast með breyttum atvinnuháttum. Er þetta gert til að ýta undir og opna möguleika öryrkja til að taka þátt í atvinnulífinu á sínum forsendum.
    Samkvæmt útreikningum sérfræðinga heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins verður kostnaðurinn við þessa hækkun grunnlífeyris og kerfisbreytinguna rúmur einn milljarður króna á ársgrundvelli.



Fylgiskjal III.


Ályktun miðstjórnar ASÍ um fjárlagafrumvarpið.
Misskipting einkennir fjárlagafrumvarpið.
(Morgunblaðið 18. október 2003.)


    „Miðstjórn ASÍ gagnrýnir harðlega það óréttlæti og þá auknu misskiptingu sem einkennir fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2004. Miðstjórn ASÍ telur ástæðu til þess að árétta afstöðu ASÍ um nauðsyn þess að mótuð verði víðtæk sátt um heildstæða og samtvinnaða stefnu í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum.“ Þetta segir m.a. í ályktun miðstjórnar ASÍ um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.
    Í ályktuninni segir að fjárlagafrumvarpið gangi þvert á þá sátt sem ASÍ vill ná fram í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum. Einsýnt sé að ríkisstjórnin telji að byrðarnar af nauðsynlegri aðhaldssamri hagstjórn komandi missera eigi að leggja á atvinnulausa, sjúka, öryrkja og skuldsett heimili. Á sama tíma telji ríkisstjórnin nauðsynlegt að lækka sérstaklega skattbyrði og auka ráðstöfunartekjur þeirra tekjuhærri.
    „Miðstjórn ASÍ telur mikilvægt að árétta að sú samfélagssýn og stefna sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2004 getur aldrei orðið grundvöllur að sátt á vinnumarkaði.“
    ASÍ vekur athygli á að í fjárlagafrumvarpinu eigi að sporna gegn ofþenslu og óðaverðbólgu af völdum stóriðju- og virkjanaframkvæmda. Spara eigi 3,7 milljarða króna með þessum ráðstöfunum.
    Í þessu sparnaðarátaki séu tilfærslur til heimilanna lækkaðar um 2,2 milljarða króna. Þar af eru vaxtabætur lækkaðar um 600 milljónir, almennur tekjuskattur hækkaður um 600 milljónir með afnámi frádráttar vegna séreignarsparnaðar, atvinnuleysisbætur eru lækkaðar um 170 milljónir, sjúkratryggingar lækkaðar um 740 milljónir með auknum álögum á sjúklinga. „Þessi lækkun tilfærslna til heimilanna hefur sömu áhrif og hækkun skatta og er greinilega ætlað að lækka ráðstöfunartekjur heimilanna og þar með einkaneyslu.“
    Vakin er athygli á því að fjárfestingar og tækjakaup ríkisins séu lækkuð um 1,5 milljarða króna, en ekki hafi verið kynnt hvaða framkvæmdum áætlað sé að fresta. Þá sé lagt til að rekstrarútgjöld ríkissjóðs verði lækkuð um 100 milljónir með hagræðingarkröfu á stjórnsýslustofnanir.



Fylgiskjal IV.


Ályktun frá Samtökum fámennra skóla vegna breytinga
á úthlutun úr Jöfnunarsjóði til skólaaksturs.

    Stjórn Samtaka fámennra skóla harmar þá aðför sem gerð er að fámennum sveitarfélögum í landinu með nýjum starfsreglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
    Ljóst er, að þau sveitarfélög sem í dreifbýlinu eru, koma illa út og er menntun grunnskólanema í þeim stefnt í mikla hættu. Aukinn kostnaður hefur m.a. orðið vegna:
          valgreina í eldri bekkjum grunnskóla,
          endurmenntunar starfsfólks,
          mats á skólastarfi,
          breyttra kennsluhátta,
          stóraukins vægis upplýsinga- og tæknimenntar sem kallar á dýra aðstöðu,
          lengingar skólaárs,
          fjölgunar kennslustunda.
    Öllum er ljós sú staða að sveitarfélögin sem minnsta hafa tekjustofnana hafa treyst á fram lag Jöfnunarsjóðsins til að tryggja íbúum sínum lögboðna þjónustu, svo sem leik- og grunnskóla.
    Stjórn samtaka fámennra skóla skorar á ríkisvaldið að taka sérstakt tillit til fámennari og dreifðari byggða, þar sem sameining sveitarfélaga hefur ekki enn farið fram. Stjórn samtakanna bendir einnig á að ekki verður alltaf hagræðing af því að sameina sveitarfélög þar sem vegalengdir verða í sumum tilfellum lengri og því aukinn kostnaður við skólaakstur, sem ekki verður hjá komist. Þá má benda á að til eru þau byggðarlög þar sem sameining hefur farið fram og verður hagræðingu ekki náð með frekari sameiningu þrátt fyrir að byggðarlagið sé fremur fámennt (u.þ.b. 500 íbúar). Fámennu skólarnir eru gullmolar í byggðarlögum lands ins sem eru of dýrmætir til að láta fjúka eða skolast burt í veðurofsa sameiningarlægðarinnar.

Stjórn Samtaka fámennra skóla.





Fylgiskjal V.

Ritstjórnargrein.
Orð skulu standa.
(Morgunblaðið 27. nóvember 2003.)


    Fram kom í máli Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra á Alþingi í fyrradag að ríkisstjórnin treysti sér ekki til að standa strax um áramótin við samkomulag það, sem gert var við Öryrkjabandalag Íslands í marz síðastliðnum um hækkun á grunnlífeyri öryrkja og breytingar á kerfi örorkulífeyris. Samkvæmt samkomulaginu á m.a. að aldurstengja örorkubætur og þannig u.þ.b. tvöfalda bætur til þeirra, sem yngstir verða öryrkjar.
    Jón Kristjánsson segir nú að samkomulagið verði efnt í áföngum, þar sem hækkun bótanna kosti meira en þann milljarð, sem ætlaður er til þess að efna samkomulagið í fjárlagafrumvarpinu.
    Nú gætu það út af fyrir sig verið gild rök fyrir að fresta gildistöku samkomulagsins að hluta, að fé til þess skorti – ef sá fyrirvari hefði verið gerður þegar samkomulagið var gert, að til þess kynni að koma. Svo er hins vegar ekki. Ekkert er þess efnis í samkomulaginu sjálfu og í grein, sem Jón Kristjánsson skrifaði hér í blaðið nokkrum dögum eftir að skrifað var undir það, sagði: „Nú verður settur niður starfshópur til að útfæra samkomulagið í smáatriðum í samráði við fulltrúa Öryrkjabandalags Íslands og er gert ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum sínum strax í haust í frumvarpsformi þannig að þær liggi snemma fyrir á Alþingi, en gildistakan er 1. janúar nk.“ Þetta er alveg skýrt, enda sagðist Jón sannfærður um „að enginn stjórnmálaflokkanna myndi einn eða í samráði við aðra flokka reyna að rokka við því samkomulagi sem gert hefur verið“.
    Í sömu grein tók Jón Kristjánsson fram að samkomulagið væri ekki útspil vegna komandi kosninga. Engu að síður vitnuðu þingmenn stjórnarflokkanna beggja, einkum Framsóknarflokksins, til þess í greinum og ræðum í vor að eitt af kosningaloforðunum væri að efna samkomulagið.
    Stjórnmálamenn, sem í vor töldu ríkissjóð hafa nægt svigrúm, þannig að bæði væri hægt að lofa að lækka skatta og heita öryrkjum brýnum kjarabótum, geta ekki verið þekktir fyrir að seinka nú efndum loforða sinna – og raunar undirskrifaðs samkomulags. Þetta er spurning um trúverðugleika stjórnmálamanna gagnvart kjósendum sínum. Orð eiga að standa.



Fylgiskjal VI.


Breytingin verður lögfest.
(Morgunblaðið 28. nóvember 2003.)


    Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, segist vera staðráðinn í að fullnusta samkomulagið um breytingar á kerfi örorkulífeyris og hækkun á grunnlífeyri ungra öryrkja frá í mars sl. Komið hefur í ljós að kostnaður vegna breytinganna er meiri en áætlað var í mars og koma hækkanir til framkvæmda í áföngum, að tveimur þriðju hlutum um næstu áramót og afgangurinn ári síðar.
    – Í samkomulaginu um breytingarnar sem kynnt var 25. mars sl. segir að hækkunin komi til framkvæmda 1. janúar 2004. Nú er ljóst að það verður ekki að öllu leyti. Hver er ástæða þess?
    „Samkomulagið var handsalað af okkur Garðari Sverrissyni [formanni Öryrkjabandalags Íslands] í mars. Það var kynnt sem tímamótasamkomulag, sem felst í því að kerfinu er breytt og teknar upp aldurstengdar örorkubætur, sem var baráttumál Öryrkjabandalagsins um árabil. Sú breyting gengur í gegn og það er verið að vinna að gerð frumvarps um breytingar á lögum þannig að þessi breyting geti tekið gildi. Þetta er að mínu mati stærsta skrefið í réttindamálum öryrkja sem hefur verið stigið um árabil,“ segir Jón.

Einn milljarður greiddur út til öryrkja um áramót.
    „Þegar ég lagði þetta fyrir ríkisstjórnina, eins og kemur fram í fréttatilkynningu sem við sendum út eftir handsal okkar, þá lágu fyrir upplýsingar um að kostnaðurinn yrði rúmlega milljarður króna. Það fékk ég samþykkt í ríkisstjórn og það voru þær upplýsingar sem lágu fyrir þegar þetta var gert. Sá milljarður mun verða greiddur út til öryrkja um áramótin í samræmi við nýja löggjöf þar um,“ segir Jón.
    Hann segir að nokkrum mánuðum eftir að samkomulagið var gert hafi komið fram nýjar upplýsingar um að breytingin verði dýrari en gert var ráð fyrir þegar samkomulagið var kynnt. „Það breytir því ekki að ég vil uppfylla þetta samkomulag og greiða þá það sem upp á vantar til að nær tvöfalda grunnlífeyrinn eftir tólf mánuði. Það er mín ætlan,“ segir ráðherra.
    Jón leggur áherslu á að breytingin sem mun taka gildi um næstu áramót sé réttindabreyting sem öryrkjar hafa sóst eftir um langt árabil. „Þetta samkomulag var metið mjög mikils. Við erum að verja í þetta einum milljarði króna og ég tel að með því séum við að uppfylla meginþátt þessa samkomulags og það hefur aldrei staðið til annað af minni hálfu en að uppfylla það að fullu,“ segir hann.
    Að sögn Jóns var samkomulagið í mars sl. ekki skriflegt heldur byggðist það á handsali hans og formanns Öryrkjabandalagsins. Jón segir það hins vegar ekki skipta máli í þessu sambandi þó samkomulagið hafi ekki verið undirritaður skriflegur samningur. „Við tókumst í hendur um þetta, ég og Garðar, og kynntum þetta sem samkomulag okkar á milli, sem ég lagði fyrir ríkisstjórn, á þeim forsendum sem þá lágu fyrir. Þá lá fyrir kostnaðarmat upp á einn milljarð eins og tekið var fram í fréttatilkynningunni.“

Stóð í þeirri trú að kostnaðurinn yrði einn milljarður.
    – Var sú kostnaðaráætlun forsenda samkomulagsins?
    „Þetta var sú kostnaðaráætlun sem lá fyrir á þessum tíma. Ég lagði fyrir ríkisstjórnina að breytingin myndi kosta þetta og ég stóð í þeirri trú að kostnaðurinn yrði þessi. En forsendan fyrir samkomulaginu og veigamesti þáttur samkomulagsins er breytingin sem gerð verður. Það var tekin ákvörðun um að breyta lögum í samræmi við baráttumál sem Öryrkjabandalagið hafði sett á oddinn lengi og ályktaði um á aðalfundi sínum 1988 ef ég man rétt. Hugmyndafræðin var sú að hækka verulega bætur til ungra öryrkja á þeim forsendum að þeir hafa ekki sömu tækifæri í lífinu og þeir sem verða öryrkjar síðar á lífsleiðinni.
    Þær upplýsingar sem ég hafði um kostnað vegna þessa á þessum tíma var að þetta myndi kosta milljarð og lagði ég það fyrir ríkisstjórnina. Nokkrum mánuðum seinna kemur svo í ljós að þetta sé þriðjungi dýrara en ég var búinn að fá samþykkt.“

Heildarkostnaður nú áætlaður um 1.500 milljónir kr. á ári.
    Heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp til að útfæra breytingarnar og gera endanlegar tillögur að breytingum á lögum. Fór hópurinn m.a. yfir kostnað við breytingarnar og fékk ráðherra nýtt kostnaðarmat í hendur þar sem í ljós kom að heildarkostnaðurinn er talinn um 1.500 milljónir kr.
    Niðurstaðan var því sú að sögn ráðherra að greiða þyrfti hækkanirnar sem um var samið í áföngum, 66% koma til greiðslu um næstu áramót og afgangurinn ári síðar.
    Hann var spurður hvort ekki hefði komið til álita að bæta því sem upp á vantar inn í fjárlagafrumvarp næsta árs þar sem það er enn til umfjöllunar á Alþingi. „Það var ekki niðurstaðan í meðförum fjárlagafrumvarpsins að auka við minn [útgjalda-]ramma, þannig að þetta varð niðurstaðan í meðförum ríkisstjórnarinnar um fjárlagafrumvarpið,“ segir Jón.

Hef einsett mér að uppfylla samkomulagið.
    – Hverju svarar þú þeirri gagnrýni sem fram hefur komið, að með því að áfangaskipta þessu sé verið að svíkja samkomulagið?
    „Ég vísa því á bug að um einhver svik sé að ræða af minni hálfu í þessu efni,“ segir Jón. „Ég stend að fullu við það sem ég vissi réttast þá [þegar samkomulagið var gert]. Síðan hef ég einsett mér að uppfylla samkomulagið. Við munum breyta lögum í samræmi við það sem samkomulagið kveður á um, við munum borga strax um áramótin það sem samkomulagið hljóðaði upp á þegar það var gert og greiða síðan viðbótina. Kerfisbreytingin verður lögfest og hún er komin til að vera,“ segir Jón.
    Lagafrumvarpið sem kveður á um þessar breytingar verður væntanlega lagt fyrir ríkisstjórn og alþingi á næstu dögum.
    Forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins hafa brugðist hart við fregnum um að samkomulagið komi ekki að fullu til framkvæmda um næstu áramót. Aðspurður segist Jón vona að samskipti ríkisvaldsins og Öryrkjabandalagsins verði áfram góð þrátt fyrir þessi viðbrögð núna og menn horfi á aðalatriði málsins og þær miklu réttarbætur sem í því felast. „Það hafa fallið nokkuð stór orð í fjölmiðlum, en það truflar mig ekki í því að ég ætla mér að fullnusta þetta samkomulag,“ segir Jón Kristjánsson.



Fylgiskjal VII.


Jón Bjarnason:


Orð skulu standa.

(Morgunblaðið 3. desember 2003.)


    Þau fjúka kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna hvert af öðru. Tuga milljarða skattalækkun, 90% húsnæðislán, línuívilnun til bátaflotans, jarðgöng, sjúkrahúsbygging, menningarhús – svo nokkur dæmi séu nefnd. Loforðaflaumur stjórnarflokkanna tveggja fyrir síðustu kosningar átti sér engin takmörk, enda fengu auglýsingabrellur Framsóknarflokksins sérstaka viðurkenningu ímyndarsmiða og auglýsingagúrúa. Enginn spurði þar að trúverðugleikanum að baki auglýsinganna eða hver borgaði brúsann. Var þó ærin ástæða til.

Réttarbætur ungra öryrkja.
    Það er ekki ofmælt að Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hafi verið siðferðisleg kjölfesta Framsóknarflokksins í þessari ríkisstjórn. Fólkið í landinu hefur treyst á orð hans og virt hann fyrir baráttuna gegn einkavæðingu heilbrigðiskerfisins sem hefur verið aðal Sjálfstæðisflokksins og sumra flokkssystkina hans. Þegar Jón Kristjánsson skrifaði undir samning við Öryrkjabandalagið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hinn 25. mars sl. trúði þjóðin því að staðið yrði við þann gjörning. Að hér væri ekki um kosningabombu að ræða heldur væri verið að bæta rétt þeirra sem yrðu öryrkjar snemma á lífsleiðinni og gera þeim léttara að taka þátt í fjölbreyttum viðfangsefnum samfélagsins á jafnréttisgrunni. Þjóðin öll fagnaði þessu tímamótasamkomulagi. Í fréttatilkynningunni frá í mars stóð að áætlað væri að þyrfti rúman milljarð til að fullnusta samkomulagið. Nú er upplýst að það hafi legið fyrir snemma í sumar að þyrfti 1,5 milljarða til þess að ungir öryrkjar fengju þennan umsamda rétt sinn sem er ekki svo langt frá upphaflegri áætlun.

Ríkisstjórn svikinna loforða.
    Sá sem hér skrifar er fulltrúi VG í fjárlaganefnd Alþingis og tók samkomulagið við Öryrkjabandalagið sérstaklega fyrir í framsögu og nefndaráliti við 2. umræðu fjárlaga. Við það tækifæri kom loks í ljós að heilbrigðisráðherra væri gert ókleift að standa við samkomulagið en yrði að uppfylla það í áföngum. Í kjölfar þess má spyrja hvort það hafi verið félagar heilbrigðisráðherra í ríksstjórn sem sviku samkomulagið og vógu að trúverðugleika hans? Það er hægt að svíkja um jarðgöng og það er hægt að svíkja sjómenn, en það þarf mikla siðblindu og hroka til að svíkja gerðan samning við öryrkja. Tveir hæstaréttardómar á sömu ríkisstjórn vegna vanefnda á samningum við öryrkja ætti að vera meira en nóg þó að þetta bætist ekki ofan á.

Reynir á hug þingmanna.
    Sem fulltrúi vinstri-grænna í fjárlaganefnd hefur undirritaður lagt fram á Alþingi tillögu um 500 milljóna króna auknar fjárveitingar til að standa við samkomulagið við Öryrkjabandalagið. Hafi ríkisstjórnin og meiri hlutinn ekki gert þær breytingar á frumvarpinu við 3. umræðu nk. föstudag, sem feli í sér að staðið verði við samninginn við Öryrkjabandalagið frá 25. mars sl., mun ég ásamt öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytja breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið sem felur í sér að staðið verði við samninginn refjalaust. Þá gefst þingmönnum kostur á að fylgja sannfæringu sinni og stuðla að því að staðið verði við þetta tímamótasamkomulag.



Fylgiskjal VIII.


Ályktun aðalfundar BSRB.
Framkoma sem er ríkisstjórninni til vansa.
(Morgunblaðið, 29. nóvember 2003.)


    Aðalfundur BSRB hvetur ríkisstjórnina til að standa við samkomulag sem gert var við Öyrkjabandalag Íslands um hækkun á grunnlífeyri öryrkja og breytingar á kerfi örorkulífeyris. Með þessu samkomulagi átti að aldurstengja örorkubætur og þannig tvöfalda bætur þeirra sem yngstir verða öryrkjar. Þetta segir í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi BSRB í gær.

Almenn sátt um samkomulagið í þjóðfélaginu.
    Þar segir ennfremur að fyrir kosningar hafi því verið lofað, m.a. af heilbrigðisráðherra, að þessar breytingar kæmust allar til framkvæmda 1. janúar 2004.
    Aðalfundur BSRB bendir á að almenn sátt var um þetta samkomulag í þjóðfélaginu þegar það var gert fyrir kosningar sl. vor og kom fram hjá fulltrúum allra stjórnmálaflokka að þetta væri mikið þjóðþrifaverk sem allir ætluðu að standa við ef þeir kæmust í þá stöðu.
    „Svo bregður við að ríkisstjórnin ætlar nú einungis að uppfylla hluta af samkomulaginu og er því borið við að þessi breyting reyndist dýrari en áformað var. Slík framkoma er ríkisstjórninni til vansa,“ segir í ályktuninni.



Fylgiskjal IX.


Jón Kristjánsson:

Skynsamleg niðurstaða – ánægjulegt samráð.
(Morgunblaðið 27. mars 2003.)


    Samkomulagið sem gert var sl. þriðjudag, við Öryrkjabandalagið og formann þess, Garðar Sverrisson, tel ég vera eitt mikilvægasta skrefið sem yfirvöld tryggingamála og ríkisstjórn hafa gert á síðustu árum. Þetta skref er afar mikilvægt í réttindabaráttu öryrkja og táknar nokkur tímamót í almannatryggingum á Íslandi, eins og Garðar Sverrisson sagði á fundi með blaðamönnum þegar samkomulagið var kynnt. Hugmyndafræðin er Öryrkjabandalagsins en eins og ég sagði á þeim fundi hugnast mér aðferðin vel og ríkisstjórnin hefur þegar gert samkomulagið að sínu. Í grunninn er hugsunin sú að koma mest til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni.

Öryrki á unga aldri.
    Í gær var ég spurður um það á pólitísku stefnumóti af hverju við hefðum farið þessa leið.
    Við fórum þessa leið af því við höfum alltaf lagt þær forgangsáherslur að vilja koma af mestum krafti til móts við þá sem síst standa. Sá sem verður öryrki á unga aldri hefur ekki átt sömu valkosti og jafnaldrarnir. Það getur verið erfiðleikum bundið fyrir þann sem verður öryrki á unga aldri að afla sér menntunar, að halda í við jafnaldrana almennt talað eða yfirleitt að taka þátt í samfélaginu með þeim hætti sem við vildum helst öll gera. Fyrir utan þessi atriði sem enginn skilur að fullu nema sá sem lendir í þessari aðstöðu hafa ungir öryrkjar sérstaklega þurft að berjast fyrir því að fá viðurkennda sérstöðu sína sem felst í því að verða öryrki snemma á lífsleiðinni. Það er þessi sérstaða sem nú hefur verið viðurkennd með samþykkt ríkisstjórnarinnar á því samkomulagi sem tókst með þeim sem þessi orð ritar og Garðari Sverrissyni, formanni Öryrkjabandalagsins.
    Þeir sem verða öryrkjar á unga aldri hafa færri tækifæri úr að spila í lífinu, þeir geta e.t.v. ekki tekið þátt í lífsbaráttunni með þeim hætti sem þeir vildu helst sjálfir og þeim eru á stundum þær bjargir bannaðar sem öðrum þykja sjálfsagðar. Þess vegna er það réttlætismál að við sem samfélag komum til móts við þennan hóp.

Samkomulagið.
    Fyrir utan að viðurkenna þá reglu að aldurstengja grunnlífeyri örorkubótanna er samkomulagið jafn einfalt og viðurkenningin er sjálfsögð. Grunnlífeyrir þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni tvöfaldast og verður um 40 þúsund krónur á mánuði þannig að einstaklingur sem nýtur allra bótaflokka almannatrygginganna í þessum hópi og hafði um 95 þúsund krónur á mánuði fær um 115 þúsund krónur á mánuði þegar samkomulagið öðlast gildi. Aldurstengingin sem eftir er að útfæra í krónum og aurum þýðir svo að þessi tvöföldun minnkar eftir aldri og er fallin út þegar kemur að þeim sem verða öryrkjar 67 ára.
    Í samkomulaginu er sömuleiðis gert ráð fyrir að starfsendurhæfing öryrkja verði efld og taki mið af þeim margvíslegu möguleikum sem nú hafa skapast með breyttum atvinnuháttum. Er þetta gert til að ýta undir og opna möguleika öryrkja til að taka þátt í atvinnulífinu á eigin forsendum. Í samkomulaginu felst líka að nú er skilið á milli þeirra sem eiga rétt á örorkulífeyri og ellilífeyrisþega en í því felst stefnubreyting. Það kom fram hjá formanni Öryrkjabandalagsins á blaðamannafundinum sem hér hefur verið vitnað til að forystumenn aldraðra styddu að fullu þau sjónarmið sem liggja til grundvallar aldurstengdum grunnlífeyri örorkubóta.
    Nú verður settur niður starfshópur til að útfæra samkomulagið í smáatriðum í samráði við fulltrúa Öryrkjabandalags Íslands og er gert ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum sínum strax í haust í frumvarpsformi þannig að þær liggi snemma fyrir á Alþingi, en gildistakan er 1. janúar nk.

Samráðið.
Samkomulagið sem gert var við Öryrkjabandalagið náðist eftir fjölmarga formlega, en ekki síður óformlega samráðsfundi, sem undirritaður og embættismenn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hafa átt með forystumönnum bandalagsins að ógleymdum Halldóri Ásgrímssyni, svo öllu sé nú til skila haldið. Það skal viðurkennt að þessar hugmyndir Öryrkjabandalagsins féllu til að byrja með í grýtta jörð enda sáu menn ekki í fljótu bragði hvernig útfæra mætti hugmyndina, en með málafylgju tókst talsmönnum ÖBÍ að sannfæra okkur, í því vinsamlega andrúmslofti sem ríkt hefur á fundum okkar.
    Ég hef ávallt verið þeirrar skoðunar að formlegt og óformlegt samráð af því tagi sem við höfum átt með talsmönnum ÖBÍ í þessu máli sé vænlegast til árangurs og þess vegna gat ég þess sérstaklega í haust þegar ríkisstjórnin gerði sérstakt samkomulag við aldraða að nú væri komið að því að taka upp hliðstætt samráð við Öryrkjabandalag Íslands. Niðurstaðan nú er árangur þess samráðs og viðræðna sem staðið hafa frá því í febrúar á síðasta ári. Það fer einnig vel á að stíga skrefið sem nú er stigið á Evrópuári fatlaðra og leggja þannig drög að nýrri stefnumótun langt inn í framtíðina.

Útspil vegna kosninganna?
    Á blaðamannafundinum í fyrradag var spurt hvort samkomulagið nú væri nokkuð annað en rétt og slétt kosningabomba. Ekkert er eðlilegra en fréttamenn spyrji spurninga af þessu tagi í aðdraganda kosninga. Það sem athyglisvert var á fundinum með blaðamönnum var að báðir aðilar, bæði sá sem þetta ritar og Garðar Sverrisson, formaður ÖBÍ, lýstu yfir að þannig bæri ekki að skilja niðurstöðuna og báðir sögðumst við sannfærðir um að enginn stjórnmálaflokkanna myndi einn eða í samráði við aðra flokka reyna að rokka við því samkomulagi sem gert hefur verið.
    Öryrkjabandalagið hefur verið með kröfuna um aldurstengdan grunnlífeyri örorkubóta á stefnuskrá sinni frá 1998 og allt síðasta ár höfum við rætt hugmyndina fram og aftur til að reyna að finna flöt á því hvernig mætti útfæra hana. Það hefur af mörgum ástæðum tekið lengri tíma en báðir hefðu sjálfsagt viljað en kosturinn við að ígrunda málið vel er sá að nú er ekki tjaldað til einnar nætur heldur tekin ný stefna inn í framtíðina í málefnum öryrkja. Það er kostur, ekki kosningamál.
    Það er svo rétt í lokin að þakka þeim forsvarsmönnum Öryrkjabandalagsins sem hafa tekið þátt í viðræðunum við okkur sem að málinu höfum komið á hinum pólitíska vettvangi. Ég held að á engan sé hallað þótt nafn Garðars Sverrissonar sé nefnt sérstaklega í þessu sambandi. Hann hefur haldið vel á spilunum fyrir sitt fólk eins og sá gerir sem ber hag félagsmanna sinna fyrir brjósti. Við formaður Öryrkjabandalagsins erum ósammála um margt og hvorugur gerir þá kröfu að samsinna því athugasemdalaust sem hinn heldur fram en í þessu máli tel ég að við höfum náð góðri sátt og skynsamlegri með hagsmuni þeirra að leiðarljósi sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni.