Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 419. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 575  —  419. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á umferðarlögum nr. 50/1987, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Í stað orðsins „Dómsmálaráðherra“ í 2. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur (með hástaf eða lágstaf eftir atvikum): Ráðherra.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera þá breytingu á verkaskiptingu ráðuneyta að flytja mál er varða umferð og eftirlit með ökutækjum frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til samgönguráðuneytisins. Í því felst að eftirlit með framkvæmd umferðarlaga og yfirstjórn Umferðarstofu mun framvegis heyra undir samgönguráðuneytið. Þó munu mál er varða fébætur og vátryggingu skv. XIII. kafla umferðarlaga heyra undir viðskiptaráðuneytið, enda fer það ráðuneyti með mál er varða vátryggingar að öðru leyti.
    Mál er varða öryggi í samgöngum í lofti og á legi heyra nú þegar að meginstefnu til undir samgönguráðuneytið. Flutningur umferðarmála til samgönguráðuneytisins er því í rökréttu samræmi við þessa skipan mála í öðrum greinum samgangna. Þá er við því að búast að samlegðaráhrif af sameiginlegri yfirstjórn Vegagerðar og Umferðarstofu muni þegar fram líða tímar geta skilað sér í auknum árangri og betri þjónustu.
    Í mörgum þeirra ríkja, sem stjórnvöld eiga hvað mest samstarf við, heyra umferðarmál undir það ráðuneyti sem ábyrgð ber á vegamálum. Yfirleitt eru það samgönguráðuneyti viðkomandi ríkja. Einnig hagkvæmni í alþjóðlegu samstarfi í samgöngumálum mælir því með að umferðarmál heyri undir samgönguráðuneytið.
    Tekið skal fram að afskipti lögreglu vegna brota á umferðarlögum og slysa í umferðinni breytast ekki, né heldur rannsókn og saksókn í slíkum málum.
    Með frumvarpinu er lagt til að yfirstjórn umferðarmála verði ekki ákveðin með lögum, heldur vísað um það til reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, sem er meginréttarheimildin um verkaskiptingu í stjórnarráðinu, sbr. 8. gr. laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, og taka ákvarðana um það almennt á hendi ríkisstjórnarinnar, sbr. síðari málslið 15. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Breytingar sem fyrirhugað er að gera á reglugerðinni í samræmi við framangreint eru kynntar í fylgiskjali I í frumvarpinu.


Fylgiskjal I.

Drög

REGLUGERÐ


um breytingu á reglugerð um Stjórnarráð Íslands,


sbr. auglýsingu um staðfestingu hennar nr. 96/1969, með síðari breytingum.



1. gr.

    5. tölul. 3. gr. reglugerðarinnar falli brott.

2. gr.

    Við 11. gr. reglugerðarinnar, sbr. 4. gr. auglýsingar um staðfestingu reglugerðar um breytingu á reglugerð þessari, nr. 27/1993, bætist nýr töluliður, er verður 10. töluliður og hljóði svo:
    10. Umferð og eftirlit með ökutækjum.

3. gr.

    Við 9. tölul. 15. gr. reglugerðarinnar, sbr. 2. gr. auglýsingar um staðfestingu reglugerðar um breytingu á reglugerð þessari, nr. 11/1995, bætist orðin: þ. á m. fébætur og vátryggingar ökutækja.

4. gr.

    Reglugerð þessi öðlast gildi 1. janúar 2004.



Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum,
nr. 50/1987, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að í stað orðsins „dómsmálaráðherra“ í lögunum komi orðið „ráðherra“.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð heldur færist kostnaður við umferðarmálefni frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti yfir til samgönguráðuneytis.