Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 420. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 578  —  420. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „eða aðrar sambærilegar orsakir“ í 2. mgr. kemur: eða aðrar ófyrirsjáanlegar ástæður.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Fyrirtæki, sem starfrækir fiskvinnslu og fullnægir skilyrðum 2. mgr., skal eiga rétt á greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir hvern heilan vinnudag sem það greiðir starfsmönnum laun meðan á tímabundinni vinnslustöðvun stendur að undanskildum fyrstu tveimur dögunum á tímabilinu 1. janúar til 30. júní og fyrstu tveimur dögunum á tímabilinu 1. júlí til 31. desember á hverju almanaksári, sbr. þó einnig 4. mgr.
     c.      Í stað orðanna „30 greiðsludaga“ í 4. mgr. kemur: 20 greiðsludaga.
     d.      Í stað orðanna „60 greiðsludaga“ í 4. mgr. kemur: 30 greiðsludaga.
     e.      Ný málsgrein bætist við, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir takmarkanir 4. mgr. á heildarfjölda greiðsludaga á ári hverju er Vinnumálastofnun heimilt að veita undanþágur þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi er leiða til þess að hráefnisskortur veldur því að vinnsla liggur niðri á annars venjubundnum vinnslutíma fyrirtækis.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Fyrirtæki, sem hyggst sækja um greiðslu skv. 1. gr., skal tilkynna skriflega um fyrirhugaða vinnslustöðvun með eins sólarhrings fyrirvara til Vinnumálastofnunar. Skal fyrirtæki staðfesta tilkynninguna með umsókn um greiðslur ásamt nauðsynlegum upplýsingum um fyrirhugaða vinnslustöðvun, þar á meðal ástæður hennar, innan mánaðar frá því að vinnslustöðvun hófst. Hafi hvorki umsókn né tilskilin gögn borist Vinnumálastofnun innan þriggja mánaða frá því að vinnslustöðvun hófst mun réttur fyrirtækisins til greiðslna falla niður að því er varðar umrædda vinnslustöðvun.
     b.      Í stað orðanna „Skrifstofa Atvinnuleysistryggingasjóðs“ í 2. mgr. kemur: Vinnumálastofnun.
     c.      Síðari málsliður 2. mgr. fellur brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „skrifstofu Atvinnuleysistryggingasjóðs“ í 1. mgr. kemur: Vinnumálastofnun.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Vinnumálastofnun skal hafa aðgang að launa- og framleiðslubókhaldi fyrirtækis ásamt kauptryggingarsamningum sem í gildi eru milli fyrirtækis og starfsmanna þess. Starfsmenn Vinnumálastofnunar skulu fara með allar upplýsingar sem þeir komast að við framkvæmd á lögum þessum og varða persónuleg málefni eða rekstur fyrirtækja sem trúnaðarmál.
     c.      Í stað 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Hafi fyrirtæki fengið hærri fjárhæðir úr Atvinnuleysistryggingasjóði en það á rétt á samkvæmt lögum þessum á grundvelli rangra eða ófullnægjandi upplýsinga ber því að endurgreiða þær. Þá er Vinnumálastofnun heimilt að draga ofgreiddar fjárhæðir frá greiðslum sem fyrirtækið getur átt rétt á síðar samkvæmt lögunum.
                  Félagsmálaráðherra setur í reglugerð nánari reglur um hvers konar gögn skulu fylgja umsókn fyrirtækis sem sækir um greiðslur samkvæmt lögum þessum.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2004. Að venju byggist síðarnefnda frumvarpið meðal annars á ákveðnum forsendum um tekjur og gjöld sem taka mið af stefnu stjórnvalda í efnahags- og ríkisfjármálum. Í fjárlagafrumvarpi er stefnt að samdrætti í útgjöldum ríkissjóðs en mikilvægt er að hann megi fram ganga í því skyni að viðhalda stöðugleika og treysta stöðu efnahagslífsins. Þær breytingar sem lagðar eru til að gerðar verði á lögum nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, með frumvarpi þessu eru liðir í þeirri viðleitni að ná fram markmiðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.
    Breytingar þær sem lagðar eru til með frumvarpi þessu fela meðal annars í sér að þrengja skilgreiningu laganna á tímabundinni vinnslustöðvun og skýra þær reglur er gilda um tilkynningu og umsókn fyrirtækja er eiga rétt á greiðslum samkvæmt lögunum. Ástæðan er sú að ákvæði laganna hafa þótt nokkuð rúm og erfiðleikum háð að koma böndum yfir framkvæmd þeirra. Hefur til dæmis þótt vandkvæðum bundið að meta hvaða ástæður hafa þótt réttlæta vinnslustöðvun í rekstrarlegu tilliti þannig að vinnslustöðvun hafi talist til tímabundinnar vinnslustöðvunar í skilningi laganna. Er því markmiðið að koma í veg fyrir hugsanlega misnotkun við framkvæmd laganna. Í því skyni er meðal annars lagt til að skilgreining á því hvaða ástæður geta legið að baki vinnslustöðvun miðist við hráefnisskort og ófyrirsjáanleg tilvik, tímafrestir verði settir á skil á gögnum og að greiðslur verði ekki inntar af hendi fyrr en að öll nauðsynleg gögn liggi fyrir. Enn fremur er gert ráð fyrir að gerð verði skýr krafa um endurgreiðslu fyrirtækis þegar það hefur fengið hærri fjárhæðir úr Atvinnuleysistryggingasjóði en því bar samkvæmt lögunum á grundvelli rangra eða ófullnægjandi upplýsinga. Þá er lagt til að Vinnumálastofnun verði gert heimilt að skuldajafna við þær greiðslur er sama fyrirtæki getur átt rétt á vegna síðari vinnslustöðvana, hafi það ekki endurgreitt sjóðnum þær fjárhæðir sem því bar vegna ofgreiðslu úr sjóðnum.
    Aðrar breytingar sem lagðar eru til lúta að fjölda þeirra daga er fyrirtækin eiga rétt á greiðslum fyrir úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögunum. Þannig er gert ráð fyrir að ekki verði greitt fyrir tvo fyrstu vinnudagana er falla undir vinnslustöðvun á fyrri hluta hvers árs og heldur ekki fyrir tvo fyrstu dagana á seinni hluta ársins. Þá er gert ráð fyrir að heimilt verði að greiða fyrir 20 greiðsludaga í senn og 30 greiðsludaga á ári hverju.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í a-lið er lagt til að breyting verði gerð á skilgreiningu á því hvaða ástæður geta legið að baki vinnslustöðvun fiskvinnslufyrirtækis sem Atvinnuleysistryggingasjóður bætir. Samkvæmt frumvarpi því er varð að gildandi lögum var til þess ætlast að greiðslur skyldu fyrst og fremst miðast við vinnslustöðvanir sem yrðu vegna hráefnisskorts. Þá var enn fremur gert heimilt að bæta þær vinnslustöðvanir þegar ekki þætti réttlætanlegt að vinna aflann af rekstrarlegum ástæðum. Við framkvæmd laganna hefur þetta þótt nokkuð víðtæk skilgreining í ljósi þess að erfitt hefur reynst að meta hvaða rekstrarlegu ástæður hafa talist réttlæta vinnslustöðvun í skilningi laganna að teknu tilliti til tilgangs þeirra. Er því lagt til að orðin „eða aðrar sambærilegar ástæður“ verði felld brott. Engu síður má gera ráð fyrir að ófyrirsjáanlegar ástæður, svo sem bruni, geti leitt til vinnslustöðvunar sem sanngjarnt og eðlilegt getur talist að bæta. Er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra nýti sér heimild 5. gr. laganna til að skilgreina nánar hvers konar tilvik teljist til ófyrirsjáanlegra ástæðna.
    Lagt er til að fyrirtæki, sem starfrækir fiskvinnslu og greiðir starfsfólki sínu föst laun fyrir dagvinnu í tímabundinni vinnslustöðvun í samræmi við ákvæði kjarasamninga, eigi rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir hvern heilan vinnudag eins og verið hefur. Þó er gert ráð fyrir að ekki verði greitt fyrir fyrstu tvo dagana á tímabilinu 1. janúar til 30. júní ár hvert sem og fyrstu tvo dagana á tímabilinu 1. júlí til 31. desember.
    Reynslan af framkvæmd laga nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, hefur verið sú að hver vinnslustöðvun varir að meðaltali í fáeina daga í senn. Þær geta hins vegar verið nokkuð tíðar en að meðaltali eru um það bil 12 vinnslustöðvanir á ári hverju hjá sama fyrirtæki. Að teknu tilliti til þessa er lagt til að greiðsludagar sem heimilt er að bæta fyrirtækjum í einni vinnslustöðvun verði 20 talsins en ekki 30 greiðsludagar eins og verið hefur. Að því er varðar heildarfjölda greiðsludaga á ári hverju virðist sem að fjöldi greiðsludaga fyrir hvert fyrirtæki sé um 16 dagar að meðaltali. Er þess vegna lagt til að heimilt verði að greiða fyrir því sem nemur 30 vinnudögum á ári hverju til sama fyrirtækis í stað 60 daga áður. Þó er lagt til að Vinnumálastofnun hafi heimild til að veita sérstakar undanþágur frá heildarfjölda greiðsludaga þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi er leiða til þess að hráefnisskortur veldur því að vinnsla liggur niðri á annars venjubundnum vinnslutíma fyrirtækis. Er með sérstökum ástæðum meðal annars verið að vísa til verkfalla er leiða til hráefnisskorts í fiskvinnslufyrirtækjum eða byggðasjónarmiða. Ber að skýra þessa undanþáguheimild þröngt en gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra muni skilgreina nánar hvað átt sé við með sérstökum ástæðum í reglugerð, sbr. 5. gr. laganna.

Um 2. gr.

    Lagt er til að meiri festa verði viðhöfð við framkvæmd laga nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, en gjarnan hefur viljað brenna við að fyrirtæki hafi sent inn umsóknir og önnur fylgigögn nokkrum mánuðum eftir að vinnslustöðvun átti sér stað. Enn fremur hefur Vinnumálastofnun ekki alltaf verið að fullu ljóst hvaða daga umrædd vinnslustöðvun hefur staðið yfir þar sem hver tilkynning hefur gilt í 30 daga, sbr. 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 308/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna kauptryggingar fiskvinnslufólks. Hefur því þótt ástæða til að gera reglurnar skýrari um framkvæmdina.
    Í gildandi lögum er fyrirtækjum gert að tilkynna um fyrirhugaða vinnslustöðvun með a.m.k. þriggja sólarhringa fyrirvara. Eðli málsins samkvæmt má gera ráð fyrir að erfitt geti verið að sjá fyrir vinnslustöðvun vegna hráefnisskorts með margra daga fyrirvara þar sem ýmislegt getur breyst á stuttum tíma. Þess vegna er lagt til í ljósi tækninnar að fiskvinnslufyrirtæki tilkynni skriflega um vinnslustöðvun með eins sólarhrings fyrirvara enda má gera ráð fyrir að fyrirtæki viti með vissu hvort vinnslustöðvun verði með svo skömmum fyrirvara. Er til dæmis unnt að tilkynna Vinnumálastofnun um stöðvunina með rafrænum hætti eða myndsendi. Þannig er Vinnumálastofnun kunnugt um hvenær vinnslustöðvun hefst sem telst mikilvægt í því skyni að auðvelda eftirlit með framkvæmd laganna.
    Þá er lagt til að Vinnumálastofnun greiði fyrirtækjum úr Atvinnuleysistryggingasjóði þegar öll nauðsynleg gögn liggja fyrir en ekki vikulega meðan á vinnslustöðvun stendur. Raunin hefur verið sú að hver vinnslustöðvun hefur staðið yfir í tiltölulega stuttan tíma þannig að fyrirtækin hafa fengið greiðslurnar eftir að vinnsla hefur hafist á ný og umsóknir borist Vinnumálastofnun. Er því einungis verið að færa lögin til samræmis við þá framkvæmd sem hefur þróast í gegnum árin. Í samræmi við framangreint er því jafnframt lagt til að síðari málsliður 2. mgr. falli brott. Gert er ráð fyrir að fyrirtækin staðfesti tilkynningu um vinnslustöðvun með umsókn um greiðslur innan mánaðar frá því að vinnslustöðvun hófst. Er þá mikilvægt að nauðsynleg gögn fylgi með umsókninni svo unnt sé að inna greiðslurnar af hendi til fyrirtækjanna svo fljótt sem mögulegt er. Enn fremur er lagt til að fyrirtæki verði af rétti sínum til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði að því er varðar tiltekna vinnslustöðvun sinni það ekki þeirri skyldu sinni að skila inn umsókn ásamt tilheyrandi gögnum innan þriggja mánaða frá því að vinnslustöðvunin hófst. Er þetta gert í því skyni að koma í veg fyrir að umsóknir og nauðsynleg gögn berist Vinnumálastofnun löngu eftir umrædda vinnslustöðvun. Þykir það aukið hagræði í framkvæmd ef umsóknir berast stofnuninni jafnt og þétt yfir árið. Er enn fremur mikilvægt að ekki líði of langur tími frá vinnslustöðvun svo unnt verði að viðhalda virku eftirliti með framkvæmd laganna.
    Í b-lið er lagt til að í stað orðanna „Skrifstofa Atvinnuleysistryggingasjóðs“ í 2. mgr. komi orðið „Vinnumálastofnun“. Þessi breyting er í samræmi við 19. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, þar sem kveðið er á um að Vinnumálastofnun annist sjóðsvörslu, reikningshald og daglega afgreiðslu fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð í umboði sjóðstjórnar.

Um 3. gr.

    Að því er varðar a-lið er vísað til skýringa við 2. gr. frumvarps þessa.
    Gert er ráð fyrir að 2. mgr. verði efnislega samhljóða 2. mgr. 3. gr. laganna en í stað atvinnuleysisskráningaraðila og Atvinnuleysistryggingasjóðs verði Vinnumálastofnun veitt þessi heimild. Í ljósi þess að um getur verið að ræða viðkvæmar upplýsingar er lagt til að sérstök áhersla verði lögð á að starfsmenn Vinnumálastofnunar fari með þær upplýsingar sem þeir komast að við framkvæmd laganna sem trúnaðarmál, hvort sem um er að ræða persónubundnar upplýsingar um starfsmenn eða upplýsingar sem lúta að fyrirtækinu sjálfu.
    Þá er lagt til að kveðið verði skýrt á um heimildir Vinnumálastofnunar um að krefja fyrirtæki um endurgreiðslu í þeim tilvikum er það hefur fengið hærri fjárhæðir úr Atvinnuleysistryggingasjóði en það hefur átt rétt á samkvæmt lögunum á grundvelli rangra eða ófullnægjandi upplýsinga. Enn fremur er talið mikilvægt að í þeim tilvikum er fyrirtæki endurgreiðir ekki ofgreiddar fjárhæðir hafi Vinnumálastofnun heimildir til skuldajafnaðar við greiðslur er sama fyrirtæki getur átt rétt á vegna síðari vinnslustöðvana. Áfram er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra setji nánari reglur um hvaða gögn skulu fylgja umsókn fyrirtækis sem sækir um greiðslur samkvæmt lögunum.

Um 4. gr.

    Ákvæði þetta þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 51/1995,
um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.

    Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2004 en þar er gert ráð fyrir að breyting verði gerð á greiðslum Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Lagt er til að heimilt verði að greiða dagpeninga fyrir starfsmann sem orðið hefur verkefnalaus vegna vinnslustöðvunar allt að 20 greiðsludaga í stað 30 og aldrei lengur en 30 greiðsludaga í stað 60 á hverju almanaksári. Enn fremur er lagt til að dagpeningar verði ekki greiddir fyrir tvo fyrstu daga hvors árshelmings. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar sem skýra þær reglur er gilda um tilkynningu og umsókn fyrirtækja er rétt eiga á greiðslum samkvæmt lögunum og breytingar sem leiða til aukins eftirlits.
    Gert er ráð fyrir að frumvarpið ásamt auknu eftirliti leiði til lækkunar útgjalda Atvinnuleysistryggingasjóðs sem nemur um 65–70 m.kr. á ári.