Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 432. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 598  —  432. mál.




Beiðni um skýrslu



frá dómsmálaráðherra um gerendur í kynferðisbrotamálum og meðferðarúrræði þeim til handa.

Frá Guðrúnu Ögmundsdóttur, Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, Ástu R. Jóhannesdóttur, Guðmundi Árna Stefánssyni, Valdimar L. Friðrikssyni, Önundi S. Björnssyni,


Björgvini G. Sigurðssyni, Ágústi Ólafi Ágústssyni og Bryndísi Hlöðversdóttur.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum, er þess óskað að dómsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um gerendur í kynferðisbrotamálum og meðferðarúrræði þeim til handa.
    Í skýrslunni komi eftirfarandi fram:
     1.      Hversu margir hafa verið dæmdir fyrir kynferðisbrot sl. fimm ár, á hvaða aldri eru þeir sem hafa verið dæmdir, á hvaða aldri eru þolendur og af hvaða kyni eru þeir og hversu margir hafa verið dæmdir oftar en einu sinni fyrir kynferðisbrot:
              a.      á Íslandi,
              b.      annars staðar á Norðurlöndum,
              c.      í Bretlandi?
     2.      Eru sérstök meðferðarúrræði í fangelsum þeim til handa sem hafa verið dæmdir fyrir kynferðisbrot:
              a.      á Íslandi,
              b.      annars staðar á Norðurlöndum,
              c.      í Bretlandi?
     3.      Hvernig er meðferð háttað á Norðurlöndum og í Bretlandi:
              a.      Fer hún fram í fangelsi eða utan þess, á meðan verið er að afplána dóm eða eftir að afplánun er lokið?
              b.      Eru einhver skilyrði sett fyrir því að komast í slíka meðferð og ef svo er, hver?
              c.      Geta dómstólar dæmt menn til slíkrar meðferðar og ef ekki, hverjir leggja þá meðferðina til?
              d.      Hversu margir hafa gengist undir slíka meðferð sl. fimm ár?
              e.      Á hvaða aldri eru þeir sem hafa gengist undir slíka meðferð?
              f.      Hvernig er skiptingin á milli sakhæfra og ósakhæfra?
              g.      Eru mismunandi úrræði fyrir sakhæfa og ósakhæfa einstaklinga?
     4.      Hvers konar meðferð hefur reynst best og hvernig þá:
              a.      sérhæfð meðferð,
              b.      meðferðarviðtal hjá geðlækni eða sálfræðingi,
              c.      hópmeðferð eða lyfjameðferð?
     5.      Hafa verið gerðar rannsóknir á árangri meðferðar og ef svo er, hverjar eru niðurstöður þeirra?
     6.      Hefur verið framkvæmt sérstakt áhættumat vegna einstaklinga og meðferð viðkomandi tekið mið af því?
     7.      Hver fylgir því eftir að þeir sem dæmdir hafa verið til að fara í meðferð geri það?
     8.      Eru einhver sérstök meðferðarúrræði fyrir unga gerendur og ef svo er, hver eru þau og á hvers vegum eru þau (dómstóla, fangelsa, barnaverndar o.s.frv.)?