Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 433. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 599  —  433. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á stöðu kornræktar á Íslandi.

Flm.: Önundur S. Björnsson.



    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að skipa fimm manna nefnd til að kanna með hvaða hætti megi stórauka kornrækt til fóðurgerðar á Íslandi, þannig að hún verði samkeppnisfær við niðurgreitt innflutt korn. Nefndin geri tillögur um hve mikið korn sé raunhæft að rækta innan lands og hvað þurfi til svo að hægt sé að stunda kornrækt sem aðalbúgrein. Þá leggi nefndin mat á hagkvæmni þess að rækta fóðurkorn á Íslandi og gildi þess fyrir atvinnulífið.
    Nefndin skili tillögum fyrir 1. nóvember 2004.

Greinargerð.


    Kornrækt hefur verið stunduð í áratugi á Íslandi, gengið vel og sannað sig. Miklir vaxtarmöguleikar eru í fóðurkornsframleiðslu og hefur greinin alla burði til þess að vera sjálfstæð búgrein en til þess þarf hún að verða samkeppnisfær við innflutta framleiðslu. Þannig verða kornbændur að geta selt framleiðslu sína á samkeppnishæfu verði miðað við niðurgreidda innflutta framleiðslu.
    Hér nýtur greinin lítils stuðnings og er stunduð sem hliðarbúgrein bænda sem framleiða mjólk og rækta korn fyrir búpeninginn. Bændur sem gætu stundað kornrækt sem aukabúgrein og selt öðrum eru ekki samkeppnisfærir því að innflutt korn er nú selt á 15–17 kr./kg. Þeir þurfa að fá u.þ.b. 24 kr. fyrir hvert kg. Erlendis fá kornbændur styrki til framleiðslunnar og geta þess vegna selt korn til annarra landa á verði sem ekki er hægt að keppa við hérlendis.
    Korn var ræktað á um 2.400 hekturum sl. sumar og hefur kornuppskera aldrei verið meiri á Íslandi eða u.þ.b. 9.000 tonn. Rannsóknastofnun landbúnaðarins telur ræktanlegt land sem hentar til kornræktar vera um 600.000 ha.
    Efling greinarinnar er þjóðfélagslega hagkvæm bæði þegar litið er til gjaldeyrissparnaðar og landnýtingar. Hún eykur fjölbreytni atvinnulífs í byggðum landsins og atvinnumöguleika bænda að sama skapi. Um leið eru færð störf til íslenskra bænda.