Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 434. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 602  —  434. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um kirkjugripi.

Flm.: Önundur S. Björnsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa fimm manna nefnd til að vinna að því að kirkjugripum í vörslu Þjóðminjasafnsins verði skilað í kirkjurnar þar sem þeir voru upphaflega eða þeir afhentir söfnum heima í héraði. Nefndin hugi m.a. að því hvaða munir gætu stuðlað að menningartengdri ferðaþjónustu á viðkomandi stað.

Greinargerð.


    Listbúnaður í kirkjum er mikilvæg umgjörð alls helgihalds. Kirkjur hafa eignast dýrmæta gripi sem fólk hefur gefið af góðum hug. Gripirnir auðga kirkjurnar, bæði í augum sóknarbarna og ferðamanna. Áður fyrr, einkum í lok nítjándu aldar og á fyrri hluta tuttugustu aldar, voru margir merkir gripir teknir úr kirkjum og settir á söfn þar sem þeir hafa verið varðveittir. Allt frá upphafi 20. aldar hafa aðilar á vegum Þjóðminjasafnsins safnað eða jafnvel numið á brott muni sem kirkjur víða um land hafa átt. Mörgu hefur verið bjargað með því móti, ekki síst þar sem flestar kirkjur voru vanbúnar til að varðveita dýrmæta listgripi. Nú er öldin önnur, núorðið eru kirkjur yfirleitt vel byggðar og þeim vel við haldið, þeirra er yfirleitt vel gætt og vel hugsað um kirkjugripina. Ýmsir kirkjugripir hafa mikið aðdráttarafl og fólk vill njóta þeirra í réttu umhverfi. Æskilegt er að greiða fyrir því að gripir sem varðveittir hafa verið á söfnum komist aftur á upprunalegan stað óski heimamenn þess og verði því við komið.
    Um þetta segir dr. Sigurbjörn Einarsson biskup í bókinni Haustdreifar (bls. 86–87): „Íslendingar hafa á sumum sviðum verið furðu hirðulausir og slysagjarnir í meðferð arfhelgra verðmæta. Og þegar menn fóru að skilja að kirkjugripir geta verið ómetanlega dýrmætir, varð stefnan sú að svipta þeim úr augsýn fólksins og hrúga þeim saman á einum stað, á safni í Reykjavík. Segja má að þetta hafi verið ill nauðsyn. Án efa hafa munir með þessu móti bjargast úr klóm erlendra og innlendra kirkjuræningja og úr loppnum lúkum umsjármanna, fátækra jafnt að augum og smekkvísi. Það ber að þakka. En stefnan er röng allt um það og fráleit nú á dögum. Nothæfir kirkjulegir listmunir frá fyrri tíð eiga sem flestir að varðveitast í kirkjum, þeim til nota og yndis, sem þangað koma og þeir eru stórum fleiri en hinir, sem sækja söfn sér að gagni. Það hlýtur að vera hin eina eðlilega, opinbera stefna, að helgidómar landsins njóti þeirrar virðingar og aðhlynningar, að dýrgripir sem þeim hafa verið lagðir af góðum hug og menningarlegum metnaði, fái að vera þar óhultir og gegna með því sínu rétta hlutverki.“
    Einnig fjallar Björn Th. Björnsson um málið í greininni Dæmið Bessastaða í afmælisriti Vigdísar Finnbogadóttur, Yrkju.
    Lagt er til að meðal nefndarmanna verði dr. Gunnar Kristjánsson, prófastur Kjalnesinga, og Þorgeir Ólafsson, listfræðingur, frá menntamálaráðuneyti.