Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 442. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 613  —  442. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á löggjöf um hugverkaréttindi á sviði iðnaðar vegna rafrænnar útgáfu ELS- tíðinda.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



Breyting á lögum nr. 46/2001, um hönnun, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 18. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
    Heimilt er að gefa ELS-tíðindi út og dreifa þeim á rafrænan hátt, þar á meðal á netinu.

Breyting á lögum nr. 45/1997, um vörumerki, með síðari breytingum.
2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      Lokamálsliður orðast svo: Vörumerki skulu birt í ELS-tíðindum sem Einkaleyfastofan gefur út.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
             Heimilt er að gefa ELS-tíðindi út og dreifa þeim á rafrænan hátt, þar á meðal á netinu.

Breyting á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum.
3. gr.

    Á eftir 69. gr. laganna kemur ný grein, 69. gr. a, sem orðast svo:
    Allar auglýsingar og tilkynningar af hálfu Einkaleyfastofunnar, sem kveðið er á um í lögum þessum og birtar skulu almenningi, eru birtar í ELS-tíðindum sem Einkaleyfastofan gefur út.
    Heimilt er að gefa ELS-tíðindi út og dreifa þeim á rafrænan hátt, þar á meðal á netinu.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á lögum nr. 46/2001, um hönnun, lögum nr. 45/1997, um vörumerki, og lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, að heimilt verði að gefa ELS-tíðindi út á rafrænan hátt og dreifa þeim á netinu.
    ELS-tíðindi hafa að geyma allar tilkynningar varðandi umsóknir og skráningar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar sem Einkaleyfastofunni er falið að birta almenningi lögum samkvæmt. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð fer birting sambærilegra tíðinda, er varða hugverkarétt á sviði iðnaðar, nú þegar fram með rafrænum hætti.
    Einkaleyfastofan hefur birt ELS-tíðindi á netinu samhliða hinni prentuðu útgáfu frá árinu 2001, nánar tiltekið á vefsíðu Einkaleyfastofunnar á slóðinni www.els.is. Þannig er nú öll tölublöð ELS-tíðinda frá október 1990 að finna á framangreindri vefsíðu. Sú reynsla, sem fengin er af útgáfu ELS-tíðinda á netinu, hefur verið góð.
    Með breytingum, sem gerðar voru árið 2002 á lögum nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, var lögfest sú heimild að gefa Lögbirtingablað út með framangreindum hætti. Í greinargerð með frumvarpi breytingalaganna segir m.a.: „Rafræn miðlun upplýsinga er í senn skilvirk og ódýr leið til að koma upplýsingum á framfæri, auk þess sem hún er betur til þess fallin að ná því markmiði birtingar að efni, sem á erindi við allan almenning, verði kunnugt og aðgengilegt.“ Verður að telja að sömu rök eigi við um útgáfu ELS-tíðinda.
    Aðgangur Íslendinga að tölvum og jafnframt netinu hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár. Sér í lagi er notkun þessi mikil á tæknisviðum, í rannsókna- og þróunarstarfi og á sviði viðskipta. Á þessum sviðum eru hugverkaréttindi einmitt hvað mest notuð. Verði útgáfa ELS-tíðinda eingöngu rafræn geta þeir sem þess óska áfram keypt útprentun af tíðindunum gegn greiðslu kostnaðar af útprentun þeirra og sendingu.
    Með hliðsjón af framangreindu þykja nú hafa skapast skilyrði til að leysa hina prentuðu útgáfu ELS-tíðinda af hólmi með rafrænni birtingu á netinu.
    Ekki er gert ráð fyrir að breyting þessi hafi áhrif á útgáfuna að öðru leyti. Sérstaklega skal tekið fram að ekki er gert ráð fyrir breytingum að því er varðar réttaráhrif þeirra tilkynninga sem birtar eru í tíðindunum. Þannig mun birting í tíðindunum miðast við tilgreindan útgáfudag þegar þeim er dreift á netinu með sama hætti og hún er nú miðuð við tilgreindan dag þegar blaðið fer í dreifingu frá prentsmiðju.
    Ef frumvarp þetta verður að lögum mun kostnaður við útgáfu ELS-tíðinda lækka töluvert, þar eð útprentunar- og dreifingarkostnaður verður í lágmarki. Þá munu ELS-tíðindi berast notendum fyrr, sem nemur þeim tíma sem annars tekur að dreifa tíðindunum og lengir því þann tíma sem þeir hafa t.d. til að koma fram með andmæli við skráningum frá birtingardegi. Að lokum skal bent á þann umhverfisvæna þátt sem rafræn birting hefur í för með sér.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á löggjöf um hugverkaréttindi
á sviði iðnaðar vegna rafrænnar útgáfu ELS-tíðinda.

    Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum nr. 46/2001, um hönnun, lögum nr. 45/ 1997, um vörumerki, og lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, þar sem Einkaleyfastofu er veitt heimild til að gefa út allar tilkynningar varðandi umsóknir og skráningar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar sé fært rafrænt og birt á vefnum (ELS-tíðindi). Ef frumvarpið verður að lögum má gera ráð fyrir að útgáfukostnaður Einkaleyfastofu lækki um 1,5 m.kr. á ári. Stofnunin er fjármögnuð með eigin tekjum og því er ekki gert ráð fyrir viðbótarkostnaði úr ríkissjóði vegna frumvarpsins.