Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 11. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 616  —  11. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneytinu og Indriða H. Þorláksson ríkisskattstjóra.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Ríkisútvarpinu, Alþýðusambandi Íslands, Kennarasambandi Íslands, ríkisskattstjóra, Neytendasamtökunum og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að virðisaukaskattur af hljóðbókum verði lækkaður úr 24,5% í 14% sem er sama skatthlutfall og leggst á bækur almennt. Sanngirnisrök styðja þessa breytingu.
    Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Önnur miðar að því að skýra nánar hvað átt sé við með hljóðbók þannig að það valdi ekki vafa í framkvæmd. Lagt er til að ákvæðið verði takmarkað við hljóðupptökur af lestri bóka sem í ákvæðinu greinir. Jafnframt þykir rétt að gildistaka frumvarpsins falli saman við uppgjörstímabil virðisaukaskattsins og er því lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar nk.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:

     1.      Efnisliður 1. gr. orðist svo: Sala bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, sem og hljóðupptökur af lestri slíkra bóka.
     2.      2. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2004.

    Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. des. 2003.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Gunnar Birgisson.



Birgir Ármannsson.


Páll Magnússon.


Lúðvík Bergvinsson.



Ögmundur Jónasson.