Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 400. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 618  —  400. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneytinu, Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneytinu, Ólaf Kjartansson frá Úrvinnslusjóði, Runólf Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum, Óskar Maríusson frá Samtökum atvinnulífsins, Ögmund Einarsson frá Sorpu og Kjartan Valgarðsson frá Gámaþjónustunni.
    Þá óskaði nefndin umsagnar umhverfisnefndar um málið og fylgir umsögn hennar áliti þessu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fjárhæðum úrvinnslugjalds, álagningu skilagjalds og nýjar gjaldskyldar vörur. Nefndin leggur til eina breytingu á frumvarpinu samkvæmt ábendingu umhverfisnefndar, sbr. umsögn hennar um frumvarpið.
    Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    3. gr. orðist svo:
    Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum orðast svo:
    Leggja skal úrvinnslugjald á veiðarfæri úr gerviefnum og pappírs-, pappa- og plastumbúðir frá 1. janúar 2005.

    Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. des. 2003.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Gunnar Birgisson.



Birgir Ármannsson.


Páll Magnússon.


Lúðvík Bergvinsson.



Ögmundur Jónasson.





Fylgiskjal.


Umsögn



    Umhverfisnefnd hefur borist bréf efnahags- og viðskiptanefndar, dags. 5. desember sl., þar sem óskað er álits nefndarinnar á umhverfisþætti 400. máls, frumvarps til breytinga á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002.
    Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneyti, Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti og Ólaf Kjartansson frá Úrvinnslusjóði.
    Í frumvarpinu er m.a. lagt til að gjaldtöku vegna veiðarfæra verði frestað um eitt ár en samhliða eru lagðar til breytingar á lögunum þannig að fjallað er um veiðarfæri í 8. gr. sem vöru sem úrvinnslugjald er greitt af og tollnúmer þeirra færð í viðauka. Umrætt ákvæði um að taka inn úrvinnslugjald á veiðarfæri lagði umhverfisnefnd til á 128. löggjafarþingi þegar frumvarp til laga um úrvinnslugjald, nú lög nr. 162/2002, var til umfjöllunar hjá nefndinni. Einnig er lagt til að álagningu úrvinnslugjalds á pappírs-, pappa- og plastumbúðir verði frestað ótímabundið. Í athugasemdum með frumvarpinu er tekið fram að það krefjist töluverðs undirbúnings að hefja gjaldtöku af þessum vöruflokkum, m.a. vegna þess hve víða þeir koma fyrir í vöruframleiðslu og innflutningi. Við fyrstu umræðu um málið kom fram hjá fjármálaráðherra að stefnt sé að því að flytja nýtt frumvarp á þessu þingi þar sem þessum vöruflokkum verði bætt við lögin. Við umfjöllun málsins í nefndinni kom jafnframt skýrt fram hjá fulltrúum ráðuneytanna og Úrvinnslusjóðs að unnið sé að undirbúningi þess að bæta viðkomandi vöruflokkum í hóp vöruflokka sem úrvinnslugjald er greitt af.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæði til bráðabirgða III þannig að úrvinnslugjaldi á veiðarfæri er frestað um eitt ár en ákvæði sömu greinar um að leggja skuli úrvinnslugjald á pappírs-, pappa- og plastumbúðir er fellt brott. Telur nefndin að með því sé frestunin á því að leiða þennan vöruflokk í lög orðin ótímabundin. Nefndin leggur til að þessu verði breytt þar sem hún telur rétt að miðað sé við tiltekinn tímafrest og er lagt til að miðað verði við að úrvinnslugjald verði lagt á þessa vöruflokka frá 1. janúar 2005. Jafnframt eru lagðar til lagfæringar á ákvæðinu þar sem óþarfi er að tiltaka í ákvæði til bráðabirgða að leggja skuli úrvinnslugjald á heyrúlluplast frá 1. janúar 2004 því að lögin skulu öðlast gildi frá og með þeim tíma og heyrúlluplastið fellur þar undir. Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi breytingu:

    3. gr. frumvarpsins orðist svo:
    Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum orðast svo:
    Leggja skal úrvinnslugjald á veiðarfæri úr gerviefnum og pappírs-, pappa- og plastumbúðir frá 1. janúar 2005.

    Sigurjón Þórðarson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 8. des. 2003.


Sigríður A. Þórðardóttir, form.
Dagný Jónsdóttir, varaform.
    Bryndís Hlöðversdóttir.
Kolbrún Halldórsdóttir.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Gunnar Birgisson.
Mörður Árnason.
Kjartan Ólafsson.