Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 306. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 626  —  306. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum l. á orkusviði.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Bjarnason og Pétur Örn Sverrisson frá iðnaðarráðuneyti, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, Þórð Skúlason, Jón Jónsson og Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá hafa borist umsagnir um málið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Samtökum iðnaðarins, Norðurorku, Rafmagnsveitum ríkisins, Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjun og Samtökum atvinnulífsins.
    Með frumvarpinu er ætlunin að samræma sérákvæði ýmissa laga á orkusviði um skyldu orkufyrirtækjanna til greiðslu fasteignaskatta svo að hún verði eins og fyrir þá breytingu sem gerð var á 80. gr. orkulaga, nr. 58/1967, með 3. gr. laga nr. 78/2001. Með breytingunni voru hita- og rafveitur með einkaleyfi til starfsemi samkvæmt lögunum undanþegnar tekjuskatti, útsvari, aðstöðugjaldi, stimpilgjaldi og öðrum sköttum til ríkis, sveitar- og bæjarfélaga með sama hætti og Orkustofnun, Rafmagnsveitur ríkisins, Rafmagnseftirlit ríkisins og jarðboranir ríkisins. Fyrirmyndin er fengin úr lögum um Landsvirkjun og hefur nefndin verið upplýst um að framkvæmd þeirra hefur verið sú að greitt er af öllum metnum fasteignum samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna þó að í ákvæðinu sé einungis húseignir tilgreindar.
    Nefndin telur texta frumvarpsins ekki nægilega skýran miðað við þau markmið að orkufyrirtækin skuli greiða fasteignaskatta af öllum metnum fasteignum samkvæmt lögum um mat á fasteignum eins og framkvæmdin var áður en orkulögunum var breytt og leggur því til að talað verði um fasteignir í frumvarpinu í stað húseigna. Nefndin tekur skýrt fram að ætlunin með frumvarpi þessu er að endurheimta það réttarástand sem var fyrir gildistöku laga nr. 78/2001. Því ber að skýra þær greinar sem frumvarpi þessu er ætlað að breyta á þann veg að skylda til greiðslu fasteignagjalda nái einungis til eigna sem skylt var að greiða fasteignagjöld af fyrir gildistöku laga nr. 78/2001 og eigna sem eru fullkomlega sambærilegar en eru tilkomnar eftir gildistöku þeirra. Seinni breytingin varðar einungis samræmingu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:

          1.      Við 1. gr. Í stað orðsins „húseignum“ í 1. mgr. og í stað sama orðs í öðrum ákvæðum frumvarpsins komi: fasteignum.
          2.      Við 3. gr. Í stað orðsins „svohljóðandi“ komi: er verður 2. málsl., svohljóðandi.

    Einar Oddur Kristjánsson og Björgvin G. Sigurðsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Hlynur Hallsson sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 9. des. 2003.



Kristinn H. Gunnarsson,


form., frsm.


Bjarni Benediktsson.


Kristján L. Möller.



Ásta R. Jóhannesdóttir.


Sigurjón Þórðarson.


Sigurður Kári Kristjánsson.



Birgir Ármannsson.