Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 454. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 648  —  454. mál.




Skýrsla



iðnaðarráðherra til Alþingis um niðurstöður 1. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



    Ríkisstjórnin samþykkti á árinu 1997 framkvæmdaáætlun um umhverfismál sem nefnd var Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Framkvæmdaáætlun til aldamóta. Þar segir m.a. að iðnaðarráðherra skuli í samráði við umhverfisráðherra láta gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Markmið áætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls sem háhita, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði.
    Á fyrri hluta árs 1999 skipaði iðnaðarráðherra sérstaka verkefnisstjórn og faghópa til að vinna að gerð rammaáætlunar.
    Hlutverk verkefnisstjórnar hefur verið að hafa með höndum heildarstjórn við mótun áætlunarinnar og skipulag við framkvæmd hennar og hafa umsjón með hinni faglegu vinnu. Þá hefur verkefnisstjórn flokkað virkjunarkosti með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, áhrifa þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar, svo og á aðra landnýtingu, og staðið jafnframt fyrir samráði og kynningu verkefnisins.
    Fagleg vinna hefur verið unnin í fjórum faghópum, sem farið hafa yfir virkjunarkosti hver frá sínum sjónarhóli. Hóparnir eiga að meta virkjunarkostina með stigagjöf og gera tillögur til verkefnisstjórnarinnar. Hóparnir eru skipaðir sérfræðingum á eftirtöldum sviðum:
          náttúru- og minjavernd,
          útivist og hlunnindi,
          þjóðhagsmál, atvinnulíf og byggðaþróun,
          nýting orkulinda.
    Vinnu við 1. áfanga rammaáætlunar er nú lokið og var niðurstöðum skilað til iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra ásamt viðaukum 27. nóvember sl. þar sem gerð er grein fyrir meginniðurstöðum áætlunarinnar og bent á not sem hafa má af þeim.
    Á grundvelli mats faghópanna hefur verkefnisstjórnin flokkað 35 virkjunarhugmyndir í fimm flokka (a til e) eftir umhverfisáhrifum, aðra fimm eftir heildarhagnaði og fimm eftir arðsemi. Um þessa flokkun eru gerðir fyrirvarar vegna takmarkaðra gagna, einkum varðandi umhverfisáhrif, en einnig um heildarhagnað og arðsemi í þeim tilvikum þar sem frumáætlanir eru skammt á veg komnar.
    Líta má á niðurstöður 1. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem grunn fyrir mat á frumáætlunum virkjana, bæði hagkvæmni þeirra og helstu umhverfisáhrif. Stjórnvöld geta nýtt niðurstöðurnar sem grundvöll að stefnumörkun í orku- og náttúruverndarmálum, sbr. framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar frá 1997. Iðnaðarráðherra mun geta notfært sér niðurstöðurnar við stefnumörkun í frumrannsóknum ríkisins í orkumálum og við útgáfu rannsóknar- og nýtingarleyfa nýrra virkjana. Þá gagnast niðurstöðurnar stjórnvöldum við mat á umhverfisáhrifum skipulagsáætlana og margs konar skipulagsvinnu ríkis og sveitarfélaga. Líklegt er talið að þær rannsóknaraðferðir og niðurstöður á náttúrufari landsins er hafa mótast við vinnu rammaáætlunar muni gagnast við hvers konar grunnrannsóknir á umhverfi og náttúru landsins til frambúðar. Orkufyrirtækin og Orkustofnun geta við ákvörðun um rannsóknir á einstökum virkjunarkostum nýtt sér niðurstöður rammaáætlunar með því að velja vænlega kosti sem litlar líkur eru á að valdi umtalsverðum umhverfisáhrifum né deilum.
    Ákveðin kaflaskil verða nú að loknum 1. áfanga rammaáætlunar. Með þessum niðurstöðum hefur verkefnisstjórn náð því markmiði að leggja grundvöll að forgangsröðun virkjunarkosta þessa áfanga eins og henni var falið að gera. Hafa verður þó í huga að þekking á virkjunarkostum sem teknir voru til skoðunar er í mörgum tilvikum ekki fullnægjandi. Það er því mikilvægt að afla á næstu árum frekari þekkingar um þessa virkjunarkosti og endurmeta þá. Þá eru ókannaðar margar virkjunarhugmyndir sem nauðsynlegt er að huga að við næsta áfanga rammaáætlunar til að fá heildstætt yfirlit yfir möguleika þjóðarinnar til orkuöflunar með vatnsafli og jarðvarma í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
    Á næstu 3–4 árum er áformað að vinna að rannsóknum vegna næsta áfanga rammaáætlunar. Núverandi verkefnisstjórn og faghópar hafa með þessum áfanga lokið hinu umfangsmikla verkefni sínu sem mun nýtast við gerð næsta áfanga áætlunarinnar. Áformað er að þeirri vinnu verði stýrt af fámennari verkefnisstjórn sem skipuð yrði fulltrúum iðnaðar- og umhverfisráðuneyta auk helstu hagsmunaaðila. Sú vinna yrði byggð á þeim grunni er lagður hefur verið með aðferðafræði og niðurstöðum 1. áfanga verkefnisstjórnar.


Niðurstöður 1. áfanga rammaáætlunar.



Skýrsla verkefnisstjórnar um gerð rammaáætlunar


um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.