Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 186. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 664  —  186. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið.
    Í frumvarpinu er lagt til að reglur um þingfararkostnað, þ.e. húsnæðis- og dvalarkostnað, alþingismanna sem búsettir eru á Suðurnesjum verði þær sömu og gilda um aðra þingmenn Suðurkjördæmis. Nefndin telur þetta eðlilegt með hliðsjón af því að með breytingu á kjördæmaskipan árið 1999 og nýjum kosningalögum, nr. 24/2000, var Reykjaneskjördæmi skipt þannig að Suðurnes, Reykjanes sunnan Straumsvíkur og eldra Suðurlandskjördæmi mynda nú Suðurkjördæmi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að tekinn verði af allur vafi um það hvaða svæði falla undir hugtakið „Reykjavík og nágrenni“ með því að tilgreina í staðinn Reykjavíkurkjördæmi suður og norður og Suðvesturkjördæmi.
     2.      Lagt er til að um rétt alþingismanna til launa í fæðingar- og foreldraorlofi fari samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000. Þegar gildandi lög um þingfararkaup og þingfararkostnað voru sett árið 1995 var fyrst tekið inn ákvæði um rétt alþingismanna til launa í fæðingarorlofi. Höfð var hliðsjón af réttindum opinberra starfsmanna sem þá nutu óskertra fastra launa í fæðingarorlofi en nokkurrar skerðingar á yfirvinnugreiðslum. Því var talið rétt að alþingismenn héldu óskertu þingfararkaupi enda engar yfirvinnugreiðslur fyrir hendi. Eftir breytinguna munu alþingismenn fá 80% af þingfararkaupi og öðrum greiðslum sem teljast til launa, t.d. starfskostnaði eins og aðrir á vinnumarkaði. Samkvæmt núgildandi lögum halda alþingismenn föstum kostnaðargreiðslum óskertum. Nefndin telur það ekki í samræmi við anda nýju laganna. Nefndin telur þó nauðsynlegt að taka tillit til þeirra alþingismanna sem halda tvö heimili og fá í því skyni álag á húsnæðis- og dvalarkostnað. Þótt eðlilegt sé að ætla að þeir alþingismenn sem álags njóta beri ekki með sama hætti og áður útgjöld við tvöfalt heimilishald meðan á fæðingarorlofi stendur þurfa þeir að standa undir rekstrarkostnaði húsnæðisins. Því leggur nefndin til að grunngreiðsla húsnæðis- og dvalarkostnaðar haldi sér og verði ætlað að standa undir húsaleigu eða rekstri húsnæðis í fæðingarorlofi.
                  Lagt er til að ákvæði um slysa- og ferðatryggingar alþingismanna verði óbreytt frá gildandi lögum.
                  Nefndin telur að nauðsynlegt kunni að vera að kveða nánar á um ýmis atriði við framkvæmd reglna um fæðingar- og foreldraorlof, svo og um slysa- og ferðatryggingar. Því leggur nefndin til að forsætisnefnd geti sett nánari reglur um það atriði.
     3.      Þá telur nefndin eðlilegt að kveða á um það í bráðabirgðaákvæði að hinar nýju reglur um fæðingar- og foreldraorlof gildi aðeins um þá alþingismenn sem nýti sér réttinn framvegis; reglurnar skerði því ekki rétt þeirra þingmanna sem nú eru í fæðingar- eða foreldraorlofi eða eiga nú rétt til þess en hafa ekki enn nýtt sér hann.
    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 11. des. 2003.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Jónína Bjartmarz.



Birgir Ármannsson.


Lúðvík Bergvinsson.


Sigurjón Þórðarson.



Sigurður Kári Kristjánsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.