Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 464. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 672  —  464. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Liðurinn Reiðhjól orðast svo:
        a.    Ökutæki, sem knúið er áfram með stig- eða sveifarbúnaði og eigi er eingöngu ætlað til leiks.
        b.    Vélknúinn hjólastóll, sem eigi er hannaður til hraðari aksturs en 15 km á klst. og verður einungis ekið hraðar með verulegri breytingu.
        c.    Lítil vél- eða rafknúin farartæki, sem eigi eru hönnuð til hraðari aksturs en 15 km á klst. Undir þessa skilgreiningu fellur m.a. vélknúið hlaupahjól, sem búið er stigbretti, er á tveimur hjólum og með stöng að framan sem á er stýri. Slíkum farartækjum má ekki aka á akbraut.
     b.      Við liðinn Torfærutæki bætist nýr stafliður er orðast svo: Vélknúið ökutæki sem aðallega er ætlað til vöruflutninga utan vega, er a.m.k. á fjórum hjólum og innan við 550 kg að eigin þyngd án rafgeyma sé það rafknúið.

2. gr.

    6. mgr. 44. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Á eftir 44. gr. laganna kemur ný grein, 44. gr. a, er orðast svo:
    Dómsmálaráðherra setur reglur um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, þar á meðal um:
     a.      notkun ökurita, sem er búnaður ökutækis þar sem skráðar eru og geymdar upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma ökumanns, hraða ökutækis og fleira,
     b.      skyldu til þess að varðveita í ökurita, á ökuritakorti eða með öðrum hætti upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma ökumanns og veita eftirlitsmanni aðgang að þeim upplýsingum þegar þess er óskað,
     c.      útgáfu, efni og form ökuritakorts, sem er lykill að rafrænum ökurita og geymir jafnframt rafrænar upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma ökumanns,
     d.      gjald fyrir ökuritakort.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður er orðast svo: Þeim er einnig heimilt að skoða upplýsingar sem varðveittar eru í ökurita ökutækis, á ökuritakorti eða með öðrum hætti.
     b.      Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Vegagerðin annast eftirlit með reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Sérstökum eftirlitsmönnum hennar er heimilt að stöðva ökutæki til þess að skoða upplýsingar sem varðveittar eru í ökurita ökutækisins, á ökuritakorti eða með öðrum hætti. Dómsmálaráðherra setur reglur um hæfi og starfsþjálfun eftirlitsmanna Vegagerðarinnar og setur þeim starfsreglur.

5. gr.

    71. gr. laganna orðast svo:
    Hver sá sem situr í sæti bifreiðar sem búið er öryggisbelti skal nota beltið þegar bifreiðin er á ferð.
    Ökumaður skal sjá um að í stað öryggisbeltis eða ásamt öryggisbelti noti barn viðurkenndan barnabílstól, beltispúða eða annan sérstakan öryggis- og verndarbúnað ætlaðan börnum lægri en 150 sm á hæð. Ef slíkur búnaður er ekki í bifreið skal nota öryggisbelti fyrir barnið.
    Barn sem er lægra en 150 sm á hæð má ekki vera farþegi í framsæti bifreiðar sem búin er uppblásanlegum loftpúða fyrir framan sætið.
    Barn yngra en þriggja ára má ekki vera farþegi í fólks-, sendi- eða vörubifreið nema hún sé með viðeigandi öryggis- og verndarbúnaði ætluðum börnum, sbr. 2. mgr.
    Eigi er skylt að nota öryggis- eða verndarbúnað þegar ekið er aftur á bak eða við akstur á bifreiðastæði, við bensínstöð, viðgerðarverkstæði eða svipaðar aðstæður.
    Ökumaður skal sjá um að farþegi yngri en 15 ára noti öryggis- og verndarbúnað skv. 1.–4. mgr.
    Dómsmálaráðherra er heimilt að setja reglur um notkun öryggis- eða verndarbúnaðar og um undanþágu frá skyldu til að nota slíkan búnað, m.a. við sérstakan akstur.

6. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 72. gr. laganna orðast svo: Hver sá sem er á bifhjóli eða torfærutæki sem er á ferð skal nota hlífðarhjálm ætlaðan til slíkra nota.

7. gr.

    Í stað orðanna „100.000 krónum“ í 1. málsl. 4. mgr. 100. gr. laganna kemur: 300.000 kr.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 102. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
                  Nú hefur stjórnandi ökutækis brotið gegn 45. gr. og vínandamagn í blóði hans er yfir 2‰ og vínandamagn í lofti fer yfir 1.000 milligrömm í lítra lofts og skal hann þá sviptur ökurétti eigi skemur en tvö ár.
     b.      3. mgr., er verður 4. mgr., orðast svo:
                  Nú hefur stjórnandi ökutækis áður brotið gegn ákvæðum 45. gr. eða neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. og hann gerist sekur um eitthvert þessara brota eða bæði brotin varða við ákvæði 2. mgr. 45. gr. og skal svipting ökuréttar þá eigi vera skemur en tvö ár. Ef einungis síðara brotið varðar við 3. mgr. 45. gr. skal svipting ökuréttar eigi vera skemur en þrjú ár. Ef bæði brotin varða við ákvæði 3. mgr. 45. gr. skal svipting ökuréttar eigi vera skemur en fimm ár.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 108. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr stafliður er orðast svo: ákvæðum um að færa ökutæki til skoðunar og á þeim reglum um skoðun ökutækja sem dómsmálaráðherra setur með stoð í 67. gr.
     b.      Í stað orðanna „gjalds þessa“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: gjalds skv. a–f-lið 1. mgr.
     c.      Í stað orðsins „gjaldsins“ í 3. málsl. 3. mgr. kemur: gjalds skv. a–f-lið 1. mgr.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Gjald vegna stöðvunarbrota o.fl.

10. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 109. gr. laganna kemur nýr málsliður er orðast svo: Gjald vegna vanrækslu á skoðun hvílir á eiganda eða umráðamanni ökutækis.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á umferðarlögum, nr. 50/1987, sem miða að bættu umferðaröryggi, einkum ákvæði um öryggis- og verndarbúnað barna. Þá miðar frumvarpið að innheimtu gjalda í stað sekta vegna vanrækslu á að færa ökutæki til skoðunar og að bættu eftirliti með aksturs- og hvíldartíma. Einnig er lagt til að svipting ökuréttar vegna ölvunar við akstur taki mið af áfengismagni í blóði og svipting vegna ítrekunar ölvunar við akstur verði lengd.
    Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að svokölluð vélknúin hlaupahjól verði talin til reiðhjóla. Vafi hefur ríkt um skilgreiningu slíkra tækja og hvaða reglur ættu að gilda um þau í umferðinni, enda um nýja tegund farartækja að ræða. Lagt er til að ekki megi aka vélknúnum hlaupahjólum á akbrautum enda mundi að öðrum kosti skapast af þeim augljós hætta.
    Tilefni breytinganna eru m.a. ábendingar og tillögur frá Umferðarstofu, ríkissaksóknara og lögreglunni í Reykjavík.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Á síðustu árum hafa verið að ryðja sér til rúms vél- eða rafknúin hlaupahjól. Þau hafa í einhverjum mæli verið flutt inn til landsins, en hin síðari ár hafa þau verið skilgreind sem létt bifhjól og hafa þau ekki fengist tollafgreidd hér á landi þar sem þau uppfylla ekki þau skilyrði sem gerð eru til léttra bifhjóla í reglugerð nr. 308/2003, um gerð og búnað ökutækja.
    Lagt er til að lítil vél- eða rafknúin farartæki, hvort sem þau eru knúin með rafmótor eða sprengihreyfli, sem ekki eru hönnuð til hraðari aksturs en 15 km á klst. verði skilgreind sem reiðhjól. Undir þá skilgreiningu falli m.a. vélknúin hlaupahjól.
    Ástæða þess er einkum sú að ef þau verða skilgreind sem létt bifhjól verða þau enn fremur vélknúið ökutæki og ber þá að fara með þau sem slík í almennri umferð. Vélknúin ökutæki eru skráningarskyld, þau þurfa að uppfylla skilyrði léttra bifhjóla í reglugerð um gerð og búnað ökutækja, taka þarf ökupróf til að stjórna vélknúnum ökutækjum, óheimilt er að nota vélknúin ökutæki annars staðar en á akbrautum í almennri umferð, þ.e. ekki er heimilt að aka þeim á gangstéttum, göngustígum og hjólreiðastígum. Bent er á að vél- eða rafknúin hlaupahjól sem ekki eru hönnuð til hraðari aksturs en 15 km á klst. eru of veigalítil tæki til að vera í almennri umferð og getur það skapað almenna slysahættu að skilgreina þau sem létt bifhjól. Verður því að telja eðlilegra að skilgreina þau sem reiðhjól.
    Í greininni er enn fremur lagt til að skilgreiningu á torfærutækjum verði breytt. Er það gert vegna innleiðingar á tilskipun 2002/24/EB, IV. viðauka, varðandi bifhjól. Skilgreiningunni hefur þegar verið breytt í reglugerð nr. 308/2003, um gerð og búnað ökutækja.

Um 2. og 3. gr.

    Lagt er til að 6. mgr. 44. gr. laganna um reglugerðarheimild ráðherra verði felld brott. Í stað hennar komi nýtt ákvæði, 44. gr. a, þar sem kveðið verði á um að ráðherra setji reglur um notkun rafrænna ökurita, skyldu til að nota ökurita og ökuritakort, að varðveita í ökurita, á ökuritakorti eða með öðrum hætti upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma ökumanns og veita eftirlitsmanni aðgang að þeim upplýsingum þegar þess er óskað. Enn fremur um útgáfu, efni og form ökuritakorta og gjald fyrir ökuritakort. Það ákvæði verður ítarlegra en 6. mgr. 44. gr. gildandi laga er.
    Gjaldi fyrir ökuritakort er ætlað að standa undir kostnaði við að framfylgja EES-gerðum nr. 3820/85 og 3821/85 ásamt öðrum gerðum um sama efni, kostnaði við framleiðslu kortanna og árlegum rekstrarkostnaði kortaútgáfu vegna umsýslu og evróputengdra tölvukerfa.
    Ökuritakort er skilgreint sem lykill að rafrænum ökurita og að það geymi rafrænar upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma ökumanns. Gert er ráð fyrir að gefnar verði út fjórar gerðir ökuritakorta, þ.e. ökumannskort, eftirlitskort, verkstæðiskort og fyrirtækiskort, og að gerð verði nánari grein fyrir þeim í reglum ráðherra. Ökumannskort notar ökumaður til þess að setja það í ökuritann. Upplýsingar um aksturstíma hans og hvíld færast yfir á ökuritakortið og inn á ökuritann. Eftirlitskort veitir eftirlitsmanni aðgang að ökurita, fyrirtækiskort veitir rekstraraðila ökutækis sams konar upplýsingar og verkstæðiskort veitir viðgerðar- og prófunarmanni aðgang að ökurita.
    Skylda til að nota rafræna ökurita mun eingöngu ná til ökutækja sem verða skráð eftir 5. ágúst 2004, en ökuritar af þeirri gerð sem nú er notuð, órafrænir með skífum og eru í ökutækjum í umferð fyrir umræddan dag, mega vera áfram í notkun eftir 5. ágúst 2004 þar til ökutækið verður ónýtt eða ökuritinn þarfnast viðgerðar. Um það hvaða ökutæki skylt verður að búa ökurita vísast til framangreindra EES-gerða.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að 68. gr. umferðarlaga verði breytt á þá leið að sérstakir eftirlitsmenn á vegum Vegagerðarinnar sjái um eftirlit með reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanns, sbr. þær breytingar sem lagðar eru til í 2. og 3. gr. frumvarpsins. Lagt er til að lögreglumönnum og eftirlitsmönnum Vegagerðar sé heimilt að stöðva ökutæki í þeim tilgangi að skoða upplýsingar sem er að finna í ökurita ökutækis, á ökuritakorti eða þær upplýsingar sem þar séu varðveittar með öðrum hætti. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglur um hæfi og þjálfun eftirlitsmanna Vegagerðarinnar og setji þeim starfsreglur.
    Vegagerðin hefur annast eftirlit með aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Vegna ákvæða í tilskipun um aksturs- og hvíldartíma ökumanna fyrir rafræna ökurita má áætla að eftirlitið verði aukið og er þess að vænta að kostnaður Vegagerðarinnar við eftirlitið aukist með tilliti til aukins umfangs og tækjabúnaðar.
    

Um 5. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á 71. gr. umferðarlaga um öryggis- og verndarbúnað barna í bifreiðum. Er þannig gert ráð fyrir að skyldan nái ekki eingöngu til að nota öryggisbelti, heldur einnig til að nota annan viðurkenndan öryggisbúnað, svo sem öryggisbelti, barnabílstól eða annan sérstakan búnað sem sérstaklega er ætlaður börnum. Er breytingin á 71. gr. lögð til vegna innleiðingar á tilskipun 2003/20/EB. Ákvæði tilskipunarinnar skulu hafa tekið gildi fyrir 9. maí 2006, en talið er rétt að gera ráð fyrir nokkrum aðlögunartíma þetta varðandi. Einnig var tekið tillit til athugasemda Umferðarráðs við ákvæðið.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að 1. málsl. 1. mgr. 72. gr. um hlífðarhjálma á bifhjólum og torfærutækjum verði breytt á þá leið að slíkir hlífðarhjálmar séu ætlaðir til slíkra nota, þ.e. að notaðir verði hlífðarhjálmar sem sérstaklega eru viðurkenndir sem bifhjólahjálmar eða hjálmar fyrir torfærutæki.

Um 7. gr.

    Lagt er til að hámarksfjárhæð sekta í 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga hækki úr 100.000 kr. í 300.000 kr.
    Fjárhæðum í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um lögreglustjórasáttir, nr. 569/1998, sbr. reglugerð nr. 980/2000, var breytt á þá leið að heimilt varð að ljúka broti með lögreglustjórasátt, enda verði fjárhæð sektar ekki hærri en 300.000 kr. í stað 100.000 kr. áður og verðmæti þess sem gera á upptækt ekki meira en 300.000 kr. í stað 35.000 kr. áður.
    Tilgangur ákvæðisins er að fleiri málum vegna umferðarlagabrota verði hægt að ljúka með lögreglustjórasátt, sem verður til þess að færri ákærur verði gefnar út og vinnuálag ákærenda og dómara minnkar.

Um 8. gr.

    Ríkissaksóknari hefur sent ráðuneytinu erindi í framhaldi af dómum Hæstaréttar um beitingu lágmarkssviptingar vegna ölvunaraksturs, ef um fyrsta brot ökumanns er að ræða og ekkert annað í málinu horfi til þyngingar viðurlaga. Hæstiréttur hefur í tvígang á þessu ári staðfest þá dómvenju að við fyrsta ölvunarakstursbrot ökumanns sé beitt lágmarkssviptingu ökuréttar, án tillits til áfengismagns í blóði eða lofti umrætt sinn, nema eitthvað annað í málinu horfi til þyngingar viðurlaga. Ríkissaksóknari hefur lagt til að miðað verði við vínandamagn í blóði og lofti við sviptingar, í stað þess að lágmarkssviptingu verði ávallt beitt í þeim tilfellum. Af dómum þessum virðist sama hversu ölvaður ökumaður hefur verið, valdi hann ekki tjóni eða raunverulegri og sannanlegri hættu með akstrinum. Ekki virðist slæmur ökuferill ökumanns heldur skipta máli, ef brot hans felur ekki í sér ítrekun. Lagt er til að 102. gr. umferðarlaga verði breytt á þá leið að fari vínandamagn í blóði ökumanns yfir tvö prómill og vínandamagn í lofti yfir 1.000 milligrömm í lítra lofts skuli hann sviptur ökurétti eigi skemur en tvö ár.
    Þá er lagt til að sviptingar ökuréttar við ítrekun ölvunarakstursbrots verði lengdar frá því sem nú er. Er þannig gert ráð fyrir að sé um ítrekun að ræða, ítrekun á 2. mgr. 45. gr. eða ökumaður vilji ekki veita atbeina sinn við rannsókn máls, þ.e. neiti að gefa öndunarsýni, skuli svipting eigi vera skemur en tvö ár. Um nýmæli er að ræða um ítrekun á 2. mgr. 45. gr., en lágmarkssvipting vegna neitunar á að veita öndunarsýni er eitt ár vegna fyrsta brots í gildandi lögum, en tvö ár við ítrekun. Þá er gert ráð fyrir að varði síðara brotið við 3. mgr. 45. gr. skuli svipting ökuréttar eigi vera skemur en þrjú ár, en það er nýmæli að sérstaklega sé tekið á að síðara brot varði við 3. mgr. 45. gr. Þá er lagt til að lágmarkssvipting við ítrekun á broti gegn 3. mgr. 45. gr. verði lengd úr þremur árum í fimm ár.

Um 9. gr.

    Hér er lagt til að 108. gr. laganna verði breytt á þá leið að nýr stafliður bætist við 1. mgr. þannig að í stað sekta verði lagt gjald skv. 108. gr. á eigendur eða umráðamenn bifreiða vegna vanrækslu á aðalskoðun eða endurskoðun. Einnig eru lagðar til orðalagsbreytingar á 3. mgr. ákvæðisins með tilliti til þessa.
    Brot vegna vanrækslu á skoðun og aðalskoðun hafa verið talsvert mörg samkvæmt upplýsingum úr ársskýrslu lögreglunnar í Reykjavík 2001:
1998 1999 2000 2001
Vanræksla á að færa ökutæki til aðalskoðunar 2.520 3.370 2.171 799
Vanræksla á að færa ökutæki til endurskoðunar 924 702 653 337
    
    Telja verður ljóst að mikil vinna margra deilda lögreglu og annarra embætta þegar um sektamál er að ræða minnki verulega verði frumvarpið að lögum.

Um 10. gr.

    Lagt til að 109. gr. verði breytt til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í 9. gr. frumvarpsins, þannig að gjald skv. 108. gr. vegna vanrækslu á skoðun hvíli á eiganda eða umráðamanni ökutækis.


Um 11. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.




Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1987, umferðarlögum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á umferðarlögum sem ætlað er að stuðla að bættu umferðaröryggi, svo sem ákvæði um öryggisbúnað barna. Í frumvarpinu er einnig ákvæði um að settar verði reglur um skyldu til að nota ökurita og ökuritakort. Gert er ráð fyrir að innheimt verði gjald fyrir ökuritakort sem renni í ríkissjóð til að standa undir kostnaði við útgáfu kortanna. Ákvæði um ökurita eru í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins á þessu sviði og er áætlað að kostnaður við að innleiða tilskipunina verði 27 m.kr. Þegar hefur verið gert ráð fyrir þeim útgjöldum með sérstakri tímabundinni útgjaldaheimild hjá Umferðarstofu í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2004. Þá er reiknað með að árlegur rekstrarkostnaður við umsýslu í tengslum við ökuritakortin og notkun sameiginlegra evrópskra tölvukerfa verði um 14 m.kr. Við það bætist um 5.000 kr. framleiðslukostnaður við hvert kort. Talið er að gefa þurfi út um 1.800 kort á ári miðað við að gefin verði út fjögur kort á hverja ökuritaskylda bifreið. Til að endurheimta þennan kostnað á fjögurra ára tímabilinu frá 2005–2008 er áætlað að hvert kort þurfi að kosta um 16–20 þús. kr.
    Samkvæmt frumvarpinu mun Vegagerðin annast eftirlit með aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Vegagerðin hefur fengið greiddan kostnað af því samkvæmt samningi við dómsmálaráðuneytið og er gert ráð fyrir að fyrirkomulagið á þessu eftirliti verði svipað og verið hefur undanfarin ár.
    Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að hámark samanlagðra sekta fyrir umferðarbrot hækki úr 100 þús. kr. í 300 þús. kr. til að unnt verði að ljúka fleiri málum með lögreglustjórasátt og fækka að sama skapi málum hjá ákærendum og dómstólum.
    Þá er í frumvarpinu ákvæði um að í stað sektar fyrir að vanrækja að færa ökutæki til skoðunar megi lögregla leggja á gjald. Með því móti er gert ráð fyrir að draga megi nokkuð úr kostnaði við vinnu lögregluembætta vegna slíkra sektarmála.
    Að samanlögðu er ekki talið að lögfesting frumvarpsins leiði til útgjalda umfram tekjur fyrir ríkissjóð.