Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 465. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 673  —  465. mál.
Frumvarp til lagaum fullnustu refsinga.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)I. KAFLI
Stjórn og skipulag fangelsismála.
1. gr.

    Dómsmálaráðherra fer með yfirstjórn fangelsismála.

2. gr.

    Fangelsismálastofnun sér um fullnustu refsinga og önnur verkefni í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.
    Fangelsismálastofnun hefur umsjón með rekstri fangelsa.

3. gr.

    Í fangelsi er sá vistaður sem dæmdur er til fangelsisrefsingar, afplánar vararefsingu fésekta eða sætir gæsluvarðhaldi.
    Gæsluvarðhaldsfanga má vista meðal afplánunarfanga ef einangrun telst ekki nauðsynleg.
    Í sérstökum tilvikum má um skemmri tíma vista afplánunarfanga í fangageymslum lögreglu.
    Heimilt er að vista gæsluvarðhaldsfanga í fangageymslum lögreglu.

4. gr.

    Ráðherra skipar forstjóra Fangelsismálastofnunar til fimm ára í senn. Forstjóri skal vera lögfræðingur. Forstjóri ræður aðra starfsmenn Fangelsismálastofnunar.

5. gr.

    Ráðherra skipar forstöðumann fangelsis til fimm ára í senn. Heimilt er að fleiri en ein stofnun heyri undir sama forstöðumann.

6. gr.

    Forstjóri Fangelsismálastofnunar skipar fangaverði til fimm ára í senn. Að öðru jöfnu skal ekki skipa aðra fangaverði en þá sem hafa lokið prófi frá Fangavarðaskóla ríkisins. Forstöðumaður fangelsis ræður aðra starfsmenn.
    Fangaverðir mega hvorki gera verkfall né taka þátt í verkfallsboðun.
    Fangaverðir eiga rétt á bótum fyrir meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns.

7. gr.

    Fangavörðum er heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna. Aldrei mega þeir þó ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni.

8. gr.

    Starfsmönnum Fangelsismálastofnunar, fangavörðum og öðrum sem starfa í fangelsum ber þagnarskylda um atvik sem þeim verða kunn í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna. Þagnarskyldan tekur til upplýsinga um einkahagi fanga, sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsinga er varða starfshætti fangelsa og fangelsisyfirvalda og annarra upplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, starfsreglum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

II. KAFLI
Fullnusta óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga o.fl.
A. Almennt.
9. gr.

    Fangelsismálastofnun tekur við refsidómum til fullnustu frá ríkissaksóknara.

10. gr.

    Óskilorðsbundna fangelsisrefsingu skal fullnusta í beinu framhaldi af því að dómur berst Fangelsismálastofnun.
    Nú er dómþoli ekki þegar í fangelsi og skal Fangelsismálastofnun þá tilkynna honum bréflega hvenær og hvar honum beri að mæta til afplánunar. Mæti dómþoli ekki til afplánunar á tilskildum tíma felur Fangelsismálastofnun lögreglu að handtaka hann og færa í fangelsi.
    Nú er dómþoli í gæsluvarðhaldi og skal hann þá þegar hefja afplánun refsingarinnar nema rannsóknarhagsmunir bjóði annað. Afpláni dómþoli aðra fangelsisrefsingu skal síðari fangelsisrefsingin afplánuð í beinu framhaldi.
    Heimilt er að láta dómþola hefja afplánun án boðunar eða áður en afplánun á að hefjast samkvæmt boðun fremji hann refsiverðan verknað á ný, hætta er talin á að hann reyni að koma sér undan refsingu eða almannahagsmunir mæla með því.
    Nú óskar dómþoli eftir að hefja afplánun refsingar fyrr en áætlað er og skal þá orðið við slíkri beiðni ef unnt er.

11. gr.

    Nú leitar dómþoli eftir því að afplánun verði frestað og er Fangelsismálastofnun þá heimilt að veita stuttan frest mæli sérstakar ástæður með því. Slíkur frestur getur ekki orðið lengri en þrír mánuðir í heild.
    Við mat á því hvort fresta skuli afplánun skal taka mið af alvarleika afbrots dómþola, sakarferli, persónulegum högum hans, hversu langt er um liðið síðan afbrot var framið og öðrum þáttum er máli kunna að skipta. Ekki skal veita frest ef hætta er talin á því að dómþoli misnoti hann. Synja skal um frest ef beiðni er fyrst borin fram eftir að afplánun á að vera hafin samkvæmt boðun.
    Nú fer dómþoli fram á náðun af refsingunni og skal þá fresta fullnustu hennar ef hún er ekki þegar hafin þar til slík beiðni er afgreidd. Ekki skal fresta fullnustu vegna ítrekaðrar beiðni um náðun nema að í nýju beiðninni komi fram veigamiklar upplýsingar sem ekki var unnt að koma á framfæri áður og sérstakar ástæður mæli með að afplánun verði frestað.
    Frestur samkvæmt þessari grein er bundinn því skilyrði að dómþoli fremji ekki refsiverðan verknað. Heimilt er að setja frekari skilyrði fyrir veitingu frests.
    Nú rýfur dómþoli skilyrði fyrir fresti og getur Fangelsismálastofnun þá ákveðið að hann skuli hefja afplánun án fyrirvara. Sama gildir ef dómþoli gefur rangar upplýsingar í beiðni um frestun.

12. gr.

    Afplánun skal vera samfelld. Þó er heimilt að gera hlé á afplánun ef sérstakar ástæður mæla með því. Slíkt hlé má binda skilyrðum.

13. gr.

    Strjúki fangi úr afplánun refsivistar, telst tími frá stroki og þar til fangi er settur í fangelsi á ný ekki til refsitímans. Hluti úr degi telst heill dagur.

14. gr.

    Fangelsismálastofnun ákveður í hvaða fangelsi afplánun skuli fara fram. Við þá ákvörðun skal tillit tekið til aldurs, kynferðis og brotaferils fangans og þyngdar refsingar.
    Fangelsismálastofnun getur tekið ákvörðun um að færa fanga frá einu fangelsi til annars meðan á afplánun stendur. Fanga er heimilt að láta aðstandendur sína og lögmann vita af flutningi milli fangelsa.
    Forstöðumaður fangelsis getur tekið ákvörðun um að flytja fanga á milli deilda í fangelsi meðan á afplánun stendur.
    Ekki er skylt að gefa fanga kost á að tjá sig áður en ákveðið er að flytja hann milli fangelsa eða klefa.

15. gr.

    Fangelsismálastofnun getur leyft að fangi sé um stundarsakir eða allan refsitímann vistaður á sjúkrahúsi eða annarri heilbrigðis- eða meðferðarstofnun. Fangelsismálastofnun getur sett sérstök skilyrði fyrir vistun fanga þar.
    Fangi sem lagður er á sjúkrahús telst taka út refsingu meðan hann dvelst þar, nema hann hafi sjálfur bakað sér veikindin á ótilhlýðilegan hátt eftir að hann hóf afplánun.
    Fangelsismálastofnun ákveður, að höfðu samráði við sjúkrahús, hvort fangi skuli sæta þar sérstakri gæslu.

16. gr.

    Fangi sem afplánar óskilorðsbundna fangelsisrefsingu skal látinn laus kl. 8.00 að morgni þess dags sem afplánun lýkur. Heimilt er að láta fanga lausan á öðrum tíma mæli sérstakar ástæður með því.
    Fangi sem afplánar vararefsingu fésekta skal látinn laus á sama tíma sólarhrings og afplánun hófst.
    

B. Fullnusta í fangelsi.
17. gr.

    Við móttöku fanga í afplánun skal skrá upphafsdag afplánunar og lok refsitíma samkvæmt dómi. Þá skal skrá upplýsingar um persónulega hagi fanga og hverja eigi að hafa samband við ef fangi veikist eða deyr meðan á afplánun stendur.
    Heimilt er að taka andlitsmyndir af fanga.
    Við upphaf afplánunar, eða við flutning fanga milli fangelsa til lengri tíma, skal heimila fanga að tilkynna aðstandendum sínum og lögmanni um afplánunina eða flutning milli fangelsa nema ástæða sé til að ætla að það hafi áhrif á öryggi eða almenna reglu í fangelsinu eða brýnar ástæður mæli því mót.

18. gr.

    Við upphaf afplánunar skal kynna fanga þær reglur sem um afplánun gilda, um réttindi og skyldur fanga, vinnu og nám sem föngum stendur til boða, reglur viðkomandi fangelsis, hvaða háttsemi varði agaviðurlögum, um málsmeðferð slíkra mála, upplýsingar um hvert fangi geti skotið ákvörðunum er varða fullnustu refsingarinnar og upplýsingar um heimild til að beina kvörtun til umboðsmanns Alþingis.
    Fangi skal fá upplýsingar um rétt sinn til að hafa samband við lögmann.

19. gr.

    Fanga ber að vinna þau störf í fangelsi sem honum eru falin.
    Forstöðumaður fangelsis ákveður hvaða vinnu fanga er falið að inna af hendi. Við ákvörðun um vinnu fanga skal tekið tillit til aðstæðna hans og óska eftir því sem unnt er.
    Fanga er heimilt að útvega sér aðra vinnu en greinir í 1. og 2. mgr. að fengnu samþykki forstöðumanns fangelsis. Í slíkum tilvikum má ákveða að fangi greiði gjald fyrir uppihald sitt í fangelsi.
    Forstöðumaður fangelsis getur heimilað fanga að uppfylla vinnuskyldu sína í klefa sínum ef aðstæður leyfa og aðrar ástæður mæla ekki gegn því.
    Fangi skal vinna alla virka daga nema laugardaga. Vinna skal að jafnaði innt af hendi frá kl. 8.00 til kl. 17.00, þó þannig að daglegur vinnutími verði að jafnaði ekki lengri en 8 klukkustundir. Vinnu sem tengist rekstri fangelsisins má inna af hendi utan dagvinnutíma.

20. gr.

    Fangi skal eiga kost á að stunda nám eða starfsþjálfun eftir því sem unnt er og hann telst hæfur til.
    Reglubundið nám kemur í stað vinnuskyldu. Hver kennslustund jafngildir einni klukkustund í vinnu.
    Stundi fangi ekki nám með eðlilegum hætti getur forstöðumaður fangelsis, að höfðu samráði við skólameistara, ákveðið að víkja fanga úr námi og að hann sinni í staðinn vinnu í fangelsinu.
    Fangelsi útvegar og greiðir fyrir kennslubækur vegna náms í fangelsi og eru þær eign fangelsisins.

21. gr.

    Fanga skal greiða þóknun fyrir ástundun vinnu eða náms.
    Sé ekki unnt að útvega fanga vinnu, eða hann getur samkvæmt læknisvottorði ekki sinnt vinnuskyldu, skal hann fá greidda dagpeninga fyrir þá daga sem hann hefði ella unnið. Fangelsismálastofnun ákveður fjárhæð dagpeninga og skal hún miðast við að fangi eigi fyrir brýnustu nauðsynjum til persónulegrar umhirðu.
    Fangi sem á kost á vinnu, eða útvegar sér hana sjálfur, fær ekki dagpeninga. Sama gildir um fanga sem vikið er úr vinnu.
    Fangi sem er vistaður um stundarsakir utan fangelsis, svo sem á sjúkrahúsi eða annarri stofnun þar sem hann nýtur sérstakrar umönnunar eða forsjár, fær ekki greidda dagpeninga þann tíma nema að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar.
    Fangi í leyfi skv. IV. kafla laga þessara fær ekki greidda dagpeninga í leyfinu.

22. gr.

    Þóknun fyrir ástundun vinnu eða náms í fangelsi og dagpeninga fanga má taka til greiðslu á skaðabótum eða öðrum útgjöldum sem fangi verður ábyrgur fyrir meðan á afplánun stendur, þar á meðal fyrir skuldum sem hann hefur stofnað til við fangelsi. Þó skal ekki heimilt að taka meira en 70% af þóknun fanga eða dagpeningum til slíkra greiðslna.

23. gr.

    Læknir skoðar fanga við upphaf afplánunar nema Fangelsismálastofnun telji það óþarft. Þó skal læknisskoðun fara fram ef fangi óskar eftir því.
    Í fangelsum skulu fangar njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir, auk þeirrar sérstöku heilbrigðisþjónustu sem lög og reglur um fanga segja til um. Að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun sér heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um og ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum.

24. gr.

    Eigi kona ungbarn við upphaf afplánunar eða fæði barn í afplánun má heimila henni að hafa það hjá sér í fangelsinu. Fangelsismálastofnun skal tilkynna barnaverndarnefnd þegar svo stendur á.
    Barnaverndarnefnd getur skoðað aðstæður í fangelsi og kynnt sér hagi móður til umönnunar barnsins.

C. Fullnusta utan fangelsis.
25. gr.

    Fangelsismálastofnun getur leyft fanga að ljúka afplánun utan fangelsis enda stundi hann vinnu eða nám sem Fangelsismálastofnun hefur samþykkt og er liður í aðlögun hans að samfélaginu á ný og búi á sérstakri stofnun eða heimili sem stofnunin hefur gert samkomulag við og sé þar undir eftirliti. Fangi skal sjálfur greiða gjöld sem slík stofnun eða heimili innheimtir hjá vistmönnum.
    Fangelsismálastofnun getur bundið lok afplánunar utan fangelsis frekari skilyrðum.

26. gr.

    Nú fer fangi ekki eftir reglum stofnunar eða heimilis varðandi útivistartíma, neyslu áfengis eða ávana- og fíkniefna eða brjóti gegn öðrum reglum stofnunar eða heimilis, eða skilyrðum Fangelsismálastofnunar fyrir dvöl á slíkri stofnun eða heimili, getur Fangelsismálastofnun ákveðið að hann skuli beittur agaviðurlögum skv. VI. kafla laga þessara.
    Þegar fangi stundar ekki þá vinnu eða nám sem var forsenda vistunar utan fangelsis eða strjúki hann frá stofnun eða heimili, eða brjóti reglur þess, getur Fangelsismálastofnun ákveðið að hann verði fluttur aftur í afplánun í fangelsi. Sama gildir telji stofnun eða heimili brostnar forsendur fyrir áframhaldandi dvöl fanga þar. Í slíkum tilvikum er ekki skylt að gefa fanga kost á að tjá sig áður en ákveðið er að flytja hann í fangelsi á ný.

D. Samfélagsþjónusta.
27. gr.

    Þegar maður hefur verið dæmdur í allt að sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi er heimilt, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að fullnusta refsinguna með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 40 klukkustundir og mest 240 klukkustundir.
    Þegar um fangelsisrefsingu er að ræða samkvæmt fleiri en einum dómi má samanlögð refsing eigi vera lengri en sex mánuðir.
    Þegar hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundinn má heildarrefsing samkvæmt dóminum eigi vera lengri en sex mánuðir.

28. gr.

    Skilyrði þess að samfélagsþjónusta komi til álita eru:
     1.      Að dómþoli hafi óskað eftir því skriflega við Fangelsismálastofnun eigi síðar en hálfum mánuði áður en hann átti upphaflega að hefja afplánun fangelsisrefsingar.
     2.      Að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem hann er kærður fyrir refsiverðan verknað. Sama gildir þegar dómþoli er í fangelsi.
     3.      Að dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu.
    Áður en metið er hvort dómþoli teljist hæfur til að gegna samfélagsþjónustu og þar með talið hvort líklegt er að hann geti innt samfélagsþjónustuna af hendi skal fara fram athugun á persónulegum högum hans. Mæti dómþoli ekki til viðtals í þessu skyni skal almennt synja beiðni um samfélagsþjónustu.
    Þegar fangelsisrefsing er fullnustuð með samfélagsþjónustu jafngildir 40 klukkustunda samfélagsþjónusta eins mánaðar fangelsisrefsingu. Hafi gæsluvarðhald komið til frádráttar fangelsisrefsingu skal taka tillit til þess við útreikning á fjölda klukkustunda.

29. gr.

    Fangelsismálastofnun ákveður hvort fangelsisrefsing verði fullnustuð með samfélagsþjónustu og hvaða samfélagsþjónustu dómþoli sinni í hverju tilviki. Sama gildir um á hve löngum tíma samfélagsþjónusta skuli innt af hendi, en sá tími skal þó aldrei vera skemmri en tveir mánuðir.
    Þegar skal hafna umsókn um samfélagsþjónustu ef umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði skv. 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. Ef sérstakar ástæður mæla með er þó heimilt að víkja frá þeim skilyrðum.
    Þegar umsókn er tekin til efnislegrar meðferðar skal fresta fullnustu fangelsisrefsingar þar til ákvörðun um afgreiðslu hennar liggur fyrir, enda fremji dómþoli ekki refsiverðan verknað á þeim tíma.

30. gr.

    Samfélagsþjónusta skal bundin eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Að dómþoli gerist ekki sekur um refsiverðan verknað á þeim tíma sem samfélagsþjónusta er innt af hendi.
     2.      Að dómþoli sæti umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar eða annars aðila sem hún ákveður þegar samfélagsþjónusta er innt af hendi.
    Auk þess má ákveða að samfélagsþjónusta verði bundin eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Að dómþoli hlíti fyrirmælum umsjónaraðila um dvalarstað, menntun, vinnu, umgengni við aðra menn og iðkun tómstundastarfa.
     2.      Að dómþoli neyti ekki áfengis eða ávana- og fíkniefna.
    Nú sætir dómþoli síðara skilyrði 2. mgr. og er þá heimilt að krefjast þess að hann undirgangist rannsókn á öndunarsýni eða blóð- og þvagrannsókn ef ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn skilyrðinu.
    Áður en fullnusta á fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu hefst skal kynna dómþola ítarlega þær reglur sem gilda um samfélagsþjónustu og staðfesting hans fengin á því að hann vilji hlíta þeim. Sama gildir um viðbrögð við brotum á þessum reglum.

31. gr.

    Nú rýfur dómþoli skilyrði samfélagsþjónustu eða sinnir henni ekki með fullnægjandi hætti og ákveður þá Fangelsismálastofnun hvort skilyrðum hennar skuli breytt, tími sem samfélagsþjónusta er innt af hendi skuli lengdur eða hvort refsing skuli afplánuð í fangelsi.
    Nú er dómþoli kærður fyrir að hafa framið refsiverðan verknað eftir að ákveðið er að fullnusta fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu og getur Fangelsismálastofnun þá ákveðið að ákvörðun um fullnustu með samfélagsþjónustu verði afturkölluð og að dómþoli afpláni refsinguna í fangelsi.
    Þegar rof á skilyrðum samfélagsþjónustu eða meint afbrot er hvorki alvarlegt né ítrekað skal veita áminningu áður en ákveðið er að fangelsisrefsing skuli afplánuð í fangelsi.
    Þegar ákveðið er skv. 1. eða 2. mgr. að fangelsisrefsing skuli afplánuð í fangelsi skal reikna tímalengd eftirstöðva út með hliðsjón af þeirri samfélagsþjónustu sem þegar hefur verið innt af hendi.
    Þegar eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem að hluta hefur verið fullnustuð með samfélagsþjónustu, eru afplánaðar í fangelsi er heimilt að veita reynslulausn af eftirstöðvunum þannig að tími í samfélagsþjónustu teljist ekki með við útreikning á hlutfalli afplánunar.

III. KAFLI
Réttindi og skyldur fanga.
32. gr.

    Fangi skal vera einn í klefa nema sérstakar aðstæður eða húsrými komi í veg fyrir það og skal fangaklefi vera læstur að næturlagi svo sem nánar er tilgreint í reglum fangelsis. Fangelsismálastofnun getur ákveðið að klefar séu ólæstir í tilteknum fangelsum eða fangelsisdeildum eða í öðrum tilvikum þegar sérstakar ástæður mæla með.

33. gr.

    Fangi á rétt á að þiggja heimsóknir nánustu vandamanna sinna í fangelsið á viðtalstímum sem fangelsið ákveður. Fangi á rétt á heimsóknum eigi sjaldnar en vikulega.
    Forstöðumaður fangelsis getur leyft frekari heimsóknir. Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi getur forstöðumaður bannað tilteknum mönnum að heimsækja fanga, einnig vandamönnum hans.
    Fangi getur neitað að þiggja heimsóknir annarra en þeirra sem eiga við hann opinber erindi eða heimsækja hann að tilmælum forstöðumanns fangelsis.
    Forstöðumaður fangelsis ákveður hvort fleiri en einn má heimsækja fanga hverju sinni.
    Heimilt er að leita á þeim sem heimsækja fanga og láta þá gangast undir líkamsrannsókn. Munir eða efni, sem fanga er óheimilt að hafa í fangelsi, skulu vera í vörslum fangelsis meðan á heimsókn stendur. Lagt skal hald á muni eða efni sem refsivert er að hafa í vörslum sínum.

34. gr.

    Fangi tekur á móti heimsóknum í heimsóknarherbergi, sé slíkt herbergi til staðar, eða í klefa sínum.
    Forstöðumaður fangelsis getur ákveðið í sérstökum tilvikum að heimsókn til fanga fari fram í öðrum vistarverum fangelsisins. Ákvörðun um það skal bókuð og ástæða tilgreind.

35. gr.

    Heimsóknir til fanga skulu almennt fara fram án eftirlits.
    Forstöðumaður fangelsis getur ákveðið að heimsókn skuli fara fram undir eftirliti ef nauðsynlegt þykir til að viðhalda góðri reglu og öryggi í fangelsinu eða til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað. Er þá heimilt að setja það skilyrði að samtal fari fram á tungumáli sem fangavörður skilur. Ef nauðsyn krefur og aðstæður leyfa er heimilt að fá túlk fangaverði til aðstoðar.
    Sá sem heimsækir fanga og fangi sjálfur geta óskað eftir því að fangavörður verði viðstaddur heimsókn.
    Heimsókn lögmanns til fanga skal ávallt vera án eftirlits nema lögmaður óski annars.
    Heimilt er að rjúfa heimsókn ef það þykir nauðsynlegt til að viðhalda góðri reglu og öryggi í fangelsinu eða til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað.

36. gr.

    Fangi á rétt á símtölum við fólk utan fangelsis á þeim tímum dags sem reglur fangelsis segja til um. Heimilt er að takmarka fjölda símtala og lengd þeirra. Einnig er heimilt að banna símtöl við fanga í öðrum fangelsum.
    Heimilt er að hlusta á símtöl fanga ef það telst nauðsynlegt vegna almenns eftirlits, til að viðhalda góðri reglu og öryggi í fangelsinu, til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað og í þeim tilgangi að vernda þann sem afleiðingar af broti fanga hafa bitnað á og þann sem vitnað hefur gegn fanga.
    Ákvörðun um að hlusta á símtal skal tilkynnt fanga og ástæður hennar tilgreindar og bókaðar. Heimilt er að setja það skilyrði að símtalið fari fram á tungumáli sem fangavörður skilur.
    Heimilt er að taka símtöl fanga upp á hljóðband ef grunur leikur á að efni samtalsins tengist eða feli í sér refsiverðan verknað. Fanga og viðmælanda hans skal sagt frá því að símtalið hafi verið tekið upp á hljóðband að samtali loknu. Upptökunum skal eytt þegar þeirra er ekki lengur þörf.
    Ekki er heimilt að hlusta á eða taka upp á hljóðband símtöl fanga við lögmann, opinberar stofnanir eða umboðsmann Alþingis.
    Samkvæmt beiðni rétthafa símanúmers getur forstöðumaður fangelsis ákveðið að ekki verði hringt í símanúmerið úr fangelsi.
    Fangi greiðir sjálfur kostnað við símtöl sín.
    

37. gr.

    Fanga er heimilt að senda og taka við bréfum. Forstöðumaður fangelsis getur ákveðið að skoða bréf til og frá fanga til að viðhalda góðri reglu og öryggi í fangelsinu, til að fyrirbyggja refsiverðan verknað eða til að vernda þann sem afleiðingar af broti fanga hafa bitnað á og þann sem vitnað hefur gegn fanga. Forstöðumaður getur í sama tilgangi ákveðið að takmarka bréfaskipti fanga við ákveðna aðila eða stöðva sendingu bréfa til og frá fanga. Enn fremur er heimilt að skoða bréf fanga ef það þykir nauðsynlegt vegna almenns eftirlits. Heimilt er að setja það skilyrði að bréfaskipti fari fram á tungumáli sem fangavörður skilur.
    Ekki skal skoða bréfaskipti milli fanga og lögmanns, opinberra stofnana eða umboðsmanns Alþingis.
    Ákvörðun um að lesa bréf, eða leggja hald á það, skal tilkynnt fanga og ástæður hennar tilgreindar og bókaðar.
    Þegar fangelsi útvegar bréfsefni eða umslög má það ekki bera með sér stimpil eða önnur einkenni sem af má ráða að sendandi sé vistaður í fangelsi.
    Fangi skal sjálfur bera kostnað af bréfum sem hann sendir.

38. gr.

    Fangi skal að jafnaði eiga kost á að fylgjast með gangi þjóðmála með lestri dagblaða og í gegnum útvarp og sjónvarp.
    Fangelsismálastofnun ákveður í samráði við forstöðumann fangelsis hvort heimila skuli fjölmiðlaviðtal við fanga.

39. gr.

    Fangi á rétt á útiveru í að minnsta kosti eina klukkustund á dag nema það sé ósamrýmanlegt góðri reglu og öryggi í fangelsi.
    Fanga skal gefinn kostur á að iðka tómstundastörf, líkamsrækt og íþróttir eftir því sem aðstæður í fangelsi leyfa.
    Fangi á rétt á daglegum aðgangi að hreinlætisaðstöðu.

40. gr.

    Erlendur fangi á rétt á að hafa samband við sendiráð lands síns eða ræðismann þess.
    Nú er fangi ríkisfangslaus eða flóttamaður og skal fangelsi þá aðstoða hann við að hafa samband við fulltrúa innlendra eða alþjóðlegra stofnana sem gæta hagsmuna slíkra einstaklinga.

41. gr.

    Fangi skal eiga kost á að hafa samband við prest eða annan sambærilegan fulltrúa skráðs trúfélags.

42. gr.

    Forstöðumaður fangelsis getur leyft fanga, í samræmi við reglur fangelsis, að hafa í klefa sínum eigin tölvu, þó án nettengingar, tölvuprentara, hljómflutningstæki, útvarpstæki, sjónvarpstæki o.fl. Fanga er óheimilt að hafa síma eða önnur fjarskiptatæki í klefa sínum.
    Fanga er óheimilt að hafa í vörslum sínum áfengi eða ávana- og fíkniefni.
    Fanga er heimilt að hafa peninga í klefa sínum, þó ekki hærri fjárhæð en sem svarar dagpeningum fanga á einum mánuði.

IV. KAFLI
Leyfi úr fangelsi.
43. gr.

    Forstöðumaður fangelsis getur að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar veitt fanga sem afplánar refsingu leyfi til dvalar utan fangelsis til að heimsækja fjölskyldu sína eða vini ef slíkt telst heppilegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa fanga undir að ljúka afplánun. Slíkt leyfi skal vera fjórtán klukkustundir að hámarki og skal að jafnaði veitt frá kl. 8.00 að morgni til kl. 22.00 að kvöldi sama dags. Heimilt er að lengja leyfið um allt að tvær klukkustundir ef fangi á sannanlega um langan veg að fara.
    Í beiðni um leyfi skal fangi upplýsa hvernig hann hyggst verja leyfinu eða hvern hann hyggst heimsækja. Áður en leyfi er veitt skal leita staðfestingar hjá viðkomandi á því að heimsókn geti átt sér stað.
    Nú fer afplánun fram utan fangelsis skv. 25. gr. og skal þá ekki veita fanga leyfi nema sérstakar ástæður mæli með.

44. gr.

    Forstöðumaður fangelsis getur að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar veitt fanga leyfi til dvalar utan fangelsis ef eftirfarandi atvik eiga við:
     1.      til að heimsækja náinn ættingja eða annan nákominn í fjölskyldu fanga sem er alvarlega sjúkur að fengnu samþykki viðkomandi,
     2.      til að vera viðstaddur jarðarför eða kistulagningu náins ættingja eða annars nákomins í fjölskyldu fanga; þó getur fangi verið viðstaddur bæði kistulagningu og jarðarför maka síns, niðja eða foreldris,
     3.      til að vera viðstaddur fæðingu, skírn eða fermingu barns síns,
     4.      til að gæta sérstaklega brýnna persónulegra hagsmuna sinna.
Ekki skal veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis skv. 1.–4. tölul. nema fyrir liggi fullnægjandi gögn um þar til greindar aðstæður. Slíkt leyfi skal vera átta klukkustundir að hámarki.
    Með nánum ættingja og nákomnum í fjölskyldu fanga í 1. og 2. tölul. 1. mgr. er átt við maka, sambúðarmaka, niðja, stjúpbörn, fósturbörn, foreldra, tengdaforeldra, systkin, systkinabörn, föður- og móðurforeldra og föður- og móðursystkin.

45. gr.

    Fangelsismálastofnun getur veitt fanga sem afplánar refsingu leyfi til dvalar utan fangelsis til að stunda nám eða starfsþjálfun ef það telst heppilegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa fanga undir að afplánun ljúki. Forstöðumaður fangelsis ákveður í samráði við Fangelsismálastofnun hvernig gæslu á fanganum skuli hagað í leyfinu.
    Ekki skal veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis til að stunda nám nema fyrir liggi staðfest stundaskrá og skrifleg staðfesting skóla, eða þess sem veitir starfsþjálfun, á að fangi geti hafið og stundað nám eða starfsþjálfun þann tíma sem fyrirhugað er að leyfið gildi. Þá skal gengið úr skugga um að skóla, eða þeim sem veitir starfsþjálfun, sé ljóst að um fanga sé að ræða sem afpláni refsingu. Jafnframt skal gera skólanum og þeim sem veitir starfsþjálfun grein fyrir þeim reglum og skilyrðum sem gilda um leyfið.

46. gr.

    Fangi getur ekki fengið leyfi skv. 43. gr. fyrr en hann hefur afplánað þriðjung refsitímans og verið samfellt í fangelsi í eitt ár, að meðtalinni gæsluvarðhaldsvist. Slíkt leyfi má veita á ný er liðnir eru fullir tveir mánuðir frá síðasta leyfi.
    Nú hefur fangi verið samfellt í fangelsi tvö ár hið minnsta og fengið leyfi í samræmi við 1. mgr. a.m.k. sex sinnum og ekki misnotað þau eða brotið gegn skilyrðum þeirra og er þá heimilt að veita honum leyfi á ný þegar liðinn er einn mánuður frá síðasta leyfi.

47. gr.

    Taka skal tillit til afbrots, sakar- og afplánunarferils þess fanga sem í hlut á við ákvörðun um að veita leyfi til dvalar utan fangelsis.
    Nú hefur fangi verið dæmdur í síðasta refsidómi eða áður fyrir manndráp, ofbeldis- eða kynferðisbrot, meiri háttar fíkniefnabrot, brennu eða annað almennt hættubrot, eða auðgunarbrot framið með ofbeldi eða hótun um ofbeldi, og skal þá sýna sérstaka gát við mat á því hvort fanga skuli veitt leyfi til dvalar utan fangelsis.
    Nú hefur fangi strokið úr afplánun eða gæsluvarðhaldi eða framið refsiverðan verknað í fyrra leyfi til dvalar utan fangelsis eða að öðru leyti misnotað slíkt leyfi, eða ef fangi er grunaður um að hafa framið brot, sem ekki telst smávægilegt, í núverandi afplánun, og skal þá sýna sérstaka gát við mat á því hvort fanga skuli veitt leyfi til dvalar utan fangelsis. Sama gildir teljist fangi síbrotamaður, hætta sé á að hann muni misnota leyfi eða reyni að komast úr landi.

48. gr.

    Eftirtalin skilyrði eru fyrir leyfi til dvalar utan fangelsis:
     1.      fanga er óheimilt að neyta áfengis eða ávana- og fíkniefna í leyfinu,
     2.      fanga er óheimilt að hafa undir höndum eða neyta ólöglegra ávana- eða fíkniefna í leyfinu,
     3.      fanga er óheimilt að fara til útlanda í leyfinu,
     4.      ef um leyfi til vinnu eða náms, eða leyfi vegna sérstakra ástæðna er að ræða er fanganum óheimilt að gera eða fara nokkuð annað í leyfinu en samræmist tilgangi leyfisins.
    Auk þess er heimilt að setja eftirtalin skilyrði fyrir leyfi til dvalar utan fangelsis:
     1.      að fanginn skuli láta í té öndunarsýni við endurkomu í fangelsið,
     2.      að fanginn skuli gangast undir töku þvag- og blóðsýnis fyrir og eftir leyfið,
     3.      að fanginn skuli gangast undir líkamsleit við endurkomu í fangelsið,
     4.      að fanginn skuli ekki, ef tillit til brotaþola eða nánustu aðstandenda eða eðli eða grófleiki brotsins mæla með, koma á ákveðna staði eða hafa samband við ákveðna menn í leyfinu.
Heimilt er að setja frekari skilyrði fyrir leyfi til dvalar utan fangelsis.
    Tilgreina skal hvenær fanganum er heimilt að yfirgefa fangelsið og hvenær hann skal vera kominn aftur í fangelsið. Fangi skal tilkynna fangelsinu ef slys, sjúkdómur eða önnur sambærileg atvik gera honum ókleift að koma úr leyfinu á tilsettum tíma.

49. gr.

    Leyfi fanga til dvalar utan fangelsis skulu almennt vera án fylgdar fangavarða. Þetta á þó ekki við þegar fangi hefur gerst sekur um brot eða háttsemi þá sem greinir í 2. og 3. mgr. 47. gr.

50. gr.

    Nú óskar fangi eftir leyfi til dvalar utan fangelsis og skal hann þá sækja um það skriflega til forstöðumanns fangelsis.
    Þegar fanga er veitt leyfi til dvalar utan fangelsis skal afhenda honum skírteini sem greinir skilyrði fyrir leyfisveitingunni, hvaða reglur gilda um leyfið að öðru leyti og hverju það varði að rjúfa skilyrði leyfisins.
    Óheimilt er að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis nema hann undirriti skriflega yfirlýsingu um að hann vilji hlíta þeim reglum og skilyrðum sem gilda um leyfið.

51. gr.

    Fangi ber sjálfur kostnað af leyfi til dvalar utan fangelsis. Fangi skal þó ekki bera kostnað af fylgd fangavarða.

52. gr.

    Heimilt er að afturkalla leyfi til dvalar utan fangelsis vegna hegðunar fanga eða annarra atvika sem verða eftir að ákvörðun um leyfi er tekin og áður en leyfi kemur til framkvæmda, og hefðu komið í veg fyrir leyfisveitinguna ef þau hefðu þá verið kunn. Sama á við ef ástæða er til að ætla að fangi muni misfara með leyfið.
    Nú rýfur fangi skilyrði leyfis til dvalar utan fangelsis eða brýtur gegn þeim reglum sem um leyfið gilda og getur þá sá sem leyfið veitti fellt það niður. Slík brot gegn skilyrðum leyfis eða reglum þess geta varðað agaviðurlögum skv. VI. kafla laga þessara.
    Nú verður fangi uppvís að neyslu áfengis eða ávana- og fíkniefna eða hann hefur framið agabrot í fangelsi eða utan þess og kemur þá leyfi til dvalar utan fangelsis að jafnaði eigi til greina fyrr en að sex mánuðum liðnum frá slíku atviki.

V. KAFLI
Leit, líkamsleit og líkamsrannsókn.
53. gr.

    Forstöðumaður fangelsis tekur ákvörðun um leit í klefa fanga ef grunur leikur á að þar sé að finna muni eða efni sem:
     1.      refsivert er að hafa í vörslum sínum,
     2.      hafa orðið til við refsiverðan verknað,
     3.      smyglað hefur verið inn í fangelsið,
     4.      föngum er óheimilt að hafa í vörslum sínum eða í klefa samkvæmt reglum fangelsis.
Einnig má leita í klefa fanga vegna almenns eftirlits og skoða klefa að öðru leyti þótt skilyrði 1.–4. tölul. séu ekki uppfyllt.
    Fangi skal ekki vera viðstaddur leit í klefa og skal hann fluttur í aðrar vistarverur fangelsis meðan á leit stendur. Heimilt er þó að víkja frá þessu skilyrði. Gera skal skýrslu um leitina og þá muni eða efni sem kunna að hafa fundist og fanga er óheimilt að hafa í klefa.
    Fanga skal skýrt frá ástæðum fyrir leit í klefa áður en hún fer fram nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Ákvörðun um leit í klefa fanga skal tekin með rökstuddri bókun.

54. gr.

    Leita má á fanga og í fötum hans við komu í fangelsi, eftir heimsóknir og við almennt eftirlit til þess að koma í veg fyrir að hann hafi í vörslum sínum muni eða efni sem getið er í 1. mgr. 53. gr.
    Leit á fanga innanklæða skal gerð af fangelsisstarfsmanni sama kyns og fangi er.

55. gr.

    Forstöðumaður tekur ákvörðun um líkamsrannsókn á fanga ef grunur leikur á að hann hafi falið í líkama sínum muni eða efni sem getið er í 1. mgr. 53. gr. Einnig má taka blóðsýni og þvagsýni úr fanga ef grunur leikur á að hann hafi neytt áfengis eða ávana- og fíkniefna, við komu í fangelsi og við almennt eftirlit.
    Læknir eða hjúkrunarfræðingur annast líkamsrannsókn og töku blóðsýnis.
    Nú fer fram líkamsrannsókn og skal gerð skýrsla um tilefni hennar og framkvæmd.
    Ákvörðun um líkamsrannsókn á fanga skal taka með rökstuddri bókun.

56. gr.

    Heimilt er að leggja hald á muni og efni sem getið er í 1. mgr. 53. gr. og finnast við leit í klefa skv. 53. gr., leit á fanga skv. 54. gr. eða við líkamsrannsókn skv. 55. gr.

57. gr.

    Stjórnsýslukæra frestar ekki aðgerðum samkvæmt þessum kafla.

VI. KAFLI
Agaviðurlög o.fl.
58. gr.

    Fyrir brot fanga á reglum fangelsis má beita fanga eftirtöldum agaviðurlögum:
     1.      Sviptingu réttinda sem fangar njóta samkvæmt lögum þessum og reglugerðum,
     2.      sviptingu þóknunar fyrir ástundun vinnu eða náms eða dagpeninga um ákveðinn tíma,
     3.      einangrun í allt að 30 daga.
    Nú er brot smávægilegt og fangi hefur ekki áður framið agabrot, og má þá í stað agaviðurlaga beita skriflegri áminningu.
    Beita má fleiri en einni tegund agaviðurlaga samtímis.

59. gr.

    Fanga má einangra frá öðrum föngum þegar það er nauðsynlegt af öryggisástæðum. Einnig má einangra fanga vegna yfirvofandi hættu sem lífi eða heilbrigði hans er búin. Nú er hætta á að fangi valdi meiri háttar eignaspjöllum á húsakosti eða húsbúnaði fangelsis og má þá halda honum einangruðum, svo og til að koma í veg fyrir strok.
    Þá má einangra fanga til að koma í veg fyrir að hann hvetji aðra til að brjóta reglur fangelsis og hindra að fangi taki þátt í að útvega sér eða öðrum áfengi, önnur vímuefni eða lyf. Fanga má sömuleiðis aðgreina frá öðrum til að afstýra því að hann beiti aðra fanga yfirgangi.
    Heimilt er að einangra fanga að hans eigin ósk.
    Spennibol og handjárn má nota um skamman tíma ef nauðsyn krefur.

60. gr.

    Vista má fanga í öryggisklefa ef nauðsyn krefur til að koma í veg fyrir ofbeldi, hemja ofbeldisfullan mótþróa hans, koma í veg fyrir sjálfsvíg hans eða hindra að hann skaði sjálfan sig eða aðra.
    Þegar fangi er vistaður í öryggisklefa má nota belti, hanska, fót- og handreimar eða fót- eða handjárn.
    Forstöðumaður fangelsis tekur ákvörðun um vistun fanga í öryggisklefa. Vistun í öryggisklefa og aðrar aðgerðir sem beitt er í tengslum við hana skulu aldrei standa lengur en samræmist tilgangi vistunar og beitingu annarra aðgerða.
    Ákvörðun um vistun í öryggisklefa sætir kæru til dómsmálaráðuneytisins og gilda um kæruna ákvæði 2. mgr. 62. gr.

61. gr.

    Þegar einangrun er beitt skv. 58. eða 59. gr., eða fangi settur í öryggisklefa skv. 60. gr., skal kalla til lækni til að skoða fanga. Ef unnt er skal læknir skoða fanga í einangrun eða öryggisklefa daglega.

62. gr.

    Forstöðumaður fangelsis tekur ákvörðun skv. 58. og 59. gr. Áður en slík ákvörðun er tekin skulu málsatvik rannsökuð og skal fanga gefinn kostur á að kynna sér fyrirliggjandi gögn og koma sjónarmiðum sínum um þau á framfæri.
    Ákvarðanir skv. 58. og 59. gr. skulu bókaðar og birtar fanga í viðurvist vitnis. Þessar ákvarðanir sæta kæru til dómsmálaráðuneytisins og skal skýra fanga frá því um leið og ákvörðun er birt. Þegar ákvörðun er kærð skulu gögn málsins þegar send ráðuneytinu. Ráðuneytið skal taka ákvörðun innan fjögurra virkra daga frá því að kæran barst, ella fellur hin kærða ákvörðun úr gildi. Berist kæran utan afgreiðslutíma ráðuneytisins telst hún hafa borist því við upphaf næsta virka dags.

63. gr.

    Heimilt er að setja fanga í einangrun í allt að 24 klukkustundir á meðan könnuð eru málsatvik vegna meints agabrots hans eða hvort skilyrði séu til að einangra fanga skv. 59. gr.

64. gr.

    Forstöðumaður fangelsis getur tekið ákvörðun um að gera upptæka muni eða efni sem óheimilt er að koma með, varðveita eða búa til í fangelsi. Sama gildir um muni eða peninga sem reynt hefur verið að smygla til fanga. Þetta gildir þó ekki um eign grandlauss þriðja manns.
    Forstöðumaður fangelsis getur einnig tekið ákvörðun um upptöku muna eða peninga sem finnast innan fangelsis ef ekki er vitað hver er eigandi þeirra.

VII. KAFLI
Reynslulausn.
65. gr.

    Þegar fangi hefur afplánað tvo þriðju hluta refsitímans getur Fangelsismálastofnun ákveðið að hann skuli látinn laus til reynslu.
    Heimilt er að veita þeim fanga, sem ekki afplánar refsingu fyrir alvarlegt eða að öðru leyti gróft afbrot, lausn til reynslu þegar helmingur refsitímans er liðinn. Nú hefur fangi tvívegis eða oftar afplánað fangelsisrefsingu og verður honum þá ekki veitt reynslulausn samkvæmt þessari málsgrein nema sérstakar ástæður mæli með.
    Fanga, sem á mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem hann er kærður fyrir refsiverðan verknað, verður að jafnaði ekki veitt reynslulausn.
    Fanga, sem telst vera síbrotamaður eða sem ítrekað hefur verið veitt lausn til reynslu og rofið skilyrði þeirra, skal ekki veitt reynslulausn á ný nema sérstakar ástæður mæli með. Sama gildir þegar reynslulausn telst óráðleg vegna haga fangans, svo sem þegar hann hefur ekki vísan samastað eða vinna eða önnur kjör nægja honum ekki til framfærslu.
    Það er skilyrði reynslulausnar að fangi lýsi því yfir að hann vilji hlíta þeim skilyrðum sem sett eru fyrir reynslulausn. Þegar fangi fær lausn til reynslu skal afhenda honum skírteini er greini skilyrði fyrir reynslulausn og hverju skilorðsrof varði.
    Þegar hluti fangelsisrefsingar er óskilorðsbundinn en hluti skilorðsbundinn verður reynslulausn ekki veitt. Sama gildir þegar fangi afplánar vararefsingu fésektar.

66. gr.

    Reynslutími skal vera allt að þremur árum. Nú er óafplánað fangelsi lengra en þrjú ár og má þá ákveða reynslutíma allt að fimm árum.
    Það er skilyrði reynslulausnar að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslutíma. Auk þess má ákveða að reynslulausn verði, allan eða nánar tiltekinn hluta reynslutímans, bundin eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Að sá aðili sé háður umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar eða annars aðila sem hún ákveður.
     2.      Að aðili neyti ekki áfengis eða ávana- og fíkniefna.
     3.      Að aðili hlíti fyrirmælum umsjónaraðila um dvalarstað, menntun, vinnu, umgengni við aðra menn og iðkun tómstundastarfa.
     4.      Að aðili sæti sérstakri meðferð innan eða utan stofnunar. Vistun á stofnun getur þó ekki staðið lengur en til loka refsitíma.
    Fangelsismálastofnun tekur ákvarðanir skv. 1. og 2. mgr. og getur vegna breyttra ástæðna fellt skilyrði niður að nokkru leyti eða öllu.
    Nú sætir aðili skilyrði skv. 2. tölul. 2. mgr. og er þá heimilt að krefjast þess að hann undirgangist rannsókn á öndunarsýni eða blóð- og þvagrannsókn ef ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn skilyrðinu.

67. gr.

    Nú fremur aðili nýtt brot eftir að hann hlýtur reynslulausn og rannsókn hefst hjá lögreglu gegn honum sem sakborningi fyrir lok reynslutíma, og ákveður þá dómstóll sem fjallar um mál þetta refsingu í einu lagi fyrir brot það sem nú er dæmt um og svo með hliðsjón af fangelsisrefsingu sem óafplánuð er samkvæmt reglum 59. gr. almennra hegningarlaga þannig að fangelsi samkvæmt eldra dómi er virt með sama hætti og skilorðsdómur.
    Rjúfi aðili skilorð að öðru leyti getur Fangelsismálastofnun ákveðið hvort breytt skuli skilyrðum og reynslu- og/eða tilsjónartími lengdur allt að lögmæltu hámarki hans eða að aðili taki út refsingu sem eftir stendur.
    Nú er ekki tekin ákvörðun um að aðili afpláni fangelsisrefsingu sem hann átti ólokið, sbr. 1. og 2. mgr., og telst refsingu þá fullnægt á því tímamarki sem aðili fékk reynslulausn.
    Nú er ákveðið að láta aðila taka út eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sbr. 2. mgr., og má þá veita reynslulausn á ný þótt eigi sé fullnægt skilyrðum 1. og 2. mgr. 65. gr. Í þessu tilviki gilda ákvæði 66. gr. um reynslutíma en þó þannig að dreginn skal frá sá tími sem aðili hefur notið reynslulausnar áður.
    Nú er aðila sem sætt hefur refsingu gefin refsingin eftir að hluta eða í heild með náðun, sem bundin er skilyrðum, og eiga þá ákvæði 1.–4. mgr. við fremji hann nýtt brot eða rjúfi skilorð að öðru leyti.

VIII. KAFLI
Skilorðsbundnar refsingar.
68. gr.

    Þegar mælt er fyrir um eftirlit með þeim sem frestað er ákæru gegn, dæmdir eru skilorðsbundið eða fá náðun fer Fangelsismálastofnun með eftirlitið eða felur það öðrum.
    Nú hefur aðila verið sett skilyrði um dvöl á hæli skv. 4. tölul. 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga og getur Fangelsismálastofnun þá vegna breyttra ástæðna fellt skilyrðið niður að nokkru leyti eða öllu, að fengnum tillögum forstöðumanns hælis, ef því er til að skipta.

69. gr.

    Fangelsismálastofnun gerir dómþola grein fyrir því hvað felist í því að sæta eftirliti. Dómþola ber að upplýsa Fangelsismálastofnun um hagi sína og ber að hlíta því sem fyrir hann er lagt af hálfu Fangelsismálastofnunar.

70. gr.

    Nú hefur aðila verið sett skilyrði um að neyta ekki áfengis eða ávana- og fíkniefna og getur þá Fangelsismálastofnun krafist þess að dómþoli undirgangist rannsókn á öndunarsýni eða blóð- og þvagrannsókn ef ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn skilyrðinu.

71. gr.

    Telji Fangelsismálastofnun að sá sem sætir eftirliti hafi rofið skilyrði þau sem honum var gert að hlíta með dómi eða ákærufrestun skal Fangelsismálastofnun gera lögreglu og ákæruvaldi viðvart.
    Eftirliti Fangelsismálastofnunar með því að dómþoli haldi sérstök skilyrði samkvæmt dómi eða ákærufrestun lýkur þegar opinber rannsókn á meintum skilorðsrofum dómþola hefst hjá lögreglu.

IX. KAFLI
Fullnusta fésekta, innheimta sakarkostnaðar og framkvæmd upptöku.
72. gr.

    Lögreglustjórar annast innheimtu sekta sem ákvarðaðar eru af dómstólum eða stjórnvöldum nema annað komi fram í viðkomandi sektarákvörðun.
    Lögreglustjórum er heimilt að leyfa að sekt sé greidd með afborgunum. Eigi skal þó veita lengri greiðslufrest en eitt ár frá því að sekt kemur til innheimtu.
    Hafi greiðsla sektar ekki farið fram á tilskildum tíma skal þegar innheimta hana eða eftirstöðvar hennar með fjárnámi.
    Ekki er leyfilegt, án sérstakrar lagaheimildar, að krefjast greiðslu sektar úr dánarbúi sökunauts né að innheimta sekt hjá nokkrum öðrum en sökunaut sjálfum.
    Sökunautur sem gerð hefur verið sekt getur ekki krafið aðra um endurgreiðslu eða bætur vegna greiðslu sektarinnar.

73. gr.

    Nú telur lögreglustjóri að innheimtuaðgerðir séu þýðingarlausar eða fullreyndar og skal hann þá ákveða að vararefsingu verði beitt. Að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun skal sektarþola send tilkynning um fyrirhugaða afplánun vararefsingar.
    Tilkynningu skal senda með sannanlegum hætti.
    Nú hefur hluti sektar verið greiddur og ákveður lögreglustjóri þá styttingu afplánunartíma að sama skapi, en þó þannig að afplánunartíminn verði ekki styttri en tveir dagar og að sektarfjárhæð sem svarar til hluta úr degi afplánist með heilum degi.

74. gr.

    Nú innheimtist fésekt ekki og lögreglustjóri hefur ákveðið að maður skuli afplána vararefsingu hennar, og er þá heimilt, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að fullnusta vararefsinguna með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 20 klukkustundir og mest 480 klukkustundir.
    Hafi dómþoli í einni eða fleiri refsiákvörðunum verið dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi og gert að greiða fésekt verður vararefsing ekki fullnustuð með samfélagsþjónustu ef samanlögð fangelsisrefsing og vararefsing er lengri en eitt ár. Sama gildir ef fullnusta á í einu lagi vararefsingu samkvæmt fleiri en einni sektarákvörðun.

75. gr.

    Ákvæði II. kafla D um samfélagsþjónustu gilda þegar vararefsing samkvæmt þessum kafla er fullnustuð með samfélagsþjónustu að öðru leyti en því að í stað þess að umsókn um afplánun vararefsingar með samfélagsþjónustu sé send Fangelsismálastofnun skal sektarþoli senda lögreglustjóra slíka umsókn skriflega eigi síðar en sjö dögum eftir að honum barst tilkynning um fyrirhugaða afplánun vararefsingar.
    Þegar lögreglustjóra berst umsókn um fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu skal hann framsenda Fangelsismálastofnun umsóknina til ákvörðunar ásamt gögnum máls og umsögn sinni.

76. gr.

    Lögreglustjóri annast innheimtu sakarkostnaðar.
    Um innheimtu sakarkostnaðar gilda ákvæði 72. og 73. gr. eftir því sem við á.

77. gr.

    Lögreglustjóri annast framkvæmd eignaupptöku.
    Nú er það sem gert hefur verið upptækt í vörslu lögreglu og skal lögreglustjóri ráðstafa því ef ætla má að það hafi verðgildi umfram kostnað við sölu. Að öðrum kosti skal eyða því sem gert hefur verið upptækt.

X. KAFLI
Málsmeðferð og kæruheimildir.
78. gr.

    Þegar forstöðumaður fangelsis tekur ákvörðun að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun samkvæmt ákvæðum laga þessara er slík ákvörðun kæranleg til ráðuneytis.
    Fangi á ekki rétt á aðgangi að málsgögnum sem innihalda upplýsingar um aðra fanga eða öryggisatriði viðkomandi fangelsis.
    Heimilt er að halda gögnum og upplýsingum frá fanganum ef slíkt telst nauðsynlegt með tilliti til öryggis fangelsisins, brotaþola, vitna eða annarra sem tengjast máli fanga, annarra fanga, rannsóknar sakamáls eða annarra sérstakra ástæðna.

XI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
79. gr.

    Ákvæði V. og VI. kafla laganna gilda einnig um gæsluvarðhaldsfanga.
    Eftir því sem við getur átt gilda ákvæði II., III. og IV. kafla laganna einnig um gæsluvarðhaldsfanga svo framarlega sem annað leiði ekki af takmörkunum sem gæsluvarðhaldsfanga er gert að sæta á grundvelli laga um meðferð opinberra mála. Þó ber gæsluvarðhaldsfanga ekki að stunda vinnu í fangelsi.
    

80. gr.

    Dómsmálaráðherra skipar þriggja manna nefnd, náðunarnefnd, svo og þrjá varamenn, til þriggja ára í senn. Formaður nefndarinnar og varaformaður skulu uppfylla skilyrði laga til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara.
    Nefndin skal láta ráðherra í té rökstudda tillögu um afgreiðslu á erindum sem til hans er skotið vegna ákvörðunar Fangelsismálastofnunar um samfélagsþjónustu og reynslulausn, svo og um afgreiðslu náðunarbeiðna.

81. gr.

    Hjá Fangelsismálastofnun og í fangelsum er vinnsla persónuupplýsinga um fanga heimil, þar á meðal þeirra upplýsinga sem viðkvæmar geta talist, að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg vegna starfsemi viðkomandi stofnunar. Um meðferð persónuupplýsinga samkvæmt þessari grein fer samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

82. gr.

    Dómsmálaráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal reglur um Fangelsismálastofnun og hlutverk hennar. Í reglugerð er einnig heimilt að mæla fyrir um vinnu og nám fanga, um greiðslu og fjárhæð þóknunar fyrir vinnu og nám og um greiðslu fanga á kostnaði af dvöl í fangelsi.
    Þá er ráðherra heimilt að kveða nánar á í reglugerð um leyfi til dvalar utan fangelsis, um viðtöl við fanga í fjölmiðlum, trúnaðarmenn fanga og önnur atriði er varða framkvæmd ákvæða um réttindi og skyldur fanga, svo og um veitingu reynslulausnar, þar á meðal útfærslu skilyrða reynslulausnar.
    Fangelsismálastofnun setur reglur fangelsa.

83. gr.

    Sá sem smyglar eða reynir að smygla til fanga munum eða efnum sem getið er í 53. gr. og hann veit eða má vita að fanga er óheimilt að hafa í fangelsi skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

84. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. júlí 2004.
    Jafnframt falla úr gildi lög um fangelsi og fangavist, nr. 48 19. maí 1988, með síðari breytingum, svo og 40.–42. gr., 2.–5. mgr. 52. gr. og 58. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Lögin gilda um þá dóma sem eru til fullnustu við gildistöku laganna og þá dóma sem koma til fullnustu eftir þann tíma.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Fangelsismálalöggjöfin hefur um nokkra hríð verið til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu. Dómsmálaráðherra skipaði árið 2001 vinnuhóp til að gera heildarendurskoðun á lögum og reglum um fullnustu refsidóma, og semja lagafrumvarp sem ætlað væri að leysa af hólmi lög um fangelsi og fangavist, nr. 48 19. maí 1988, og önnur lagaákvæði þar sem fjallað væri um fullnustu refsinga. Í vinnuhópnum hafa starfað Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, og var hún formaður vinnuhópsins, Benedikt Bogason héraðsdómari og Þorsteinn A. Jónsson, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins. Elín Vigdís Hallvarðsdóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, vann með hópnum að samningu frumvarpsins. Vinnuhópurinn skilaði dómsmálaráðuneytinu tillögum sem frumvarp þetta er reist á.
    Í frumvarpinu er lagt til að fjölmörgum ákvæðum laga og reglugerða um fullnustu refsinga verði skipað í ein heildarlög, er varði réttindi og skyldur dæmdra manna. Miðar frumvarpið bæði að því að gera gildandi reglur skýrari og að styrkja lagastoð ýmissa ákvæða. Sem dæmi má nefna að ýmis ákvæði eru í frumvarpinu um réttindi og skyldur fanga hvað varðar símtöl og bréfaskriftir, hvaða muni fangi má hafa í klefa sínum, rétt hans til að njóta útiveru, iðka tómstundastörf, aðgang að hreinlætisaðstöðu, aðgang að fjölmiðli til að fylgjast með gangi þjóðmála og rétt til að hafa samband við prest eða annan sambærilegan fulltrúa skráðs trúfélags.
    Þá miða nokkur ákvæði að því að bæta öryggi í fangelsi, til hagsbóta fyrir bæði þá sem dvelja þar og starfa. Lagt er til að fangaverðir og annað starfsfólk fangelsa sé bundið þagnarskyldu áþekkri þeirri sem lögreglumenn hlíta. Einnig er lagt til að heimild fangavarða til að beita valdi verði lögbundin, en hún verði bundin því skilyrði að þeir megi ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. Fyrirmyndin er sótt til lögreglulaga. Auk þess eru lögð til ákvæði til að stemma stigu við smygli á munum og efnum til fanga, sem honum er óheimilt að hafa í fangelsi. Heimilt verði að leita á þeim sem heimsækir fanga og að láta hann gangast undir líkamsrannsókn. Þá verði jafnframt refsivert að smygla eða reyna að smygla munum eða efnum til fanga.
    Fyrrnefnd heildarendurskoðun tekur til laga um fangelsi og fangavist ásamt nokkrum ákvæðum almennra hegningarlaga er varða innheimtu sekta og reynslulausn. Þá er ráðgert að lögfest verði fjölmörg ákvæði sem nú er skipað í reglugerð. Er einkum um að ræða reglugerð um fullnustu refsidóma, nr. 29/1993, reglugerð um vinnu, nám og dagpeninga til afplánunarfanga, nr. 409/1998, reglugerð um leyfi afplánunarfanga til dvalar utan fangelsis, nr. 719/1995, og reglugerð um bréfaskipti, símtöl og heimsóknir til afplánunarfanga, nr. 119/ 1990.
    Við samningu frumvarpsins var einnig höfð hliðsjón af ákvæðum danskra laga um fullnustu refsinga, þ.e. lov om fuldbyrdelse af straf, nr. 432/2000, og norskra laga um sama efni, þ.e. lov om gjennomføring af straff, nr. 21/2000. Einnig var litið til ákvæða evrópsku fangelsisreglnanna sem gefnar voru út af Evrópuráðinu í febrúar 1987.
    Loks var höfð hliðsjón af álitum umboðsmanns Alþingis um málefni fanga sem gefin hafa verið síðastliðin ár.
    Í frumvarpinu eru ýmis nýmæli og breytingar og eru þessar helstar:

1. Upphaf afplánunar.
    Lagt er til að fjallað verði nánar um upphaf afplánunar í frumvarpinu en nú er gert og með hvaða hætti hún hefst, sbr. 10. og 11. gr. frumvarpsins. Lögð er áhersla á að frestun á afplánun heyri til undantekninga. Í því sambandi er lagt til að tímalengd frestsins verði stytt frá núgildandi reglugerðarákvæðum, sbr. 11. gr. frumvarpsins.

2. Störf og nám fanga.
    Ákvæði 19.–22. gr. frumvarpsins fjalla um störf, eða eftir atvikum nám, fanga. Fjallað er um vinnuskyldu, heimild fanga til að útvega sér sjálfur vinnu, greiðslu þóknunar og hvað megi draga af henni. Nýmæli er í 3. mgr. 19. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að draga megi af launum fanga fyrir uppihald í fangelsi ef hann nýtur þeirrar ívilnunar að stunda launaða vinnu sem hann hefur sjálfur útvegað. Er fyrirmynd þessa ákvæðis sótt í dönsku fullnustulögin.

3. Réttindi og skyldur fanga.
    Í III. kafla frumvarpsins, um réttindi og skyldur fanga, eru fjölmörg nýmæli. Ítarleg ákvæði eru um heimsóknir til fanga, sbr. 33.–34. gr. frumvarpsins, og heimild til að kalla til túlk fangaverði til aðstoðar ef nauðsyn krefur og aðstæður leyfa, sbr. 2. mgr. 35. gr. Eins og fram kemur hér að framan hefur verið leitast við að gera réttindi og skyldum fanga skýr skil í sambandi við símtöl, sbr. 36. gr., og bréfaskipti, sbr. 37. gr.. Þá er lagt til að lögfest verði ýmis mikilsverð réttindi fanga: réttur fanga til að fylgjast með gangi þjóðmála, sbr. 38. gr., réttur til útivistar, tómstundastarfa o.fl., sbr. 39. gr., réttur erlendra fanga til að hafa samband við sendiráð eða annan sambærilegan fulltrúa lands síns, sbr. 40. gr., og réttur fanga til að hafa samband við prest eða annan sambærilegan fulltrúa skráðs trúfélags, sbr. 41. gr. Auk þess er lagt til að mælt verði skýrt fyrir um hvaða hluti fangi má hafa í klefa sínum, sbr. 42. gr.

4. Heilbrigðisþjónusta.
    Í frumvarpinu er að finna nokkur ákvæði er varða heilsugæslu fanga. Gert er ráð fyrir að fangar fari í læknisskoðun við upphaf afplánunar, telji Fangelsismálastofnun það nauðsynlegt og óski fangi eftir því. Einnig er fjallað nánar um rétt fanga til að njóta heilbrigðisþjónustu, sbr. 23. gr. frumvarpsins, en ekki er gert ráð fyrir grundvallarbreytingu á núverandi skipan. Eigi kona ungbarn á meðan hún afplánar refsingu skuli það tilkynnt barnaverndarnefnd, sem hafi síðan heimild til að skoða aðstæður í fangelsi, sbr. 24. gr. frumvarpsins.
    Þá er lagt til að þegar fangi afplánar refsingu á sjúkrahúsi ákveði Fangelsismálastofnun í samráði við sjúkrahús hvort hann skuli sæta sérstakri gæslu, sbr. 15. gr. frumvarpsins.

5. Skráning persónuupplýsinga.
    Í frumvarpinu eru nýmæli er varða skráningu persónuupplýsinga um fanga. Fangelsismálastofnun og fangelsum er veitt heimild til að vinna persónuupplýsingar að því marki sem nauðsynlegt er, sbr. 81. gr. frumvarpsins. Um vinnsluna fer samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Þá verði fangelsi veitt heimild til að taka ljósmynd af fanga við upphaf fangavistar, sbr. 2. mgr. 17. gr. frumvarpsins. Það þykir nauðsynlegt, einkum ef fangi strýkur.

6. Fangaverðir.
    Gert er ráð fyrir að kveðið verði nánar á um heimildir og skyldur fangavarða en nú er gert. Lagt er til að fangaverðir hafi sambærilega valdbeitingarheimild, sbr. 7. gr., og þagnarskyldu, sbr. 8. gr., og lögreglumenn hafa við framkvæmd skyldustarfa. Þagnarskylduákvæðið á einnig við um aðra starfsmenn fangelsis, sem og fanga og gesti þeirra.

7. Leit, líkamsleit og líkamsrannsókn.
    Í V. kafla er lagt til að fangavörðum sé heimilt að leita í klefum fanga og gera líkamsleit á fanga og sett ýmis nánari ákvæði þar um. Enn fremur eru í kaflanum ákvæði um líkamsrannsókn á fanga, sbr. 55. gr., og að læknir eða hjúkrunarfræðingur skuli annast hana. Ákvörðun um leit í klefa fanga og líkamsrannsókn skuli tekin með rökstuddri bókun og skýrsla gerð um slíkar aðgerðir.

8. Haldlagning og eignaupptaka.
    Í frumvarpinu eru nokkur nýmæli um haldlagningu og eignaupptöku. Í V. kafla er gert ráð fyrir sérstakri heimild til haldlagningar á munum sem finnast á föngum eða í fangaklefum, sbr. 56. gr. Þá er nýmæli í VI. kafla, um agaviðurlög o.fl., en þar er gert ráð fyrir sérstakri heimild fyrir forstöðumann fangelsis til að gera upptæka muni eða peninga sem smyglað hefur verið inn í fangelsi, og sem ekki eru eign grandlauss þriðja manns. Loks er í 33. gr. lögð til heimild til að leita á þeim sem heimsækja fanga og leggja hald á þá muni sem refsivert er að hafa í vörslum sínum eins og áður er vikið að.

9. Agaviðurlög o.fl.
    Lagðar eru til breytingar á núgildandi ákvæðum um agaviðurlög. Áminning verði ekki talin til agaviðurlaga og læknisskoðun skuli fara fram þegar einangrun er beitt, sbr. 61. gr. Heimilt verði að beita einangrun til bráðabirgða meðan könnuð eru málsatvik vegna meints agabrots, sbr. 63. gr. Ekki eru lagðar til breytingar á málsmeðferð kæru ákvörðunar um agaviðurlög og einangrun fyrir utan þann frest sem ráðuneytið hefur til málsmeðferðar. Lagt er til að hann verði fjórir dagar, sbr. 2. mgr. 62. gr. Þá er lagt til að lögfest verði heimild til að vista fanga í öryggisklefa í ákveðnum tilvikum, og kveðið á um heimild til að halda honum föstum með nánar tilteknum aðferðum, sbr. 60. gr., og læknisskoðun í þessu sambandi, sbr. 61. gr.

10. Leyfi til dvalar utan fangelsis.
    Í IV. kafla er gert ráð fyrir að fangi sem afplánar refsingu fái ekki leyfi til dvalar utan fangelsis nema í undantekningartilfellum. Lagt er til að lögfest verði í hvaða tilvikum fangi eigi rétt á leyfi, sbr. 44. gr. frumvarpsins, í stað þess að kveða á um það í reglugerð eins og nú er gert.
    Ekki er gert ráð fyrir að fangar fái leyfi til dvalar utan fangelsis til að stunda vinnu, en í stað þess lagt til að þeir geti fengið leyfi til dvalar utan fangelsis til að stunda nám eða starfsþjálfun, sbr. 45. gr., enda teljist það heppilegur þáttur í refsifullnustu eða til að búa fanga undir að afplánun ljúki.

11. Reynslulausn.
    Ákvæði 40.–42. gr. almennra hegningarlaga um reynslulausn eru tekin upp í VI. kafla frumvarpsins, ásamt ákvæðum reglugerðar nr. 29/1993, um fullnustu refsidóma. Í 4. mgr. 66. gr. er nýmæli um að heimilt sé að krefjast þess að sá sem reynslulausn sætir undirgangist rannsókn á öndunarsýni eða blóð- og þvagrannsókn ef ástæða er til að ætla að hann brjóti gegn því skilyrði reynslulausnar að neyta ekki áfengis eða fíkniefna.

12. Skilorðsbundnar refsingar.
    Í VII. kafla er mælt fyrir um skilorðseftirlit Fangelsismálastofnunar. Stofnunin geri dómþola grein fyrir í hverju eftirlitið felst, og honum ber að hlíta því sem Fangelsismálastofnun leggur fyrir hann, sbr. 69. gr. frumvarpsins. Telji Fangelsismálastofnun að dómþoli hafi rofið skilyrði gerir stofnunin lögreglu og ákæruvaldi viðvart, sbr. 71. gr. Þegar opinber rannsókn á meintum skilorðsrofum hefst lýkur skilorðseftirliti Fangelsismálastofnunar. Í 70. gr. er lagt til að Fangelsismálastofnun geti krafist þess að dómþoli undirgangist rannsókn á öndunarsýni eða blóð- og þvagrannsókn ef ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn skilyrði um að neyta ekki áfengis eða ávana- og fíkniefna.

13. Fullnusta fésekta.
    Lagt er til að tiltekin ákvæði almennra hegningarlaga um fullnustu fésekta verði tekin upp í frumvarpið, sbr. ákvæði VIII. kafla.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Fyrsti kafli frumvarpsins fjallar um stjórn og skipulag fangelsismála og er lagt til í upphafi hans að dómsmálaráðherra fari með yfirstjórn fangelsismála. Þetta er óbreytt skipan frá núgildandi lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, sbr. og 3. gr. auglýsingar nr. 96/1969, um staðfestingu forseta á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, með áorðnum breytingum, en samkvæmt henni fer dóms- og kirkjumálaráðuneytið m.a. með framkvæmd refsingar, fangahús og vinnuhæli, reynslulausn refsifanga, náðun og uppgjöf sakar, uppreist æru, fangahjálp og framsal sakamanna.

Um 2. gr.


    Hér er kveðið á um verkefni Fangelsismálastofnunar. Í stað þess að telja upp verkefni stofnunarinnar, eins og gert er í 2. gr. gildandi laga, er lagt til að ákvæðið verði einfaldað og einungis kveðið á um meginverkefni stofnunarinnar.
    Í 2. mgr. er lagt til að Fangelsismálastofnun hafi umsjón með rekstri fangelsa, sem er breyting frá gildandi lögum þar sem kveðið er á um að Fangelsismálastofnun annist daglega yfirstjórn á rekstri fangelsa. Með því er verið að undirstrika að fangelsi séu sjálfstæðar stofnanir og stjórnsýslueiningar.

Um 3. gr.

    Greinin er að nokkru leyti sambærileg við ákvæði 3. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist. Þó er lagt til að afnumin verði skipting fangelsa í afplánunarfangelsi og gæsluvarðhaldsfangelsi, en sérstakt gæsluvarðhaldsfangelsi hefur ekki verið starfrækt hér á landi um árabil.

Um 4. gr.


    Greinin er óbreytt frá 4. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist.

Um 5. gr.


    Hér er mælt fyrir um skipun forstöðumanns fangelsis, sbr. 5. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist.

Um 6. gr.


    Greinin er nær samhljóða 6. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist. Þó er lagt til að heimilt sé að skipa fangaverði sem ekki hafi lokið námi frá Fangavarðaskóla ríkisins. Gert er ráð fyrir að það verði einungis gert í undantekningartilvikum.

Um 7. gr.


    Ákvæðið er sambærilegt við 14. gr. lögreglulaga, nr. 90, 13. júní 1996. Líta verður á það sem meginreglu að fangaverðir sinni skyldustörfum sínum án valdbeitingar. Skilyrði valdbeitingar er að aldrei verði gengið lengra í beitingu valds en nauðsynlegt er hverju sinni og að ekki verði gripið til valdbeitingar nema önnur mildari úrræði hafi verið reynd án árangurs. Byggist það á meðalhófsreglunni um að ekki sé beitt harkalegra úrræði en nauðsynlegt er til að náð verði því markmiði sem að er stefnt hverju sinni.

Um 8. gr.


    Ákvæðið er sambærilegt við 22. gr. lögreglulaga. Í 18. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er kveðið á um að ríkisstarfsmanni sé skylt að gæta þagmælsku um atriði sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skuli fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna eða eðli máls. Þagnarskyldan haldist þótt látið sé af starfi. Samkvæmt 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, varðar það opinbera starfsmenn refsingu ef hann segir frá nokkru sem leynt á að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu eða varðar embætti hans eða sýslan.
    Vegna eðlis starfa starfsmanna fangelsa og Fangelsismálastofnunar þykir rétt að kveðið verði sérstaklega á um þagnarskyldu. Þagnarskyldan tekur til upplýsinga sem starfsmenn fá í starfi sínu og vegna þess. Ákvæðið á við um alla sem starfa í fangelsum, ekki einvörðungu fangaverði og starfsmenn Fangelsismálastofnunar. Þagnarskyldan tekur til upplýsinga um einkahagi fanga sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsinga um starfshætti fangelsa og fangelsisyfirvalda og annarra upplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, starfsreglum eða eðli máls. Sérstaklega er kveðið á um að þagnarskyldan haldist þótt látið sé af starfi.
    Í 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, eru taldar upp þær upplýsingar sem teljast viðkvæmar persónuupplýsingar. Meðal þeirra eru upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað og upplýsingar um heilsuhagi, lyfja-, áfengis- eða vímuefnanotkun. Má af þessu fá nokkrar vísbendingar um til hvaða upplýsinga þagnarskyldan nær þótt ekki sé þetta tæmandi upptalning.
    Tilgangur greinarinnar er að sporna við því að fangaverðir, aðrir sem starfa í fangelsum og starfsmenn Fangelsismálastofnunar láti af hendi upplýsingar sem ákvæðið tekur til.

Um 9. gr.


    Efni ákvæðisins svarar til 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 29/1993, um fullnustu refsidóma. Þó er hér einungis gert ráð fyrir að Fangelsismálastofnun taki við refsidómum til fullnustu frá ríkissaksóknara, en ekki frá Hæstarétti og öðrum dómum þar sem refsing er ákveðin, eins og reglugerðarákvæðið hljóðar á um. Rétt þykir að þegar dómur er sendur Fangelsismálastofnun til fullnustu sé hann fullnustuhæfur. Ríkissaksóknari sér um birtingu dóma og dómarnir eru fyrst fullnustuhæfir þegar þeir berast birtir frá ríkissaksóknara til Fangelsismálastofnunar.

Um 10. gr.


    Hér er kveðið á um með hvaða hætti afplánun hefst miðað við hvort dómþoli er frjáls, afplánar dóm eða situr í gæsluvarðhaldi. Er þetta nýmæli í lögum en 1. mgr., 3. mgr. og 5. mgr. ákvæðisins eiga fyrirmynd í dönsku fullnustulögunum. Rétt þykir að tekin séu af tvímæli um þetta.
    Ákvæði 2. mgr. er sambærilegt við 2. gr. reglugerðar nr. 29/1993.
    Í 4. mgr. er lagt til að heimilt sé að láta dómþola hefja afplánun án boðunar eða áður en afplánun á að hefjast samkvæmt boðun fremji dómþoli refsiverðan verknað á ný, ef hætta er talin á að hann reyni að koma sér undan refsingu eða ef almannahagsmunir mæla með því. Auk þess að ákvæðið eigi við ef dómþoli fremur nýjan refsiverðan verknað á það t.d. við um þegar dómþoli sætir farbanni eða lögregla hefur endurtekin afskipti af honum án þess að um refsiverðan verknað sé að ræða eða aðstandendur dómþola óska eftir að afplánun hefjist fyrr en gert var ráð fyrir.

Um 11. gr.


    Efni ákvæðisins er að stofni til úr 3. gr. reglugerðar nr. 29/1993. Þó eru lagðar til nokkrar breytingar. Lagt er til að Fangelsismálastofnun geti veitt stuttan frest mæli sérstakar ástæður með því, en fresturinn geti ekki orðið lengri en þrír mánuðir alls. Er þetta stytting á fresti frá 3. gr. reglugerðar nr. 29/1993, en samkvæmt henni er heimilt að veita frest í allt að sex mánuði.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um að við ákvörðun um frest á afplánun skuli, auk þess að taka mið af alvarleika afbrots dómþola, sakarferli og hversu langt sé frá því að brot var framið, taka mið af persónulegum aðstæðum dómþola. Þá er lagt til að synja skuli um frest ef beiðni er fyrst borin fram eftir að afplánun á að vera hafin samkvæmt boðun.
    Ákvæði 3. mgr. eru að efni til úr 4. gr. reglugerðar nr. 29/1993. Einnig eru sambærileg ákvæði í dönsku fullnustulögunum.
    Í 4. og 5. mgr. eru sambærileg ákvæði við 13. gr. dönsku laganna um að ef dómþoli rýfur skilyrði fyrir frestun fullnustu eða gefur rangar upplýsingar vegna frestbeiðnar geti Fangelsismálastofnun ákveðið að afplánun hefjist án fyrirvara.
    Mæti dómþoli ekki að fresti loknum til afplánunar felur Fangelsismálastofnun lögreglu að handtaka dómþola og færa í fangelsi, sbr. 10. gr.

Um 12. og 13. gr.


    Greinarnar eru efnislega samhljóða 9. gr. og 3. mgr. 31. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist. Rétt þykir að leggja á það áherslu að gert er ráð fyrir að hlé á afplánun refsingar verði aðeins í algerum undantekningartilvikum. Þá er í 12. gr. nýmæli þess efnis að náist fangi sem strýkur eftir hluta úr degi bætist heill dagur við afplánunartímann.

Um 14. gr.


    Ákvæði 1. mgr. 14. gr. er hliðstætt 1. mgr. 8. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist.
    Í 2. og 3. mgr. eru nýmæli um heimild til að flytja fanga milli fangelsa og fangelsisdeilda. Slíkur flutningur getur t.d. verið nauðsynlegur út frá skipulags- eða öryggissjónarmiðum, sbr. það sem fram kemur um 4. mgr. hér á eftir.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um að ekki sé skylt að gefa fanga kost á að tjá sig áður en ákveðið er að flytja hann milli fangelsa eða klefa. Er það í fyrsta lagi vegna öryggissjónarmiða, en gildar ástæður geta legið til þess að fangi fái ekki að vita um flutning áður en hann fer fram. Í öðru lagi verður að veita fangelsisyfirvöldum nauðsynlegt svigrúm til að flytja fanga á milli fangelsa af skipulagsástæðum; fangar geta ekki krafist þess að vera vistaðir í einu fangelsi umfram annað.

Um 15. gr.


    Ákvæði 1. og 2. mgr. 15. gr. eru hliðstæð 1. mgr. 11. gr. og 12. gr. gildandi laga.
    Í 3. mgr. er nýtt ákvæði þar sem gert ráð fyrir að Fangelsismálastofnun ákveði, að höfðu samráði við sjúkrahús, hvort fangi skuli sæta sérstakri gæslu á meðan hann er á sjúkrahúsi.
    

Um 16. gr.


    Ákvæði 16. gr. frumvarpsins eru hliðstæð 35. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist. Þó er lagt til það nýmæli að heimilt sé að láta fanga lausan á öðrum tíma en kl. 8 að morgni ef sérstaklega stendur á. Þarna eru sérstaklega höfð í huga þau tilvik þegar útlendingar, sem ljúka afplánun, sæta brottvísun úr landi og eru sendir með morgunflugi frá landinu. Er þá mikilvægt að þeir séu ekki lengur skilgreindir sem fangar sem þurfa eftir atvikum fylgd. Ákvæðið á því aðeins við í undantekningartilvikum.

Um 17. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að við móttöku fanga í afplánun skuli skrá upphafsdag afplánunar og lok hennar samkvæmt dómi. Enn fremur skuli skrá upplýsingar um persónulega hagi fanga og við hverja eigi að hafa samband ef fangi veikist eða deyr meðan á afplánun stendur. Hér er um nýmæli að ræða, en ákvæðið tekur mið af 8. gr. evrópsku fangelsisreglnanna. Um vinnslu persónuupplýsinga vísast til 81. gr. frumvarpsins og athugasemda við hana.
    Þá er lagt til í 2. mgr. að heimilt sé að taka andlitsmyndir af föngum. Það þykir m.a. nauðsynlegt ef fangi strýkur úr fangelsi.
    Um nýmæli er að ræða í 3. mgr. þar sem gert er ráð fyrir að leyfa megi fanga að láta aðstandendur sína og lögmann vita við upphaf afplánunar og við flutning fanga milli fangelsa til lengri tíma, nema talið sé að það geti haft áhrif á öryggi eða almenna reglu í fangelsinu.

Um 18. gr.


    Í greininni er fjallað um hvaða upplýsingar fangar skuli fá þegar afplánun hefst. Ákvæðið er nýmæli sem tekur mið af evrópsku fangelsisreglunum og dönsku fullnustulögunum. Telja verður eðlilegt að fangar fái þegar við upphaf afplánunar allar þær upplýsingar sem um afplánunina gilda, svo og um réttindi sín og skyldur.
    Ákvæðið á enn fremur rót sína að rekja til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2805/1999, sem var frumkvæðisathugun um ýmis réttindamál fanga. Lauk henni í nóvember 2001. Í áliti umboðsmanns kom m.a. fram að þær upplýsingar sem fangar fengju um réttarstöðu sína við upphaf afplánunar væru ekki samræmdar. Gerði umboðsmaður m.a. athugasemdir við að í þeim upplýsingum kæmi ekki fram að fangar gætu leitað í trúnaði til umboðsmanns Alþingis, skriflega eða símleiðis, og ekki væri getið skrifstofu hans eða símanúmers. Þá taldi umboðsmaður rétt að upplýsingar um rétt og skyldur fanga við upphaf afplánunar væru einnig til í enskri þýðingu.
    Í 1. mgr. 18. gr. er talið nægilegt að kveða á um að fangar fái upplýsingar um að heimilt sé að beina kvörtun til umboðsmanns Alþingis. Rétt er að geta þess að í frumvarpinu má einnig finna ákvæði um heimild fanga til að leita í trúnaði til umboðsmanns Alþingis, sbr. 36. gr. um símtöl og 37. gr. um bréfaskipti fanga.

Um 19. gr.


    Hér er fjallað um skyldu fanga til að vinna í fangelsi. Ákvæðin eru að efni til úr 1. gr. reglugerðar nr. 409/1998, um vinnu, nám og dagpeninga til afplánunarfanga. Þá er ákvæði 1. mgr. samhljóða 2. mgr. 13. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist. Auk þess var litið til ákvæða í dönsku fullnustulögunum.
    Ákvæði síðari málsliðar 3. mgr. er nýmæli og sækir fyrirmynd sína til dönsku fullnustulaganna. Rökin að baki ákvæðinu eru að fangi, sem nýtur þeirrar ívilnunar að mega stunda þá vinnu sem hann útvegar sér sjálfur, greiði á móti gjald til að standa straum af kostnaði við dvölina í fangelsinu. Hér er gengið út frá því að meðalhófs sé gætt við beitingu ákvæðisins og að fangi, sem útvegar sér vinnu sjálfur, komi ekki verr út fjárhagslega en fangi sem stundar þau störf í fangelsi sem honum eru falin. Um nánari skilyrði og upphæð gjaldsins fer samkvæmt reglugerð er ráðherra setur, sbr. 82. gr.
    Ákvæði 5. mgr., um að daglegur vinnutími fanga skuli að jafnaði ekki vera lengur en 8 klukkustundir á dag, ber að skilja þannig að víkja megi frá því vegna tímabundinna anna.

Um 20. gr.


    Í greininni er fjallað um að fangi skuli eiga kost á að stunda nám eða starfsþjálfun meðan á afplánun stendur, sem komi í stað vinnuskyldu. Ákvæðið er að stofni til úr 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 409/1998.

Um 21. gr.


    Hér eru ákvæði um þóknun fyrir ástundun vinnu eða náms fanga og dagpeninga, sé ekki unnt að útvega fanga vinnu eða geti hann ekki stundað vinnu eða nám. Ákvæðið er í samræmi við IV. kafla reglugerðar nr. 409/1998.
    Lagt er til að í stað þess að rætt verði um vinnulaun verði notað orðið þóknun og er það gert til að skilja á milli launa á almennum vinnumarkaði og þeirrar greiðslu sem fangar fá fyrir störf í fangelsi.
    Í 2. mgr. er fjallað um dagpeninga og tekið fram að dagpeningar greiðist eingöngu á virkum dögum. Það er til að gæta samræmis við þóknun vegna vinnu og náms. Fangelsismálastofnun skal ákvarða fjárhæð dagpeninga og miðast hún við að fangar eigi fyrir brýnustu nauðsynjum til persónulegrar umhirðu.
    Þá er ekki gert ráð fyrir að fangi sem vistaður er tímabundið utan fangelsis, svo sem á sjúkrahúsi eða annars staðar þar sem hann nýtur sérstakrar umönnunar, fái greidda dagpeninga þann tíma, nema að fengnu sérstöku samþykki Fangelsismálastofnunar. Slíkt samþykki verður að líta á sem undantekningu frá almennu reglunni um að dagpeningar greiðist ekki í þeim tilvikum sem 4. mgr. á við um. Ekki er gert ráð fyrir að fangi sem er í leyfi skv. IV. kafla fái dagpeninga og undantekningarregla 4. mgr. um samþykki Fangelsismálastofnunar á hér ekki við.

Um 22. gr.


    Í greininni eru ákvæði um að þóknun fanga fyrir ástundun vinnu eða náms megi taka til greiðslu á skaðabótum eða öðrum útgjöldum sem fangi verður ábyrgur fyrir meðan á afplánun stendur, þar á meðal skuldum við fangelsi, þó ekki meira en 70% af þóknun eða dagpeningum.
    Ákvæðið er sambærilegt við 4. mgr. 13. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist og 11. gr. reglugerðar nr. 409/1998 utan að ekki er gert ráð fyrir að lokamálsliður síðarnefndu greinarinnar eigi hér við, þ.e. um að heimilt sé að taka síðustu greiðslu að öllu leyti upp í skuldir.

Um 23. gr.


    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að fangar fari í læknisskoðun við upphaf afplánunar, ef Fangelsismálastofnun telur það nauðsynlegt eða fangi óskar eftir því. Tilgangurinn er að læknir geti kannað heilbrigði fanga og líkamlegt ástand við komu hans í fangelsi svo fyrir liggi upplýsingar um ástand hans þá ef það breytist síðar.
    Ákvæði 2. mgr. er samhljóða síðari málslið 2. mgr. 2. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist, eins og honum var breytt með lögum nr. 10/1997. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að nefndum lögum kemur fram að gert sé ráð fyrir að Fangelsismálastofnun sjái um að í fangelsum sé fyrir hendi viðunandi aðstaða fyrir heilbrigðisþjónustu við fanga.
    Ekki er kveðið sérstaklega á um einstaka þætti heilbrigðisþjónustu, svo sem tannlæknaþjónustu og hver skuli bera kostnað af henni. Um þetta var fjallað í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 102/1989. Umboðsmaður taldi það annmarka á lögum að ekki væri skýrt kveðið á um hver eigi að bera kostnað af tannlæknaþjónustu fanga. Taldi hann lagaheimild bresta fyrir því að fella kostnaðinn fortakslaust á ríkissjóð og að Fangelsismálastofnun bæri að sjá til þess að fangar fengju nauðsynlegar tannviðgerðir án tillits til þess hvort þeir gætu greitt fyrir þær. Fangelsisyfirvöld gætu krafið fanga um útlagðan kostnað af tannviðgerðum með þeim takmörkunum sem leiddi af þörf þeirra fyrir fé til brýnna nauðsynja.
    Ekki þykir rétt að kveða á um kostnað af heilbrigðisþjónustu við fanga í lögum um fullnustu refsinga. Taka verður afstöðu til þess á öðrum vettvangi, svo sem í lögum eða reglugerðum sem varða sjúkratryggingar einstakra hópa í þjóðfélaginu.

Um 24. gr.


    Ákvæði 1. mgr., um að konu sem eignast barn meðan á afplánun stendur sé heimilt að hafa það í fangelsinu, er efnislega samhljóða 2. mgr. 8. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist.
    Í 2. málsl. 1. mgr. er gert ráð fyrir að Fangelsismálastofnun tilkynni barnaverndarnefnd um fæðingu barns meðan móðir afplánar dóm og ef ungbarn fylgir móður í fangelsi.
    Í 2. mgr. er lagt til að barnaverndarnefnd geti kannað aðstæður í fangelsi og hagi móður til umönnunar barnsins. Rétt þykir að sérstaklega verði kveðið á um þetta þótt meginákvæði um úrræði barnaverndarnefndar sé í barnaverndarlögum, nr. 80/2002.

Um 25. gr.


    Ákvæði 1. mgr. um skilyrði fullnustu utan fangelsis er efnislega samhljóða 2. mgr. 11. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist. Auk þess er lagt til í 2. mgr. að Fangelsismálastofnun geti bundið lok afplánunar utan fangelsis frekari skilyrðum.

Um 26. gr.


    Þegar fangi brýtur gegn reglum stofnunar eða heimilis er heimilt að ákveða að hann sæti agaviðurlögum skv. VI. kafla.
    Fangelsismálastofnun gerði á sínum tíma samning við áfangaheimilið Vernd þess efnis að um fanga sem ljúka afplánun á grundvelli 2. mgr. 11. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist giltu almenn ákvæði þeirra laga. Leiddi það m.a. til þess að föngum var gert að sæta agaviðurlögum skv. 31. gr. laganna. Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í máli sínu nr. 3034/2000 að í 2. mgr. 11. gr. laga um fangelsi og fangavist væri gert ráð fyrir að fangi gæti lokið afplánun utan fangelsis. Hins vegar væri 31. gr. laganna um agaviðurlög takmörkuð við afplánun í fangelsi. Ákvörðun um agaviðurlög væri íþyngjandi ákvörðun og af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og sjónarmiðum um réttaröryggi fanga leiddi að lagaheimild til beitingar agaviðurlaga þyrfti að vera skýr og glögg. Umboðsmaður taldi ekki hafa verið fullnægjandi lagaheimild til þess að fangar sættu agaviðurlögum á áfangaheimili Verndar.
    Með hliðsjón af þessu áliti umboðsmanns Alþingis er talið rétt að taka af öll tvímæli um beitingu agaviðurlaga við afplánun refsidóma utan fangelsa í lögum.
    Þá er enn fremur lagt til að Fangelsismálastofnun geti ákveðið að fangi skuli færður aftur í fangelsi ef þau tilvik liggja fyrir sem greinir í 2. mgr. Í slíkum tilvikum verði ekki skylt að gefa fanga kost á að tjá sig áður en ákveðið sé að flytja hann í fangelsi á ný.

Um 27.–31. gr.


    Ákvæðin eru nánast samhljóða ákvæðum 22.–26. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist. Þó eru nokkur nýmæli í kaflanum. Lagt er til að við þau skilyrði samfélagsþjónustu, að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum, bætist að dómþoli afpláni ekki þá þegar refsingu í fangelsi, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. Þá lagt er til að almennt skuli synja beiðni um samfélagsþjónustu mæti dómþoli ekki til viðtals hjá Fangelsismálastofnun þegar fram fer athugun á persónulegum högum hans.
    Einnig eru í 2. mgr. 30. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar frá orðalagi núgildandi ákvæðis 2. mgr. 25. gr. laga um fangelsi og fangavist til samræmis við núgildandi framkvæmd. Bætt verði við heimild til að krefjast þess að aðili, sem bundinn er því skilyrði að neyta ekki áfengis eða ávana- og fíkniefna, undirgangist rannsókn á öndunarsýni eða blóð- og þvagrannsókn ef ástæða sé til að ætla að hann hafi brotið gegn skilyrðinu.

Um 32. gr.


    Ákvæðið er nánast óbreytt frá 16. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist.

Um 33. gr.


    Í greininni er fjallað um rétt fanga til að fá nánustu vandamenn í heimsókn í fangelsið á ákveðnum viðtalstímum. Tekið er fram að fangi eigi rétt á heimsóknum eigi sjaldnar en vikulega. Ekki er gert ráð fyrir að sett verði hámark á heimsóknir til fanga. Verði því að miða við að fangi geti tekið við heimsóknum í hverjum viðtals- eða heimsóknartíma fangelsis. Tekið er fram að forstöðumaður fangelsis geti leyft frekari heimsóknir og einnig bannað tilteknum mönnum að heimsækja fanga. Þá er lagt til að fangi geti neitað að þiggja heimsóknir, og felst í því að fangi geti hafnað heimsóknum ákveðinna manna eða heimsóknum yfirleitt. Þó geti fangi ekki hafnað heimsóknum þeirra sem eiga við hann opinber erindi eða heimsóknum sem forstöðumaður fangelsis ákveður að fangi skuli þiggja. Sem dæmi um þá sem eiga opinber erindi við fanga má nefna lögreglu, hvort sem um rannsóknir opinberra mála er að ræða eða birtingu skjala sem í 20. gr. laga nr. 19/1991 greinir, og verjanda eða lögmann fanga.
    Þá er lagt til það nýmæli að heimilt sé að leita á þeim sem heimsækja fanga og að láta þá gangast undir líkamsrannsókn. Tilgangurinn verði að ganga úr skugga um að sá, sem heimsækir fanga, hafi ekki meðferðis muni sem óheimilt er að hafa í fórum sínum í fangelsi og muni sem refsivert er að hafa í fórum sínum, t.d. ávana- og fíkniefni eða ákveðin vopn. Lagt er til að heimilt sé að taka af gesti fanga þá hluti sem fanga er óheimilt að hafa í fangelsi meðan á heimsókn stendur. Þá er gert ráð fyrir því að heimilt sé að haldleggja hluti sem refsivert er að hafa í fórum sínum og finnast á gestum við leit og líkamsrannsókn. Auk þess er lagt til í 83. gr. að sú háttsemi, að smygla eða gera tilraun til að smygla munum eða efnum til fanga sem honum er óheimilt að hafa í fangelsi, verði refsiverð. Eins og segir í almennum athugasemdum er þessu ætlað að stemma stigu við því vandamáli sem smygl í fangelsi er.
    Greinin er að öðru leyti að stofni til úr 17. gr. laga um fangelsi og fangavist og 13. gr. reglugerðar nr. 119/1990, um bréfaskipti, símtöl og heimsóknir til afplánunarfanga. Einnig var höfð hliðsjón af dönsku og norsku fullnustulögunum.

Um 34. gr.


    Í greininni er fjallað um hvar fangi taki á móti heimsóknum, þ.e. í sérstöku heimsóknarherbergi eða í klefa sínum. Forstöðumaður fangelsis geti í sérstökum tilvikum ákveðið að heimsókn til fanga skuli fara fram í öðrum vistarverum fangelsis, svo sem þegar heimsókn fer fram undir eftirliti eða þegar fangi og gestur hittast aðeins í gegnum gler. Það getur einnig átt við þegar heimsókn fer fram með aðstoð túlks eða aðrar aðstæður við heimsókn gera það að verkum að nauðsynlegt er að nýta stærri vistarverur en fangaklefa eða heimsóknarherbergi. Gert er ráð fyrir að forstöðumaður hafi ákvörðunarvald um hvar fangi taki við heimsóknum í hvert sinn en sú ákvörðun verði bókuð og ástæður hennar tilgreindar.
    Greinin er úr 15. gr. reglugerðar nr. 119/1990. Einnig var höfð hliðsjón af norsku fullnustulögunum hvað varðar heimsóknarherbergi.

Um 35. gr.


    Hér er lagt til að heimsóknir til fanga fari almennt fram án eftirlits. Þó geti forstöðumaður fangelsis ákveðið að heimsókn fari fram undir eftirliti, þyki það nauðsynlegt til að viðhalda góðri reglu og öryggi í fangelsinu eða til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað. Enn fremur er gert ráð fyrir að taki forstöðumaður slíka ákvörðun geti hann krafist þess að samtal fanga og gests fari fram á máli sem fangavörður skilur, eftir atvikum með aðstoð túlks. Þetta er lagt til í ljósi þess að nokkuð er um að erlendir fangar afpláni dóma hér á landi og ákvæði um eftirlit haldlítið ef samtal fanga og gests fer fram á tungumáli sem fangavörður skilur ekki.
    Í 3. og 4. mgr. er gert ráð fyrir að sá sem heimsækir fanga og fangi sjálfur geti óskað eftir því að fangavörður verði viðstaddur heimsókn. Þetta ákvæði er nýmæli. Tilgangur þess er að öryggis gests eða fanga sé gætt, sé þess óskað.
    Ákvæði 36. gr. eru að efni til úr 18., 19. og 20. gr. reglugerðar nr. 119/1990 og einnig eru sambærileg ákvæði í dönsku og norsku fullnustulögunum.

Um 36. gr.


    Í greininni er fjallað um símtöl fanga. Lagt er til í 1. mgr. að fangi eigi rétt á símtölum á þeim tímum dags sem reglur fangelsis segja til um.
    Þá er í ákvæðinu gert ráð fyrir að forstöðumaður fangelsis geti bannað símtöl við fanga í öðrum fangelsum, og að hann geti ákveðið að hlustað verði á símtöl fanga að nánari skilyrðum uppfylltum, m.a. í þeim tilgangi að vernda þann sem afleiðingar af broti hafa bitnað á og þann sem vitnað hefur gegn fanga. Þetta er nýmæli og er sett bæði í þeim tilgangi að fangi hringi ekki í þessa aðila eftir atvikum með hótunum eða hringi í aðra til að mæla fyrir um hótanir eða ófarnað gagnvart fyrrnefndum aðilum. Ekki er þó gert ráð fyrir því að hlustað sé á öll símtöl fanga og er því ekki hægt að koma að öllu leyti í veg fyrir að fangi hringi í brotaþola eða vitni, eða hringi í aðra í þeim tilgangi að hefna sín á brotaþola eða vitnum.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að ef hlustað er á símtöl fanga skuli það tilkynnt honum og ástæður tilgreindar og bókaðar. Er þetta lagt til í ljósi þess að um afar íþyngjandi aðgerð er að ræða. Heimilt verði að setja það skilyrði að símtalið fari fram á tungumáli sem fangavörður skilur. Eiga hér sömu röksemdir við og í athugasemdum við 35. gr.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um að heimilt sé að taka símtöl fanga upp á hljóðband ef grunur leikur á að efni samtalsins tengist refsiverðum verknaði eða feli hann í sér. Er þar m.a. átt við að símtalið feli í sér hótanir, t.d. við brotaþola, vitni eða aðra, eða að í símtali sé lagt á ráðin um refsiverðan verknað, innan eða utan fangelsis. Fanga og viðmælanda hans skal greint frá því að símtalið sé tekið upp á hljóðband að samtali loknu. Gert er ráð fyrir að slíkum upptökum skuli eytt þegar þeirra er ekki lengur þörf. Ekki verði tiltekinn ákveðinn tími í því sambandi, en gert er ráð fyrir að það fari eftir eðli og efni símtalsins hverju sinni. Innihaldi símtalið ekkert óeðlilegt er ekkert því til fyrirstöðu að upptökunum verði eytt svo fljótt sem verða má. Ef efni símtalsins tengist hins vegar eða felur í sér refsiverðan verknað eða upplýsingar um refsiverðan verknað getur upptakan orðið sönnunargagn í rannsókn opinbers máls og mögulegri dómsmeðferð málsins. Er upptakan þá geymd með gögnum viðkomandi máls.
    Gert er ráð fyrir að ekki verði heimilt að hlusta á eða taka upp á hljóðband símtöl fanga við lögmann, opinberar stofnanir eða umboðsmann Alþingis.
    Það nýmæli kemur fram í 6. mgr. að samkvæmt beiðni rétthafa símanúmers geti forstöðumaður fangelsis ákveðið að ekki verði hringt í viðkomandi símanúmer úr fangelsi. Er þetta ákvæði lagt til að gefnu tilefni, fyrst og fremst ætlað að vernda þá sem ekki vilja að tiltekinn eða tilteknir fangar hringi í þá, svo sem ef um er að ræða brotaþola, þá sem báru vitni í viðkomandi máli og aðra sem ekki vilja símtöl frá viðkomandi fanga eða föngum.
    Loks er tekið sérstaklega fram að fangi greiði sjálfur kostnað við símtöl sín.
    Ákvæði greinarinnar eru að stofni til úr ákvæðum gildandi laga um fangelsi og fangavist, reglugerð nr. 119/1990 og dönsku og norsku fullnustulögunum.

Um 37. gr.


    Hér er fjallað um heimild fanga til að senda bréf og taka við þeim og um heimild forstöðumanns fangelsis til að skoða bréf til og frá fanga að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
    Þá er gert ráð fyrir að heimilt sé að gera það að skilyrði að bréfasendingar fanga fari fram á tungumáli sem fangavörður skilur. Eiga þar sömu röksemdir við og í athugasemdum við 35. gr. Einnig verði fanga greint frá því að bréf hans séu skoðuð og ástæður þess tilgreindar og bókaðar.
    Þá er mælt fyrir um að fangi skuli sjálfur bera kostnað af bréfum sem hann sendir, en þegar fangelsi útvegar bréfsefni og umslög megi það ekki bera með sér stimpil eða önnur einkenni fangelsis.
    Ákvæði greinarinnar eru að stofni til úr I. kafla reglugerðar nr. 119/1990 og 18. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist auk þess sem litið var til ákvæða dönsku og norsku fullnustulaganna.

Um 38. gr.


    Hér er lagt til að fangi skuli að jafnaði eiga kost á að fylgjast með gangi þjóðmála í fjölmiðlum. Ákvæðið leggur skyldur á fangelsi að útvega dagblöð og gefa föngum kost á að hlusta á útvarp og horfa á sjónvarp og er það í samræmi við það sem nú tíðkast. Ekki ber að skilja ákvæðið svo að það skyldi fangelsisyfirvöld til að útvega áskrift að öllum dagblöðum og sjónvarpsrásum, heldur verði miðað við að fangar eigi, eins og ákvæðið er orðað, að jafnaði kost á að fylgjast með gangi þjóðmála. Tilgangurinn er sá að fangar einangrist ekki í fangavistinni og eigi auðveldara með að aðlagast samfélaginu á ný að afplánun lokinni.

Um 39. gr.


    Hér er kveðið á um rétt fanga til útiveru á lóð fangelsis í a.m.k. eina klukkustund á dag og til að iðka tómstundastörf, líkamsrækt og íþróttir, enda bjóði aðstæður í fangelsi upp á það. Enn fremur er tekið fram að fangi eigi rétt á daglegum aðgangi að hreinlætisaðstöðu.
    Ákvæðið á fyrirmynd í 15. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist, 86. gr. evrópsku fangelsisreglnanna og dönsku og norsku fullnustulögunum.

Um 40. gr.


    Ákvæðið er nýmæli og fjallar um rétt erlendra fanga sem afplána dóma hér á landi til að hafa samband við sendiráð eða ræðismann lands síns hérlendis, eða lands sem gætir hagsmuna þess, og aðstoð fangelsis við ríkisfangslausa fanga eða fanga sem eru flóttamenn við að hafa samband við fulltrúa innlendra eða alþjóðlegra stofnana. Þetta er m.a. lagt til í ljósi þess að erlendum föngum hefur fjölgað hér undanfarin ár og því þykir eðlilegt að huga sérstaklega að þeirra rétti þegar þar á við.
    Greinin á fyrirmynd í 44. gr. evrópsku fangelsisreglnanna og í dönsku fullnustulögunum.

Um 41. gr.


    Lagt er til að fangi skuli eiga þess kost að hafa samband við prest eða annan sambærilegan fulltrúa skráðs trúfélags. Tilgangurinn er að fangi fái sáluhjálp og geti iðkað trú sína með eðlilegum hætti. Ákvæðið gefur fanga ekki rétt til að kalla til prest á hvaða tíma sem er, heldur ákvarði fangelsisyfirvöld, eftir atvikum í samráði við prest eða fulltrúa trúfélags, hvernig og hvenær samtali við fanga verði háttað. Rétt þykir að slá þann varnagla að um skráð trúfélag sé að ræða til að heimildin verði ekki misnotuð með einum eða öðrum hætti.

Um 42. gr.


    Hér er lagt til hvaða muni forstöðumaður geti leyft fanga að hafa í klefa. Nauðsynlegt þykir að hafa um það skýrar meginreglur með lögmæltum takmörkunum. Ekki verði heimilt að hafa tölvu með nettengingu. Fangar geti því hvorki nálgast efni á netinu né sent eða tekið við tölvupósti. Markmiðið er m.a. að koma í veg fyrir refsiverðan verknað, m.a. að fangar geti fengið eða sent ólöglegt efni sem hægt er að nálgast á netinu, eða skipulagt ólöglega starfsemi. Hafa ber í huga að fangavistin, og sú einangrun sem af henni leiðir, væri næsta gagnslaus ef fangi hefði ótakmarkaðan aðgang að netinu. Af sömu ástæðu er lagt til að fanga verði ekki heimilt að hafa eigin síma eða önnur fjarskiptatæki í klefa sínum, hvorki síma tengdan við símalínu né farsíma. Þá verði fanga óheimilt að hafa í vörslum sínum áfengi og ávana- og fíkniefni. Lagt er til að fanga verði heimilt að hafa peninga í klefa sínum að því tilskildu að fjárhæðin sé ekki hærri en sem svarar dagpeningum fanga á einum mánuði.
    Ákvæðið er nýmæli og var höfð hliðsjón af dönsku og norsku fullnustulögunum.

Um 43. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að forstöðumaður fangelsis geti að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar veitt fanga leyfi til dvalar utan fangelsis til að heimsækja fjölskyldu sína eða vini. Gert verði að skilyrði að leyfið sé talið heppilegt til að búa fanga undir að ljúka afplánun eða sem þáttur í refsifullnustu.
    Lagt er til að leyfi til að heimsækja fjölskyldu eða vini sé að hámarki 14 klukkustundir og að leyfið sé veitt á tímabilinu frá kl. 8.00 að morgni dags til kl. 22.00 að kvöldi sama dags. Ber að skilja þetta þannig að fangi fari úr fangelsi kl. 8.00 að morgni eða síðar og komi til baka í fangelsi fyrir kl. 22.00. Þó er lagt til að heimilt sé að lengja fríið um allt að tvær klukkustundir eigi fangi sannanlega um langan veg að fara. Misjafnlega getur staðið á ferðum á milli fangelsis og ákvörðunarstaðar fanga, sem getur verið mjög langt frá fangelsinu. Gert er ráð fyrir að í þeim tilvikum geti leyfið verið allt að 16 klukkustundir. Rétt er að leggja áherslu á að þessi heimild skuli aðeins nýtt í undantekningartilvikum og almenna reglan verði sú að leyfi verði að hámarki 14 klukkustundir. Ef veitt er undanþága verði það metið hverju sinni hvort rétt sé að veita undanþágu og hvað teljist sannanlega löng vegalengd. Gert er ráð fyrir að slíkt mat ráðist fyrst og fremst af því hversu löng ferðin er og hvort mestur hluti leyfisins fari í ferðir milli fangelsis og ákvörðunarstaðar.
    Þá er í 2. mgr. lagt til að fangi skuli í leyfisbeiðni upplýsa hvernig hann hyggst verja leyfinu og hvern hann hyggst heimsækja. Gert er ráð fyrir að leita skuli staðfestingar hjá þeim sem fangi hyggst heimsækja, og hlýtur það að teljast eðlileg krafa.
    Gert er ráð fyrir að fangi, sem afplánar refsingu utan fangelsis skv. 25. gr., fái af augljósum ástæðum ekki leyfi nema sérstakar ástæður mæli með. Það getur átt við þegar fjölskylda fanga er búsett í öðrum landshluta.
    Um leyfi afplánunarfanga til dvalar utan fangelsis er fjallað í reglugerð nr. 719/1995, með síðari breytingum.

Um 44. gr.


    Hér er mælt fyrir um leyfi fanga til dvalar utan fangelsis í sérstökum tilvikum sem nánar er lýst í 1.–4. tölul. 1. mgr. Gert er ráð fyrir að fyrir liggi fullnægjandi upplýsingar um að þær aðstæður, sem þar er lýst, séu fyrir hendi. Þá verði leyfi samkvæmt ákvæðinu 8 klukkustundir að hámarki.
    Í 3. mgr. er nánar lýst hverjir teljist vera ættingjar eða aðrir nákomnir. Í frumvarpinu er lagt til að látist maki, barn eða foreldri, geti fangi bæði farið í kistulagningu og jarðarför. Þá verði sambúðarmaka, stjúpbörnum og fósturbörnum, tengdaforeldrum og systkinabörnum bætt við þá skilgreiningu á nánum ættingjum sem byggt er á í reglugerðinni, enda verður að telja að þeir fjölskyldumeðlimir geti í mörgum tilvikum verið nánari fanga en aðrir ættingjar sem þar eru taldir upp.

Um 45. gr.


    Hér er lagt til að Fangelsismálastofnun geti veitt fanga leyfi til dvalar utan fangelsis til að stunda nám eða starfsþjálfun. Sömu skilyrði eiga við hér og greinir í 43. gr., þ.e. slíkt leyfi teljist heppilegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa fanga undir að afplánun ljúki.
    Gert er ráð fyrir að áður en ákvörðun er tekin liggi fyrir staðfesting á námi eða starfsþjálfun fanga, staðfest stundaskrá eða skrifleg staðfesting skóla eða þess sem veitir starfsþjálfun á að fangi geti hafið viðkomandi nám eða starfsþjálfun, og enn fremur að skóla eða þeim sem veitir starfsþjálfun sé ljóst að um refsifanga sé að ræða.
    Greinin er sambærileg ákvæðum 33. og 34. gr. reglugerðar nr. 719/1995. Nám eða starfsþjálfun miðar að því að búa fangann sem best undir að ljúka afplánun og taka þátt í samfélaginu að afplánun lokinni. Talið er rétt að lögfesta ákvæði þar um. Í ákvæðinu er ekki gert ráð fyrir að fangi fái leyfi til dvalar utan fangelsis til að stunda vinnu. Er það breyting frá gildandi lögum og reglugerð en þau ákvæði hafa ekki verið nýtt um árabil. Þó er bent á 25. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir að Fangelsismálastofnun geti leyft fanga að ljúka afplánun utan fangelsis m.a. með því að stunda vinnu eða nám, sem er þá liður í aðlögun hans að samfélaginu að lokinni afplánun.

Um 46. gr.


    Greinin fjallar um það hvenær fyrst verði unnt að veita fanga leyfi skv. 43. gr. og hvenær slíkt leyfi verði veitt að nýju. Nauðsynlegt þykir að skýrar reglur gildi um þetta til að jafnræðis sé gætt.
    

Um 47. gr.


    Í greininni er lagt til að litið sé til brotsins sem fangi afplánar refsivist fyrir og sakar- og afplánunarferils fanga áður en leyfi til dvalar utan fangelsis er veitt. Sérstaka gát skuli sýna við veitingu leyfis þegar um er að ræða tiltekin brot, og einnig skuli hegðun fanga skipta þar máli. Núgildandi ákvæði eru í reglugerð nr. 719/1995.

Um 48 gr.


    Lagt er til að lögfest verði þau skilyrði sem sett eru fyrir leyfi til dvalar utan fangelsis. Í 1.–4. tölul. 1. mgr. eru tilgreind almenn skilyrði fyrir veitingu slíkra leyfa og í 1.–4. tölul. 2. mgr. eru frekari skilyrði tilgreind.

Um 49. gr.


    Hér er gert ráð fyrir fangi með leyfi til dvalar utan fangelsis skuli almennt vera án fylgdar fangavarða. Þetta gildi þó ekki hafi fangi verið dæmdur í síðasta refsidómi fyrir þau alvarlegu brot sem í 2. mgr. 47. gr. greinir. Verður að telja það eðlilega varúðarráðstöfun.

Um 50. gr.


    Í ákvæðinu eru lagðar til reglur um form umsóknar, um leyfi og leyfisveitingar. Þær eru sambærilegar ákvæðum 21. gr. reglugerðar nr. 719/1995.

Um 51. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að fangi beri sjálfur kostnað vegna leyfis til dvalar utan fangelsis, þó ekki kostnað við fylgd fangavarða. Er það í samræmi við það sem nú gildir.

Um 52. gr.


    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að heimilt sé að afturkalla leyfi til dvalar utan fangelsis áður en það kemur til framkvæmda. Slíkt verði fyrst og fremst gert þegar fram koma upplýsingar sem hefðu leitt til þess að neitað hefði verið um leyfi, hefðu þær upplýsingar legið fyrir áður en leyfið var veitt.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir heimild til niðurfellingar leyfis til dvalar utan fangelsis ef fangi rýfur skilyrði leyfisins meðan á því stendur. Auk þess geti rof á skilyrðum leyfis varðað agaviðurlögum.

Um 53. gr.


    Ákvæðið er nýmæli. Lagt er til að leita megi í klefa fanga ef grunur leikur á um að fangi hafi í vörslum sínum muni sem honum er óheimilt að hafa, sbr. 1.–4. tölul. Auk þess megi leita í klefa fanga vegna almenns eftirlits og skoða klefa að öðru leyti. Tekið er fram að fanga skuli skýrt frá ástæðum fyrir leit áður en hún fer fram, nema sérstakar ástæður mæli gegn því, svo sem ef hætta er talin á að fangi kunni að skjóta undan eða eyða hlutum eða efnum sem refsivert er að hafa í vörslum sínum eða hafa orðið til við refsiverðan verknað.
    Lagt er til í 2. mgr. að fangi skuli almennt ekki vera viðstaddur leit í klefa og að heimilt sé að flytja hann í aðrar vistarverur á meðan hún fer fram. Þó verði heimilt að ákveða að hann skuli viðstaddur leit. Verður það að fara eftir tilgangi leitar og eðli þess sem leitað er að, hvor leiðin er farin. Þá er í lok 2. mgr. lagt til að gera skuli gera skýrslu um leitina og þá hluti sem þar finnast og fanga er óheimilt er að hafa í klefa sínum.
    Ástæður meginreglu þeirrar sem lögð er til í 2. mgr. eru að fangi geti ella aflað sér upplýsinga um leitaraðferðir fangavarða og þar með verði öryggi í fangelsinu ógnað. Enn fremur að fangi geti brugðist við á tilfinningalegan eða ofbeldisfullan hátt við að sjá fangaverði leita í persónulegum eigum hans.
    Í gildandi lögum um fangelsi og fangavist er ekki heimild til að leita í klefum fanga. Telja verður eðlilegt að lögfesta slíka heimild, enda er um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Slík ákvæði eru og í dönsku og norsku fullnustulögunum.

Um 54. gr.


    Hér er nýmæli um leit á fanga, í fötum hans og innanklæða. Gert er ráð fyrir að leit á fanga innanklæða skuli gerð af fangelsisstarfsmanni sama kyns og fangi er.

Um 55. gr.


    Í greininni er fjallað um líkamsrannsókn á fanga. Gert verði að skilyrði að grunur liggi fyrir um að fangi hafi falið í líkama sínum muni eða efni sem getur í 1. mgr. 53. gr. Þá verði kveðið á um að taka megi blóðsýni og þvagsýni úr fanga ef grunur leikur á um að hann hafi neytt áfengis eða ávana- og fíkniefna og að læknir eða hjúkrunarfræðingur annist líkamsrannsókn og töku blóðsýnis. Lagt er til að ákvörðun um líkamsrannsókn á fanga skuli tekin með rökstuddri bókun.
    Líkamsrannsókn er rannsókn til að komast að því hvort fangi feli í líkama sínum efni eða muni sem í 1. mgr. 53. gr. getur. Slík rannsókn getur farið fram hvort heldur er með sýnatöku, röntgenmyndatöku eða á annan þann hátt sem læknir eða hjúkrunarfræðingur telur gefa gleggsta og öruggasta niðurstöðu. Leiki grunur á því að fangi feli ávana- eða fíkniefni innvortis verður að telja nauðsynlegt að læknar eða hjúkrunarfólk geti komist að því hvort svo sé með þeim aðferðum sem hverju sinni gefa öruggasta niðurstöðu, enda geta slík efni falin í líkama manns skapað mikla hættu fyrir líf og heilsu viðkomandi.

Um 56. gr.


    Lögð er til sérstök heimild til haldlagningar á efnum og hlutum sem getið er í 1. mgr. 53. gr. frumvarpsins og sem finnast við leit í klefa, leit á fanga eða líkamsrannsókn á fanga.

Um 57. gr.


    Hér er lagt til að tekin verði af tvímæli um að stjórnsýslukæra fresti ekki leit og líkamsrannsókn.

Um 58. gr.


    Hér er fjallað um viðurlög við agabrotum fanga. Ekki er gert ráð fyrir að agabrot verði sérstaklega skilgreind, en í ákvæðinu kemur skýrt fram að um er að ræða brot fanga á reglum fangelsis.
    Gert er ráð fyrir að ef brot fanga er smávægilegt, og fangi hefur ekki áður framið agabrot, megi í stað agaviðurlaga beita skriflegri áminningu. Þetta er breyting frá lögum um fangelsi og fangavist en skv. 31. gr. þeirra telst áminning til agaviðurlaga. Eðlilegra þykir að áminning sé undanfari agaviðurlaga, ef svo stendur á.

Um 59. gr.


    1., 2. og 4. mgr. greinarinnar eru nánast samhljóða 1., 2. og 3. mgr. 30. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist. Lagt er til að í stað heimildar til einangrunar fanga af þeirri ástæðu að það sé nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins sé notað orðalagið að það sé nauðsynlegt af öryggisástæðum. Ákvæði 3. mgr. um einangrun að eigin ósk fanga er nýmæli og á sér m.a. fyrirmynd í norsku fullnustulögunum.

Um 60. gr.


    Hér er lagt til að fanga megi vista í öryggisklefa ef nauðsyn krefur og önnur skilyrði 1. mgr. eiga við.
    Gert er ráð fyrir að þegar fangi er vistaður í öryggisklefa megi nota belti og hanska, fót- og handjárn og fót- og handreimar, sbr. 2. mgr. Nú er kveðið á um þetta í reglugerð nr. 179/1992. Vistun í öryggisklefa megi aldrei standa lengur en samræmist tilgangi vistunar og beitingu annarra aðgerða.
    Ákvæðið á fyrirmynd í dönsku og norsku fullnustulögunum og í reglugerð nr. 179/1992.

Um 61. gr.


    Greinin fjallar um skyldu til að kalla til lækni þegar einangrun er beitt eða fangi settur í öryggisklefa. Læknisskoðun skuli fara fram daglega ef unnt er.

Um 62. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að áður en ákvörðun er tekin um agaviðurlög skv. 58. gr. eða einangrun skv. 59. gr. skuli rannsaka málsatvik og gefa fanga kost á að kynna sér fyrirliggjandi gögn og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Gengið er út frá að almennt verði gerð grein fyrir sjónarmiðum fanga í skýrslu um rannsókn á viðkomandi agabroti. Enn fremur að fanga skuli greint frá því að hann geti kært agaviðurlög til dómsmálaráðuneytisins. Taki hann ákvörðun um það sendi forstöðumaður fangelsis stjórnsýslukæruna og öll gögn málsins til ráðuneytisins eins og nú tíðkast.
    Ákvæðum um málsmeðferðarfrest dómsmálaráðuneytisins er breytt frá gildandi lögum. Í stað tveggja sólarhringa er lagt til að fresturinn verði fjórir virkir vinnudagar frá því að kæran berst. Tvímæli verði tekin af um að kæra, sem berst utan afgreiðslutíma ráðuneytisins, teljist hafa borist því við upphaf næsta virka dags. Er þetta í samræmi við núverandi framkvæmd.

Um 63. gr.


    Ákvæðið er nýmæli og gerir ráð fyrir að heimilt sé að setja fanga í einangrun í allt að sólarhring á meðan könnuð eru málsatvik vegna meints agabrots hans. Slík einangrun sækir fyrirmynd í dönsku fullnustulögin og í reglugerð nr. 179/1992, um gæsluvarðhaldsvist.

Um 64. gr.


    Nýmæli er í greininni um að forstöðumaður fangelsis geti tekið ákvörðun um upptöku á munum eða peningum sem óheimilt er að koma með í fangelsi, hafa þar í vörslum sínum eða búa þá þar til eða sem reynt er að smygla í fangelsi. Undantekning frá þessu verði eign grandlauss þriðja manns. Slík heimild til upptöku er í eðlilegu framhaldi af þeim haldlagningarheimildum sem lagðar eru til í 33. og 56. gr. frumvarpsins.
    Við samningu ákvæðisins var höfð hliðsjón af 73. gr. dönsku fullnustulaganna.

Um 65.–67. gr.


    Ákvæðin eru sambærileg ákvæðum 40.–42. gr. almennra hegningarlaga og ákvæðum 5. gr. reglugerðar 29/1993.
    Þó skal getið nýmælis í 4. mgr. 66. gr. þar sem lagt er til að heimilt sé að krefjast þess að sá sem reynslulausn sætir undirgangist rannsókn á öndunarsýni eða blóð- og þvagrannsókn ef ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn því skilyrði reynslulausnar að neyta ekki áfengis eða fíkniefna.

Um 68. gr.


    Í 68. gr. er fjallað um fyrirkomulag á skilorðseftirliti Fangelsismálastofnunar. Ákvæðið er að efni til sambærilegt 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist.

Um 69. gr.


    Í greininni eru nánari ákvæði um fyrirkomulag skilorðseftirlits. Gert er ráð fyrir að Fangelsismálastofnun geri dómþola grein fyrir í hverju eftirlitið felst. Skiptir hér ekki máli þótt dómari hafi áður gert dómþola grein fyrir því sama við dómsuppkvaðningu, eða ákærandi við ákvörðun um ákærufrestun. Þá upplýsi dómþoli Fangelsismálastofnun um hagi sína, t.d. heimili, síma, vinnu, fjölskylduaðstæður o.s.frv. Þá er gert ráð fyrir að dómþola beri að hlíta því sem Fangelsismálastofnun leggur fyrir hann, enda er það forsenda þess að eftirlitið geti farið fram.

Um 70. gr.


    Ákvæðið er nýmæli, en án þessar heimildar væri eftirlit með skilyrði um að neyta ekki áfengis eða ávana- og fíkniefna næsta haldlítið.

Um 71. gr.


    Lagt er til að Fangelsismálastofnun skuli gera lögreglu og ákæruvaldi viðvart ef talið er að dómþoli hafi rofið þau skilyrði sem honum var gert að hlíta með dómi eða ákærufrestun. Verður þetta að teljast eðlileg ráðstöfun í ljósi þess að lögreglurannsókn er nauðsynleg til að komast að því hvort um skilorðsrof hafi verið að ræða og þar með hvort ákæra verður gefin út.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að þegar opinber rannsókn hefst á meintum skilorðsrofum dómþola, ljúki eftirliti Fangelsismálastofnunar með því að dómþoli haldi skilyrðin. Þar með er dómþoli orðinn sakborningur í því opinbera máli sem þá hefst og nýtur réttinda sem slíkur.

Um 72. gr.


    Greinin er að stofni til úr ákvæðum 49. gr. og 52. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 73. gr.


    Hér er fjallað um vararefsingu fésekta, sem skuli beita ef innheimtuaðgerðir sem í 72. gr. greinir eru þýðingarlausar eða fullreyndar.
    3. mgr. er að stofni til úr 54. gr. almennra hegningarlaga og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 74. gr.


    Greinin er samhljóða 26. gr. a laga um fangelsi og fangavist og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 75. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 26. gr. b laga um fangelsi og fangavist og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 76. gr.


    Hér er lagt til að lögreglustjóri annist innheimtu sakarkostnaðar og að um þá innheimtu fari samkvæmt ákvæðum 72. og 73. gr. og mundi það vera lögfesting á fyrirkomulagi sem tíðkast hefur um langa hríð.

Um 77. gr.


    Hér er einnig gert ráð fyrir lögfestingu á framkvæmd eignaupptöku sem tíðkast hefur lengi.

Um 78. gr.


    Í greininni eru sérákvæði um málsmeðferð. Rétt er að hafa í huga að víðar í frumvarpinu er að finna slík ákvæði, sbr. t.d. sérreglur um kærumeðferð ákvarðana skv. VI. kafla um agaviðurlög o.fl. og ákvæði um málsmeðferð í 4. mgr. 14. gr. og 2. mgr. 26. gr. Ekki eru lagðar til aðrar takmarkanir á andmælarétti fanga en þar eru. Þess í stað er gengið út frá því að andmælaréttur geti ráðist af eðli máls þegar upp koma þær aðstæður að ógerlegt er að framfylgja honum, svo sem þegar valdbeitingar er þörf.
    Í 2. og 3. mgr. eru lagðar til sérstakar undanþágur frá aðgangi fanga að málsgögnum. Telja verður rétt að fangi fái ekki aðgang að upplýsingum um aðra fanga eða öryggismál fangelsis. Ef kostur er og aðstæður leyfa má sýna fanga þau atriði viðkomandi málsgagna sem fjalla um hann einan, og halda að öðru leyti efni málsgagnanna frá honum.

Um 79. gr.


    Nauðsynlegt þykir að tilgreina hvaða ákvæði gildi um gæsluvarðhaldsfanga því að um þá gilda önnur sjónarmið og reglur en fanga sem afplána refsingu. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 80. gr.


    Greinin fjallar um náðunarnefnd og er nær samhljóða 32. gr. gildandi laga um fangelsi og fangavist, með þeirri undantekningu að lagt er til að skipunartími nefndarinnar verði þrjú ár í stað tveggja.

Um 81. gr.


    Samhljóða ákvæði var í frumvarpi til laga um breyting á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, sem lagt var fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi, en var ekki samþykkt. Í ákvæðinu er lagt til að Fangelsismálastofnun fái heimild til vinnslu persónuupplýsinga að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg vegna starfseminnar. Þetta er ekki bundið við vinnslu almennra persónuupplýsinga heldur getur vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga einnig verið nauðsynleg. Hér má til dæmis nefna að gert er ráð fyrir vinnslu upplýsinga um refsidóma og aðrar ákvarðanir, sem fela í sér refsingu og Fangelsismálastofnun berast til fullnustu, og vinnslu upplýsinga um fullnustu refsinga, en slíkar upplýsingar teljast viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Þessi heimild til vinnslu persónuupplýsinga tekur mið af 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. sömu laga, en þar er gert ráð fyrir að ákvæði annarra laga mæli fyrir um heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga.
    Það skal áréttað sérstaklega að vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt þessu ákvæði yrði einungis heimil að því marki sem nauðsynlegt væri með hliðsjón af lögbundnu hlutverki Fangelsismálastofnunar. Um meðferð persónuupplýsinga samkvæmt ákvæðinu fari samkvæmt lögum nr. 77/2000.

Um 82. gr.


    Greinin fjallar um heimild dómsmálaráðherra til að setja reglugerðir um nánari framkvæmd laganna, og eru tiltekin nokkur atriði í dæmaskyni. Rétt er að geta þess að reglugerðarheimildum frumvarpsins er hér safnað saman í eina grein til að gefa skýra mynd af þeim atriðum sem gert er ráð fyrir að kveðið verði nánar á um í reglugerð.
    Í 3. mgr. er síðan gert ráð fyrir að Fangelsismálastofnun setji reglur fangelsa.

Um 83. gr.


    Hér er lagt til að gera refsiverða þá háttsemi að smygla munum til fanga sem hann má ekki hafa í fangelsi. Ákvæðið er nýmæli og er tilgangur þess að stemma stigu við því vandamáli sem smygl á munum inn í fangelsi er. Gert er ráð fyrir að að auk muna sem refsivert er að hafa í fórum sínum, svo sem fíkniefnum og ákveðnum tegundum vopna, nái ákvæðið til annars löglegra muna sem fanga er óheimilt að hafa í fangelsi, svo sem vopna, áfengis, síma og annarra fjarskiptatækja, lyfja og annarra hluta sem fanga er óheimilt samkvæmt reglum fangelsis að hafa í fangelsi.

Um 84. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar að öðru leyti en því að lagt er til brottfall nánar tiltekinna ákvæða hegningarlaga þar sem gert er ráð fyrir að efni þeirra verði flutt í lög um fullnustu refsinga, sbr. það sem að framan greinir.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um fullnustu refsinga.

    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæðum ýmissa laga og reglugerða um fullnustu refsinga verði steypt saman í ein heildarlög með það að markmiði að gera gildandi reglur skýrari en nú og styrkja lagastoð ýmissa ákvæða. Þau ákvæði sem eru nýlunda eða breyting frá núverandi skipan varða fæst kostnað ríkissjóðs nema í litlum mæli. Í því sambandi má nefna að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimilt verði að draga kostnað við uppihald frá launum fanga sem nýtur þeirrar ívilnunar að stunda vinnu sem hann hefur sjálfur útvegað sér. Reiknað er með að þetta ákvæði eigi aðeins við í mjög fáum undantekningartilvikum. Þá er gert ráð fyrir að einhver kostnaður kunni að falla til við það að heimilað verði að fangavörður njóti aðstoðar túlks í sambandi við afplánun erlendra fanga, svo sem við heimsóknir til fanga, lestur bréfa, hlustun á símtöl og þess háttar. Einnig má nefna að í frumvarpinu er lögð til rýmkun á reglum um leyfi fanga úr fangelsi til að heimsækja aðstandendur á sjúkrabeð og til að vera viðstaddir jarðarfarir, en það kann að hafa í för með sér lítils háttar hækkun á kostnaði við fylgd fangavarða með föngum. Að öllu virtu er ekki talið að frumvarpið hafi umtalsverðan viðbótarkostnað í för með sér fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.