Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 467. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 675  —  467. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Siglingastofnun Íslands, nr. 6/1996, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      4. tölul. 1. mgr. orðast svo: Að annast framkvæmd laga um vitamál og laga um köfun.
     b.      Við 1. mgr. bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
         13.    Að annast framkvæmd laga um siglinga- og hafnavernd.
         14.    Að birta á heimasíðu sinni íslenska og/eða enska útgáfu alþjóðasamninga á sviði siglinga sem Ísland er aðili að. Jafnframt skal stofnunin birta á heimasíðu sinni enska útgáfu af viðaukum og kóðum sem þeim samningum fylgja og öðrum samningum sem varða flutning á hættulegum efnum með skipum og hafa almennt gildi, en birtast ekki í Stjórnartíðindum. Viðaukar þessir og kóðar skulu uppfærðir jafnóðum og breytingar verða á þeim.
     c.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Siglingastofnun Íslands aflar sér tekna á eftirfarandi hátt:
              1.      Með innheimtu gjalda sem kveðið er á um í sérlögum sem gilda um starfsemi stofnunarinnar.
              2.      Með sölu á sérhæfðri þjónustu á starfssviði stofnunarinnar.
              3.      Með þjónustugjöldum fyrir afgreiðslu gagna.
                  Gjöld skulu ákvörðuð í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir og birt er í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldskrá skv. 1.–3. tölul. 5. mgr. skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal gjaldtaka ekki vera meiri en nemur þeim kostnaði. Kostnaður við starfrækslu Siglingastofnunar Íslands greiðist að öðru leyti af framlögum sem ákvörðuð eru í fjárlögum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu í samráði við Siglingastofnun Íslands. Markmið frumvarpsins eru þríþætt, í fyrsta lagi að fela Siglingastofnun framkvæmd og eftirlit með siglingavernd hér á landi, í öðru lagi að kveða á um hvernig haga eigi birtingu tiltekinna kóða sem eru tæknilegs eðlis og varða aðeins takmarkaðan hóp manna og í þriðja lagi að styrkja gjaldtökuheimildir Siglingastofnunar.
     Um a-lið 1. gr.
    Í gildandi lögum er vitnað til þess að Siglingastofnun annist framkvæmd laga um leiðsögu skipa og laga um kafarastörf. Lög um leiðsögu skipa hafa verið felld úr gildi með lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003. Lög um köfun voru sett 1996. Áður hétu lögin „Lög um kafarastörf“ en var breytt í „Lög um köfun“. Þetta ákvæði frumvarpsins miðar að því að samræma lög um Siglingastofnun Íslands fyrrgreindum lagabreytingum.
    Um b-lið 1. gr.
    Siglingastofnun Íslands eru falin tvö ný verkefni, í fyrsta lagi að annast framkvæmd siglinga- og hafnaverndar hér á landi og í öðru lagi að annast birtingu á stöðlum og kóðum sem gefnir eru út af Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO).
    Ísland er aðili að alþjóðasamþykkt um reglur er lúta að aukinni vernd gegn ólögmætum aðgerðum, svo sem hryðjuverkum í skipum og höfnum. Evrópusambandið hefur boðað að það muni innleiða reglur í þessu skyni og munu þær þá heyra undir EES-samninginn. Siglingastofnun Íslands mun jafnframt annast framkvæmd þeirra þegar þar að kemur. Samgönguráðherra skipaði stýrihóp í maí 2003 sem hefur það hlutverk að innleiða þessar reglur hér á landi og mun hann ljúka störfum í byrjun árs 2004. Ákveðið hefur verið að leggja fram sérstakt frumvarp um siglinga- og hafnavernd þar sem kveðið verður á um ábyrgð og skyldur þeirra aðila sem koma að innleiðingu þessara alþjóðlegu verndarreglna.
    Á vegum IMO hefur verið gefinn út fjöldi gerninga (e. instruments) með ýmiss konar ákvæðum sem tengjast öryggi til sjós. Í þessum gerningum eru ýmist bindandi ákvæði eða tilmæli. Tilvísanir til gerninga, sem eru bindandi, er m.a. að finna í alþjóðasamningum. Slíkir gerningar eru einkum í formi kóða. Í alþjóðasamningunum er einnig vísað annarra gerninga, svo sem ályktana þings IMO og dreifibréfa IMO, alþjóðlegra staðla og reglna viðurkenndra flokkunarfélaga.
    Á undanförnum árum og áratugum hefur þróun alþjóðlegra gerninga á vegum IMO miðað að því að minnka umfang texta alþjóðasamninga og vísa þess í stað í aðrar gerðir, einkum kóða sem eru skuldbindandi. Í þessu felst töluvert hagræði, m.a. vegna þess að einfaldara er að breyta kóðum en alþjóðasamningum. Lauslega áætlað er umfang texta þeirra kóða sem gerðir hafa verið á vettvangi IMO a.m.k. 6.400 blaðsíður. Texti annarra gerninga, svo sem ályktana, er þá ekki með talinn. Þess má einnig geta að umræddir alþjóðasamningar, kóðar og aðrir gerningar eru í stöðugri endurskoðun þannig að texti þeirra breytist sífellt og á þann veg að heildarmagn eykst.
    Í nágrannaríkjum okkar eru alþjóðasamþykktir um öryggi á hafinu þýddar og birtar. Í Danmörku annast t.d. þarlend siglingastofnun, Søfartsstyrelsen, birtingu slíkra samþykkta og er það gert í formi tæknilegra reglugerða (d. teknisk forskrift) í „Meddelelser fra Søfartsstyrelsen“. Almennt eru kóðar IMO hvorki þýddir á dönsku né birtir. Samkvæmt upplýsingum Siglingastofnunar mun IMDG-kóðinn um flutning á hættulegum efnum með skipum almennt ekki gefinn út né birtur, í heild sinni, af aðildarlöndum IMO. Þeim kóða, sem er u.þ.b. 4.000 blaðsíður, er breytt á tveggja ára fresti og nema breytingarnar tugum ef ekki hundruðum blaðsíðna hverju sinni.
    Flestir IMO-gerninga gilda um kaupskip, sem eru mjög fá hérlendis, auk þess sem töluverður hluti ákvæða þeirra fjallar um kröfur til smíði og búnaðar slíkra skipa. Í ljósi þess hversu umfangsmiklir textar alþjóðlegra gerninga á sviði siglinga eru og hversu fá kaupskip eru hérlendis leggur Siglingastofnun til að um birtingu alþjóðasamninga, viðauka þeirra og kóða gildi einfaldari reglur en almennt gilda um birtingu alþjóðareglna hérlendis. Þess vegna er lagt til að íslensk og ensk útgáfa alþjóðasamninga verði birt á heimasíðu Siglingastofnunar Íslands. Auk þess er lagt til að viðaukar við slíka samninga ásamt kóðum sem samningarnir vísa til verði birtir á heimasíðunni á íslensku eða ensku eftir því sem við á.
    Rétt er í þessu sambandi að benda á frumvarp umhverfisráðherra (162. mál yfirstandandi þings). Í s-lið 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins segir: „flutning hættulegs varnings með skipum þar sem heimilt er að vísa til enskrar útgáfu efnalista og staðla sem hlotið hafa samþykki Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.“ Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a.: „Sérstök ástæða er til að vekja athygli á s-lið. Innan Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar hafa verið samþykktir kóðar sem notaðir eru við flutning á hættulegum farmi. Þessir kóðar, sem eru alþjóðlegir, eru geysilega viðamiklir og taka verulegum breytingum á hverju ári. Það svarar ekki kostnaði og hefur enga þýðingu að þýða slíka kóða yfir á íslensku þar sem einungis örfáir vinna með þá, en á hinn bóginn er nauðsynlegt að fara eftir þeim og því er lagt til að enski textinn gildi. Hér er um að ræða hliðstætt ákvæði og er að finna í 6. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994, en þar segir að Ísland sé aðili að evrópsku lyfjaskránni ásamt viðaukum og að enska útgáfan gildi hér á landi. Rétt er að taka fram að um er að ræða alþjóðlega kóða og staðla og engan veginn lagðar þyngri byrðar á Íslendinga en nágranna okkar.“
    Um c-lið 1. gr.
    Hér er lagt til að ákvæði um gjaldtöku Siglingastofnunar Íslands verði gerð skýrari þannig að ekki leiki vafi á því fyrir hvaða efni og þjónustu stofnunin hefur heimild til að taka gjald.
    Samkvæmt 1. tölul. eru innheimt gjöld fyrir ýmis skírteini og vottorð sem kveðið er á um í sérlögum sem gilda um starfsemi stofnunarinnar, t.d. lögum um skráningu skipa, nr. 115/ 1985, með síðari breytingum, lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, með síðari breytingum, lögum um skipamælingar, nr. 146/2002, lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001, lögum um köfun, nr. 31/1996, með síðari breytingum, og lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, en nú er í gildi reglugerð um gjöld fyrir skoðun, skráningu og mælingu skipa o.fl., nr. 587/2002, með breytingu nr. 641/2002.
    Samkvæmt 2. tölul. er heimilt að taka gjald fyrir sölu á sérhæfðri þjónustu á starfssviði stofnunarinnar. Undir þetta fellur t.d. gjald fyrir afnot af gögnum í vörslu stofnunarinnar, svo sem fyrir afnot af skipaskrá og lög- og réttindaskráningu sjómanna, gjald fyrir leigu á sérhæfðum tækjabúnaði til rannsókna og gjöld fyrir bækur, fræðslurit og fræðslumyndbönd sem stofnunin hefur gefið út og fellur undir starfssvið stofnunarinnar.
    Gjöld skv. 1.–3. tölul. eru svokölluð þjónustugjöld og taka því mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og mega gjöld ekki vera hærri en nemur þeim kostnaði.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/1996,
um Siglingastofnun Íslands, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er þríþættur. Í fyrsta lagi er lagt til að Siglingastofnun verði falin framkvæmd og eftirlit með siglingavernd, í öðru lagi er kveðið á um í frumvarpinu hvernig haga eigi birtingu á stöðlum og kóðum sem gefnir eru út af Alþjóðasiglingamálastofnuninni og í þriðja lagi er gjaldtökuheimild Siglingastofnunar styrkt þannig að fram komi fyrir hvaða efni og þjónustu stofnunin hafi heimild til að taka gjald. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2003 er gert ráð fyrir 10 m.kr. fjárveitingu til Siglingastofnunar vegna innleiðingar siglingaverndar og í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2004 er lögð til 11 m.kr. tímabundin fjárveiting til sama verkefnis, samtals 21 m.kr.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð umfram það sem áður er getið.