Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 34. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 681  —  34. mál.
Skýrsladómsmálaráðherra um undirbúning og framkvæmd alþingiskosninganna 10. maí 2003, samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)    Með beiðni (á þskj. 34) frá Steingrími J. Sigfússyni og fleiri alþingismönnum er þess óskað að dómsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um undirbúning og framkvæmd alþingiskosninganna 10. maí 2003.

    Undirbúningur fyrir alþingiskosningarnar 2003 hófst í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á haustmánuðum árið 2002.
    Þá hófst m.a endurskoðun á lögum um kosningar til Alþingis nr. 24/2000. Megintilgangur breytingarfrumvarpsins var að heimila talningu atkvæða á fleiri en einum stað í hverju kjördæmi og í þessum tilgangi var búin til heimild fyrir yfirkjörstjórnir til að skipa umdæmiskjörstjórn. Enn fremur var nauðsynlegt að lagfæra upptalningu á sveitarfélögum í 6. gr. laganna, þar sem kjördæmin eru skilgreind, í samræmi við breytingar sem orðið höfðu á heiti þeirra vegna sameiningar eða af öðrum ástæðum. Lagt var til að kjörseðlar yrðu útbúnir með kassa eða ferningi fyrir framan listabókstafina, sem kjósendur setja krossinn í. Þá var sérstaklega tekið fram að atkvæði væri gilt þótt merkt væri utan fernings, svo lengi sem ljóst væri við hvaða listabókstaf væri átt. Í þessu sambandi væri brýnt að hafa í huga að vafaatkvæði yrðu skýrð með hliðsjón af vilja kjósanda. Loks var talin ástæða til að auðvelda kjósendum, sem eiga erfitt með að komast á sinn rétta kjörstað eða greiða atkvæði þar, t.d. vegna fötlunar, að afsala sér kosningarrétti í sinni kjördeild og fá að greiða atkvæði í annarri kjördeild innan sama kjördæmis. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í nóvember 2002 og hlaut samþykki þingsins þann 13. mars 2003.
    Haustið 2002 var einnig hrundið af stað í dómsmálaráðuneytinu vinnu við gerð sérstaks kosningavefs tileinkuðum alþingiskosningunum 2003. Markmið með gerð kosningavefsins var að hafa þar aðgengilegar upplýsingar sem sneru að alþingiskosningunum 2003 þannig að bæði almenningur og þeir sem unnu við kosningarnar gætu haft gagn af. Eftir að vefurinn fór í loftið þann 11. nóvember 2002 varð strax ljóst að margir nýttu sér þennan möguleika í upplýsingaöflun og ráðuneytið fór strax að fá þar fjölda fyrirspurna. Þegar á leið gat ráðuneytið tekið þessar spurningar saman og búið til gagnabanka á vefnum sem hýsti svör við algengustu spurningunum sem borist höfðu og þannig komið til móts við kjósendur með aukinni upplýsingagjöf. Kosningavefurinn reyndist vera gríðarlega öflugt upplýsingatæki sem stjórnmálaflokkar, kjörstjórn, fjölmiðlar og almenningur notfærðu sér til þess nálgast upplýsingar varðandi kosningarnar. Auk þess gat ráðuneytið komið mikilvægum upplýsingum í dreifingu með auðveldum hætti, m.a. í gegnum póstlista. Til að mynda var mörgum tilkynningum og upplýsingum bætt inn á vefinn jafnóðum og þörf var á.
    Auk þess að ráðast í gerð kosningavefs þá voru teknar upp ýmsar nýjungar varðandi upplýsingagjöf af hálfu ráðuneytisins í tilefni af alþingiskosningunum 2003.
    Þar ber fyrst að nefna að þegar utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst þann 15. mars 2003 hafði dómsmálaráðuneytið sent til allra sýslumanna á landinu leiðbeiningar varðandi framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslunnar. Þessar leiðbeiningar voru hugsaðar til upplýsingar fyrir þá einstaklinga sem sýslumenn fá til þess að vinna að utankjörfundaratkvæðagreiðslunni (fylgiskjal I). Leiðbeiningarnar voru einnig sendar til utanríkisráðuneytisins enda áttu þær eins vel við um utankjörfundaratkvæðagreiðslu erlendis. Þá var leiðbeiningunum einnig dreift til blaða- og fréttamanna á sérstökum kynningarfundi sem ráðuneytið efndi til fyrir fjölmiðla þann 27. febrúar 2003. Á kynningarfundinum var einnig dreift til fjölmiðla upplýsingum um helstu tímapunkta sem máli skiptu varðandi kosningarnar frá því að utankjörfundaratkvæðagreiðslan gat hafist þann 15. mars 2003 til kjördags þann 10. maí 2003 (fylgiskjal II).
    Í öðru lagi var í fyrsta sinn af hálfu ráðuneytisins ráðist í gerð bæklings fyrir unga kjósendur og bar hann heitið: Til hamingju með kosningaréttinn ! og var sendur út til 16.600 ungmenna sem voru að kjósa í kosningum til Alþingis í fyrsta sinn. Við undirbúning bæklingsins fóru fulltrúar ráðuneytisins í framhaldsskóla og ræddu við ungt fólk til að athuga hvað ungt fólk vildi vita um kosningar og hvað það ekki vissi fyrir. Á daginn kom að einfaldir hlutir eins og hvar kjósendur merkja á kjörseðilinn og hvað kjósandinn gerir við kjörseðilinn þegar hann gengur út úr kjörklefanum vöfðust fyrir þessu unga fólki. Því var ákveðið að hafa bæklinginn myndrænan með litlu magni af skrifuðum texta, enda kom í ljós að myndræni hluti kosningavefsins var það helsta sem stóð upp úr hjá þeim eftir að hafa skoðað vefinn. Bæklingurinn var sendur heim til ungra kjósenda rétt fyrir miðjan apríl auk þess sem bæklingnum var dreift til framhaldsskóla.
    Í þriðja lagi var leiðbeiningum um alþingiskosningar á kjörfundi breytt en þær höfðu í áraráðir verið með sama útlit og texta. Þá var reynt að flokka upplýsingar þannig að textinn yrði aðgengilegri og brotinn upp með myndrænni uppsetningu (fylgiskjal III).
    Í fjórða lagi lét ráðuneytið búa til eyðublöð um afsal kosningaréttar í kjördeild en það kom til vegna breytts ákvæðis í 80. gr. laga um kosningar til Alþingis.
    Í fimmta lagi lét ráðuneytið prenta tilkynningar um þá lista sem í framboði voru og voru þær látnar hanga uppi á kjörstað bæði innan og utan kjördeilda. Þetta var nýbreytni í lögum um kosningar til Alþingis nr. 24 frá árinu 2000.
    Í sjötta lagi lét ráðuneytið gera sérprentun með lögum um kosningar til Alþingis, þar sem einnig er að finna stjórnarskrána, lög um framboð og kjör forseta Íslands, lög um kosningar til sveitarstjórna, leiðbeiningar um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra og lög um réttindi danskra ríkisborgara á Íslandi. Þessu var dreift til kjörstjórna, sýslumanna, utanríkisráðuneytisins og stjórnmálaflokka um miðjan apríl 2003.
    Auk þess að sjá um gerð utankjörfundarkjörgagna er það í verkahring ráðuneytisins að annast gerð og dreifingu kjörgagna sem notuð eru á kjörfundi. Ráðuneytið sendir kjörgögnin til yfirkjörstjórna og þær dreifa gögnunum svo áfram til sinna undirkjörstjórna. Einnig sér ráðuneytið um gerð annarra kjörgagna eins og umslaga sem kjörstjórnir nota til að senda gögn til yfirkjörstjórnar og um gerð blindraspjalda.
    Ráðuneytið heldur skrá yfir alla listabókstafi stjórnmálasamtaka og ákveður bókstaf nýrra stjórnmálasamtaka en fyrir alþingiskosningarnar 2003 var tveimur nýjum bókstöfum úthlutað, T til framboðs óháðra í Suðurkjördæmi og N til Nýs afls.
    Ráðuneytið sér um að löggilda gerðabækur kjörstjórna og láta þeim í té innsigli og stimpla.

Með beiðni ( á þskj. 34) var sérstaklega óskað svara við 13 spurningum sem lagðar voru fram.

    Við undirbúning skýrslunnar af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins var leitað eftir upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu varðandi spurningar 7, 8, 9, 10, 11, 12 og upplýsingum frá öllum sýslumannsembættum sem undir dómsmálaráðuneytið heyra varðandi spurningar 7, 8, 9 og 10. Svör bárust frá utanríkisráðuneytinu og frá 23 sýslumannsembættum af 25.

     1.      Er rétt að huga að breytingum á því fyrirkomulagi að Alþingi sjálft hafi það hlutverk með höndum að staðfesta lögmæti sitt og gildi kosninga, sbr. einkum 46. gr. stjórnarskrárinnar og 1., 4. og 5. gr. laga um þingsköp Alþingis?
    Alþingi tekur afstöðu til þess, hvað þykir rétt í þessu efni. Stjórnarskránni verður ekki breytt án þess að þing sé rofið og efnt til kosninga. Dómsmálaráðuneytið mun ekki flytja tillögu um breytingar á þeim ákvæðum, sem nefnd eru í spurningunni.

     2.      Er ekki brýnt að setja í lög um kosningar til Alþingis ákvæði um hvenær endurtelja skuli atkvæði, bæði í einstökum kjördæmum sem og á landinu í heild, þegar mjótt er á munum?
    Alþingi metur hve brýn þessi breyting er. Dómsmálaráðuneytið mun ekki flytja tillögu um slíka lagabreytingu.

     3.      Er reynt með einhverjum hætti að tryggja samræmda framkvæmd alþingiskosninga hvað varðar úrskurð vafaatkvæða, talningaraðferðir og ákvarðanir um hvort endurtelja skuli og önnur hliðstæð atriði í öllum kjördæmum landsins?
    Yfirkjörstjórn í hverju kjördæmi fyrir sig hefur yfirumsjón með talningu atkvæða innan síns kjördæmis. Ekki eru til samræmdar reglur um úrskurð vafaatkvæða umfram það sem fram kemur í lögum um kosningar til Alþingis. Í 91. til og með 95. gr. laga um kosningar til Alþingis er fjallað um meðferð utankjörfundaratkvæða í þessu tilliti og um atkvæði greidd á kjörfundi í 100. til og með 104. gr. laganna. Þá eru ekki fyrir hendi samræmdar talningaraðferðir eða reglur um ákvarðanir um endurtalningu á milli kjördæma.

     4.      Hverju sætir að einstakar yfirkjörstjórnir ljúka endanlega störfum og loka úrvinnslu kosningaúrslita áður en heildarúrslit í landinu liggja fyrir og þar með hversu mjótt kann að reynast á munum við úthlutun jöfnunarsæta og hvort ástæða sé til að endurtelja skuli atkvæði af þeim sökum?
    Hlutverk yfirkjörstjórnar er að annast framkvæmd kosninga í sínu kjördæmi og þar með stýra talningu atkvæða þar. Jafnan tíðkast að birt eru úrslit í viðkomandi kjördæmi, þegar atkvæði hafa verið talin þar. Reiknireglur um úthlutun jöfnunarsæta breyta engu um niðurstöðu talningar í einstökum kjördæmum. Fulltrúar allra framboða fylgjast með talningu innan kjördæma. Alþingi á síðasta orðið um vafaatkvæði.

     5.      Kemur til álita að færa landskjörstjórn það vald í hendur að geta úrskurðað endurtalningu í landinu öllu?
    Vissulega er þetta álitaefni og ræður afstaða Alþingis niðurstöðu, því að þar eru kosningalög ákveðin.

     6.      Kemur til álita að landskjörstjórn fái það hlutverk að kveða upp leiðbeinandi forúrskurði um álitamál sem upp kunna að koma í aðdraganda kosninga sem yfirkjörstjórnir einstakra kjördæma hafi til að styðjast við?
    Sjá svar við 5. spurningu.

     7.      Hvernig er utankjörfundaratkvæðagreiðsla undirbúin, kynnt og framkvæmd:
                  a.      í sendiráðum og hjá ræðismönnum erlendis,
                  b.      hjá sýslumönnum,
                  c.      annars staðar, svo sem á sjúkrahúsum eða í heimahúsum?

    Þegar utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst hinn 15. mars 2003 hafði dómsmálaráðuneytið sent til allra sýslumanna á landinu leiðbeiningar varðandi framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslunnar. Þessar leiðbeiningar voru hugsaðar til upplýsingar fyrir þá sem sýslumenn fá til þess að vinna að utankjörfundaratkvæðagreiðslunni. Vitað er til þess að sýslumenn hafi í töluverðum mæli notað þessar leiðbeiningar til að árétta við starfsfólk sitt hvernig framkvæmdin við utankjörfundaratkvæðagreiðslu skuli vera. Leiðbeiningarnar voru einnig sendar til utanríkisráðuneytisins enda áttu þær einnig við um utankjörfundaratkvæðagreiðslu erlendis. Þá var leiðbeiningunum einnig dreift til blaða- og fréttamanna á sérstökum kynningarfundi sem ráðuneytið efndi til fyrir fjölmiðla hinn 27. febrúar 2003.
    Ráðuneytið sá um gerð og dreifingu utankjörfundargagna til utanríkisráðuneytisins og sýslumanna um allt land auk þess að útvega hvaðeina annað sem þessa aðila vanhagaði um, t.d. stimpla með listabókstöfum. Þá var ráðuneytið sýslumönnum og utanríkisráðuneytinu (sendiráðum, ræðismönnum o.s.frv.) innan handar í tengslum við atriði sem upp komu varðandi utankjörfundaratkvæðagreiðsluna.
    Á kosningavef dómsmálaráðuneytisins mátti finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Þar var m.a. kynnt hvar utankjörfundaratkvæðagreiðsla gæti farið fram, hvenær hún gæti hafist og hvenær henni lyki og hvernig henni væri háttað. Þar voru tenglar yfir á lista yfir sýslumenn og aðsetur þeirra, lista yfir sendiráð og ræðismenn Íslands erlendis auk þess sem vakin var athygli á leiðbeiningum um utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra á stofnunum og í heimahúsum.

a.    Utanríkisráðuneytið annast framkvæmd og hefur umsjón með utankjörfundaratkvæðagreiðslu erlendis sbr. 59. gr. laga um kosningar til Alþingis. Þá annast utanríkisráðuneytið afgreiðslu kjörgagna til kjörstjórna erlendis sbr. 1. mgr. 46. gr. sömu laga. Í svari utanríkisráðuneytisins til dómsmálaráðuneytisins vegna skýrslu þessarar kom fram að undirbúningur utankjörfundaratkvæðagreiðslu erlendis hófst með því að sendiskrifstofum Íslands erlendis var sent embættiserindi hinn 7. febrúar 2003. Þar var óskað eftir upplýsingum um a) hvaða tími hentaði best fyrir sendiráð til að hafa opið fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu, b) hjá hvaða ræðismönnum í umdæmi sendiskrifstofa væri hægt að kjósa og á hvaða tíma (dagsetningar), c) hversu marga kjörseðla sendiskrifstofan áætlaði að hún þyrfti fyrir sig og sína ræðismenn og d) hvaða kosningastimpla sendiskrifstofan ætti, þ.e. hvaða bókstafi. Þá segir í svari utanríkisráðuneytisins að einnig hafi verið bent á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins vegna alþingiskosninganna www.kosning2003.is. Fram kemur að þegar upplýsingar höfðu borist frá sendiskrifstofum hafi kjörgögn verið send til þeirra og sendiskrifstofur síðan séð um að senda kjörgögn áfram til ræðismanna í sínu umdæmi eftir atvikum, ásamt leiðbeiningum.
                  Þá kemur einnig fram í svari utanríkisráðuneytisins að fréttatilkynning hafi verið send út hinn 13. mars 2003, þar sem tilkynnt hafi verið að utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna alþingiskosninganna 2003 hæfist 15. mars 2003. Væntanlegum kjósendum hafi þar verið bent á að hafa samband við ræðismenn áður en þeir kæmu til að kjósa. Tekið hafi verið fram að kjósendur ættu sjálfir að kynna sér hverjir væru í framboði og hvaða listabókstafir yrðu notaðir. Bent hafi verið á að kjósendur gætu fundið upplýsingar á www.kosning2003.is. Fréttatilkynningunni hafi fylgt listi yfir kjörstaði erlendis. Fréttatilkynningin var send á alla fjölmiðla á Íslandi og á póstlista til þeirra sem óskuðu eftir að fá sendar allar fréttatilkynningar utanríkisráðuneytisins. Hinn 21. mars hafi verið send út önnur fréttatilkynning þar sem upplýst hafi verið að kjörstöðum hafði verið fjölgað og þriðja fréttatilkynningin var send út þann 10. apríl þar sem sagt var frá breytingu á kjörstað í Noregi. Einnig kemur fram að nokkur sendiráð hafi leitað til Íslendingafélaga varðandi auglýsingar á utankjörfundaratkvæðagreiðslu, auk þess sem utankjörfundaratkvæðagreiðslan hafi verið auglýst í helstu dagblöðum á Norðurlöndunum samkvæmt beiðni frá stjórnmálaflokkunum.
                  Í svari utanríkisráðuneytisins er einnig greint frá því að eftir því sem næst verði komist hafi framkvæmd utankjörfundarkosninganna verið í samræmi við það sem fram kemur í leiðbeiningum í fylgibréfi með atkvæðaseðlum og í leiðbeiningum sem sendar hafi verið ræðismönnum. Í sendiráðum hafi verið hægt að kjósa á áður auglýstum opnunartímum en óskað hafi verið eftir því að menn mæltu sér mót við ræðismenn.

b.    Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar getur farið fram hjá sýslumanni, á aðalskrifstofu hans eða útibúi, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga um kosningar til Alþingis. Til þess að afla upplýsinga um undirbúning, kynningu og framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu hjá sýslumönnum sendi ráðuneytið bréf til allra sýslumanna á landinu þar sem óskað var upplýsinga um það. Alls heyra 25 sýslumannsembætti á landinu undir dómsmálaráðuneytið og bárust svör frá 23 þeirra.
                  Almennt má segja að í svörum sýslumannsembættanna hafi komið fram að við undirbúninginn hafi verið farið yfir kjörgögn sem til voru og áætlað hversu mikið þyrfti að panta frá dómsmálaráðuneytinu, settur hafi verið upp kjörklefi og kjörkassi fyrir atkvæði verið innsiglaður. Þá hafi verkum verið skipt á milli starfsmanna sýslumannsembættanna þegar slíkt átti við og kosningalög og hagnýt atriði varðandi utankjörfundaratkvæðagreiðsluna kynnt fyrir starfsmönnum embættanna. Afgreiðslutímar utan hefðbundins skrifstofutíma voru ákveðnir, auk þess sem utankjörfundaratkvæðagreiðsla á stofnunum var skipulögð. Í kjölfarið var utankjörfundaratkvæðagreiðslan og sérstakir opnunartímar auglýstir í bæjar-, héraðs- og/eða landsfréttablöðum, auk þess sem tilkynningar um sérstaka opnunartíma voru í mörgum tilfellum sendar á kosningaskrifstofur stjórnmálaflokka á viðkomandi svæði. Í sumum tilvikum var sent dreifibréf inn á öll heimili viðkomandi svæðis þar sem utankjörfundaratkvæðagreiðslan var auglýst.
                  Í flestum tilvikum er tekið fram að kosning hafi farið fram með þeim hefðbundna hætti að kjósandi hafi komið á embætti sýslumanns og sannað á sér deili, fyllt hafi verið út fylgibréf með kjörseðli og upplýsingar færðar í gerðabækur. Því næst hafi kjósanda verið afhentur kjörseðill og honum leiðbeint um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Kjósandi hafi síðan farið með seðilinn inn í kjörklefa og skilað atkvæði sínu að því loknu í lokuðu umslagi til sýslumanns/fulltrúa sýslumanns sem setti umslagið í sendiumslagið ásamt fylgibréfinu og innsiglaði það. Þá hafi kjósendur á kjörskrá í kjördæminu getað sett atkvæðið sitt í kjörkassa á staðnum en öðrum verið bent á að koma atkvæði sínu sjálfir til skila. Óskaði kjósandi þess að sýslumaður kæmi atkvæðinu til skila var það póstlagt.

c.    Í svörum sýslumannsembættanna mátti sjá að sá möguleiki að kjósa í heimahúsum hafi verið auglýstur með sama hætti og að ofan er lýst og upplýsingar veittar um fresti til að sækja um slíkt. Í slíkum tilvikum hafi verið farið á heimili þeirra sem óskuðu eftir því að fá að kjósa heima.
                  Varðandi kosningar á stofnunum virðist sem viðkomandi sýslumannsembætti hafi haft samband við forstöðumenn stofnana og ákveðið í samráði við þá heppilegan tíma fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu á stofnuninni. Þá kemur fram að viðkomandi forstöðumanni hafi í flestum tilvikum verið falið að kynna vistmönnum stofnunarinnar fyrirkomulag kosningarinnar og þá var í u.þ.b. helmingi tilvika reynt að koma því við að kynna þetta einnig fyrir fulltrúum framboðslista. Í einhverjum tilvikum sáu sýslumannsembættin sjálf um að auglýsa utankjörfundaratkvæðagreiðsluna á stofnuninni. Kosið var á ýmsum stöðum, t.a.m. á sjúkrastofnunum, dvalarheimilum aldraðra og í fangelsum. Við utankjörfundaratkvæðagreiðslur sem fram fóru í heimahúsum og á stofnunum var þess gætt eftir fremsta megni að kjósendur fengju að kjósa í einrúmi.

     8.      Hvaða upplýsingar liggja frammi þar sem utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram og hvernig er tryggt að þær séu réttar, t.d. um listabókstafi framboða í viðkomandi kosningum?
    Utankjörfundaratkvæðagreiðsla getur hafist 8 vikum fyrir kjördag, sbr. 57. gr. laga um kosningar til Alþingis. Hins vegar rennur frestur til að skila inn framboði ekki út fyrr en 15 dögum fyrir kjördag. Þetta gerir það að verkum að í tæpar 6 vikur getur ríkt óvissa um það hvaða framboðslistar verða í boði á kjördag, þrátt fyrir að þeir sem í boði verða séu þá í langflestum tilvikum búnir að standa í kosningabaráttu og kynningu á framboði sínu í einhvern tíma. Þannig má segja að formlega geti ríkt óvissa um hverjir eru í boði út frá þeim reglum sem um framboð og framboðsfresti í alþingiskosningum gilda.
    Hinn 15. apríl 2003, sendi dómsmálaráðuneytið bréf til allra sýslumanna og til utanríkisráðuneytisins og fylgdi því skrá yfir lista og listabókstafi framboða í alþingiskosningunum 1999 og yfir ný framboð sem þá höfðu sótt um listabókstafi til ráðuneytisins fyrir alþingiskosningarnar 2003. Þetta var gert í ljósi þess að athugasemdir höfðu borist ráðuneytinu um að ekki lægi fyrir listi sem hægt væri að styðjast við við utankjörfundaratkvæðagreiðsluna. Í bréfinu kom fram hvaða listabókstafir væru nýir og áréttað var að óvíst væri hvort allir þeir aðilar sem boðið hefðu fram til Alþingis árið 1999 myndu bjóða fram lista að þessu sinni.
    Þann 30. apríl 2003 var síðan birt á kosningavef dómsmálaráðuneytisins auglýsing landskjörstjórnar um þá lista sem í boði voru í hverju kjördæmi, sbr. auglýsingu landskjörstjórnar í Lögbirtingarblaði og fjölmiðlum.
    Í svari frá utanríkisráðuneytinu kom fram að þær upplýsingar um listabókstafi sem legið hefðu frammi á kjörstöðum hefðu verið „Skrá yfir lista og listabókstafi framboða í alþingiskosningunum 1999 og ný framboð 2003“ sem dómsmálaráðuneytið hafði sent ráðuneytinu.
Af svörum sýslumanna má dæma að almennt hafi upplýsingar frá dómsmálaráðuneytinu verið aðgengilegar kjósendum fram að þeim tíma er framboðsfrestur rann út og framboð í hverju kjördæmi voru auglýst af landskjörstjórn. Þetta hefur þó ekki verið í öllum tilvikum, enda virðast lög um kosningar til Alþingis gera ráð fyrir því að kjósendur afli þessara upplýsinga sjálfir og komi upplýstir til utankjörfundaratkvæðagreiðslunnar. Í einhverjum tilvikum var stuðst við auglýsingu dómsmálaráðuneytisins í Stjórnartíðindum frá 21. febrúar 2003, þar sem auglýstir voru listabókstafir þeirra stjórnmálaflokka sem buðu fram í alþingiskosningunum 8. maí 1999, sbr. 38. gr. laga um kosningar til Alþingis. Þá voru í langflestum tilvikum lagðar fram upplýsingar um þá lista sem í boði voru þegar framboðsfrestur var útrunninn og landskjörstjórn hafði auglýst framboð í hverju kjördæmi með auglýsingum þann 30. apríl 2003.
    Auk þess lágu á flestum stöðum frammi lög um kosningar til Alþingis eða leiðbeiningar dómsmálaráðuneytisins um hvernig greiða ætti atkvæði utan kjörfundar.

     9.      Hvernig er háttað eftirliti með því að rétt kjörgögn og stimplar séu notuð við kosningar utan kjörfundar, en ekki úrelt gögn frá eldri kosningum?
    Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga um kosningar til Alþingis lætur dómsmálaráðuneytið í té kjörgögn við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Kjörgögn til atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eru skilgreind í 1. mgr. 47. gr. fyrrgreindra laga, en það eru: kjörseðill, kjörseðilsumslag, fylgibréf og sendiumslag, svo og stimplar með listabókstöfum. Kosningin skv. 2. mgr. 62. gr. laganna fer síðan þannig fram að kjósandi stimplar eða ritar á kjörseðilinn bókstaf þess lista sem hann vill kjósa. Með bréfi dómsmálaráðuneytisins til allra sýslumanna frá 28. febrúar 2003 var á það minnt að æskilegt væri að kjörgögn væru pöntuð tímanlega. Þá höfðu þegar verið send kjörgögn til utanríkisráðuneytisins, en sá háttur hefur verið hafður á að utanríkisráðuneytið og sýslumenn geri sjálfir grein fyrir þeim fjölda kjörgagna sem þeir telji að muni koma til með að vera notaðir hjá sér. Við mat á þessu er venjulega stuðst við kjörsókn við utankjörfundaratkvæðagreiðslu hjá hverjum og einum frá fyrri árum. Þá hefur ráðuneytið einnig orðið við óskum þeirra sem að utankjörfundaratkvæðagreiðslu standa um að láta þeim í té stimpla með listabókstöfum, en stimplarnir eru einnig merktir með blindraletri. Þessir aðilar hafa sjálfir farið yfir þá stimpla sem til staðar eru hjá þeim fyrir hverjar kosningar og óskað eftir þeim bókstöfum sem þá vanhagar um inn í stafrófið.
    Utanríkisráðuneytið gerði grein fyrir því í svari sínu til dómsmálaráðuneytisins að sendiráðin óskuðu eftir upplýsingum frá ræðismönnum um hvort þeir ættu kjörgögn vegna alþingiskosninga og sendi þeim síðan gögn í samræmi við óskir þeirra. Kjörgögn hafi verið óbreytt undanfarin ár og því hafi sömu gögn gilt fyrir sveitarstjórnar-, forseta- og alþingiskosningar. Auk þess sé ekki gerð krafa um að notaðir séu stimplar með listabókstöfum við kosninguna, sbr. 62. gr. laga um kosningar til Alþingis. Það sé þó gert í flestum sendiráðum.
    Í svörum allra þeirra sýslumanna sem ráðuneytið hefur undir höndum kemur fram að ekki hafi verið notuð önnur kjörgögn en þau sem dómsmálaráðuneytið hefur látið þeim í té. Þá kemur einnig fram að í u.þ.b. helmingi tilvika hafi allir tiltækir stimplar, þ.e. allt stafrófið, legið frammi hjá sýslumönnum fram að þeim tíma er framboð voru kunn. Eftir það hafi einungis legið frammi stimplar með listabókstöfum þeirra lista sem í framboði voru samkvæmt auglýsingu landskjörstjórnar. Þá kemur fram að í sumum tilvikum lágu þó aðeins frammi stimplar þeirra stjórnmálaflokka sem vitað var að væru í framboði. Að auki lágu blýantar einnig frammi á flestum stöðum.
    Einhver hluti sýslumanna sagðist hafa reglulega gætt þess að ekki hefði verið átt við stimplana í kjörklefunum. Þá virðist sem stimplar hafi verið notaðir við utankjörfundaratkvæðagreiðslu í stofnunum og í heimahúsum í u.þ.b. helmingi tilvika en í öðrum tilvikum blýantar.

     10.      Er undirbúningi, kynningu og framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu hagað með tilliti til þess að auðvelda einstökum hópum, svo sem sjómönnum, námsmönnum, Íslendingum búsettum erlendis o.s.frv., að kjósa?
    Eins og fyrr hefur verið greint frá stóð dómsmálaráðuneytið fyrir gerð sérstaks kosningavefs www.kosning2003.is sem m.a. var ætlað að auðvelda kjósendum að nálgast upplýsingar um alþingiskosningarnar 2003, hvort sem það voru sjómenn, námsmenn eða Íslendingar búsettir erlendis. Þetta var nýbreytni í upplýsingagjöf af hálfu ráðuneytisins í tengslum við kosningar til Alþingis. Eins og áður hefur verið greint frá var þar að finna upplýsingar um hvar utankjörfundaratkvæðagreiðsla gæti farið fram, hvenær hún gæti hafist og hvenær henni lyki og hvernig henni væri háttað. Þá voru einnig tenglar yfir á lista yfir sýslumenn og aðsetur þeirra, lista yfir sendiráð og ræðismenn Íslands erlendis auk þess sem vakin var athygli á leiðbeiningum um utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra á stofnunum og í heimahúsum. Þar var einnig að finna upplýsingar um að samkvæmt 60. gr. laga um kosningar til Alþingis sé heimilt að kjósa um borð í íslensku skipi sem er í siglingum erlendis eða á fjarlægum miðum, sé kjósandi í áhöfn eða farþegi um borð. Þá er skipstjóri eða sá sem hann tilnefnir kjörstjóri um borð.
    Í svari utanríkisráðuneytisins til dómsmálaráðuneytisins kemur fram að utanríkisráðuneytið líti þannig á að undirbúningur, kynning og framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu miði að því að auðvelda Íslendingum sem búsettir eru erlendis að neyta kosningaréttar síns.
    Af svörum flestra sýslumanna má dæma að afgreiðslutímar og skipulag utankjörfundaratkvæðagreiðslu hjá embættunum hafi verið auglýst með góðum fyrirvara. Þá hafi átt að vera auðvelt fyrir einstaka hópa að kjósa enda góðar samgöngur á flestum stöðum og afgreiðslutímar sýslumanna vegna utankjörfundaratkvæðagreiðslu rúmir. Einnig hafi verið komið til móts við aðila sem um það báðu sérstaklega, svo sem sjómenn, og þeim gert kleift að kjósa utan skrifstofutíma, þ.e. á kvöldin eða um helgar.

     11.      Fer fram einhver kynning gagnvart íslenskum ríkisborgurum búsettum erlendis á þeim reglum sem gilda um kosningarétt þeirra og veru á kjörskrá og er yfir höfuð reynt að greiða fyrir því að þeir geti neytt kosningaréttar síns?
    Eins og fyrr hefur verið greint frá var kosningavefur dómsmálaráðuneytisins www.kosning2003.is mikil bót í kynningu á alþingiskosningunum 2003 fyrir flesta kjósendur og ekki síst fyrir íslenska ríkisborgara búsetta erlendis. Þar var gerð grein fyrir reglum sem um kjörskrána gilda auk þess sem margir íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis nýttu sér þann mögleika að hafa samband við dómsmálaráðuneytið til að athuga hvort þeir væru á kjörskrá. Var reynt eftir fremsta megni að aðstoða alla sem til ráðuneytisins leituðu í þessum erindagjörðum.
    Auk þess var að finna á kosningavefnum upplýsingar um hvar utankjörfundaratkvæðagreiðsla gæti farið fram, hvenær hún gæti hafist og hvenær henni lyki og hvernig henni væri háttað. Þá voru einnig tenglar yfir á lista yfir sendiráð og ræðismenn Íslands erlendis.
    Í svari utanríkisráðuneytisins til dómsmálaráðuneytisins kemur fram að utanríkisráðuneytið hafi ekki staðið fyrir sérstökum kynningum fyrir íslenska ríkisborgara búsetta erlendis á þeim reglum sem um kosningarétt þeirra gilda og veru þeirra á kjörskrá. Hins vegar hafi ráðuneytið og sendiskrifstofur þess leitast við að upplýsa og leiðbeina fólki sem þess hefur óskað. Þá ítrekar utanríkisráðuneytið að það líti svo á að undirbúningur, kynning og framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu miði að því að auðvelda Íslendingum sem búsettir eru erlendis að neyta kosningaréttar síns.

     12.      Hefur sá möguleiki verið skoðaður að opna kjörstaði á kjördag í stærstu Íslendingabyggðum erlendis, svo sem í Kaupmannahöfn?
    Í svari utanríkisráðuneytisins til dómsmálaráðuneytisins kom fram að ekki hefði verið skoðaður sá möguleiki að opna kjörstaði erlendis á kjördag, enda hafi það hvorki verið talið nauðsynlegt né hagkvæmt.

     13.      Hafa kostir þess að taka upp rafræna kjörskrá og/eða opna rafræna kjörstaði verið skoðaðir, sérstaklega með hliðsjón af því að auðvelda íslenskum ríkisborgurum búsettum erlendis eða öðrum hópum manna að neyta kosningaréttar síns?
    Nei, þetta hefur ekki verið skoðað.


Fylgiskjal I.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.