Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 447. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 696  —  447. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Baldur Guðlaugsson frá fjármálaráðuneyti og Hauk Hafsteinsson frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
    Frumvarpinu er ætlað að steypa saman í einn lagabálk ákvæðum um eftirlaun æðstu handhafa þriggja þátta ríkisvaldsins, þ.e. framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir þeirri grundvallarbreytingu að eftirlaun verði framvegis greidd beint úr ríkissjóði í stað Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eins og verið hefur. Iðgjaldahlutfall þeirra sem eiga rétt á eftirlaunum samkvæmt ákvæðum frumvarpsins er hækkað úr 4% af föstum launum í 5% af heildarlaunum. Þetta er gert í ljósi þess að réttur til lífeyrisgreiðslna samkvæmt frumvarpinu er nokkru betri en almennt gerist.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að lögfest verði ákvæði þess efnis að eftir að þeir sem lögin taka til hafa náð fullum réttindum samkvæmt þeim falli niður skylda þeirra til greiðslu iðgjalda. Þá er lögð til smávægileg breyting á orðalagi 2. mgr. 1. gr.
     2.      Þá er lagt til að fellt verði brott ákvæði 10. gr. sem kveður á um að réttur til greiðslna úr ríkissjóði falli niður ef þingsetu lýkur fyrir 40 ára aldur.
     3.      Gerð er tillaga um breytingu á 14. gr. til þess að hnykkja á því að varaþingmenn skuli greiða 5% af launum sínum fyrir þingsetuna til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þar sem fleiri launaliðir en þingfararkaup geta talist til heildarlauna varaþingmanns.
     4.      Lögð er til sú leiðrétting á 15. gr. að fellt verði niður ákvæði um makalífeyri í 5. mgr. þar sem hvergi er vísað til hans annars staðar í greininni.
     5.      Þá eru lagðar til breytingar á 1. mgr. 22. gr. Annars vegar er lögð til orðalagsbreyting til að hnykkja á efnisatriði greinarinnar um að sá sem hefur öðlast rétt samkvæmt eldri lögum geti tekið eftirlaun eða makalífeyri samkvæmt þeim. Hins vegar er lagt til að almennum lagaskilareglum verði beitt um ákvæði frumvarpsins og því er gerð tillaga um að lokamálsliður 1. mgr., þess efnis að eldri lög geti ekki gilt um alþingismenn sem voru kosnir til Alþingis í fyrsta sinn 10. maí 2003, verði felldur brott.
     6.      Loks er lagt til að gerðar verði breytingar á 23. gr. þess efnis að ekki verði hróflað við álagi varaforseta Alþingis, formanna þingnefnda og formanna þingflokka að þessu sinni þannig að það verði áfram 15%. Þá er lagt til að sömu reglur gildi um þá alþingismenn sem eru formenn stjórnmálaflokka sem hafa hlotið a.m.k. þrjá þingmenn kjörna, og eru ekki jafnframt ráðherrar, og formenn þingnefnda, þingflokka, sérnefnda og varaformenn fastanefnda þess efnis að enginn geti fengið nema eina álagsgreiðslu samkvæmt ákvæðum þar að lútandi.
    Meiri hlutinn leggur jafnframt áherslu á að tekið verði til athugunar hvort gera skuli breytingar á lögum um Kjaradóm þannig að hann geti framvegis ákvarðað álag á þingfararkaup í stað þess að sú ákvörðun sé í höndum þingmanna sjálfra. Meiri hlutinn telur eðlilegt í ljósi þess að Kjaradómur ákveður samkvæmt gildandi lögum þingfararkaup ákveði hann einnig kjör þingmanna í heild sinni. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að skoða þurfi sérstaklega hverjir eigi að fá slíkt álag greitt og hvort greiða skuli álagsgreiðslur til einstakra alþingismanna fyrir að sinna fleiri trúnaðarstörfum en einu fyrir stjórnmálaflokk hverju sinni.

Alþingi, 12. des. 2003.Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Birgir Ármannsson.Sigurður Kári Kristjánsson.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.