Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 720, 130. löggjafarþing 428. mál: stjórn fiskveiða (línuívilnun o.fl.).
Lög nr. 147 20. desember 2003.

Lög um breytingar á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


1. gr.

     3. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
     Áður en leyfðum heildarafla er skipt á grundvelli aflahlutdeildar skal draga eftirtalið frá:
  1. Áætlaðan afla báta sem stunda veiðar með dagatakmörkunum.
  2. Aflaheimildir skv. 9. gr. og 9. gr. a.
  3. Aflaheimildir og áætlaðan afla til línuívilnunar skv. 10. gr.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Á hverju fiskveiðiári skal ráðherra hafa til ráðstöfunar aflaheimildir sem nema allt að 12.000 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið sem hann getur ráðstafað þannig:
    1. Til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda.
    2. Til stuðnings byggðarlögum, í samráði við Byggðastofnun, þannig:
      1. Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á bolfiski.
      2. Til byggðarlaga sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem veruleg áhrif hefur haft á atvinnuástand í byggðarlögunum.

  3. 3. mgr. verður nýtt ákvæði til bráðabirgða við lögin og jafnframt koma tveir nýir málsliðir í stað 1. málsl., svohljóðandi: Á fiskveiðiárinu 2004/2005 er sjávarútvegsráðherra heimilt að úthluta samtals 500 lestum af ýsu, 500 lestum af steinbít og 150 lestum af ufsa, miðað við óslægðan fisk, til krókaaflamarksbáta sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem að verulegu leyti eru háðar veiðum krókaaflamarksbáta. Á fiskveiðiárinu 2005/2006 skal ráðherra úthluta með sama hætti 250 lestum af ýsu, 250 lestum af steinbít og 75 lestum af ufsa.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Ráðherra er heimilt í reglugerð að ákveða að takmörkun á heimild skv. 2. málsl. skuli í ákveðnum fisktegundum miðast við hærri viðmiðun en 2% af heildaraflaverðmæti botnfiskaflamarks.
  2. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Við línuveiðar dagróðrabáta sem beita línu í landi má landa 16% umfram þann afla í þorski, ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra. Dagróðrabátur telst bátur sem kemur til hafnar til löndunar innan 24 klukkustunda frá því að hann heldur til veiða úr höfn þeirri þar sem línan var tekin um borð. Ákvæði þetta tekur aðeins til þeirra báta sem tilkynna staðsetningu um sjálfvirkt tilkynningarkerfi íslenskra skipa, sbr. lög nr. 41 20. mars 2003, um vaktstöð siglinga. Línuívilnun í þorski skal á hverju fiskveiðiári takmarkast við 3.375 lestir af óslægðum þorski og skal það magn skiptast innan hvers fiskveiðiárs á fjögur þriggja mánaða tímabil frá 1. september að telja, hlutfallslega með hliðsjón af þorskveiðum línubáta á árinu 2002. Fiskistofa fylgist með línuafla og tilkynnir ráðuneytinu hvenær telja megi líklegt að leyfilegu viðmiðunarmagni hvers tímabils verði náð. Ráðuneytið tilkynnir síðan frá hvaða tíma þorskafli á línu skuli reiknast að fullu til aflamarks. Þá getur ráðherra ákveðið hámark á heildarmagn ýsu og steinbíts til línuívilnunar og jafnframt ákveðið að ýsu- og steinbítsafli skuli reiknast að fullu til aflamarks þegar því er náð. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði XXVI til bráðabirgða við lögin, sbr. ákvæði IV til bráðabirgða við lög nr. 1 14. janúar 1999:
  1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar á fiskveiðiárinu 2004/2005 aflaheimildir sem nema 750 þorskígildislestum og á fiskveiðiárinu 2005/2006 aflaheimildir sem nema 375 þorskígildislestum til að styðja byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.
  2. 2. mgr. fellur brott.


5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. september 2004. Þó skal ákvæði a-liðar 3. gr. og ákvæði b-liðar 3. gr. að því er varðar línuveiðar á steinbít og ýsu koma til framkvæmda 1. febrúar 2004.

Samþykkt á Alþingi 15. desember 2003.