Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 480. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 746  —  480. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      3. mgr. verður svohljóðandi:
                  Eftirtaldir aðilar hafa heimild til að stunda starfsemi skv. II. kafla og taka við iðgjaldi með samningi um viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum þessum:
        1.    Viðskiptabankar, sparisjóðir og verðbréfafyrirtæki, sbr. lög um fjármálafyrirtæki.
        2.    Líftryggingafélög, sbr. lög um vátryggingastarfsemi.
        3.    Lífeyrissjóðir, enda uppfylli þeir skilyrði 4. og 5. gr.
     b.      Á eftir 3. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Erlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og verðbréfafyrirtækjum, sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, er heimilt að stunda starfsemi skv. II. kafla þessara laga, með stofnun útibús hér á landi, sbr. 31. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eða án stofnunar útibús, sbr. 32. gr. sömu laga. Ákvæði 31., 32., 34. og 35. gr. þeirra laga gilda um heimildir viðskiptabanka, sparisjóða og verðbréfafyrirtækja til að stunda starfsemi skv. II. kafla þessara laga eftir því sem við á.
                  Erlendum líftryggingafélögum, sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, er heimilt að stunda starfsemi skv. II. kafla þessara laga, með stofnun útibús hér á landi, sbr. 64. gr. laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, eða án stofnunar útibús, sbr. 65. gr. þeirra laga. Ákvæði 64.–70. gr. laganna gilda um heimildir líftryggingafélaga til að stunda starfsemi skv. II. kafla þessara laga eftir því sem við á.
                  Fjármálaráðherra getur sett nánari reglur um með hvaða hætti rétthöfum skulu tryggðar upplýsingar um skilmála samninga um lífeyrissparnað og viðbótartryggingavernd, svo sem um efni þeirra, form og áunnin réttindi.

2. gr.

    Í stað ,,1.–3. tölul.“ í 1. málsl. 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: 1. og 2. tölul.

3. gr.

    Á eftir 19. gr. laganna kemur ný grein, 19. gr. a, svohljóðandi:
    Launþega, sem kemur til starfa hingað til lands frá höfuðstöðvum á Evrópska efnahagssvæðinu eða í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, skal heimilt að greiða til lífeyriskerfis með sama hætti og honum væri heimilt ef hann aflaði teknanna í því landi þar sem höfuðstöðvarnar eru og lífeyriskerfið fellur ekki undir reglugerð nr. 1408/71/EBE. Ef greiðslu iðgjalda til slíks lífeyriskerfis er haldið áfram skv. 1. málsl. eru launþegi sem starfar utan höfuðstöðva og vinnuveitandi hans undanþegnir allri skyldu til að greiða iðgjöld til sambærilegs lífeyriskerfis hér á landi.
    Vinnuveitendur, lífeyrissjóðir og vörsluaðilar lífeyrissparnaðar skulu hafa tiltækar upplýsingar fyrir sjóðfélaga, sem flytja til annarra aðildarríkja á Evrópska efnahagssvæðinu eða til aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, um áunnin lífeyrisréttindi þeirra úr lífeyriskerfum skv. 1. mgr., með hvaða hætti þau verði varðveitt, hvort unnt sé að flytja þau til erlendra sjóða og hvert beri að snúa sér þegar þau verða virk.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      7. tölul. 1. mgr. orðast svo: Í hlutdeildarskírteinum eða hlutum verðbréfasjóða eða fjárfestingarsjóða samkvæmt lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, en verðbréfasafni að baki skírteinunum eða hlutunum skal skipt á aðra töluliði þessarar málsgreinar með tilliti til takmarkana í 2.–6. mgr.
     b.      Á eftir 2. málsl. 5. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Samanlögð eign sjóðsins í verðbréfum skv. 1. málsl. og innlánum skv. 4. tölul. 1. mgr. skal ekki vera meiri en 25% af hreinni eign sjóðsins.
     c.      Á eftir orðinu ,,verðbréfasjóði“ í 3. málsl. 5. mgr. kemur: eða einstakri deild hans.
     d.      Við 5. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þá er lífeyrissjóði óheimilt að eiga meira en 15% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum fjárfestingarsjóðs, eða einstakri deild hans. Lífeyrissjóði er óheimilt að binda meira en 25% af eignum sínum í innlánum sama banka eða sparisjóðs.
     e.      Við greinina bætist ný málsgrein er verður 9. mgr. og orðast svo:
                  Þrátt fyrir ákvæði 7. tölul. 1. mgr. er lífeyrissjóðum ekki heimilt að fjárfesta eða eiga í fjárfestingarsjóðum sem fjármagna sig með lántöku eða skortsölu, sbr. ákvæði 38. gr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru gerðar nokkrar breytingar á lögunum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Helstu breytingar er þessar:

Skilyrði um starfsstöð hér á landi vegna þjónustu skv. II. kafla afnumin.
    Í fyrsta lagi er lagt til að erlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum, verðbréfafyrirtækjum og líftryggingafélögum, sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, verði, að uppfylltum vissum skilyrðum, heimilt að veita þjónustu skv. II. kafla laganna, þ.e. að taka við iðgjaldi með samningi um viðbótartryggingavernd. Með breytingunni er brugðist við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA en stofnunin hefur talið það fyrirkomulag að gera skilyrði um starfsstöð hér á landi brjóta í bága við 36. gr. EES-samningsins um frelsi ríkisborgara aðildarríkja ESB og EFTA til að veita þjónustu.
    Í frumvarpinu er gengið út frá þeirri meginreglu að fjármálafyrirtæki eða líftryggingafélag, sem hefur fengið starfsleyfi í einu af aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, geti á grundvelli þess opnað útibú í sérhverju hinna ríkjanna án þess að þurfa til þess sérstakt leyfi stjórnvalda þar eða boðið fram þjónustu sína þar án þess að opna útibú. Þetta þýðir t.d. að viðskiptabanki í Belgíu getur boðið upp á samning um viðbótarlífeyrissparnað hér á landi skv. II. kafla laganna hafi hann samsvarandi heimildir samkvæmt starfsleyfi sínu frá belgískum stjórnvöldum.
    Þá er enn fremur gengið út frá þeirri meginreglu að eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja í sérhverju aðildarríkjanna skuli vera í höndum eftirlitsaðila í heimaríki fyrirtækis. Þetta þýðir að starfsemi eða þjónusta belgísks viðskiptabanka hér á landi á grundvelli II. kafla laganna yrði undir eftirliti þarlendra yfirvalda en í samvinnu við Fjármálaeftirlitið.

Innleiðing tilskipunar nr. 98/49/EB, um verndun viðbótarlífeyrisréttinda launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem flytjast á milli aðildarríkja.
    Með frumvarpinu er í öðru lagi lagt til að við lögin verði bætt nýrri grein er fjallar um réttindi launþega sem koma hingað til lands til starfa frá höfuðstöðvum sem eru á Evrópska efnahagssvæðinu eða í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Samkvæmt ákvæðinu skal þeim heimilt að greiða áfram til þess lífeyriskerfis sem þeir eiga aðild að með sama hætti og þeim væri heimilt ef þeir öfluðu teknanna í því landi þar sem höfuðstöðvarnar eru og lífeyriskerfið fellur ekki undir reglugerð nr. 1408/71/EBE. Ákvæðið er í samræmi við 6. og 7. gr. tilskipunar nr. 98/49/EB, um verndun viðbótarlífeyrisréttinda launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem flytjast milli aðildarríkja.
    Samkvæmt 2. efnismgr. 3. gr. skulu vinnuveitendur, lífeyrissjóðir og vörsluaðilar lífeyrissparnaðar hafa tiltækar upplýsingar fyrir sjóðfélaga sem greinin tekur til um áunnin lífeyrisréttindi þeirra úr lífeyriskerfum skv. 1. mgr., með hvaða hætti þau verða varðveitt, hvort unnt sé að flytja þau til erlendra sjóða og hvert beri að snúa sér þegar þau verða virk.
    Markmið tilskipunar nr. 98/49/EB er að standa vörð um réttindi félaga sem flytja frá einu aðildarríki til annars í lífeyriskerfum og stuðla þannig að því að ryðja úr vegi hindrunum fyrir frjálsum flutningum launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga innan bandalagsins. Samkvæmt greininni tekur slík vernd jafnt til lífeyrisréttinda í valfrjálsum sem skyldubundnum lífeyriskerfum, að undanskildum þeim sem heyra undir reglugerð 1408/71/EBE, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja. Í þessu sambandi er rétt að árétta að hinn skyldubundni hluti lífeyrisréttinda í íslenskum lífeyrissjóðum, sbr. ákvæði I. kafla laganna, fellur undir reglugerð 1408/71/EBE og þar af leiðandi ekki undir tilskipun nr. 98/49/EB, sbr. 1. gr. tilskipunarinnar.
    Samkvæmt reglugerð nr. 698/1998, um ráðstöfun iðgjalds til lífeyrissparnaðar og viðbótartryggingarvernd, er lífeyrissjóðum heimilt að taka við iðgjöldum til öflunar viðbótarlífeyrisréttinda í samtryggingarsjóðum og líftryggingarfélögum heimilt að bjóða upp á samninga um lífeyristryggingu. Þá er vörsluaðilum lífeyrissparnaðar einnig heimilt að verja hluta af iðgjöldum til einstaklingsbundins sparnaðar til kaupa á líftryggingu. Slíkir samningar og réttindi sem áunnin eru á grundvelli þeirra eru utan gildissviðs reglugerðar 1408/71/EBE og falla þar með undir gildissvið tilskipunar nr. 98/49/EB. Aðrar reglur um lífeyrisréttindi falla ekki undir gildissvið tilskipunarinnar og þar af leiðandi ekki undir ákvæði 3. gr. frumvarps þessa.

Hugtökin verðbréfasjóður og fjárfestingarsjóður samkvæmt lögum nr. 30/2003.
    Í frumvarpinu er lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta í fjárfestingarsjóðum með svipuðum hætti og verðbréfasjóðum. Í 7. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997 kemur fram að lífeyrissjóði sé heimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða, en verðbréfasafni að baki skírteinunum skuli skipt á aðra töluliði málsgreinarinnar með tilliti til takmarkana í 2.–6. mgr.
    Samkvæmt lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, tók hugtakið verðbréfasjóður til sjóða sem heimilt var að markaðssetja á Evrópska efnahagssvæðinu. Uppfylltu þeir sjóðir kröfur tilskipunar 85/611/EB, svokallaðir UCITS-sjóðir. Með lögum nr. 17/1999, um breytingu á lögum nr. 10/1993, var m.a. heimilað að stofna ,,verðbréfasjóði“ sem eingöngu yrði heimilt að markaðssetja hérlendis. Höfðu þeir sjóðir víðtækari fjárfestingarheimildir en UCITS- sjóðir en við lagasetninguna var höfð hliðsjón af tillögum framkvæmdastjórnar ESB að breyttri verðbréfasjóðatilskipun sem var til meðferðar í Evrópuþinginu og hjá Evrópuráðinu. Varð hugtakið verðbréfasjóður þar með víðara og tók þá bæði til verðbréfasjóða sem heimilt var að markaðssetja á Evrópska efnahagssvæðinu og til sjóða sem eingöngu var heimilt að markaðssetja hérlendis, svokallaðra heimasjóða. Eftir framangreinda lagabreytingu var lífeyrissjóðum þá skv. 7. tölul. 1. mgr. 36. gr. jafnframt heimilt að fjárfesta í heimasjóðunum.
    Með lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, sem innleiddu m.a. framangreindar tillögur að breyttri verðbréfasjóðatilskipun, féllu framangreind lög nr. 10/1993, með síðari breytingum, úr gildi. Skv. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 30/2003 merkir hugtakið verðbréfasjóður nú sjóð með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu sem stofnaður er og rekinn af rekstrarfélagi og gefur út hlutdeildarskírteini sem eru innleysanleg að kröfu eigenda að eignum sjóðsins. Í 2. tölul. 2. gr. sömu laga merkir fjárfestingarsjóður sjóð með starfsleyfi, en án heimildar til markaðssetningar á Evrópska efnhagssvæðinu. Slíkir sjóðir gefa út hlutdeildarskírteini eða hlutabréf. Fjárfestingarsjóður getur verið í tvenns konar formi. Hann getur verið stofnaður og rekinn af rekstrarfélagi líkt og verðbréfasjóður eða rekinn í hlutafélagsformi.
    Samkvæmt framangreindu ákvað löggjafinn að hugtakið verðbréfasjóður skyldi ekki ná yfir nýja tegund sjóða, með rýmri fjárfestingarheimildir, þ.e. fjárfestingarsjóði, sem eingöngu er heimilt að markaðssetja hérlendis. Nær hugtakið verðbréfasjóður nú yfir samsvarandi sjóðaafurðir með samsvarandi fjárfestingarheimildum og það gerði samkvæmt lögum nr. 10/1993, sbr. þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 17/1999.
    Framangreindar lagabreytingar hafa enn fremur í för með sér að lífeyrissjóðum er skv. 7. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997 eingöngu heimilt að fjárfesta í verðbréfasjóðum skv. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 30/2003. Skv. 5. mgr. 36. gr. laganna mega lífeyrissjóðir ekki eiga meira en 25% af hlutdeildarskírteinum útgefnum af sama verðbréfasjóði.
    Fjárfestingar lífeyrissjóða í hlutum eða hlutdeildarskírteinum fjárfestingarsjóða falla hins vegar undir 6. tölul. (hlutabréf) eða 8. tölul. (önnur verðbréf) 1. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997. Af 5. mgr. 36. gr. leiðir að lífeyrissjóði er ekki heimilt að eiga meira en 15% af hlutafé í hverju fyrirtæki og samanlögð eign lífeyrissjóðs í verðbréfum útgefnum af sama aðila eða samstæðu má ekki vera meira 10% af hreinni eign sjóðs og samanlögð eign lífeyrissjóðs í öðrum verðbréfum skv. 8. tölul. má hæst vera 5% af hreinni eign sjóðs.
    Í athugasemdum við 2. gr. frumvarps til laga nr. 30/2003 kemur m.a. fram að verðbréfasjóði sé heimilt að markaðssetja á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þessu felst að verðbréfasjóðir hafa Evrópupassa og geta á grundvelli hans opnað útibú eða hafið starfsemi í sérhverju hinna ríkjanna án þess að þurfa til þess sérstakt leyfi stjórnvalda. Verðbréfasjóðir uppfylla því öll skilyrði tilskipunar um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Þá kemur fram að hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða séu innleysanleg að kröfu eigenda að eignum sjóðs.
    Í athugasemdunum er jafnframt vikið að fjárfestingarsjóðum en þar kemur fram að þeir uppfylli ekki tilskipun um sameiginlega fjárfestingu og geti því ekki markaðssett skilríki sín á Evrópska efnahagssvæðinu án starfsleyfis í viðkomandi ríki. Um markaðssetningu fjárfestingarsjóða í öðru ríki fari því eftir lögum þess ríkis. Fram kemur að fjárfestingarsjóður geti verið í tvenns konar formi. Hann geti verið stofnaður og rekinn af rekstrarfélagi líkt og verðbréfasjóður. Hins vegar geti hann verið rekinn í hlutafélagsformi. Ólíkt verðbréfasjóðum geta viðskiptavinir í fjárfestingarsjóðum ekki innleyst skírteini sín án fyrirvara.
    Þá kemur fram að heitin verðbréfasjóður og fjárfestingarsjóður eigi að endurspegla núverandi hugtakanotkun á fjármálamarkaði. Hugtakið verðbréfasjóður hafi fest sig í sessi hér á landi og standi fyrir hlutdeild í áhættudreifðu safni verðbréfa sem ætíð sé innleysanleg. Vert sé að halda þessari notkun á heitinu verðbréfasjóður. Hugtakið fjárfestingarsjóður hafi á undanförnum árum hins vegar verið notað hér á landi um sjóði sem hafi áhættusamari fjárfestingarstefnu.
    Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, er enn fremur fjallað um eðli verðbréfasjóða og kemur þar m.a. fram að verðbréfasjóður sé ekki vogunarsjóður með frjálslegar fjárfestingarheimildir. Til að koma í veg fyrir mikla áhættu sé verðbréfasjóði óheimilt að fjárfesta meira en 10% af eignum í öðru en skráðum verðbréfum á skipulegum verðbréfamarkaði. Að sama skapi séu ítarlegar kröfur um áhættudreifingu í fjárfestingarstefnukafla verðbréfasjóðalaga.
    Fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða eru hins vegar mun áhættusamari en verðbréfasjóða, m.a. hvað varðar ótakmarkaðar heimildir til fjárfestinga í óskráðum verðbréfum, minni áhættudreifingu, heimildir til skortsölu og heimildir til lántöku að tilteknu marki. Með skortsölu er átt við að verðbréfasjóði er heimilt að selja verðbréf sem ekki eru í eigu sjóðsins á þeim tíma sem salan fer fram, þ.e. verðbréfasjóði er heimilt að taka verðbréf að láni tímabundið til að selja þau.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta í fjárfestingarsjóðum með svipuðum hætti og verðbréfasjóðum. Í ljósi þess að um áhættusamari sjóðaafurð er að ræða sem lýtur ekki skilyrðislausri innlausnarskyldu að kröfu eigenda sjóðs er lagt til að heimildir til fjárfestinga í hlutdeildarskírteinum eða hlutum sama fjárfestingarsjóðs, eða einstakrar deildar hans, verði þrengri en gildir um verðbréfasjóði. Þykir hæfilegt að miða við 15%.
    Samkvæmt 38. gr. laganna er lífeyrissjóðunum óheimilt að taka lán nema til fjárfestingar í fasteignum sem eru nauðsynlegar vegna starfsemi sjóðsins. Í samræmi við framangreint verður lífeyrissjóðum óheimilt að fjárfesta í fjárfestingarsjóðum sem nýta heimildir 5. og 6. tölul. 54. gr. laga nr. 30/2003 til lántöku eða skortsölu. T.d. mætti hugsa sér að fjárfestingarsjóðir yrðu stofnaðir utan um fjárfestingar lífeyrissjóðs sem nýttu heimildir til lántöku, þ.e. allt að 25% af verðmæti eigna fjárfestingarsjóðsins. Þannig væru fjárfestingar lífeyrissjóðs fjármagnaðar að hluta til með lántökum sem gengur gegn 38. gr. laganna. Með þessu móti gætu lífeyrissjóðir einnig nýtt heimildir til lántöku til að stilla af tryggingafræðilegar úttektir sjóðanna um áramót.
    Er því lagt til að ný málsgrein bætist við 36. gr. sem kveður á um að þrátt fyrir ákvæði 7. tölul. 1. mgr. 36. gr. sé lífeyrissjóðum ekki heimilt að fjárfesta eða eiga í fjárfestingarsjóðum sem fjármagna sig með lántöku eða skortsölu, sbr. ákvæði 38. gr. laganna. Í því sambandi skal bent á að ekki er víst að allir fjárfestingarsjóðir muni nýta heimildir laga nr. 30/2003 til lántöku og skortsölu heldur nýta t.d. eingöngu rýmri heimildir fjárfestingarsjóða til fjárfestinga en verðbréfasjóðir hafa í einstökum útgefendum og óskráðum verðbréfum. Væri lífeyrissjóðum þá heimilt að fjárfesta í slíkum fjárfestingarsjóðum.

Innlán skv. 36. gr. laganna.
    Spurningar hafa vaknað um hvernig beri að túlka 5. mgr. 36. gr. og hvort innlán falli undir þá reglu að samanlögð eign sjóðs í verðbréfum skv. 2.–8. tölul. 1. mgr. útgefnum af sama aðila eða aðilum sem tilheyra sömu samstæðunni skuli ekki vera meira en 10% af hreinni eign sjóðsins. Rök hníga til þess að túlka beri umrædda lagagrein með þeim hætti að takmarkanir 5. mgr. 36. gr. nái einnig til innlána. Bent hefur verið á að það sé erfiðleikum háð að dreifa innlánum á 10 aðila í ljósi þess hve fáar innlánsstofnanir eru hérlendis. Verður að telja varhugavert með tilliti til áhættudreifingar að lífeyrissjóðum sé heimilt að fela innlán sjóðs eingöngu einni lánastofnun eða sparisjóði. Til samanburðar skal bent á að skv. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, er miðað við 20% vegna innlána, þ.e. verðbréfasjóðum er ekki heimilt að binda meira en 20% af eignum sínum í innlánum sama fjármálafyrirtækis. Í frumvarpinu er lagt til að lífeyrissjóði verði óheimilt að binda meira en 25% af eignum sínum í innlánum sama banka eða sparisjóðs.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í þessari grein er lagt til að erlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum, verðbréfafyrirtækjum og líftryggingafélögum, sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, verði heimilt að stunda starfsemi skv. II. kafla þessara laga, þ.e. að taka við iðgjaldi með samningi um viðbótartryggingavernd með stofnun útibús hér á landi, sbr. 31. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eða án stofnunar útibús, sbr. 32. gr. sömu laga. Í samræmi við þetta er orðalagi 1. mgr. breytt og töluliðum fækkað til samræmis við breytingar sem gerðar voru með tilkomu nýrra laga um fjármálafyrirtæki.
    Samkvæmt 1. efnismgr. b-liðar er erlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og verðbréfafyrirtækjum, sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, veitt heimild til að stunda starfsemi skv. II. kafla laganna, annaðhvort með stofnun útibús hér á landi eða án stofnunar útibús. Um heimildir og hlutverk Fjármálaeftirlitsins er vísað til ákvæða 31., 32., 34. og 35. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    Í 2. efnismgr. b-liðar er sambærilegt ákvæði og í 1. efnismgr. en hér er fjallað um líftryggingafélög og vísað til ákvæða í 64.–70. gr. laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.
    Lagt er til í 3. efnismgr. b-liðar að fjármálaráðherra geti sett nánari reglur um með hvaða hætti rétthöfum skuli tryggðar upplýsingar um skilmála samninga um lífeyrissparnað og viðbótartryggingavernd, svo sem um efni þeirra, form og áunnin réttindi.

Um 2. gr.

    Þar sem töluliðum í 8. gr. var breytt er nauðsynlegt að lagfæra tilvísun í 2. mgr. 9. gr. Hér er ekki um efnislega breytingu að ræða.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að við lögin verði bætt nýrri grein, 19. gr. a, þar sem er fjallað um rétt launþega til að greiða áfram til þess lífeyriskerfis er hann hefur valið sér þegar hann starfar utan höfuðstöðva. Ákvæðið er í samræmi við 6. og 7. gr. tilskipunar nr. 98/49/EB, um verndun viðbótarlífeyrisréttinda launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem flytjast milli aðildarríkja.
    Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar skal launþega, sem kemur til starfa hingað til lands frá höfuðstöðvum á Evrópska efnahagssvæðinu eða í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, heimilt að greiða til lífeyriskerfis með sama hætti og honum væri heimilt ef hann aflaði teknanna í því landi þar sem höfuðstöðvarnar eru og lífeyriskerfið fellur ekki undir reglugerð nr. 1408/71/EBE, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja. Í 2. málsl. 1. mgr. kemur fram að ef greiðslu iðgjalda til slíks lífeyriskerfis er haldið áfram skv. 1. málsl. sé launþegi sem starfar utan höfuðstöðva og vinnuveitandi hans undanþegnir allri skyldu til að greiða iðgjöld til sambærilegs lífeyriskerfis hér á landi.
    Með orðunum ,,launþega, sem kemur til starfa hingað til lands frá höfuðstöðvum á Evrópska efnahagssvæðinu eða í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu“ er átt við einstakling sem sendur er til starfa í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu en heyrir áfram undir löggjöf upprunaríkisins samkvæmt skilmálum II. kafla reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1408/71 eins og hún hefur verið innleidd í íslenskan rétt með reglugerðum.
    Í 2. mgr. er lagt til að vinnuveitendur, lífeyrissjóðir og vörsluaðilar lífeyrissparnaðar skuli hafa tiltækar upplýsingar fyrir sjóðfélaga, sem flytja til annarra aðildarríkja á Evrópska efnahagssvæðinu eða aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, um áunnin lífeyrisréttindi þeirra úr lífeyriskerfum skv. 1. mgr., með hvaða hætti þau verða varðveitt, hvort unnt sé að flytja þau til erlendra sjóða og hvert beri að snúa sér þegar þau verða virk.

Um 4. gr.

    Í a-lið er lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta í fjárfestingarsjóðum skv. lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, með svipuðum hætti og verðbréfasjóðum. Samkvæmt ákvæðinu verða heimildir til fjárfestinga í hlutdeildarskírteinum eða hlutum sama fjárfestingarsjóðs, eða einstakrar deildar hans, þrengri en gildir um verðbréfasjóði þar sem um áhættusamari sjóðaafurð er að ræða. Þykir hæfilegt að miða við 15%.
    Í b-lið er áréttað að samanlögð eign lífeyrissjóðs í verðbréfum skv. 1. málsl. 5. mgr. og innlánum skv. 4. tölul. 1. mgr. greinarinnar megi ekki vera meiri en 25% af hreinni eign sjóðsins.
    C-liður þarfnast ekki skýringa.
    Í fyrri efnismálsl. d-liðar kemur fram að lífeyrissjóði skuli eigi vera heimilt að eiga meira en 15% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum fjárfestingarsjóðs, eða einstakri deild hans. Vísað er til umfjöllunar í almennum athugasemdum um frumvarp til laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Í síðari efnismálslið stafliðarins kemur fram að lífeyrissjóði sé óheimilt að binda meira en 25% af eignum sínum í innlánum sama banka eða sparisjóðs. Vísast nánar til umfjöllunar í almennum athugasemdum.
    Í e-lið er lagt til að þrátt fyrir ákvæði 7. tölul. 1. mgr. þessarar greinar verði lífeyrissjóðum ekki heimilt að fjárfesta eða eiga í fjárfestingarsjóðum sem fjármagna sig með lántöku eða skortsölu, sbr. ákvæði 38. gr. laga þessara. Vísast nánar til almennra athugasemda.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagðar til nokkrar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eins og nánar er greint frá í athugasemdum með frumvarpinu. Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.