Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 485. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 757  —  485. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum.

Flm.: Grétar Mar Jónsson, Jón Bjarnason.



1. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: Leyfilegir sóknardagar hvers fiskveiðiárs skulu aldrei vera færri en 23 og skal þeim fjölgað um einn fyrir hver 20 þúsund tonn leyfðs heildarþorskafla umfram 230 þúsund tonn á hverju fiskveiðiári.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta miðar að því að skapa festu í veiðikerfi handfærabáta sem leyfi hafa til veiða með takmörkun á sóknardögum. Í stað þess að sóknardögum haldi áfram að fækka eins og lögin eru nú úr garði gerð verði sett gólf í kerfið miðað við 23 daga. Algjört ósamræmi hefur verið í lögum að því er varðar handfæraveiðar smábáta þar sem veiðimöguleikar þeirra eru skertir á sama tíma og aflaheimildir annarra fiskiskipa eru að aukast. Þorskaflinn var aukinn um 30 þúsund tonn á þessu fiskveiðiári og aukning hefur orðið á heildarafla ýsu og ufsa. Auk þess var afli annarra skipa sem veiða með krókum aukinn sérstaklega nú rétt fyrir jól með lögum um línuívilnun en þeir sem ekki beita á krókana og veiða með handfærum eiga enn að búa einir við aukna skerðingu á veiðum. Með þessari málsmeðferð stjórnvalda er rekstrargrundvelli kippt undan handfæraveiðum smábáta, en jafnframt er öðrum krókaveiðum veitt línuívilnun og heildarafli þeirra aukinn. Þessi mismunun vegur markvisst að rekstrargrundvelli handfærabáta og afkomu sjómanna. Frumvarpið er sanngjörn leiðrétting á núverandi stöðu mála.