Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 514. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 786  —  514. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn, nr. 43 24. mars 2003.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    5. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Vátryggingar.

    Björgunarsveitum er skylt að tryggja björgunarsveitarmenn vegna slysa er þeir kunna að verða fyrir í störfum sínum á vegum björgunarsveita.
    Björgunarsveitum er skylt að kaupa eignatryggingu fyrir tjóni á persónulegum munum björgunarsveitarmanna sem verða kann í störfum þeirra á vegum björgunarsveita.
    Björgunarsveitum er skylt að kaupa ábyrgðartryggingu fyrir tjóni sem björgunarsveitarmenn kunna að valda þriðja aðila í störfum sínum á vegum björgunarsveita. Um skaðabótaábyrgð björgunarsveita fer að almennum reglum skaðabótaréttar.
    Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari reglur um vátryggingarskylduna, þar með talið gildissvið vátrygginga þessara og vátryggingarfjárhæðir.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lög um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn, nr. 43 24. mars 2003, tóku gildi 1. júlí sl. Í 5. gr. laganna er kveðið á um skyldu björgunarsveita til að kaupa slysatryggingar fyrir félagsmenn sína, eignatryggingar fyrir því tjóni sem þær og björgunarsveitarmenn kunna að verða fyrir við æfingar, björgun, leit og gæslu og ábyrgðartryggingar sem ná til tjóns á mönnum, dýrum, munum og umhverfi.
    Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur vakið athygli dómsmálaráðuneytisins á því að ákvæði 5. gr. mun vera of víðtækt og almennt orðað þannig að torvelt reynist að kaupa tryggingar þær sem ákvæðið mælir fyrir um.
    Því er lagt til í frumvarpi þessu að ákvæði 5. gr. taki mið af hefðbundnum slysatryggingum, eignatryggingum og ábyrgðartryggingum. Einnig verði kveðið nánar á um einstök atriði í reglugerð, svo sem vátryggingarfjárhæðir.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumnvarp til laga um breytingu á lögum nr. 43/2003,
um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lagaákvæðum um tryggingar vegna starfsemi björgunarsveita. Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.