Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 550. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 828  —  550. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    B-liður 2. mgr. 70. gr. laganna orðast svo: að sýnt sé fram á að öflun stofnfjárhlutarins sé liður í eflingu samvinnu milli sparisjóða í landinu eða sparisjóða innan Evrópska efnahagssvæðisins.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 76. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Í stjórn sjálfseignarstofnunar skv. 1. mgr. skulu eiga sæti tveir fulltrúar sveitarfélags þar sem sparisjóðurinn á heimilisfesti við breytingu í hlutafélag, tveir fulltrúar tilnefndir af ráðherra og einn fulltrúi tilnefndur af samtökum sparisjóða.
     b.      3. mgr. fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er gerð tillaga að tveimur breytingum á lagaákvæðum um sparisjóði.
    Í 1. gr. er tekið tillit til athugasemdar sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur gert við lagaákvæði um sparisjóði. Í framhaldi af athugun ESA á fjármálalöggjöf í Noregi og Liechtenstein á árunum 2001–2002 hóf stofnunin skoðun sína á íslensku fjármálalöggjöfinni. Á síðasta ári óskaði ESA skýringa á nokkrum lagaákvæðum um sparisjóði sem stofnunin taldi í bráðabirgðaáliti sínu að brytu í bága við ákvæði EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns. Þetta eru ákvæði um 5% hámark atkvæðisréttar í sparisjóði, bæði í hefðbundnum sparisjóði og hlutafélagssparisjóði, og ákvæði um takmörkun á framsali stofnfjár. Þá taldi stofnunin að það samrýmdist ekki EES-samningnum að sparisjóðsstjórn væri ekki heimilt að samþykkja framsal nema sýnt væri fram á að öflun stofnfjárhlutarins væri liður í eflingu samvinnu milli sparisjóða í landinu. Með því væri verið að mismuna sparisjóðum á Íslandi og sparisjóðum á EES-svæðinu.
    Viðskiptaráðuneytið hefur gefið ESA skýringar á þessum lagaákvæðum. Ráðuneytið telur að bráðabirgðaálit ESA standist ekki nánari skoðun sakir ólíkrar félagaréttarlegrar stöðu stofnfjárhluta og hlutabréfa. Ráðuneytið gerir jafnframt grein fyrir að ákvæði um beinar fjárfestingar og virka eignarhluti í tilskipunum ESB styðji túlkun ráðuneytisins. Þá bendir ráðuneytið á ákvæði í löggjöf um sparisjóði í öðrum EES-ríkjum þar sem takmarkanir á viðskiptum með bréf sem sparisjóðir gefa út séu meiri en hér á landi. Ráðuneytið tekur hins vegar undir að rétt sé að heimilt sé að samþykkja framsal stofnfjárhluta ef öflun hlutarins er liður í eflingu sparisjóða innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Athugun ESA er ekki komin langt á veg og ekki liggur fyrir hvort stofnunin muni taka skýringar ráðuneytisins gildar. ESA hefur ekki gefið út formlega tilkynningu vegna þessa máls (letter of formal notice).
    Í 2. gr. er kveðið á um hverjir skuli skipa stjórn sjálfseignarstofnunar sem orðið hefur til við hlutafélagavæðingu sparisjóðs. Í núgildandi ákvæðum er mælt fyrir um að í stjórn slíkrar sjálfseignarstofnunar skuli minnst eiga sæti fimm menn úr fulltrúaráði stofnunarinnar. Meginreglan í gildandi lögum er sú að í fulltrúaráði stofnunarinnar sitja stofnfjáreigendur sparisjóðs, sbr. 3. mgr. 76. gr. laganna. Reynslan hefur hins vegar sýnt að hagsmunaárekstrar geta orðið á milli stofnfjáreigenda annars vegar og sjálfseignarstofnunarinnar hins vegar og að óheppilegt sé að stofnfjáreigendur taki bæði ákvörðun fyrir sína hönd og hönd sjálfseignarstofnunarinnar, t.d. um sölu á hlutabréfum stofnfjáreigenda annars vegar og sjálfseignarstofnunarinnar hins vegar. Frumvarp þetta er því lagt fram til að tryggja að stjórn sjálfseignarstofnunarinnar verði óháð stofnfjáreigendum í viðkomandi sparisjóði.
    Sparisjóðirnir þjóna að meginstefnu til þörfum staðbundins markaðar. Þannig þjóna þeir ekki síst hinum dreifðu byggðum landsins. Einnig er það einn af grunneðlisþáttum sparisjóða að stuðla að vexti á sínu starfssvæði og vinna að menningar- og líknarmálum á þeim svæðum. Í ljósi þessa er lagt til að stjórn sjálfseignarstofnunar verði skipuð tveimur fulltrúum sveitarfélags þar sem sparisjóðurinn á heimilisfesti við breytingu í hlutafélag.
    Þá er lagt til að viðskiptaráðherra tilnefndi tvo menn til setu í stjórn sjálfseignarstofnunar. Er það gert í ljósi þeirra miklu fjármuna sem sjálfseignarstofnunin hefur mögulega forræði fyrir og til að tryggja eftirlit með starfrækslu stofnunarinnar, sbr. X. og XII. kafla laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, nr. 33/1999.
    Loks er lagt til að samtök sparisjóða tilnefni einn fulltrúa í stjórn sjálfseignarstofnunar til að tryggja tengsl á milli sjálfseignarstofnunarinnar við heildarsamstarf sparisjóða í landinu.
    Þá er í frumvarpinu lagt til að ákvæði gildandi laga um fulltrúaráð sjálfseignarstofnunar falli brott. Ekki er talin þörf á að fulltrúaráð starfi í sjálfseignarstofnun þegar skilið hefur verið á milli stofnfjáreigenda og stjórn sjálfseignarstofnunar og þegar leiðir viðskiptaráðherra til að hafa eftirlit með stofnuninni hafa verið efldar með því að hann tilnefni tvo fulltrúa í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002,


um fjármálafyrirtæki.


    Með frumvarpinu er lögð til breyting á því hverjir skipa stjórn sjálfseignarstofnunar sem orðið hefur til við breytingu á rekstrarformi sparisjóðs í hlutafélag. Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.