Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 567. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 857  —  567. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2003.

1. Inngangur.
    Alþjóðaþingmannasambandið (IPU) var stofnað árið 1889 og er hlutverk þess að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum, hlúa að samstarfi þeirra og auka skilning á milli þjóða. Aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu eiga nú 138 þing en aukaaðilar að sambandinu eru fimm svæðisbundin þingmannasamtök. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf en það hefur jafnframt skrifstofu í New York. IPU fjallar um alþjóðamál og vinnur að framgangi mannréttindamála sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. IPU hefur áheyrnaraðild að Sameinuðu þjóðunum og rétt til að dreifa skjölum sambandsins á allsherjarþinginu.
    Starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins er fjármögnuð með framlögum frá aðildarþingum þess. Þing IPU taka pólitískar ákvarðanir og álykta um alþjóðamál. Ráð IPU, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef í sendinefnd eru ekki fulltrúar beggja kynja), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Sautján manna framkvæmdastjórn hefur m.a. umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess.
    Eftir lagabreytingar sem samþykktar voru í apríl 2003 á 108. þingi eru nú þrjár fastanefndir starfandi innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     I.      nefnd um friðar- og öryggismál,
     II.      nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál,
     III.      nefnd um lýðræði og mannréttindamál.
    Þá eru starfandi eftirfarandi nefndir og vinnuhópar: nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhópur um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, samhæfingarnefnd um öryggismál og samstarf á Miðjarðarhafssvæðinu, undirbúningsnefnd kvennafundar IPU, vinnuhópur um samstarf kynjanna og stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna IPU.
    Alþjóðaþingmannasambandið heldur tvö þing á ári, eitt stærra þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins og eitt minna þing að hausti sem er haldið í Genf nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess stendur sambandið fyrir nokkrum alþjóðlegum ráðstefnum og málstofum á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis. Alþjóðaþingmannasambandið gefur reglulega út bækur, tímarit, handbækur og skýrslur sem nálgast má á skrifstofu Íslandsdeildarinnar og á vefsíðu IPU, www.ipu.org.
    
2.     Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Íslandsdeildin var fram að kosningum skipuð þeim Einari K. Guðfinnssyni, þingflokki sjálfstæðismanna, formanni, Jóhönnu Sigurðardóttur, þingflokki Samfylkingarinnar, varaformanni, og Ástu Möller, þingflokki sjálfstæðismanna. Varamenn Íslandsdeildar voru Guðjón Guðmundsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Gísli S. Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Sigríður Ingvarsdóttir, þingflokki sjálfstæðismanna. Í kjölfar alþingiskosninga var á 129. þingi kjörin ný Íslandsdeild 27. maí. Í henni sitja Einar K. Guðfinnsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Kristján L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar, og Hjálmar Árnason, þingflokki framsóknarmanna. Íslandsdeildin kaus Einar K. Guðfinnsson sem formann og Hjálmar Árnason varaformann. Varamenn eru Bjarni Benediktsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Rannveig Guðmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Stefánsson, þingflokki framsóknarmanna. Íslandsdeildin var endurkjörin 1. október í upphafi 130. þings. Ritari Íslandsdeildar var Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs.
    Íslandsdeildin hélt fjóra fundi á árinu. Það sem hæst bar á árinu var samvinna Íslandsdeildar til að tryggja kjör Einars K. Guðfinnssonar sem formanns II. nefndar IPU um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál. Jafnframt kom Íslandsdeildin því til leiðar að Alþingi styrkti námstefnu um fjárlagagerð sem haldin var í Sri Lanka fyrir þingmenn og embættismenn þinga í Suðvestur-Asíu. Verkefnið var unnið í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar, en forseti Alþingis samþykkti í upphafi árs að styðja verkefnið að beiðni formanns Íslandsdeildar. Þing sem litla reynslu hafa af fjárlagavinnu og lýðræðislegum vinnubrögðum fengu á námstefnunni aðstoð og leiðsögn. Styrkurinn var tekinn af fjárveitingu til alþjóðastarfs Alþingis og segja má að Alþingi hafi þarna lagt nokkuð af mörkum til þróunarstarfs.

3.     Störf og ályktanir 108. þings IPU.
    108. þing IPU var haldið í Santíagó í Chile 6.–11. apríl 2003. Íslandsdeildin átti erfitt með að sækja þingið vegna yfirstandandi kosningabaráttu og var sendinefndin því ekki fullskipuð. Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu þingið Sigríður Ingvarsdóttir, Karl V. Matthíasson (í forföllum aðal- og varamanns) og Belinda Theriault, ritari Íslandsdeildar.
    Við setningu þingsins fluttu eftirtaldir ávörp: Andrés Zaldivar Larrain, forseti efri deildar þings Chile, J.A. Ocampo, fulltrúi aðalritara og efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir latnesku Ameríku og Karíbahaf, S. Páez Verdugo, forseti IPU-ráðsins, og Ricardo Lagos Escobar, forseti Chile.
    Að venju voru á þingfundinum almennar umræður um „stjórnmálalegt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum“. Sigríður Ingvarsdóttir og Karl V. Matthíasson tóku bæði til máls. Stríðið í Írak var að vonum helsta umræðuefni þingmanna í almennum umræðum. Sigríður ræddi stríðið út frá þróun mála í Írak síðustu tólf ár og lýsti Saddam Hussein sem samviskulausum harðstjóra sem virti mannslíf einskis og væri ógn við heimsfriðinn. Hún sagði Ísland ekki aðila að stríðinu, en að landið styddi sína nánustu bandamenn í viðleitni þeirra til að auka öryggi heimsins og hefði heitið aðstoð eftir stríð. Hún lýsti samúð með saklausum borgurum í Írak og lagði áherslu á öflugt uppbyggingar- og mannúðarstarf að stríðinu loknu og jafnframt á ábyrgð öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna við að tryggja friðinn. Karl ræddi sýn sína á betri heim og lagði áherslu á náungakærleik og lítillæti sem lýsti sér í virðingu fyrir trúarbrögðum og menningu annarra. Hann vonaðist eftir framtíð þar sem öll börn heimsins gætu lifað við réttlæti og jöfnuð, og sagði það á ábyrgð þingmanna að gera verulegar breytingar á núverandi heimsmynd. Hann útskýrði að íslenskir stjórnarandstöðuflokkar væru á móti stríðinu í Írak og stefnu íslenskra stjórnvalda í því máli og sagði að skoðanakannanir sýndu að almenningur í landinu væri sama sinnis. Hann lagði áherslu á nauðsyn þess að Sameinuðu þjóðirnar kæmu að uppbyggingu Íraks að stríði loknu.
    Þingið afgreiddi ályktanir um fjögur mál. Tvö sérstök málefni höfðu að venju verið undirbúin til umræðu á þinginu og voru þau rædd í málefnanefndum. Í nefnd um lagaleg málefni og mannréttindamál var rætt um hlutverk þjóðþinga við að styrkja lýðræðislegar stofnanir í sundurleitum heimi. Í lokaályktun eru öll þing m.a. hvött til að vinna að lýðræði sem grundvallast á frjálsum kosningum, til að auka tvíhliða og fjölþjóðasamstarf þinga, taka virkan þátt í umræðum um alþjóðamál og hafa strangt eftirlit með framkvæmdarvaldinu í alþjóðlegum samningaviðræðum.
    Í nefnd um efnahags- og félagsmál var rætt um alþjóðlegt samstarf til að takast á við náttúruhamfarir sem hafa áhrif yfir landamæri. Í lokaályktun er hvatt til margvíslegra aðgerða til að unnt verði að bregðast við náttúruhamförum og auka alþjóðlegt samstarf á þessu sviði, t.d. við fjármögnun aðstoðar, samhæfingu aðgerða og áhættustjórn.
    Samþykkt var á fyrsta degi þingsins að hafa utandagskrárumræðu í nefnd um stjórnmál og öryggis- og afvopnunarmál um mikilvægi þess að hefta útbreiðslu kjarna-, efna- og lífefnavopna sem og eldflauga og að koma í veg fyrir notkun hryðjuverkamanna á slíkum vopnum. Var ályktun um málið samþykkt á þinginu þar sem ríki eru hvött til aðildar að alþjóðlegum samningum á þessum sviðum. M.a. er farið fram á að ríki sem hafa ákveðið eða íhuga að segja sig frá samningnum gegn útbreiðslu kjarnavopna falli frá slíkri ákvörðun og virði skuldbindingar sínar gagnvart alþjóðasamfélaginu. Jafnframt er farið fram á að þau ríki sem ekki eiga aðild að samningnum gerist aðilar án tafar og fyrirvaralaust. Þá eru þingmenn hvattir til margvíslegra aðgerða til að tryggja að ríki taki skuldbindingar sínar um að hefta útbreiðslu gjöreyðingarvopna alvarlega.
    Þá var samþykkt að leggja fram tillögu að neyðarályktun um nauðsyn þess að binda enda á stríðið í Írak og koma á friði: hlutverk Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaþingmannasambandsins. Ályktunin var afgreidd degi fyrr en aðrar ályktanir þingsins, sem var mjög óvanalegt, en ástæðan virtist sú að sumir óttuðust að stríðinu mundi ljúka áður en Alþjóðaþingmannasambandið næði að álykta um það! Öðrum þótti þessi framganga með ólíkindum og töldu um skrípaleik að ræða, enda vel hægt að álykta um ástandið í Írak hvort sem stríðinu væri formlega lokið eða ekki. Ef stríðinu lyki áður en ályktun væri samþykkt bæri að fagna því. Flýtimeðferðin fékk þó almennan stuðning, enda studd dyggilega af framkvæmdastjóra IPU. Í ályktuninni er fjallað um nauðsyn þess að binda enda á stríðið og lögð áhersla á að farið sé að lögum í alþjóðasamskiptum. Þjóðir heims voru m.a. hvattar til að veita Írökum mannúðaraðstoð og lögð áhersla á að Sameinuðu þjóðirnar gegni lykilhlutverki bæði á þessu sviði sem og í endurbyggingu landsins. Farið var fram á að öryggisráðið aflétti efnahagsþvingunum sem fyrst og lýst yfir að IPU væri tilbúið til að veita aðstoð við uppbyggingu lýðræðis í landinu.
    Þingið samþykkti viðamiklar breytingar á lögum IPU að tillögu ráðsins, eftir ítarlegar umræður sem höfðu staðið í nokkur ár. Meðal þeirra breytinga sem gerðar eru á starfi IPU eru eftirfarandi: Þingin verða eftir sem áður tvö á ári, en haustþingið verður mun minna í sniðum og verður haldið í Genf nema annað sé sérstaklega ákveðið. Ekki verða lengur leyfðar utandagskrárumræður á þinginu (supplementary item) en áfram verður hægt að taka fyrir eina neyðarályktun (emergency item) á hverju þingi. Hvert ríki hefur átt tvö sæti í ráði IPU fram til þessa, en nú fær hvert aðildarríki þrjú sæti, nema í þeim tilvikum sem sendinefnd samanstendur einungis af öðru kyninu. Breytingar eru gerðar á skipulagi nefndastarfs. Í hinni nýju nefndaskipan IPU eru þrjár fastanefndir: 1. nefnd um friðar- og öryggismál, 2. nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál og 3. nefnd um lýðræði og mannréttindamál. Samkvæmt nýjum starfsaðferðum ræða nefndirnar fyrir fram ákveðið þema og eru sérstakir skýrsluhöfundar tilnefndir úr hópi nefndarmanna til að undirbúa umræðurnar með skýrslu og ályktunardrögum.
    Fjölgað er í framkvæmdastjórn IPU úr tólf í sautján. Forseti ráðsins verður forseti IPU (það embætti var ekki til áður). Ef sendinefnd á þingi samanstendur einungis af öðru kyninu fækkar fulltrúum sjálfkrafa um einn og atkvæðavægi sendinefndarinnar minnkar lítillega. Einungis fulltrúar frá ríkjum þar sem bæði kynin mega kjósa og bjóða sig fram hafa rétt til setu í framkvæmdastjórn IPU.

4.     Störf og ályktanir 109. þings IPU.
    Þingið var haldið 1.–3. október í Genf. Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu þingið Einar K. Guðfinnsson formaður og Kristján L. Möller, auk Stígs Stefánssonar, setts ritara Íslandsdeildar. Alls sóttu sendinefndir frá 122 þjóðþingum þingið.
    Þingið í Genf var hið fyrsta eftir viðamiklar breytingar á lögum IPU og komu hinar nýju nefndir saman í fyrsta skipti á þinginu. Kristján L. Möller sótti fundi nefndar um frið og alþjóðleg öryggismál. Þema nefndarinnar var hlutverk þjóðþinga við að aðstoða fjölþjóðlegar stofnanir við að tryggja öryggi og frið. Fyrir fundum nefndarinnar lágu skýrsla og ályktunardrög þingmannanna S. Masri frá Jórdaníu og C. Zöpel frá Þýskalandi auk fjölda breytingartillagna við drögin. Í ályktunardrögunum var m.a. hvatt til þess að koma á fót nýjum nefndum og vinnuhópum til þess að auka vægi þingmanna við alþjóðlegar ákvarðanir í öryggismálum. Kristján L. Möller lagði fram breytingartillögu Íslands sem var svipuð tillögum Norðmanna og Svía um að sleppa ákvæðum um stofnun nýrra nefnda og hópa. Ástæða þess er að stofnanaflóran í öryggismálum er næg fyrir og hlutverk IPU er alþjóðlegt þingræðislegt eftirlit en ekki ný stofnanamyndun. Var þessu breytt þegar ályktunardrögin voru afgreidd úr nefndinni til þingsins. Í lokaályktun þingsins er m.a. fjallað sérstaklega um hryðjuverkastarfsemi og hryðjuverk fordæmd skilyrðislaust. Jafnframt er fjallað um leiðir til að auka öryggi í heiminum og m.a. hvatt til undirritunar og fullgildingar á ýmsum alþjóðlegum samningum, t.d. Rómarsamþykkt um alþjóðlegan sakadómstól, viðauka við Genfarsáttmálana og samningum gegn hryðjuverkum.
    Einar K. Guðfinnsson er formaður nefndarinnar um sjálfbæra þróun, efnahagsmál og viðskipti og stjórnaði hann starfi hennar. Nefndin kom alls fjórum sinnum saman á þinginu. Þema fundanna voru hnattræn almannagæði og lögðu þingmennirnir D. Oliver frá Kanada og E. Matthei frá Chile fram skýrslu og ályktunardrög. Mikil umræða spannst um drögin og fluttu fulltrúar 48 þjóðríkja alls 50 erindi um þau. Nokkrar breytingartillögur við ályktunardrögin lágu fyrir fundinum og var sérstakur vinnuhópur skipaður að frumkvæði Einars til þess að fara vandlega yfir þær og útbúa ný ályktunardrög. Þau voru lögð fyrir lokafund nefndarinnar og afgreidd þar til þingsins. Lokaályktun þingsins hvetur m.a. til þess að ríkisstjórnir, þing, alþjóðastofnanir og góðgerðarsamtök tryggi að fjármagni sé beint til fátækustu ríkja heims, að hnattræn almannagæði verði betur skilgreind og að mengunarskattar og önnur úrræði þurfi til að framfylgja þeirri grundvallarreglu að enginn geti grætt á hnattrænum almannagæðum á kostnað annarra.
    Nefnd um lýðræði og mannréttindi fjallaði um hvernig nýta mætti upplýsingatæknina til að stuðla að góðri stjórnsýslu og auknu lýðræði á tímum hnattvæðingar og afgreiddi þingið ályktun á grundvelli þeirrar umræðu. Í henni var m.a. hvatt til þess að þjóðþing fylgdust með þróun rafrænnar stjórnsýslu til að tryggja lýðræði og gegnsæi og að fátæk ríki fái sérstaka aðstoð við að auka tæknigetu sína.
    Neyðarályktun var tekin fyrir á þinginu um þingræðislegan stuðning við framkvæmd vegvísis til friðar til þess að enda átök Palestínumanna og Ísraela og tryggja frið og réttlæti í Miðausturlöndum. Var nefnd IPU um Miðausturlönd falið að vinna ályktunardrög sem seinna voru samþykkt á þinginu, þó með fyrirvörum frá nokkrum þjóðum eða einstökum þingmönnum, annaðhvort við einstakar greinar eða ályktunina í heild. Í ályktuninni er m.a. Ísrael hvatt til að hætta við landnemabyggðir á hernumdu svæðunum og uppsetningu múrs og girðinga sem hafa lamandi áhrif á palestínskt þjóðfélag og þess er krafist að palestínsk stjórnvöld beiti öllum nauðsynlegum úrræðum til að hindra árásir á saklausa borgara.
    Einn fundur var haldinn í framkvæmdastjórn IPU (Executive Committee) um framkvæmd þingsins og önnur skyld mál og sótti Einar K. Guðfinnsson hann sem formaður II. nefndar IPU. Rætt var um lausar stöður í framkvæmdastjórn IPU en þær tilheyra svæðahópunum svokölluðu. Svæðahóparnir byggjast að mestu á landfræðilegri skiptingu í heimsálfur nema Tólf-plús hópurinn þar sem vestræn lýðræðisríki auk Eyjaálfu skipa sér saman í hóp. Nokkur umræða fór fram um það hvort hóparnir ættu að tilnefna beint í stöðurnar eða hvort þingið ætti að kjósa á milli frambjóðenda ef ekki næst samhljóða niðurstaða í landahópunum en slíkt fyrirkomulag hefur verið við lýði. Varð ofan á að fara eftir gamla kerfinu en að skoða gaumgæfilega hvort æskilegt sé að breyta því fyrir næsta þing. Nokkuð var rætt um sérstaka nefnd um mannréttindi þingmanna sem starfar innan IPU en illa hefur gengið að kalla nefndina saman og hefur hún því verið óvirk að undanförnu. Einar kvað það ótækt þar sem fjöldi þingmanna í löndum sem skammt eru á veg komin í lýðræðismálum treystu á störf nefndarinnar, það eftirlit, þrýsting og vernd sem hún getur veitt gegn stjórnvöldum sem stunda pólitískar ofsóknir gegn eigin þjóðþingum eða hluta þeirra.

5.     Svæðisbundið samstarf innan IPU.
5.1.     Tólfplús-hópurinn.
    Venja er að daginn fyrir upphaf þings hittist svokallaður Tólfplús-hópur, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja. Hópurinn hittist síðan á fundum flesta morgna meðan þing stendur til að fara yfir öll helstu mál þingsins og samræma afstöðu eins og hægt er. Tveir þingmenn frá aðildarríkjum hópsins hafa seturétt á fundunum.
    Í tengslum við 108. þing einbeitti íslenska sendinefndin sér innan Tólfplús-hópsins að framboði Einars K. Guðfinnssonar til formennsku í einni af fastanefndum IPU, nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, og vann ötullega að kjöri hans. Þar var samkeppnin hörð því ljóst var að hópurinn fengi einungis formennsku í einni af hinum þremur nýju nefndum. Þannig þurfti fyrst að tryggja að Tólfplús-hópurinn legði áherslu á formennsku í þessari tilteknu nefnd í samningum við aðra svæðishópa. Til viðbótar þurfti Einar að etja kappi við mótframbjóðendur innan hópsins frá Kanada og Ástralíu, og fékk hann yfirgnæfandi fylgi þótt hann hefði ekki tök á að vera sjálfur á staðnum, enda vel kynntur innan IPU. Þegar svæðishóparnir voru búnir að ganga frá skiptingu embætta og Einar var formlega orðinn frambjóðandi Tólfplús-hópsins til formennsku í nefndinni var hann sjálfkjörinn í embætti á ráðsfundinum.
    Á 109. þingi var mikil umræða innan Tólfplús-hópsins um vandamál tengd fyrirhuguðu þinghaldi í London vorið 2004, eftir að Bretar lýstu sig bundna af ákvörðun ESB um ferðabann gagnvart um 60 nafngreindum einstaklingum úr stjórnkerfi Zimbabwe. Vandamálið fólst í því að þau ríki sem halda IPU-þing skrifa undir bindandi samning þess efnis að þau veiti sendinefndum allra aðildarríkja vegabréfsáritun til þess að sækja þingin og það er ákvörðun hvers og eins þjóðþings hvernig sendinefnd þess er saman sett. Bresk stjórnvöld sem lagt höfðu mikla vinnu og fjármagn í undirbúning þingsins í London gátu ekki skrifað undir þess háttar samning þar sem nokkrir þeirra sem ferðabann ESB tekur til sitja á þingi Zimbabwe og því ekki hægt að leyfa þeim að ferðast til Bretlands kysu Zimbabwemenn að tilnefna þá í sendinefnd til IPU-þingsins.
    Einar K. Guðfinnsson lýsti yfir stuðningi við þinghald í London og varaði við afleiðingum þess ef öll ESB- og EES-löndin yrðu útilokuð frá því að geta hýst þing IPU. Flestir ræðumenn tóku í svipaðan streng og var skipuð viðræðunefnd til þess að leita lausnar á málinu með viðræðum við Afríkuhópinn sem lagt hafði áherslu á ófrávíkjanlega hefð IPU fyrir að þinghaldari skuldbindi sig til að taka á móti sendinefndum aðildarríkjanna eins og þau kjósa að setja þær saman. Viðræðurnar við Afríkuhópinn báru ekki árangur en Bretar nutu áfram stuðnings flestra Tólfplús-ríkja til þinghalds í London. Frekar er fjallað um þetta mál í 6. kafla.

5.2.     Norrænt samstarf.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Formaður og ritari Íslandsdeildar sóttu fundina. Norðurlönd skiptast á að fara með stjórn norræna hópsins og voru Svíar í forustu á árinu. Fyrri fundurinn var haldinn í Stokkhólmi 21. mars 2003 og sá síðari í Nösund 18.–19. september 2003.

6.    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU Council).
6.1.    Ráðsfundir í tengslum við 108. þing.
    Ráð IPU kom þrívegis saman á 108. þingi og afgreiddi fjölda mála, fyrir utan lagabreytingartillögurnar. Inngöngubeiðni í IPU lá fyrir frá Sádí-Arabíu og jafnframt óskaði Pakistan eftir endurinngöngu og voru báðar beiðnirnar samþykktar. Þing Mið-Afríkulýðveldisins hafði verið leyst upp eftir valdarán í landinu og var því samþykkt að reka það úr IPU. Ákveðið var í ljósi stöðunnar í alþjóðamálum að bíða þar til í haust með umræðu um hvort reka ætti úr sambandinu þau ríki sem hafa ekki greitt árgjöld til margra ára, þar á meðal Bandaríkin. Rætt var um vígslu nýrra höfuðstöðva IPU sem fyrirhuguð var um mitt ár, en sambandið hefur eignast glæsilega byggingu í Genf. Við umfjöllun um fjármál IPU kom fram að vinnubrögð hafa verið bætt og fjárhagsstaðan er betri en mörg undanfarin ár. Farið var yfir helstu verkefni sem IPU var með í vinnslu á árinu. Þegar rætt var um námstefnu um fjárlagagerð sem halda á í Sri Lanka fyrir þingmenn og embættismenn þinga í Suðvestur-Asíu var Alþingi sérstaklega þakkað fyrir fjárstuðning við verkefnið. Þá var rætt lítillega um næsta fund þingforseta IPU-ríkja sem fyrirhugaður er 2005.
    Einar K. Guðfinnsson var á ráðsfundi í lok þingsins kjörinn formaður hinnar nýju nefndar IPU um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, en um framboð hans verður fjallað í kafla um svæðisbundið samstarf. Kosið er til eins árs í senn.

6.2.    Ráðsfundir í tengslum við 109. þing.
    Á 109. þingi samþykkti ráð IPU endurinngöngu Barein í samtökin. Írak og Gíneu-Bissá var vikið úr IPU enda engin þing starfandi í löndunum tveimur um þessar mundir. Einnig var Bandaríkjunum og nokkrum öðrum ríkjum vikið úr IPU fyrir að hafa ekki greitt árgjöld til margra ára. Ráðið samþykkti franska tillögu þar sem hvatt var til að kallað yrði saman stjórnlagaþing í Írak þar sem fulltrúar frá öllum lögum þjóðfélagsins kæmu að því að semja landinu nýja stjórnarskrá.
    Fyrirferðarmesta málið innan ráðsins á 109. þingi var fundarstaður næsta þings. Á ráðsfundi lagði framkvæmdastjórinn Anders Johnsson fyrir hönd framkvæmdastjórnar samtakanna til að þingið yrði fært frá London. Fulltrúi Ástralíu lagði fram móttillögu um að ráðið staðfesti fyrri ákvörðun um að halda þingið í London og studdu Írar þá tillögu. Fulltrúar Breta ítrekuðu að þjóðþing Zimbabwe væri velkomið að senda sendinefnd á þingið í London en þó að því tilskildu að þeir einstaklingar sem tilgreindir eru í ferðabanni ESB yrðu ekki í sendinefndinni. Heitar umræður sköpuðust um málið og var bæði tekist á um hvort Bretar brytu gegn samþykktum IPU með því að halda fast við ferðabannið gegn Zimbabwe og hvort atkvæðagreiðsla um að staðfesta London sem fundarstað væri þannig ólögleg. Eftir nokkurt uppnám ákvað forseti IPU, Sergio Páez Verdugo, að leyfa atkvæðagreiðslu um tillögu Ástrala um að staðfesta London sem þingstað. Var tillagan felld með 132 atkvæðum gegn 87 en 27 sátu hjá. Íslenska sendinefndin studdi tillöguna eins og flest ríki Tólfplús-hópsins.

7.     Aðrir fundir.
    Einar K. Guðfinnsson sótti tvo fundi á vegum IPU um málefni WTO á árinu, en þau málefni hafa sérstaklega verið til umfjöllunar í nefnd þeirri sem hann stýrir innan IPU.

8.     Starf IPU árið 2004.
8.1. Fundir.
    110. þing sambandsins verður í Mexíkóborg í apríl 2004. Þar verða eftirfarandi mál á dagskrá:
I. nefnd:    Alþjóðleg sáttagjörð, aukinn stöðugleiki á átakasvæðum og aðstoð við enduruppbyggingu að loknum átökum.
II. nefnd:    Að stuðla að sanngirni í alþjóðlegum viðskiptum með landbúnaðarvörur og nauðsynleg lyf.
III. nefnd:    Að auka þingræðislegt lýðræði til að vernda mannréttindi og stuðla að sáttum milli þjóðflokka og samvinnu milli þjóða.
    111. þing IPU verður haldið í Genf og verður dagskrá þess ákveðin í Mexíkó.
    Að venju mun IPU jafnframt standa fyrir ráðstefnum og minni fundum um ákveðin málefni á árinu.
    
8.2.    Hvert stefnir í starfi IPU?
    Starf IPU mun þróast áfram í samræmi við þær breytingar á reglum sambandsins sem urðu á árinu. Verða þær vonandi til þess að starf IPU verði skilvirkara og markvissara. Sambandinu eru þó takmörk sett og þarf það að sníða sér stakk eftir vexti.
    Alþjóðaþingmannasambandið er vettvangur þingmanna alls staðar úr heiminum. Til þess að fá aðild að IPU þarf einungis að sýna fram að þjóðþing sé starfandi í sjálfstæðu ríki. Engar kröfur eru t.d. gerðar um lýðræðislegar kosningar. Þannig er forsendur þingmanna fyrir veru í sambandinu æði misjafnar. Eitt mál sem kom upp á árinu sýnir í hnotskurn vanda sambandsins, en þar sem Bretland var ekki tilbúið að sniðganga samþykkt ESB og hleypa glæpahyski frá Zimbabwe inn í landið var ákveðið að færa næsta þing til annars ríkis.
    Segja má að Alþjóðaþingmannasambandið sé að mörgu leyti ólíkt öðrum alþjóðastofnunum sem Alþingi á aðild að, en því svipar aftur á móti nokkuð til allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Fulltrúar á þinginu hafa margir hverjir takmarkað lýðræðislegt umboð og hlýtur það að lita starf sambandsins, þó að sumir vilji láta sem svo sé ekki. Að því leyti hafa ályktanir þess, sérstaklega um viðkvæm pólitísk deilumál, takmarkað gildi út á við. Þessi áhersla á að allir geti verið með veikir sambandið að vissu leyti, en það styrkir starfið á öðrum sviðum. Námstefnur IPU og námskeið fyrir þing sem eru að þróast í lýðræðisátt eru dæmi um verkefni sem henta sambandinu vel. Handbækur og skýrslur sem stuðla að auknu lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum eru frekari dæmi um þarft starf sambandsins. Nefndin sem fjallar um mannréttindabrot gagnvart þingmönnum um víða veröld er enn eitt dæmi um mjög gott starf af hálfu IPU. Þingmenn einræðisríkja þar sem virðingu skortir fyrir grundvallarmannréttindum hafa eflaust gott af því að komast í snertingu við önnur gildi og aðrar skoðanir. Það er almennt hollt fyrir þingmenn að kynnast öðrum menningarheimum en sínum eigin og ólíkum viðhorfum til heimsmála. Þannig stuðlar málefnavinna á vegum nefnda sambandsins að skoðanaskiptum og samvinnu þingmanna. IPU heldur fundi í tengslum við málefnaráðstefnur Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana og hvetur þjóðþing til að taka virkan þátt í stefnumótun heima fyrir og auka þannig lýðræðislega umfjöllun um gerð alþjóðasamninga. Þá hefur IPU verið vettvangur þar sem þingmenn frá ríkjum sem eiga í deilum geta sest niður og rætt saman. Á öllum þessum sviðum sannar IPU gildi sitt. En því miður vilja ýmsir innan IPU að sambandið láti meira til sín taka í alþjóðamálum þannig að framkvæmdastjóri eða pólitísk stjórn sambandsins geti talað fyrir hönd allra þinga heims og fjallað í þeirra nafni um alls konar pólitísk mál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Slíkur metnaður er út í hött og mun Íslandsdeildin halda áfram að berjast gegn tilraunum til að ýta IPU út á þá braut.
    Í undirbúningi er nú annar fundur þingforseta IPU-ríkja sem haldinn verður árið 2005. Forsetafundurinn mun einmitt fjalla um hlutverk IPU gagnvart Sameinuðu þjóðunum og er því mikilvægt að fylgjast vel með starfi þess undirbúningshóps sem settur hefur verið á laggirnar.

9.     Ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2003.
9.1.     Ályktanir 108. þings IPU.
          Hlutverk þjóðþinga við að styrkja lýðræðislegar stofnanir í sundurleitum heimi.
          Alþjóðlegt samstarf til að takast á við náttúruhamfarir sem hafa áhrif yfir landamæri.
          Mikilvægi þess að hefta útbreiðslu kjarna-, efna- og lífefnavopna sem og eldflauga og að koma í veg fyrir notkun hryðjuverkamanna á slíkum vopnum.
          Nauðsyn þess að binda enda á stríðið í Írak og koma á friði: hlutverk Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaþingmannasambandsins.
    
9.2.    Ályktanir 109. þings IPU.
          Hlutverk þjóðþinga við að aðstoða fjölþjóðlegar stofnanir við að tryggja öryggi og frið.
          Hnattræn almannagæði: nýtt verkefni fyrir þjóðþing.
          Nýting upplýsingatækninnar til að stuðla að góðri stjórnsýslu og auknu lýðræði.
          Þingræðislegur stuðningur við vegvísinn til friðar til þess að binda enda á átök Palestínumanna og Ísraela og tryggja frið og réttlæti í Miðausturlöndum.

Alþingi, 28. jan. 2004.



Einar K. Guðfinnsson,


form.


Kristján L. Möller.


Hjálmar Árnason,


varaform.