Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 568. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 858  —  568. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um lögfræðiaðstoð við efnalítið fólk.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að koma á opinberri lögfræðiaðstoð með það að markmiði að tryggja að efnalítið fólk geti leitað réttar síns. Aðstoðin taki til lausnar á lögfræðilegum álitaefnum og til mála sem lögð eru fyrir dómstóla og falla ekki undir ákvæði um endurgjaldslausa lögfræðiaðstoð vegna gjafsóknar.
    Dómsmálaráðherra leggi fram frumvarp þar að lútandi eigi síðar en á haustþingi 2004.

Greinargerð.


    Megintilgangur þessarar tillögu er að tryggja að réttur þeirra sem hafa þörf fyrir lögfræðiaðstoð verði ekki fyrir borð borinn sökum fátæktar eða vanefna.
    Á síðasta áratug hafa þrívegis verið lögð fram stjórnarfrumvörp um opinbera lögfræðiaðstoð sem greidd yrði úr ríkissjóði að hluta eða að fullu til að tryggja að réttindi einstaklinga glatist ekki sökum lítilla efna. Síðast var slíkt frumvarp lagt fram á 118. löggjafarþingi en áður á 112. og 113. löggjafarþingi. Einnig má nefna að árið 1974 var lögð fram tillaga á Alþingi frá þingmönnum um sama efni sem ekki náði fram að ganga. Af umræðum um fyrrgreind stjórnarfrumvörp á sínum tíma er ljóst að mikill vilji var fyrir framgangi málsins og má í því sambandi nefna að á 113. löggjafarþingi var málið afgreitt samhljóða úr allsherjarnefnd en náði þó ekki fram að ganga.
    Full ástæða er til að láta á nýjan leik reyna á framgang þessa máls. Samfélagið er sífellt að verða flóknara og tæknivæddara og miklar breytingar hafa orðið á réttindum og skyldum fólks, m.a. með aukinni alþjóðavæðingu. Oft er það því ekki á færi hins almenna borgara að fylgjast með réttindum sínum eða leita réttar síns nema með lögfræðilegri aðstoð. Einnig verður sífellt dýrara að leita sér slíkrar aðstoðar í lögfræðilegum málum og að reka mál fyrir dómstólum. Mál þetta snýst því að verulegu leyti um það að allir séu jafnir fyrir lögum og hafi sömu möguleika á að leita réttar síns í þjóðfélaginu. Að öðrum kosti er hætta á að efnalítið fólk glati réttindum sem það hefur.
    Álitaefni sem tengjast löggjöf um lögfræðiaðstoð fyrir efnalítið fólk eru t.d. á hvaða réttarsviðum lögfræðiaðstoðin eigi að vera, hverjir og hvaða tekjuhópar eigi að njóta hennar, hverjir eiga að hafa á hendi ákvörðun og úrskurð í álitaefnum sem upp kunna að koma og hverjir eigi að veita þjónustuna. Í grein sem Gunnar Eydal hdl. og Ragnar Aðalsteinsson hdl. skrifa í Úlfljót (32. árg., 3. tbl., 1979) kemur fram að við úrlausn þessa máls þurfi að skoða eftirfarandi:
     a.      Hverjir skulu eiga rétt til slíkrar lögfræðiaðstoðar og hversu mikil á hún að vera.
     b.      Hvaða aðili á að ákveða hverjir skuli eiga rétt til aðstoðar.
     c.      Á hvaða réttarsviðum á að veita aðstoðina.
     d.      Hverjir eiga að veita lögfræðiþjónustuna.
    Flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu telur framangreint helstu viðfangsefni sem taka þurfi á í löggjöf um lögfræðiaðstoð fyrir efnalítið fólk. Í tilvitnaðri grein Gunnars Eydal og Ragnars Aðalsteinssonar koma fram afar fróðlegar upplýsingar um stöðu þessara mála annars staðar á Norðurlöndum og í Bretlandi. Þar kemur m.a. fram að í Noregi er langalgengast eða í tæplega 59% allra tilvika að leitað sé eftir lögfræðiaðstoð fyrir efnalítið fólk í hjúskaparmálefnum en næstalgengust eru erfðamál.
    Athyglisvert er að Ísland sker sig nokkuð úr varðandi löggjöf um lögfræðiaðstoð við efnalítið fólk, en í flestum nágrannaríkja okkar er að finna reglur og löggjöf um réttaraðstoð við tekjulítið fólk og lögfræðiaðstoð við almenning. Á Norðurlöndum og í Bretlandi hafa slíkar reglur verið í gildi í 30–40 ár. Aðstoðin er að öllu jöfnu tekju- og eignatengd, en mörkin eru mismunandi eftir ríkjum. Auk þess er ekki óalgengt að þeir sem leita sér þessarar aðstoðar taki einhvern þátt í kostnaðinum. Mismunandi er hver annast þjónustuna, og virðist það ýmist vera ríkisvald eða ríki og sveitarfélög sameiginlega. Einnig er það breytilegt eftir löndum hvort lögfræðiaðstoðin er veitt af sjálfstætt starfandi lögmönnum gegn greiðslu frá hinu opinbera eða af sérstökum skrifstofum hins opinbera þar sem lögmenn starfa á föstum launum.
    Réttaraðstoðin er oft takmörkuð við ákveðna málaflokka, en algengustu málaflokkar sem óskað er aðstoðar við eru sifja- og erfðamál. Í Danmörku nær lögfræðiaðstoðin til eftirtalinna málaflokka:
     a.      persónu-, sifja- og erfðaréttarmálefna,
     b.      skaðabóta utan samninga,
     c.      vátryggingarmálefna,
     d.      lausaurakaupa eða samninga um verksleigu, þ.m.t. verk- og viðgerðarsamninga, þó ekki í atvinnuskyni,
     e.      leigu á íbúðarhúsnæði og ágreinings í sambandi við öflun íbúðarhúsnæðis,
     f.      vinnusamninga og orlofs,
     g.      mála sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum og kæra út af ákvörðunum þessara stjórnvalda.
    Einnig tekur aðstoðin til samningar umsókna um gjafsókn.
    Þótt ekki hafi verið sett lög hér á landi um lögfræðiaðstoð fyrir efnalítið fólk hefur lögfræðiaðstoð Orators og Lögmannafélags Íslands gegnt veigamiklu hlutverki í að aðstoða fólk í lögfræðilegum málefnum og við að leita réttar síns. Einnig ber að geta þess að ýmis önnur félagasamtök hafa verið með lögfræðilega leiðbeiningarþjónustu fyrir félagsmenn sína. Slík aðstoð kemur þó aldrei í stað þeirrar lögfræðiaðstoðar sem efnalítið fólk hefur áratugum saman átt rétt á í nágrannaríkjum okkar enda felst þjónusta þessara félaga fyrst og fremst í ráðgjöf um réttarstöðu þeirra sem þangað og hugsanlega framvindu máls þeirra. Ef frekari aðstoðar er þörf verður viðkomandi að leita annað og þá greiða fyrir þá þjónustu.
    Þá er í lögum um meðferð einkamála að finna ákvæði um gjafsóknarheimildir. Samkvæmt þeim getur gjafsóknarnefnd mælt með því að gjafsókn verði veitt að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í fyrsta lagi verður málstaður umsækjanda gjafsóknar að gefa nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarna en auk þess verður að fullnægja skilyrðum um annaðhvort efnahag eða hagsmuni umsækjanda. Við mat á efnahag er höfð hliðsjón af skattleysismörkum tekju- og eignarskatts á hverjum tíma en einnig er litið til tekna maka eða sambúðarmanns, framfærslubyrðar, vaxtagjalda af skuldum vegna eigin íbúðar umsækjanda, fjármagnstekna o.fl. Þannig fer fram heildstætt mat á efnahag umsækjanda. Samkvæmt tölfræðilegum upplýsingum frá gjafsóknarnefnd bárust nefndinni 2.534 umsóknir á árunum 1992–2001 og mælti nefndin með 1.687 þeirra eða um 66,6%. Í 1.155 tilvikum taldi nefndin að skilyrðum um efnahag væri fullnægt.
    Ljóst er að með flóknara þjóðfélagi og flóknara réttarkerfi verður sífellt erfiðara fyrir efnalítið fólk að leita réttar síns. Það er markmið þessarar tillögu að fela stjórnvöldum að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga á haustþingi 2004 sem tryggi að efnalítið fólk hér á landi eigi rétt á sambærilegri lögfræðiaðstoð og tíðkast hjá helstu nágrannaþjóðum okkar.