Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 578. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 870  —  578. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rannsókn á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon.



     Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta fara fram rannsókn á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu og hernaðarumsvifa á Íslandi og hættum sem eru núverandi hernaðarumsvifum samfara. Einnig verði gerð úttekt á lagalegum álitaefnum þessu tengdum.
    Rannsókn beinist sérstaklega að eftirfarandi þáttum:
     1.      grunnvatnsmengun,
     2.      jarðvegsmengun,
     3.      frágangi spilliefna og sorphauga,
     4.      umhverfishættu sem stafar af núverandi hernaðarumsvifum,
     5.      réttarfarslegum hliðum málsins varðandi skaðabótaskyldu erlendra og/eða íslenskra stjórnvalda gagnvart landeigendum í þeim tilfellum sem mengun hefur orðið og skyldu þeirra til að hreinsa menguð svæði.
    Jafnframt verði reynt að áætla kostnað við hreinsun þeirra svæða sem mengast hafa.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 125. þingi en varð þá ekki útrædd. Aðstæður eru í aðalatriðum óbreyttar frá því sem þá var hvað efni tillögunnar snertir og er hún því endurflutt nú ásamt upphaflegri greinargerð að stofni til en bætt er inn nokkrum upplýsingum um þróun mála að undanförnu.
    Brýnt er að fram fari almenn úttekt á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu á Íslandi. Allt frá árinu 1985 hefur það legið fyrir með óyggjandi hætti að mikil grunnvatnsmengun hefur orðið á Miðnesheiði og náð til bæði Keflavíkur og Njarðvíkur. Á þessum slóðum er berggrunnurinn úr grágrýti sem gleypir auðveldlega í sig vatn og aðra vökva. Mengunin stafar aðallega af þrenns konar efnum: klórkolvetnissamböndum, olíum og nítrötum. Rannsóknir leiddu á sínum tíma í ljós víðtæka mengun á þessu svæði, m.a. í vatni af völdum TCE (tríklóretýlen) og PCE (tetraklóretýlen). Vitneskja um þessa mengun varð til þess að ráðist var í gerð nýs vatnsbóls fyrir Keflavík, Njarðvík og flugvallarsvæðið svo fljótt sem auðið varð. Þá hafa af og til orðið olíuslys á Nikkelsvæðinu svokallaða og hreinsunaraðgerðir ekki borið tilætlaðan árangur. Staða mála á Nikkelsvæðinu, sem er eins og kunnugt er beint fyrir ofan byggðina í Reykjanesbæ, er sú að farið hefur fram hreinsun á jarðvegi og lausum efnum á yfirborði en mikil mengun situr eftir í föstum jarðlögum og grunnvatni. Skipulagsmál svæðisins eru enn þá í nokkurri óvissu vegna mengunar og reyndar einnig nálægðar við Keflavíkurflugvöll og hávaða sem þaðan stafar. Þessu til viðbótar má nefna að um ríflega 20 ára skeið var efnasambandið urea notað til afísingar á Keflavíkurflugvelli. Alls munu um 10–15 þúsund tonn af því hafa sigið niður í grunnvatnið og valdið þar nítratmengun, m.a. í tveimur vatnsbólum á vallarsvæðinu.
    Árið 1991 var staðfest mikil mengun frá ratsjárstöðinni á Heiðarfjalli í landi Eiðis. Kröfum landeigenda á hendur bandaríska hernum var vísað frá af sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi á grundvelli samnings frá 30. júní 1970, sem gerður var af ríkisstjórn Íslands og Bandaríkjahers, svokallaðs „Memorandum of understanding“. Sama gerði þáverandi flotaforingi á Keflavíkurflugvelli, Thomas F. Hall. Landeigendur við Heiðarfjall, sveitarfélagið Þórshafnarhreppur, heilbrigðisyfirvöld og fleiri aðilar hafa árum saman reynt að fá stjórnvöld, bæði íslensk og bandarísk til að sinna málinu en öllu slíku er drepið á dreif. Erfitt hefur reynst að fá málið tekið fyrir af dómstólum og svo virðist sem áðurnefndur samningur ríkisstjórnar Íslands við bandaríkjaher og viðhorf íslenskra stjórnvalda, einkum utanríkisráðuneytisins, geri það að verkum að enginn telji sig bera ábyrgð á ástandinu. Niðurstaðan er að úrgangur og sorp sem urðað var í miklu magni heldur áfram að liggja í leyfisleysi á landi í einkaeigu og hvorki landeigendur né viðkomandi sveitarfélag fá rönd við reist enn sem komið er.
    Á Straumnesfjalli standa mikil mannvirki auð og hafa verið í niðurníðslu frá því að þar var starfrækt ratsjárstöð. Við ratsjárstöðina á Bolafjalli sem tók við hlutverki stöðvarinnar á Straumnesfjalli hafa orðið mengunarslys, sbr. alvarlegan olíuleka sem varð haustið 1989. Þá er ljóst að frágangur sorphauga á svæði ratsjárstöðvarinnar á Stokksnesi er algjörlega ófullnægjandi og ekki liggur fyrir hverjum ber að fjarlægja þau mannvirki sem þar hafa verið yfirgefin. Loks má nefna að ratsjárstöðin á Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi stendur upp af vatnsbóli Þórshafnar og kom til deilna milli heilbrigðisyfirvalda og forsvarsmanna stöðvarinnar um það mál á sínum tíma.
    Víða erlendis hefur Bandaríkjaher ráðist í umfangsmiklar aðgerðir til að hreinsa athafnasvæði sín með ærnum tilkostnaði. Svo dæmi sé tekið var u.þ.b. 90 milljörðum ísl. kr. varið til slíkra verkefna árið 1992 á verðlagi þess árs. Mengun af því tagi sem orðið hefur hér á landi hefur einnig verið staðfest í Þýskalandi, Suður-Kóreu, á Filippseyjum og eyjunni Guam. Nýlega hófust kanadísk yfirvöld handa um að fjarlægja þúsundir tonna af menguðum jarðvegi frá Resolution-eyju syðst á Baffinslandi í Núnavút. Þar er um að ræða yfirgefna herstöð sem þjónaði sambærilegu hlutverki og herstöðin á Heiðarfjalli í ratsjárkeðju bandaríkjahers. Stöðin á Resolution-eyju var byggð og yfirgefin um svipað leyti og Heiðarfjallsstöðin og ætla má að reksturinn, þar með talið hvers kyns efnanotkun, hafi verið mjög sambærilegur.
    Fyrir liggur að hreinsunaraðgerðir á þeim svæðum sem vitað er að hafa orðið fyrir mengun hér á landi yrðu gríðarlega kostnaðarsamar. Af þeim sökum er brýnt að fá úr því skorið hvaða aðili beri ábyrgð á slíku hreinsunarstarfi og kostnaðinum við það. Sama máli gegnir um ábyrgð og skaðabótaskyldu vegna hugsanlegra mengunarslysa í tengslum við hernaðarumsvif í framtíðinni.
    Þessum málum hefur nokkrum sinnum áður verið hreyft á Alþingi, þar á meðal af Sigríði Jóhannesdóttur með þingsályktunartillögu um rannsókn á jarðvegi og grunnvatni við varnarsvæðin á Suðurnesjum sem flutt var á 115. löggjafarþingi (þskj. 738) og endurflutt á 121. löggjafarþingi (þskj. 909).