Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 425. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 871  —  425. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Arnbjargar Sveinsdóttur um skilgreiningar á friðlýstum svæðum.

     1.      Hverjar eru alþjóðlegar skilgreiningar á friðlýstum svæðum?
    Alþjóðlegar skilgreiningar á friðlýstum svæðum hafa verið mótaðar á vettvangi alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN og hafa verið í þróun um áratuga skeið. Frá því 1959 hafa samtökin séð um að vinna skrá Sameinuðu þjóðanna yfir friðlýst svæði í heiminum og var fyrsta skráin birt árið 1962. Skráin er endurnýjuð á nokkurra ára fresti og er nýjasta skráin frá 2003. Þegar farið var að vinna fyrst við skrána kom í ljós mikið ósamræmi í flokkun og skilgreiningu friðlýstra svæða eftir heimshlutum og milli landa. Samtökin fólu því fastanefnd samtakanna um friðlýst svæði og þjóðgarða, World Commission on Protected Areas (sem þá hét Commission on National Parks and Protected Areas), að setja upp alþjóðlegt flokkunarkerfi fyrir friðlýst svæði og voru drög að slíkri flokkun kynnt árið 1973. Drögin urðu síðar grunnur að kerfi yfir flokkun, markmiðslýsingu og skilgreiningu friðlýstra svæða sem samtökin samþykktu árið 1978. Þar voru friðlýst svæði flokkuð í 10 flokka og hefur kerfið verið notað víða um heim og verið fyrirmynd að löggjöf nokkurra ríkja á þessu sviði. Árið 1997 var flokkunarkerfið endurskoðað og einfaldað og skiptist það nú sex flokka.
    Skilgreining alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna á friðuðu svæði frá IV. heimsþingi um friðlýst svæði árið 1994 er lögð til grundvallar við mat á því hvort svæði falla innan flokkunarkerfisins en hún hljóðar svo: „Land eða hafsvæði sérstaklega ætlað til verndar og viðhalds líffræðilegri fjölbreytni og náttúruauðlindum ásamt menningu sem því tengist og er stýrt með löggjöf eða á annan haldbæran máta.“
    Skilgreiningin er opin enda er henni ætlað að ná yfir alla friðlýsingarflokkana. Þeir sex friðlýsingarflokkar sem IUCN tók upp við endurskoðun flokkunarkerfisins árið 1997 eru eftirfarandi:

Flokkur Friðun/Verndun Tegund friðlýsingar
I Ströng friðun a. Friðland b. Friðlýst víðerni
II Verndun vistkerfa og útivist Þjóðgarður
III Verndun sérstæðra náttúruminja Náttúruvætti
IV Verndun tegunda og vistgerða Búsvæðis- og tegundaverndarsvæði
V Verndun landslags eða hafsvæðis og útivist Landslagsverndarsvæði
VI Sjálfbær nýting náttúrulegs vistkerfis Verndað landnýtingarsvæði

Nánari flokkun er sem hér segir:

I. flokkur    Algert náttúrufriðland/friðlýstar óbyggðir: Verndað svæði sem stjórnað er vegna vísindalegs gildis eða til verndar óbyggðum.

I. flokkur a
    Algert náttúrufriðland: Verndað svæði sem stjórnað er vegna vísindalegs gildis.
Skilgreining: Svæði til lands og/eða sjávar með sérstökum eða einkennandi vistkerfum, jarðfræðilegum eða lífeðlislegum einkennum og/eða tegundum sem nota má fyrst og fremst til vísindarannsókna og/eða vöktunar umhverfisins.

I. flokkur b    Friðlýst víðerni/óbyggðir: Svæði sem stjórnað er einkum til verndar óbyggðum – Friðlönd.
Skilgreining: Stórt svæði til lands og/eða sjávar sem nýtur verndar, óbreytt eða lítið breytt, með náttúrulegum einkennum sínum og áhrifum án varanlegrar eða umtalsverðrar búsetu og stjórnað er til að náttúrulegt horf þess varðveitist.

II. flokkur    Þjóðgarður: Friðlýst svæði einkum til verndar vistkerfum og til útivistar.
Skilgreining: Friðlýst náttúrulegt svæði til lands og/eða sjávar þar sem a) verndaðar eru vistfræðilegar heildir eins eða fleiri vistkerfa fyrir núlifandi og komandi kynslóðir, b) komið er í veg fyrir nýtingu eða búsetu sem gengur gegn tilgangi friðunar svæðisins og c) sköpuð eru skilyrði til að sinna megi vísindum, menntun, útivist og þörfum gesta sem samræmist umhverfi og menningararfi.

III. flokkur    Náttúruminjar: Verndað svæði sem stjórnað er til varðveislu tiltekinna afmarkaðra náttúrulegra fyrirbæra.
Skilgreining: Svæði þar sem er að finna eitt eða fleiri tiltekin náttúruleg eða menningarleg einkenni sem eru sérstaklega eða einstaklega mikilvæg vegna fágætis síns, einkennandi vegna fagurfræðilegra eiginleika eða menningarlegs mikilvægis.

IV. flokkur    Búsvæði og tegundir: Friðlýst svæði sem stjórnað er einkum til verndar tegundum, búsvæðum og vistgerðum.
Skilgreining: Svæði til lands og/eða sjávar þar sem beitt er virkri íhlutun við stjórnun í þeim tilgangi að tryggja viðhald búsvæða eða til að uppfylla þarfir tiltekinna tegunda.

V. flokkur        Verndað landslag/sjávarsvæði: Friðað svæði sem stjórnað er einkum til varðveislu landslags eða sjávarsvæðis og fyrir tómstundaiðkun.
Skilgreining: Landsvæði, ásamt strönd eða sjó eftir því sem við á, þar sem samskipti manns og náttúru í gegnum tíðina hafa gert svæðið sérstætt, fagurfræðilega, vistfræðilega og/eða menningarlega, og gjarnan með mjög fjölbreyttu lífríki. Varðveisla þessara hefðbundnu samskipta í heild sinni er nauðsynleg fyrir verndun, viðhald og þróun slíks svæðis.

VI. flokkur    Sjálfbær nýting náttúrulegs vistkerfis: Verndað svæði sem stjórnað er einkum fyrir sjálfbæra nýtingu náttúrulegra vistkerfa.
Skilgreining: Svæði, að mestum hluta lítt snortin náttúruleg kerfi, sem stjórnað er til að tryggja verndun og viðhald líffræðilegrar fjölbreytni til langs tíma, þar sem um leið er séð fyrir sjálfbæru framboði náttúrulegra afurða og þjónustu vistkerfa til að fullnægja þörfum samfélagsins.

Nánari útlistun byggist á tilgangi friðlýsinga og stjórnunarlegum markmiðum friðlýsingar, sbr. eftirfarandi markmið:
          Vísindarannsóknir.
          Vernd náttúrulegra svæða/víðerna.
          Varðveisla tegunda og erfðafjölbreytileika.
          Viðhald auðlinda umhverfisins.
          Vernd tiltekinna náttúru- og menningarminja.
          Ferðamennska og útivist.
          Fræðsla.
          Sjálfbær nýting úr náttúrulegum vistkerfum.
          Viðhald hefða/menningar.
    Sambandið milli markmiða friðlýsingar og flokkunarkerfisins skýrist best með eftirfarandi töflu þar sem markmiðum er gefið mismikið vægi eftir friðlýsingarflokkum.
    Markmið með friðlýsingu svæða (bæði land- og hafsvæða) og gildi þeirra eftir friðlýsingarflokkum:

Markmið Ia Ib II III IV V VI
Vísindarannsóknir 1 3 2 2 2 2 3
Vernd náttúrulegra svæða/víðerna 2 1 2 3 3 2
Varðveisla tegunda og erfðafjölbreytileika 1 2 1 1 1 2 1
Viðhald auðlinda umhverfisins 2 1 1 1 2 1
Vernd tiltekinna náttúru- og menningarminja 2 1 3 1 3
Ferðamennska og útivist 2 1 1 3 1 3
Fræðsla 2 2 2 2 3
Sjálfbær nýting úr náttúrulegum vistkerfum 3 3 2 2 1
Viðhald hefða/menningar 1 2
1 = meginmarkmið, 2 = almenn markmið, 3 = möguleg markmið, – = á ekki við.

    Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin hafa bent á að flokkunarkerfið miðist við tilgang friðlýsingar og stjórnunarleg markmið friðunar og að röðun þeirra á friðlýstum svæðum í friðlýsingarflokka gefi eingöngu upplýsingar um þessi markmið en sé ekki ætlað að meta árangur í stjórnun eða rekstri viðkomandi svæða.

     2.      Í hvaða flokka alþjóðlegra skilgreininga falla friðlýst svæði á Íslandi?

I II III IV V VI Samtals
Þjóðgarðar 2 2
Friðlönd 2 1 20 10 33
Náttúruvætti 31 31
Fólkvangar 10 10
Sérlög 1 1 1 3
Alls 2 3 32 21 21 0 79
    
    Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin birta reglulega lista yfir skipun friðlýstra svæða í IUCN-flokkunarkerfið. Í nýjasta lista samtakanna sem gefinn var út 2003 eru flokkuð 79 friðlýst svæði á Íslandi. Þar eru tvö svæði, Eldey og Surtsey, í flokki I, þjóðgarðarnir þrír, Þingvellir, Skaftafell og Jökulsárgljúfur, eru í flokki II, en þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er ekki með á listanum. Þau náttúruvætti sem á listanum eru falla í flokk III, alls 31 svæði. Í IV. flokki eru flest friðlöndin, alls 20, en auk þess er eitt svæði sem friðað er með sérlögum í þessum flokki, þ.e. Breiðafjörður. Þau svæði sem eftir eru falla í flokk V, þ.e. 10 friðlönd, 10 fólkvangar og Mývatns- og Laxársvæðið sem friðað er með sérlögum. Þess má geta að nýjustu friðlýstu svæðin hafa ekki verið metin inn á lista IUCN og því er ekki hægt að gera grein fyrir því hvar þau verða flokkuð þótt leiða megi líkum að því hvernig þau gætu flokkast.

     3.      Hverjar eru íslenskar skilgreiningar á friðlýstum svæðum?
    Fjallað er um friðlýstar náttúruminjar í VII. kafla laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, og skiptast þær í fimm flokka og er lýst á eftirfarandi hátt í lögunum:
    A. Þjóðgarðar. Svæði sem er sérstætt um landslag eða lífríki eða á því hvílir söguleg helgi þannig að ástæða er til að varðveita það með náttúrufari sínu og leyfa almenningi aðgang að því eftir tilteknum reglum.
    B. Friðlönd. Landsvæði sem mikilvægt er að varðveita sakir sérstaks landslags eða lífríkis.
    C. Náttúruvætti á landi og í hafi. Náttúrumyndanir, svo sem fossar, eldstöðvar, hellar og drangar, svo og fundarstaðir steingervinga, sjaldgæfra steintegunda og steinda, sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis þeirra, fegurðar eða sérkenna. Einnig náttúruminjar í hafi, þ.m.t. eyjar og sker, og á hafsbotni sem mikilvægt þykir að varðveita sakir fegurðar eða sérkenna eða miklu skiptir frá vísindalegu, náttúrufræðilegu eða menningarlegu sjónarmiði að ekki sé raskað.
    D. Fólkvangar. Landsvæði, sem ætlað er til útivistar og almenningsnota
    E. Friðlýstar lífverur, búsvæði, vistgerðir og vistkerfi. Lífverur, búsvæði þeirra, vistgerðir og vistkerfi sem miklu skiptir frá vísindalegu, náttúrufræðilegu eða öðru menningarlegu sjónarmiði að ekki sé raskað, fækkað eða útrýmt.

     4.      Í hvaða flokka íslenskra skilgreininga falla friðlýst svæði á Íslandi?
    Svæði sem friðlýst hafa verið á grundvelli laga um náttúruvernd eða með sérstökum lögum eru alls 90, þar af eru 87 svæði friðuð á grundvelli náttúruverndarlaganna en þrjú á grundvelli sérlaga sem eru lög nr. 59/1928, um friðun Þingvalla, lög nr. 36/1974, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, og lög nr. 54/1995, um vernd Breiðafjarðar. Skipting svæðanna eftir skilgreiningum er eftirfarandi:

Þjóðgarðar 3
Friðlönd 36
Náttúruvætti 34
Fólkvangar 13
Búsvæðavernd 1
Sérlög 3